Hoppa yfir valmynd

Mál nr. 240/2016

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 240/2016

Miðvikudaginn 5. október 2016

A

gegn

Tryggingastofnun ríkisins

 

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Rakel Þorsteinsdóttir lögfræðingur, Eggert Óskarsson lögfræðingur og Eva Dís Pálmadóttir lögfræðingur.

Með kæru, dags. 4. júní 2016, kærði A, til úrskurðarnefndar velferðarmála synjun Tryggingastofnunar ríkisins, dags. 18. mars 2016, um greiðslu heimilisuppbótar.

I.  Málsatvik og málsmeðferð

Með tölvubréfi, dags. 7. mars 2016, óskaði kærandi eftir því að Tryggingastofnun ríkisins endurskoðaði synjun um heimilisuppbót, dags. 13. október 2015. Með bréfi, dags. 18. mars 2016, var kæranda synjað um greiðslu heimilisuppbótar þar sem leigusali og leigutaki væru báðir með skráð lögheimili á B.

Kæra barst úrskurðarnefnd velferðarmála þann 24. júní 2016. Með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 18. júlí 2016, var kæranda tilkynnt um að kæra hefði borist að liðnum kærufresti og var honum gefinn kostur á að koma að athugasemdum og/eða gögnum, teldi hann að skilyrði sem fram kæmu í 1. mgr. 28. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 gætu átt við í máli hans. Þá var ítrekun send með tölvubréfi þann 12. september 2016. Með tölvubréfi, dags. 14. september 2016, bárust athugasemdir frá C félagsráðgjafa. Með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 21. september 2016, var óskað eftir að lagt yrði fram læknisvottorð eða önnur læknisfræðileg gögn þar sem greint væri frá veikindum kæranda á tímabilinu frá 18. mars til 24. júní 2016. Gögn bárust með bréfi, mótteknu 28. september 2016.

II.  Sjónarmið kæranda

Í kæru er óskað eftir að umsókn kæranda um heimilisuppbót sé endurskoðuð. Þess er óskað að  tekið verði tillit til félagslegra aðstæðna kæranda og að hann fái greidda heimilisuppbót aftur í tímann.

Í greinargerð C félagsráðgjafa kemur fram að hún hafi aðstoðað kæranda í veikindum hans. Hann hafi lagst inn á deild 32A á Landspítalanum í apríl 2015 vegna geðræns vanda. Upphaf veikinda kæranda megi líklega rekja nokkur ár aftur í tímann en árið X hafi hann veikst alvarlega af geðhvarfasýki sem þá hafi verið ógreind. Hann hafi í kjölfarið orðið óvinnufær og sé enn. Endurhæfing hafi byrjað fljótlega sem meðal annars hafi falist í lyfja- og viðtalsmeðferð. Í framhaldinu hafi kærandi tengst starfshæfingu VIRK og fengið samþykktan endurhæfingarlífeyri hjá Tryggingastofnun í kjölfarið. Endurhæfing hafi ekki gengið sem skyldi og þar hafi félagslegar aðstæður eins og réttindamál og fjárhagsstaða ekki verið hjálplegir þættir í ferlinu. Þar sem VIRK hafi vísað kæranda frá þar sem hann sé ekki talinn starfsendurhæfingartækur hafi verið óskað eftir örorkulífeyri hjá Tryggingastofnun ríkisins.

Kærandi hafi verið húsnæðislaus þegar hann hafi veikst í fyrra og hann hafi verið í húsnæðishrakningum um tíma. Að lokum hafi hann fundið íbúð til leigu og fengið aðstoð félagsþjónustunnar vegna fyrirframgreiðslu á leigu og tryggingu. Í framhaldinu hafi verið óskað eftir greiðslum frá Tryggingastofnun vegna heimilisuppbótar þar sem kærandi búi einn. Þeirri umsókn hafi verið synjað af Tryggingastofnun á þeirri forsendu að leigusali sé með lögheimili skráð í íbúðinni. Leitað hafi verið eftir aðstoð hjá Tryggingastofnun með leiðir til þess að leysa málið og óskað hafi verið eftir staðfestingu frá leigusala um að hann búi erlendis. Það hafi verið gert og erindinu hafi formlega verið synjað hjá Tryggingastofnun ríkisins með bréfi, dags. 18. mars 2016.

Í 8. gr. laga nr. 99/2007 um félagslega aðstoð komi fram að einstaklingur geti sótt um heimilisuppbót ef hann er einn um rekstur heimilis. Hvergi í þeim lögum sé minnst á lögheimilisskráningu. Til upplýsinga megi nefna að Reykjavíkurborg hafi einnig sett þau skilyrði hvað varði greiðslur á sérstökum húsaleigubótum að einstaklingur þurfi meðal annars að vera einn um heimili og hafi kærandi fengið samþykktar greiðslur frá Reykjavíkurborg vegna þessa.

III.  Niðurstaða

Kærð er synjun Tryggingastofnunar ríkisins, dags. 18. mars 2016, um greiðslu heimilisuppbótar til kæranda.

Samkvæmt 2. mgr. 13. gr. laga nr. 100/2007 um almannatryggingar, með síðari breytingum, sbr. 5. gr. laga nr. 85/2015 um úrskurðarnefnd velferðarmála, skal kæra til úrskurðarnefndar velferðarmála vera skrifleg og skal hún borin fram innan þriggja mánaða frá því aðila máls var tilkynnt um ákvörðun.

Samkvæmt gögnum málsins liðu þrír mánuðir og sex dagar frá því að kæranda var tilkynnt um ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins þann 18. mars 2016 þar til kæra barst úrskurðarnefndinni þann 24. júní 2016. Kærufrestur samkvæmt 2. mgr. 13. gr. laga um almannatryggingar og 5. gr. laga um úrskurðanefnd velferðarmála var því liðinn þegar kæra barst nefndinni.

Í 5. mgr. 7. gr. laga um úrskurðarnefnd velferðarmála er vísað til þess að um málsmeðferð, sem ekki er kveðið á um í lögunum, fari samkvæmt ákvæðum stjórnsýslulaga og ákvæðum laga sem málskotsréttur til nefndarinnar byggist á hverju sinni.

Í 28. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 segir:

„Hafi kæra borist að liðnum kærufresti skal vísa henni frá nema:

  1. afsakanlegt verði talið að kæran hafi ekki borist fyrr, eða

  2. veigamiklar ástæður mæla með því að kæran verði tekin til meðferðar.

Kæru skal þó ekki sinnt ef meira en ár er liðið frá því að ákvörðun var tilkynnt aðila.“

Með vísan til þessa er nauðsynlegt að taka til skoðunar hvort fyrir hendi séu atriði sem hafa þýðingu við mat á því hvort afsakanlegt verði talið að kæran hafi borist að liðnum kærufresti eða hvort veigamiklar ástæður mæli með því að kæran verði tekin til meðferðar, sbr. 1. mgr. 28. gr. stjórnsýslulaga, en ákvæðið mælir fyrir um skyldubundið mat stjórnvalds á því hvort atvik séu með þeim hætti að rétt sé að taka stjórnsýslukæru til efnislegrar meðferðar, þrátt fyrir að lögbundinn kærufrestur sé liðinn.

Fyrir liggur að í hinni kærðu ákvörðun frá 18. mars 2016 var kæranda leiðbeint um kæruheimild til úrskurðarnefndarinnar og um tímalengd kærufrests. Með bréfi úrskurðarnefndar velferðarmála, dags. 18. júlí 2016, sem ítrekað var með bréfi, dags. 12. september 2016, var kæranda veittur kostur á að koma að athugasemdum og/eða gögnum teldi hann að skilyrði sem fram kæmu í 1. mgr. 28. gr. stjórnsýslulaga gætu átt við í máli hans. Í tölvubréfi C, dags. 14. september 2016, er greint frá ástæðum þess að kæra hafi borist að liðnum kærufresti. Fram kemur að kærandi hafi sjálfur ætlað að koma með gögnin til úrskurðarnefndarinnar eftir að búið hafi verið að ganga frá þeim en honum hafi ekki tekist það í tæka tíð og fresturinn hafi runnið út. Ástæðuna megi rekja til niðursveiflu kæranda í veikindunum en hann hafi ekki treyst sér út meðal fólks um tíma. Úrskurðarnefndin óskaði eftir því með bréfi, dags. 21. september 2016, að kærandi legði fram læknisvottorð eða önnur læknisfræðileg gögn þar sem greint væri frá veikindum hans á tímabilinu 18. mars 2016 til 24. júní 2016. Læknisvottorð D geðlæknis, dags. 26. september 2016, barst úrskurðarnefndinni þann 28. september 2016, en þar segir: „Það vottast hér með að viðkomandi er haldinn geðhvarfasjúkdómi og var þunglyndur tímabilið 18. mars til 24. júní sl. sem dregið hefur úr framkvæmdafærni hans og þreki.“

Að mati úrskurðarnefndar velferðarmála gefa gögn málsins, þar með talið læknisvottorð D, ekki til kynna að kærandi hafi verið ófær um að kæra ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins innan kærufrests. Í ljósi þess telur úrskurðarnefndin að ekki hafi verið afsakanlegt að kæra hafi ekki borist fyrr. Þá verður heldur ekki séð að veigamiklar ástæður mæli með því að kæran verði tekin til meðferðar.

Með hliðsjón af framangreindu er kæru vísað frá úrskurðarnefnd velferðarmála, sbr. 1. mgr. 28. gr. laga nr. 37/1993.  

Úrskurðarnefnd velferðarmála telur rétt að benda kæranda á að hann geti sótt um heimilisuppbót að nýju hjá Tryggingastofnun og verði umsókninni synjað geti kærandi kært þá niðurstöðu til úrskurðarnefndarinnar innan kærufrests.

 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Kæru A, er vísað frá úrskurðarnefnd velferðarmála.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

Rakel Þorsteinsdóttir

 

 

 

 

 

 

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta