Mál nr. 63/2015
Úrskurðarnefnd velferðarmála
Mál nr. 63/2015
Fimmtudaginn 7. apríl 2016
A
gegn
Íbúðalánasjóði
Ú R S K U R Ð U R
Mál þetta úrskurða Kári Gunndórsson lögfræðingur, Agnar Bragi Bragason lögfræðingur og Eva Dís Pálmadóttir lögfræðingur.
Með kæru, dags. 10. nóvember 2015, kærir A til úrskurðarnefndar félagsþjónustu og húsnæðismála, synjun Íbúðalánasjóðs, dags. 26. október 2015, á beiðni hennar um niðurfellingu láns.
Þann 1. janúar 2016 tóku gildi lög nr. 85/2015 um úrskurðarnefnd velferðarmála og tók nefndin yfir frá þeim tíma þau mál sem áður voru til meðferðar hjá úrskurðarnefnd félagsþjónustu og húsnæðismála, þ.m.t. mál kæranda, sbr. 1. gr. laga nr. 85/2015 og 42. gr. laga nr. 44/1998 um húsnæðismál.
I. Málavextir og málsmeðferð
Málavextir eru þeir að kærandi óskaði eftir niðurfellingu láns nr. X hjá Íbúðalánasjóði sem tryggt er með veði í fasteigninni B á C. Með ákvörðun Íbúðalánasjóðs, dags. 26. október 2015, var beiðni kæranda synjað á þeirri forsendu að lagaheimild skorti til að verða við beiðninni.
Kærandi lagði fram kæru hjá úrskurðarnefnd félagsþjónustu og húsnæðismála 10. nóvember 2015. Með bréfi, dags. 17. nóvember 2015, óskaði úrskurðarnefndin eftir afstöðu Íbúðalánasjóðs til málsins, upplýsingum um meðferð þess hjá sjóðnum og öllum gögnum. Afstaða Íbúðalánasjóðs barst með bréfi, dags. 30. nóvember 2015. Með bréfi úrskurðarnefndarinnar, dags. 7. desember 2015, var bréf Íbúðalánasjóðs sent kæranda til kynningar. Frekari athugasemdir bárust ekki.
II. Málsástæður kæranda
Í kæru kemur fram að kærð sé ákvörðun Íbúðalánasjóðs um að kærandi hafi ekki fengið niðurfellt lán sem hvíldi á lánsveði. Skilja verður kæru þannig að þess sé krafist að ákvörðun Íbúðalánasjóðs, dags. 26. október 2015, um synjun á niðurfellingu láns, verði felld úr gildi.
Kærandi greinir frá því að hún hafi óskað eftir niðurfellingu láns hjá Íbúðalánasjóði sem hvílt hafi á fasteign móður hennar frá árinu 2008. Lánið hafi áður hvílt á fasteign kæranda sem hafi eyðilagst í jarðskjálfta, en mat hússins hafi ekki dugað fyrir áhvílandi skuldum. Lánið hafi því verið flutt yfir á fasteign móður kæranda en hún hafi ekki gengist undir greiðslumat, eins og hefði átt að gera við veðflutninginn. Kærandi tekur fram að hún eigi engar eignir á Íslandi og komi ekki til með að eignast neitt þar á næstu árum og því hafi hún ekki tök á því að flytja lánið yfir á eigin eign.
III. Sjónarmið Íbúðalánasjóðs
Í greinargerð Íbúðalánasjóðs vegna málsins er greint frá því að í kjölfar jarðskjálfta á Suðurlandi vorið 2008 hafi stjórn sjóðsins samþykkt sérstakar reglur varðandi heimild Íbúðalánasjóð til að aðstoða þolendur náttúruhamfara. Reglurnar hafi verið staðfestar af ráðherra 6. júní 2008 og birtar í B-deild Stjórnartíðinda.
Hinn 7. ágúst 2008 hafi kærandi sótt um flutning láns af D á C, sem hafi skemmst í skjálftanum, yfir á B á C. Á grundvelli framangreindra reglna og ákvæða 32. gr. reglugerðar nr. 522/2004 um ÍLS-veðbréf og íbúðabréf hafi Íbúðalánasjóður samþykkt að flytja lánið með því skilyrði að það yrði flutt yfir á eign tjónþola innan árs frá útgáfu skjalsins. Að öðrum kosti yrði það gjaldfellt.
Í september 2015 hafi kærandi sótt um niðurfellingu lánsins en því hafi verið hafnað þar sem lagaheimild skorti. Kæranda hafi verið bent á að sækja um niðurfellingu lánsins á þeim grundvelli að fasteign hennar hefði eyðilagst, enda gæti hún sýnt fram á að bætur eða söluverð hefðu ekki dugað til greiðslu lánsins, sbr. 2. mgr. 47. gr. laga nr. 44/1998 um húsnæðismál. Þar sem um viðbótarlán væri að ræða væri slík afskrift bundin samþykki varasjóðs viðbótarlána. Þá tekur Íbúðalánasjóður fram að lán kæranda hafi ekki verið gjaldfellt og sé í skilum.
IV. Niðurstaða
Í málinu er ágreiningur um hvort Íbúðalánasjóði hafi borið að samþykkja beiðni kæranda um niðurfellingu láns nr. X sem tryggt er með veði í fasteigninni B á C.
Um afskriftir veðkrafna Íbúðalánasjóðs fer eftir 47. gr. laga nr. 44/1998 um húsnæðismál. Samkvæmt 1. mgr. 47. gr. laganna er stjórn Íbúðalánasjóðs heimilt að afskrifa útistandandi veðkröfur sjóðsins sem glatað hafa veðtryggingu við nauðungarsölu íbúðar. Stjórn Íbúðalánasjóðs er einnig heimilt að afskrifa útistandandi veðkröfur sjóðsins þegar íbúð sem stóð að veði fyrir viðkomandi kröfu hefur eyðilagst af óviðráðanlegum orsökum og eigandi hennar hefur ekki fengið bætur eða bætur hafa ekki dugað til uppgreiðslu á áhvílandi kröfum, sbr. 2. mgr. 47. gr. Þá er Íbúðalánasjóði heimilt að semja við einstaklinga um niðurfellingu á hluta af skuldum þeirra við sjóðinn gegn greiðslu á eftirstöðvum vanskila, enda sé niðurfelling skulda liður í samræmdum aðgerðum kröfuhafa, þ.m.t. fjármálafyrirtækja, í tengslum við heildarendurskipulagningu á fjármálum viðkomandi eða í tengslum við afskrift útistandandi veðkrafna í samræmi við ákvæði laga nr. 63/1985 um greiðslujöfnun fasteignaveðlána til einstaklinga og ákvæði laga nr. 50/2009 um tímabundna greiðsluaðlögun fasteignaveðkrafna á íbúðarhúsnæði, sbr. 3. mgr. 47. gr. laga nr. 44/1998.
Í beiðni kæranda um niðurfellingu lánsins kemur fram að fasteign hennar, sem stóð upphaflega að veði fyrir láninu, hafi eyðilagst í jarðskjálfta í maí 2008. Jafnframt kemur þar fram að andvirði fasteignarinnar hafi ekki dugað til uppgjörs áhvílandi lána. Íbúðalánasjóður hefur vísað til þess að lagaheimild skorti fyrir niðurfellingu lánsins en bent á að kærandi geti hins vegar sótt um niðurfellingu á þeim grundvelli að fasteignin hafi eyðilagst af óviðráðanlegum orsökum, enda sýni hún fram á að bætur eða söluverð hafi ekki dugað til greiðslu lánsins. Að mati úrskurðarnefndar velferðarmála verður ekki annað séð en að kærandi hafi með erindi sínu til sjóðsins verið að óska eftir niðurfellingu á grundvelli 2. mgr. 47. gr. laga nr. 44/1998. Íbúðalánasjóður hefði því átt að beina umsókn kæranda í það ferli og óska eftir viðhlítandi gögnum frá kæranda áður en ákvörðun var tekin um að synja beiðni hennar.
Samkvæmt 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 hvílir sú skylda á stjórnvaldi að sjá til þess að eigin frumkvæði að mál séu nægjanlega upplýst áður en ákvörðun er tekin í því. Markmið rannsóknarreglunnar er að tryggja að stjórnvaldsákvarðanir verði bæði löglegar og réttar. Að mati úrskurðarnefndarinnar liggur fyrir að mál kæranda var ekki rannsakað nægilega áður en Íbúðalánasjóður tók ákvörðun í því. Vantaði frekari gögn eða skýrara erindi frá kæranda hefði Íbúðalánasjóði borið að leiðbeina kæranda þar um, sbr. leiðbeiningarskyldu 1. mgr. 7. gr. laga nr. 37/1993 og eftir atvikum koma erindi hennar áfram til varasjóðs viðbótarlána, sbr. 2. mgr. sömu lagagreinar. Að því virtu er það niðurstaða úrskurðarnefndarinnar að mál kæranda hafi ekki verið tækt til efnismeðferðar hjá Íbúðalánasjóði á grundvelli fyrirliggjandi gagna. Hin kærða ákvörðun er því felld úr gildi og lagt fyrir Íbúðalánasjóð að taka málið til nýrrar meðferðar.
Ú R S K U R Ð A R O R Ð
Ákvörðun Íbúðalánasjóðs, dags. 26. október 2015, vegna beiðni A um niðurfellingu láns er felld úr gildi og málinu vísað til sjóðsins til nýrrar meðferðar.
F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála
Kári Gunndórsson