Hoppa yfir valmynd

Mál nr. 66/2015

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 66/2015

Fimmtudaginn 14. apríl 2016

A

gegn

Reykjavíkurborg


Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Kári Gunndórsson lögfræðingur, Agnar Bragi Bragason lögfræðingur og Eva Dís Pálmadóttir lögfræðingur.

Með kæru, dags. 4. desember 2015, kærir A til úrskurðarnefndar félagsþjónustu og húsnæðismála, synjun Reykjavíkurborgar, dags. 18. nóvember 2015, vegna beiðni um greiðslu fyrir aukarými vegna fötlunar.

Þann 1. janúar 2016 tóku gildi lög nr. 85/2015 um úrskurðarnefnd velferðarmála og tók nefndin yfir frá þeim tíma þau mál sem áður voru til meðferðar hjá úrskurðarnefnd félagsþjónustu og húsnæðismála, þ.m.t. mál kæranda, sbr. 1. gr. laga nr. 85/2015 og 63. gr. laga nr. 40/1991 um félagsþjónustu sveitarfélaga.

I. Málavextir og málsmeðferð

Málavextir eru þeir að með erindi, dags. 26. júní 2015, óskaði kærandi eftir að Reykjavíkurborg myndi greiða leigu fyrir aukarými vegna fötlunar með vísan til 11. gr. reglugerðar nr. 1054/2010 um þjónustu við fatlað fólk á heimili sínu. Beiðni kæranda var synjað með bréfi Reykjavíkurborgar, dags. 22. júlí 2015, með þeim rökum að hann væri ekki búsettur í húsnæði sem væri í eigu eða á forræði Reykjavíkurborgar og því ekki í sértæku húsnæðisúrræði, sbr. b-lið 3. mgr. 11. gr. reglugerðar nr. 1054/2010. Kærandi áfrýjaði synjuninni til velferðarráðs sem tók málið fyrir á fundi sínum þann 18. nóvember 2015 og staðfesti synjunina.

Kærandi lagði fram kæru hjá úrskurðarnefnd félagsþjónustu og húsnæðismála þann 4. desember 2015. Með bréfi, dags. 14. desember 2015, óskaði úrskurðarnefndin eftir greinargerð Reykjavíkurborgar þar sem meðal annars kæmi fram rökstuðningur fyrir hinni kærðu ákvörðun. Greinargerð Reykjavíkurborgar barst með bréfi, dags. 21. desember 2015. Með bréfi úrskurðarnefndarinnar, dags. 30. desember 2015, var greinargerðin send kæranda til kynningar. Athugasemdir bárust frá kæranda með bréfi, dags. 11. janúar 2016.

II. Málsástæður kæranda

Kærandi gerir ekki kröfu í málinu en skilja verður kæru hans þannig að þess sé krafist að ákvörðun Reykjavíkurborgar um synjun á umsókn hans um greiðslu fyrir aukarými vegna fötlunar verði felld úr gildi.

Kærandi greinir frá því að hann sé búsettur í fasteign á vegum Brynju, hússjóði Öryrkjabandalagsins, sem hafi verið aðlöguð að hans þörfum vegna fötlunar. Hann þurfi hins vegar auka herbergi til að geyma hjálpartæki og aðstöðu fyrir aðstoðarfólk sitt. Kærandi tekur fram að hann hafi ekki kost á annarri fasteign.

III. Sjónarmið Reykjavíkurborgar

Í greinargerð Reykjavíkurborgar er greint frá aðstæðum kæranda. Tekið er fram að hann sé búsettur í þriggja herbergja íbúð en í henni sé rými umfram það sem almennt er í fjölbýlishúsum sem sé nauðsynlegt vegna fötlunar hans. Íbúðin hafi verið aðlöguð að hans þörfum, meðal annars með því að breikka dyr, breyta eldhúsi og baðherbergi.

Samkvæmt 1. mgr. 11. gr. reglugerðar nr. 1054/2010 um þjónustu við fatlað fólk á heimili sínu skal gerður húsaleigusamningur um afnot þegar þjónustuaðili tryggir fötluðu fólki húsnæðisúrræði. Í b-lið 3. mgr. 11. gr. kemur fram að kostnaðarhlutdeild vegna húsaleigu á aukarými skuli greiðast af þjónustuaðila sem sé sveitarfélag eða lögaðili um rekstur þjónustusvæðis, sbr. e-lið 3. gr. reglugerðarinnar. Kærandi leigi húsnæði á vegum Brynju, hússjóði Öryrkjabandalagsins, og því sé ekki um að ræða húsnæðisúrræði sem sé í eigu eða á forræði Reykjavíkurborgar. Húsnæði kæranda falli því ekki undir 11. gr. reglugerðar nr. 1054/2010.

Með hliðsjón af framansögðu hafi velferðarráð talið að synja bæri kröfu kæranda um að Reykjavíkurborg myndi greiða leigu fyrir aukarými samkvæmt b-lið 3. mgr. 11. gr. reglugerðar nr. 1054/2010. Ákvörðun um synjun hafi hvorki brotið gegn lögum nr. 59/1992, um málefni fatlaðs fólks né reglugerð nr. 1054/2010.

IV. Niðurstaða

Í máli þessu er ágreiningur um hvort Reykjavíkurborg hafi borið að samþykkja umsókn kæranda um greiðslu fyrir aukarými vegna fötlunar á grundvelli 11. gr. reglugerðar nr. 1054/2010 um þjónustu við fatlað fólk á heimili sínu.

Fjallað er um réttindi fatlaðs fólks í lögum nr. 59/1992 um málefni fatlaðs fólks. Markmið laganna er að tryggja fötluðu fólki jafnrétti og sambærileg lífskjör við aðra þjóðfélagsþegna og skapa því skilyrði til þess að lifa eðlilegu lífi. Við framkvæmd laganna skal tekið mið af þeim alþjóðlegu skuldbindingum sem íslensk stjórnvöld hafa gengist undir, einkum samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks, sbr. 2. mgr. 1. gr. laganna. Í 4. gr. laganna kemur fram að sveitarfélög beri ábyrgð á skipulagi og framkvæmd þjónustu við fatlað fólk, þar með talið gæðum þjónustunnar, sem og kostnaði vegna hennar samkvæmt lögum þessum nema annað sé tekið fram eða leiði af öðrum lögum.

Lög nr. 59/1992 veita sveitarfélögum ákveðið svigrúm til að meta, miðað við aðstæður á hverjum stað, hvers konar þjónustu þau vilja veita fötluðu fólki í samræmi við fyrrgreind markmið laganna og þær kröfur sem gerðar eru til aðgengis fatlaðra einstaklinga að þeirri þjónustu. Lögin gera ráð fyrir því að sveitarstjórnir setji sér reglur um framkvæmd aðstoðar við fatlað fólk.  

Í 1. mgr. 10. gr. laga nr. 59/1992 er kveðið á um að fatlað fólk skuli eiga kost á félagslegri þjónustu sem geri því kleift að búa á eigin heimili og húsnæðisúrræðum í samræmi við þarfir þess og óskir eftir því sem kostur er. Sveitarfélög skulu tryggja að framboð á húsnæðisúrræðum skv. 1. mgr. sé til staðar jafnframt því að veita þjónustu skv. 1. mgr., sbr. 2. mgr. 10. gr. laganna. Í 11. gr. reglugerðar nr. 1054/2010 um þjónustu við fatlað fólk á heimili sínu er nánar kveðið á um húsnæðisúrræði fyrir fatlað fólk. Þar kemur fram í 1. mgr. að þegar þjónustuaðili tryggir fötluðu fólki húsnæðisúrræði skuli gerður húsaleigusamningur um afnotin. Þjónustuaðili er sveitarfélag eða lögaðili um rekstur þjónustusvæðis sem ber faglega og fjárhagslega ábyrgð á þjónustu á heimilum fatlaðs fólks og að húsnæðisúrræði, sem þjónustuaðilinn tryggir afnot af, séu í samræmi við reglugerðina, sbr. e-lið 3. gr. reglugerðar nr. 1054/2010. Þá kemur fram í 3. mgr. 11. gr. reglugerðarinnar að kostnaðarhlutdeild þjónustuaðila og íbúa vegna húsaleigu skiptist með eftirfarandi hætti:

  1. Sú leiga sem íbúi greiðir er fyrir afnot af einkarými og hlutdeild í sameiginlegu rými í hlutfalli við fjölda íbúa.

  2. Aukarými vegna fötlunar, svo sem starfsmannaaðstaða, og önnur aukin þörf á rými vegna sérstaks húsnæðisúrræðis, greiðist af þjónustuaðila, eftir atvikum samkvæmt sérstökum samningi við umráðaaðila húsnæðis.

    Í h-lið 3. gr. reglugerðar nr. 1054/2010 er hugtakið sértækt húsnæðisúrræði skilgreint sem íbúðarhúsnæði sem gert hefur verið aðgengilegt fyrir tiltekna notkun eða skilgreint sérstaklega fyrir tiltekinn hóp fatlaðs fólks. Fyrir liggur að kærandi er búsettur í húsnæði á vegum Brynju, hússjóðs Öryrkjabandalagsins, sem hefur verið aðlagað að hans þörfum. Hússjóðurinn er sjálfseignarstofnun sem á og rekur félagslegt leiguhúsnæði fyrir öryrkja. Er því ekki um að ræða húsnæðisúrræði sem er í eigu eða á forræði Reykjavíkurborgar. Að því virtu er það niðurstaða úrskurðarnefndarinnar að Reykjavíkurborg hafi verið rétt að synja kæranda um greiðslu fyrir aukarými vegna fötlunar. Hin kærða ákvörðun er því staðfest.

 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Ákvörðun Reykjavíkurborgar um synjun á beiðni A um um greiðslu fyrir aukarými vegna fötlunar er staðfest.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

Kári Gunndórsson

 

 

 

                                                                    

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta