Hoppa yfir valmynd

Mál nr. 406/2019 - Úrskurður

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 406/2019

Miðvikudaginn 11. desember 2019

A

gegn

Tryggingastofnun ríkisins

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Kári Gunndórsson lögfræðingur, Jón Baldursson læknir og Þórhildur Líndal lögfræðingur.

Með kæru, dags. 26. september 2019, kærði A til úrskurðarnefndar velferðarmála synjun Tryggingastofnunar ríkisins, dags. 29. ágúst 2019, á umsókn hennar um greiðslur til foreldra langveikra eða alvarlega fatlaðra barna (foreldragreiðslur).

I.  Málsatvik og málsmeðferð

Með umsókn, dags. 19. júlí 2019, sótti kærandi um foreldragreiðslur hjá Tryggingastofnun ríkisins vegna sonar síns sem fæddist árið X, fyrir tímabilið 1. ágúst 2018 til 19. júlí 2019. Umsókn kæranda var synjað með bréfi Tryggingastofnunar ríkisins, dags. 29. ágúst 2019, á þeim forsendum hún nyti örorkulífeyrisgreiðslna samkvæmt almannatryggingalögum nr. 100/2007, að vandi barnsins félli ekki undir þau sjúkdóms- og fötlunarstig sem tilgreind væru í 26. og 27. gr. laga nr. 22/2006 um greiðslur til foreldra langveikra eða alvarlega fatlaðra barna og að barnið væri í vistun á vegum opinberra aðila. 

Kærandi lagði fram kæru hjá úrskurðarnefnd velferðarmála þann 26. september 2019. Með bréfi, dags. 8. október 2019, óskaði úrskurðarnefndin eftir greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins ásamt gögnum málsins. Greinargerð Tryggingastofnunar barst með bréfi, dags. 28. október 2019, og með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 29. október 2019, var greinargerð Tryggingastofnunar send kæranda til kynningar. Athugasemdir bárust ekki.

 

II. Sjónarmið kæranda

Kærandi krefst þess að Tryggingastofnun ríkisins dragi ákvörðun sína til baka og samþykki greiðslur. Að eiga fatlað og langveikt barn sé alveg jafn mikil vinna og álag hvort sem foreldri sé á vinnumarkaði eða sé öryrki. Fötlun og veikindi barns kæranda hafi áhrif á vinnufærni hennar sem og veruleg fjárhagsleg áhrif.

III. Sjónarmið Tryggingastofnunar ríkisins

Í greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins kemur fram að við mat á umsóknum um foreldragreiðslur sé byggt á lögum nr. 22/2006 um greiðslur til foreldra langveikra eða alvarlega fatlaðra barna, með síðari breytingum. Lögin útlisti réttindi foreldra til fjárhagsaðstoðar þegar börn hafi greinst með alvarlega og langvinna sjúkdóma eða alvarlega fötlun og foreldrar geti hvorki stundað vinnu né nám vegna sérstakrar umönnunar, auk þess sem vistunarþjónustu á vegum opinberra aðila verði ekki við komið.

Í 19. gr. laganna komi fram að foreldri geti átt rétt á grunngreiðslum hafi barn þess greinst með mjög alvarlegan og langvinnan sjúkdóm eða mjög alvarlega fötlun sem falli undir 1. og 2. sjúkdóms- eða fötlunarstig samkvæmt 26. og 27. gr. Í 29. gr. laganna komi fram að foreldri sem fái atvinnuleysisbætur samkvæmt lögum um atvinnuleysistryggingar eigi ekki rétt á greiðslum samkvæmt lögunum fyrir sama tímabil. Sama eigi við um foreldri sem fái lífeyrisgreiðslur samkvæmt lögum um almannatryggingar. Kærandi hafi fengið endurhæfingar- eða örorkulífeyrisgreiðslur frá 1. september 2016 og samþykki fyrir áframhaldandi greiðslum til 30. september 2022. Kærandi eigi því ekki rétt á foreldragreiðslum.

Tryggingastofnun tekur fram að matið hafi verið byggt á fyrirliggjandi gögnum. Í læknisvottorði, dagsettu 16. júlí 2019, vegna barns kæranda, komi fram sjúkdómsgreiningarnar glútenóþol K90.0, ódæmigerð einhverfa F84.1, skilningsmálröskun F80.2, aðrar tilgreindar atferlis- og geðbrigðaraskanir sem venjulega hefjist í bernsku eða á unglingsárum F98.8 og erfiðleikar við menningaraðlögun, búferlaflutningar eða félagsleg tilfærsla Z60.3. Í vottorðinu komi enn fremur fram að barnið hafi verið að greinast með glútenóþol og þurfi að fara á sérstakt mataræði. Mikill kostnaður og tími hafi fylgt vanda barnsins og móðir sé alveg bundin yfir barninu til að sinna þörfum þess. Í greinargerð frá ráðgjafa á þjónustumiðstöð B sé vísað til eldri greinargerðar sem hafi verið send til Tryggingastofnunar 11. apríl 2018, en sótt hafi verið um fyrir tímabilið 1. ágúst 2018 til 19. júlí 2019. Í samræmi við áðurnefnda lagagrein hafi verið álitið að veikindi barns eða fötlun féllu ekki undir þau sjúkdóms- og fötlunarstig sem tilgreind séu í 26. eða 27. gr. laganna, en slíkt sé skilyrði fyrir greiðslum.

Í bréfi frá deildarstjóra stoðþjónustu í C, dags. 6. ágúst 2019, komi fram að barnið fái stoðkennslu í námsveri, málörvun og lestrarstuðning, auk þess sem stuðningsfulltrúi sé í bekk átta sinnum í viku. Ekki sé tiltekið að barnið sé með skerta stundaskrá eða að mætingum sé ábótavant. Þá hafi ekki fylgt með bréfinu umrædd útprentun úr Mentor yfir ástundun barnsins skólaárið 2018-2019. Með tilvísun í 19. gr. laganna sé skilyrði greiðslna að vistun á vegum opinberra aðila verði ekki við komið. Álitið sé að barnið sé í vistun og því séu skilyrði fyrir greiðslum ekki uppfyllt.

Synjun Tryggingastofnunar hafi verið þríþætt á sínum tíma. Umsókn um foreldragreiðslur hafi verið synjað á grundvelli þess að vandi barns uppfyllti ekki sjúkdómsskilyrði, talið hafi verið að barnið væri í vistun, auk þess sem móðir fái greiðslur samkvæmt lögum um almannatryggingar. Tryggingastofnun hafi farið yfir gögn málsins og telji ekki ástæðu til þess að breyta fyrri ákvörðun.

IV. Niðurstaða

Kærð er synjun Tryggingastofnunar ríkisins á umsókn kæranda um foreldragreiðslur á grundvelli laga nr. 22/2006 um greiðslur til foreldra langveikra eða alvarlega fatlaðra barna.

Með lögum nr. 22/2006 er kveðið á um réttindi foreldra til fjárhagsaðstoðar þegar þeir geta hvorki stundað vinnu né nám vegna sérstakrar umönnunar barna sinna sem hafa greinst með alvarlega og langvinna sjúkdóma eða alvarlega fötlun, sbr. 1. gr. laganna. Í 1. mgr. 19. gr. laganna kemur fram að foreldri sem geti hvorki sinnt störfum utan heimilis né námi vegna þess að barn þess þarfnist verulegrar umönnunar vegna mjög alvarlegs og langvinns sjúkdóms eða fötlunar geti átt sameiginlegan rétt á grunngreiðslum samkvæmt 20. gr. með hinu foreldri barnsins samkvæmt mati framkvæmdaraðila. Í 2. mgr. 19. gr. laganna er nánar kveðið á um þau skilyrði sem þarf að uppfylla til þess að foreldri geti átt rétt á grunngreiðslum samkvæmt ákvæðinu. Skilyrði greiðslnanna er að barn hafi greinst með mjög alvarlegan og langvinnan sjúkdóm eða mjög alvarlega fötlun sem fellur undir 1. og 2. sjúkdóms- eða fötlunarstig samkvæmt 26. og 27. gr. laganna samkvæmt vottorði sérfræðings þeirrar sérhæfðu greiningar- og meðferðarstofnunar sem veitir barninu þjónustu. Þá eru önnur skilyrði ákvæðisins þau að barn þarfnist sérstakrar umönnunar foreldris, svo sem vegna innlagnar á sjúkrahús og/eða meðferðar í heimahúsi, enda verði ekki annarri vistunarþjónustu á vegum opinberra aðila við komið, foreldri geti hvorki sinnt störfum utan heimilis né námi vegna verulegrar umönnunar barnsins og foreldri og barn eigi lögheimili hér á landi þann tíma sem greiðslur séu inntar af hendi.

Í 29. gr. laga nr. 22/2006 er kveðið á um ósamrýmanleg réttindi. Þar segir í 1. mgr. að foreldri sem fái atvinnuleysisbætur samkvæmt lögum um atvinnuleysistryggingar eigi ekki rétt á greiðslum samkvæmt lögunum fyrir sama tímabil. Það sama eigi við um foreldri sem fái lífeyrisgreiðslur samkvæmt lögum um almannatryggingar. Umsókn kæranda var meðal annars synjað á þeirri forsendu að hún nyti greiðslna samkvæmt lögum um almannatryggingar.

Samkvæmt gögnum málsins hefur kærandi fengið endurhæfingar- eða örorkulífeyrisgreiðslur frá 1. september 2016 og samþykki fyrir áframhaldandi greiðslum til 30. september 2022. Þegar af þeirri ástæðu er ljóst að kærandi uppfyllir ekki skilyrði til greiðslna samkvæmt lögum nr. 22/2006. Hin kærða ákvörðun er því staðfest.


 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins, dags. 29. ágúst 2019, um að synja umsókn A um foreldragreiðslur er staðfest.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

Kári Gunndórsson

 

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta