Hoppa yfir valmynd

Nr. 75/2019 - Úrskurður

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 75/2019

Fimmtudaginn 9. maí 2019

A

gegn

Reykjavíkurborg

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Kári Gunndórsson lögfræðingur, Agnar Bragi Bragason lögfræðingur og Eva Dís Pálmadóttir lögfræðingur.

Með kæru, móttekinni 15. febrúar 2019, kærði A, til úrskurðarnefndar velferðarmála synjun Reykjavíkurborgar, dags. 5. desember 2018, á beiðni hennar um greiðslu sérstakra húsaleigubóta fyrir tímabilið 1. janúar 2010 til 31. maí 2012.

I.  Málsatvik og málsmeðferð

Með bréfi velferðarsviðs Reykjavíkurborgar, dags. 5. nóvember 2018, var kæranda tilkynnt að hún hefði fengið greiddar sérstakar húsaleigubætur fyrir tímabilið 1. júní 2012 til 31. desember 2016 ásamt dráttarvöxtum á grundvelli tillögu borgarstjóra sem samþykkt var á fundi borgarráðs 3. maí 2018. Sú ákvörðun var tekin í kjölfar dóms Hæstaréttar í máli nr. 728/2015. Með erindi 12. nóvember 2018 fór kærandi fram á að fá greiddar sérstakar húsaleigubætur ásamt dráttarvöxtum frá 1. janúar 2010. Þeirri beiðni var hafnað með bréfi velferðarráðs, dags. 5. desember 2018. 

Kærandi lagði fram kæru hjá úrskurðarnefnd velferðarmála þann 15. febrúar 2019. Með bréfi, dagsettu sama dag, óskaði úrskurðarnefndin eftir greinargerð Reykjavíkurborgar ásamt gögnum málsins. Greinargerð Reykjavíkurborgar barst með bréfi, dags. 29. mars 2019, og var hún send kæranda til kynningar með bréfi úrskurðarnefndarinnar, dags. 1. apríl 2019. Athugasemdir bárust ekki.

II.  Sjónarmið kæranda

Kærandi greinir frá því að hún sætti sig ekki við hina kærðu ákvörðun og óski eftir greiðslu sérstakra húsaleigubóta fyrir tímabilið 1. janúar 2010 til 31. maí 2012.

III.  Sjónarmið Reykjavíkurborgar

Í greinargerð Reykjavíkurborgar kemur fram að kærandi hafi árið 2010 fengið úthlutaðri íbúð á vegum Brynju, hússjóði Öryrkjabandalags Íslands og flutt þangað ásamt syni sínum 1. janúar það ár. Samkvæmt dómi Hæstaréttar í máli nr. 728/2015 hafi Reykjavíkurborg verið óheimilt að synja umsókn um sérstakar húsaleigubætur á þeim forsendum að umsækjandi hafi tekið á leigu íbúð hjá Brynju, hússjóði Öryrkjabandalagsins. Niðurstaða dómsins verði ekki túlkuð öðruvísi en svo að Reykjavíkurborg hafi verið óheimilt að hætta greiðslu sérstakra húsaleigubóta til umsækjanda við flutning í leiguíbúð Brynju, hússjóð Öryrkjabandalagsins. Í samræmi við framangreint hafi verið talið að þeir einstaklingar, sem hafi sótt um sérstakar húsaleigubætur en verið synjað á þeirri forsendu að þeir væru í öruggu búsetuúrræði hjá Brynju, ættu rétt á afturvirkri greiðslu frá því tímamarki sem þeir hafi sótt um eða umsókn þeirra afgreidd.

Samkvæmt tillögu borgarstjóra, sem hafi verið samþykkt á fundi borgarráðs 3. maí 2018, hafi velferðarsviði Reykjavíkurborgar verið falið að afgreiða kröfur um greiðslu sérstakra húsaleigubóta fyrir tímabilið 1. júní 2012 til 31. desember 2016 frá leigjendum Brynju á grundvelli dóms Hæstaréttar í máli nr. 728/2015, án tillits til þess hvort umsókn hafi legið fyrir. Auk þess hafi verið lagt til að dráttarvextir yrðu greiddir til þeirra sem ættu rétt á greiðslum sérstakra húsaleigubóta aftur í tímann, án þess að gerð væri sérstök krafa um það.

Með bréfi þjónustumiðstöðvar, dags. 5. nóvember 2018, hafi kæranda verið tilkynnt að hún hefði þegar fengið greiddar sérstakar húsaleigubætur aftur í tímann ásamt dráttarvöxtum að upphæð 1.174.544 kr. fyrir tímabilið 1. júní 2012 til 31. desember 2015 og 1. febrúar 2016 til 31. maí 2016. Í tilefni af bréfi þjónustumiðstöðvar hafi kærandi óskað eftir því að fá greiddar sérstakar húsaleigubætur ásamt dráttarvöxtum frá 1. janúar 2010, það er frá þeim tíma sem hún hafi tekið að leigja hjá Brynju, hússjóði Öryrkjabandalagsins og til 31. maí 2012. Þeirri beiðni hafi verið synjað.

Reykjavíkurborg tekur fram að um sérstakar húsaleigubætur hafi gilt ákvæði reglna um félagslegar leiguíbúðir og sérstakar húsaleigubætur í Reykjavík frá febrúar 2004. Ákvæði um sérstakar húsaleigubætur hafi fallið úr gildi 1. janúar 2017 við gildistöku nýrra reglna Reykjavíkurborgar um sérstakan húsnæðisstuðning. Hin kærða ákvörðun hafi verið byggð á framangreindri tillögu borgarstjóra og kærandi hafi fengið greiddar sérstakar húsaleigubætur aftur í tímann. Tímabil greiðslnanna miðist við fjögur ár aftur í tímann frá uppkvaðningu dóms Hæstaréttar í máli nr. 728/2015 sem hafi verið 16. júní 2016 en samkvæmt 3. málsl. 6. gr. laga nr. 150/2007 um fyrningu kröfuréttinda fyrnist kröfur um einstakar gjaldfallnar greiðslur, sem umsamdar séu vegna eftirlauna, framfærslueyris, meðlags eða annarrar greiðslu sem falli í gjalddaga með jöfnu millibili og séu ekki afborganir af höfuðstól, á fjórum árum. Samkvæmt framangreindu hafi kærandi þegar fengið greiddar sérstakar húsaleigubætur fyrir tímabilið 1. júní 2012 til 31. desember 2016, að undanskildum einum mánuði þar sem skilyrði 1. mgr. 7. gr. þágildandi reglna um félagslegar leiguíbúðir og sérstakar húsaleigubætur hafi ekki verið uppfyllt fyrir þann mánuð.

Með hliðsjón af öllu framansögðu hafi það verið mat velferðarráðs að synja bæri beiðni kæranda um greiðslu sérstakra húsaleigubóta aftur í tímann fyrir tímabilið 1. janúar 2010 til 31. maí 2012 á grundvelli tillögu borgarstjóra, sbr. og 3. málsl. 6. gr. laga um fyrningu kröfuréttinda. Þá verði einnig að telja ljóst með hliðsjón af öllu framansögðu að ákvörðun velferðarráðs Reykjavíkurborgar hafi ekki brotið gegn ákvæðum reglna um félagslegar leiguíbúðir og sérstakar húsaleigubætur, stjórnsýslulögum né öðrum lögum. Því beri að staðfesta hina kærðu ákvörðun.

IV.  Niðurstaða

Kærð er ákvörðun Reykjavíkurborgar um að synja beiðni kæranda um greiðslu sérstakra húsaleigubóta fyrir tímabilið 1. janúar 2010 til 31. maí 2012.

Með dómi Hæstaréttar í máli nr. 728/2015 komst Hæstiréttur að þeirri niðurstöðu að Reykjavíkurborg hefði verið óheimilt að synja umsækjanda um sérstakar húsaleigubætur á þeirri forsendu að hann leigði íbúð af Brynju, hússjóði Öryrkjabandalags Íslands. Í kjölfar dómsins samþykkti borgarráð að fela velferðarsviði Reykjavíkurborgar að afgreiða kröfur um greiðslu sérstakra húsaleigubóta frá leigjendum Brynju, óháð því hvort umsókn hafi legið fyrir eða ekki. Auk þess var lagt til að dráttarvextir yrðu greiddir til þeirra sem ættu rétt á greiðslum sérstakra húsaleigubóta aftur í tímann, án þess að gerð væri sérstök krafa um það.

Á grundvelli samþykktar borgarráðs fékk kærandi greiddar sérstakar húsaleigubætur fyrir tímabilið 1. júní 2012 til 31. desember 2016, að undanskildum einum mánuði, eða fjögur ár aftur í tímann frá uppkvaðningu dóms Hæstaréttar. Samkvæmt 1. mgr. 2. gr. laga nr. 150/2007 um fyrningu kröfuréttinda reiknast fyrningarfrestur kröfu frá þeim degi sem kröfuhafi gat fyrst átt rétt til efnda. Samkvæmt 3. gr. laganna er almennur fyrningarfrestur kröfuréttinda fjögur ár. Sá frestur gildir um einstakar gjaldfallnar greiðslur, sbr. 3. málsl. 6. gr. laganna.

Með vísan til framangreinds er það mat úrskurðarnefndar velferðarmála að synjun Reykjavíkurborgar á beiðni kæranda um greiðslu sérstakra húsaleigubóta fyrir tímabilið 1. janúar 2010 til 31. maí 2012 sé reist á réttum forsendum. Hin kærða ákvörðun er því staðfest.


 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Ákvörðun Reykjavíkurborgar, dags. 5. desember 2018, um synjun á beiðni A, um greiðslu sérstakra húsaleigubóta fyrir tímabilið 1. janúar 2010 til 31. maí 2012  er staðfest.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

Kári Gunndórsson

 

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta