Nr. 66/2018 - Úrskurður
Úrskurðarnefnd velferðarmála
Mál nr. 66/2018
Miðvikudaginn 4. júlí 2018
A
gegn
Tryggingastofnun ríkisins
Ú R S K U R Ð U R
Mál þetta úrskurða Rakel Þorsteinsdóttir lögfræðingur, Eggert Óskarsson lögfræðingur og Eva Dís Pálmadóttir lögfræðingur.
Með kæru, móttekinni 20. febrúar 2018, kærði A, til úrskurðarnefndar velferðarmála ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins frá 21. júní 2017 um endurreikning og uppgjör tekjutengdra greiðslna ársins 2016.
I. Málsatvik og málsmeðferð
Með bréfi Tryggingastofnunar ríkisins, dags. 21. júní 2017, var kæranda tilkynnt um að endurreikningur og uppgjör tekjutengdra greiðslna fyrir árið 2016 hafi leitt í ljós ofgreiðslu bóta að fjárhæð X kr., að teknu tilliti til endurgreiddrar staðgreiðslu.
Kæra barst úrskurðarnefnd velferðarmála 20. febrúar 2018. Með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 21. febrúar 2018, var kæranda tilkynnt að kæra hefði borist að liðnum kærufresti og var honum gefinn kostur á að koma að athugasemdum og/eða gögnum, teldi hann að skilyrði sem fram kæmu í 1. mgr. 28. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 gætu átt við í málinu. Ítrekun var send með bréfi, dags. 7. mars 2018. Engar athugasemdir bárust. Með bréfi, dags. 5. apríl 2018, óskaði úrskurðarnefnd eftir greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins ásamt gögnum málsins. Með bréfi, dags. 10. apríl 2018, barst greinargerð stofnunarinnar þar sem farið var fram á frávísun málsins og var hún kynnt kæranda með bréfi, dags. 1. júní 2018. Athugasemdir bárust ekki.
II. Sjónarmið kæranda
Ráða má af kæru að kærandi óski þess að úrskurðarnefnd velferðarmála endurskoði endurreikning og uppgjör tekjutengdra bóta ársins 2016.
Í kæru kemur fram að kærandi hafi fengið greiðslur frá lífeyrissjóði án þess að hafa beðið um það og fari fram á að afskrifaðar verði kröfur vegna áranna 2015 og 2016 þar sem hann hafi ekki þekkt gildandi reglur. Þá biður kærandi um greiðslur frá Tryggingastofnun fyrir árin 2017 og 2018.
III. Sjónarmið Tryggingastofnunar ríkisins
Í greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins kemur fram að óljóst sé hvert kæruefnið sé í kærumálinu. Út frá gögnum málsins telji Tryggingastofnun þó að verið sé að kæra ofgreiðslukröfu.
Með kæru hafi fylgt greiðsluáskorun frá Sýslumanninum á Norðurlandi vestra, dags. 18. janúar 2018, þar sem innheimtumiðstöð hafi verið falið að innheimta greiðslur sem Tryggingastofnun hafi greitt umfram rétt. Um sé að ræða kröfu að upphæð kr. X sem kærandi hafi verið upplýstur um með bréfi Tryggingastofnunar, dags. 21. júní 2018, og séu því um átta mánuðir frá því að kærandi hafi fengið upplýsingar um kröfuna. Í umræddu bréfi hafi kæranda einnig verið tilkynnt um frest til að andmæla niðurstöðu eða óska eftir rökstuðningi til og með 21. ágúst 2017. Þá hafi kæranda jafnframt verið bent á kæruleið til úrskurðarnefndar velferðarmála.
Samkvæmt 2. mgr. 13. gr. laga nr. 100/2007 um almannatryggingar, skuli kæra til úrskurðarnefndar velferðarmála vera skrifleg og skuli hún borin fram innan þriggja mánaða frá því að aðila máls hafi verið tilkynnt um ákvörðun. Kæra hafi borist úrskurðarnefnd velferðarmála þann 20. febrúar 2018 en þá hafi kærufrestur samkvæmt 2. mgr. 13. gr. laga um almannatryggingar verið liðinn. Þá telji stofnunin ekki að þau atriði séu fyrir hendi sem hafi þýðingu við mat á því hvort afsakanlegt verði talið að kæran hafi borist að liðnum kærufresti eða veigamiklar ástæður sem mæli með því að kæran verði tekin til meðferðar, sbr. 1. mgr. 28. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.
Með hliðsjón af framangreindu óski stofnunin frávísunar á umræddri kæru.
IV. Niðurstaða
Ýmis gögn fylgdu kæru til úrskurðarnefndar velferðarmála. Úrskurðarnefndin telur að af kæru verði ráðið að hún lúti að ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins, dags. 21. júní 2017, um endurreikning og uppgjör tekjutengdra greiðslna ársins 2016.
Samkvæmt 2. mgr. 13. gr. laga nr. 100/2007 um almannatryggingar, með síðari breytingum, sbr. 5. gr. laga nr. 85/2015 um úrskurðarnefnd velferðarmála, skal kæra til úrskurðarnefndar vera skrifleg og skal hún borin fram innan þriggja mánaða frá því að aðila var tilkynnt um ákvörðun.
Samkvæmt gögnum málsins liðu átta mánuðir frá því að kæranda var tilkynnt um hina kærðu ákvörðun með bréfi Tryggingastofnunar ríkisins, dags. 21. júní 2017, þar til kæra barst úrskurðarnefnd velferðarmála 20. febrúar 2018. Kærufrestur samkvæmt 2. mgr. 13. gr. laga um almannatryggingar var því liðinn þegar kæran barst nefndinni.
Í 5. mgr. 7. gr. laga um úrskurðarnefnd velferðarmála er vísað til þess að um málsmeðferð, sem ekki er kveðið á um í lögunum, fari samkvæmt ákvæðum stjórnsýslulaga og ákvæðum laga sem málskotsréttur til nefndarinnar byggist á hverju sinni.
Í 28. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 segir:
„Hafi kæra borist að liðnum kærufresti skal vísa henni frá nema:
1. afsakanlegt verði talið að kæran hafi ekki borist fyrr, eða
2. veigamiklar ástæður mæla með því að kæran verði tekin til meðferðar.
Kæru skal þó ekki sinnt ef meira en ár er liðið frá því að ákvörðun var tilkynnt aðila.“
Með vísan til þessa er nauðsynlegt að taka til skoðunar hvort fyrir hendi séu atriði sem hafa þýðingu við mat á því hvort afsakanlegt verði talið að kæran hafi borist að liðnum kærufresti eða hvort veigamiklar ástæður mæli með því að kæran verði tekin til meðferðar, sbr. 1. mgr. 28. gr. stjórnsýslulaga, en ákvæðið mælir fyrir um skyldubundið mat stjórnvalds á því hvort atvik séu með þeim hætti að rétt sé að taka stjórnsýslukæru til efnislegrar meðferðar, þrátt fyrir að lögbundinn kærufrestur sé liðinn.
Fyrir liggur að í hinni kærðu ákvörðun frá 21. júní 2017 var kæranda leiðbeint um kæruheimild til úrskurðarnefndar velferðarmála og um tímalengd kærufrests. Með bréfum úrskurðarnefndar, dags. 21. febrúar og 7. mars 2018, var kæranda veittur kostur á að koma að athugasemdum og/eða gögnum teldi hann að skilyrði sem fram kæmu í 1. mgr. 28. gr. stjórnsýslulaga gætu átt við í málinu. Kærandi hefur ekki komið á framfæri upplýsingum eða gögnum þess efnis. Ekkert í gögnum málsins bendir til þess að kærandi hafi ekki verið fær um að kæra ákvörðunina innan kærufrests. Í ljósi þess að kærandi aðhafðist ekkert í átta mánuði frá því að honum var kynnt niðurstaða Tryggingastofnunar er það mat úrskurðarnefndar velferðarmála að ekki sé afsakanlegt að kæra hafi ekki borist fyrr. Þá verður ekki heldur séð að veigamiklar ástæður mæli með því að kæran verði tekin til meðferðar.
Með hliðsjón af framangreindu er kærunni vísað frá úrskurðarnefnd velferðarmála, sbr. 1. mgr. 28. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.
Úrskurðarnefnd velferðarmála vill benda kæranda á að í 11. gr. reglugerðar nr. 598/2009 um útreikning, endurreikning og uppgjör tekjutengdra bóta og vistunarframlags er kveðið á um heimild Tryggingastofnunar til að fella niður endurkröfu ef sérstakar aðstæður eru fyrir hendi. Kærandi geti því kannað hjá stofnuninni hvort hann kunni að eiga rétt á niðurfellingu á grundvelli framangreinds ákvæðis.
Ú R S K U R Ð A R O R Ð
Kæru A, er vísað frá úrskurðarnefnd velferðarmála.
F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála
Rakel Þorsteinsdóttir