Mál nr. 335/2021 - Úrskurður
Úrskurðarnefnd velferðarmála
Mál nr. 335/2021
Þriðjudaginn 30. nóvember 2021
A
gegn
Reykjavíkurborg
Ú R S K U R Ð U R
Mál þetta úrskurða Hólmfríður Birna Guðmundsdóttir lögfræðingur, Agnar Bragi Bragason lögfræðingur og Eva Dís Pálmadóttir lögfræðingur.
Með kæru, dags. 14. maí 2021, kærði B ráðgjafi, f.h. A, til úrskurðarnefndar velferðarmála ákvörðun Reykjavíkurborgar, dags. 24. nóvember 2020, um að synja umsókn hennar um sérstakan húsnæðisstuðning.
I. Málsatvik og málsmeðferð
Með umsóknum, dags. 14. september 2020, sótti kærandi um sérstakan húsnæðisstuðning frá Reykjavíkurborg, annars vegar vegna tímabilsins 1. mars 2020 til 31. ágúst 2020 og hins vegar vegna tímabils frá og með 1. september 2020. Umsókn kæranda vegna tímabilsins 1. mars 2020 til 31. ágúst 2020 var synjað með bréfi þjónustumiðstöðvar, dags. 22. september 2020, með vísan til 9. gr. reglna Reykjavíkurborgar um sérstakan húsnæðisstuðning. Kærandi áfrýjaði niðurstöðunni til velferðarráðs 2. október 2020 sem tók málið fyrir á fundi 21. desember 2020 og staðfesti synjunina. Kærandi fór þann 23. desember 2020 fram á rökstuðning fyrir þeirri ákvörðun og ítrekaði þá beiðni 8. febrúar 2021.
Umsókn kæranda vegna tímabils frá 1. september 2020 var synjað með bréfi þjónustumiðstöðvar, dags. 24. nóvember 2020, á þeirri forsendu að skilyrði 4. tölul. 1. mgr. 3. gr. reglna Reykjavíkurborgar um sérstakan húsnæðisstuðning væri ekki uppfyllt. Með bréfi Reykjavíkurborgar, dags. 16. febrúar 2021, var kæranda sendur rökstuðningur vegna þeirrar synjunar.
Kæra barst úrskurðarnefnd velferðarmála 14. maí 2021. Með bréfi, dags. 2. júlí 2021, óskaði úrskurðarnefndin eftir greinargerð Reykjavíkurborgar vegna kærunnar ásamt gögnum málsins. Sú beiðni var ítrekuð þann 14. júní 2021. Greinargerð Reykjavíkurborgar barst með bréfi, dags. 13. júlí 2021, og var hún send kæranda til kynningar með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 15. júlí 2021. Athugasemdir bárust frá kæranda 12. ágúst 2021 og voru þær sendar Reykjavíkurborg til kynningar með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 13. ágúst 2021. Athugasemdir bárust frá Reykjavíkurborg með bréfi, dags. 20. ágúst 2021, sem voru sendar kæranda til kynningar með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 24. ágúst 2021. Frekari athugasemdir bárust frá kæranda 7. september 2021 og voru þær sendar Reykjavíkurborg til kynningar með bréfi nefndarinnar, dags. 9. september 2021. Frekari athugasemdir bárust frá Reykjavíkurborg 1. október 2021 og voru þær sendar kæranda til kynningar með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 6. okóber 2021.
II. Sjónarmið kæranda
Kærandi greinir frá því að hún hafi sótt um sérstakan húsnæðisstuðning hjá Reykjavíkurborg þann 14. september 2020 og verið synjað þann 24. nóvember 2020. Kærandi hafi þar til í mars 2020 fengið greiddan sérstakan húsnæðisstuðning frá Reykjavíkurborg en hafi yfirsést að endurnýja umsóknina þegar hún hafi runnið út. Kærandi hafi aldrei fengið í hendurnar bréf þess efnis að komið væri að endurnýjun. Hvorki hafi borist bréf með bréfpósti né tölvupósti um að komið væri að endurnýjun. Dóttir kæranda hafi einnig fylgst með póstinum en hún hafi aldrei tekið eftir því að bréf þess efnis að komið væri að endurnýjun umsóknar um sérstakan húsnæðisstuðning hefði borist.
Í rökstuðningi velferðarráðs Reykjavíkurborgar komi fram að samkvæmt 4. tölul. 1. mgr. 3 gr. reglna um sérstakan húsnæðisstuðning sé kveðið á um að: „Staða umsækjanda verði að vera metin að lágmarki til sex stiga, þar af að lágmarki til tveggja stiga hvað varðar félagslegar aðstæður, sbr. matsviðmiði...“ Kærandi hafi verið metin til fimm stiga samkvæmt matsviðmiðum fyrir sérstakan húsnæðistuðning. Tvö stig vegna þess að kærandi sé örorkulífeyrisþegi með 75% örorkumat, eitt sig vegna húsnæðisstöðu og tvö stig vegna félagslegra aðstæðna. Áhugavert væri að bera saman fyrri stigagjöf um matsviðmið fyrir sérstakan húsnæðisstuðning við síðustu stigagjöf þar sem aðstæður kæranda hafi ekkert batnað síðan hún hafi síðast fengið samþykkta umsókn um sérstakan húsnæðisstuðning.
Kærandi geri athugasemdir við að hafa einungis verið metin til tveggja stiga vegna félagslegra aðstæðna en hún glími við alvarleg, langvinn veikindi sem hafi veruleg áhrif á fjárhags- og húsnæðisstöðu. Það komi sérstaklega fram í rökstuðningi velferðarráðs Reykjavíkurborgar en þrátt fyrir það fái hún einungis tvö stig. Kærandi sé með íþyngjandi húsnæðiskostnað, þ.e. meira en 20% af tekjum heimilisins fari í húsnæðiskostnað, að teknu tilliti til húsnæðisbóta. Ekkert faglegt mat hafi farið fram af hálfu félagsráðgjafa. Kærandi hafi aldrei verið kölluð til viðtals en hún þurfi að hafa túlk með sér í slíkt viðtal. Í læknisvottorði, dags. 26. mars 2021, komi fram að kærandi sé öryrki til margra ára, sé óvinnufær með öllu og læknirinn styðji umsókn hennar um sérstakan húsnæðisstuðning.
Í málinu reyni á 65. og 76. gr. stjórnarskrárinnar, lög nr. 75/2016 um húsnæðisstuðning, stjórnsýslulög nr. 37/1993 og almennar grunnreglur stjórnsýsluréttar, einkum lögmætis- og réttmætisreglur. Jafnframt komi reglur Reykjavíkurborgar til skoðunar. Af þeim ákvæðum, dómi Hæstaréttar og álitum umboðsmanns Alþingis í málum er varða félagsmálaréttinn, megi ráða að við úthlutun félagslegra gæða verði að gæta þess að tryggja fólki lágmarksrétt, að úthlutun verði gerð á jafnréttisgrundvelli, með öðrum orðum að fólki verði ekki mismunað, að reglur verði ávallt að vera í samræmi við lagaákvæði og að stjórnvöld verði ávallt að gæta að því að sinna sínu skyldubundna mati. Í þessu samhengi vísi kærandi til dóms Hæstaréttar í máli nr. 125/2000, álits umboðsmanns Alþingis í máli nr. 4747/2000 sem fjalli um hið félagslega eðli og það að ekki sé hægt að beita þrengjandi lögskýringum í almannatryggingarétti, álits umboðsmanns Alþingis í máli nr. 2796/1999 sem segi skýrt að opinberir aðilar skuli leita leiða til að markmið laganna náist, ekki öfugt, með því til dæmis að við val á lögskýringarkostum skuli leitast við að finna þá leið sem best samræmist markmiði laganna. Einnig vísi kærandi til álits umboðsmanns Alþingis í máli nr. 9937/2000 þar sem segi að stjórnvöld verði að líta til stjórnarskrárákvæða og mannréttindasamninga með ítarlegri hætti en nú sé gert í stjórnsýslunni á Íslandi.
Að öllu framangreindu virtu liggi ljóst fyrir að kærandi eigi afdráttarlausan og lögvarinn rétt á sérstökum húsnæðisstuðningi. Þá eigi kærandi jafnframt rétt á afturvirkum greiðslum frá 1. mars 2020. Það að farist hafi fyrir að sækja um að nýju réttlæti á engan hátt niðurstöðu velferðarsviðs Reykjavíkurborgar. Ýmsar ástæður geti búið að baki því að einstaklingar sæki ekki um á réttum tíma og í tilfelli kæranda hafi ástæðan verið sú að henni hafi hvorki borist ábending né tilkynning um að sækja þyrfti að nýju um sérstakan húsnæðisstuðning. Kærandi mótmæli því að hún uppfylli ekki þann stigafjölda sem þurfi til að uppfylla skilyrðin um sérstakan húsnæðisstuðning. Þegar um matskennda ákvörðun sé að ræða, eins og í máli þessu, beri sveitarfélögum að líta til þeirra sjónarmiða sem skyldubundið mat feli í sér. Einstaklingsbundið heildarmat og rannsókn á aðstæðum kæranda sé forsenda þess að sveitarfélag geti komist að efnislega réttri niðurstöðu. Fullnægjandi einstaklingsbundið heildarmat og rannsókn á aðstæðum kæranda hafi ekki verið gert þegar lagt hafi verið mat á hvort hún uppfyllti skilyrði þess að fá sérstakan húsnæðisstuðning. Það að kærandi hafi ekki verið boðuð í viðtal renni frekari stoðum undir að mat og rannsókn á aðstæðum hennar hafi verið ófullnægjandi. Rannsóknarregla stjórnsýslulaga sé skýr um það að sveitarfélögum sé skylt að sjá til þess að eigin frumkvæði að mál sé nægilega upplýst áður en ákvörðun sé tekin í því. Einnig beri að túlka reglur um sérstakan húsnæðisstuðning með hliðsjón af tilgangi þeirra reglna sem sé meðal annars að tryggja fjárhagslegt og félagslegt öryggi og stuðla að velferð þeirra sem þurfi á aðstoð að halda.
Í athugasemdum vegna greinargerðar Reykjavíkurborgar tekur kærandi fram að eftir lestur greinargerðarinnar hafi hún áttað sig á að um tvö aðskilin mál hafi verið ræða. Annars vegar umsókn kæranda um sérstakan húsnæðisstuðning fyrir tímabilið 1. mars til 31. ágúst 2020 og hins vegar ný umsókn kæranda um sérstakan húsnæðisstuðning. Svo virðist sem þessi tvö mál hafi einnig skarast í meðferð Reykjavíkurborgar á málinu. Þann 21. desember 2020 hafi kæranda borist bréf þar sem áfrýjunarnefnd velferðarráðs hafi staðfest synjun starfsmanna þjónustumiðstöðvar um sérstakan húsnæðisstuðning fyrir tímabilið 1. mars 2020 til 31. ágúst 2020 samkvæmt 9. gr. reglna um sérstakan húsnæðisstuðning. Sendur hafi verið tölvupóstur þann 23. desember 2020 með ósk um rökstuðning vegna ákvörðunar áfrýjunarnefndar velferðarráðs um að staðfesta synjun starfsmanna þjónustumiðstöðvar um sérstakar húnsnæðisstuðning fyrir tímabilið 1. mars 2020 til 31. ágúst 2020. Þann 8. febrúar 2021 hafi sú ósk verið ítrekuð þar sem rökstuðningur hafði ekki borist. Þann 9. febrúar 2021 hafi kærandi verið upplýst um að áminningin hafi verið send lögfræðingi áfrýjunarnefndar og óskað eftir rökstuðningi. Þann 16. febrúar 2021 hafi rökstuðningurinn loks borist. Það sem kærandi hafi ekki áttað sig fyrr en við lestur greinargerðarinnar sé að rökstuðningurinn snúi að annarri ákvörðun velferðarráðs, þ.e.a.s. ákvörðun velferðarráðs um að synja umsókn hennar um sérstakan húsnæðisstuðning. Rökstuðningurinn snúi ekki að þeirri ákvörðun sem sé kæruefni þessarar kæru, þ.e. ákvörðun velferðarráðs um að synja kæranda um afturvirkar greiðslur sérstaks húsnæðisstuðnings vegna tímabilsins 1. mars 2020 til 31. ágúst 2020. Vegna þessa hafi kærandi talið að um sama málið væri að ræða og beri kæran glögg merki þess. Rökstuðningur vegna ákvörðunar áfrýjunarnefndar velferðaráðs um að staðfesta synjun um sérstakan húsnæðisstuðning fyrir tímabilið 1. mars 2020 til 31. ágúst hafi því aldrei borist, hvorki umboðsmanni kæranda né henni sjálfri. Það sé því rangt sem segi að kærandi hafi óskað eftir rökstuðning fyrir nýrri umsókn og sá rökstuðningur hafi verið veittur 16. febrúar 2021. Kærandi hafi óskað eftir rökstuðningi fyrir ákvörðuninni um að fá sérstakan húsnæðisstuðning greiddan aftur í tímann en hafi einungis fengið rökstuðning átta vikum síðar fyrir annarri ákvörðun sem sé skýrt brot á málshraðareglunni, sbr. 11. gr. reglna um um verksvið og starfshætti áfrýjunarnefndar velferðarráðs Reykjavíkurborgar. Af þessu megi leiða að kæra þessi hafi ekki borist of seint þar sem kærufrestur miðist við rökstuðninginn 16. febrúar 2021 þar sem óskað hafi verið eftir rökstuðningi í því máli sem hér sé til meðferðar. Eins og áður hafi komið fram hafi sá rökstuðningur enn ekki borist. Því ætti ekki að vísa málinu frá af þeirri ástæðu að kæra hafi borist úrskurðarnefndinni of seint.
Í rökstuðningi synjunar í greinargerð fyrir áfrýjunarnefnd, dags. 10. desember 2020, skrifi ráðgjafinn að ein af ástæðum synjunarinnar sé sú að kærandi hafi ekki endurnýjað umsókn sína um sérstakan húsnæðisstuðning fyrir 29. febrúar 2020. Síðar í rökstuðningnum sé komið inn á aðra ástæðu synjunarinnar en það sé að „Hún hafi verið metin til 2ja stiga vegna félagslegra aðstæðna en samkvæmt matinu er ekki um að ræða fjölþættan vanda annan en fjárhagslegan sl. 24. mán. né alvarleg langvinn veikindi. Því nær hún ekki 4 stigum í félagslegum aðstæðum.“ Kærandi ítreki að hún hafi aldrei fengið í hendurnar bréf þess efnis að komið væri að endurnýjun, hvorki með bréfpósti né tölvupósti. Dóttir kæranda fylgist vel með pósti hennar og hún hafi aldrei fengið bréf þess efnis að komið væri að endurnýjun umsóknar um sérstakan húsnæðisstuðning. Þetta skrifi kærandi einnig í umsókn sinni 14. september 2020 þar sem hún hafi óskað eftir að fá sérstakan húsnæðisstuðning greiddan afturvirkt frá 1. mars 2020 til 31. ágúst 2020. Velferðarsvið verði að gæta þess vandlega að svo mikilvægar upplýsingar sem varða nauðsynlegan stuðning til einstaklinga sem séu í viðkvæmri fjárhagslegri stöðu. Það sé ekki gert með því að senda slíkar upplýsingar í almennum pósti þar sem ekki sé hægt að rekja að bréfið hafi skilað sér.
Það sem viðkomi báðum málunum sé hvort kærandi eigi rétt á afturvirkum greiðslum sem og hvort samþykkja hefði átt nýja umsókn með þeim stigafjölda sem ráðgjafi gefi kæranda fyrir félagslegar aðstæður. Það að kærandi sé ekki metin til fjögurra stiga vegna félagslegra aðstæðna heldur tveggja stiga þar sem ráðgjafi meti það sem svo að hún glími ekki við alvarleg, langvinn veikindi, sé óskiljanlegt. Kærandi sé með 75% örorkumat til margra ára ásamt mjög slæmri fjárhagsstöðu eins og komi fram í greinargerð ráðgjafans, eða 109.901 kr. í ráðstöfunartekjur á mánuði. Ekki sé ljóst út frá hvaða gögnum og upplýsingum viðkomandi ráðgjafi hafi lagt mat sitt á raunverulegt heilsufarslegt ástand kæranda og því liggi ljóst fyrir að það reyni á rannsóknarreglu stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Rannsóknarreglan sé skýr um það að stjórnvald skuli sjá til þess að mál sé nægjanlega upplýst áður en ákvörðun er tekin í því.
Í athugasemdum kæranda frá 7. september 2021 er vísað til þess að óumdeilt sé að um sé að ræða ákvörðun þjónustumiðstöðvar vegna umsóknar kæranda frá 14. september 2020 um sérstakan húsnæðisstuðning aftur í tímann, þ.e. fyrir tímabilið 1. mars 2020 til 31. ágúst 2020. Hins vegar haldi áfrýjunarnefndin því fram að ekki hafi verið óskað eftir rökstuðningi fyrir þeirri ákvörðun, þrátt fyrir að tölvupóstur þess efnis liggi nú þegar fyrir í gögnum málsins. Kærandi ítreki að óskað hafi verið eftir rökstuðningi þann 23. desember 2020 vegna umsóknar um sérstakan húsnæðisstuðning aftur í tímann, þ.e. fyrir tímabilið 1. mars 2020 til 31. ágúst 2020. Það sé ámælisvert að áfrýjunarnefnd velferðarráðs Reykjavíkurborgar haldi öðru fram en komi skýrt fram í gögnum málsins.
Í rökstuðningi áfrýjunarnefndar velferðarráðs Reykjavíkurborgar frá 16. febrúar 2021 sé vakin athygli á því að hægt sé að skjóta ákvörðun félagsmálanefndar til úrskurðarnefndar velferðarmála og skuli það gert innan þriggja mánaða frá því að rökstuðningur hafi verið birtur. Því sé það rangt sem áfrýjunarnefnd velferðarráðs Reykjavíkurborgar haldi fram þann 20. ágúst í svari til úrskurðarnefndar velferðarmála, þ.e. að kærandi hafi þurft að áfrýja ákvörðun frá 16. febrúar 2021 til áfrýjunarnefndar til þess að fá skoðun hjá úrskurðarnefnd velferðarmála.
III. Sjónarmið Reykjavíkurborgar
Í greinargerð Reykjavíkurborgar er greint frá aðstæðum kæranda. Tekið er fram að kærandi hafi sótt um sérstakan húsnæðisstuðning þann 14. september 2020, fyrir tímabilið 1. mars 2020 til 31. ágúst 2020, en umsókninni hafi verið synjað með bréfi þjónustumiðstöðvar þann 22. september 2020. Synjunin hafi verið byggð á því að umsóknin hefði borist of seint, sbr. 9. gr. reglna Reykjavíkurborgar um sérstakan húsnæðisstuðning. Kærandi hafi skotið fyrrgreindri ákvörðun til áfrýjunarnefndar velferðarráðs Reykjavíkurborgar með bréfi, dags. 2. október 2020. Áfrýjunarnefndin hafi staðfest ákvörðun þjónustumiðstöðvar með bréfi þann 21. desember 2020.
Í apríl 2019 hafi kærandi fengið greiddan sérstakan húsnæðisstuðning aftur í tímann frá janúar 2017. Um hafi verið að ræða uppgjör og leiðréttingu á grundvelli dóms Hæstaréttar í máli nr. 728/2015. Kærandi hafi fengið sent bréf með þeim upplýsingum í apríl 2019 og tekið hafi verið fram að umsóknina þyrfti að endurnýja fyrir 29. febrúar 2020. Kæranda hafi verið sent bréf, dags. 16. janúar 2020, þar sem hún hafi verið minnt á að hún þyrfti að endurnýja umsókn um sérstakan húsnæðisstuðning fyrir 29. febrúar 2020 sem hún hafi ekki gert.
Kærandi hafi ekki endurnýjað umsóknina fyrr en þann 14. september 2020 og henni hafi verið synjað um sérstakan húsnæðisstuðning fyrir tímabilið 1. mars 2020 til 31. ágúst 2020 sem fyrr segi. Sama dag og hún hafi endurnýjað umsóknina hafi hún einnig skilað inn nýrri umsókn vegna tímabils eftir 31. ágúst 2020 sem hafi verið synjað þar sem kærandi hafi ekki fullnægt skilyrðum 4. tölul. 1. mgr. 3. gr. reglna Reykjavíkurborgar um sérstakan húsnæðisstuðning um stigagjöf samkvæmt matsviðmiðum reglnanna. Þeirri ákvörðun hafi ekki verið áfrýjað og komi því ekki til skoðunar hér. Kærandi hafi hins vegar óskað eftir rökstuðningi fyrir þeirri ákvörðun sem hafi ekki verið veittur fyrr en þann 16. febrúar 2021.
Um sérstakan húsnæðisstuðning gildi reglur Reykjavíkurborgar um sérstakan húsnæðisstuðning sem hafi verið samþykktar á fundi velferðarráðs þann 3. nóvember 2016 og á fundi borgarráðs þann 10. nóvember 2016. Umræddar reglur séu settar á grundvelli laga nr. 75/2016 um húsnæðisbætur, auk 2. mgr. 45. gr. laga nr. 40/1991 um félagsþjónustu sveitarfélaga nr. 40/1991.
Kæran geti einungis tekið til endurnýjun umsóknar vegna tímabilsins 1. mars 2020 til 31. ágúst 2021. Samkvæmt 9. gr. reglna Reykjavíkurborgar um sérstakan húsnæðisstuðning þurfi umsækjandi að endurnýja umsókn innan 12 mánaða frá umsóknardegi og síðan á 12 mánaða fresti. Kærandi hafi fengið bréf þar sem hún hafi verið minnt á að endurnýja umsókn sína, þ.e. þann 19. apríl 2019 og 16. janúar 2020. Kærandi hafi ekki sinnt þeim áminningum og því hafi umsókn hennar fallið úr gildi fyrir tímabilið 1. mars 2020 til 31. ágúst 2020.
Þann 14. september 2020 hafi kærandi, samhliða umsókn um endurnýjun er mál þetta snúi að, einnig sent inn nýja umsókn vegna tímabils eftir 31. ágúst 2020 sem hafi verið synjað með bréfi, dags. 24. nóvember 2020, eftir að kæran hafi verið lögð fram. Synjunin hafi verið byggð á því að samkvæmt 4. tölul. 1. mgr. 3. gr. reglna Reykjavíkurborgar um sérstakan húsnæðisstuðning þurfi staða umsækjanda að vera metin að lágmarki til sex stiga, þar af að lágmarki til tveggja stiga hvað varði félagslegar aðstæður, sbr. matsviðsmið í fylgiskjali með reglunum. Umsókn kæranda hafi verið metin til fimm stiga og þar af tveggja stiga vegna félagslegra aðstæðna. Kærandi hafi óskað eftir rökstuðningi á þessari ákvörðun þjónustumiðstöðvar og hann hafi verið veittur með bréfi þann 16. febrúar 2021. Þessari ákvörðun hafi aldrei verið áfrýjað til áfrýjunarnefndar velferðarsviðs Reykjavíkurborgar og því verði hún ekki til umfjöllunar hér.
Kæra til úrskurðarnefnda velferðarmála í því máli sem hér sé til meðferðar hafi borist of seint þar sem kærufrestur hafi runnið út þann 21. mars 2021 en kæran hafi verið lögð fram 14. maí 2021. Þegar aðili fari fram á rökstuðning samkvæmt 21. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 hefjist kærufrestur ekki fyrr en rökstuðningur hafi verið tilkynntur honum, sbr. 27. gr. laganna. Beiðni um rökstuðning hafi vikið að synjun nýrrar umsóknar kæranda vegna tímabils eftir 31. ágúst 2020 sem hafi verið synjað á þeirri forsendu að skilyrði um stigagjöf væri ekki fullnægt.
Þar sem rökstuðningurinn hafi ekki lotið að hinni kærðu ákvörðun hafi hann ekki leitt til þess að kærufrestur lengdist sem þeirri töf næmi sem hafi orðið á að hann yrði veittur, þ.e. frá 16. febrúar 2021. Kærufrestur hinnar kærðu ákvörðunar sé þrír mánuðir sem hafi byrjað að telja frá því að ákvörðun hafi verið birt kæranda þann 21. desember 2020. Af því leiði að vísa beri málinu frá þar sem kæra hafi borist of seint, sbr. 20. gr. reglna Reykjavíkurborgar um sérstakan húsnæðisstuðning.
Með hliðsjón af öllu því sem að framan greini sé ljóst að ákvörðun áfrýjunarnefndar velferðarráðs Reykjavíkurborgar hafi hvorki brotið gegn fyrrgreindum reglum Reykjavíkurborgar um sérstakan húsnæðisstuðning, sbr. 2. mgr. 45. gr. laga nr. 40/1991 um félagsþjónustu sveitarfélaga, né öðrum ákvæðum laga nr. 40/1991 eða stjórnsýslulaga nr. 37/1993.
Í athugasemdum Reykjavíkurborgar kemur fram að óumdeilt sé að sú ákvörðun þjónustumiðstöðvar sem hafi verið áfrýjað af hálfu kæranda til áfrýjunarnefndar velferðarráðs Reykjavíkurborgar sé ákvörðun um umsókn, dags. 14. september 2020, um sérstakan húsnæðisstuðning aftur í tímann, þ.e. fyrir tímabilið 1. mars 2020 til 31. ágúst 2020. Synjun áfrýjunarnefndar velferðarráðs Reykjavíkurborgar hafi legið fyrir þann 21. desember 2020. Ekki hafi verið óskað eftir rökstuðningi og því lengist kærufresturinn ekki og því sé kæran of seint fram komin.
Ákvörðun þjónustumiðstöðvar, dags. 24. nóvember 2020, um að synja umsókn um sérstakan húsnæðisstuðning vegna tímabilsins eftir 31. ágúst 2020, sem einnig hafi verið lögð fram 14. september 2020, hafi verið synjað á þeirri forsendu að kærandi næði ekki þeim stigum sem áskilin séu í 4. tölul. 1. mgr. 3. gr. reglna Reykjavíkurborgar um sérstakan húsnæðisstuðning. Hér hafi verið óskað eftir rökstuðningi, sem hafi ekki verið veittur fyrr en 16. febrúar 2021, sem hafi almennt áhrif á kærufrest eins og nánar sé lýst í greinargerð.
Í rökstuðningi frá 16. febrúar 2021 komi fram að kærandi fullnægði ekki þeim kröfum sem gerðar séu samkvæmt matsviðmiði er fylgi reglum Reykjavíkurborgar um sérstakan húsnæðisstuðning. Kærandi hafi ekki náð þeim sex stigum sem áskilin séu eins og fram hafi komið. Þessari ákvörðun hafi þó ekki verið áfrýjað til áfrýjunarnefndar velferðarráðs Reykjavíkurborgar og komi því ekki til skoðunar hjá úrskurðarnefnd velferðarmála. Þó megi upplýsa að greinargerð til úrskurðarnefndar velferðarmála í slíku máli hefði að líkindum veitt sambærileg svör og veittur rökstuðningur í málinu.
Það sem sé mögulega að vefjast fyrir kæranda sé að ekki hafi farið fram mat á aðstæðum hennar þegar greiddur hafi verið sérstakur húsnæðisstuðningur samkvæmt dómi Hæstaréttar í máli nr. 728/2015. Við endurnýjun umsókna hafi farið fram mat á aðstæðum samkvæmt gildandi reglum og kærandi hafi þá ekki fullnægt lögbundnum skilyrðum.
Í athugasemdum Reykjavíkurborgar frá 1. október 2021 kemur fram að aðallega sé á því byggt að kærufrestur sé liðinn, sbr. fyrri rök þar að lútandi. Þó sé ljóst að kærandi hafi óskað eftir rökstuðningi vegna tímabilsins 1. mars 2020 til 31. ágúst 2020 með tölvupósti frá 23. desember 2020. Rökstuðningur sá er hafi verið veittur þann 16. febrúar 2021 hafi verið vegna annarrar ákvörðunar um sérstakan húsnæðisstuðning, þ.e. vegna tímabils eftir 31. ágúst 2020, en fyrir hafi legið tvö mál eins fram hafi komið. Kærandi hafi hins vegar ekki gert athugasemdir vegna þessa. Það sé ekki fyrr en við málarekstur fyrir úrskurðarnefndinni að þetta hafi komið í ljós. Óháð því hvaða áhrif það hafi að mati úrskurðarnefndar velferðarmála, muni Reykjavíkurborg taka afstöðu til mats þjónustumiðstöðvar á stöðu kæranda samkvæmt matsviðmiðum er fylgi reglum Reykjavíkurborgar um sérstakan húsnæðisstuðning.
Um sérstakan húsnæðisstuðning gildi reglur Reykjavíkurborgar sem hafi verið samþykktar á fundi velferðarráðs þann 3. nóvember 2016 og á fundi borgarráðs þann 10. nóvember 2016, með síðari breytingum. Í 3. gr. reglna Reykjavíkurborgar um sérstakan húsnæðisstuðning sé að finna skilyrði fyrir því að umsókn um sérstakan húsnæðisstuðning sé samþykkt en öll skilyrði ákvæðisins þurfi að vera uppfyllt. Í 4. tölul. 1. mgr. 3. gr. reglnanna segir að staða umsækjanda verði að vera metin að lágmarki til sex stiga, þar af að lágmarki til tveggja stiga hvað varði félagslegar aðstæður, sbr. matsviðsmið í fylgiskjali með reglunum. Samkvæmt matsviðmiðunum hafi umsókn kæranda verið metin til fimm stiga, þar af til tveggja stiga vegna félagslegra aðstæðna. Fyrrgreind matsviðmið séu þríþætt, þ.e. staða umsækjanda, húsnæðisstaða og félagslegar aðstæður umsækjanda.
Staða kæranda hafi verið metin til tveggja stiga þar sem hún sé örorkulífeyrisþegi með 75%. örorkumat. Kærandi hafi verið metin til eins stigs í húsnæðisstöðu þar sem húsnæðiskostnaður sé meira en 20% af heildartekjum, að teknu tilliti til húsnæðisbóta. Um félagslega stöðu segi um kæranda að hún hafi ekki þegið félagslega aðstoð og ekki fengið neinn stuðning, annan en fjárhagslegan, á undanförnum 12 mánuðum og hafi staða hennar því verið metin til tveggja stiga. Til þess að vera metinn til fleiri stiga vegna félagslegrar stöðu þurfi eitthvað af eftirfarandi að eiga við samkvæmt matsviðmiðum fyrir sérstakan húsnæðisstuðning:
„Málefni barns hefur verið í umfangsmikilli vinnslu þjónustumiðstöðva á undanförnum 24 mánuðum þar sem barnið hefur fengið bæði aðstoð á grundvelli skóla- og félagsþjónustu eða mál þess verið til meðferðar hjá Barnavernd Reykjavíkur á undanförnum 24 mánuðum: fjögur stig.
Umsækjandi glímir við fjölþættan vanda og hefur fengið umfangsmikinn stuðning þjónustumiðstöðvar, annan en fjárhagslegan, í að lágmarki 24 mánuði: fjögur stig.
Umsækjandi glímir við alvarleg langvinn veikindi sem hafa veruleg áhrif á fjárhagsog húsnæðisstöðu samkvæmt faglegu mati félagsráðgjafa: fjögur stig.“
Til þess að geta fengið fjögur stig vegna félagslegra aðstæðna þurfi nokkuð meira að koma til umfram það sem gildi um kæranda. Það sé því mat þjónustumiðstöðvar Laugardals og Háaleitis að staða kæranda sé í heild metin til fimm stiga.
Með hliðsjón af öllu framangreindu sé ljóst að ákvörðun velferðarráðs Reykjavíkurborgar hafi hvorki brotið gegn fyrrgreindum reglum um sérstakan húsnæðisstuðning, sbr. 2. mgr. 45. gr. laga nr. 40/1991 um félagsþjónustu sveitarfélaga, né öðrum ákvæðum laga nr. 40/1991, með síðari breytingum.
IV. Niðurstaða
Ágreiningur máls þessa lýtur að synjun Reykjavíkurborgar á tveimur umsóknum kæranda um sérstakan húsnæðisstuðning, báðum dagsettum 14. september 2020. Af hálfu Reykjavíkurborgar var litið svo á að önnur umsóknin lyti að greiðslu fyrir tímabilið 1. mars 2020 til 31. ágúst 2020 en hin vegna tímabilsins frá 1. september 2020. Teknar voru tvær aðskildar ákvarðanir vegna umsóknanna en undir rekstri málsins hjá úrskurðarnefnd velferðarmála kom í ljós að málin höfðu skarast hvað varðar áfrýjun til áfrýjunarnefndar velferðarráðs og beiðni um rökstuðning. Vegna þessa er það mat úrskurðarnefndarinnar að taka beri til umfjöllunar báðar ákvarðanir og er vafi um málsmeðferðina þar metinn kæranda í hag, auk þess sem Reykjavíkurborg hefur komið á framfæri afstöðu sinni til beggja ákvarðana í greinargerðum til nefndarinnar. Verður fyrst vikið að synjun Reykjavíkurborgar um greiðslu sérstaks húsnæðisstuðnings fyrir tímabilið 1. mars 2020 til 31. ágúst 2020.
Í IV. kafla laga nr. 40/1991 um félagsþjónustu sveitarfélaga er að finna almenn ákvæði um rétt til félagsþjónustu á vegum sveitarfélaga. Þar segir í 12. gr. að sveitarfélag skuli sjá um að veita íbúum þjónustu og aðstoð samkvæmt lögunum og jafnframt tryggja að þeir geti séð fyrir sér og sínum. Aðstoð og þjónusta skal jöfnum höndum vera til þess fallin að bæta úr vanda og koma í veg fyrir að einstaklingar og fjölskyldur komist í þá aðstöðu að geta ekki ráðið fram úr málum sínum sjálf, sbr. 2. mgr. 12. gr. Með félagsþjónustu er átt við þjónustu, aðstoð og ráðgjöf, meðal annars í tengslum við húsnæðismál, sbr. 1. mgr. 2. gr. Samkvæmt 2. mgr. 45. gr. laga nr. 40/1991 skulu sveitarfélög veita sérstakan húsnæðisstuðning í samræmi við nánari reglur sem sveitarstjórn setur.
Reykjavíkurborg hefur sett reglur um sérstakan húsnæðisstuðning í samræmi við 2. mgr. 45. gr. laga nr. 40/1991 til útfærslu á þeirri þjónustu sem sveitarfélögum er skylt að veita samkvæmt 45. gr. laganna. Sérstakur húsnæðisstuðningur er fjárstuðningur til greiðslu á húsaleigu umfram húsnæðisbætur sem veittar eru á grundvelli laga nr. 75/2016 um húsnæðisbætur og ætlaður þeim fjölskyldum og einstaklingum sem ekki eru á annan hátt færir um að sjá sér fyrir húsnæði sökum lágra launa, þungrar framfærslubyrðar og félagslegra aðstæðna, sbr. 1. og 2. mgr. 1. gr. reglna Reykjavíkurborgar um sérstakan húsnæðisstuðning.
Í 9. gr. reglnanna er kveðið á um endurnýjun umsóknar. Þar segir að til þess að viðhalda gildi umsókna þurfi umsækjandi að endurnýja umsókn innan 12 mánaða frá umsóknardegi og síðan á 12 mánaða fresti frá þeim degi. Endurnýjun umsóknar skuli vera skrifleg.
Samkvæmt upplýsingum frá Reykjavíkurborg fékk kærandi í apríl 2019 greiddan sérstakan húsnæðisstuðning aftur í tímann frá janúar 2017. Um var að ræða uppgjör og leiðréttingu á grundvelli dóms Hæstaréttar í máli nr. 728/2015, án þess að send væri inn formleg umsókn í kjölfar dómsins. Kærandi hafi fengið sent bréf með þeim upplýsingum í apríl 2019 og tekið hafi verið fram að umsóknina þyrfti að endurnýja fyrir 29. febrúar 2020. Kæranda hafi síðan aftur verið sent bréf, dags. 16. janúar 2020, þar sem hún hafi verið minnt á að umsókn um sérstakan húsnæðisstuðning þyrfti að endurnýja fyrir 29. febrúar 2020. Í málinu liggur fyrir að kærandi gerði það ekki fyrr en 14. september 2020 og hefur hún vísað til þess að bréf þess efnis að komið væri að endurnýjun hefði ekki borist, hvorki með bréfpósti né tölvupósti.
Vegna þessara athugasemda kæranda óskaði úrskurðarnefndin eftir upplýsingum um hvort bréfin tvö, frá apríl 2019 og janúar 2020, hefðu einungis verið send kæranda með bréfpósti sem og staðfestingu á sendingu þeirra. Í svari Reykjavíkurborgar kemur fram að öll bréf sem gerð séu í málaskrá eigi að fara út og því sé gengið út frá því að bréfin tvö hafi farið til kæranda. Ekki sé að finna neina skráningu um símtöl eða samtöl í afgreiðslu frá þessum tíma.
Úrskurðarnefndin telur að Reykjavíkurborg hafi ekki getað sýnt fram á að framangreind bréf hafi sannanlega verið send til kæranda og hún þannig fengið vitneskju um að Reykjavíkurborg liti svo á að hún þyrfti að endurnýja umsókn um sérstakan húsnæðisstuðning innan ákveðinna tímamarka. Í því samhengi lítur úrskurðarnefndin einnig til þess að kærandi hafði ekki þegið greiðslur á grundvelli ákveðinnar umsóknar heldur var eins og áður segir um að ræða uppgjör vegna dóms Hæstaréttar og síðan reglulegar greiðslur í kjölfar uppgjörsins. Því var ekki um að ræða eiginlegan umsóknardag í skilningi 9. gr. reglna Reykjavíkurborgar um sérstakan húsnæðisstuðning. Að því virtu, og í ljósi þess að niðurstaða Reykjavíkurborgar byggði niðurstöðu sína í þessum þætti málsins eingöngu á því að umsókn kæranda væri of seint fram komin, er það niðurstaða úrskurðarnefndarinnar að fella úr gildi ákvörðun Reykjavíkurborgar um að synja umsókn kæranda um greiðslu sérstaks húsnæðisstuðnings fyrir tímabilið 1. mars 2020 til 31. ágúst 2020. Þeim hluta málsins er því vísað til nýrrar meðferðar sveitarfélagsins og mats á því hvort kærandi hafi uppfyllt skilyrði fyrir greiðslu sérstaks húsnæðisstuðnings á tímabilinu.
Kemur þá til skoðunar ákvörðun Reykjavíkurborgar um að synja kæranda um sérstakan húsnæðisstuðning frá 1. september 2020.
Í 3. gr. framangreindra reglna er kveðið á um skilyrði fyrir samþykki umsóknar og þarf umsækjandi að uppfylla öll skilyrði sem fram koma í 1.–6. tölul. 1. mgr. ákvæðisins. Þá þurfa skilyrðin að vera uppfyllt á meðan umsækjandi fær greiddan sérstakan húsnæðisstuðning. Samkvæmt 4. tölul. þarf staða umsækjanda að vera metin til sex stiga, þar af að lágmarki til tveggja stiga hvað varðar félagslegar aðstæður, sbr. matsviðmið í fylgiskjali með reglunum.
Í fyrsta lið matsviðmiðsins er greint frá stigagjöf vegna stöðu umsækjanda; þar segir:
0 stig Staða umsækjanda er önnur en getið er hér að neðan
2 stig Örorkulífeyrisþegi með 75% örorkumat
2 stig Ellilífeyrisþegi
2 stig Framfærsla hjá þjónustumiðstöð vegna langvarandi atvinnuleysis eða óvinnufærni
Í öðrum lið matsviðmiðsins er greint frá stigagjöf vegna húsnæðisstöðu umsækjanda; þar segir:
0 stig Er með húsnæði. Húsnæðiskostnaður að teknu tilliti til húsnæðisbóta er minni en 20% af tekjum heimilisins
1 stig Er með húsnæði. Húsnæðiskostnaður er íþyngjandi; húsnæðiskostnaður að teknu tilliti til húsnæðisbóta er meiri en 20% af tekjum heimilisins
2 stig Er með húsnæði. Húsnæðiskostnaður er verulega íþyngjandi; húsnæðiskostnaður að teknu tilliti til húsnæðisbóta er meiri en 30% af tekjum heimilisins
2 stig Óöruggt húsnæði, þ.e. gistir hjá vinum og/eða ættingjum
4 stig Gistir í neyðarathvarfi eða á gistiheimili
4 stig Heilsuspillandi húsnæði samkvæmt mati Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur eða húsnæði er sannanlega óíbúðarhæft af öðrum ástæðum og veruleg vandkvæði eru bundin við að finna nýtt húsnæði
Í þriðja lið matsviðmiðsins er greint frá stigagjöf vegna félagslegra aðstæðna umsækjanda; þar segir:
0 stig Aðstæður umsækjanda eru betri en getið er hér að neðan
2 stig Umsækjandi glímir við félagslegan vanda og hefur fengið umfangsmikinn stuðning þjónustumiðstöðvar, annan en fjárhagslegan, á undanförnum 12 mánuðum
4 stig Málefni barns hefur verið í umfangsmikilli vinnslu þjónustumiðstöðva á undanförnum 24 mánuðum þar sem barnið hefur fengið bæði aðstoð á grundvelli skóla- og félagsþjónustu eða mál þess verið til meðferðar hjá Barnavernd Reykjavíkur á undanförnum 24 mánuðum.
4 stig Umsækjandi glímir við fjölþættan vanda og hefur fengið umfangsmikinn stuðning þjónustumiðstöðvar, annan en fjárhagslegan, í að lágmarki 24 mánuði
4 stig Umsækjandi glímir við alvarleg langvinn veikindi sem hafa veruleg áhrif á fjárhags- og húsnæðisstöðu samkvæmt faglegu mati félagsráðgjafa
Í gögnum málsins liggur fyrir mat á aðstæðum kæranda. Samkvæmt því var staða kæranda metin til tveggja stiga þar sem hún er örorkulífeyrisþegi og húsnæðisstaða hennar var metin til eins stigs þar sem húsnæðiskostnaður væri meiri en 20% af tekjum heimilisins. Þá voru félagslegar aðstæður kæranda metnar til tveggja stiga. Kærandi uppfyllti því ekki skilyrði 4. tölul. 1. mgr. 3. gr. reglnanna. Úrskurðarnefndin telur ekki ástæðu til að gera athugasemd við stigagjöf vegna stöðu og húsnæðisstöðu kæranda, enda verður að telja ljóst að aðrir liðir matsviðmiðsins eigi ekki við um aðstæður hennar. Hvað varðar félagslegar aðstæður kæranda er það mat úrskurðarnefndarinnar að gögn málsins bendi ekki til þess að aðrir liðir matsviðmiðsins eigi við um aðstæður hennar.
Með vísan til alls framangreinds er það niðurstaða úrskurðarnefndar velferðarmála að staðfesta ákvörðun Reykjavíkurborgar um að synja kæranda um greiðslu sérstaks húsnæðisstuðnings frá 1. september 2020.
Ú R S K U R Ð A R O R Ð
Ákvörðun Reykjavíkurborgar um að synja umsókn A, um greiðslu sérstaks húsnæðisstuðnings fyrir tímabilið 1. mars 2020 til 31. ágúst 2020 er felld úr gildi og vísað til nýrrar meðferðar sveitarfélagsins.
Ákvörðun Reykjavíkurborgar um að synja kæranda um greiðslu sérstaks húsnæðisstuðnings frá 1. september 2020 er staðfest.
F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála
Hólmfríður Birna Guðmundsdóttir