Hoppa yfir valmynd

Mál nr. 411/2021 - Úrskurður

 

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 411/2021

Fimmtudaginn 4. nóvember 2021

A

gegn

Vinnumálastofnun

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Hólmfríður Birna Guðmundsdóttir lögfræðingur, Agnar Bragi Bragason lögfræðingur og Arnar Kristinsson lögfræðingur.

Með kæru, dags. 12. ágúst 2021, kærði A, til úrskurðarnefndar velferðarmála ákvörðun Vinnumálastofnunar, dags. 3. júní 2021, um 80% bótarétt.

I.  Málsatvik og málsmeðferð

Kærandi sótti um greiðslur atvinnuleysisbóta hjá Vinnumálastofnun 20. janúar 2021. Með ákvörðun, dags. 9. febrúar 2021, var kæranda tilkynnt að umsókn hans um atvinnuleysisbætur hefði verið samþykkt og bótaréttur metinn 100%. Með ákvörðun, dags. 3. júní 2021, var kæranda tilkynnt að samkvæmt viðmiðunartekjum Ríkisskattstjóra næði vinna hans hjá síðasta vinnuveitanda ekki 100%. Útreiknaður bótaréttur væri því metinn 80%.

Kæra barst úrskurðarnefnd velferðarmála 12. ágúst 2021. Með bréfi, dags. 13. ágúst 2021, óskaði úrskurðarnefndin eftir greinargerð Vinnumálastofnunar ásamt gögnum málsins. Greinargerð Vinnumálastofnunar barst með bréfi, dags. 17. september 2021, og var hún send kæranda til kynningar með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 21. september 2021. Viðbótargögn bárust frá kæranda 5. október 2021 og voru þau send Vinnumálastofnun til kynningar með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 7. október 2021. Athugasemdir bárust ekki.

II.  Sjónarmið kæranda

Kærandi tekur fram að hann hafi vissulega verið undir háum viðmiðum skattsins, sbr. laun framkvæmdastjóra, undanfarin ár en laun hans hafi miðast við taxta VR og yfirleitt verið yfir þeim. Vissulega hefðu launin mátt vera hærri á þessu viðmiðunartímabili eins og framkvæmdastjóra sæmir í stöndugum fyrirtækjum og þau endurspegli heldur ekki vinnuframlagið sem búi að baki, sem iðulega hafi verið yfir 100% eins og gjarnan sé í smærri fyrirtækjum þar sem eigendur vinni sjálfir og gangi í flest störf. Alltaf hafi verið greitt í lífeyrissjóð miðað við 100% starf. Húsnæðisflutningar og endurnýjun á búnaði á liðnum árum útskýri hlutfallslega háan rekstrarkostnað fyrirtækisins á liðnum árum og eins og oft vilji verða mæti eigendur þá afgangi í launum. Í liðnum „Staðgreiðsla og reiknað endurgjald - Almennt- Staðgreiðsluskil- Tekjur lægri en viðmiðunarfjárhæðir“ hjá Skattinum komi eftirfarandi fram:

"Ef óskað er eftir að manni sé ákveðið lægra endurgjald en svarar til viðmiðunarfjárhæðanna skulu koma fram upplýsingar um umfang og eðli starfseminnar og starfs hans, upplýsingar um önnur launuð störf og eftir því sem við á, upplýsingar um verð á útseldri vinnu hans eða starfsmanna sem vinna í þjónustu hans. Ef um er að ræða atvinnurekstur manns þarf ennfremur að gera grein fyrir afkomu rekstrarins á síðastliðnu ári og leggja fram áætlun um rekstur og tekjur á staðgreiðsluárinu, svo og gera grein fyrir hvaða fjármagn sé bundið í rekstrinum."

Kærandi velti því fyrir sér hvort þessi klausa eigi ekki einmitt við um hans mál. Þess utan bendi kærandi á að þegar hann hafi verið á hlutabótaleiðinni árið 2020 hafi sú leið alltaf verið miðuð við hlutfall af 100% starfi.

III.  Sjónarmið Vinnumálastofnunar

Í greinargerð Vinnumálastofnunar kemur fram að meðal fyrirliggjandi gagna í máli kæranda sé staðfesting á starfstímabili frá fyrrum vinnuveitanda hans, B. Þar komi fram að kærandi hafi starfað þar sem framkvæmdastjóri og við markaðssetningu. Hann hafi starfað þar í 100% starfi á tímabilinu 1. janúar 2018 til 20. janúar 2021. Kæranda hafi verið sagt upp vegna samdráttar í rekstrinum. Með erindi, dags. 3. júní 2021, hafi kæranda verið tilkynnt að þær upplýsingar sem hann hefði fengið sendar með erindi, dags. 9. febrúar 2021, hefðu verið rangar. Bótaréttur kæranda reiknaðist í raun 80% en ekki 100% líkt og honum hafði verið tilkynnt þann 9. febrúar. Ástæða þess hafi verið vegna upplýsinga frá Skattinum um að laun kæranda hafi verið undir lágmarkslaunum, nánar tiltekið að meðaltali 271.517 kr. á mánuði á tímabilinu júní 2018 til mars 2020. 

Vinnumálastofnun tekur fram að lög nr. 54/2006 um atvinnuleysistryggingar gildi um atvinnuleysistryggingar launamanna eða sjálfstætt starfandi einstaklinga á innlendum vinnumarkaði þegar þeir verði atvinnulausir. Ágreiningur í máli þessu snúi að því hvort rétt hafi verið staðið að útreikningi bótaréttar kæranda. Sjálfur fari hann fram á 100% bótarétt.

Samkvæmt fyrirliggjandi upplýsingum í máli kæranda sé hann launamaður í skilningi a-liðar 3. gr. laga um atvinnuleysistryggingar. Kærandi hafi ekki sýnt fram á það með viðeigandi gögnum að hann sé sjálfstætt starfandi einstaklingur eða eigandi B, eins og hann virðist halda fram í kæru til nefndarinnar.

Í 15. gr. laganna sé kveðið á um hvernig reikna skuli bótarétt launamanna í atvinnuleit. Samkvæmt 1. mgr. 15. gr. teljist launamaður að fullu tryggður eftir að hafa starfað samfellt á síðustu tólf mánuðum á innlendum vinnumarkaði áður en hann sæki um atvinnuleysisbætur til Vinnumálastofnunar. Í 5. mgr. 15. gr. sé þó áréttað að tryggingahlutfall launamanns geti aldrei orðið hærra en sem nemi starfshlutfalli hans á ávinnslutímabilinu eða því starfshlutfalli sem hann sé reiðbúinn að ráða sig til. Hafi launamaður ekki verið í sama starfshlutfalli allt ávinnslutímabilið skuli miða við meðalstarfshlutfall hans á þeim tíma. Í raun sé því um tvær reglur að ræða sem spili saman. Annars vegar sé litið til starfstíma og hins vegar til starfshlutfalls. Sem dæmi megi nefna einstakling sem starfi í 100% starfi. Hafi hann starfað í þrjá mánuði öðlist hann rétt til lágmarksatvinnuleysisbóta, 25%. Hafi sá hinn sami starfað í sex mánuði ávinni hans sér rétt til 50% atvinnuleysisbóta. Tólf mánaða starf í 100% starfshlutfalli veiti þannig rétt til 100% bóta.

Við mat á tryggingahlutfalli kæranda hafi verið horft til síðustu 36 mánaða frá því að hann hafi sótt um greiðslu atvinnuleysistrygginga, sbr. 3. mgr. 23. gr. laga um atvinnuleysistryggingar. Samkvæmt fyrirliggjandi upplýsingum frá Skattinum hafi kærandi starfað hjá B á ávinnslutímabilinu í 26 mánuði, þ.e. á tímabilinu janúar 2018 til mars 2020. Frá apríl til desember 2020 hafi kærandi fengið greiddar hlutabætur sem ekki teljist með í bótarétt kæranda.

Í 2. mgr. 16. gr. sé Vinnumálastofnun veitt heimild til þess að óska eftir frekari upplýsingum frá skattyfirvöldum til að staðreyna þær upplýsingar er fram komi í umsókn eða vottorði samkvæmt 1. mgr. Segi þar jafnframt að þegar staðreyna skuli starfshlutfall hins tryggða skuli Vinnumálastofnun meðal annars líta til þess hvort laun hins tryggða hafi verið í samræmi við tilgreint starfshlutfall á ávinnslutímabilinu og skuli þá miða við ákvæði gildandi kjarasamnings í viðkomandi starfsgrein á því svæði sem hinn tryggði hafi starfað. Þegar Vinnumálastofnun staðreyni upplýsingar um starfshlutfall hins tryggða með ofangreindum hætti hafi stofnunin í framkvæmd miðað við lágmarkskjör samkvæmt kjarasamningum Eflingar. Samkvæmt upplýsingum frá Skattinum hafi meðallaun kærða á ávinnslutímabilinu verið lægri en lágmarkskjör kjarasamninga Eflingar kveði á um. Bótahlutfall kæranda reiknist því sem hlutfall af lágmarkskjörum, þ.e. 80%.

Í ljósi framangreindra sjónarmiða reiknist bótaréttur kæranda 80%. Ástæða þess að kærandi hafi ekki áunnið sér rétt til 100% bótahlutfalls sé sú að laun hans á ávinnslutímabilinu hafi verið lægri en lágmarkskjör. Það sé því niðurstaða Vinnumálastofnunar að bótaréttur kæranda skuli reiknast 80% með vísan til 5. mgr. 15. gr. og 2. mgr. 16. gr. laga um atvinnuleysistryggingar. 

IV.  Niðurstaða

Kærð er ákvörðun Vinnumálastofnunar um 80% bótarétt kæranda.

Í 1. gr. laga nr. 54/2006 um atvinnuleysistryggingar er kveðið á um gildissvið laganna, en þar segir að lögin gildi um atvinnuleysistryggingar launamanna eða sjálfstætt starfandi einstaklinga á innlendum vinnumarkaði þegar þeir verða atvinnulausir. Í 2. gr. laganna kemur fram að markmið þeirra sé að tryggja launamönnum eða sjálfstætt starfandi einstaklingum tímabundna fjárhagsaðstoð á meðan þeir eru að leita sér að nýju starfi eftir að hafa misst fyrra starf sitt. Launamaður er hver sá sem vinnur launuð störf í annarra þjónustu í að minnsta kosti 25% starfshlutfalli í hverjum mánuði og greitt er tryggingagjald vegna starfsins samkvæmt lögum um tryggingagjald, sbr. a-lið 3. gr. laganna. Sjálfstætt starfandi einstaklingur er hver sá sem starfar við eigin atvinnurekstur eða sjálfstæða starfsemi í því umfangi að honum sjálfum er gert að standa mánaðarlega, eða með öðrum reglulegum hætti samkvæmt reglum Ríkisskattstjóra um reiknað endurgjald, skil á staðgreiðslu af reiknuðu endurgjaldi og tryggingagjaldi vegna starfs síns, sbr. b-lið 3. gr. laganna.

Ákvörðun Vinnumálastofnunar um 80% bótarétt kæranda var tekin á þeirri forsendu að kærandi hefði verið launamaður í skilningi a-liðar 3. gr. laga nr. 54/2006 um atvinnuleysistryggingar. Undir rekstri málsins hjá úrskurðarnefnd velferðarmála lagði kærandi fram ný gögn vegna tiltekins einkahlutafélags. Ljóst er að þau gögn lágu ekki fyrir þegar Vinnumálastofnun tók hina kærðu ákvörðun. Með vísan til þess er það mat úrskurðarnefndarinnar að tilefni sé fyrir Vinnumálastofnun að leggja mat á þau gögn og taka nýja ákvörðun um bótarétt kæranda. Hin kærða ákvörðun er því felld úr gildi og málinu vísað til nýrrar meðferðar Vinnumálastofnunar.  

 

 


 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Ákvörðun Vinnumálastofnunar, dags. 3. júní 2021, um 80% bótarétt A er felld úr gildi og málinu vísað til nýrrar meðferðar stofnunarinnar.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

Hólmfríður Birna Guðmundsdóttir

 

 

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta