Hoppa yfir valmynd

Mál nr. 48/2004

Mál nr. 48/2004

Þriðjudaginn, 25. janúar 2005

A

gegn

Tryggingastofnun ríkisins

 

Úrskurður

Mál þetta úrskurðuðu Guðný Björnsdóttir hdl., Gunnlaugur Sigurjónsson læknir og Heiða Gestsdóttir lögfræðingur.

Þann 4. nóvember 2004 barst úrskurðarnefnd fæðingar- og foreldraorlofsmála kæra A, dagsett 1. nóvember 2004.

Kærð var ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins sem tilkynnt var með bréfi dagsettu 3. september um að synja kæranda um greiðslu fæðingarstyrks sem námsmanni.

 

Í rökstuðningi með kæru segir meðal annars.:

„Þann 18. júlí 2004 fæddust eineggja tvíburarnir, B og D á fæðingardeild E-spítala. Þær fæddust eftir mjög erfiða 35 vikna meðgöngu og voru allan tímann litlar líkur á því að þær héldu lífi vegna F-Syndrome...

Frá janúar 2004 var A í 75-100% námi samkvæmt upplýsingum námsráðgjafa sem taldi það nægja henni þar sem meðgangan olli henni strax ógleði og vanlíðan. Sagði námsráðgjafinn að hún væri samt örugg með fæðingarstyrk námsmanna, því 75% nám í G-háskóla dygði. A tókst að ljúka allri skólasókn og öllum verkefnum en einmitt þegar prófin áttu að byrja í apríl var hún send í aðgerðina í H-landi. Hún talaði þá strax við námsráðgjafann sem að hjálpaði henni að sækja um próffrest en prófin á hún að taka í apríl/maí 2005 þegar prófað verður úr þeim áföngum sem hún sótti. Sótt var um sjúkradagpeninga að ráði læknis þar sem A átti ekki lengur rétt á námsláninu frá LÍN.

Nokkru eftir fæðingu tvíburanna var sótt um fæðingarstyrk. Í svarbréfi Tryggingastofnunar dags. 13. ágúst er umsókn um fæðingarstyrk námsmanna hafnað á þeirri forsendu að A uppfylli ekki skilyrði um 6 mánaða samfellt nám fyrir fæðingu barns en þær fæddust 18. júlí. Teljast ekki sex mánuðir frá janúar til 18. júlí þegar um námsmenn er að ræða, námsmenn sem býðst ekki einu sinni að taka kúrsa á sumarönn og eru þar að auki óhæfir til þess að stunda nám af heilsufarsástæðum? Þegar börn námsmanna eru fædd í október er þá sumarið dregið frá, þegar mánuðir eru taldir. Þeir gagnrýna einnig tveggja mánaða I-nám hennar í J-landi frá byrjun október og fram í desember og kalla það námskeið þrátt fyrir 5 klst. nám/dag fimm daga vikunnar, heimavinnu og prófum.

A hafi ekki verið í 75-100% námi en þar stendur orð á móti orði, skv. námsráðgjafa G-háskóla (sjá meðfylgjandi staðfestingu um nám). Nám hennar í G-háskóla frá janúar er því ekki metið og þess vegna skyggnst til baka til haustsins 2003.

Samkvæmt bréfinu er heimilt að greiða móður fæðingarstyrk þótt hún fullnægi ekki þessum skilyrðum um ástundun ef ástæðan er slæmt heilsufar á meðgöngu. Þá er skilyrði að hún hafi verið skráð í a.m.k. 75% nám og fengið greidda sjúkradagpeninga en greiðsla sjúkradagpeninga var einmitt afgreitt af Tryggingastofnun og samkvæmt útreikningum G-háskóla var hún í meira en 75% námi eins og áður kom fram. Hverju má þetta ósamræmi sæta?

A og K töluðu við Tryggingastofnun vegna þessa en án árangurs. Hins vegar fengu þau 18 daga aukalega þar sem stúlkurnar fæddust eftir 35 vikna meðgöngu, þurftu stöðugt eftirlit og voru því á vökudeild þann tíma. Dvöl þeirra á vökudeild setti auðvitað strik í reikninginn og truflaði m.a. sumarvinnu föðurins sem er einnig háskólanemi. Eftir heimkomuna þurfti móðirin (sem var sjálf mjög máttfarin og kraftlaus) að fara með aðra stúlkuna í blóðprufur vikulega ásamt því að fylgjast grannt með þeim báðum vegna óþroskaðs magaops og hugsanlegra fatlana.

Það má einnig teljast einkennilegt að ekkert er minnst á þá staðreynd í bréfum Tryggingastofnunar að börnin eru tvö og þó komu inn vottorð frá lækni í þá veru. Í bréfi frá 3. september er aðeins rætt um sex mánuði og 18 daga. Móðir með tvíbura á rétt á þremur mánuðum til viðbótar. Hringt hefur verið inn til að minna á þá staðreynd að börnin séu tvö en ekkert nýtt bréf varðandi lengri greiðslur hefur borist.

Ástæða ferðar þeirra hjóna til J-lands haustið 2003 var sú að þau hugðust stunda nám við ákveðinn háskóla en K hafði lengi beðið eftir tækifæri til þessa náms. Sökum rangra upplýsinga um lánshæfni námsins á vef LÍN varð ekki úr. Þar sem þau höfðu þegar gert leigusamning ákváðu þau að stunda fullt nám í I með það fyrir augum að hefja námið síðar. I-námið stóð í tvo mánuði eins og fram hefur komið...“

 

Með bréfi, dagsettu 9. nóvember 2004, óskaði úrskurðarnefnd fæðingar- og foreldraorlofsmála eftir greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins.

 

Greinargerð lífeyristryggingasviðs Tryggingastofnunar ríkisins er dagsett 6. desember 2004. Í greinargerðinni segir:

„Með bréfi lífeyristryggingasviðs til kæranda, dags. 13. ágúst 2004, var umsókn hennar um fæðingarstyrk námsmanna synjað á þeim grundvelli að hún uppfyllti ekki skilyrðið um 6 mánaða samfellt nám. Þá sagði í bréfinu að kæranda yrði greiddur lægri fæðingarstyrkur í 6 mánuði frá 1. ágúst 2004 og fylgdi bréfinu greiðsluáætlun þess efnis.

Með bréfi lífeyristryggingasviðs til kæranda, dags. 20. ágúst 2004, segir að samkvæmt beiðni eiginmanns hennar hafi afgreiðsla umsóknar hennar verið endurskoðuð og vottorð frá M tekið til sérstakrar skoðunar. Enn fremur var kæranda tilkynnt að endurskoðun þessi breytti ekki fyrri afgreiðslu umsóknar hennar sem fól í sér synjun á umsókn hennar um fæðingarstyrk námsmanna.

Kæranda var á ný sent bréf frá lífeyristryggingasviði þann 23. ágúst 2004 þar sem fram kom að samþykkt hefði verið 18 daga framlenging á sameiginlegum rétti foreldra til greiðslna í fæðingarorlofi vegna veikinda/sjúkrahúsdvalar barna í beinu framhaldi af fæðingu.

Þann 3. september 2004 var kæranda send ný greiðsluáætlun þar sem fæðingarorlof hennar hafði verið lengt um 18 daga frá því sem gerð var grein fyrir í greiðsluáætlun, dags. 13. ágúst 2004.

Þá var kæranda send ný greiðsluáætlun, dags. 4. nóvember 2004, þar sem bætt hefði verið þremur mánuðum við fæðingarorlof hennar, sem áður hafði láðst að gera, á grundvelli 1. mgr. 21. gr. laga nr. 95/2000 um fæðingar- og foreldraorlof (ffl.), sem varðar fjölburafæðingar.

Samkvæmt 1. mgr. 19. gr. ffl. eiga foreldrar í fullu námi rétt á fæðingarstyrk. Skilgreiningu á fullu námi er að finna í 1. mgr. 14. gr. reglugerðar nr. 909/2000, um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði og greiðslu fæðingarstyrks. Þar kemur fram að fullt nám í skilningi ffl. teljist vera 75-100% samfellt nám í viðurkenndri menntastofnun innan hins almanna menntakerfis á Íslandi eða á háskólastigi í a.m.k. sex mánuði á síðustu 12 mánuðum fyrir fæðingu barns. Enn fremur að heimilt sé að meta sambærilegt nám í öðrum ríkjum, enda uppfylli foreldri lögheimilisskilyrði skv. 12. gr. eða undanþáguákvæði 13. gr. Í lokamálslið 1. mgr. 14. gr. reglugerðarinnar er síðan tekið fram að einstök námskeið teljist ekki til fulls náms. Í 2. mgr. 14. gr. reglugerðarinnar, sbr. 3. gr. reglugerðar nr. 915/2002, er kveðið á um að leggja skuli fram staðfestingu frá viðkomandi skóla um að foreldri hafi verið skráð í 75-100% nám og hafi sýnt viðunandi námsárangur.

Heimilt er að veita undanþágu frá skilyrðum um fullt nám þegar foreldri á eftir minna en sem nemur 75% af námi á síðustu önn í námi og ljóst er að viðkomandi er að ljúka ákveðinni prófgráðu, sbr. 1. mgr. 14. gr. reglugerðar nr. 909/2000, sbr. a-lið 2. gr. reglugerðar nr. 915/2002. Þá er heimilt að taka tillit til ástundnar náms á þeirri önn sem barn fæðist, sbr. 2. mgr. 14. gr. reglugerðar nr. 909/2000, sbr. 3. gr. reglugerðar nr. 915/2002. Samkvæmt 4. mgr. 14. gr. reglugerðar nr. 909/2000 er heimilt að greiða foreldri fæðingarstyrk sem námsmanni þrátt fyrir að skilyrðinu um samfellt nám í a.m.k. sex mánuði fyrir fæðingu barns sé ekki fullnægt hafi foreldri verið í samfelldu starfi í a.m.k. sex mánuði á innlendum vinnumarkaði fram til þess að námið hófst. Samkvæmt 5. mgr. 14. gr. reglugerðar nr. 909/2000, sbr. 1. gr. reglugerðar nr. 969/2001, er heimilt að greiða foreldri fæðingarstyrk sem námsmanni þegar foreldri hefur lokið a.m.k. einnar annar námi skv. 1. mgr. 14. gr. og hefur síðan verið samfellt á vinnumarkaði. Í 14. gr. a reglugerðar nr. 909/2000, sbr. 4. gr. reglugerðar nr. 915/2002, segir að heimilt sé að greiða móður fæðingarstyrk sem námsmanni þó að hún fullnægi ekki skilyrðum 2. mgr. 14. gr. um viðunandi námsárangur og/eða ástundun enda hafi hún ekki getað stundað nám á meðgöngu vegna heilsufarsástæðna. Skal hún sannanlega hafa verið skráð í nám og fengið greidda sjúkradagpeninga sem námsmaður eða verið á biðtíma eftir dagpeningum á þeim tíma.

Börn kæranda eru, eins og að framan greinir, fædd 18. júlí 2004. Samkvæmt framangreindri meginreglu var því litið til þess hvort kærandi hefði verið í 75-100% samfelldu námi í a.m.k. sex mánuði á síðustu 12 mánuðum fyrir fæðingu barnanna eða frá 18. júlí 2003 og fram að fæðingu þeirra. Á vorönn 2004 var kærandi skráð í 31 einingu í G-háskóla, sbr. vottorð G-háskóla, dags. 26. apríl 2004. Kærandi lauk engum prófum á vorönninni heldur var ýmist skráð með úrsögn eða vottorð í þeim áföngum sem hún var skráð í, enda var hún samkvæmt framlögðu sjúkradagpeningavottorði, dags. 29. júlí 2004, sögð óvinnufær með öllu frá 5. apríl 2004 og fékk hún greidda sjúkradagpeninga frá 19. apríl 2004 og fram að fæðingu barna hennar. Vorönn G-háskóla hefst í ársbyrjun og lýkur með prófum í maí og telst því að hámarki vera fimm mánuðir. Þó svo að undantekningarheimildin í 14. gr. a. reglugerðar nr. 909/2000, sbr. 4. gr. reglugerðar nr. 915/2002, eigi við um aðstæður kæranda á vorönn 2004 nægir nám hennar á vorönninni ekki til að veita henni rétt til fæðingarstyrks námsmanna heldur verður einnig að líta til náms hennar á haustönn 2003 við mat á því hvort hún fullnægi skilyrðunum um að hafa verið í 75-100% samfelldu námi í a.m.k. sex mánuði á síðustu 12 mánuðunum fyrir fæðingu barna hennar.

Samkvæmt framlögðu vottorði G-háskóla, dags. 26. apríl 2004, var kærandi skráð í 14 einingar á haustönn 2003 en sagði sig úr öllum skráðum áföngum og hjá úrskurðarnefnd fæðingar- og foreldraorlofsmála liggur fyrir staðfesting á að kærandi hafi verið í leyfi frá námi við G-háskóla á haustmisseri 2003. Þá liggur fyrir staðfesting M, dags. 5. desember 2003, þar sem fram kemur að kærandi hafi stundað þar I-nám tímabilið 6. október til 5. desember 2003 en engin gögn hafa verið lögð fram um hvernig nám þetta sé uppbyggt. Lífeyristryggingasvið hefur leitað upplýsinga varðandi skólann á heimasíðu lánasjóðs íslenskra námsmanna og verður þar ekki séð að nám þetta sé viðurkennt sem lánshæft nám hjá lánasjóðnum. Þá hefur lífeyristryggingasvið freistað þess að afla upplýsinga um námið af heimasíðu skólans. Með hliðsjón af fyrirliggjandi gögnum og upplýsingum getur lífeyristryggingasvið ekki fallist á að taka nám kæranda í M til greina við mat á því hvort kærandi hafi stundað fullt nám í a.m.k. sex mánuði á síðustu 12 mánuðum fyrir fæðingu barna hennar. Þá verður ekki séð að nokkur framangreindra undanþáguheimilda frá skilyrðinu um fullt nám eigi við um kæranda vegna haustannar 2003.

Með vísan til alls framangreinds telur lífeyristryggingasvið að kærandi uppfylli ekki það skilyrði fyrir fæðingarstyrk námsmanna að hafa verið í fullu námi í a.m.k. sex mánuði á síðustu 12 mánuðum fyrir fæðingu barna hennar og að ekki dugi til að hún uppfylli skilyrði fyrir undanþáguheimild frá skilyrðinu um fullt nám á vorönn 2004. Því telur lífeyristryggingasvið að rétt hafi verið að synja kæranda um fæðingarstyrk námsmanna og greiða henni þess í stað fæðingarstyrk sem foreldri utan vinnumarkaðar samkvæmt 18. gr. ffl.“

 

Greinargerðin var send kæranda til kynningar með bréfi, dagsettu 7. desember 2004, og henni gefinn kostur á að koma að athugasemdum.

 

Frekari athugasemdir bárust frá kæranda með bréfi dagsettu 19. desember 2004, þar segir meðal annars:

„Samkvæmt fyrrgreindri greinargerð þá er þar sagt eftirfarandi: „Kærandi lauk engum prófum á vorönninni heldur var ýmist skráð með úrsögn eða vottorð í þeim áföngum sem hún skráði sig í,...“ Ég vil taka það fram að ég var skráð úr einu námskeiði vegna þess að fyrirlestrar þess námskeiðs voru á sama tíma og fyrirlestrar í öðru námskeiði sem ég var skráð í.

Í greinargerðinni er eftirfarandi:„Vorönn G-háskóla hefst í ársbyrjun og lýkur með prófum í maí og telst því að hámarki vera fimm mánuðir...“ Ég er ekki alveg sammála þessu, nemandi er skráður í G-háskóla er ennþá skráður nemandi þó svo að vorprófum sé lokið.“

 

Niðurstaða úrskurðarnefndarinnar:

Kæra varðar ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um að synja kæranda um greiðslu fæðingarstyrks sem námsmanni.

Samkvæmt 1. mgr. 19. gr. laga nr. 95/2000 um fæðingar- og foreldraorlof (ffl.) eiga foreldrar í fullu námi rétt til greiðslu fæðingarstyrks. Í 7. mgr. sömu greinar segir að ráðherra sé heimilt að kveða í reglugerð nánar á um framkvæmd þessa ákvæðis.

Í 1. mgr. 14. gr. reglugerðar nr. 909/2000 um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði og greiðslu fæðingarstyrks er kveðið á um að fullt nám teljist vera 75–100% samfellt nám í viðurkenndri menntastofnun innan hins almenna menntakerfis á Íslandi í a.m.k. sex mánuði á síðustu tólf mánuðum fyrir fæðingu barns. Sama eigi við um 75-100% nám á háskólastigi og það nám annað sem gerir sambærilegar kröfur til undirbúningsmenntunar og nám á háskólastigi. Heimilt sé að meta sambærilegt nám í öðrum ríkjum, enda uppfylli foreldri lögheimilisskilyrði skv. 12. gr. eða undanþáguákvæði 13. gr. Einstök námskeið teljist ekki til fulls náms.

Kærandi elur tvíbura 18. júlí 2004. Með hliðsjón af því er tólf mánaða viðmiðunartímabilið frá 18. júlí 2003 fram að fæðingardegi barna.

Samkvæmt gögnum málsins hóf kærandi nám við G-háskóla, L-fræði, á haustmisseri 2002. Fram kemur að hún hafi verið í leyfi frá því námi á haustmisseri 2003 en komið aftur til náms á vormisseri 2004. Þá liggur fyrir staðfesting M, dagsett 5. desember 2003, á því að kærandi hafi stundað þar I-nám tímabilið 6. október til 5. desember 2003.

Samkvæmt 2. mgr. 14. gr. reglugerðar nr. 909/2000, sbr. 3. gr. reglugerðar nr. 915/2002, skal leggja fram staðfestingu frá viðkomandi skóla um að foreldri hafi verið skráð í 75-100% nám og hafi sýnt viðunandi námsárangur. Í 14. gr. a reglugerðar nr. 909/2000, sbr. 4. gr. reglugerðar nr. 915/2002, er kveðið á um undanþágu frá skilyrði um viðunandi námsárangur. Þar segir að heimilt sé að greiða móður fæðingarstyrk sem námsmanni þótt hún fullnægi ekki skilyrðum 2. mgr. 14. gr. um viðunandi námsárangur og/eða ástundun enda hafi hún ekki getað stundað nám á meðgöngu vegna heilsufarsástæðna. Skuli hún sannanlega hafa verið skráð í nám og fengið greidda sjúkradagpeninga sem námsmaður eða verið á biðtíma eftir dagpeningum á þeim tíma. Kærandi var skráð í fullt nám við G-háskóla á vormisseri 2004 en lauk ekki prófum vegna veikinda á meðgöngu. Samkvæmt sjúkradagpeningavottorði dagsettu 29. júlí 2004 var hún sögð óvinnufær með öllu frá 5. apríl. Hún fékk greidda sjúkradagpeninga frá 19. apríl 2004 fram að fæðingu barna. Samkvæmt því telst nám hennar og veikindi á vorönn 2004 uppfylla skilyrði undanþáguákvæðis 14. gr. a reglugerðar nr. 909/2000. Þótt undanþáguákvæði 14. gr. a eigi við um nám kæranda á vormisseri 2004 nægir það eitt sér ekki til að skapa henni rétt til greiðslu fæðingarstyrks námsmanns þar sem nám á vormisseri jafngildir ekki sex mánaða námi.

Kærandi hefur ekki sýnt fram á að nám hennar í J-landi haustið 2003 hafi verið fullt nám í skilningi 14. gr. reglugerðar nr. 909/2000. Með hliðsjón af því og öðru sem að framan greinir hefur kærandi ekki áunnið sér rétt til greiðslu fæðingarstyrks sem foreldri í námi. Ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins er því staðfest.

 

ÚRSKURÐARORÐ:

Ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um að synja A um greiðslu fæðingarstyrks sem námsmanni er staðfest.

 

 

Guðný Björnsdóttir

Heiða Gestsdóttir

Gunnlaugur Sigurjónsson




Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta