Mál nr. 42/2004
Mál nr. 42/2004
Þriðjudaginn, 4. janúar 2005
A
gegn
Tryggingastofnun ríkisins
Úrskurður
Mál þetta úrskurðuðu Guðný Björnsdóttir hdl., Gunnlaugur Sigurjónsson læknir og Heiða Gestsdóttir lögfræðingur.
Þann 5. september 2002 barst úrskurðarnefnd fæðingar- og foreldraorlofsmála kæra A, dagsett sama dag. Kærð var ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um að synja kæranda um greiðslu fæðingarstyrks sem námsmanni. Þann 11. febrúar 2002 kvað úrskurðarnefnd fæðingar- og foreldraorlofsmála upp úrskurð í málinu. Niðurstaðan í málinu var á þann veg að ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins var staðfest.
Kærandi bar mál sitt undir umboðsmann Alþingis. Álit umboðsmanns Alþingis í tilefni af kvörtun A barst nefndinni 9. júní 2004. Í álitinu var komist að þeirri niðurstöðu að úrskurðarnefndin hafi ekki fullnægt kröfum 4. tölul. 31. gr. sbr. 22. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Einnig var þeim tilmælum beint til nefndarinnar að hún tæki mál A fyrir að nýju, kæmi ósk um það frá henni. Beiðni um endurupptöku frá A barst með bréfi dagsettu 13. október 2004. Af hálfu nefndarinnar var fallist á endurupptöku málsins.
Í rökstuðningi með kæru sagði m.a.:
„Samkvæmt 1. mgr. 19. gr. laga nr. 95/2000 um fæðingarorlof eiga foreldrar í fullu námi rétt á fæðingarstyrk. Í 14. gr. reglugerðar nr. 909/2000 um greiðslur úr fæðingarorlofssjóði og greiðslu fæðingarstyrks er fullt nám skilgreint sem 75%-100% nám í viðurkenndri menntastofnun innan hins almenna menntakerfis á Íslandi eða 75-100% nám á háskólastigi og það nám annað sem gerir sambærilegar kröfur til undirbúningsmenntunar og nám á háskólastigi í a.m.k. sex mánuði á síðustu 12 mánuðum fyrir fæðingu barns. Ennfremur segir reglugerðin til um það að leggja skuli fram staðfestingu frá viðkomandi skóla og að Tryggingastofnun ríkisins sé heimilt að krefjast að sýnt sé fram á námsárangur.
Þar sem fæðingardagur stúlkunnar minnar var 14. júlí síðastliðinn (áætlaður 6. júlí) telst tólf mánaðar viðmiðunartímabil samkvæmt reglugerð 909/2000 vera júlí 2001 til júní 2002 og nær því tímabilið yfir haustönn 2001 og vorönn 2002.
Samkvæmt meðfylgjandi gögnum staðfestist það að ég stundaði 80% nám við B-háskóla haustönn 2001 og vorönn 2002, þ.e. ég stundað nám í 12 einingum af 15 á hvorri önn (fjórir áfangar). Ég tel mig því hafa stundað fullt nám í skilningi laganna.
Í þeim átta áföngum sem ég sat haustönnina 2001 og vorönnina 2002 verður að ná lokaprófunum til að fá einingar fyrir áfangann. Vegna veikinda á meðgöngu gat ég ekki tekið öll lokapróf áfanganna, þó ég hafi setið áfangana og skilað þeim verkefnum og tekið þau misserispróf sem lögð voru fyrir.
Tryggingastofnun ríkisins er heimilt en ekki skylt að krefjast þess að sýnt sé fram á námsárangur. Kýs stofnunin að krefjast námsárangurs og ákveður einhliða að meta hann, fyrir nema í B-háskóla, út frá þeim einingum sem skilað er óháð því hvort að nám sé stundað yfir veturinn eður ei. Það gefur auga leið að þeir sem ná áföngunum hafa væntanlega stundað nám yfir veturinn. En eftir sitja þeir sem sannanlega hafa stundað nám yfir veturinn en hafa ekki geta þreytt lokaprófin.
Áhrif þessara túlkunar Tryggingastofnunar ríkisins á námsmann sem stundar 80% nám við B-háskóla, eins og á við um mig, eru þá eftirfarandi. Gerð er krafa um sex mánaða samfellt nám og þar sem hvor önn er einungis fjórir til fimm mánuðir verður námsmaður að hafa stundað 80% nám báðar annirnar, þ.e. hann verður að ná lokaprófum og fá einkunnir fyrir fjóra áfanga (12 einingar) hvora önn, þetta eru því átta prófdagar á þessu tólf mánaða tímabili. Ef svo óheppilega vill til að hann geti ekki þreytt eitt lokapróf af átta vegna veikinda á meðgöngu þá fellur niður réttur hans til fæðingarstyrks sem námsmanns samkvæmt túlkun Tryggingastofnunar ríkisins. Ég vil leyfa mér að draga það stórlega í efa að þessi framkvæmd sé það sem löggjafinn hafði í huga með setningu nýju laganna.“
Með bréfi, dags. 9. september 2002, óskaði úrskurðarnefnd fæðingar- og foreldraorlofsmála eftir greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins.
Greinargerð lífeyristryggingasviðs Tryggingastofnunar ríkisins er dags. 12. desember 2002. Í greinargerðinni segir:
„Kærð er ákvörðun um greiðslu fæðingarstyrks skv. 18. gr. laga um fæðingar- og foreldraorlof nr. 95/2000 (ffl.). Kærandi kveðst telja sig eiga rétt á fæðingarstyrk námsmanna skv. 19. gr. laganna.
Samkvæmt 19. gr. ffl. eiga foreldrar í fullu námi rétt á fæðingarstyrk. Skilgreiningu á fullu námi er að finna í 1. mgr. 14. gr. reglugerðar um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði og greiðslu fæðingarstyrks nr. 909/2000. Þar segir m.a. að fullt nám í skilningi ffl. teljist vera 75-100% samfellt nám í viðurkenndri menntastofnun innan hins almenna menntakerfis á Íslandi eða á háskólastigi, í a.m.k. sex mánuði á síðustu 12 mánuðum fyrir fæðingu barns. Í 2. mgr. 14. gr. reglugerðarinnar er Tryggingastofnun ríkisins heimilað að krefjast að sýnt sé fram á námsárangur. Í ffl. og reglugerðinni er ekki að finna heimild til að gera undanþágu frá skilyrðinu um samfellt 75-100% nám í a.m.k. sex mánuði vegna veikinda námsmanns.
Almennt er miðað við að 100% nám við B-háskóla nemi 15 einingum á önn. Kærandi kveðst hafa stundað 80% nám haustönn 2001 og vorönn 2002, þ.e. nám í 12 einingum af 15 á hvorri önn. Vegna veikinda hafi hún ekki getað tekið öll lokapróf áfanganna, þó hún hafi setið áfangana og skilað þeim verkefnum og tekið þau misserispróf sem lögð voru fyrir.
Með kæru fylgir staðfesting frá D, skrifstofustjóra E-deildar, þar sem greint er frá því að kærandi hafi setið þau námskeið sem hún var skráð í skólaárið 2001-2002, stundað námið allan veturinn og skilað viðeigandi ritgerðum verkefnum og tekið skyndipróf þar sem þau voru haldin. Hún hafi verið skráð í 80% nám, 12 einingar á hvoru misseri. Í námskeiðinu F segist kennari því miður ekki geta staðfest þátttöku kæranda í tímum þar sem ekki hafi verið lögð fyrir skyndipróf, verkefni eða ritgerðir og ekki tekið manntal. Hún hafi hins vegar verið skráð í námskeiðið. Í námskeiðinu G komi fram að kennari geti staðfest að kærandi skilaði verkefni ásamt öðrum nemendum og hafi það verkefni gilt 15% af lokaeinkunn.
Í vottorði frá nemendaskrá B-háskóla dags. 2. apríl 2002 kemur fram að kærandi var skráð í fullt nám háskólaárið 2001-2002, þar sem hún taki þrjú sumarpróf sem voru að hausti 2001. Í yfirliti um námsframvindu dags. 2. apríl 2002 kemur fram að kærandi hafi tekið tvö próf á haustönn 2001 og náð öðru þeirra, þ.e. lokið 3 einingum. Á vorönn 2002 sé hún skráð í próf í fjórum fögum og á sumarönn í þrjú fög.
Þar sem Tryggingastofnun ríkisins er heimilt að krefjast að sýnt sé fram á námsárangur og fyrir lágu upplýsingar um að kærandi væri skráð í próf í fjórum fögum á vorönn 2002 og í þremur fögum á sumarönn 2002 var farið fram á upplýsingar frá nemendaskrá B-háskóla um það hvort hún hefði tekið þau próf. Hún reyndist hafa skilað inn vottorði vegna tveggja prófa vorið 2002, tekið tvö próf og náð öðru þeirra, þ.e. lokið 3 einingum og sagt sig úr öllum prófum á sumarönn 2002. Varðandi þau fög sem voru sérstaklega tilgreind í staðfestingunni frá E-deild þá skilaði hún inn vottorði í öðru þeirra á haustönn 2001, í hinu á vorönn 2002 og sagði sig úr báðum prófum á sumarönn 2002.
Kærandi kveðst vegna veikinda ekki hafa getað tekið öll lokapróf áfanganna sem hún var skráð í. Ffl. eða reglugerðin heimila ekki að tekið sé tillit til þeirra aðstæðna við ákvörðun á greiðslu fæðingarstyrks námsmanna, sbr. ofangreint. Hún lauk samtals 6 einingum á háskólaárinu 2001-2002 og fullnægði því ekki skilyrðum fyrir greiðslu fæðingarstyrks námsmanna.“
Niðurstaða úrskurðarnefndarinnar:
Mál þetta er endurupptekið að beiðni kæranda sem barst með bréfi dagsettu 13. október 2004. Kæra varðar ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um að synja kæranda um greiðslu fæðingarstyrks sem námsmanni.
Samkvæmt 1. mgr. 19. gr. laga nr. 95/2000 um fæðingar- og foreldraorlof (ffl.) eiga foreldrar í fullu námi rétt til greiðslu fæðingarstyrks. Í 7. mgr. sömu greinar segir að ráðherra sé heimilt að kveða í reglugerð nánar á um framkvæmd þessa ákvæðis.
Í 1. mgr. 14. gr. reglugerðar nr. 909/2000 um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði og greiðslu fæðingarstyrks er kveðið á um að fullt nám teljist vera 75 -100% samfellt nám í viðurkenndri menntastofnun innan hins almenna menntakerfis á Íslandi í a.m.k. sex mánuði á síðustu tólf mánuðum fyrir fæðingu barns. Sama eigi við um 75 -100% nám á háskólastigi og það nám annað sem geri sambærilegar kröfur til undirbúningsmenntunar og nám á háskólastigi. Hvorki er í lögum nr. 95/2000 né var í reglugerð nr. 909/2000 við fæðingu barns þann 14. júlí 2002 heimild til að víkja frá skilyrðum um 75-100% nám vegna veikinda á meðgöngu.
Kærandi ól barn 14. júlí 2002. Viðmiðunartímabil samkvæmt framangreindu er því frá 14. júlí 2001 til fæðingardags barns.
Samkvæmt upplýsingum frá B-háskóla telst fullt nám á misseri vera 15 einingar. Samkvæmt staðfestingu E-deildar B-háskóla, dags. 6. september 2002, var kærandi skráð í 80% nám við B-háskóla á haustmisseri 2001 og vormisseri 2002, þ.e. í 12 eininga nám á hvoru misseri.
Samkvæmt 2. mgr. 14. gr. reglugerðar nr. 909/2000 var Tryggingastofnun ríkisins heimilt að krefjast þess að sýnt væri fram á námsárangur. Með hliðsjón af því verður ekki talið að skráning í nám ein sér teljist nægjanleg til þess að fá greiddan fæðingarstyrk námsmanns í fæðingarorlofi óháð framvindu náms. Kærandi fór í tvö próf á haustmisseri 2001 og lauk þremur einingum, hún skilaði læknisvottorði vegna eins prófs. Hún fór í tvö próf á vormisseri 2002, lauk 3 einingum og lagði fram vottorð vegna tveggja prófa. Kærandi sagði sig úr þeim fögum sem hún var skráð í sumarið 2002. Kærandi lauk þannig 6 einingum námsárið 2001-2002.
Í gögnum málsins er vottorð dagsett 6. september 2002 undirritað af skrifstofustjóra E-deildar B-háskóla, þar sem staðfest er að kærandi hafi setið þau námskeið sem hún var skráð í skólaárið 2001-2002, stundað námið allan veturinn og skilað viðeigandi ritgerðum, verkefnum og tekið skyndipróf þar sem þau voru haldin. Síðan segir: „A var skráð í 80% nám, 12 einingar á hvoru misseri. Í námskeiðinu F segir kennari því miður ekki geta staðfest þátttöku A í tímum þar sem ekki voru lögð fyrir skyndipróf, verkefni eða ritgerðir og ekki tekið manntal. A var hins vegar skráð í námskeiðið. Í námskeiðinu G kemur fram að kennari geti staðfest að A skilaði verkefni ásamt öðrum nemendum og gilti það verkefni 15% af lokaeinkunn.“ Samkvæmt upplýsingum frá B-háskóla varðandi þau fög sem eru sérstaklega tilgreind í framangreindu læknisvottorði, þá skilaði kærandi inn vottorði vegna F á haustmisseri 2001 og vegna G á vorönn 2002 og sagði sig úr báðum prófunum á sumarmisseri 2002.
Samkvæmt framangreindu fór kærandi á haustmisseri 2001 í tvö próf og lauk þremur einingum. Hún skilaði inn læknisvottorði vegna prófs í F. Í því fagi gat kennari ekki staðfest þátttöku hennar í tímum þar sem ekki voru lögð fyrir skyndipróf, verkefni eða ritgerðir og ekki tekið manntal. Hún var aftur skráð í fagið á sumarmisseri 2002 en sagði sig úr prófi. Á vormisseri 2002 fór kærandi í tvö próf og lauk 3 einingum og lagði fram læknisvottorð vegna tveggja prófa. Annað fagið var G. Í því fagi var eingöngu staðfest að hún hafi skilað inn verkefni sem jafngilti 15% af lokaeinkunn. Hún var aftur skráð í fagið á sumarmisseri 2002 en sagði sig úr prófi.
Með hliðsjón af lögum nr. 95/2000 og reglugerð nr. 909/2000 telur úrskurðarnefnd fæðinga- og foreldraorlofsmála að skráning í fullt nám án viðunandi námsframvindu geti ekki talist uppfylla skilyrði laga og reglugerðar um fullt nám. Í máli þessu er litið til þess hversu margar einingar kærandi lauk við en einnig er litið til einingafjölda í námsgreinum þar sem kærandi þreytti próf en náði ekki tilskildri lágmarkseinkunn. Þá er einnig haft í huga það sem staðfest er í gögnum málsins um tímasókn kæranda, verkefnaskil hennar og námsframvindu á sumarmisseri 2002.
Fullt nám í B-háskóla telst vera 15 einingar á misseri. Með hliðsjón af því og því sem að framan greinir um námsframvindu og námsárangur kæranda verður hún hvorki talin hafa verið í fullu námi á haustmisseri 2001 né vormisseri 2002. Hefur kærandi því ekki áunnið sér rétt til greiðslu fæðingarstyrks sem námsmaður. Ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins er staðfest.
ÚRSKURÐARORÐ:
Ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um að synja A, um greiðslu fæðingarstyrks sem námsmanni, er staðfest.
Guðný Björnsdóttir
Heiða Gestsdóttir
Gunnlaugur Sigurjónsson