Matsmál nr. 4/2014, úrskurður 30. júlí 2014
Ár 2014, þriðjudaginn 29. júlí, er í Matsnefnd eignarnámsbóta samkvæmt lögum nr. 11/1973 tekið fyrir matsmálið nr. 4/2014
Landsnet
gegn
Eiganda Hvassahrauns
og í því kveðinn upp svohljóðandi
ÚRSKURÐUR
Úrskurð þennan kveða upp Allan Matsnefndin ásamt lögmönnum aðila svo og aðilum gekk á vettvang að Hvassahrauni 30. júní sl. og kannaði aðstæður eftir föngum.
Allan Vagn Magnússon, dómstjóri, og varaformaður matsnefndar eignarnámsbóta, ásamt meðnefndarmönnunum Sverri Kristinssyni, löggiltum fasteignasala, og Vífli Oddssyni verkfræðingi, en varaformaður hefur kvatt þá til starfa í málinu skv. heimild í 2. mgr. 2. gr. laga nr. 11/1973.
Eignarnemi er Landsnet hf. kt. 580804-2410, Gylfaflöt 9, Reykjavík
Eignarnámsþoli er Sauðafell sf. kt. 590204-3150, forsvarsmaður er Guðmundur H. Gíslason, kt. 160730-4719, Meistaravöllum 31, 107 Reykjavík.
Málsmeðferð nefndarinar
Með bréfi dagsettu 14 mars 2014 óskaði eignarnemi eftir heimild til umráðatöku verðmætis í landi Hvassahrauns á Vatnsleysuströnd.
Nefndim hélt fund með lögmönnum aðila 2. maí sl. þar sem lögð var fram beiðni eignarnema ásamt fylgiskjölum. Var eignarnámsþola að svo búnu veittur frestur til greinargerðar til 21. maí 2014. Greinargerð ásamt fylgiskjölum bárust formanni 20. maí 2014 en voru lögð fram á fundi nefndarinnar 12. júní en á þeim fundi fluttu lögmenn fram sjónarmið sín varðandi beiðni um frestun málsmeðfeðrar og umráðatöku. Loks fór nefndin á vettvang 30. júní 2014
ásamt lögmönnum og aðilum.
Kröfur eignarnema
Með bréfi dagsettu 14 mars sl. barst Matsnefndeignarnámsbóta beiðni Landsnets hf. um að fyrirtækinu yrði heimilað að taka umráð verðmætis í landi Hvassahrauns á Vatnsleysuströnd, sem taka á eignarnámi skv. ákvörðun atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins frá 24. febrúar 2014.
Vísar eignarnemi til þess að með fyrrnefndri ákvörðun atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins hafi Landsneti hf. verið heimilað, með vísan til 23. gr. raforkulaga, nr. 65/2003, að framkvæma eignarnám vegna lagningar 220 kV háspennulínu (Suðurnesjalínu 2) á landi undir 2.795 metra langt og tæplega 46 metra breitt háspennulínubelti, samtals 213 metra langa og 6 metra breiða vegslóða og 8 burðarmöstur, sbr. yfirlitskort af jörðinni Hvassahrauni í fylgiskjali 1 við framlagða eignarnámsbeiðni Landsnets hf., dags. 13. júní 2013. Eignarnámið sé heimilað til ótímabundinna afnota fyrir Landsnet hf. Um ákvörðun bóta fari samkvæmt lögum um framkvæmd eignarnáms, nr. 11/1973. í þessu skyni skuli eftirfarandi kvöð verða þinglýst á jörðina Hvassahraun (landnr. 130857), að teknu tilliti til fjölda burðarmastra:
1. Landsneti hf., kt. 580804-2410, er heimilt að leggja um land jarðarinnar Hvassahraun, landnr. 130857, samtals 2.795 metra langa 220 kV rafmagnslínu, svokallaða Suðurnesjalínu 2, ásamt því að reisa 8 stauravirki í landinu, nánar tiltekið 8 burðarmöstur til að bera línurnar uppi. Skal Landsnet hf. jafna allt jarðrask að loknum framkvæmdum og sá í gróðursár. Verða mannvirki þessi óskoruð eign Landsnets hf. eða annars þess aðila sem fyrirtækið framselur rétt sinn til. Er heimild vegna háspennulínunnar og annarra réttinda samkvæmt yfirlýsingu þessari ótímabundin og sú kvöð sem lega mannvirkja þessara setur á jörðina óuppsegjanleg af hálfu landeiganda eða rétttaka hans.
2. Línulögn þessari fylgir sú kvöð, í samræmi við ákvæði reglugerðar um raforkuvirki nr. 678/2009, með áorðnum breytingum, að óheimilt verður að koma fyrir mannvirkjum á belti, scm er að jafnaði 46 metra breitt undir og við línuna. Landsnet hf. eða þeir, sem það felur slík störf, skulu hafa óhindraðan aðgang að stauravirkjum og rafmagnslínunni í landi jarðarinnar, bæði að því er varðar byggingarframkvæmdir, svo og viðhald, eftirlit og endurnýjun síðar. Landsneti hf. er heimilt að leggja samtals 213 metra langa vegslóða að línunni og meðfram henni og halda slóðanum við eftir því sem þörf krefur. Mega mannvirki þessi standa i landinu ótímabundið og óátalið af eigendum og ábúendum jarðarinnar.
3. Landsnet hf. eða þeir, sem fyrirtækið felur slík störf, skulu hafa óhindraðan aðgang að helgunarsvæði rafmagnslínunnar og ljósleiðara í landi jarðarinnar, bæði vegna byggingarframkvæmda, sem og vcgna viðhalds, eftirlits og endumýjunar síðar.
Eignarnemi, Landsnet hf., hefur ákveðið að nýta sér án tafar eignarnámsheimild sína og vísast um hana að öðru leyti til ákvörðunar atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins um eignarnám, dags. 24. febrúar 2014.
Hvorki hafi náðst samkomulag við eiganda jarðarinnar Hvassahrauns, eignarnámsþola, um umráðatöku né bætur vegna hinna afmörkuðu afnota Landsnets hf. af landi þeirra sem í eignarnámsheimildinni felast. Eignarnemi hafi nú í höndum heimild til eignarnáms og sé því að lögum heimil umráðataka en eftir sé matsferli til ákvörðunar á þeim bótum sem Matsnefndeignarnámsbóta telji hæfílegar. Hagsmunir eignarnema af því að fá umráð hins eignarnumda lands séu brýnir. Þannig sé brýnt að hefja framkvæmdir sem fyrst og þegar á þessu ári. Eðlilegt sé því að umráðataka fari fram þar sem ella sé þörf á því að málsmeðferð við ákvörðun bóta taki mjög skamman tíma.
Ljóst sé að eignarnemi hafi með samningum við landeigendur umráð stærsta hluta þess landsvæðis sem háspennulínan eigi að liggja um. Með eignarnámsheimildum, dags. 24. febrúar 2014, hafi eignarnemi fengið heimild til eignarnáms þess landsvæðis sem ekki hafi náðst samningar um og hafi því nú heimildir að lögum til alls þess landsvæðis sem nýta þurfi undir framkvæmdina Suðurnesjalínu 2. Eignarnemi hafi þannig aflað sér nauðsynlegra heimilda og sé brýnt að hefja framkvæmdir við fyrsta tækifæri, en að sjálfsögðu eftir að framkvæmdaleyfisferli er lokið og það liggur fyrir.
Eins og fram komi í heimild Landsnets til eignarnáms hafi skýrsla um mat á umhverfisáhrifum framkvæmdarinnar verið send Skipulagsstofnun 10. ágúst 2009. Skipulagsstofnun hafi fallist á mat Landsnets hf. á umhverfisáhrifum en sett ákveðin skilyrði, sbr. álit Skipulagstofnunar um mat á umhverfísáhrifum vegna Suðvesturlínu, dags. 17. scptember 2009.
Jörðin Hvassahraun tilheyri Sveitarfélaginu Vogum. Í aðalskipulagi þess fyrir árin 2008-2028, sem staðfest hafi verið 23. febrúar 2010, sé gert ráð fyrir háspennulínum meðfram núverandi háspennulínu (Suðurnesjalínu 1). Í aðalskipulagi nágrannasveitarfélaganna Hafnarfjarðar og Reykjanesbæjar sé einnig gert ráð fyrir framkvæmdinni.
Með ákvörðun Orkustofnunar, 5. desember 2013, hafi Landsneti hf. verið veitt leyfi til að reisa og reka flutningsvirkið Suðurnesjalínu 2, í samræmi við 2. mgr. 9. gr. raforkulaga.
Sótt hafi verið um framkvæmdaleyfi á grundvelli 13.-15. gr. skipulagslaga, nr. 123/2010.
Ljóst sé að eignarnemi, Landsnet hf., hafi nú nýtt sér heimild til eignarnáms og muni ekki hverfa frá því, sbr. 15. gr. laga nr. 11/1973. Þá megi einnig vænta þess að mat verði umfangsmikið með vísan til 2. mgr. 14. gr. laganna, en um það megi vísa til þess að í heimild til eignarnáms sé fjallað um að málið sé umfangsmikið enda um að ræða 9 jarðir og fjölda landeigenda. Því kunni yfirráðataka á grundvelli 13. gr. laganna að valda mjög mikilli óvissu um framkvæmdatíma, en ítrekað sé að framkvæmdin hafi verið í undirbúningi um árabil og verulegir hagsmunir eignarnema séu fólgnir í umráðatöku nú þegar, sbr. umfjöllun að framan um áætlanir eignarnema og nauðsyn hans á því að ráðast í framkvæmdir þegar á þessu ári.
Krefjist eignarnámsþolar þess að Matsnefndeignarnámsbóta ákveði hæfilega tryggingu fyrir væntanlegum bótum, sbr. ákvæði 1. mgr. 14. gr. laganna, muni eignarnemi reiða fram slíka tryggingu enda með henni tryggðir þeir hagsmunir sem Matsnefnd eignarnámsbóta sé ætlað að lögum að fjalla um, þ.e.a.s. hæfilegar bætur vegna eignarnáms framangreindra landsréttinda.
Með vísan til framangreinds sé þess farið á leit við Matsnefnd eignarnámsbóta, að Landsneti hf. verði, á grundvelli 14. gr. laga um framkvæmd eignarnáms, nú þegar fengin umráð þeirra réttinda, sem eignarnámið tekur til, þar sem brýnt sé að framkvæmdir við háspennulínuna, Suðurnesjalínu 2, geti hafist sem fyrst og miklir hagsmunir í húfi, bæði hvað varði afhendingaröryggi raforku sem og fjárhagslegir hagsmunir eignarnema og samfélagsins alls.
Kröfur eignarnámsþola og sjónarmið þeirra
Í þessum þætti málsins gera eignarnámsþolar eftirfarandi kröfur:
Aðallega er þess krafist að máli þessu verði í heild sinni, bæði er varðar ákvörðun um umráðatöku og eignarnámsbætur, frestað ótiltekið þar til leyst hafi verið úr ágreiningi um lögmæti eignarnámsins fyrir dómstólum.
Til vara er þess krafist að kröfu eignarnema um umráð hins eignarnumda þegar í stað verði hafnað og að málið sæti hefðbundinni málsmeðferð hjá Matsnefnd eignarnámsbóta.
Verði fallist á að veita eignarnema umráð hins eignarnumda þegar í stað er þess til þrautavara krafist að eignarnemi setji tryggingu fyrir væntanlegum eignarnámsbótum.
Komi til þess muni eignarnámsþolar á síðari stigum koma fram með kröfur sínar og sjónarmið að því er varðar mat á eignarnámsbótum.
Samhliða máli þessu eru rekin fjögur sambærileg mál á sama svæði. Um málsatvik vísa eignarnámsþolar til stefnu annarra eignarnámsþola á hendur Landsneti, Orkustofnun og Náttúruverndarstofnun Suðurlands frá 20. mars sl. og til stefnu eignarnámsþolanna Sauðafells ehf. og Margétrar Guðnadóttur frá 21. maí á hendur Landsneti og íslenska ríkinu vegna eignarnámsákvörðunar ráðherra. Þá vísa þeir til þess að mál þetta eigi rætur sínar að rekja til þeirra áforma eignarnema að reisa svokallaða Suðurnesjalínu 2 í lofti. Lagning línunnar sé hluti af verkefninu „Suðvesturlínur“ sem, samkvæmt fullyrðingum eignarnema, hafi það markmið að byggja upp raforkuflutningskerfi til framtíðar á Suðvesturlandi.
Hin fyrirhugaða lína fari í gegnum jarðir eignarnámsþola en þeir hafi frá upphafi lagt áherslu á að tekinn verði til raunhæfrar skoðunar sá möguleiki að leggja Suðurnesjalínu 2 í jörðu. Sé samstaða með eigendum jarðanna Landakots, Hvassahrauns, Stóru- Vatnsleysu, Minni-Vatnsleysu, hluta af Heiðarlandi Vogajarða og hluta af Stóra-Knarrarnesi I í þessu efni.
Eignarnámsþolar hafi fyrst fengið spurnir af fyrirhuguðum framkvæmdum með bréfum eignarnema í nóvember 2007, þar sem fram hafi komið að hafinn væri undirbúningur að framkvæmdum með það að markmiði að styrkja og efla meginflutningskerfið á Reykjanesskaga. Opinn kynningarfundur um tillögu að matsáætlun eignarnema vegna Suðvesturlínu hafi verið haldinn 8. febrúar 2009. Skipulagsstofnun hafi fallist á tillögu eignarnema að matsáætlun í mars 2009. Endanleg matsskýrsla hafi legið fyrir 10. ágúst 2009 og álit Skipulagsstofnunar síðan legið fyrir 17. september 2009.
Eins og rakið sé í stefnu eignarnámsþola vegna eignarnámsákvörðunar ráðherra hafi eignarnemi hafið samningaviðræður við eignarnámsþola um landnot í apríl 2011. Eignarnámsþolar hafi orðið fyrir miklum vonbrigðum með þær „samningaviðræður“ þar sem einungis hafi staðið til að ræða fjárhæð eignarnámsbóta en allar hugmyndir eignarnámsþola um að kanna þann kost að leggja Suðurnesjalínu 2 í jörðu hafi verið slegnar út af borðinu. Eignarnemi hafi síðan slitið „samningaviðræðunum" einhliða haustið 2012. Eignarnámsþolar telji að eignarnemi hafi ekki viðhaft raunverulegar samningaviðræður um hina fyrirhuguðu framkvæmd, eins og nánar sé rakið í stefnum eignarnámsþolanna Margrétar Guðnadóttur og Sauðafells sf.
Hinn 21. desember 2012 hafi eignarnemi sótt um leyfi Orkustofnunar til að reisa og reka raforku- flutningsvirkið Suðurnesjalínu 2. Eignarnema hafi verið skylt að sækja um leyfið á grundvelli 2. mgr. 9. gr. raforkulaga nr. 65/2003 vegna fyrirhugaðrar framkvæmdar. Hinn 5. desember 2013, eða tæpu ári eftir að eignarnemi hafi sótt um umrætt leyfi hafi Orkustofnun tekið ákvörðun um að veita eignarnema leyfi til að reisa og reka flutningsvirkið.
Eignarnámsþolar séu alfarið ósammála umræddri ákvörðun Orkustofnunar og hafi höfðað mál gegn eignarnema o.fl. 20. mars 2014 til ógildingar á henni. Eignarnámsþolar byggi á því að ákvörðun Orkustofnunar sé haldin slíkum annmörkum, bæði að formi og efni til, að óhjákvæmilegt sé að hún verði felld úr gildi.
Hinn 20. febrúar 2013 hafi eignarnemi farið þess á leit við atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið að fyrirtækinu yrði heimilað að taka eignarnámi tiltekin réttindi í landi eignarnámsþola. Það hafi ekki verið fyrr en rúmu ári síðar, eða 24. febrúar 2014, sem ráðuneytið hafi tekið ákvörðun um að heimila eignarnámið í samræmi við beiðni eignarnema.
Eignarnámsþolarnir Margrét Guðnadóttir og Sauðafell sf. hafi nú höfðað mál gegn eignarnema og krafist ógildingar á eignarnámsákvörðun ráðuneytisins. Eignarnámsþolarnir reisa kröfu sína á því að ákvörðunin sé í andstöðu við 72. gr. stjórnarskrárinnar, 1. mgr. 1. gr. 1. viðauka mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994, og 23. gr. raforkulaga. Jafnframt hafi verið brotið gegn rannsóknarreglu 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 og andmælarétti stefnanda, sbr. 13. gr. sömu laga.
Mál vegna jarðarinnar Stóra Knarrarnes I hafi og verið höfðað og byggt á sambærilegum sjónarmiðum og rakin séu hér að framan.
Að lokum sé rétt að geta þess að eignarnámsþolar hafi sent bréf til Skipulagsstofnunar, dags. 26. nóvember 2013, þar sem óskað hafi verið eftir því að Skipulagsstofnun nýtti heimild í 2. mgr. 12. gr. laga nr. 106/2000, sbr. og 24. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 og óskráða almenna heimild stjórnvalda til endurupptöku mála, til að kveða á um endurskoðun matsskýrslu vegna hinna fyrirhuguðu framkvæmda.
Af framangreindu sé ljóst að enn sé verulegur vafi uppi um lögmæti eignarnámsins. Að mati eignarnámsþola hafi eftirfarandi atriði afgerandi þýðingu í því sambandi:
1. Eignarnámsþolarnir Margrét Guðnadóttir og Sauðafell sf. hafa höfðað mál til ógildingar á eignarnámsákvörðunum ráðherra og mál hafi verið höfðað vegna Stóra Knarrarness I.
2. Eignarnámsþolar hafi höfðað mál gegn eignarnema o.fl. til ógildingar á ákvörðun Orkustofnunar. Niðurstaða í umræddu dómsmáli muni væntanlega koma til með að hafa veruleg áhrif á það hvort eignarnámsákvarðanir ráðherra séu lögmætar, eins og rakið sé í stefnu eignarnámsþola.
Eignarnámsþolar krefjast þess aðallega að máli þessu verði í heild sinni, bæði er varðar ákvörðun um umráðatöku og eignarnámsbætur, frestað ótiltekið þar til leyst hafi verið úr ágreiningi um lögmæti eignarnámsins fyrir dómstólum.
Samkvæmt 1. mgr. 72. gr. stjórnarskrárinnar, sbr. lög nr. 33/1944, sé eignarrétturinn friðhelgur. Engan megi skylda til að láta af hendi eign sína nema almenningsþörf krefji. Þurfi til þess lagafyrirmæli og komi fullt verð fyrir. Þá sé ljóst af dómaframkvæmd Hæstaréttar að ef unnt sé að ná markmiði framkvæmdar, sem feli í sér skerðingu á eignarrétti, með ásættanlegum hætti með mismunandi leiðum beri að velja þann kost sem sé minnst íþyngjandi fyrir þann sem skerðing bitni á (meðalhófsregla), sbr. dóm Hæstaréttar frá 19. mars 2009 í máli nr. 425/2008.
Lagaskilyrði eignarnáms, s.s. um almenningsþörf o.fl., séu matskennd og teygjanleg og hvíli réttmæti eignarnámsins á túlkun á umræddum lagaskilyrðum. Vegna séreðlis eignarnáms sé þó eðlilegt að gera strangar kröfur til ákvarðana ráðherra, þar sem um „mjög íþyngjandi stjórnarathafnir er að ræða“. Ákvörðun ráðherra um eignarnám sé stjórnvaldsákvörðun og gildi slíkra ákvarðana sé háð almennum reglum um stjórnarathafnir. Dómstólar hafi, í samræmi við 60. gr. stjórnarskrárinnar, vald til þess að ógilda stjórnvaldsákvarðanir ef þeim er áfátt að formi eða efni til. Dómstólar hafa því endanlegt úrskurðarvald um hvort skilyrði séu til eignarnáms.
Í 1. mgr. 5. gr. laga nr. 11/1973 um framkvæmd eignarnáms komi fram það grundvallarskilyrði fyrir því að eignarnám verði framkvæmt að lagaheimild sé til eignarnámsins. Þá kemur fram í 17. gr. laganna að heimilt sé að leita úrlausnar dómstóla um ágreining út af lögmæti þess. Í ljósi þess hversu íþyngjandi ákvörðun um eignarnám sé megi ekki leika nokkur vafi á því að eignarnámsheimildin sé skýr og ótvíræð. Séu af þeim sökum mörg dæmi þess í framkvæmd að matsnefndin fresti máli ótiltekið á meðan rekið sé dómsmál um lögmæti eignarnámsins.
Með vísan til framangreinds sé ljóst að það sé á ábyrgð matsnefndarinnar að kanna hvort lagaheimild sé til eignarnámsins. Þótt það verði ekki lagt í hendur matsnefndarinnar að skera úr um gildi eignarnámsins er augljóst að málshöfðanir eignarnámsþola séu hvorki tilefnislausar né órökstuddar. Þvert á móti séu í stefnum eignarnámsþola færð fram málefnaleg rök og málsástæður fyrir ógildingu ákvarðana stjórnvalda sem dómstólar þurfi að taka efnislega afstöðu til. Það sé því a.m.k. uppi vafi um að eignarnámsheimildin sé lögmæt.
Þá verði að hafa í huga að ákvörðun um eignarnám sé gríðarlega íþyngjandi, eins og áður er rakið, og er endanlegt úrskurðarvald um lögmæti eignarnámsins í höndum dómstóla. Enn fremur sé ljóst að þær framkvæmdir sem eignarnemi ætli sér að ráðast í muni koma til með að hafa veruleg og óafturkræf áhrif á jarðeignir eignarnámsþola. Yrði það vægast sagt fráleit staða ef máli þessu yrði fram haldið, eignarnemi tæki við umráðum jarðeigna eignarnámsþola og hæfi framkvæmdir og dómstólar myndu síðan komast að þeirri niðurstöðu að eignarnámið væri reist á ólögmætum grundvelli. Væri þá þegar yfirstaðið óafturkræft jarðrask á jörðum eignarnámsþola á grundvelli ólögmætrar eignarnámsheimildar.
Í framangreindu sambandi verði einnig að hafa í huga að í áðurnefndum dómsmálum sé ekki útilokað að eignarnámsþolar muni afla sér mats dómkvaddra matsmanna eða að dómurinn, sem væntanlega verði skipaður sérfróðum meðdómendum, vilji ganga á vettvang til þess að skoða aðstæður og meta hvort lagning línunnar í jörð sé raunhæfur kostur. Eðli máls samkvæmt verði því landsvæðið sem mögulega fari undir loftlínurnar að vera óhreyft. Verði umráðin fengin og hinar óafturkræfu framkvæmdir hafnar komi það til með að spilla sönnunarstöðu eignarnámsþola í viðkomandi dómsmálum sem og grundvelli hlutlægs síðari samanburðar á lagningu línunnar á umræddu svæði í jörð og í lofti. Slíkt væri að sjálfsögðu með öllu ólíðandi.
Með vísan til framangreinds telja eignarnámsþolar sýnt að fresta verði máli þessu fyrir matsnefndinni ótiltekið á meðan mál um gildi eignarnámsákvarðana ráðherra eru rekin fyrir dómi.
Verði ekki fallist á að fresta máli þessu ótiltekið þar til fyrir liggur afstaða dómstóla til lögmætis eignarnámsákvörðunar ráðherra krefjast eignarnámsþolar þess til vara að kröfu eignarnema um umráð hins eignarnumda þegar í stað verði hafnað og að málið sæti hefðbundinni málsmeðferð hjá Matsnefnd eignarnámsbóta, þ.e. að matsnefndin meti eignarnámsbætur áður en kemur að umráðatöku.
Í 13. gr. laga nr. 11/1973 um framkvæmd eignarnáms sé lögfest sú meginregla að eignarnemi geti ekki krafist þess að fá umráð þess verðmætis, sem eignarnámið beinist að, fyrr en hann hafi greitt eignanámsþola eignarnámsbætur, þar með talinn matskostnað. Þessi regla sé í samræmi við þær meginreglur sem áður hefðu gilt í dómaframkvæmd, áður en Matsnefnd eignarnámsbóta tók til starfa. Í 14. gr. laganna séu gerðar tvær undantekningar frá þessari meginreglu og verði í samræmi við almennar lögskýringarreglur að túlka þær þröngt. Sérstaklega verði að hafa í huga í því máli sem hér er til skoðunar að um sé að ræða eignarnám sem sé verulega íþyngjandi ákvörðun.
Dr. Gaukur Jörundsson, aðalhöfundur frumvarps þess sem lögtekið var sem lög nr. 11/1973, fjalli um umræddar undantekningar á bls. 109-110 í riti sínu Eignaréttur en þar segir eftirfarandi:
„Í fyrsta lagi gildir sú undantekning samkvæmt 14. gr., að Matsnefnd getur heimilað eignarnema umráð verðmætis, sem taka á eignarnámi, að ráðast í þær framkvæmdir, sem eru tilefni eignarnámsins, enda þótt mati sé ekki lokið. Er ætlast til þess, að heimild þessi sé fyrst og fremst notuð, þegar eignarnema er mikil nauðsyn á að fá fljótt umráð eignarnumins verðmætis og verður verulegt óhagræði af því að bíða eftir ákvörðun bóta. [...]
Í öðru lagi felst sú undantekning í 14. gr. frá fyrrgreindri meginreglu 13. gr., að Matsnefndgetur af sjálfsdáðum frestað ákvörðun bóta eða tiltekinna bótaliða, ef vandkvæði eru á því að ákveða bætur fyrirfram eða mat er að öðru leyti vandasamt. Þetta undantekningarákvæði verður að skýra þröngt og á það samkvæmt því aðeins við, að útilokað sé eða mjög erfitt að ákveða eignarnámsbætur eða tiltekna liði þeirra fyrirfram, þar sem tjón verður ekki séð fyrir með neinni sæmilegri vissu.“
Eignarnámsþolar taka að öllu leyti undir framangreint og telja að einungis eigi að beita umræddum undantekningarreglum í algerum undantekningartilvikum og hvíli sönnunarbyrðin á eignarnema að sýna fram á með óyggjandi hætti að skilyrði séu til þess að fallast á að undantekningarreglurnar eigi við.
Rétt sé að geta þess að á Norðurlöndunum sé einnig gert ráð fyrir þeirri meginreglu að eignarnámsferli verði að vera lokið til þess að umráð fari fram, nema í þröngum undan- tekningartilvikum.
Ljóst sé að það sé yfirleitt betra og þægilegra fyrir eignarnema að fá umráð hins eignarnumda sem allra fyrst. Það þurfi hins vegar meira að koma til en almenn þægindi eignarnema til þess að undantekningartilvik 14. gr. laga nr. 11/1973 komi til greina. Slíkt sé eðlilegt í ljósi þess hversu íþyngjandi eignarnám sé og sé eðlilegt að eignarnemi fái ekki umráð hins eignarnumda fyrr en hinu lögbundna matsferli matsnefndar eignarnámsbóta sé lokið.
Eignarnámsþolar byggi á því að hvorugt undantekningartilvik 14. gr. laga nr. 11/1973 eigi við í þessu máli.
Hvað fyrra undantekningartilvikið varði sé því alfarið hafnað að skilyrði séu uppfyllt til þess að beita því. Þannig sé hvorki fyrir hendi mikil nauðsyn á að fá fljótt umráð eignarnumins verðmætis né verði séð að eignarnema sé verulegt óhagræði af því að bíða eftir ákvörðun bóta. Í eignarnámsbeiðnum eignarnema sé hvergi nærri rökstutt með fullnægjandi hætti að hvaða leyti framangreint undantekningartilvik eigi við í málinu. Það eina sem komi fram í beiðninni sé að „brýnt [sé] að hefja framkvæmdir við fyrsta tækifæri [...]“. Ekki liggi fyrir nein gögn sem staðfesti hina meintu brýnu nauðsyn, en að sjálfsögðu verði að gera þá kröfu að eignarnemi sýni fram á með óyggjandi hætti að skilyrði séu til þess að beita umræddri undantekningarreglu. Í þessu sambandi megi nefna að undirbúningur þessa máls hafi staðið yfir í langan tíma, eða allt frá árinu 2007. Álit Skipulagsstofnunar hafi legið fyrir 17. september 2009. Svo virðist vera sem eignarnemi hafi síðan látið mál þetta danka allt þar til á árinu 2011 þegar eignarnemi hafi hafið samningaviðræður við eignarnámsþola. Það hafi síðan verið seint á árinu 2012 og snemma á árinu 2013 sem eignarnemi hafi sótt um leyfi til Orkustofnunar um heimild til eignarnáms. Málsmeðferð bæði hjá ráðuneytinu og Orkustofnun hafi tekið rúmlega eitt ár. Eignarnema hafi að sjálfsögðu verið í lófa lagið að óska eftir því við stjórnvöld að mál þeirra sætti flýtiafgreiðslu ef brýn nauðsyn hafi verið að hefja framkvæmdir hið fyrsta. Eignarnemi geti ekki beðið út í hið óendanlega með að spýta í lófana og ætla sér á allra síðustu, og mest íþyngjandi, metrunum að keyra ferlið áfram, sérstaklega í ljósi þess að hann hafi sjálfur látið málið dragast árum saman og ekki gert reka að því að flýta fyrir afgreiðslu þess hjá stjórnvöldum. Við mat á því hvort skilyrði undantekningarreglunnar eigi við þurfi og að horfa til þess að fái eignarnemi umráð og hefji framkvæmdir fælist í því að heimilað væri óafturkræft jarðrask á svæði sem sé einkar viðkvæmt m.t.t. náttúruverndar og ferðaþjónustu, áður en leyst hefði verið úr því hvort eignarnámsheimildin sé lögmæt.
Með vísan til framangreinds er því alfarið hafnað að skilyrði séu uppfyllt til þess að beita fyrra undantekningartilviki 14. gr. laga nr. 11/1973.
Hvað síðara undantekningartilvikið varðar hafna eignarnámsþolar því alfarið að skilyrði séu til þess að fallast á beitingu þess. Eignarnemi hafi ekki fært nein rök fyrir því að útilokað eða mjög erfitt sé að ákveða eignarnámsbætur eða tiltekna liði þeirra fyrirfram. Það eina sem komi fram í eignarnámsbeiðninni sé að „málið sé umfangsmikið enda [...] um að ræða 9 jarðir og fjölda landeigenda.“ Að mati eignarnámsþola séu það engin rök fyrir beitingu þessa undantekningartilviks að málið sé umfangsmikið, enda sé það grundvallarskilyrði fyrir beitingu þess að erfitt sé að meta fjárhæð bótanna. Í því sambandi mætti sem dæmi taka að beita mætti ákvæðinu þegar verulegar auðlindir eru á hinu eignarnumda landi sem erfitt er að meta með vissu til verðs. Í þessu máli hefur eignarnemi hvorki sýnt fram á né gert líklegt að einhverjar slíkar aðstæður séu fyrir hendi í þessu máli.
Með vísan til framangreinds telja eignarnámsþolar að ekki séu uppfyllt skilyrði til þess að beita síðari undantekningarreglunni.
Fari svo ólíklega að matsnefndin telji rétt að fallast á kröfu eignarnema um umráðatöku er þess krafist að eignarnemi setji tryggingu fyrir bótum að fjárhæð 30.000.000 kr. vegna hverrar jarðar, samtals 180.000.000 kr.
Andsvör og sjónarmið eignarnema
Með ákvörðun atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins, dags. 24. febrúar 2014, hafi eignarnema, Landsneti hf. verið heimilað, með vísan til 23. gr. raforkulaga, nr. 65/2003, að framkvæma eignarnám í landi jarða eignarnámsþola vegna lagningar 220 kV háspennulínu (Suðurnesjalínu 2).
Eignarnemi hafi ákveðið að nýta sér án tafar eignarnámsheimild sína eins og Matsnefndeignarnámsbóta var gert kunnugt um í framangreindum beiðnum frá 14. mars 2014.
Fyrir liggi í öllum málum, er varði eignarnámsþola, eignarnámsákvörðun iðnaðar- og viðskiptaráðherra, atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytis, frá 24. febrúar 2014, og hvíli hún á heimild í 23. gr. raforkulaga. Eignarnemi hafi á grundvelli 4. gr. laga nr. 11/1973 sent beiðni til matsnefndar eignarnámsbóta um að mat fari fram og teljist hann þar með hafa neytt eignarnámsheimildar sinnar. Ekki sé neinn vafi um lagaheimild til eignarnámsins enda hafi Matsnefndþegar tekið málið fyrir á fundi 2. maí 2014, sbr. og 5. gr. lag nr. 11/1973.
Í 1. gr. laga nr. 11/1973 sé gildissvið laganna einskorðað við ákvörðun bóta vegna eignarnáms sem heimilað er í lögum. Skuli Matsnefndeignarnámsbóta skera úr ágreiningi um eignarnámsbætur og annað endurgjald, sem ákveða eigi samkvæmt lögum um framkvæmd eignarnáms, sbr. 1. mgr. 2. gr. laganna.
Í greinargerð með frumvarpi því sem síðar varð óbreytt að lögum nr. 11/1973 (23. mál á 93. löggjafarþingi 1972 - þskj. 23),. sé fjallað um tilurð lagasetningarinnar og markmið hennar. Ljóst sé að meginviðfangsefni laganna sé að ákveða hvaða skilyrðum eignarnemi þurfi að fullnægja um greiðslu eða tryggingu eignarnámsbóta áður en hann fái umráð eignarnumins verðmætis. Eignarnemi hafi kynnt eignarnámsþolum ítarlega þau réttindi sem nauðsynleg séu vegna framkvæmdar með margvíslegum gögnum. Eignarnámsþolar séu því vel upplýstir um umfang eignarnámsins og eigi þess kost að koma með gögn og rök fyrir bótakröfum sínum.
Í greinargerðinni sé fjallað almennt um framkvæmd mats á eignarnámsbótum og þar komi fram að við setningu laga um framkvæmd eignarnáms megi að sjálfsögðu ekki einblína á hagsmuni eignarnámsþola, heldur verði að taka hæfilegt tillit til hagsmuna eignarnema. Segi svo orðrétt: „Honum má ekki íþyngja með óhóflegri greiðslubyrði vegna eignarnáms og ekki má eignarnám tefja um of framkvæmdir eignarnema.“
Af þessu sé ljóst að ekki beri síður að taka tillit til lögvarinna hagsmuna og málefnalegra sjónarmiða eignarnema við ákvarðanir matsnefndar eignarnámsbóta og meta verði málflutning eignarnámsþola fyrir matsnefndinni út frá mælikvarða stjórnsýsluréttar um málefnalega umfjöllun og lögmæt sjónarmið, s.s. annars vegar nauðsyn eignarnema á þeim réttindum sem um sé að tefla og hins vegar hagsmuni eignarnámsþola með tilliti til umfangs eignarnámsins og óhagræðis sem hann hafi af því. Þannig hljóti umfjöllun og málflutningur eignarnámsþola, með vísan í 1. gr. laga nr. 11/1973, að miðast fyrst og fremst við ágreining um eignarnámsbætur. Tilvísan til 1. mgr. 72. stjórnarskrárinnar, nr. 33/1944, vísi og til þessa, þ.e.a.s. að fullt verð komi fyrir réttindi sem eignarnámsþoli hafi að lögum verið skyldaður til að láta af hendi.
Í greinargerðinni sé einnig fjallað um hlutverk dómstóla en við setningu laganna hafi ekki verið talið rétt að hverfa frá þeirri grundvallarreglu íslenskrar réttarskipunar, að stjómvöld fjalli um eignarnámsframkvæmdina og ákvörðun eignarnámsbóta. Um hlutverk dómstóla segi svo: „Hlutverk dómstóla verður því skv. tillögum nefndarinnar áfram fólgið í því fyrst og fremst, að taka eftir á til athugunar, hvort stjómvöld hafi farið að lögum við eignarnámið og ákvörðun bóta.“ Þegar af þessari ástæðu beri að hafna eða vísa frá aðalkröfu eignarnámsþola um ótiltekna frestun málsins.
Greinargerð eignarnámsþola sé því marki brennd að í henni sé fjallað að stórum hluta um atriði sem hvorki séu varin af 72. gr. stjskr. né heyri undir lög nr. 11/1973 og störf matsnefndar eignarnámsbóta, þótt ekki sé gerð athugasemd við að matsnefndin sé upplýst um málaferli eignarnámsþola á hendur eignarnema og íslenska ríkinu.
Samkvæmt 2. gr. laga um stofnun Landsnets hf., nr. 75/2004, hafi fyrirtækið það hlutverk að annast flutning raforku og kerfisstjórnun samkvæmt ákvæðum III. kafla raforkulaga, nr. 65/2003. Landsnet hf. beri ábyrgð á rekstri og kerfisstjórnun raforkukerfisins á Íslandi, sbr. sérstaklega 8. gr. raforkulaga, nr. 65/2003. Fyrirtækið hafi eitt heimild til að reisa ný flutningsvirki og skuli það byggja upp flutningskerfi raforku á hagkvæman hátt að teknu tilliti til öryggis, skilvirkni, áreiðanleika afhendingar og gæða raforku, sbr. sérstaklega 9. gr. laganna. Flutningskerfi raforku sé einn mikilvægasti þáttur innviða þjóðfélagsins, sbr. 1. gr. raforkulaga en þar er kveðið á um að markmið laganna sé að stuðla að þjóðhagslega hagkvæmu raforkukerfi og efla þannig atvinnulíf og byggð í landinu.
Vísað er til eignarnámsákvörðunar atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins frá 24. febrúar 2014 um nánari rök Landsnets hf. fyrir framkvæmdinni Suðurnesjalína 2 og þeirra sjónarmiða sem ákvörðunin byggi á.
Skýrsla um mat á umhverfisáhrifum framkvæmdarinnar hafi verið send Skipulagsstofnun hinn 10. ágúst 2009. Skipulagsstofnun hafi fallist á mat Landsnets hf. á umhverfisáhrifum en setti ákveðin skilyrði, sbr. álit Skipulagstofnunar um mat á umhverfisáhrifum vegna Suðvesturlínu, dags. 17. september 2009.
Með ákvörðun Orkustofnunar, dags. 5. desember 2013, hafi Landsneti hf. verið veitt leyfi til að reisa og reka flutningsvirkið Suðurnesjalínu 2, í samræmi við 2. mgr. 9. gr. raforkulaga.
Í aðalskipulagi þeirra sveitarfélaga sem framkvæmdin nær til, Hafnarfjarðar, Sveitarfélagsins Voga, Reykjanesbæjar og Grindavíkur er gert ráð fyrir framkvæmdinni. Sótt var samtímis um framkvæmdaleyfi á grundvelli 13.-15. gr. skipulagslaga, nr. 123/2010, til þessara fjögurra sveitarfélaga hinn 7. maí 2014.
Eignarnámsþolar hafa alfarið sett sig upp á móti framkvæmdinni Suðurnesjalínu 2 og eru þeirrar skoðunar að frekar eigi að ráðast í aðrar framkvæmdir en þá sem eignarnemi hefur á grundvelli raforkulaga valið, undirbúið um fjölda ára m.a. með mati á umhverfisáhrifum og skipulagsvinnu og að auki fengið leyfi Orkustofnunar fyrir. Allt séu þetta lögbundnir ferlar þar sem hagsmunaaðilar og almenningur hafi átt þess kost að láta í ljós afstöðu sína til framkvæmdarinnar. Eignarnemi hafi bent á að framkvæmdin Suðurnesjalína 2, 220 kV, sé alls ekki sú sama og eignarnámsþolar hafi gert kröfu um að ráðist verði í, þ.e.a.s. að Suðurnesjalína 2 verði lögð í jörðu. Eignarnámsþolar hafi þó þannig tekið undir að nauðsyn sé á styrkingu hins almenna raforkukerfis á Suðurnesjum.
Hvað varði lagningu jarðstrengja sem hluta hins almenna raforkukerfis sé um að ræða mál er varði almenna stefnumörkun um framtíðartilhögun raforkuflutningskerfis í landinu og hafi eignarnemi kallað eftir henni. Ljóst sé hins vegar að verulegur kostnaðarmunur, auk tækniatriða og staðhátta, valdi því að kostnaðaraukning, oft umtalsverð, fylgi jarðstrengslögnum á hærri spennustigum. Eignarnema beri samkvæmt ákvæðum raforkulaga að byggja flutningskerfið upp á hagkvæman hátt að teknu tilliti til öryggis, skilvirkni, áreiðanleika afhendingar og gæða raforku. Almennt séu því háspennulínur yfir 100 kV spennu lagðar sem loftlínur, bæði hérlendis og erlendis. Suðurnesjalína 2 verði byggð fyrir 220 kV spennu og muni geta annað framtíðarþörfum raforkukerfisins. Sú lína sem þegar liggi um svæðið, Suðurnesjalína 1, 132 kV, sé fulllestuð einungis 20 árum eftir að hún var reist.
Eignarnemi hafi bent á að engar forsendur né málefnalegar ástæður liggi til grundvallar því að í samningaviðræðum við einstaka landeigendur um bætur vegna tiltekinnar framkvæmdar, sé fjallað um aðrar framkvæmdir. Verði slík skylda ekki ráðin af 72. gr. stjskr. eða öðrum lagaheimildum né þeim dómafordæmum sem eignarnámsþolar vísi til. Eignarnemi telji sér skylt samkvæmt raforkulögum að ráðast í framkvæmdina Suðurnesjalínu 2, 220 kV loftlínu. Framkvæmdin hafi verið mörg ár í undirbúningi og sé í almannaþágu.
Af málflutningi eignarnámsþola mætti helst ráða að um væri að ræða eignarnám þar sem þeir væru sviptir eign sinni að fullu, en því fari víðs fjarri í þessum málum. Tjón eignarnámsþola sé takmarkað og sé á svæði sem þegar hafi verið valið sem mannvirkjabelti um Reykjanes.
Eignarnemi hafi náð samningum við meiri hluta landeigenda á framkvæmdasvæði Suðurnesjalínu 2 um framkvæmdina. Staðhættir í landi eignarnámsþola séu þannig að jarðir þeirra liggi frá Vatnsleysuströndinni og langt upp í fjallgarða á Reykjanesskaga. Jarðirnar þveri þannig allar almennar leiðir til og frá Reykjanesi, hvort sem það séu samgöngur eða aðrir innviðir þjóðfélagsins. Fara verði um land þessara jarðeigenda og þar af leiðandi hvílir á þeim rík samfélagsleg skylda til að heimila nauðsynlegar framkvæmdir samfélagsins í landi þeirra eins og staðhættir séu í landi eignarnámþola. Af dómi Hæstaréttar í máli nr. 425/2008, sem eignarnámsþolar vísi til, verði einmitt dregin sú ályktun að ekki sé um annan kost að ræða fyrir eignarnema en að fara um land eignarnámsþola og meðalhófs sé gætt að fullu. Ekki sé neinn munur á þeirri kvöð sem lögð sé á eignarnámsþola og aðra landeigendur sem séu í öldungis sömu stöðu og eignarnámsþolar, þ.m.t. íslenska ríkið og sveitarfélagið Vogar sem landeigendur á hinni löngu framkvæmdaleið. Eðli málsins samkvæmt verði sú keðja sem háspennulínan myndar ekki rofin eða sérhönnuð að óskum einstakra landeigenda heldur ráði almenn sjónarmið og almannahagsmunir. Það séu meginlagarök fyrir eignarnámsheimildum í lögum og skýringu á 72. gr. stjskr.
Því er vísað á bug sem röngu að eignarnemi hafi ekki fengist til að ræða valkost ofar í landinu. Ýmsar útfærslur sem sýnt hafi línuleið ofar í landinu hafi verið sýndar á fyrstu stigum samráðs við sveitarfélög og umhverfisyfirvöld. Sá kostur hefði farið um óraskaða náttúru, um hraun sem njóti sérstakrar verndar skv. 37. gr. laga um náttúruvernd og farið mjög nærri Reykjanesfólkvangi. Nýtt mannvirkjabelti hefði þannig myndast til viðbótar við það sem Reykjanesbraut og Suðurnesjalína 1 myndi í dag. Í ljósi heildarhagsmuna sé sú línuleið sem ákveðin hafi verið best m.t.t. náttúruverndarsjónarmiða, ferðmennsku og í bestu samræmi við markmið skipulagslaga um sjálfbæra nýtingu lands. Þetta sé t.d. í samræmi við það sem fram komi í áliti Skipulagsstofnunar um að leitast eigi við að hafa framkvæmdir við háspennulínur sem næst núverandi mannvirkjabeltum, s.s. vegum og öðrum línum.
Að mati eignarnema sé það mikilvirk mótvægisaðgerð að forðast að fara með línur út úr mannvirkjabeltinu og ofar í land um óskert svæði nær Reykjanesfólkvangi og huga að útliti mastranna í samráði við leyfisveitendur. Athugasemdir eignarnema snúast um þrönga einkahagsmuni þeirra og skoðanir á almennri tilhögun einstakra málaflokka fremur en þá heildarhagsmuni sem líta þurfi til við skipulagningu innviða þjóðfélagsins líkt og orkuflutnings. Hvað varði einkahagsmuni eignarnámsþola þá eigi umfjöllun fyrir Matsnefnd eignarnámsbóta að snúast um hagsmuni þeirra og bætur vegna þeirrar framkvæmdar sem heimiluð hafi verið á lögmætan hátt, en ekki almenna umfjöllun um t.d. ferðamennsku og almenna stefnumótun í raforkuflutningi.
Framkvæmdin fari um langan veg og um jarðir margra. Jafnræði sé með eignarnámsþolum og þeim landeigendum sem samið hafi um framkvæmdina. Áhrif séu sambærileg á landi sem ekki sé óskipulagt og óbyggt. Jarðir eignarnámsþola sem annarra séu nú þegar þveraðar af mannvirkjabelti sem á sé tvöföld og upplýst Reykjanesbraut og Suðurnesjalína 1, en Suðurnesjalína 2 verði samhliða henni og fjær Reykjanesbraut. Mikið óbyggt land sé norðan Reykjanesbrautar sem sé óskipulagt. Nýting landsins sé ekki fyrirsjáanleg í náinni framtíð.
Framkvæmdin útiloki ekki að tjón sé metið, loftlínur séu þess eðlis og reyndar sé hægt að rífa þær og flytja, en því fylgi að sjálfsögðu kostnaður. Engin rök mæli með því að beðið sé með framkvæmd sem eignarnemi beri ábyrgð á og sem valdi eignarnámsþola engri röskun á eignarráðum eða notum hans af fasteign sinni. Hér sé um takmörkuð og ótímabundin afnotaréttindi að ræða. Eignarnámsþolar séu alfarið á móti framkvæmdinni Suðurnesjalína 2 og reyni að hindra framgang hennar.
Málflutningur þeirra hafi þó minnst snúist um einstaklega og sérstaka hagsmuni þeirra af því að þeir láti ekki hin eignarnumdu réttindi af hendi heldur snúi umfjöllunin fyrst og fremst um almenn atriði sem varði jafnt eignarnámsþola sem alla íbúa á Suðurnesjum. Vert sé að minnast þess að fæstir eignarnámsþolar eigi lögheimili á jörðum sínum. Þá verði einnig að geta þess að eignarnámsþolar vegna Stóra Knarrarness I og Heiðarlands Vogajarða fjalla um málið líkt og þeir séu einu eigendur jarðanna. Staðreyndin sé sú að mikill meiri hluti þinglýstra eigenda þessara jarða hafi samið við eignarnema. Málsástæðum eignarnámsþola sé hafnað og þess krafist að aðalkröfu þeirra verði hrundið.
Eignarnemi hafi nú þegar fengið leyfi lögbundins leyfisveitanda og eftirlitsaðila samkvæmt raforkulögum, Orkustofnunar, vegna framkvæmdarinnar Suðurnesjalína 2.
Því er hafnað af hálfu eignarnema að eignarnám það sem hér er fjallað um sé gífurlega íþyngjandi fyrir eignarnámsþola. Hér sé um almenna skerðingu á eignarréttindum að ræða í almannaþágu sem komi með sama hætti við eignarnámsþola og aðra landeigendur og almenning á svæðinu. Undirbúningstími framkvæmda sé langur og lengist sífellt. Málsmeðferðarreglur hafi orðið flóknari á síðustu árum og kæruferli lengist. Eignarnemi hafi í hvívetna fylgt þeim reglum og lögum sem honum beri.
Þau dómsmál sem eignarnámsþolar hafi höfðað snúist að meginstefnu um hvort réttra málsmeðferðarreglna hafi verið gætt við töku stjórnvaldsákvarðana. Eignarnemi telur að svo sé og bendir á að stjórnvaldsákvörðun verði að vera haldin verulegum annmörkum til að dómstólar hafi vald til að ógilda þær. En jafnvel þótt dómstóll kunni að telja að í einhverju tilviki hafi orðið misbrestur á undirbúningi eða töku stjórnvaldsákvörðunar og mistök gerð, útiloki það ekki að ný ákvörðun, sambærileg sé tekin. Slík niðurstaða kynni að tefja framkvæmdir en alls ekki sé unnt að halda því fram, líkt og eignarnámsþolar gera, að félli niðurstaða dómsmála þeim í hag væri skilyrðislaust hætt við áform um framkvæmdina í landi þeirra.
Fyrir aðalkröfu eignarnámsþola sé ekki lagastoð og því beri að hafna henni eða vísa frá Matsnefndeignarnámsbóta.
Eignarnámsþolar krefjist þess að eignarnema verði ekki fengin umráð hinna eignarnumdu réttinda, sem feli í sér almenna kvöð á land þeirra vegna raforkuflutnings í almannaþágu. Eignarnemi vísi eftir atvikum til umfjöllunar í matsbeiðni sinni og til umfjöllunar hér að framan um skýringu og túlkun á eignarnámsreglum og ákvæðum laga nr. 11/1973, þar sem mörg sömu sjónarmið eigi við um kröfu eignarnema þess efnis að hafnað verði bæði aðalkröfu eignarnámsþola um frestun máls og varakröfu um neitun umráðatöku.
Vísi eignarnámsþolar til þess að ekki séu uppfyllt skilyrði þess að beita ákvæðum 14. gr. laga nr. 11/1973, líkt og eignarnemi óskar eftir og telur mjög mikilvægt. Eignarnemi bendir á að dómur Hæstaréttar í máli nr. 324/2000, sem eignarnámsþolar vísi til, hafi ekki neina þýðingu við úrlausn þessa máls. Hins vegar sýni bæði þessi dómur og t.d. dómur Hæstaréttar í máli nr. 151/1983, að meginregla íslensks eignarnámsréttar sé, þrátt fyrir orðalag 13. gr. laga nr. 11/1973, að eignarnema séu almennt fengin umráð hins eignarnumda þegar um sé að ræða eignarnám á takmörkuðum og afmörkuðum réttindum sem eignarnámsþoli lætur af hendi til jafns á við aðra í sambærilegri stöðu. Í slíkum tilvikum, líkt og hér, hafi eignarnemi og samfélagið mun meiri hagsmuni af því að framkvæmd geti haldið áfram óslitið en eignarnámsþoli af því að beðið verði úrlausnar dómstóla á annmörkum sem hann telur vera á stjórnvaldsákvörðunum.
Eignarnemi beri að lögum ábyrgð á sínum framkvæmdum og telji eignamámsþolar að lögvarðir hagsmunir þeirra og réttur þeirra sé mun ríkari en réttur eignarnema séu ákvæði laga um kyrrsetningu, lögbann o.fl., nr. 30/1990, réttarúrræði sem þeim standi til boða. Í þeim tilvikum verði gerðarbeiðendur að vera tilbúnir til að reiða fram tryggingu fyrir því tjóni sem gerð kunni að valda. Í því tilviki sem hér um ræðir verði að telja að krafa um lögbann myndi ekki ná fram að ganga með vísan til 3. mgr. 24. gr. laga nr. 30/1990. Þar sé kveðið á um að lögbann verði ekki lagt við athöfn ef talið verði að réttarreglur um skaðabætur fyrir röskun hagsmuna gerðarbeiðanda tryggi þá nægilega eða ef sýnt þyki að stórfelldur munur sé á hagsmunum gerðarþola af því að athöfn fari fram og hagsmunum gerðarbeiðanda af að fyrirbyggja hana, enda setji gerðarþoli eftir atvikum tryggingu fyrir því tjóni sem athöfnin kunni að baka gerðarbeiðanda. Ákvæði 14. gr. laga m. 11/1973 eigi hér beinlínis við og eignarnemi telur ekkert því til fyrirstöðu að sett sé trygging fyrir hugsanlegum eignarnámsbótum.
Í fyrrnefndri greinargerð sem fylgdi frumvarpi því sem varð að lögum nr. 11/1973 segi um 13. og 14. gr:
„Rétt þykir að lögfesta þá meginreglu að eignarnemi geti ekki krafízt þess að fá umráð þess verðmætis sem eignarnám beinist að fyrr en hann hefur innt af hendi eignarnámsbætur. Oft er eignarnema þó nauðsynlegt að fá umráð eignarnumins verðmætis, áður en mat og afgreiðsla bóta getur farið fram. Einnig getur verið erfitt eða jafnvel útilokað að ákveða eignarnámsbætur fyrirfram eða tiltekna liði eignarnámsbóta. Er mælt fyrir um það í 14. gr. frumvarpsins, hvernig með skuli fara í slíkum tilvikum“.
Eignarnemi minnir á fyrri umfjöllun um að tillit beri að taka til réttmætra hagsmuna hans.
Hagsmunir eignarnema af því að fá umráð hins eignarnumda lands séu brýnir enda knýjandi nauðsyn að ráðist sé í framkvæmdir sem fyrst. Eignarnámsþolar hafi hins vegar ekki sýnt fram á í hverju hagsmunir þeirra, að halda umráðum hins eignarnumda svæðis þar til matsferli er lokið, felist að öðru leyti en því að þeir vilja ekki veita almenna kvöð til þess að framkvæmdin megi fara um land þeirra og freista þess að sú afstaða þeirra hljóti náð fyrir dómstólum. Um það hefur Matsnefnd eignarnámsbóta ekkert úrlausnarvald að lögum. Verði ekki fallist á umráðatökubeiðni eignarnema er sjálfsögð og eðlileg krafa hans, sem Matsnefnd eignarnámsbóta ber að verða við, að matsferli verði lokið á mjög skömmum tíma.
Brýnt sé að hefja framkvæmdir sem fyrst og þegar á þessu ári. Endurspeglist sú brýna nauðsyn í þeim miklu hagsmunum sem í húfi séu, bæði hvað varðar afhendingaröryggi raforku sem og fjárhagslega hagsmuni eignarnema og samfélagsins alls. Eðlilegt sé því að umráðataka fari fram og sé sú krafa í fullu samræmi við störf og venjur matsnefndar eignarnámsbóta.
Gerðar eru athugasemdir við umfjöllun eignarnámsþola um norrænan rétt. Þar sé ýmist rangt farið með eða ákvæði norrænu laganna oftúlkuð. Eignarnemi bendi þó á hið augljósa, úrlausn málanna fer að landslögum en ekki erlendum réttarreglum.
Ekki verði séð að framangreind ákvæði norsku og sænsku laganna séu verulega frábrugðin lögum um framkvæmd eignamáms nr. 11/1973. Eignarnemi þurfi að hafa hagsmuni af því að fá umráð hins eignarnumda og honum beri ef þess sé krafist að setja tryggingu fyrir bótum eða greiða inn á bætur ef þess sé krafist af eignarnámsþola eða úrskurðaraðili setji það sem skilyrði.
Eignarnemi telur að hann hafi sýnt með málefnanlegum hætti fram á að honum sé nauðsyn þess að fá umráð hinna eignarnumdu réttinda enda hafi hann sótt um framkvæmdaleyfi til þess að hefja framkvæmdir. Vegna umfjöllunar í greinargerð eignarnámsþola sé rétt að taka fram að umráðataka og mat á eignarnámsbótum get farið fram þótt framkvæmdaleyfi hafi ekki verið veitt. Framkvæmdaleyfi falli úr gildi ef framkvæmdir hefjist ekki innan árs frá útgáfu þess, sbr. 14. gr. reglug. um framkvæmdaleyfi, nr. 772/2012, og því sé ekki sótt um slíkt leyfi fyrr en undirbúningur framkvæmda sé langt á veg kominn. Eignarnemi hafi einnig sýnt fram á að krafa hans hvíli á lögmætum sjónarmiðum og túlkun á 14. gr. laga nr. 11/1973, eins og úrskurðir matsnefndar eignarnámsbóta sýni. Beri því að veita eignarnema umráð hins eignarnumda svæði gegn tryggingu en eignarnemi geri ekki athugasemdir við að eignarnámsþolar krefjist þess að sett verði trygging af hans hálfu fyrir greiðslu væntanlegra eignarnámsbóta með vísan til síðari tveggja málsl. 1. mgr. 14. gr. laga nr. 11/1973. Hins vegar mótmælir eignarnemi þeim fjárhæðum sem eignarnámsþolar fara fram á. Séu þær úr öllu hófi og órökstuddar með öllu.
NIÐURSTAÐA
Eignarnámsþolar hafa krafist þess að matsnefndin fresti meðferð máls þessa þar til úrlausn dómsmála þeirra er höfðuð hafa verið liggur fyrir.
Fyrir nefndinni er til úrlausnar að ákvarða bætur fyrir eignarnám þar sem fyrir liggur ákvörðun stjórnvalds sem til þess er valdbært, að eignarnema sé heimilt að beita eignarnámi, og á það ekki undir nefndina að taka afstöðu til þess hvort sú ákvörðun er gild eða ekki eða haldin slíkum annmörkum að valdi frestun meðferðar nefndarinnar á máli þessu. Breytir hér engu þótt eignarnámsþolar hafi höfðað mál fyrir dómstólum til ógildingar ákvörðunar ráðherra eða Orkustofnunar. Samkvæmt þessu verður þeirri kröfu eignarnámsþola að máli þessu verði frestað hafnað.
Í 1. mgr. 14. gr. laga nr. 11/1973 um framkvæmd eignarnáms segir að þótt mati sé ekki lokið, geti Matsnefnd heimilað eignarnema að taka umráð verðmætis sem taka á eignarnámi og ráðast í þær framkvæmdir sem eru tilefni eignarnámsins. Ef krafa kemur fram um það af hálfu eignarnámsþola, skal eignarnemi setja tryggingu fyrir væntanlegum bótum. Ákveður Matsnefnd trygginguna.
Eignarnámsþolar mótmæla því að heimild þessari verði beitt eins og hér stendur á enda eigi hún einungis að koma til álita í undantekningartilvikum.
Í gögnum þeim sem fram hafa verið lögð af eignarnema kemur fram að flutningsgeta um núverandi raflínu sé fullnýtt. Þá þykir það ekki nægjanlega öruggt að flytja raforku á jafstórt svæði um einungis eina línu. Er því sýnt fram á þörf til að styrkja hana með þeirri nýju línu sem nú hefur verið heimilað að leggja. Lítur nefndin svo á að eignarnema sé nauðsyn á að fá umráð hins eignarnumda sem fyrst og verður fallist á þá kröfu eignarnema á grundvelli 1. mgr. 14. gr. laga um framkvæmd eignarnáms að honum verði þegar fengin umráð hins eignarnumda.
Eignarnámsþolar hafa sett fram kröfu um að eignarnema verði gert að setja tryggingu fyrir væntanlegum bótum. Verður sú krafa tekin til greina og eins og hér stendur á þykir við þá ákvörðun mega m.a. líta til kostnaðar við að koma hinu eignarnumda í samt lag reynist þess þörf.
Samkvæmt öllu framansögðu er eignarnema heimilt að taka umráð hins eignarnumda gegn tryggingu til eignarnámsþola sem telst hæfilega ákvörðuð 33 milljónir króna.
Þá verður eignarnema gert að greiða 1.000.000 króna í ríkissjóð vegna starfa Matsnefndar eignarnámsbóta í þessum þætti málsins.
ÚRSKURÐARORÐ
Kröfu eignarnámsþola, eiganda Hvassahrauns, um frestun málsmeðferðar er hafnað. Eignarnema, Landsneti ehf., er heimiluð umráðataka í landi Hvassahrauns á landi undir 2.795 metra langt og tæplega 46 metra breitt háspennulínubelti, samtals 213 metra langa og 6 metra breiða vegslóða og 8 burðarmöstur gegn tryggingu að fjárhæð 33 milljónir króna.
Eignarnemi greiði 1 milljón króna til ríkissjóðs vegna starfa Matsnefndar eignarnámsbóta í þessum þætti málsins vegna Hvassahrauns.
Allan V. Magnússon
Sverrir Kristinsson
Vífill Oddsson