Mál nr. 55/2012
Fimmtudaginn 20. mars 2014
A
gegn
umboðsmanni skuldara
Úrskurður
Mál þetta úrskurða Sigríður Ingvarsdóttir formaður, Arndís Anna K. Gunnarsdóttir og Lára Sverrisdóttir.
Þann 29. febrúar 2012 barst kærunefnd greiðsluaðlögunarmála kæra A. Kærð var ákvörðun umboðsmanns skuldara sem tilkynnt var með bréfi 14. febrúar 2012 þar sem umsókn um greiðsluaðlögun var synjað.
Með bréfi 7. mars 2012 óskaði kærunefnd greiðsluaðlögunarmála eftir greinargerð umboðsmanns skuldara sem barst með bréfi 26. apríl 2012. Greinargerðin var send kæranda til kynningar með bréfi 3. maí 2012 og honum gefinn kostur á að koma að athugasemdum. Svar barst með bréfi 15. maí 2012 en þar kom fram að kærandi teldi ekki efni til að svara athugasemdum þar sem ekkert nýtt kæmi þar fram.
I. Málsatvik
Kærandi er fæddur 1943 og býr ásamt eiginkonu sinni í 208,8 fermetra einbýlishúsi hennar að E götu nr. 39 í sveitarfélaginu F.
Kærandi fær lífeyrisgreiðslur frá Lífeyrissjóðum Bankastræti 7 og laun fyrir stjórnarsetu í R hf. Mánaðarlegar tekjur kæranda til framfærslu eru 436.143 krónur að meðaltali. Eiginkona kæranda hefur verið tekjulaus frá árinu 2006.
Að mati kæranda má rekja fjárhagserfiðleika hans til fjárfestinga í fasteignum og hlutabréfum. Þau viðskipti stundaði hann í gegn um félagið S ehf. sem hann á helmingshlut í á móti eiginkonu sinni. Einnig hafi hann gengist í sjálfskuldarábyrgðir fyrir félög. Í kjölfar efnahagshrunsins hafi skuldirnar aukist og eignir rýrnað.
Heildarskuldir kæranda samkvæmt skuldayfirliti umboðsmanns skuldara eru 70.094.097 krónur og falla allar innan samnings um greiðsluaðlögun, sbr. 3. gr. laga um greiðsluaðlögun einstaklinga nr. 101/2010 (lge.). Stærstu skuldir kæranda eru vegna tveggja lána alls að fjárhæð 63.543.378 krónur sem eru tengd endurfjármögnun einkahlutafélags og hlutabréfakaupum. Samkvæmt gögnum málsins er heildarfjárhæð ábyrgðarskuldbindinga vegna sjálfskuldarábyrgða 70.373.580 krónur en ábyrgðir eru að mestu vegna fasteigna- og hlutabréfaviðskipta.
Kærandi lagði fram umsókn um greiðsluaðlögun 6. desember 2010 en með ákvörðun umboðsmanns skuldara 14. febrúar 2012 var umsókn hans hafnað með vísan til þess að óhæfilegt þótti að veita honum heimild til greiðsluaðlögunar með vísan til c- og g-liða 2. mgr. 6. gr. lge.
II. Sjónarmið kæranda
Þess er krafist að kærunefndin felli úr gildi synjun umboðsmanns skuldara og úrskurði að embættinu sé skylt að samþykkja beiðni kæranda um greiðsluaðlögun.
Kærandi vísar til ummæla í greinargerð með frumvarpi því er varð að lge. en þar segi að um sé að ræða eitt af úrræðum löggjafans til að leita leiða til að takast á við og leysa úr greiðsluvanda einstaklinga. Eitt markmiðanna sé að forða fólki frá því að missa heimili sín og gera því kleift að standa undir greiðslubyrði lána. Meginhugsun laganna sé að reynt verði að greiða úr skuldavanda einstaklinga með greiðsluaðlögun á meðan fyrirtæki verði frekar gjaldþrota. Grundvallarmunur sé á einstaklingum annars vegar og fyrirtækjum hins vegar þar sem kennitala fyrirtækja hætti að vera til við gjaldþrot andstætt því sem gildi um einstaklinga. Þessa hugsun megi glöggt sjá í lge. og greinargerð með lögunum. Að mati kæranda þurfi því mikið til að koma ef hafna eigi einstaklingum um tækifæri til uppgjörs á skuldum sínum samkvæmt ákvæðum lge.
Einnig liggi fyrir að meginforsenda þess að umboðsmaður skuldara samþykki umsókn um heimild til að leita greiðsluaðlögunar sé sú að skuldari sé einstaklingur og ófær um að standa í skilum með fjárskuldbindingar sínar. Greiðsluerfiðleikar verði að hafa staðið eða vera líklegir til að standa um nokkurn tíma og lausn þeirra ekki í sjónmáli. Því metur kærandi það svo að ekki verði annað séð en að hann fullnægi þessum meginforsendum.
Með hliðsjón af tilgangi lge. og ummælum í greinargerð með 2. mgr. 6. gr. lge. sé ljóst að þau matskenndu atriði sem kunni að takmarka rétt aðila sem fullnægi meginskilyrðum laganna verði ekki túlkuð rýmra en efni standi til. Miða skuli eftir atvikum við þá framkvæmd sem þegar sé komin á en hafa í huga að þegar skuldari glími við fjárhagsvanda hljóti eitt og annað að hafa farið úrskeiðis hjá honum án þess að atriði sem lýst sé í 2. mgr. 6. gr. lge. eigi við.
Í greinargerð með lge. komi einnig fram að vilji löggjafans hafi ekki staðið til þess að synja einstaklingum sem ættu við vanda að etja vegna atvinnurekstrar um greiðsluaðlögun. Úrræðið sé fyrst og fremst til að takast á við heimilisrekstur einstaklinga en hvergi séu skýrar línur dregnar um hversu stóran hluta af skuldum einstaklings megi rekja til atvinnurekstrar. Það megi heldur ekki verða til þess að þeir sem stundað hafi atvinnurekstur í eigin nafni séu verr staddir með tilliti til greiðsluaðlögunar en þeir sem stundað hafi atvinnurekstur sinn í félagi. Sé það mismunun sem ekki fái staðist.
Hugtakið atvinnurekstur sé hvorki skilgreint í lge. né öðrum lögum. Kærandi kveður að fræðimenn hafi mótað þá skilgreiningu á hugtakinu að atvinnurekstur sé sjálfstæð starfsemi sem stunduð sé með reglubundnum hætti í nokkru umfangi, ekki í mjög skamman tíma í þeim efnahagslega tilgangi að hagnast fjárhagslega. Fyrir liggi að fasteigna- og hlutafjárviðskipti kæranda hafi hvorki verið nægilega reglubundin né umfangsmikil til að teljast til atvinnurekstrar í lagalegum skilningi. Einu skuldbindingar kæranda sem tengist atvinnurekstri séu þær sem á hann hafi fallið vegna ábyrgða. Verði hvorki séð af lestri lge. né greinargerð með lögunum að greiðsluaðlögun geti ekki tekið til einstaklinga í ábyrgðum fyrir félög en í tilviki kæranda hafi ábyrgðarskuldbindingar haft áhrif á fjárhagslega stöðu kæranda og fjölskyldu hans án þess að geta talist til atvinnurekstrar.
Umboðsmaður skuldara synji kæranda meðal annars um greiðsluaðlögun með vísan til c-liðar 2. mgr. 6. gr. lge. um að skuldari hafi hagað fjármálum sínum á verulega ámælisverðan hátt eða tekið fjárhagslega áhættu sem ekki hafi verið í samræmi við fjárhagsstöðu hans á þeim tíma sem til fjárhagsskuldbindinganna var stofnað. Vísi embættið til þess að ábyrgðarskuldbindingar sem kærandi stofnaði til hafi verið sérstaklega áhættusamar þar sem fasteigna- og hlutabréfaviðskipti séu í eðli sínu áhættusöm viðskipti.
Á þeim tíma er til skuldbindinga var stofnað hafi kærandi verið tekjuhærri og hafi hann ekki getað séð fyrir efnahagshrunið 2008. Hafni hann þess vegna því áliti umboðsmanns skuldara að hann hafi tekið fjárhagslega áhættu sem ekki hafi verið í samræmi við fjárhagsstöðu hans á þeim tíma sem til fjárhagsskuldbindinganna var stofnað. Geti það vart talist til ámælisverðrar hegðunar eða mistaka við áhættumat að hafa ekki reiknað með þeirri miklu eignarýrnun og hækkun á lánum sem orðið hafi. Áður en kærandi stofnaði til skuldbindinga hafi farið fram áhættumat og hann hafi ekki stofnað til neinna skuldbindinga sem hann hafi ekki talið sig geta staðið undir þrátt fyrir einhverja lækkun krónunnar og eðlilegar sveiflur á markaði.
Kærandi mótmælir því að fasteignaviðskipti séu í eðli sínu áhættusöm. Slík viðskipti hafi talist til stöðugra og öruggra fjárfestinga. Einnig taki hann fram að þær athugasemdir sem umboðsmaður skuldara hafi gert við hlutabréfakaup hans eigi einnig við um kaup á hlutabréfum sem ríkisvaldið hafi hvatt til á sínum tíma eða upp úr aldamótum. Hvorki sé eðlilegt né sanngjarnt að byggja á slíkum sjónarmiðum.
Kærandi gerir athugasemdir við að umboðsmaður skuldara taki ekki tillit til þess að fleiri en einn ábyrgðarmaður standi að baki þeim skuldbindingum sem kærandi hafi ábyrgst en einnig séu stærstu skuldbindingarnar tryggðar með veði í fasteign eiginkonu kæranda. Álíti kærandi að meta eigi skuldbindingar hans út frá þeim forsendum sem uppi voru á þeim tíma er til skuldbindinganna var stofnað en hann telji óeðlilegt að meta fjárfestingar hans með þeim hætti sem umboðsmaður geri. Einnig verði að líta til þess að skuldir kæranda séu að mestu leyti tilkomnar vegna ábyrgða fyrir þriðja aðila en ekki eigin lántöku.
Umboðsmaður vísi til g-liðar 2. mgr. 6. gr. lge. en samkvæmt ákvæðinu sé heimilt að synja um heimild til greiðsluaðlögunar ef skuldari hefur á ámælisverðan hátt stofnað til óhóflegra skuldbindinga eða skuldir hans eru þess eðlis að bersýnilega sé ósanngjarnt að heimild til greiðsluaðlögunar nái til þeirra. Hér vísi umboðsmaður til skattskulda U ehf. Mótmæli kærandi þessari synjunarástæðu umboðsmanns skuldara. Hann telji hvorki rétt né sanngjarnt að gera einstakling ábyrgan fyrir skuldum hlutafélags á þann hátt sem umboðsmaður geri. Fyrir þessu verði ekki fundin lagastoð. Einnig sé þess að geta að frá því að krafan myndaðist og þangað til hún varð gjaldkræf hafi orðið efnahagshrun sem gert hafi eignir félagsins verðlausar og hafi félagið því ekki getað greitt þessa skatta. Kærandi telji útilokað að þetta geti leitt til synjunar á umsókn um greiðsluaðlögun þegar að öllu leyti hafi verið farið að lögun með skattskil félagsins.
Kærandi hafi mikla hagsmuni af því að fá samþykki umboðsmanns fyrir því að fá að leita frjálsra samninga við kröfuhafa um uppgjör skulda. Verulegur munur sé á möguleikum hans til tekjuöflunar í framtíðinni eftir því hvort hann fái að gera frjálsa samninga við kröfuhafa eða þurfi að sæta því að vera gerður upp eftir harðsvíruðustu reglum skuldaskilaréttarins. Hann eigi meðal annars sæti í stjórn félags en þar geti hann ekki setið áfram verið hann neyddur til gjaldþrots. Hafi það tekjumissi í för með sér en hann hafi auk þeirra tekna aðeins lífeyrissjóðsgreiðslur til ráðstöfunar.
Kærandi sé kominn af vinnumarkaði vegna aldurs. Það séu því jafnt hagsmunir hans og kröfuhafa að honum verði gert kleift að gera upp við kröfuhafa eftir fremsta megni. Verði leið skuldaskilaréttarins ofan á myndi það þýða að kröfuhafar fengju ekkert í sinn hlut og að tekjumöguleikar kæranda yrðu skertir. Geti það vart talist skynsamleg, sanngjörn eða eðlileg niðurstaða og telji kærandi það ekki samrýmast tilgangi og markmiði lge.
III. Sjónarmið umboðsmanns skuldara
Í ákvörðun umboðsmanns skuldara kemur fram að við mat á því hvort veita skuli heimild til greiðsluaðlögunar beri umboðsmanni að kanna hvort fyrir liggi þær ástæður sem komið geta í veg fyrir að greiðsluaðlögun verði heimiluð, sbr. 6. gr. lge. Í 2. mgr. 6. gr. komi fram að heimilt sé að synja um greiðsluaðlögun þyki óhæfilegt að veita hana. Við mat á því skuli taka tillit til þeirra atriða sem nefnd eru í stafliðum ákvæðisins.
Samkvæmt c-lið 2. mgr. 6. gr. lge. sé heimilt að synja um heimild til greiðsluaðlögunar hafi skuldari hagað fjármálum sínum á verulega ámælisverðan hátt eða tekið fjárhagslega áhættu sem ekki var í samræmi við fjárhagsstöðu hans á þeim tíma sem til fjárhagsskuldbindingarinnar var stofnað. Samkvæmt g-lið 2. mgr. 6. gr. lge. sé heimilt að synja um heimild til greiðsluaðlögunar hafi skuldari á ámælisverðan hátt stofnað til óhóflegra skuldbindinga eða skuldir hans eru þess eðlis að bersýnilega sé ósanngjarnt að heimild til greiðsluaðlögunar nái til þeirra.
Kærandi tengist rekstri nokkurra félaga og megi rekja skuldir hans til þeirra auk þess sem hann hafi fjármagnað hlutabréfakaup með lántökum. Stærstu einstöku skuld kæranda að fjárhæð 46.328.137 krónur megi samkvæmt upplýsingum hans rekja til hlutafjárkaupa í Íslandssíma á árunum 1998 til 1999. Skuldin hafi frá þeim tíma verið margsinnis endurfjármögnuð en tveir meðskuldarar séu með kæranda að láninu. Þá sé skuld að fjárhæð 17.215.241 króna tilkomin vegna endurfjármögnunar félagsins T ehf.
Fasteigna- og hlutabréfaviðskipti séu í eðli sínu áhættusöm viðskipti. Fasteignaverð hafi verið mjög hátt á árunum fyrir efnahagshrunið og mikil hækkun hafi orðið á fasteigna- og lóðaverði. Vel hefði getað komið til þess að hægjast myndi á viðskiptum með fasteignir eins og síðar hafi orðið raunin.
Almennt verði ekki gengið út frá því að hlutabréfaviðskipti skili hagnaði eða tapi. Það sé þó forsenda þess að skuldsett hlutabréfakaup standi undir sér að arðsemin sé slík að hún nægi til að greiða fjármagnskostnað. Þar sem ekki sé hægt að ganga út frá því að hlutabréfaviðskipti skili hagnaði sé ljóst að slík viðskipti feli ávallt í sér áhættu. Telja verði að sú áhætta sé þeim mun meiri þegar hlutabréfakaup og samhliða skuldsetning sé jafn mikil og í máli þessu.
Á tíma uppsveiflunnar hafi tekjur kæranda, þar með taldar fjármagnstekjur, verið háar. Þegar fjárhæðir skulda hans og ábyrgðarskuldbindinga séu virtar hafi honum mátt vera ljóst að hann mætti ekki við miklum sveiflum. Þannig hafi hann tekið fjárhagslega áhættu. Einnig verði að líta til þess að kærandi hafi stofnað til skulda og ábyrgðarskuldbindinga þegar ætla mætti að árum hans á vinnumarkaði færi fækkandi vegna aldurs. Kæranda hefði mátt vera ljóst að á komandi árum myndu möguleikar hans til tekjuaukningar minnka af þeim sökum.
Af greinargerð kæranda og upplýsingum frá kröfuhöfum verði ráðið að hann hafi á árunum fyrir bankahrun ráðist í afar miklar fjárfestingar sem hafi falið í sér mikla skuldsetningu. Þetta hafi einkum verið hlutabréfakaup og eigin atvinnurekstur sem hafi falist í viðskiptum með fasteignir. Telja verði að ávallt felist fjárhagsleg áhætta í skuldsettum viðskiptum og að í tilviki kæranda hafi hann velt á undan sér skuldum og stofnað til nýrra á sama tíma og hann hagnaðist vel á sölu hlutabréfa.
Kærandi hafi gegnt stöðu stjórnarmanns og prókúruhafa í U ehf. en félagið hafi verið úrskurðað gjaldþrota í september 2011. Í krafti stöðu sinnar hafi kærandi borið ábyrgð á að félagið stæði í skilum með opinber gjöld. Samkvæmt upplýsingum frá tollstjóra nemi skuld félagsins vegna þing- og sveitarsjóðsgjalda 45.926.604 krónum. Þegar skuldir eru af þeim toga að það væri samfélagslega óásættanlegt að greiðsluaðlögun næði til þeirra, eigi g-liður 2. mgr. 6. gr. lge. við. Álagning skatta á viðskipti sé samkvæmt greinargerð með frumvarpi til lge. dæmi um skuldir sem ekki séu þess eðlis að sanngjarnt sé að ákvæði greiðsluaðlögunar nái til þeirra. Hér sé litið til þess að fjárhæð opinberra gjalda vegna félags sem kærandi hafi verið í fyrirsvari fyrir sé talin óhófleg.
Samkvæmt 1. gr. lge. sé markmið laganna að gera einstaklingum í verulegum greiðsluerfiðleikum kleift að endurskipuleggja fjármál sín. Í greinargerð með frumvarpi til laganna segi að úrræðinu sé fyrst og fremst ætlað að ná til heimilisrekstrar einstaklinga. Það sé ekki vilji löggjafans að einstaklingar sem fyrst og fremst eigi í vanda vegna atvinnurekstrar nýti sér þetta úrræði.
Í tilviki kæranda sé fjárhagsvandi hans vegna atvinnurekstrar en ekki vegna skulda sem stofnað hafi verið til vegna reksturs heimilis eða framfærslu fjölskyldunnar. Samkvæmt greinargerð með umsókn kæranda verði aðeins tvær skuldir taldar til einkaskulda. Annars vegar sé um að ræða skuld sem stofnað hafi verið til vegna kaupa á E götu nr. 39 árið 1989 og hins vegar lán sem tekið hafi verið vegna endurbóta á sömu eign árið 2005. Samtals nemi fjárhæð þessara skulda 6.550.719 krónum eða 9,3% af heildarskuldum kæranda. Skuldir sem rekja megi til atvinnurekstrar nemi 63.543.378 krónum eða 90,7% af heildarskuldum hans. Einnig megi rekja 117.588.737 krónur af 118.578.737 króna ábyrgðarskuldbindingum kæranda, eða 99%, til fjárfestinga og/eða endurfjármögnunar í atvinnustarfsemi. Í úrskurði kærunefndar greiðsluaðlögunarmála í máli nr. 11/2011 telji kærunefndin að skuldir vegna sjálfskuldarábyrgðar á skuldum fyrirtækis séu kröfur á kæranda persónulega enda felist í slíkri ábyrgð ótakmörkuð yfirlýsing einstaklings um að standa skil á fjárhagslegum skuldbindingum þriðja aðila og því séu ábyrgðarskuldbindingar hluti af þeim skuldbindingum sem hann hafi bakað sér.
Með hliðsjón af framangreindu sé það heildstætt mat umboðsmanns skuldara að kærandi hafi tekið fjárhagslega áhættu sem ekki hafi verið í samræmi við fjárhagsstöðu hans á þeim tíma er til fjárhagsskuldbindinganna var stofnað og að skuldir hans séu þess eðlis að bersýnilega sé ósanngjarnt að heimild til greiðsluaðlögunar nái til þeirra. Þyki því óhæfilegt að veita kæranda heimild til greiðsluaðlögunar með vísan til c- og g-liða 2. mgr. 6. gr.
Með vísan til forsendna hinnar kærðu ákvörðunar fer umboðsmaður skuldara fram á að hún verði staðfest.
IV. Niðurstaða
Ákvörðun umboðsmanns skuldara um synjun byggist á c- og g-liðum 2. mgr. 6. gr. lge.
Samkvæmt c-lið 2. mgr. 6. gr. lge. er heimilt að synja um heimild til greiðsluaðlögunar ef skuldari hefur hagað fjármálum sínum á verulega ámælisverðan hátt eða tekið fjárhagslega áhættu sem ekki var í samræmi við fjárhagsstöðu hans á þeim tíma sem til fjárhagsskuldbindingarinnar var stofnað. Samkvæmt g-lið 2. mgr. 6. gr. lge. er heimilt að synja um heimild til greiðsluaðlögunar ef skuldari hefur á ámælisverðan hátt stofnað til óhóflegra skuldbindinga eða skuldir hans eru þess eðlis að bersýnilega sé ósanngjarnt að heimild til greiðsluaðlögunar nái til þeirra.
Kærandi krefst þess að kærunefndin felli úr gildi synjun umboðsmanns skuldara og úrskurði að embættinu sé skylt að samþykkja beiðni kæranda um greiðsluaðlögun. Samkvæmt 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 er aðila máls heimilt að kæra stjórnvaldsákvörðun til æðra stjórnvalds til þess að fá hana fellda úr gildi eða henni breytt nema annað leiði af lögum eða venju. Ef umboðsmaður skuldara synjar skuldara um heimild til að leita greiðsluaðlögunar getur skuldari kært þá ákvörðun til kærunefndar greiðsluaðlögunarmála samkvæmt 4. mgr. 7 gr. lge. Samkvæmt lögunum er gert ráð fyrir að samþykki umboðsmanns skuldara fylgi ákveðin réttaráhrif, sbr. annars vegar 8. gr. laganna, þar sem segir að með samþykki umboðsmanns skuldara á umsókn um greiðsluaðlögun hefjist tímabil greiðsluaðlögunarumleitana, og sbr. hins vegar 1. mgr. 11. gr. en þar segir að þegar umboðsmaður skuldara hafi samþykkt umsókn hefjist tímabundin frestun greiðslna. Umboðsmaður skuldara gegnir því hlutverki að veita heimild til greiðsluaðlögunar samkvæmt því sem kveðið er á um í lge. Getur þar af leiðandi ekki komið til þess að kærunefnd greiðsluaðlögunarmála úrskurði að umboðsmanni skuldara sé skylt að samþykkja beiðni kæranda um greiðsluaðlögun eins og kærandi krefst. Við úrlausn málsins fyrir kærunefndinni getur því aðeins komið til þess að kærunefndin felli synjun umboðsmanns skuldara úr gildi og að lagt verði fyrir umboðsmann skuldara að taka ákvörðun að nýju. Með tilliti til þessa verður að skilja kröfugerð kæranda þannig að farið sé fram á að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi og að lagt verði fyrir umboðsmann skuldara að taka ákvörðun að nýju.
Samkvæmt gögnum málsins eru skuldir kæranda eftirtaldar:
Kröfuhafi | Ár | Tegund | Upphafleg | Staða | Vanskil | Trygging | Skuldarar | Tilgangur lántöku |
fjárhæð kr. | kr. | frá | ||||||
Lífeyrissjóður stm. ríkisins |
1989 | Veðskbr. | 1.000.000 | 400.522 | Í skilum | E götu nr 39 | A | Húsnæðiskaup |
Drómi | 2007 | Erl. lána- | 30.270.000 | 46.328.137 | 2009 | Fjögur trygg.bréf. | A | Skilmálabreyting |
vegna Spron | samningur | E gata nr. 39 | Þ, C | upphaflega til kaupa | ||||
D gata nr. 80 | in solidum | á hlutabr. í Íslandssíma | ||||||
Byr | 2005 | Erl. lána- | 7.153.750 | 17.215.241 | 2008 | Sjálfskuldarábyrgð | A | Endurfjármögnun |
samningur | á rekstri T ehf. | |||||||
Arion banki | 2005 | Veðskbr. | 8.000.000 | 6.150.197 | Í skilum | Trbr. E gata nr. 39 | A | Vegna íbúðarhúss |
Alls kr. | 46.423.750 | 70.094.097 |
Í málinu liggja ekki fyrir gögn um hvenær kærandi stofnaði upphaflega til stærstu skuldar sinnar, þ.e. skuldar við Dróma vegna Spron né hver var fjárhæð lánsins þegar til þess var stofnað. Af gögnum málsins má þó sjá að núverandi lán var endurfjármögnun á eldra láni. Kærandi hefur upplýst að þetta lán hafi verið tekið til hlutabréfakaupa í Íslandssíma hf. á árunum 1998 og 1999. Kærandi kveður láninu oft hafa verið skuldbreytt en hann hefur ekki upplýst um ástæður þess að lánin voru ekki greidd á upphaflegum gjalddaga samkvæmt skilmálum sínum. Lán við Byr var tekið til endurfjármögnunar á rekstri félagsins T ehf.
Samkvæmt gögnum málsins hefur kærandi gengist í neðangreindar ábyrgðarskuldbindingar:
Kröfuhafi | Ár | Skuldari | Tegund | Höfuðstóll | Staða | Tilgangur lántöku | Aðrar |
Tryggingar | |||||||
Byr | 2006 | S ehf. | Yfirdráttarskuld | 20.000.000 | 20.302.092 | Fjármögnun lóðakaupa | H |
dóttur og tengdasonar | v/ 5.000.000 kr. | ||||||
Landsbankinn | 2006 | U ehf. | Skuldabréf | 26.000.000 | 27.189.226 | Kaup á lóðinni | Sjálfsk.áb. |
G götu nr. 2 | J | ||||||
Spron | 2006 | V | Skuldabréf | 6.420.000 | 14.061.629 | Endurfjármögnun v/ | Sjálfsk.áb. |
í erlendri mynt | fyrri hlutabréfakaupa | Þ | |||||
og C | |||||||
Landsbankinn | 2007 | Z ehf. | Skuldabréf | 7.235.000 | 7.390.761 | Fasteignaviðskipti | Sjálfsk.áb. |
J | |||||||
Íslandsbanki | 2007 | C | Skuldabréf | 1.300.000 | 1.229.872 | Sjálfsk.áb. | |
Þ | |||||||
Arion banki | 2008 | H | Yfirdráttarskuld | 990.000 | 200.000 | Nei | |
Arion banki | 2008 | C | Erlent lán | 10.000.000 | 0 | Endurfjármögnun | Sjálfsk.ábyrgð |
láns frá 2005 | Þ | ||||||
Alls kr. | 71.945.000 | 70.373.580 |
Skuldarar þessara lána eru ýmist viðskiptafélagi kæranda, félög sem kærandi átti að einhverju leyti og í einu tilviki eiginkona kæranda. Lánin eru öll nema það síðastnefnda tengd fasteigna- eða hlutabréfakaupum. Á því tímabili sem hér er til skoðunar voru tekjur kæranda, eignir og skuldir samkvæmt skattframtölum þessar í krónum:
2006 | 2007 | 2008 | 2009 | 2010 | |
Brúttótekjur alls | 8.560.355 | 19.173.195 | 6.958.701 | 8.374.552 | 7.553.998 |
Launatekjur | 6.868.490 | 6.121.057 | 6.118.489 | 7.479.881 | 7.422.876 |
Fjármagnstekjur | 1.691.865 | 13.052.138 | 840.212 | 894.671 | 131.122 |
Meðaltekjur á mán. (nettó) | 520.744 | 1.362.809 | 457.933 | 499.003 | 471.439 |
Eignir alls: | 25.592.258 | 28.321.376 | 483.841 | 475.594 | 582.899 |
· E gata nr. 39, 50% | 19.840.000 | 22.075.000 | |||
· I 1,11% | 18.390 | 20.557 | 21.613 | 21.613 | 21.590 |
· Bifreið M | 4.400.000 | ||||
· Bifreið L | 3.654.053 | ||||
· Hlutir í félögum (nafnverð) | 1.942.650 | 1.691.808 | 453.605 | 453.605 | 453.605 |
· Bankainnstæður | 137.165 | 134.011 | 8.623 | 376 | 107.704 |
Skuldir: | 14.542.394 | 24.485.382 | 34.167.352 | 102.746.210 | 113.890.862 |
Nettó eignastaða: | 11.049.864 | 3.835.994 | -33.683.511 | -102.270.616 | -113.307.963 |
Höfuðstóll ábyrgðarskuldbindinga: | 52.420.000 | 60.955.000 | 71.945.000 | 71.945.000 | 71.945.000 |
Kærandi afsalaði 50% eignarhluta sínum í E götu nr. 39 til eiginkonu sinnar á árinu 2008 og skýrir það að hluta til eignarýrnun hans á milli áranna 2007 og 2008.
Markmið lge. er að gera einstaklingum í verulegum greiðsluerfiðleikum kleift að endurskipuleggja fjármál sín og koma á jafnvægi milli skulda og greiðslugetu þannig að raunhæft sé að skuldari geti staðið við skuldbindingar sínar um fyrirsjáanlega framtíð, sbr. 1. gr. laganna. Í því skyni getur sá einstaklingur leitað greiðsluaðlögunar sem sýnir fram á að hann sé eða verði um fyrirsjáanlega framtíð ófær um að standa í skilum með fjárskuldbindingar sínar.
Í 6. gr. lge. er gerð grein fyrir þeim atriðum sem geta komið í veg fyrir að greiðsluaðlögun verði heimiluð. Í 2. mgr. 6. gr. kemur fram að umboðsmanni skuldara sé heimilt að synja um heimild til greiðsluaðlögunar ef óhæfilegt þykir að veita hana. Í ákvæðinu eru talin upp atriði sem líta skal til við matið, en þau bera það með sér að ekki sé talið viðeigandi að skuldari eigi kost á greiðsluaðlögun ef vandi hans verður að einhverju leyti eða öllu rakinn til atvika sem hann beri sjálfur ábyrgð á með framgöngu sinni, sbr. einnig athugasemdir með frumvarpi að lge.
Samkvæmt núgildandi lögum um greiðsluaðlögun einstaklinga girða skuldir vegna atvinnurekstrar ekki fyrir heimild til greiðsluaðlögunar en takmörkun af því tagi var í 2. mgr. 63. gr. a laga um gjaldþrotaskipti o.fl. nr. 21/1991, sem felld var úr gildi með lögum nr. 101/2010. Þar kom fram að ákvæði laganna um nauðasamning til greiðsluaðlögunar næði ekki til einstaklinga sem undangengin þrjú ár hefðu borið ótakmarkaða ábyrgð á atvinnustarfsemi, hvort sem þeir hefðu lagt stund á hana einir eða í félagi við aðra, nema því aðeins að atvinnurekstri hefði verið hætt og þær skuldir sem stöfuðu frá atvinnurekstrinum væru tiltölulega lítill hluti af heildarskuldum þeirra. Þó kemur fram í greinargerð með frumvarpi til núgildandi laga um greiðsluaðlögun einstaklinga að tilgangur þess að fella slíkar takmarkanir úr gildi hafi fyrst og fremst verið sá að greiða fyrir greiðsluaðlögun þeirra einstaklinga sem eru með atvinnurekstur samofinn heimilisrekstri. Segir í greinargerð með lögunum að það sé ekki ætlun löggjafans að þeir sem eigi í greiðsluerfiðleikum fyrst og fremst vegna atvinnurekstrar nýti sér þetta úrræði en í stað þess að girða alfarið fyrir það er þess vænst að við afgreiðslu slíkra umsókna sé litið til ákvæða 2. mgr. 6. gr. lge. varðandi fjárhagslega áhættu.
Af skattframtölum verður ráðið að kærandi hafi undanfarin ár fengið launatekjur sínar frá R hf. og lífeyrissjóðum en launatekjur hans hafa verið svipaðar allt tímabilið sem hér er til skoðunar. Aðrar tekjur hafa verið fjármagnstekjur. Um 9,3% beinna skulda kæranda er vegna íbúðarhúsnæðis eiginkonu hans en aðrar skuldir eru samkvæmt upplýsingum kæranda vegna hlutabréfakaupa hans og endurfjármögnunar á skuldum félagsins T ehf. Kærunefndin telur að síðastnefndu tvær skuldirnar geti ekki tengst heimilisrekstri kæranda. Að því er varðar fyrri skuldina telur kærunefndin að líta verði þannig á að upphaflega hafi skuldin verið hærri en svo að kærandi gæti greitt hana af launum sínum á gjalddaga og hafi lánið því verið ítrekað framlengt. Að því er varðar seinni skuldina er um endurfjármögnun á skuldum félags að ræða og tengist það því ekki heimilisrekstri kæranda. Einnig telur kærunefndin að hér skipti máli að um er að ræða skuldbindingar sem nema fjárhæðum lagt umfram það sem ætla má að stafi frá heimilisrekstri.
Skuldasöfnun kæranda er einkum tilkomin vegna fjárfestinga, meðal annars í hlutabréfum og fasteignum. Þótt slíkar fjárfestingar verði ekki skilyrðislaust taldar áhættusamar verður að álíta að áhættan hljóti að aukast eftir því sem umfang fjárfestinganna er meira og eftir því sem skuldsetning vegna þeirra er meiri. Á árunum fyrir bankahrunið réðist kærandi í fjárfestingar sem fólu í sér mikla skuldsetningu eins og lýst er í hinni kærðu ákvörðun. Í þessu sambandi ræður ekki úrslitum hvort þessar skuldsetningar voru vegna atvinnurekstrar en þær verður að meta út frá þeim þáttum sem tilgreindir eru í 2. mgr. 6. gr. lge. sem fyrr segir.
Þá liggur fyrir í máli þessu að 50% skulda kæranda eru vegna sjálfskuldarábyrgða sem hann hefur tekist á hendur. Ábyrgðarskuldbindingar að fjárhæð ríflega 49.000.000 króna eru til viðbótar við ábyrgð kæranda tryggðar með ábyrgð annars einstaklings in solidum, ábyrgðarskuldbinding að fjárhæð 6.420.000 krónur er auk ábyrgðar kæranda tryggð með ábyrgð tveggja annarra einstaklinga in solidum og ábyrgðarskuldbindingar að fjárhæð um 16.000.000 króna eru eingöngu tryggðar með sjálfskuldarábyrgð kæranda.
Ábyrgðarskuldbindingar er ekki alltaf hægt að leggja að jöfnu við beinar fjárhagslegar skuldbindingar við mat á því hvort óhæfilegt sé að veita heimild til greiðsluaðlögunar í skilningi 2. mgr. 6. gr. lge. Sá einstaklingur sem gengst undir ábyrgðarskuldbindingar þarf þó að gera ráð fyrir þeim möguleika að kröfum vegna þeirra verði beint að honum að hluta til eða í heild. Ekki verður gengið fortakslaust út frá því að ábyrgðaraðili muni þurfa að greiða allar þær skuldbindingar sem hann hefur ábyrgst efndir á en meta þarf áhættuna í hverju tilviki fyrir sig.
Í máli nr. 198/2010 skýrði Hæstiréttur ákvæði 2. tölul. 1. mgr. 63. gr. d gjaldþrotaskiptalaga sem er sambærilegt c-lið 2. mgr. 6. gr. lge. Í því máli voru 81% heildarskulda vegna ábyrgðaskuldbindinga sem fallið höfðu á skuldara og á sama tíma og þegar til skuldbindinganna var stofnað voru tekjur skuldara litlar sem engar. Hæstiréttur leit einnig til þess hvernig eignastöðu var háttað þegar til skuldbindinganna var stofnað og hafnaði heimild til greiðsluaðlögunar og taldi ljóst að skuldari hafði tekið fjárhagslega áhættu sem ekki var í samræmi við fjárhagsstöðu hans á þeim tíma þegar til fjárhagsskuldbindinganna var stofnað.
Að því er varðar ábyrgðarskuldbindingar kæranda er stærstur hluti þeirra, eða ríflega 52.000.000 króna, frá árinu 2006. Eru þetta sjálfskuldarábyrgðir vegna félaga sem tengjast kæranda. Af þessari fjárhæð eru 26.000.000 króna vegna lóðakaupa, en rúmar 6.000.000 króna vegna endurfjármögnunar á láni vegna hlutabréfakaupa. Kærandi hefur greint frá því að fyrirhugað hafi verið að byggja á lóðunum og selja síðan húsin með hagnaði. Á árinu 2007 tókst kærandi á hendur sjálfskuldarábyrgðir fyrir ríflega 8.000.000 króna en þar af voru ríflega 7.000.000 króna vegna fasteignaviðskipta félagsins Z ehf.
Meðal þeirra ábyrgðarskuldbindinga sem kærandi tókst á hendur á árinu 2006 var sjálfskuldarábyrgð fyrir félag kæranda og eiginkonu hans, S ehf., að fjárhæð 20.000.000 króna. Í lok þess árs var eigið fé félagsins 42.329.290 krónur, eignir 25.109.998 krónur og skuldir 2.708.251 króna. Samkvæmt því verður ekki talið að kærandi hafi tekið óhæfilega áhættu með því að ábyrgjast umrædda skuld.
Aðrar ábyrgðarskuldbindingar sem kærandi tókst á hendur á árunum 2006 og 2007 voru það miklar að líta verður svo á að þær hafi verið óhóflegar og ekki í samræmi við fjárhagsstöðu hans á þeim tíma er til þeirra var stofnað. Ekki verður séð að kærandi hafi haft raunhæfa möguleika til að greiða af þessum skuldbindingum ef á þær reyndi. Miðað við eignastöðu kæranda átti hann ekki eignir til að greiða nema hluta þessara skuldbindinga. Hann hafði þó verulegar fjármagnstekjur á árinu 2007 en notaði þær ekki til að greiða skuldir, en eins og segir í hinni kærðu ákvörðun hafi hann velt á undan sér skuldum og stofnað til nýrra á sama tíma og hann hagnaðist vel á sölu hlutabréfa. Í þessu sambandi þykir að mati kærunefndarinnar heldur engu breyta þótt kærandi væri ekki eini ábyrgðarmaðurinn enda voru ábyrgðirnar in solidum svo krefja hefði mátt kæranda einan um viðkomandi fjárhæðir ef á ábyrgðirnar reyndi. Að mati kærunefndarinnar tókst kærandi því á hendur miklar sjálfskuldarábyrgðir í trausti þess að hagnaður af byggingaframkvæmdum á þeim lóðum sem keyptar voru yrði nægilegur til að greiða allan fjármagnskostnað og að þau félög sem hann gekkst í sjálfskuldarábyrgðir fyrir myndu ekki lenda í greiðsluvanda.
Af skattframtölum kæranda má ráða að verðbréfaeign hans hafi verið nokkur á árunum 2006 og 2007 en á þessum árum var eignastaða hans jákvæð. Í lok ársins 2006 var langstærsta eign kæranda stofnfjárbréf í Sparisjóði Kópavogs en hann átti einnig hlutabréf í Landsbanka, Glitni banka, Kaupþingi og Existu. Í lok ársins 2007 átti kærandi bréf í Landsbanka, Kaupþingi og Existu og hafði verðmæti hlutabréfaeignar hans minnkað mjög enda seldi hann stærstan hluta hennar á því ári og námu fjármagnstekjur hans rétt rúmum 13.000.000 króna á árinu 2007. Þrátt fyrir þær fjármagnstekjur sem kærandi hafði á árinu 2007 framlengdi hann, ásamt meðskuldurum sínum, lán hjá Spron sem upphaflega var að fjárhæð 30.270.000 krónur. Af því sem rakið hefur verið hér að framan má sjá að eignir kæranda á ofangreindu tímabili hefðu ekki dugað til greiðslu skuldbindinga hans á sama tímabili. Þá hefði greiðslubyrði skulda umfram eignir verið mun meiri en launatekjur kæranda hefðu getað staðið undir.
Í málatilbúnaði sínum leggur kærandi áherslu á að stór hluti skulda hans hafi ekki verið nýjar skuldir heldur framlenging á eldri skuldum. Með vísan til þess sem þegar hefur verið rakið telur kærunefndin að með því að fresta greiðslum með þessum hætti hafi kærandi á ámælisverðan hátt tekið fjárhagslega áhættu og aukið á fjárhagsvanda sinn.
Við mat á því hvort beita skuli c- og g-liðum 2. mgr. 6. gr. lge. ber að líta til samspils tekna og skuldasöfnunar á því tímabili sem til skoðunar er, sbr. það sem greinir hér að ofan. Þegar skuldasöfnun er veruleg verður að telja að stofnað hafi verið til óhóflegra skuldbindinga í skilningi g-liðar sama lagaákvæðis. Í fyrri úrskurðum kærunefndarinnar hefur niðurstaðan jafnan verið sú að þegar kærendur takast á hendur fjárhagsskuldbindingar sem litlar eða engar líkur eru á að þeir geti greitt af miðað við eignastöðu og tekjur, að teknu tilliti til framfærslukostnaðar og annarra fjárskuldbindinga á þeim tíma sem til skuldbindingar er stofnað, leiði það til þess að umboðsmanni skuldara sé heimilt að synja um greiðsluaðlögun.
Að öllu framangreindu virtu telur kærunefndin að með skuldasöfnun sinni hafi kærandi á ámælisverðan hátt stofnað til óhóflegra skuldbindinga, sbr. g-lið 2. mgr. 6. gr. lge, svo og tekið fjárhagslega áhættu sem ekki var í samræmi við fjárhagsstöðu hans á þeim tíma sem til fjárhagsskuldbindinganna var stofnað, í skilningi c-liðar 2. mgr. 6. gr. lge. Samkvæmt því telur kærunefndin að A hafi réttilega verið synjað um heimild til að leita greiðsluaðlögunar með vísan til c- og g-liða 2. mgr. 6. gr. lge. Ber því að staðfesta hina kærðu ákvörðun.
ÚRSKURÐARORÐ
Ákvörðun umboðsmanns skuldara um að synja A um heimild til að leita greiðsluaðlögunar er staðfest.
Sigríður Ingvarsdóttir
Arndís Anna K. Gunnarsdóttir
Lára Sverrisdóttir