Hoppa yfir valmynd

Nr. 564/2019 Úrskurður

KÆRUNEFND ÚTLENDINGAMÁLA

Þann 27. nóvember 2019 er kveðinn upp svohljóðandi

úrskurður nr. 564/2019

í stjórnsýslumáli nr. KNU19090007

Kæra [...]

á ákvörðun

Útlendingastofnunar

 

I. Kröfur, kærufrestir og kæruheimild

Þann 3. september 2019 kærði [...], fd. [...], ríkisborgari [...] (hér eftir nefnd kærandi), ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 29. ágúst 2019, um að synja henni um dvalarleyfi á grundvelli hjúskapar, sbr. 70. gr. laga um útlendinga nr. 80/2016.

Kærandi krefst þess að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi og að hún fái dvalarleyfi á grundvelli hjúskapar. Til vara er þess krafist að lagt verði fyrir Útlendingastofnun að taka mál kæranda til meðferðar að nýju.

Fyrrgreind ákvörðun er kærð á grundvelli 7. gr. laga um útlendinga og barst kæran fyrir lok kærufrests.

II. Málsatvik og málsmeðferð

Kærandi sótti um dvalarleyfi á grundvelli vistráðningar þann 15. janúar 2016 og var synjað með ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 11. ágúst 2017. Kærandi sótti um dvalarleyfi á grundvelli hjúskapar þann 14. september 2018. Með ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 29. ágúst 2019, var umsókn kæranda synjað. Kærandi kærði ákvörðunina til kærunefndar útlendingamála þann 3. september sl. og greinargerð kæranda barst nefndinni þann 23. september sl. Frekari gögn bárust frá kæranda þann 29. október sl. Þá kom maki kæranda á skrifstofu kærunefndar þann 6. nóvember sl. og sýndi starfsmönnum nefndarinnar upplýsingar úr samskiptaforriti í símtæki sínu. Frekari gögn bárust kærunefnd með tölvupóstum dags. 6. nóvember 2019 og 21. nóvember sl.

III. Ákvörðun Útlendingastofnunar

Í ákvörðun Útlendingastofnunar kom fram að við vinnslu umsóknar hafi vaknað grunur hjá stofnuninni um að hjúskapur kæranda og maka hennar væri hugsanlega til málamynda, m.t.t. til fyrri umsóknar kæranda um dvalarleyfi hér á landi og dvalarleyfasögu umsókna frá heimahéraði kæranda í [...]. Þann 6 júní 2019 hafi stofnunin sent kæranda bréf þar sem rakin voru þau atriði sem að mati stofnunarinnar bentu til þess að hjúskapur þeirra væri hugsanlega til málamynda. Þann 25. júní sl. hafi stofnuninni borist greinargerð frá lögmanni kæranda.Vísaði Útlendingastofnun til og reifaði ákvæði 8. mgr. 70. gr. laga um útlendinga auk lögskýringargagna með ákvæðinu. Vísaði stofnunin til þess að umsókn kæranda á grundvelli vistráðningar hefði verið synjað á þeim grundvelli að tilgangur hennar með umsókn hefði verið annar en vistráðning. Hefði það verið mat stofnunarinnar að raunverulegur tilgangur kæranda væri að sameinast fjölskyldu sinni hér á landi og ganga í hjúskap og að líklegt væri að hún myndi ekki yfirgefa landið að vistráðningu lokinni. Hafi framangreindar forsendur verið rökstuddar með vísan til málaskrá stofnunarinnar. Kærandi hafi gengið í hjúskap þann 31. júlí 2018, eða tæpu ári eftir að hún fékk synjun á framangreindu dvalarleyfi, og að mati stofnunarinnar benti það sterklega til þess að til hjúskaparins hefði verið stofnað í þeim tilgangi að afla dvalarleyfis hér á landi. Þá vísaði Útlendingastofnun til þess að maki kæranda hafi fyrst fengið útgefið dvalarleyfi á grundvelli hjúskapar með íslenskum ríkisborgara þann 1. mars 2013 og hafi hann fengið útgefið ótímabundið dvalarleyfi þann 17. maí 2017. Samkvæmt upplýsingum frá Þjóðskrá Íslands hafi maki kæranda skilið að lögum við þáverandi maka þann 5. október 2017 eða innan við fimm mánuðum eftir að hann öðlaðist sjálfstæð réttindi hér á landi. Þá hafi hann gengið í hjúskap með kæranda rúmlega níu mánuðum eftir að hann skildi að lögum við fyrrverandi eiginkonu sína. Jafnframt vísaði stofnunin til fjölskyldutengsla kæranda hér á landi en systir hennar og móðir byggju hér og samkvæmt greinargerð kæranda hefði maki hennar þekkt systur hennar frá því þau hefðu verið í [...] og þá hefðu kærandi og maki hennar ekki búið saman fyrir stofnun hjúskapar. Það var mat Útlendingastofnunar að rökstuddur grunur væri fyrir hendi um að til hjúskapar hefði verið stofnað í þeim tilgangi að afla dvalarleyfis hér á landi og að kærandi hefði ekki sýnt fram á annað svo óyggjandi væri, sbr. 8. mgr. 70. gr. laga um útlendinga. Var umsókn kæranda því synjað.

IV. Málsástæður og rök kæranda

Í greinargerð kæranda vísar hún til þess að 8. mgr. 70. gr. laga um útlendinga sé undantekningarákvæði sem feli í sér mikla skerðingu á rétti fólks til einkalífs og við túlkun á ákvæðinu beri að beita þröngri lögskýringu og vernda einstaklinga gegn ómálefnalegri íhlutun stjórnvalda í réttindi þeirra. Af því leiði að stjórnvöldum beri skylda til að framkvæma eigið mat og tryggja að slíkt mat fari raunverulega fram í hverju tilviki. Þá beri einnig að horfa til hugtaksins „rökstuddur grunur“, sem vísi m.a. til þess að eitthvað sé stutt ástæðum eða rökum og vísar í því samhengi til úrskurðar kærunefndar útlendingamála nr. 83/2019, þar sem fram komi að hinn rökstuddi grunur þurfi að beinast að stofnun hjúskaparins.

Kærandi gerir í greinargerð athugasemdir við aðferðarfræði Útlendingastofnunar við mat á rökstuddum grun í málinu. Telur kærandi að svo virðist sem stofnunin horfi til þessa að í athugasemdum um 70. gr. laga um útlendinga sé að finna tæmandi talningu á ellefu atriðum sem stofnunin eigi að leggja til grundvallar við mat á því hvort rökstuddur grunur sé fyrir hendi. Sé niðurstaðan sú að mati Útlendingastofnunar að meirihluti atriða sé til staðar, þ.e. sex eða fleiri af ellefu atriðum þá geti stofnunin byggt á því að rökstuddur grunur sé til staðar. Kærandi mótmælir aðferðarfræði Útlendingastofnunar og telur hana skorta alla lagastoð. Í fyrsta lagi telur kærandi að aðferðarfræði stofnunarinnar geri engan greinarmun á því hvort hið meinta efnisatriði sem hinn rökstuddi grunur byggist á tengist stofnun hjúskaparins, eins og áskilið sé í lögum. Í öðru lagi telur kærandi að það verði að fara fram sjálfstætt mat stjórnvaldsins á heildarstöðu í hverju máli fyrir sig, ekki sé hægt að byggja á því sjónarmiði að meirihluti atriða eigi við í tilgreindu máli eða ekki. Í því samhengi vísar kærandi m.a. til þess að horfa beri til réttmætisreglu stjórnsýsluréttarins við val á sjónarmiðum og innbyrðis mati þeirra. Þá vekur kærandi athygli á því að Útlendingastofnun hafi sjálf horft til annarra atriða í öðrum málum sem séu ekki á meðal þeirra ellefu atriða sem tilgreind séu í athugasemdum með 70. gr. laga um útlendinga. Í þriðja lagi telur kærandi ljóst að með framangreindri aðferðarfræði sé stjórnvaldið að koma sér hjá þeirri lagaskyldu að framkvæma raunverulegt og efnislegt mat á umsókn hennar. Með vísan til alls framangreinds telur kærandi að aðferðarfræði Útlendingastofnunar og mat hennar í hinni kærðu ákvörðun sé haldið slíkum ágöllum að ógilda beri ákvörðunina og veita kæranda dvalarleyfi hér á landi.

Þá áréttar kærandi að nánast ekkert þeirra einstöku efnisatriða í ákvörðun Útlendingastofnun hafi nokkuð með stofnun hjúskaparins að gera eins og áskilið sé í lögum, sbr. 8. mgr. 70. gr. laga um útlendinga. Tekur kærandi fram að engin athugasemd hafi verið gerð við að kærandi og maki hennar hafi ekki búið saman fyrir stofnun hjúskapar af hálfu Útlendingastofnunar í bréfi stofnunarinnar, frá 6. júní 2019, og því hafi kærandi ekki notið andmælaréttar hvað það atriði varðar. Þá vísar kærandi til þess að hún og maki hennar hafi þekkst lengi en byrjað að vera í sambandi í október 2017, þegar maki kæranda hafi fengið lögskilnað á Íslandi. Hafi þau ákveðið að gifta sig í maí 2018 en á þeim tíma hafi kærandi búið í [...] en maki kæranda á Íslandi. Þá hafi maki komið til [...] í júní s.á. og þau búið þar saman þangað til maki hennar ferðaðist aftur til Íslands í ágúst s.á. Hafi þau því búið saman fyrir giftingu og ennfremur sé afar algengt í [...] að hjón búi ekki saman fyrir hjúskap. Þá vísar kærandi til þess að ekkert í hinni kærðu ákvörðun eða gögnum málsins sýni fram á tengsl hjúskaparsögu maka kæranda við hjúskap kæranda og maka kæranda, og þá þurfi að koma meira til en hjúskaparsaga hans svo fyrir hendi sé rökstuddur grunur í skilningi 8. mgr. 70. gr. laga um útlendinga. Jafnframt sé ekkert í gögnum málsins sem sýni fram á að tengsl séu milli hjúskapar þeirra og þeirrar staðreyndar að kærandi eigi móður og systur sem búi hér á landi. Þá hafi fyrri dvalarleyfisumsókn kæranda ekkert með hjúskap þeirra að gera. Í ljósi framangreinds telur kærandi að í hinni kærðu ákvörðun hafi ekki farið fram sjálfstætt mat á einstökum þáttum og þeir vegnir og metnir með hliðsjón af málsatvikum heldur virðist sem þeir fái allir jafnt vægi. Þá virðist einnig sem Útlendingastofnun telji eitt efnisatriði, þ.e. hjúskaparsögu maka kæranda, sem tvö efnisatriði, í þeim tilgangi að fjölga efnisatriðum sem leggja eigi til grundvallar við mat stofnunarinnar.

Loks vísar kærandi til þess að Útlendingastofnun hafi ekki gætt að rannsóknarskyldu sinni skv. 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Þar sem um sé að ræða mjög íþyngjandi ákvörðun sem beinist að grundvallarmannréttindum um friðhelgi einkalífs, heimilis, og fjölskyldu verði að gera ríkari kröfur til afgreiðslu stofnunarinnar en hin kærða ákvörðun beri með sér. Telur kærandi að stofnunin geti ekki byggt á fyrri hjúskaparsögu maka kæranda án þess að rannsaka málið nánar og geti stofnunin því ekki byggt á framangreindum efnisatriðum án frekari rannsóknar. Kærandi vísar þá jafnframt til meðalhófsreglu stjórnsýslulaga og áréttar að dvalarleyfi kæranda yrði ávallt tímabundið og stjórnvöld geti því því hæglega gripið til annarra úrræða í kjölfar þess að dvalarleyfi hafi verið veitt, sé áframhaldandi grunur um málamyndahjúskap til staðar.

V. Niðurstaða kærunefndar útlendingamála

Í 70. gr. laga um útlendinga er kveðið á um dvalarleyfi á grundvelli hjúskapar eða sambúðar. Í 1. málsl. 8. mgr. 70. gr. laganna segir að sé rökstuddur grunur um að til hjúskapar eða sambúðar hafi verið stofnað í þeim tilgangi að afla dvalarleyfis og ekki sé sýnt fram á annað svo að óyggjandi sé veiti það þá ekki rétt til dvalarleyfis. Í athugasemdum við 70. gr. í frumvarpi því er varð að gildandi lögum um útlendinga segir m.a.:

„Ákvæðinu er ætlað að heimila synjun á veitingu leyfis ef hægt er að sýna fram á að til hjúskapar hafi verið stofnað í öðrum tilgangi en til samvistar, t.d. til að afla dvalarleyfis. Þegar metið er hvort grunur sé á málamyndahjúskap er m.a. litið til þess hvort aðilar hafi búið saman fyrir stofnun hjúskapar, aldursmunar, hvort þau tali tungumál hvors annars, þekki til einstakra atriða eða atvika úr lífi hvort annars og hjúskaparsögu viðkomandi maka og hvort hún veki grunsemdir hvað þetta varðar. Við mat á aðstæðum sem þessum þarf þó að taka tillit til þess að mismunur getur verið á milli menningarheima hvað varðar hefðir og aðdraganda hjúskapar og þekkingu hjóna hvort á öðru við upphaf hjúskapar. Það að aðilar hafi ekki hist áður eða búið saman fyrir stofnun hjúskapar getur ekki verið eini grundvöllur þess að synja um veitingu leyfis á þessum grundvelli heldur verður fleira að koma til sem bendir til þess að um málamyndagerning sé að ræða. Auk þessara þátta getur skipt máli hvort viðkomandi útlendingur hafi áður sótt um dvöl í landinu á öðrum grundvelli, m.a. með umsókn um alþjóðlega vernd og að viðkomandi útlendingur hafi gengið í hjúskap stuttu eftir að þeirri umsókn hafi verið hafnað.“

Samkvæmt hinni kærðu ákvörðun komst Útlendingastofnun að þeirri niðurstöðu að til hjúskapar kæranda og maka hennar hefði verið stofnað í þeim tilgangi að afla kæranda dvalarleyfis. Af ákvörðun Útlendingastofnunar verður ráðið að þessi niðurstaða stofnunarinnar hafi verið byggð á nokkrum atriðum, m.a. að kærandi og maki hennar hefðu ekki búið saman fyrir stofnun hjúskapar, maki kæranda hafi skilið við fyrri maka stuttu eftir að hann hafi öðlast sjálfstæð réttindi hér á landi og hafið samband við kæranda stuttu eftir lögskilnað. Kærandi ætti þá móður og systur hér á landi og hefði auk þess áður sótt um dvalarleyfi í landinu á öðrum grundvelli og fengið synjun og gengið í hjúskap stuttu síðar.

Samkvæmt gögnum málsins gengu kærandi og maki hennar í hjúskap þann 31. júlí 2018 í [...] og sótti kærandi um dvalarleyfi á grundvelli hjúskapar með útlendingi þann 14. september 2018. Maki kæranda fékk fyrst útgefið dvalarleyfi á grundvelli hjúskapar með íslenskum ríkisborgara hér á landi 1. mars 2013 og var það leyfi endurnýjað nokkrum sinnum. Fékk hann svo útgefið ótímabundið dvalarleyfi þann 17. maí 2017. Þann 5. október s.á. skildu maki kæranda og fyrrverandi eiginkona hans að lögum, eða tæplega fimm mánuðum eftir að hann fékk útgefið ótímabundið dvalarleyfi.

Við meðferð málsins leiðbeindi kærunefnd kæranda að leggja fram gögn um samskipti kæranda og maka hennar og kom maki kæranda á skrifstofu kærunefndar þann 6. nóvember sl. og sýndi starfsmönnum nefndarinnar upplýsingar úr samskiptaforriti í símtæki sínu. Náðu samskipti þeirra aftur til 23. október 2018, en líkt og fyrr greinir gengu þau í hjúskap þann 31. júlí 2018. Var maka kæranda þann sama dag leiðbeint um að leggja fram frekari gögn, s.s. skjáskot úr samskiptaforriti, sem sýndu fram á samskipti lengra aftur í tímann. Þann sama dag bárust frekari gögn frá lögmanni kæranda. Af framlögðum gögnum var ekki ljóst hvort samskiptin væru milli kæranda og maka hennar og því óskaði kærunefnd eftir frekari útskýringum þann 18. nóvember sl. Í bréfi lögmanns kæranda til kærunefndar, dags. 21. nóvember sl., kemur fram að maki kæranda hafi á árinu 2012 stofnað Facebook reikning með gælunafni sínu. Brotist hafi verið inn á þann reikning og því hafi hann á árinu 2018 stofnað nýjan reikning á sínu nafni. Jafnvel þótt fallist verði á framangreindar útskýringar er ljóst að framlögð gögn, dags. 6. nóvember sl., ná einungis til samskipta á tímabilinu október til desember 2017 annars vegar og maí og júní 2018 hins vegar, en í greinargerð kæranda er byggt á því að hún og maki hennar hafi byrjað að vera í sambandi í október 2017 og ákveðið að gifta sig í maí 2018. Með hliðsjón af framangreindu er það mat kærunefndar að samskipti kæranda og maka hennar fyrir hjúskap hafi verið takmörkuð.

Eins og að framan greinir er í athugasemdum sem fylgdu 8. mgr. 70. gr. laga um útlendinga m.a. vísað til þess að hjúskaparsaga viðkomandi maka geti vakið rökstuddan grun um að til hjúskapar hafi verið stofnað í þeim tilgangi að afla dvalarleyfis. Þá getur jafnframt skipt máli hvort viðkomandi útlendingur hafi áður sótt um dvöl í landinu á öðrum grundvelli og þeirri umsókn hafi verið hafnað. Samkvæmt fyrirliggjandi gögnum er ljóst að maki kæranda skildi að lögum við fyrrverandi eiginkonu sína skömmu eftir að hann öðlaðist sjálfstæð réttindi hér á landi og gekk í hjúskap með kæranda um níu mánuðum síðar. Af fyrirliggjandi gögnum verður ekki annað ráðið en að samskipti þeirra fyrir stofnun hjúskapar hafi verið afar takmörkuð. Þá lítur kærunefnd jafnframt til þess að kærandi hafði skömmu fyrir hjúskap lagt fram dvalarleyfisumsókn á öðrum grundvelli sem var synjað, auk þess sem móðir hennar og systir eru búsettar hér á landi.

Að öllu framangreindu virtu er það mat kærunefndar að fyrir hendi sé rökstuddur grunur um að til hjúskaparins hafi verið stofnað í þeim tilgangi að afla dvalarleyfis, sbr. 8. mgr. 70. gr. laga um útlendinga. Þá hefur að mati nefndarinnar ekki verið sýnt fram á svo óyggjandi sé að til hjúskaparins hafi verið stofnað í öðrum tilgangi en að afla dvalarleyfis. Samkvæmt framansögðu veitir hjúskapur kæranda og maka hennar því ekki rétt til dvalarleyfis vegna fjölskyldusameiningar.

Í greinargerð kæranda eru gerðar athugasemdir við hina kærðu ákvörðun, aðallega þá aðferðarfræði sem Útlendingastofnun hafi stuðst við mat á því hvort að rökstuddur grunur í skilningi 8. mgr. 70. gr. laga um útlendinga væri til staðar í málinu. Í úrskurði kærunefndar nr. 487/2019 frá 14. október 2019 gerði nefndin athugasemd við framangreinda aðferðarfræði Útlendingastofnunar. Hins vegar áréttar kærunefnd að ákvörðun Útlendingastofnunar í máli þessu var tekin áður en fyrrgreindur úrskurður kærunefndar var birtur og gafst stofnuninni því ekki kostur á að bregðast við athugasemdum nefndarinnar. Þá hefur kærunefnd endurskoðað ákvörðun Útlendingastofnunar og komist að sömu niðurstöðu. Að mati kærunefndar er ákvörðun Útlendingastofnunar ekki haldin slíkum annmarka að ógilda beri hana. Vegna athugasemda í greinargerð kæranda tekur kærunefnd fram að þegar 8. mgr. 70. gr. laga um útlendinga á við mál eru ekki vægari úrræði tiltæk en synjun á umsókn um dvalarleyfi. Að öðru leyti telur kærunefnd ekki tilefni til umfjöllunar um þau rök sem kærandi hefur fært fram við meðferð málsins hjá nefndinni.

 

Úrskurðarorð

Ákvörðun Útlendingastofnunar er staðfest.

The decision of the Directorate of Immigration is affirmed.

Áslaug Magnúsdóttir

Gunnar Páll Baldvinsson                                                           Anna Valbjörg Ólafsdóttir


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta