Mál nr. 484/2022-Úrskurður
Úrskurðarnefnd velferðarmála
Mál nr. 484/2022
Þriðjudaginn 13. desember 2022
A
gegn
Tryggingastofnun ríkisins
Ú R S K U R Ð U R
Mál þetta úrskurða Rakel Þorsteinsdóttir lögfræðingur, Eva Dís Pálmadóttir lögfræðingur og Unnþór Jónsson lögfræðingur.
Með kæru, dags. 27. september 2022, kærði B ráðgjafi, f.h. A, til úrskurðarnefndar velferðarmála ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins frá 27. júní 2022 þar sem kæranda var synjað um greiðslu vaxta vegna vangreiddra bóta.
I. Málsatvik og málsmeðferð
Kærandi sótti um greiðslu örorkulífeyris með umsókn 27. nóvember 2021 sem var samþykkt frá 1. janúar 2021 til 31. desember 2022 með bréfi Tryggingastofnunar ríkisins, dags. 29. janúar 2021. Með bréfi stofnunarinnar, dagsettu sama dag, var kærandi upplýst um að vegna búsetu hennar í öðru EES-ríki væri búsetuhlutfall hennar 36,66% miðað við bráðabirgðaútreikning. Með umsókn 15. febrúar 2021 sótti kærandi um örorku frá Danmörku. Með bréfi Tryggingastofnunar ríkisins, dags. 14. janúar 2022, var kærandi upplýst um að hún ætti rétt á óskertu búsetuhlutfalli frá töku örorkulífeyris þar sem samkvæmt fyrirliggjandi upplýsingum ætti hún ekki rétt á greiðslum frá Danmörku. Með bréfi, dags. 20. maí 2022, óskaði umboðsmaður kæranda eftir greiðslu vaxta samkvæmt 4. mgr. 55. gr. laga nr. 100/2007 um almannatryggingar vegna endurskoðunar á réttindum hennar fyrir tímabilið 1. janúar 2021 til 30. nóvember 2021. Með tölvupósti 20. júní 2022 ítrekaði kærandi framangreint erindi. Með bréfi Tryggingastofnunar ríkisins, dags. 27. júní 2022, var beiðni kæranda synjað með vísan til þess að allar nauðsynlegar upplýsingar hafi ekki legið fyrir til þess að meta rétt kæranda til greiðslna fyrr en í janúar 2022.
Kæra barst úrskurðarnefnd velferðarmála 27. september 2022. Með bréfi, dags. 28. september 2022, óskaði úrskurðarnefnd eftir greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins ásamt gögnum málsins. Með bréfi, dags. 5. október 2022, barst greinargerð stofnunarinnar og var hún kynnt umboðsmanni kæranda með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 6. október 2022. Með bréfi, dags. 20. október 2022, bárust athugasemdir frá umboðsmanni kæranda og voru þær sendar Tryggingastofnun ríkisins til kynningar með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 20. október 2022. Efnislegar athugasemdir bárust ekki.
II. Sjónarmið kæranda
Í kæru er greint frá því að kærð sé niðurstaða Tryggingastofnunar ríkisins þar sem kæranda hafi verið synjað um 5,5% vexti vegna vangreiddra bóta fyrir tímabilið 1. janúar 2021 til 30. nóvember 2021.
Í janúar 2021 hafi kærandi fengið metna 75% örorku hjá Tryggingastofnun. Þar sem kærandi hafi verið búsett í Danmörku hafi greiðslur verið miðaðar við 34,6% búsetuhlutfall. Í kjölfarið hafi kærandi haft samband við stofnunina og fengið þær upplýsingar að hún yrði að sækja um hluta lífeyrisgreiðslna til Danmerkur. Tryggingastofnun annist móttöku umsókna og almenna milligöngu vegna lífeyrisumsókna erlendis. Þegar niðurstaða búsetuhlutfalls kæranda hafi legið fyrir hafi hún fljótlega sótt um að Tryggingastofnun hefði samband við systurstofnun sína í Danmörku til að kanna réttindi hennar þar. Kærandi hafi beðið í eitt ár eftir afgreiðslu Udbetaling Danmark, þrátt fyrir að Tryggingastofnun hafi mátt vera ljóst að samkvæmt dönskum lögum um örorkulífeyri sé það að skilyrði fyrir lífeyrisgreiðslum að viðkomandi hafi verið búsettur í tíu ár í Danmörku og náð 40 ára aldri en kærandi hafi uppfyllt hvorugt þessara skilyrða.
Í janúar 2022 hafi kærandi loks fengið leiðréttar örorkulífeyrisgreiðslur frá Tryggingastofnun frá 1. janúar 2021 til 30. nóvember 2021. Í greiðsluskjali, dags. 14. janúar 2022, hafi verið sundurliðun greiðslunnar en samkvæmt því skjali hafi ekki verið greiddir 5,5% ársvextir sem kærandi hafi sannarlega átt rétt á.
Í bréfi Tryggingastofnunar, dags. 27. júní 2022, komi fram að í kjölfar bráðabirgðaútreiknings stofnunarinnar á bótum kæranda hér á landi hafi þurft að kanna rétt hennar til greiðslna í fyrra búsetulandi. Í kjölfarið hafi kærandi sótt um lífeyri í Danmörku í gegnum stofnunina. Þann 6. janúar 2022 hafi loks borist svar frá Udbetaling Danmark þar sem fram hafi komið að hún ætti ekki rétt á greiðslum frá fyrra búseturíki. Í kjölfarið hafi Tryggingastofnun hækkað búsetuhlutfall í samræmi við niðurstöðuna.
Í framangreindu bréfi Tryggingastofnunar hafi verið bent á að sækja skuli um allar bætur og greiðslur samkvæmt 1. mgr. 52. gr. laga nr. 100/2007 um almannatryggingar. Við afgreiðslu umsóknar skuli þess gætt að öll nauðsynleg gögn og upplýsingar liggi fyrir svo að unnt sé að taka ákvörðun um bótarétt, fjárhæð og greiðslu bóta og annarra greiðslna samkvæmt lögunum, sbr. 38. gr. og 2. mgr. 52. gr. laga um almannatryggingar. Tryggingastofnun sé einnig heimilt að afla nauðsynlegra upplýsinga hjá stofnunum erlendis þegar það eigi við samkvæmt 3. mgr. 52. gr. laga um almannatryggingar.
Kærandi hafi lagt fram öll nauðsynleg gögn og upplýsingar fyrir Tryggingastofnun til að taka ákvörðun um bótarétt, fjárhæð og greiðslu bóta og annarra greiðslna samkvæmt lögum. Kærandi hafi gefið þær upplýsingar að hún hafi verið búsett í Danmörku og hún hafi sótt um greiðslur til Danmerkur í gegnum Tryggingastofnun. Það sé vitað að Danmörk greiði ekki örorkulífeyri úr landi til einstaklinga nema þeir hafi verið búsettur í tíu ár í Danmörku og/eða náð 40 ára aldri. Eins og áður hafi komið fram hafi kærandi ekki uppfyllt þau skilyrði.
Kærð sé ákvörðun Tryggingastofnunar um að synja kæranda um 5,5% vexti vegna vangreiddra bóta fyrir tímabilið 1. janúar 2021 til 30. nóvember 2021. Í málinu komi þar með til skoðunar ákvæði stjórnarskrárinnar um rétt til aðstoðar samkvæmt 76. gr. stjórnarskrárinnar, sbr. jafnræðisreglu í 65. gr.
Einnig komi til skoðunar 9. gr. samnings Sameinuðu þjóðanna um efnahagsleg, félagsleg og menningarleg réttindi, 28. gr. samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks og 12. gr. Félagsmálasáttmála Evrópu.
Lagaákvæði séu einna helst lög um almannatryggingar, sbr. sérstaklega 18. og 19. gr., stjórnsýslulög nr. 37/1993 og þar séu undirliggjandi almennar grunnreglur stjórnsýsluréttar, einkum lögmætis- og réttmætisreglur.
Í þessu máli reyni á rétt einstaklings til framfærslu sem sé stjórnarskrárbundinn réttur allra einstaklinga, sbr. 76. gr. stjórnarskrárinnar. Í lögum um almannatryggingar sé að finna útfærslu löggjafans á þessum rétti. Í því samhengi þurfi því að líta til þess að Hæstiréttur hafi ítrekað bent á að skýra verði réttinn til samræmis við alþjóðlegar skuldbindingar ríkisins, sjá til dæmis dóm Hæstaréttar í máli nr. 125/2000. Í því samhengi megi horfa til þess að stjórnvöld verði að líta til stjórnarskrárákvæða og mannréttindasamninga með ítarlegri hætti en nú sé gert í stjórnsýslunni þegar ákvarðanir séu teknar, sjá álit umboðsmanns Alþingis í máli nr. 9937/2018. Það eigi ekki síst við um úrskurðarnefnd velferðarmála, einkum í ljósi hins sérstaka eðlis félagsmálaréttar. Önnur álit umboðsmanns Alþingis fjalli einnig um hið félagslega eðli, sbr. mál nr. 4747/2006, en þar komi fram að ekki sé hægt að beita þrengjandi lögskýringum í félagsmálarétti. Í öðru áliti umboðsmanns Alþingis, sbr. mál nr. 2796/1999, komi skýrt fram að opinberir aðilar skuli leita leiða til að ná fram markmiði laganna, meðal annars við val á lögskýringarkostum. Markmið laga um almannatryggingar sé meðal annars að sjá til þess að allir þeir sem þurfi á stuðningi að halda vegna örorku njóti slíks stuðnings. Í þessu máli sé augljóslega verið að vinna gegn markmiði laganna.
Í áliti umboðsmanns Alþingis í máli nr. 8955/2016 segi: „Jafnframt þarf að hafa í huga að beiting hlutfallsreglunnar virðist byggja á þeirri forsendu að einstaklingur eigi jafnframt rétt til bóta í öðru EES-ríki og fái þar með hlutfallsgreiðslur þaðan eins og rakið hefur verið að framan. Að sama skapi verður reglunni um söfnun tímabila og úthlutun bóta ekki beitt ef slík beiting er til þess fallin að draga úr réttindum sem viðkomandi einstaklingur gæti krafist á grundvelli löggjafar einstaks aðildarríkis, á grundvelli þeirra tryggingatímabila sem einungis heyrði undir þá löggjöf.“
Svohljóðandi sé 55. gr. laga um almannatryggingar: „Hafi Tryggingastofnun ríkisins vangreitt bótaþega bætur skal stofnunin greiða honum það sem upp á vantar. Þegar bætur eru vangreiddar skal greiða bótaþega 5,5% ársvexti á þá bótafjárhæð sem vangreidd var og skulu þeir reiknast frá þeim degi sem skilyrði til bótanna eru uppfyllt, sbr. þó 53. gr.“
Það sé skýrt kveðið á um það í 55. gr. laga um almannatryggingar að hafi Tryggingastofnun vangreitt bótaþega skuli stofnunin greiða 5,5% ársvexti. Um sé að ræða skyldu og því hafi stofnunin ekkert val um það hvort hún greiði kæranda ársvexti.
Í athugasemdum umboðsmanns kæranda, dags. 20. október 2022, kemur fram að í greinargerð Tryggingastofnunar hafi ítrekað komið fram að það sé alfarið kæranda um að kenna að hún eigi ekki rétt á 5,5% ársvöxtum þar sem um skort á upplýsingum hafi verið að ræða og að kærandi hafi vísvitandi ekki veitt nauðsynlegar upplýsingar til þess að unnt hafi verið að meta rétt hennar til greiðslna. Kærandi sé því látin bera allan halla af því að upplýsingar um hvort hún ætti rétt á örorkulífeyri frá fyrra búsetulandi hafi ekki legið fyrir fyrr en tæpu ári eftir að sótt hafi verið um greiðslur hjá almannatryggingum í Danmörku. Til stuðnings því að synja beiðni kæranda um greiðslu 5,5% ársvaxta hafi Tryggingastofnun annars vegar vísað í ákvæði laga nr. 100/2007 um almannatryggingar og hins vegar í reglugerðir.
Í greinargerð Tryggingastofnunar sé vísað til nefndarálits heilbrigðis- og trygginganefndar til frekari stuðnings ástæðu þess að kærandi eigi ekki rétt á greiðslu ársvaxta. Stofnunin hafi vísað til eftirfarandi í álitinu:
„Það verður að teljast óeðlilegt að reikna vexti á bótafjárhæð sem er vangreidd af ástæðum sem Tryggingastofnun ræður ekki við, enda er bótaþegar og maka, ef við á, skylt að veita upplýsingar.“
Það liggi í augum uppi að kærandi hafi ekki ráðið við ástæður þess að hún hafi fengið vangreiddar greiðslur. Það sé því ótækt að Tryggingastofnun skuli varpa allri ábyrgð á kæranda. Tryggingastofnun geri þá kröfu að kanna þurfi hvort umsækjendur sem hafi verið búsettir í öðru landi innan EES eigi rétt til greiðslna í fyrra búsetulandi. Örorkulífeyrisþegar með örorkumat hjá Tryggingastofnun sæki um örorkulífeyri frá öðru EES-landi með eyðublaði hjá stofnuninni. Það sé hlutverk Tryggingastofnunar að leiðbeina fólki sem hafi verið búsett erlendis að sækja um þegar það eigi við og hafi milligöngu um slíkar umsóknir til samskiptastofnana erlendis. Töluverður tími geti liðið frá umsókn um lífeyri í fyrra búsetulandi þar til að niðurstaða örorkumats í fyrra búsetulands liggi fyrir og sé Tryggingastofnun vel meðvituð um hversu löng biðin geti verið.
Það sé hér með ítrekað að Tryggingastofnun sé og hafi verið meðvituð um að Danmörk greiði ekki örorkulífeyri úr landi til einstaklinga nema þeir hafi verið búsettir í tíu ár í Danmörku og/eða hafi náð 40 ára aldri. Þrátt fyrir vitneskju stofnunarinnar hafi kæranda samt sem áður verið gert skylt að sækja um lífeyri í Danmörku.
Samkvæmt rannsóknarreglu stjórnsýsluréttar beri stjórnvöldum að líta til upplýsinga sem þau hafi í vörslum sínum, enda eigi meðferð stjórnsýslumála að vera eins einföld og skilvirk og hægt sé. Tryggingastofnun hafi vissulega upplýsingar í vörslum sínum um í hvaða tilfellum Danmörk greiði ekki örorkulífeyri á milli landa og því sé ljóst að kærandi hafi upphaflega ekki þurft að sækja um lífeyri frá Danmörku.
Af athugasemdum við 10. gr. frumvarps til stjórnsýslulaga nr. 37/1993 verði ráðið að skyldan sem lögð sé á aðila máls til að veita upplýsingar afmarkist við þær upplýsingar sem séu nauðsynlegar og með sanngirni megi ætla að hann geti lagt fram, án þess að það íþyngi honum um of. Jafnframt beri stjórnvöldum að gera minnstu kröfurnar til þeirra einstaklinga sem standi höllum fæti og séu að sækja um lögmæta aðstoð vegna sjúkleika, örorku, elli, atvinnuleysis, örbirgðar eða sambærilegra atvika, sbr. 1. mgr. 76 gr. stjórnarskrárinnar.
III. Sjónarmið Tryggingastofnunar ríkisins
Í greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins kemur fram að kæran varði vaxtagreiðslur vegna vangreiddra bóta.
Kærandi hafi óskað eftir því með erindi, dags. 20. maí 202[2], að fá 5,5% vexti til viðbótar greiðslu sem hún hafi fengið þann 14. janúar 2022 í kjölfar endurskoðunar á réttindum hennar og niðurstöðu um vangreiddar bætur á tímabilinu 1. janúar 2021 til 30. nóvember 2021. Ósk kæranda hafi verið synjað með bréfi, dags. 27. júní 2022, með vísan til þess að Tryggingastofnun hafi ekki haft nauðsynlegar upplýsingar til þess að meta rétt kæranda til greiðslna fyrr en í janúar 2022.
Ágreiningur málsins lúti að því hvort kærandi eigi rétt á vöxtum samkvæmt 4. mgr. 55. gr. laga nr. 100/2007 um almannatryggingar til viðbótar greiðslu vegna vangreiddra bóta á tímabilinu 1. janúar 2021 til 30. nóvember 2021. Tryggingastofnun krefjist staðfestingar á hinni kærðu ákvörðun.
Í 1. mgr. 52. gr. laga um almannatryggingar segi að sækja skuli um allar bætur og greiðslur samkvæmt lögunum. Meginreglan sé því sú að bætur séu ekki greiddar sjálfkrafa heldur þurfi að sækja um þær.
Enn fremur segi í 2. mgr. 52. gr. laga um almannatryggingar að við afgreiðslu umsóknar skuli þess gætt að öll nauðsynleg gögn og upplýsingar liggi fyrir svo að unnt sé að taka ákvörðun um bótarétt, fjárhæð og greiðslu bóta og annarra greiðslna samkvæmt lögunum, sbr. 38. gr. laganna, sem kveði á um rannsóknarskyldu Tryggingastofnunar.
Í 1. málsl. 1. mgr. 3. gr. reglugerðar nr. 598/2009 um útreikning, endurreikning og uppgjör tekjutengdra bóta og vistunarframlags segi að umsækjanda og bótaþega sé skylt að veita Tryggingastofnun allar nauðsynlegar upplýsingar til þess að hægt sé að taka ákvörðun um bótarétt, fjárhæð og greiðslu bóta og endurskoðun þeirra.
Í 42. gr. laga um almannatryggingar segi að ef ekki reynist unnt að taka ákvörðun um bótarétt, fjárhæð og greiðslu bóta og endurskoðun þeirra vegna skorts á nauðsynlegum upplýsingum sem rekja megi til umsækjanda, greiðsluþega eða maka hans, sé Tryggingastofnun heimilt að fresta ákvörðun og greiðslu bóta þar til úr því hafi verið bætt.
Í 8. gr. reglugerðar nr. 598/2009 segi að komi í ljós við endurreikning samkvæmt III. kafla að bætur hafi verið vangreiddar skuli bótaþega eða dánarbúi hans greitt það sem upp á vanti. Greiða skuli 5,5% ársvexti á þá bótafjárhæð sem vangreidd hafi verið, enda stafi vangreiddar bætur ekki af skorti á upplýsingum, sbr. 3. gr.
Í 3. mgr. 52. gr. laga um almannatryggingar segi að við meðferð máls og afgreiðslu umsóknar sé Tryggingastofnun heimilt að afla upplýsinga frá erlendum stofnunum sem nauðsynlegar séu til að unnt sé að taka ákvörðun um bótarétt, fjárhæð og greiðslu bóta og annarra greiðslna samkvæmt lögunum.
Einnig segi í 4. mgr. 55. gr. laga um almannatryggingar að hafi Tryggingastofnun ríkisins vangreitt bótaþega bætur skuli stofnunin greiða honum það sem upp á vanti, auk 5,5% ársvaxta á þá bótafjárhæð sem vangreidd hafi verið. Séu hins vegar bætur vangreiddar vegna skorts á upplýsingum, sbr. 41. gr. laganna, skuli vextir falla niður.
Að lokum sé að finna ákvæði í 7. gr. framkvæmdareglugerðar EB nr. 987/2009 sem kveði á um framkvæmd reglugerðar EB nr. 883/2004 um samræmingu almannatryggingakerfa er varði bráðabirgðaútreikning á bótum og iðgjöldum. Þar komi eftirfarandi fram:
„1. Ef ekki er kveðið á um annað í framkvæmdarreglugerðinni skal stofnunin, að beiðni hlutaðeigandi einstaklings, þegar einstaklingur telst eiga rétt á bótum eða er skyldugur til að greiða iðgjald í samræmi við grunnreglugerðina og þar til bæra stofnunin hefur ekki allar þær upplýsingar um aðstæður í öðru aðildarríki sem eru nauðsynlegar til að reikna endanlega út fjárhæð bótanna eða iðgjaldsins, veita bæturnar eða reikna iðgjaldið á bráðabirgðagrundvelli ef slíkur útreikningur er mögulegur á grundvelli upplýsinganna sem fyrir liggja hjá stofnuninni.
2. Endurreikna skal bæturnar eða iðgjaldið þegar öll fylgigögn eða skjöl hafa verið afhent viðkomandi stofnun.“
Málavextir séu þeir að kærandi hafi sótt um örorkulífeyri með umsókn, dags. 27. nóvember 2021, sem hafi verið samþykktur með bréfi, dags. 29. janúar 2021. Með öðru bréfi, dagsettu sama dag, hafi kæranda verið tilkynnt að þar sem kærandi hafi haft búsetu í öðru EES-ríki hefði Tryggingastofnun gert bráðabirgðaútreikning á bótum hennar hér á landi þar sem kanna þyrfti rétt hennar til greiðslna í fyrra búsetulandi áður en hægt væri að taka endanlega ákvörðun um búsetuhlutfall hennar, sbr. 7. gr. og 50. gr. reglugerðar Evrópuþingsins og Ráðsins (EB) nr. 987/2009. Kæranda hafi einnig verið tilkynnt að samkvæmt þessum bráðabirgðaútreikningi væri búsetuhlutfall hennar hér á landi 36,66%. Slíkur bráðabirgðaútreikningur sé gerður, þrátt fyrir að öll nauðsynleg gögn og upplýsingar liggi ekki fyrir.
Í kjölfarið hafi kærandi sótt um lífeyri í Danmörku í gegnum Tryggingastofnun. Þann 13. janúar 2022 hafi kærandi sent Tryggingastofnun bréf frá Udbetaling Danmark, dags. 6. janúar 2022, þar sem fram komi að hún eigi ekki rétt á greiðslum frá fyrra búseturíki.
Með bréfi, dags. 14. janúar 2022, hafi kæranda verið tilkynnt að Tryggingastofnun hafi móttekið niðurstöðu umsóknar um lífeyri frá öðru EES-ríki og að samkvæmt henni ætti kærandi ekki rétt á greiðslum frá fyrra búseturíki. Enn fremur hafi komið fram að kærandi ætti því rétt á óskertu búsetuhlutfalli frá þeim degi er hún hafi hafið töku örorkulífeyris. Réttindi kæranda á tímabilinu 1. janúar 2021 til 31. janúar 2021 hafi því verið endurreiknuð samkvæmt þeirri niðurstöðu og vangreiddar bætur kæranda á tímabilinu greiddar.
Tryggingastofnun hafi borist erindi frá kæranda, dags. 20. maí 2022, þar sem hún hafi óskað eftir 5,5% vöxtum samkvæmt 4. mgr. 55. gr. laga um almannatryggingar til viðbótar við endurgreiðslu vangreiddra bóta Tryggingastofnunar þann 14. janúar 2021 fyrir tímabilið 1. janúar 2021 til 30. nóvember 2021. Með bréfi, dags. 27. júní 2022, hafi ósk kæranda um greiðslu vaxta verið synjað með vísan til þess að allar nauðsynlegar upplýsingar hafi ekki legið fyrir til þess að meta rétt kæranda til greiðslna fyrr en í janúar 2022.
Til þess að hægt hafi verið að taka endanlega ákvörðun um búsetuhlutfall kæranda hafi verið nauðsynlegt að afla upplýsinga um mögulegan rétt hennar til greiðslna í fyrra búsetulandi. Tryggingastofnun geti hvorki tekið ákvörðun um réttindi einstaklinga í öðrum ríkjum né beri stofnunin ábyrgð á töfum sem geti orðið á umsóknarferli hjá stofnunum annarra ríkja. Kærandi hafi verið upplýst um að upprunalegur útreikningur á bótum hennar hér á landi væri einungis til bráðabirgða og að endanleg ákvörðun um bótarétt hennar hefði ekki verið tekin. Slíkur bráðabirgðaútreikningur sé gerður kæranda til hagsbóta, þrátt fyrir að öll nauðsynleg gögn og upplýsingar liggi ekki fyrir svo að unnt sé að taka ákvörðun um bótarétt í stað þess að fresta greiðslu bóta þar til úr því sé bætt. Kæranda hafi því verið ljóst að útreikningur á bótum gæti tekið breytingum þegar fullnægjandi upplýsingar myndu liggja fyrir. Bætur kæranda hafi því verið vangreiddar vegna skorts á upplýsingum. Í slíkum tilvikum falli vextir niður, sbr. lokamálslið 4. mgr. 55. gr. laga um almannatryggingar og 2. mgr. 8. gr. reglugerðar nr. 598/2009.
Ákvörðuninni til stuðnings megi nefna að með breytingalögum nr. 74/2002 hafi verið gerðar allnokkrar breytingar á lögum um almannatryggingar. Þar hafi meðal annars verið ákveðið að taka af allan vafa um það að vextir skyldu falla niður ef bætur væru vangreiddar vegna skorts á upplýsingum um lífeyrisþega, en um það hafi verið sagt meðal annars í nefndaráliti heilbrigðis- og trygginganefndar:
„Í tengslum við þessa breytingu leggur nefndin til að vaxtagreiðslur skv. 4. efnismgr. 19. gr. falli niður ef vangreiðslu bóta má rekja til skorts á upplýsingum sem rekja má til bótaþega eða maka hans. Það verður að teljast óeðlilegt að reikna vexti á bótafjárhæð sem er vangreidd af ástæðum sem Tryggingastofnun ræður ekki við, enda er bótaþega og maka, ef við á, skylt að veita upplýsingar.“
Í áliti nefndarinnar hafi einnig eftirfarandi komið fram:
„Lagt er til að vextir samkvæmt ákvæðinu falli niður ef bætur eru vangreiddar vegna skorts á upplýsingum og upplýsingaskortinn megi rekja til bótaþega eða maka hans. Eins og áður sagði er það forsenda þess að unnt sé að greiða bætur samkvæmt lögunum að tekjuupplýsingar liggi fyrir.“
Af framangreindum ummælum í nefndaráliti heilbrigðis- og trygginganefndar megi ráða að óeðlilegt teljist að Tryggingastofnun greiði vexti af bótafjárhæð sem vangreidd hafi verið af ástæðum sem Tryggingastofnun hafi ekki ráðið við, á borð við skort á upplýsingum bótaþega, enda sé forsenda þess að unnt sé að greiða bætur samkvæmt lögunum að tekjuupplýsingar liggi fyrir.
Í ljósi alls framangreinds sé það niðurstaða Tryggingastofnunar að sú ákvörðun að synja kæranda um að fá greidda vexti, auk endurgreiðslu vangreiddra bóta sé rétt. Sú niðurstaða sé byggð á faglegum sjónarmiðum sem og gildandi lögum og reglum. Einnig taki hún mið af þeirri samræmdri framkvæmd sem kveðið sé á um í framkvæmdareglugerð EB nr. 987/2009.
IV. Niðurstaða
Mál þetta varðar synjun Tryggingastofnunar ríkisins á beiðni um 5,5% vexti samkvæmt 4. mgr. 55. gr. laga nr. 100/2007 um almannatryggingar á greiðslu örorkulífeyris fyrir tímabilið 1. janúar 2021 til 30. nóvember 2021.
Í 4. mgr. 55. gr. laga um almannatryggingar er kveðið á um heimild til að greiða 5,5% ársvexti á vangreidda bótafjárhæð. Ákvæðið er svohljóðandi:
„Hafi Tryggingastofnun ríkisins vangreitt bótaþega bætur skal stofnunin greiða honum eða dánarbúi hans það sem upp á vantar. Þegar bætur eru vangreiddar skal greiða bótaþega 5,5% ársvexti á þá bótafjárhæð sem vangreidd var og skulu þeir reiknast frá þeim degi sem skilyrði til bótanna eru uppfyllt, sbr. þó 53. gr. Sama á við þegar niðurstaða úrskurðarnefndar velferðarmála, sbr. 13. gr., leiðir til þess að einstaklingur á rétt á bótum en hafði fengið synjun eða lægri bætur hjá Tryggingastofnun ríkisins …, sbr. þó 53. gr. Ef bætur eru vangreiddar vegna skorts á upplýsingum, sbr. 41. gr., falla vextir niður.“
Í 1. - 3. mgr. 52. gr. laga um almannatryggingar segir:
„Sækja skal um allar bætur og greiðslur samkvæmt lögum þessum. Þó þurfa þeir sem fá greiddan örorkulífeyri ekki að sækja sérstaklega um ellilífeyri skv. 17. gr. þegar þeir ná ellilífeyrisaldri, sbr. 17. gr.
Umsóknir skulu vera á eyðublöðum Tryggingastofnunar eða sendar með rafrænum hætti sem stofnunin telur fullnægjandi. Við afgreiðslu umsóknar skal þess gætt að öll nauðsynleg gögn og upplýsingar liggi fyrir, sbr. 38. gr., svo unnt sé að taka ákvörðun um bótarétt, fjárhæð og greiðslu bóta og annarra greiðslna samkvæmt lögunum. Sérstaklega skal þess gætt að umsækjandi, sem áunnið hefur sér rétt hjá skyldubundnum atvinnutengdum lífeyrissjóðum, hafi lagt fram umsókn um áunnin réttindi hjá viðkomandi lífeyrissjóðum og er Tryggingastofnun heimilt að fresta ákvörðun og greiðslu bóta þar til upplýsingar um það liggja fyrir, sbr. 41. gr.
Við meðferð máls og afgreiðslu umsóknar er Tryggingastofnun heimilt að afla upplýsinga frá þeim aðilum sem tilgreindir eru í 43. gr. sem og skv. 4. mgr. 45. gr. sem nauðsynlegar eru til að unnt sé að taka ákvörðun um bótarétt, fjárhæð og greiðslu bóta og annarra greiðslna samkvæmt lögunum. Sama á við um nauðsynlegar upplýsingar hjá stofnunum erlendis þegar það á við.“
Svohljóðandi er 41. gr. laga um almannatryggingar:
„Ef ekki reynist unnt að taka ákvörðun um bótarétt, fjárhæð og greiðslu bóta og endurskoðun þeirra vegna skorts á nauðsynlegum upplýsingum sem rekja má til umsækjanda, greiðsluþega eða maka hans er Tryggingastofnun heimilt að fresta ákvörðun og greiðslu bóta þar til úr því er bætt. Tryggingastofnun skal tafarlaust gera viðkomandi viðvart ef til frestunar kemur, skora á hann að veita nauðsynlegar upplýsingar og gera honum grein fyrir afleiðingum þess ef áskorun um að veita upplýsingar er ekki sinnt.“
Umsókn kæranda um örorkulífeyri og tengdar greiðslur þann 27. nóvember 2021 var samþykkt með bréfi, dags. 29. janúar 2021, en samkvæmt bráðabirgðaútreikningi vegna búsetu í Danmörku var búsetuhlutfall hennar 36,66% þar sem ekki lágu fyrir upplýsingar um hugsanlega örorku kæranda í Danmörku. Kærandi sótti um örorkulífeyri frá Danmörku í gegnum Tryggingastofnun þann 15. febrúar 2021. Upplýsingar frá Udbetaling Danmark bárust Tryggingastofnun í janúar 2022 þar sem fram kom að hún ætti ekki rétt á greiðslum frá Danmörku. Réttindi kæranda voru í kjölfarið endurreiknuð samkvæmt þeim upplýsingum og vangreiddar bætur á tímabilinu greiddar til kæranda.
Samkvæmt 2. málsl. 4. mgr. 55. gr. laga um almannatryggingar ber Tryggingastofnun ríkisins að greiða bótaþega 5,5% ársvexti þegar bætur eru vangreiddar. Vextir skulu greiddir á þá bótafjárhæð sem vangreidd var og skulu þeir reiknast frá þeim degi sem skilyrði til bótanna eru uppfyllt. Samkvæmt lokamálslið 4. mgr. sömu greinar falla vextir þó niður ef bætur eru vangreiddar vegna skorts á upplýsingum, sbr. 41. gr. laganna. Í 1. málsl. 41. gr. laganna segir að ef ekki reynist unnt að taka ákvörðun um bótarétt, fjárhæð og greiðslu bóta og endurskoðun þeirra vegna skorts á nauðsynlegum upplýsingum sem rekja megi til umsækjanda, greiðsluþega eða maka hans, sé Tryggingastofnun heimilt að fresta ákvörðun og greiðslu bóta þar til úr því sé bætt.
Úrskurðarnefnd velferðarmála telur að ráða megi af framangreindu að Tryggingastofnun sé ekki skylt að greiða vexti vegna vangreiddra bóta ef ekki sé hægt að taka ákvörðun um bótarétt, fjárhæð og greiðslu bóta og endurskoðun þeirra vegna skorts á nauðsynlegum upplýsingum sem rekja megi til umsækjanda, greiðsluþega eða maka hans. Fyrir liggur að kæranda var tilkynnt um bráðabirgðaútreikning 29. janúar 2021 og að hún sótti um örorkulífeyri frá Danmörku í gegnum Tryggingastofnun 15. febrúar 2021. Umsókn kæranda var ekki afgreidd í Danmörku fyrr en með bréfi, dags. 6. janúar 2022. Úrskurðarnefndin telur ljóst af framangreindu að skort á þeim upplýsingum, sem nauðsynlegar voru til að taka endanlega ákvörðun um bótarétt kæranda, var ekki að rekja til kæranda. Að mati úrskurðarnefndar var Tryggingastofnun því ekki heimilt að synja kæranda um vexti vegna vangreiddra bóta með vísan til skorts á upplýsingum, sbr. 4. málsl. 4. mgr. 55. gr. laga um almannatryggingar.
Að öllu framangreindu virtu er ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins frá 27. júní 2022 um að synja kæranda um greiðslu vaxta vegna vangreiddra bóta felld úr gildi. Málinu er vísað aftur til stofnunarinnar til nýrrar meðferðar.
Ú R S K U R Ð A R O R Ð
Ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um að synja A, um greiðslu vaxta vegna vangreiddra bóta, er felld úr gildi. Málinu er vísað aftur til stofnunarinnar til nýrrar meðferðar.
F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála
Rakel Þorsteinsdóttir