Nr. 304/2019 Úrskurður
KÆRUNEFND ÚTLENDINGAMÁLA
Þann 13. júní 2019 er kveðinn upp svohljóðandi
úrskurður nr. 304/2019
í stjórnsýslumáli nr. KNU19040069
Kæra […]
á ákvörðun
Útlendingastofnunar
I. Kröfur, kærufrestir og kæruheimild
Þann 8. apríl 2019 kærði […], fd. […], ríkisborgari Kólumbíu (hér eftir kærandi) ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 19. mars 2019, um að synja kæranda um alþjóðlega vernd á Íslandi ásamt því að synja henni um dvalarleyfi á grundvelli 74. gr. laga um útlendinga nr. 80/2016.
Kærandi krefst þess aðallega að hin kæra ákvörðun verði felld úr gildi og kæranda verði veitt staða flóttamanns með vísan til 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga. Til vara er þess krafist að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi og kæranda veitt viðbótarvernd með vísan til 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga. Til vara er þess krafist að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi og kæranda verði veitt dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða með vísan til 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga.
Fyrrgreind ákvörðun er kærð á grundvelli 7. gr. laga um útlendinga og barst kæran fyrir lok kærufrests.
II. Málsatvik og málsmeðferð
Kærandi sótti um alþjóðlega vernd hér á landi þann 24. maí 2018. Kærandi kom í viðtal hjá Útlendingastofnun þann 12. febrúar 2019 ásamt talsmanni sínum. Með ákvörðun, dags. 19. mars 2019, synjaði Útlendingastofnun kæranda um alþjóðlega vernd ásamt því að synja henni um dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða. Var ofangreind ákvörðun kærð til kærunefndar útlendingamála þann 8. apríl 2019. Kærunefnd bárust gögn og upplýsingar frá kæranda þann 12. apríl 2019 og greinargerð kæranda ásamt fylgiskjölum þann 3. maí 2019.
III. Ákvörðun Útlendingastofnunar
Í ákvörðun Útlendingastofnunar kemur fram að kærandi byggi umsókn sína um alþjóðlega vernd á því að hún sé í hættu í heimaríki sínu vegna glæpahópa sem séu á eftir henni og aðildar sinnar að tilteknum þjóðfélagshópi.
Niðurstaða Útlendingastofnunar var sú að kærandi sé ekki flóttamaður og henni skuli synjað um alþjóðlega vernd á Íslandi skv. ákvæðum 37. og 40. gr. laga um útlendinga. Kæranda var jafnframt synjað um dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða skv. 74. gr. laga um útlendinga. Þá taldi stofnunin að ákvæði 42. gr. laga um útlendinga stæði endursendingu til heimaríkis ekki í vegi.
Kæranda var vísað frá landinu á grundvelli c-liðar 1. mgr. 106. gr. laga um útlendinga. Útlendingastofnun tilkynnti henni jafnframt að kæra frestaði réttaráhrifum ákvörðunarinnar, sbr. 1. mgr. 35. gr. laga um útlendinga.
IV. Málsástæður og rök kæranda
Í greinargerð kæranda kemur fram að kærandi sé fædd og alin upp í […] í Narino héraði. Hún hafi starfað í […] í sama héraði. Aðdraganda flótta hennar frá heimaríki megi rekja til þess að henni hafi verið hótað og beitt fjárkúgun af meðlimum glæpahópsins Oliver Sinisterra.
Kærandi greindi frá því að tveir meðlimir hópsins hafi komið á vinnustað hennar í júní 2017 og farið fram á að hún greiddi þeim 400.000 pesóa á mánuði af launum hennar. Hún hafi sagt þeim að um of háa fjárhæð væri að ræða en þá hafi þeir viljað að hún hjálpaði þeim að kaupa vopn eða raftæki. Þeir hafi jafnframt boðið henni að borga á annan hátt, en þá hafi hún orðið mjög hrædd enda viti hún að þeir beiti konur m.a. kynferðislegu ofbeldi. Þeir hafi hótað henni, sagt henni að hún mætti ekki segja nokkrum manni frá þessu, sérstaklega ekki lögreglunni og að þeir kæmu aftur eftir fjóra daga til þess að sækja peningana. Hún hafi óskað eftir lengri frest og samþykkt að greiða þeim 200.000 pesóa að tveim vikum liðnum. Hún hafi þá beðið um aukinn frest en þeir mótmælt og sagt henni að hún ætti að gera það sem þeir vildu. Hún hafi verið óttasleginn og ákveðið að segja upp starfi sínu og fara til heimabæjar síns, [...]. Þar hafi hún fengið starf hjá vinkonu sinni og liðið betur en sótt tíma hjá sálfræðingi. Í apríl 2019 hafi meðlimir glæpahópsins hringt aftur í hana og verið aðgangsharðari og hótað henni. Í kjölfarið hafi hún ekki séð annan kost en að flýja land til þess að bjarga lífi sínu.
Í greinargerð kæranda kemur fram að kærandi óttist að vera tekin af lífi eða beitt ofbeldi. Þá óttist hún að vera hneppt í fangelsi. Þá hafi hún leitað aðstoðar Gaula sem sé deild innan lögreglunnar sem sjái um að taka niður upplýsingar vegna mannrána eða annarra svipaðra atvika í bænum. Þeir hafi tekið niður upplýsingar um fjárkúgun og sagt henni að hafa ekki áhyggjur en að ekkert hafi verið aðhafst. Kærandi treysti ekki lögreglunni þar sem hún sé spillt og ekki sé hægt að treysta yfirvöldum. Kærandi óttist að snúi hún aftur verði hún drepin. Hópurinn sé um allt land og því geti hún ekki búið annars staðar og verið örugg.
Kærandi fjallar í greinargerð sinni um almennar aðstæður í Kólumbíu, friðarsamninga ríkisins og átök sem hafi geisað í kjölfar þessara samninga. Þar kemur m.a. fram að öryggisástand ríkisins sé mjög ótryggt. Kærandi vísar til alþjóðlegra skýrslna sem hún telur styðja mál sitt.
Aðalkrafa kæranda er reist á því að hún sæti ofsóknum af hálfu glæpahópsins Oliver Sinisterra í heimaríki sínu og að yfirgnæfandi líkur standi til þess að hún muni sæta áframhaldandi ofsóknum verði henni gert að snúa aftur til Kólumbíu. Ofsóknirnar felist í alvarlegum hótunum, m.a. líflátshótunum, ofbeldi og fjárkúgunum. Vísað er til þess að Útlendingastofnun hafi fallist á að kærandi eigi á hættu ofsóknir í heimaríki vegna skæruliðahópa og glæpasamtaka í landinu. Stofnunin hafi hins vegar talið innri flótta kæranda bæði raunhæft og sanngjarnt úrræði fyrir hana. Kærandi gerir kröfu um að henni verði veitt alþjóðleg vernd á grundvelli 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga þar sem ekki sé möguleiki á innri flutningi í heimaríki.
Hvað varði möguleika á flutning kæranda innanlands í heimaríki vísar kærandi til þess að við það mat skuli hafa til hliðsjónar leiðbeiningar Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna. Í þeim komi m.a. fram að flutningur komi ekki til greina verði einstaklingurinn ennþá berskjaldaður fyrir ofsóknum á hinum nýja stað. Þá skuli skoða sögu einstaklings um þær ofsóknir sem hann hafi orðið fyrir og jafnframt hvort grundvallarmannréttindi séu virt í heimaríki. Þá skuli samkvæmt athugasemdum með 4. mgr. 37. gr. í frumvarpi sem varð að lögum um útlendinga nr. 80/2016 fara fram einstaklingsbundið mat á aðstæðum umsækjanda og þeim aðstæðum sem séu í heimaríki hans. Í þeim tilvikum þar sem stjórnvöld séu völd að ofsóknum skuli gengið út frá því að raunverulega vernd sé ekki að fá í neinum hluta landsins. Taka skuli tillit til ýmissa þátta við matið, s.s. fjölskylduaðstæðna, trúar, menningar og möguleika á vinnu og menntun. Kærandi mótmælir í greinargerð að hún geti komist undan ofsóknum glæpahópa með því að flytja sig um set innanlands. Enda hafi hún þegar flutt sig um set innanlands en staðið frammi fyrir ofsóknum áfram. Glæpahópurinn Oliver Sinisterra hafi haft upp á henni og hún hafi ekki haft annarra kosta völ en að flýja land.
Í greinargerð er fjallað um hvort flutningur sé raunhæft úrræði fyrir kæranda. Vísar kærandi til þess að ólöglegir vopnaðir hópar í Kólumbíu séu vel skipulagðir og fremji mannréttindabrot, svo sem mannrán, morð, sprengingar og hryðjuverk um allt landið. Ekki verði séð að fyrir hendi sé nokkurt það svæði sem kærandi kæmist til án þess að eiga á nokkurri hættu að verða fyrir alvarlegum skaða. Þá vísar kærandi til þess að þegar ofsóknir megi rekja til aðgerða sem séu látnar viðgangast óátaldar af yfirvöldum eða opinberum starfsmönnum þá sé innri flutningur almennt ekki talinn tækur. Þá komi fram í leiðbeiningarreglum Flóttamannastofnunar að ef yfirvöld hafi komist að þeirri niðurstöðu að ríkið geti ekki eða vilji ekki vernda einstakling í einum hluta landsins þá megi almennt gera ráð fyrir að það sama gildi á öðrum svæðum innan landsins. Þá sé tekið sérstaklega fram að þetta geti átt sérstaklega við þegar um sé að ræða kynbundnar ofsóknir. Kærandi sé ung kona sem hafi orðið fyrir kynbundnum ofsóknum af hálfu meðlima skæruliðahópsins Oliver Sinisterra. Kærandi telji að ofsóknaraðilar hennar geti haft uppi á henni hvar sem hún sé niður komin í Kólumbíu. Hafi það sýnt sig þar sem kærandi hafi flutt sig um set innanlands en þeir hafi haft upp á henni. Þá hafi skipulögð glæpastarfsemi og endurtekin fjárkúgun færst í aukana síðustu ár. Kærandi vísar til þess að hún muni ekki njóta verndar yfirvalda á öðrum svæðum í Kólumbíu þar sem aðgerðir glæpahópanna séu látnar óátaldar og hafi yfirvöld hvorki vilja né getu til að vernda kæranda í heimaríki.
Þá verði að líta til þess hvort innri flutningur geti talist raunhæft úrræði. Meta þurfi sérstaklega hvort kærandi eigi á hættu alvarlegan skaða eða að einhvers konar ógn steðji að lífi hennar, öryggi og frelsi á hinum nýja stað. Ljóst sé að skæruliða- og glæpahópar fyrirfinnist um alla Kólumbíu. Kærandi gerir athugasemd við að í ákvörðun Útlendingastofnunar sé hvergi tilgreint það svæði eða sú borg sem stofnunin telji að kærandi geti flutt til og búið í við öryggi. Samkvæmt leiðbeiningarreglum Flóttamannastofnunar beri stofnuninni skylda til þess. Tilgreina verði nákvæmlega umrætt svæði og gefa viðkomandi kost á að andmæla. Þá er því mótmælt að átök Í Kólumbíu séu almennt staðbundin. Vísar kærandi til þess að skæruliða- og glæpahópar hafi viðveru í öllu landinu og ekki hægt að tryggja að átökin séu einungis staðbundin. Auk þess loði spilling við lögregluyfirvöld um allt land og ekki sé hægt að treysta á vernd þeirra. Kærandi vísar til þess að auk skæruliðahópa ógni vopnaðir uppreisnarhópar og glæpahópar öryggi almennra borgara með handahófskenndum árásum og glæpum í skjóli refsileysis. Þetta ástand sé ekki bundið við tiltekin svæði enda þótt hættan sé meiri á sumum svæðum en öðrum. Þá er í greinargerð fjallað um hvort innri flutningur geti talist sanngjarnt úrræði og vísað m.a. til þess að við matið verði að taka m.a. tillit til persónulegra aðstæðna kæranda, svo sem kyns, heilsu, fjölskylduaðstæðna og -tengslanets á öðrum stað, fyrri ofsókna, öryggis á hinum nýja stað, hvort mannréttindi séu almennt virt og efnahagslegra aðstæðna. Vísað er til þess að kærandi eigi ekki fjölskyldutengsl annars staðar en í […] í Narino sýslu. Þá sé ljóst að efnahagslegar og félagslegar aðstæður hennar yrðu erfiðar ef henni yrði gert að flytja sig um set. Kærandi vísar til þess að þrátt fyrir að ríkið hafi reynt að auka aðgang einstaklinga sem þurft hafi að yfirgefa heimili sín að þjónustu þá hafi sýslur víðs vegar um landið ekki haft getu til að bregðast við nýjum fólksflótta og hafi ekki getað veitt einstaklingum sem þurft hafi að yfirgefa heimili sín mannúðaraðstoð. Margir hafi búið við fátækt og óviðunandi aðstæður með takmarkaðan aðgang að heilbrigðisþjónustu, menntun, húsaskjóli og vinnu. Mótmælir kærandi að því aðstæður séu viðunandi í Kólumbíu hvað félagslega stöðu og efnahagsleg tækifæri varði. Þá mótmæli kærandi því að kæranda standi til boða viðeigandi bætur og aðstoð vegna þeirra ofsókna sem hún hafi sætt eða eigi á hættu að sæta í Kólumbíu.
Í greinargerð er einnig vísað til þess að sálræn áhrif fyrri ofsókna skipti máli við mat á flutningi innanlands. Kærandi óttist um öryggi sitt, hafi leitað til sálfræðings vegna fyrri ofsókna auk þess sem hún sé sérstaklega berskjölduð sem kona.
Þá mótmælir kærandi því að innri flutningur geti uppfyllt skilyrði um varanleika og stöðugleika með vísan til þess að glæpa- og skæruliðahópar séu starfandi víðs vegar um Kólumbíu og að þó virkni þeirra sé e.t.v. mismikil eftir svæðum geti staðan breyst á skömmum tíma.
Að lokum er í greinargerð gerðar ýmsar athugasemdir við hina kærðu ákvörðun. Í fyrsta lagi gerir kærandi athugasemd við það að ekki hafi verið tilgreint til hvaða bæjar eða landshluta kærandi ætti að fara við endurkomu, þá hafi Útlendingastofnun vísað til heimilda um annað land, þ.e. Úkraínu, í umfjöllun um innri flótta innan heimaríkis hennar og komi fram í niðurstöðum Útlendingastofnunar að m.a. hafi verið horft til félags- og efnahagslegra aðstæðna á því svæði sem stofnunin leggi til sem öruggt svæði. Kærandi vísar til þess að það sé ekkert svæði innan Kólumbíu sem metið sé öruggt svæði og það sé til marks um óvandaða stjórnsýsluhætti ef slík niðurstaða sé byggð á upplýsingum um aðstæður í öðru landi. Kærandi mótmælir því að í leiðbeiningareglum Flóttamannastofnunar sé að finna jafn afdráttarlausa fullyrðingu og fram komi í ákvörðun Útlendingastofnunar um að í leiðbeiningareglunum sé ekki lagst gegn endursendingum til Kólumbíu og að innri flutningur geti verið tækt úrræði. Kærandi telji að í leiðbeiningarreglunum sé þvert á móti fjallað um að sumir skæruliða- og glæpahópar séu starfandi um landið allt og að innri flutningur sé því oft ekki mögulegur þeim sem standi frammi fyrir ofsóknum af þeirra hálfu. Þá hafi Útlendingastofnun ekki lagt fullnægjandi einstaklingsbundið mat á aðstæður kæranda, tekið mið af fjölskylduaðstæðum eða tekið tillit til þeirra ofsókna sem hún hafi orðið fyrir í Kólumbíu og áfalla vegna þeirra.
Kærandi vísar til þess að fyrir liggi að Útlendingastofnun hafi fallist á að hún hafi sætt ofsóknum í heimaríki og hafi ástæðuríkan ótta við áframhaldandi ofsóknir þar. Kærandi telur að skorti verulega á rökstuðning stofnunarinnar í niðurstöðu hennar um möguleika fyrir innri flutning kæranda í heimaríki. Kærandi telji að stofnunin hafi ekki rannasakað þennan þátt málsins nægilega vel og þá skorti á rökstuðning fyrir niðurstöðunni í andstöðu við 2. mgr. 23. gr. laga um útlendinga og 10 gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.
Kærandi telur að ljóst sé að krafa um innri flutninga sé hvorki raunhæf né sanngjörn fyrir hana. Með því að senda kæranda til Kólumbíu sé brotið gegn meginreglunni um non-refoulement, sbr. 42. gr. laga um útlendinga og að auki myndi slík ákvörðun brjóta í bága við 1. mgr. 68. gr. stjórnarskrárinnar, 2. og 3. gr. Mannréttindasáttmála Evrópu (MSE), 6. og 7. gr. samnings um borgaraleg og stjórnmálaleg réttindi og 33. gr. Flóttamannsamnings Sameinuðu þjóðanna. Með hliðsjón af atvikum í máli kæranda beri að viðurkenna stöðu kæranda sem flóttamaður og veita henni alþjóðlega vernd skv. 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga.
V. Niðurstaða kærunefndar útlendingamála
Lagagrundvöllur
Í máli þessu gilda einkum ákvæði laga um útlendinga nr. 80/2016, reglugerð nr. 540/2017 um útlendinga, ákvæði stjórnsýslulaga nr. 37/1993, stjórnarskrá lýðveldisins Íslands nr. 33/1944 og mannréttindasáttmáli Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994. Jafnframt ber að líta til ákvæða alþjóðasamnings um stöðu flóttamanna frá 1951, ásamt viðauka við samninginn frá 1967, og annarra alþjóðlegra skuldbindinga Íslands á sviði mannréttinda eftir því sem tilefni er til.
Auðkenni
Í ákvörðun Útlendingastofnunar kemur fram að til að sanna á sér deili hafi kærandi framvísað kólumbísku vegabréfi. Telur kærunefndin því ljóst að kærandi sé kólumbískur ríkisborgari.
Landaupplýsingar
Kærunefnd útlendingamála hefur lagt mat á aðstæður í Kólumbíu m.a. með hliðsjón af eftirfarandi skýrslum:
- Colombia 2018 Human Rights Report (US Department of State, 13. mars 2019);
- Colombia 2017 Human Rights Report (US Department of State, 20. apríl 2018);
- Colombia 2016 Human Rights Report (US Department of State, 3. mars 2017);
- Freedom in the World 2018 – Colombia (Freedom House, 15. mars 2018);
- World Report 2019 – Colombia (Human Rights Watch, 18. júní 2018);
- Corruption Perceptions Index 2017 (Transparency International, skoðað 28. september 2018);
- UNHCR Eligibility Guidelines for Assessing the International Protection Needs of Asylum- Seekers from Colombia (UNHCR, september 2015);
- Amnesty Annual Report 2017/2018 (Amnesty International, 22. febrúar 2018);
- In the Shadow of “No“ : Peace after Colombia´s Plebiscite. Latin America Report No. 60 (International Crisis Group, september 2015);
- World Report 2019 - Events of 2018 (Human Rights Watch, janúar 2019);
- Recycled Violence, Abuses by FARC dissident groups in Tumaco on Colombia’s Pacific Coast (Human Rights Watch, 13. desember 2018);
- Colombia suspends peace talks with ELN after bomb attack (Reuters, 29. janúar 2018);
- A Battle Not Yet Over: Displacement and Women´s Needs in Post- Peace Agreement Colombia (Refugees International, 12. desember 2016);
- Colombia – Peace and Stability in the Post-Conflict Era (Center for Strategic and International Studies (CSIS), mars 2014);
- Paramilitary successor groups and criminal bands (bandas criminales, BACRIM), areas of operation and criminal activities, including the Clan del Golfo (also known as Urabenos or Autodefensas Gaitanistas de ColombiaI; states response, including reintegration of, and assistant to combatants (May 2016-March 2017) (Canada: Immigration and Refugeees Board of Canada, 24. apríl 2017);
- Colombia: Requirements and procedures to submit a complaint to the police, the Fiscalía General de la Nación, and the Defensoría del Pueblo, including types of complaints; standardization and appearance of documents; requirements and procedures to obtain af copy of the complaint and investigative report for each organization, both from within the country and from abroad (Canada: Immigration and Refugee Board of Canada, 3. maí 2017);
- Colombia: State protection programs for victims and witnesses of crimes; requirements to access to the programs; statistics on the number of applications for relocation that are granted and refused; duration and effectiveness of these programs I2012-March 2016) (Canada: Immigration and Refugee Board of Canada, 6. apríl 2016);
- Colombia: The National Liberation Army (Ejército de Liberación National -ELN), including number of combatants and areas of operations; activities, including ability to track victims; state response and protection available to victims (2016-April 2018) (Canada: Immigration and Refugee Board of Canada, 17. apríl 2018);
- Colombia: The presence and activities of Los Rastrojos, including in Buenaventura; information on their relationship with the Gaitanist Self- Defense Forces of Colombia (Autodefensara Gaitanistas de Colombia, AGC) (also known as Gulf Clan (Clan del Golfo) or Úsuga Clan (Clan Úsuga), and formerly known as Los Urabenos); state response (2017 - April 2018) (Canada: Immigration and Refugee Board of Canada, 17. apríl 2018);
- Colombia: The Revolutionary Armed Forces of Colombia (Furezas Armadas Revolucionarias de Colombia, FARC), including demobilization of former combatans; information on dissident groups, including number of combatants, areas of operation, activities and state response (2016- April 2018) (Canada: Immigration and Refugee Board of Canada, 18. apríl 2018);
- The World Factbook: Colombia (CIA, skoðað 20. maí 2019);
- Colombia´s Armed Groups Battle for the Spoils of Peace (International Crisis Group (ICG), 19. október 2017);
- Foreign travel advice: Colombia (UK Foreign and Commonwealth Office, skoðað 20. maí 2019);
- Colombia 2018 Crime and Safety Report-Bogotá (US Department of State, Bureau of Diplomatic Security, 30. janúar 2018);• Social Security Throughout the World, The Americas, Colombia (Social Security Office of Retirement and Disability Policy, 2017);
- Ecuador Arms Trafficking Ring More Complex Than Previously Thought (Insight Crime, 6. mars 2019);
- Battles Between Former FARC Groups Displace Hundreds in Colombia (Insight Crime, 11. mars 2019);
- Colombia Cocaine Productions Breaks New Record Levels, UNODC Reports (Insight Crime, 19. september 2018);
- Gaitanista Self-Defence Forces of Colombia (AGC)/Gulf Clan (Colombia Reports, 23. október 2018);
- A fractured peace, A Reuters Special Report (Reuters International, 26. apríl 2018);
- Colombia Travel Advisory (US Department of State, Bureau of Consular Affairs, 28. júní 2018) og
- Annual Report of the United Nations High Commissioner for Human Rights on the situation of human rights in Colombia (UN Human Rights Council, 2. mars 2018).
Kólumbía er stjórnarskrárbundið lýðveldi með um 48 milljónir íbúa. Í landinu aðhyllist 79 % íbúa kaþólska trú. Þann 5. nóvember 1945 gerðist Kólumbía aðili að Sameinuðu þjóðunum. Ríkið fullgilti alþjóðasamning um borgaraleg og stjórnmálaleg réttindi ásamt alþjóðasamningi um efnahagsleg, félagsleg og menningarleg réttindi árið 1969. Ríkið fullgilti alþjóðasamning um afnám allrar mismununar gegn konum árið 1983 og samning Sameinuðu þjóðanna gegn pyndingum og annarri grimmilegri, ómannlegri og vanvirðandi meðferð eða refsingu árið 1987.
Af ofangreindum gögnum má sjá að algengustu mannréttindabrot í landinu séu morð framin í skjóli refsileysis, pyndingar, víðtæk spilling, nauðganir og misnotkun kvenna og barna af hálfu ólöglegra vopnaðra hópa í landinu, þvingaðar fóstureyðingar og ofbeldi gegn LGBTI einstaklingum. Glæpatíðni og morðtíðni í Kólumbíu sé há og glæpahópar af ýmsum stærðum og gerðum starfi víðsvegar um landið. Þeir stærstu kallist FARC (e. Revolutionary Armed Forces of Colombia – People´s Army) og ELN (e. National Liberation Army). Þá séu svokallaðir NAG (e. New Armed Groups) sem hafi sprottið út frá hersveitum sem áður hafi starfað í landinu. Fram kemur í skýrslu bandaríska utanríkisráðuneytisins að í kjölfar undirritunar friðarsamkomulags stjórnvalda við skæruliðahópinn FARC, hafi formlegri afvopnun hópsins lokið í ágúst árið 2017, og hafi fyrrum meðlimir myndað stjórnmálaflokk þann 1. september sl. og tekið þátt í þingkosningum í mars 2018. Skæruliðahópurinn ELN, hafi haldið áfram að fremja ofbeldisglæpi en þann 4. september 2017 hafi verið samþykkt vopnahlé sem hafi gilt frá 1. október 2017 til 9 janúar 2018. Þá hafi borist fregnir af því að ELN hafi rofið samkomulagið á árinu og friðarviðræður við samtökin hafi verið slitið af forseta landsins um óákveðinn tíma í ágúst 2018. Í heildina hafi ofbeldisglæpum fækkað og megi rekja það m.a. til friðarsamkomulagsins við FARC og vopnahlés við ELN. Vopna- og fíkniefnahópar eins og Gulf Clan starfi enn með einhverjum tengslum við ofangreinda skæruliðahópa en slíka hópa skorti sameinaða stefnu og yfirstjórn á landvísu og hugmyndafræði sem hafi einkennt fyrrnefnda skæruliðahópa. Stjórnvöld hafi boðið Gulf Clan friðarsamkomulag en það hafi ekki gengið eftir. Ólöglegir vopnaðir hópar og fíkniefnasöluhópar starfi enn í landinu með u.þ.b. 2900 meðlimi. Í skýrslu bandaríska utanríkisráðuneytisins, frá apríl 2018, kemur fram að skæruliðahópar, aðallega ELN, hafi borið ábyrgð á 69 hryðjuverkaárásum á árinu 2017, á tímabilinu janúar til september. Þá hafi ELN og aðrir skipulagðir glæpahópar stundað mannrán og pyndingar. Í ársskýrslu Human Rights Watch frá 2019 kemur fram að ofbeldi tengt vopnuðum hópum og afsprengihópum FARC hafi aukist árið 2018 og að stjórnvöld hafi áætlað að meðlimir í afsprengihópum FARC væru fleiri en 1400 talsins.
Í ofangreindum heimildum kemur fram að spilling ríki meðal stjórnmálamanna og innan lögreglunnar. Í skýrslu International Crisis Group (ICG) frá árinu 2017 kemur t.a.m. fram að áskoranir sem kólumbísk stjórnvöld standi frammi fyrir í tengslum við friðarumleitanir við meðlimi skæruliða- og glæpahópa, tengist ekki einvörðungu samskiptum og samningsviðræðum við þá, heldur þurfi að byggja upp traust og laga innviði í landinu til að bæta lífsgæði almennra borgara. Ljóst sé að vantrausts gæti hjá almenningi í garð yfirvalda í Kólumbíu. Á hinn bóginn kemur fram í skýrslu Flóttamannastofnunar frá 2015 að yfirvöld hafi lagt mikið í að auka vernd þeirra sem hafi orðið fyrir barðinu á glæpahópum, m.a. með auknum fjármunum til embættis ríkissaksóknara og hafi aðgerðir gegn mannréttindabrotum verið settar í forgang. Þrátt fyrir áratugalöng innri átök við glæpa- og fíkniefnahópa og viðvarandi öryggisvandamál, sé Kólumbía með sterkar lýðræðislegar stofnanir sem einkennist af friðsælum og gagnsæjum kosningum og vernd borgaralegra réttinda.
Í ofangreindum skýrslum kemur fram að konur eigi undir höggi að sækja á ýmsum sviðum í Kólumbíu. Kynferðislegt ofbeldi og heimilisofbeldi séu vandamál í landinu. Dæmi séu um að meðlimir ólöglegra vopnahópa, m.a. fyrrum meðlimir í skæruliðahópum, beiti konur og börn kynferðislegu ofbeldi. Þá hafi baráttukonur fyrir mannréttindum átt erfitt uppdráttar og verið ógnað fyrir þátttöku í stjórnmálum.
Heimildir beri með sér að lögregluyfirvöld í Kólumbíu séu alla jafna öflug og fagleg. Þá hafi ýmis lög verið sett í því skyni að bæta réttarstöðu þolenda afbrota. Þó séu ákveðin svæði í Kólumbíu, s.s í Tumaco í Suður- Kólumbíu, þar sem glæpahópar hafi mikil völd eða virk átök eigi sér stað á milli aðila og á þeim svæðum sé geta yfirvalda til að vernda borgara talin mjög takmörkuð. Ástæður þess séu m.a. að löggæsluyfirvöld komist ekki inn á þessi tilteknu svæði, þau skorti getu og úrræði auk þess sem spillingar gæti hjá yfirvöldum á ákveðnum svæðum. Refsileysi innan öryggissveita ríkisins hafi verið vandamál í landinu. Yfirvöld hafi þó á undanförnum árum handtekið, ákært og sakfellt fjölda starfsmanna hins opinbera fyrir tengsl við glæpahópa og hafi slíkum sakfellingum fjölgað töluvert.
Ákvæði 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga
Í 1. mgr. 37. gr. laga nr. 80/2016 um útlendinga, sem byggir á A-lið 1. gr. flóttamannasamningsins, segir:
Flóttamaður samkvæmt lögum þessum telst vera útlendingur sem er utan heimalands síns af ástæðuríkum ótta við að vera ofsóttur vegna kynþáttar, trúarbragða, þjóðernis, aðildar að tilteknum þjóðfélagshópi eða vegna stjórnmálaskoðana og getur ekki eða vill ekki vegna slíks ótta færa sér í nyt vernd þess lands; eða sá sem er ríkisfangslaus og er utan þess lands þar sem hann áður hafði reglulegt aðsetur vegna slíkra atburða og getur ekki eða vill ekki vegna slíks ótta hverfa aftur þangað, sbr. A-lið 1. gr. alþjóðasamnings um réttarstöðu flóttamanna frá 28. júlí 1951 og bókun við samninginn frá 31. janúar 1967, sbr. einnig 38. gr. laga þessara.
Í 38. gr. útlendingalaga eru sett fram viðmið um það hvað felist í hugtakinu ofsóknir skv. 1. mgr. 37. gr., á hvaða grundvelli ofsóknir geta byggst og hvaða aðilar geta verið valdir að þeim. Í 1. mgr. ákvæðisins segir:
Ofsóknir skv. 1. mgr. 37. gr. eru þær athafnir sem í eðli sínu eða vegna þess að þær eru endurteknar fela í sér alvarleg brot á grundvallarmannréttindum, einkum ófrávíkjanlegum grundvallarmannréttindum á borð við réttinn til lífs og bann við pyndingum eða ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu, bann við þrældómi og þrælkun og bann við refsingum án laga. Sama á við um samsafn athafna, þ.m.t. ólögmæta mismunun, sem hafa eða geta haft sömu eða sambærileg áhrif á einstakling.
Í 2. mgr. 38. gr. laga um útlendinga er fjallað um í hverju ofsóknir geta falist. Þá eru þær ástæður sem ofsóknir þurfa að tengjast skilgreindar nánar í 3. mgr. 38. gr. laganna.
Í 4. mgr. 38. gr. kemur fram að þeir aðilar sem geta verið valdir að ofsóknum eða ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð séu:
a. ríkið,
b. hópar eða samtök sem stjórna ríkinu eða verulegum hluta landsvæðis þess,
c. aðrir aðilar, sem ekki fara með ríkisvald, ef sýnt er fram á að ríkið eða hópar eða samtök skv. b-lið, þ.m.t. alþjóðastofnanir, geti ekki eða vilji ekki veita vernd gegn ofsóknum eða meðferð sem fellur undir 2. mgr. 37. gr., m.a. með því að ákæra og refsa fyrir athafnir sem fela í sér ofsóknir.
Orðsambandið „ástæðuríkur ótti við að vera ofsóttur“ í 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga inniheldur huglæga og hlutlæga þætti og þarf að taka tillit til hvors tveggja þegar mat er lagt á umsókn um alþjóðlega vernd. Mat á því hvort ótti umsækjanda sé ástæðuríkur getur verið byggt á persónulegri reynslu umsækjanda sem og á upplýsingum um ofsóknir sem aðrir í umhverfi hans eða þeir sem tilheyra sama hópi hafa orðið fyrir. Umsækjandi sem hefur sýnt fram á að hann hafi þegar orðið fyrir ofsóknum í heimaríki, sbr. 1. mgr. 38. gr. laga um útlendinga, eða beinum og marktækum hótunum um slíkar ofsóknir, yrði almennt talinn hafa sýnt fram á ástæðuríkan ótta við slíkar ofsóknir snúi hann aftur til heimaríkis nema talið verði að miklar líkur séu á því að slíkar ofsóknir yrðu ekki endurteknar, t.d. þar sem aðstæður í heimaríki hans hafi breyst. Þótt umsækjandi um alþjóðlega vernd skuli njóta vafa upp að ákveðnu marki, verður umsækjandinn með rökstuddum hætti að leiða líkur að því að hans bíði ofsóknir í heimaríki. Frásögn umsækjanda og önnur gögn um einstaklingsbundnar aðstæður hans verða því almennt að fá stuðning í hlutlægum og áreiðanlegum upplýsingum um heimaríki umsækjanda, stjórnvöld, stjórnarfar og löggjöf þess. Þá er litið til sambærilegra upplýsinga um ástand, aðstöðu og verndarþörf þess hóps sem umsækjandi tilheyrir eða er talinn tilheyra.
Kærunefnd hefur við mat sitt á umsókn kærenda haft til hliðsjónar handbók Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna um málsmeðferð og viðmið við mat á umsókn um alþjóðlega vernd (Handbook and Guidelines on Procedures and Criteria for Determining Refugee Status, Genf 2011). Þá hefur aðferðarfræði trúverðugleikamats kærunefndar tekið mið af skýrslu Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna og Flóttamannasjóðs Evrópusambandsins um trúverðugleikamat, eftir því sem við á (Beyond Proof: Credibility Assessment in EU Asylum Systems, Brussel 2013).
Kærandi ber fyrir sig að hún verði fyrir ofsóknum og hótunum af hálfu meðlima glæpahópsins Oliver Sinisterra og að hún geti ekki fengið aðstoð frá lögregluyfirvöldum, vegna spillingar og tengsla yfirvalda við glæpahópa.
Í ákvörðun Útlendingastofnunar í máli kæranda var á því byggt að hún hefði sætt ofsóknum sem fólust í áreiti og fjárkúgunum af hálfu meðlima glæpahóps í heimaríki sínu. Af hálfu kærunefndar útlendingamála er ekki talin ástæða til annars en að leggja það til grundvallar við úrlausn málsins. Skýrslur og gögn um Kólumbíu sem kærunefnd hefur yfirfarið benda til þess að slíkt áreiti og fjárkúganir viðgangist víða í landinu og að ítök glæpahópa séu á mörgum svæðum sterk og löggæsla veik. Þá benda skýrslur og önnur gögn til þess að ítök Oliver Sinisterra glæpahópsins séu sterk í bænum […] í Narino-héraði sem er heimabær kæranda. Að mati kærunefndar eru aðstæður á heimasvæði kæranda slíkar að ekki verður talið að þau geti snúið aftur þangað án þess að eiga á hættu meðferð af hálfu glæpahópa sem fellur undir 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga, og að yfirvöld í Kólumbíu geti ekki veitt kæranda vernd gegn þeim ofsóknum, sbr. c-liður 4. mgr. 38. gr. sömu laga, á því svæði.
Mat á möguleika á flutningi innanlands
Í 4. mgr. 37. gr. laga um útlendinga segir að ef útlendingur getur fengið raunverulega vernd í öðrum landshluta heimalands síns en hann flúði frá, viðkomandi getur ferðast þangað á öruggan og löglegan hátt og hægt er með sanngirni að ætlast til þess af viðkomandi að hann setjist að á því svæði getur verið að 1. og 2. mgr. eigi ekki við í þeim tilvikum og hann teljist ekki flóttamaður. Niðurstaða um hvort útlendingur geti fengið raunverulega vernd í öðrum hluta heimalands skuli byggð á einstaklingsbundnu mati á persónulegum aðstæðum útlendingsins og þeim aðstæðum sem séu í því landi. Við mat á því hvort hægt sé með sanngirni að ætlast til þess að útlendingur setjist að á því svæði sem talið er öruggt samkvæmt ákvæði þessu skuli tekið tillit til ýmissa þátta, svo sem aldurs, kyns, heilsu, fjölskylduaðstæðna, trúar, menningar sem og möguleika viðkomandi útlendings á vinnu eða menntun. Við mat samkvæmt ákvæðinu skuli m.a. höfð hliðsjón af leiðbeiningum flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna (Guidelines on International Protection: „Internal Flight or Relocation Alternative“ within the Context og Article 1A(2) of the 1951 Convention and/or 1967 Protocol relating to the Status of Refugees, frá 23. júlí 2003).
Í leiðbeiningunum, sem varða möguleika á flutningi innanlands þegar einstaklingur hefur flúið heimaríki af ástæðuríkum ótta við ofsóknir, er lagt til grundvallar að mat á því hvort möguleiki sé á að einstaklingur geti flust búferlum til annars svæðis í heimaríki sé tvíþætt. Annars vegar verði að kanna hvort flutningur innanlands sé raunhæft úrræði. Að því er mál kærenda varðar kemur í þessu sambandi einkum til athugunar hvort það svæði sem lagt er til að hann flytjist til sé aðgengilegt á öruggan og löglegan hátt og hvort flutningur hans þangað skapi hættu á að kærandi verði fyrir ofsóknum eða alvarlegum skaða. Hins vegar beri að kanna hvort viðkomandi geti, með hliðsjón af aðstæðum í heimaríki hans, lifað tiltölulega eðlilegu lífi án þess að standa frammi fyrir óþarfa erfiðleikum. Við þann þátt matsins verður m.a. að horfa til persónulegra aðstæðna viðkomandi, t.a.m. félags- og efnahagslegra aðstæðna á því svæði sem lagt er til. Í leiðbeiningunum segir m.a. um síðastnefnt atriði að það sé ósanngjarnt að ætlast til þess lífsviðurværi einstaklings verði lægra en það sem talist geti viðunandi eða að viðkomandi búi við eymd.
Þrátt fyrir að gögn um aðstæður í Kólumbíu bendi til þess að glæpahópar séu áhrifamiklir á sumum svæðum í Kólumbíu, m.a. í heimahéraði kæranda, er það mat kærunefndar að gögnin sýni fram á að á öruggari svæðum, s.s. Bogotá, Medellín og Cali, geti kólumbísk yfirvöld almennt verndað grundvallarmannréttindi ríkisborgara sinna. Nokkrir alþjóðlegir flugvellir eru utan átakasvæða í landinu. Kærandi er stödd hér á landi, er handhafi kólumbísks vegabréfs og ekki verður annað séð en að öruggari svæði í Kólumbíu séu henni aðgengileg á öruggan og löglegan hátt. Þá verður ekki talið að flutningur á önnur svæði en heimasvæði kæranda skapi henni hættu á að hún verði fyrir ofsóknum eða alvarlegum skaða.
Kærunefnd telur að þegar litið er til möguleikans á innri flutning megi m.a. líta til umfjöllunar Flóttamannastofnunar um innri flutning í Kólumbíu, þar sem rakið er að líta verði til þess hversu miklar líkur séu á að viðkomandi verði eltur uppi af glæpahóp á nýja staðinn. Eins og fram hefur komið kveður kærandi að ofsóknir og fjárkúganir glæpahópsins Oliver Sinisterra hafi beinst að henni annars vegar þegar hún hafi verið við störf hjá fjármálastofnun í […] og hins vegar eftir að hún hafði flust aftur til [...] og hafið störf þar. Samkvæmt þeim gögnum sem kærunefnd hefur tekið til skoðunar um aðstæður í heimaríki kæranda tíðkast slíkar fjárkúgunaraðferðir sem kærandi hefur lýst í þó nokkrum mæli í Kólumbíu ásamt annarri skipulagðri glæpastarfsemi. Eins og fram hefur komið fellst kærunefnd á að litla vernd sé að fá í heimahéraði kæranda, Narino, þar sem ítök hinna ýmsu glæpahópa eru sterk, einkum Oliver Sinisterra og þá gæti töluverðrar spillingar innan lögreglu í héraðinu og öryggi borgara sé því ekki nægilega tryggt. Kærunefnd telur að þrátt fyrir ofangreint bendi gögn til þess að átök í Kólumbíu séu að mestu staðbundin og að mati kærunefndar er ekkert í gögnum málsins sem gefur til kynna að fyrrgreindir glæpahópar kynnu að leita kæranda uppi snúi hún aftur til landsins og setjist að á öðrum stað í heimaríki. Þá bendi gögn til þess að verði hún fyrir áreiti af hálfu meðlima glæpahópa annars staðar en á þeim svæðum sem ítök þeirra séu mikil geti hún leitað til lögreglu eftir aðstoð og vernd. Samkvæmt framansögðu er það mat kærunefndar að flutningur innanlands komi til álita í máli kæranda.
Að uppfylltu fyrra skilyrði við mat á möguleika á flutningi innanlands verður því næst að taka afstöðu til þess hvort unnt sé, með hliðsjón af einstaklingsbundnum aðstæðum kæranda og aðstæðum í heimaríki hennar, að ætlast með sanngirni til þess að kærandi setjist að á öðru svæði í Kólumbíu. Kærandi er ung kona, með háskólamenntun og við ágæta heilsu. Kærandi aðhyllist kaþólska trú líkt og meirihluti kólumbískra ríkisborgara. Allir landsmenn hafa aðgang að almannatrygginga- og velferðarkerfi auk þess sem íbúum landsins er tryggður aðgangur að heilbrigðisþjónustu. Kærunefnd telur líkur standa til þess að hún hafi atvinnutækifæri í heimaríki og ætti ekki að eiga í erfiðleikum með að aðlagast á nýjum stað innan landsins. Er það mat kærunefndar að ekki hafi verið gert líklegt að staða kæranda sé verri en annarra einstaklinga í sömu stöðu. Kærandi á 16 ára son en í viðtali hjá Útlendingastofnun þann 2. febrúar 2019 kvað kærandi hann vera öruggan á heimili foreldra hennar í […]. Þá sé kærandi gift manni sem búi einnig í […]. Kærandi kvað fjölskyldu sína ekki hafa orðið fyrir ofsóknum. Að mati kærunefndar getur fjölskylda kæranda sest að með henni á hinum nýja stað.
Er það mat kærunefndar að hægt sé með sanngirni að ætlast til þess að kærandi setjist að annars staðar í Kólumbíu, sbr. 4. mgr. 37. gr. laga um útlendinga. Samkvæmt framansögðu er það mat kærunefndar að skilyrði 4. mgr. 37. gr. laga um útlendinga um flutning innanlands séu uppfyllt og telst kærandi því ekki flóttamaður. Samkvæmt framansögðu verður ákvörðun Útlendingastofnunar um þetta atriði staðfest.
Alþjóðleg vernd á grundvelli 40. gr. laga um útlendinga
Þar sem kærunefnd hefur komist að þeirri niðurstöðu að kærandi eigi möguleika á flutningi innanlands á hún ekki rétt á alþjóðlegri vernd hér á landi, sbr. 4. mgr. 37. gr. og 40. gr. laga um útlendinga.
Dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða skv. 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga
Samkvæmt 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga má líta til mannúðarsjónarmiða ef útlendingur getur sýnt fram á ríka þörf fyrir vernd, t.d. af heilbrigðisástæðum eða vegna erfiðra félagslegra aðstæðna viðkomandi eða erfiðra almennra aðstæðna í heimaríki eða í landi sem honum yrði vísað til. Kærunefnd telur, með vísan til orðalags ákvæðisins um „ríka þörf fyrir vernd“ auk lögskýringargagna sem fylgdu greininni, að dvalarleyfi á grundvelli 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga verði ekki veitt nema aðstæður, bæði almennar og sérstakar m.t.t. heilsufars og félagslegra þátta, auk atvika sem þar er vísað til, nái ákveðnu alvarleikastigi þegar málið er virt í heild.Í athugasemdum við frumvarp til laga um útlendinga nr. 80/2016 kemur fram að erfiðar almennar aðstæður geta tekið til óvenjulegra aðstæðna á borð við náttúruhamfarir eða langvarandi stríðsástand í heimaríki. Langvarandi ófriðartástand hafi ríkt í heimaríki kæranda og heldur kærandi því fram að yfirvöld í Kólumbíu geti ekki veitt henni þá vernd sem hún þarfnist. Af þeim gögnum og skýrslum sem kærunefnd hefur farið yfir og af fyrrgreindri niðurstöðu um möguleika kæranda á innri flutningi þá er ljóst að þrátt fyrir að ótryggt ástand ríki á ákveðnum landsvæðum í heimaríki kæranda þá geti kærandi sest að á öðru svæði í heimaríki sem talið sé öruggt. Þá geti yfirvöld jafnframt veitt kæranda viðeigandi vernd.Fjallað hefur verið um aðstæður kæranda í heimaríki en hún kvaðst jafnframt í viðtali hjá Útlendingastofnun vera við góða andlega og líkamlega heilsu. Þegar upplýsingar um heimaríki kæranda og gögn málsins eru virt í heild, er það niðurstaða kærunefndar að kærandi hafi ekki sýnt fram á aðstæður sem ná því alvarleikastigi að hún teljist hafi ríka þörf á vernd líkt og kveðið er á um í 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga. Því er fallist á það með Útlendingastofnun að aðstæður kæranda í heimaríki séu ekki með þeim hætti að veita beri kæranda dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða, sbr. 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga.
Athugasemdir kæranda við málsmeðferð Útlendingastofnunar
Í greinargerð sinni gerir kærandi athugasemdir við málsmeðferð og úrlausn Útlendingastofnunar í máli hennar. Meðal annars hafi stofnunin ekki tilgreint það svæði eða þá borg sem stofnunin telji að kærandi geti flutt til og búið í við öryggi, þá hafi stofnunin vísað til heimilda um rangt land í umfjöllun um innri flutning auk þess sem skort hafi á rökstuðning við umfjöllun um mat á innri flutningi í máli hennar. Kærunefnd bendir af þessu tilefni á að leiðbeiningar Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna hafa ekki lagagildi hér á landi og eru eins og fram kemur í lögskýringargögnum að baki 4. mgr. 37. gr. laga um útlendinga einungis til hliðsjónar við mat samkvæmt ákvæðinu. Þá kemur fram í athugasemdunum að við matið skuli horfa til þess hvort einstaklingur geti fengið vernd i öðrum hluta heimalands hans en hann flúði frá og hvort hann geti sest að á svæði sem talið sé öruggt. Eins og fram hefur komið er það mat kærunefndar að kærandi geti flust utan heimahéraðs síns.
Kærunefnd hefur yfirfarið þau öll gögn málsins, svo og skýrslur opinberra stofnana, og komist að sömu niðurstöðu og Útlendingastofnun. Það er mat kærunefndar að ekkert hafi komið fram í málinu sem bendir til þess að skort hafi á að nauðsynlegar upplýsingar lægju fyrir um aðstæður utan heimahéraðs kærenda í heimaríki þeirra við ákvörðunartöku hjá Útlendingastofnun. Það er því mat kærunefndar að málsmeðferð Útlendingastofnunar í máli kæranda hafi verið í samræmi við 10. gr. stjórnsýslulaga og 2. mgr. 23. gr. laga um útlendinga.
Bann við endursendingu skv. 42. gr. laga um útlendinga
Samkvæmt 1. mgr. 42. gr. laga um útlendinga er ekki heimilt að senda útlending eða ríkisfangslausan einstakling til svæðis þar sem hann hefur ástæðu til að óttast ofsóknir, sbr. 37. og 38. gr., eða vegna svipaðra aðstæðna og greinir í flóttamannahugtakinu er í yfirvofandi hættu á að láta lífið eða verða fyrir ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð. Samkvæmt 2. mgr. sömu greinar er einnig óheimilt að senda útlending til svæðis þar sem ekki er tryggt að hann verði ekki sendur áfram til slíks svæðis sem greinir í 1. mgr.
Með vísan til umfjöllunar að framan um heimaríki kæranda telur kærunefnd að þær aðstæður sem ákvæðið tekur til eigi ekki við í máli kæranda. Kærunefnd telur því að ákvæði 42. gr. laga um útlendinga standi ekki í vegi fyrir endursendingu kæranda þangað.
Frávísun og frestur til að yfirgefa landið
Kærandi kom hingað til lands 21. maí 2018 og sótti um alþjóðlega vernd þann 24. maí s.á. Eins og að framan greinir hefur umsókn hennar um vernd og dvalarleyfi hér á landi verið synjað og hefur hún því ekki tilskilin leyfi til dvalar enda verður að líta á umsókn hennar um alþjóðlega vernd sem áform um að dveljast í landinu meira en 90 daga, sbr. til hliðsjónar 3. mgr. 42. gr. reglugerðar um útlendinga nr. 540/2017. Verður kæranda því vísað frá landinu á grundvelli c-liðar 1. mgr. 106. gr. laga um útlendinga, sbr. 2. og 5. mgr. 106. laganna, enda hefur hún verið hér á landi í innan við níu mánuði þegar málsmeðferð umsóknar hennar hófst hjá Útlendingastofnun. Kærandi er við ágæta heilsu. Að mati kærunefndar og með vísan til 2. mgr. 104. gr. laga um útlendinga teljast 15 dagar hæfilegur frestur til að yfirgefa landið.Athygli kæranda er vakin á því að ef hún yfirgefur ekki landið innan frests er heimilt að brottvísa henni. Brottvísun felur í sér bann við komu til landsins síðar og skal endurkomubann að jafnaði ekki gilda skemur en tvö ár, sbr. a-lið 2. mgr. 98. gr. og 2. mgr. 101. gr. laga um útlendinga.
Kærandi skal yfirgefa landið innan 15 daga frá birtingu úrskurðar þessa.
Samantekt
Með vísan til alls þess sem að framan er rakið og forsendna hinnar kærðu ákvörðunar þykir rétt að staðfesta ákvörðun Útlendingastofnunar.
Athygli kæranda er vakin á því að skv. 6. mgr. 104. gr. laga um útlendinga frestar málshöfðun fyrir dómstólum til ógildingar á endanlegri ákvörðun um að útlendingur skuli yfirgefa landið ekki framkvæmd hennar. Að kröfu útlendings getur kærunefnd útlendingamála þó ákveðið að fresta réttaráhrifum endanlegrar ákvörðunar sé talin ástæða til þess. Krafa þess efnis skal gerð ekki síðar en sjö dögum eftir birtingu endanlegrar ákvörðunar. Skal frestun bundin því skilyrði að útlendingur beri málið undir dómstóla innan fimm daga frá birtingu ákvörðunar um frestun réttaráhrifa úrskurðar og óski eftir að það hljóti flýtimeðferð. Nú er beiðni um flýtimeðferð synjað og skal þá mál höfðað innan sjö daga frá þeirri synjun. Þó getur kærunefnd útlendingamála tekið ákvörðun um að fresta framkvæmd ákvörðunarinnar ef sýnt er fram á að verulega breyttar aðstæður hafi skapast frá því að endanleg ákvörðun var tekin.
Úrskurðarorð
Ákvörðun Útlendingastofnunar er staðfest. Lagt er fyrir kæranda að hverfa af landi brott. Kæranda er veittur 15 daga frestur til að yfirgefa landið sjálfviljug.
The decision of the Directorate of Immigration is affirmed. The appellant is requested to leave the country. The appellant has 15 days to leave the country voluntarily.
Anna Tryggvadóttir
Gunnar Páll Baldvinsson Þorbjörg Inga Jónsdóttir