Hoppa yfir valmynd

Nr. 224/2020 Úrskurður

KÆRUNEFND ÚTLENDINGAMÁLA

Þann 18. júní 2020 er kveðinn upp svohljóðandi

úrskurður nr. 224/2020

í stjórnsýslumáli nr. KNU20040027

Kæra [...]

á ákvörðun

Útlendingastofnunar

I. Kröfur, kærufrestir og kæruheimild

Þann 28. apríl 2020 kærði [...], fd. [...], ríkisborgari Pakistan (hér eftir nefndur kærandi) ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 25. mars 2020, um að synja honum um alþjóðlega vernd á Íslandi ásamt því að synja honum um dvalarleyfi á grundvelli 74. gr. laga nr. 80/2016 um útlendinga.

Kærandi krefst þess aðallega að ákvörðun Útlendingastofnunar verði felld úr gildi og að kæranda verði veitt viðbótarvernd með vísan til 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga. Til vara krefst kærandi þess að ákvörðun Útlendingastofnunar verði felld úr gildi og að kæranda verði veitt dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða með vísan til 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga. Til þrautavara er þess krafist að ákvörðun Útlendingastofnunar verði felld úr gildi og að kæranda verði veitt dvalarleyfi fyrir hugsanlegt fórnarlamb mansals með vísan til 75. gr. laga um útlendinga.

Fyrrgreind ákvörðun er kærð á grundvelli 7. gr. laga um útlendinga og barst kæran fyrir lok kærufrests.

II. Málsatvik og málsmeðferð

Kærandi kom hingað til lands árið 2017 á grundvelli dvalarleyfis vegna skorts á starfsfólki. Kærandi yfirgaf landið og fór til heimaríkis árið 2018 og hið sama ár kom hann aftur til landsins. Þann 9. október 2019 sótti kærandi um alþjóðlega vernd hér á landi. Kærandi kom í viðtal hjá Útlendingastofnun m.a. þann 2. janúar 2020 ásamt talsmanni sínum. Með ákvörðun, dags. 25. mars 2020, synjaði Útlendingastofnun kæranda um alþjóðlega vernd ásamt því að synja honum um dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða. Var sú ákvörðun kærð til kærunefndar útlendingamála þann 28. apríl 2020. Kærunefnd barst greinargerð kæranda þann 12. maí 2020.

III. Ákvörðun Útlendingastofnunar

Í ákvörðun Útlendingastofnunar kemur fram að kærandi byggi umsókn sína um alþjóðlega vernd á því að hann sé í hættu í heimaríki sínu vegna skuldar sinnar við tvo aðila í heimaríki sínu og vegna þjóðernis síns.Niðurstaða ákvörðunar Útlendingastofnunar í máli kæranda var sú að kærandi sé ekki flóttamaður og honum skuli synjað um alþjóðlega vernd á Íslandi skv. ákvæðum 37. og 40. gr. laga um útlendinga. Kæranda var jafnframt synjað um dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða skv. 74. gr. laga um útlendinga. Þá taldi stofnunin að ákvæði 42. gr. laga um útlendinga stæði endursendingu til heimaríkis ekki í vegi.

Með vísan til 5. mgr. 106. gr. laga um útlendinga var ekki beitt frávísun í máli kæranda enda hafi mál hans hafist að eigin frumkvæði rúmum tveimur árum eftir að kærandi kom til landsins og skilyrði frávísunar því ekki fyrir hendi í máli hans. Kæranda var veittur 30 dagar frestur til að yfirgefa landið, sbr. 3. mgr. 104. gr. laga um útlendinga. Útlendingastofnun tilkynnti kæranda jafnframt að kæra frestaði réttaráhrifum ákvörðunarinnar, sbr. 1. mgr. 35. gr. laga um útlendinga.

IV. Málsástæður og rök kæranda

Í greinargerð kæranda er vísað til frásagnar hans í viðtali hjá Útlendingastofnun þar sem kærandi hafi greint frá því að hann væri fæddur og uppalinn í þorpinu [...] rétt hjá [...] í Pakistan og að foreldrar hans, eiginkona og börn séu búsett þar. Kærandi hafi flust til Dubai árið 2005 eða 2006 og verið búsettur þar til ársins 2017. Þá hafi hann komið hingað til lands á grundvelli atvinnuleyfis sem hafi verið útvegað af atvinnurekanda hans hér á landi. Atvinnurekandi kæranda hafi óskað eftir því að kærandi myndi útvega þrjá starfsmenn til viðbótar og tjáð honum að umrædd atvinnuleyfi myndu kosta 7.500 evrur hvort. Kærandi hafi þá haft samband við bróður sinn og tvo einstaklinga frá Pakistan sem hafi verið búsettir þar og hafi þeir ásamt kæranda greitt atvinnurekanda kæranda um 1,5 milljón íslenskra króna fyrir atvinnuleyfin. Eftir um átta mánuði í starfi hafi kærandi verið sendur í þvingað leyfi til heimaríkis og á þeim tíma hafi atvinnurekandi kæranda haft samband við hann og tjáð honum að atvinnuleyfi hans hafi verið afturkallað og að hann þyrfti ekki að snúa aftur til Íslands.

Kærandi kvaðst hafa komið aftur hingað til lands sökum þess að hann væri í hættu í heimaríki vegna skuldar sinnar við fyrrgreinda aðila sem hafi ekki fengið þau atvinnuleyfi sem þeir hafi greitt fyrir. Hann hafi komið til landsins í þeim tilgangi að fá greidda fjármunina til baka svo hann gæti endurgreitt skuldina. Kærandi hafi greint frá því að fólk sem endurgreiði ekki lánaða fjármuni lendi í miklum vandræðum í heimaríki hans. Fyrrgreindir aðilar, að undanteknum bróður kæranda, hafi farið á heimili eiginkonu kæranda og krafist endurgreiðslu fjármuna sinna með hótunum og hafi hún í kjölfarið lagt inn kvörtun til lögreglu vegna þess. Kærandi kvaðst óttast öryggi sitt og fjölskyldu sinnar vegna hótana tilgreindra aðila. Þá hafi kærandi greint frá því að mikil spilling ríkti í heimaríki hans.

Kærandi hafi greint frá því að hann tilheyri þjóðernishópi Pastúna sem sé í minnihluta í Pakistan. Þá séu svokölluð Pastúna-hverfi í Pakistan skotmörk yfirvalda og hafi forsætisráðherra landsins sagst vilja losna við einstaklinga sem tilheyri þjóðernishópi Pastúna í þeim tilgangi að byggja upp hverfin sem þeir búi í. Sú staðreynd að kærandi tilheyri þjóðernishópnum minnki líkur hans til að fá fullnægjandi vernd frá pakistönskum yfirvöldum. Þá séu miklar óeirðir í heimabæ hans. Í greinargerð sinni gerir kærandi nokkrar athugasemdir við hina kærðu ákvörðun, m.a. við að ekki hafi verið fjallað um þrautavarakröfu hans í ákvörðun Útlendingastofnunar um dvalarleyfi fyrir hugsanlegt fórnarlamb mansals.

Kærandi krefst þess aðallega að honum verði veitt alþjóðleg vernd skv. 2. mgr. 37. laga um útlendinga. Kærandi byggir á því að hann uppfylli skilyrði ákvæðisins þar sem raunhæf ástæða sé til að ætla að hann muni eiga á hættu að sæta ómannúðlegri og vanvirðandi meðferð í heimaríki vegna fjárskuldar hans við tilgreinda menn þar. Kærandi óttist um öryggi sitt og fjölskyldu sinnar auk þess sem hann óttist að vera myrtur í heimaríki vegna þess.

Verði ekki fallist á aðalkröfu kæranda er til vara gerð sú krafa að honum verði veitt dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða, skv. 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga. Félagslegar aðstæður kæranda í heimaríki séu erfiðar með vísan til þeirra vandamála sem hann standi frammi fyrir vegna fyrrgreindrar skuldar hans. Þar sem kærandi tilheyri þjóðernishópi Pastúna sé hann í verri stöðu en aðrir samborgarar hans og hefur ekki möguleika á vernd gegn ofsóknaraðilum sínum. Þá skuli litið til þeirra atvika sem kærandi hefur orðið fyrir hér á landi í tengslum við fyrirheit fyrrum atvinnurekanda hans um atvinnuleyfi. Verði ekki fallist á aðal né varakröfu kæranda er sú krafa gerð til þrautavara að honum verði veitt dvalarleyfi þar sem grunur leiki á að hann sé fórnarlamb mansals, sbr. 1. mgr. 75. gr. laga um útlendinga. Kærandi byggir á því að hann uppfylli skilyrði ákvæðisins fyrir dvalarleyfi fyrir hugsanlegt fórnarlamb mansals. Kærandi hafi greint frá því að hann hafi komið hingað til lands fyrir tilstuðlan atvinnurekanda hér á landi sem hafi svikið hann um háar fjárhæðir og sé mál hans til rannsóknar hjá lögreglu. Þá kemur fram að fjallað hafi verið um mál kæranda í fjölmiðlum hér á landi. Jafnframt vísar kærandi til 14. tl. 3. gr. laga um útlendinga, ákvæða almennra hegningarlaga nr. 19/1940 og Palermó samnings Sameinuðu þjóðanna gegn fjölþjóðlegri skipulagðri glæpastarfsemi og mansalsbókun við samninginn.

V. Niðurstaða kærunefndar útlendingamála

Í viðtali hjá Útlendingastofnun greindi kærandi eins og áður segir frá því að hann hafi greitt atvinnurekanda hér á landi tiltekna fjárhæð fyrir atvinnuleyfi hérlendis fyrir sig og f.h. þriggja annarra einstaklinga. Þegar kærandi hafi farið í þvingað leyfi til heimaríkis hafi atvinnuleyfi hans verið afturkallað ásamt því að fyrrgreindir aðilar hafi ekki fengið útgefin sín atvinnuleyfi þrátt fyrir að kærandi hafi innt af hendi greiðslu í þeim tilgangi. Kærandi hafi komið aftur hingað til lands í þeirri von um að fá fjármunina greidda til baka og einnig vegna ótta við fyrrgreinda aðila sem hann standi í skuld við. Við úrlausn málsins hjá Útlendingastofnun var frásögn kæranda talin trúverðug og lögð til grundvallar.

Samkvæmt ákvæði 75. gr. laga um útlendinga er heimilt að veita útlendingi sem grunur leikur á að sé fórnarlamb mansals dvalarleyfi í allt að níu mánuði þótt skilyrðum 1. og 2. mgr. 55. gr. laganna sé ekki fullnægt. Við rannsókn málsins skuli lögregla veita Útlendingastofnun aðstoð, t.d. við mat á aðstæðum viðkomandi. Í athugasemdum við ákvæðið í frumvarpi til laga um útlendinga kemur fram að veiting dvalarleyfis á grundvelli ákvæðisins sé óháð því hvort lögreglurannsókn fari fram. Þá sé það ekki skilyrði fyrir veitingu dvalarleyfisins að lögreglu sé kunnugt um mál umsækjanda um leyfið eða telji ástæðu til að hefja sérstaka rannsókn á því. Einnig geti það reynst nauðsynlegt til að upplýsa mál nægilega vel áður en ákvörðun er tekin í því að leita umsagnar annarra aðila sem hafa komið að máli fórnarlambsins. Slíkir aðilar geti t.d. verið félagsmálayfirvöld, heilbrigðisyfirvöld, Vinnumálastofnun eða frjáls félagasamtök. Samkvæmt 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 skal stjórnvald sjá til þess að mál sé nægjanlega upplýst áður en ákvörðun er tekin í því og afla í því skyni nauðsynlegra gagna og upplýsinga. Þá mælir 2. mgr. 23. gr. laga um útlendinga fyrir um að Útlendingastofnun skuli afla nauðsynlegra og aðgengilegra upplýsinga við meðferð mála. Mál telst nægilega rannsakað þegar þeirra upplýsinga hefur verið aflað sem nauðsynlegar eru til þess að hægt sé að taka efnislega rétta ákvörðun í því. Kröfur til rannsóknar í hverju máli ráðast af lagagrundvelli málsins og einstaklingsbundnum aðstæðum kæranda, þ.m.t. þeim málsástæðum sem hann beri fyrir sig.

Við meðferð málsins óskaði kærunefnd eftir upplýsingum frá Útlendingastofnun vegna kröfu kæranda um dvalarleyfi á grundvelli 75. gr. laga um útlendinga. Samkvæmt upplýsingum frá Útlendingastofnun hafði stofnunin samband við lögregluna á Suðurnesjum og óskaði eftir upplýsingum um hvort kærandi hefði mansalsmál til rannsóknar hjá lögreglunni. Samkvæmt upplýsingum lögreglunnar hafi ekki verið neitt mansalsmál til rannsóknar þar sem kærandi var talinn hugsanlegt fórnarlamb mansals. Hafi því krafa kæranda um dvalarleyfi á grundvelli 75. gr. laga um útlendinga ekki verið tekin til greina í máli hans. Þá virðist ekki hafa verið hlutast frekar til um mál kæranda með tilliti til þess að hann væri hugsanlegur þolandi mansals, t.a.m. með öðru viðtali eða fyrirspurnum til annarra aðila en lögreglunnar á Suðurnesjum. Í hinni kærðu ákvörðun kemur hvergi fram að kærandi hafi krafist dvalarleyfis á grundvelli fyrrgreinds ákvæðis 75. gr. laga um útlendinga né að afstaða hafi verið tekin til þeirrar kröfu. Af gögnum málsins er ljóst að fyrir málsmeðferð kæranda vegna umsóknar hans um alþjóðlega vernd hjá Útlendingastofnun hafi mál hans verið til skoðunar hjá lögregluyfirvöldum og hjá Útlendingastofnun hvað fyrrgreint varðar. Má því ráða að grunur hafi leikið á því að kærandi hafi verið hugsanlegur þolandi mansals í skilningi fyrrgreinds ákvæðis.

Að framangreindu virtu er það mat kærunefndar að tilefni hefði verið til að fjalla um þrautavarakröfu kæranda í ákvörðun Útlendingastofnunar og skera úr um hvort kærandi ætti rétt á dvalarleyfi á grundvelli fyrrgreinds ákvæðis 75. gr. laga um útlendinga. Hefur kærunefnd í því sambandi hliðsjón af fyrrgreindum athugasemdum við ákvæðið í frumvarpi til laga um útlendinga, en þar kemur fram að ekki sé skilyrði að lögreglurannsókn hafi farið fram í því máli sem um ræði þegar ákvörðun sé tekin um dvalarleyfi á grundvelli ákvæðisins. Af athugasemdunum má ráða að skylda til rannsóknar á því, hvort útlendingur eigi rétt á dvalarleyfi á grundvelli ákvæðisins, hvíli á Útlendingastofnun. Þó beri lögreglu skylda til að veita stofnuninni aðstoð, t.d. við mat á aðstæðum viðkomandi.

Meginmarkmið stjórnsýslukæru er að tryggja réttaröryggi borgara með því að gera þeim kleift að fá umfjöllun um mál sín á tveimur stjórnsýslustigum. Telur kærunefnd að annmarkar hafi verið á rannsókn Útlendingastofnunar í máli kæranda þar sem ekki hafi farið fram viðhlítandi rannsókn í tengslum við kröfu hans um dvalarleyfi á grundvelli 75. gr. laga um útlendinga, sem ekki sé unnt að bæta úr með frekari rannsókn æðra stjórnvalds. Með vísan til þess sem að framan hefur verið rakið er það niðurstaða kærunefndar að fella beri hina kærðu ákvörðun úr gildi. Lagt er fyrir Útlendingastofnun að taka umsókn kæranda um alþjóðlega vernd til nýrrar meðferðar.

 

Úrskurðarorð

Ákvörðun Útlendingastofnunar er felld úr gildi. Lagt er fyrir Útlendingastofnun að taka mál kæranda til meðferðar á ný.

The decision of the Directorate of Immigration is vacated. The Directorate is instructed to re-examine the case.

 

Jóna Aðalheiður Pálmadóttir

Bjarnveig Eiríksdóttir                              Þorbjörg Inga Jónsdóttir


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta