Hoppa yfir valmynd

Úrskurður nr. 64 - Uppbót/styrkur til bifreiðakaupa

A


gegn


Tryggingastofnun ríkisins


Ú r s k u r ð u r.


Mál þetta úrskurðuðu Friðjón Örn Friðjónsson, hrl., Guðmundur Sigurðsson, læknir og Þuríður Árnadóttir, lögfræðingur.


Með bréfi dags. 22. febrúar 2006 kærir A til úrskurðarnefndar almannatrygginga samþykkta fjárhæð uppbótar vegna bifreiðakaupa.


Óskað er endurskoðunar.


Málavextir eru þeir samkvæmt málsgögnum að með umsókn dags. 30. desember 2005 sótti kærandi um uppbót/styrk vegna bifreiðakaupa. Með bréfi dags. 30. janúar 2006 var henni tilkynnt að samþykkt hefði verið uppbót að fjárhæð kr. 250.000.


Í rökstuðningi fyrir kæru segir:


Skv. hjálögðu bréfi dags. 7. maí 2003. var umsókn mín um uppbót vegna kaupa á bifreið samþykkt. Uppbótin var 500.000. kr. og átti að gilda til 31. febrúar! 2004 að uppfylltum skilyrðum. Vegna ýmissa persónlegra ástæðna gat ég ekki séð mér fært að taka við uppbótinni. Í árslok það ár sá ég mér fært að taka við uppbótinni, en frestur var liðinn. Við endurnýjum umsóknar var mér úthlutað lægri upphæð 250.000. kr. - en þá einhverja hluta vegna hafði uppbótin verið lækkuð um 250.000. kr. B heimilislæknir minn sendi inn athugasemdir við þá úthlutun, en ekkert svar hefur borist við því bréfi.


Í þriðja sinn sótti ég um og - aftur sömu uppbót úthlutað 250.000. kr. Vil ég með þessari kæru ítreka mína upphaflegu umsókn sem samþykkt var í bréfi þann 7. maí 2003. að fjárhæð 500.000. kr. Umsókn um styrk að fjárhæð kr. 1.000.000. kannast ég ekki við að hafa beðið um, heldur einungis hinna upphaflegu fjárhæð kr. 500.000 sem úthlutað var og ég gat ekki notfært mér á þeim tíma.


Bið ég því yður um að endurskoða úthlutun styrksins og að hinn upphaflega úthlutun kr. 500.000. fái að gilda.“


Úrskurðarnefndin óskaði greinargerðar Tryggingastofnunar með bréfi dags. 27. febrúar 2006. Barst greinargerð dags. 23. mars 2006. Þar segir:


„Í kæru er farið fram á hærri uppbót vegna bifreiðakaupa í stað lægri uppbótar, þ.e. 500.000 kr. uppbót í stað 250.000 kr. uppbótar sem samþykkt hefur verið á þeim grundvelli að á árinu 2003 hafi verið samþykkt 500.000 kr. uppbót sem féll niður þar sem ekki var tekið við henni innan tilskilins frests.


Í l. og 4. mgr. 4. gr. reglugerðar nr. 752/2002 um styrki og uppbætur Tryggingastofnunar ríkisins til hreyfihamlaðra einstaklinga vegna bifreiða, sbr. 2. gr. rg. 462/2004, sem sett er með stoð í 1. mgr. 11. gr. og 2. mgr. 15. gr. laga um félagslega aðstoð nr. 118/1993 segir:

“Fjárhæðir uppbóta eru eftirfarandi:

1. Kr. 250.000 til þeirra sem uppfylla ofangreind skilyrði og eru minna hreyfihamlaðir en þeir sem getið er um í 5. gr.

2. Kr. 500.000 til þeirra sem uppfylla ofangreind skilyrði, eru minna hreyfihamlaðir en þeir sem getið er um í 5. gr. og eru að [kaupa bifreið] í fyrsta sinn.


Kærandi uppfyllir ekki það skilyrði 2. tl. 4. mgr. 4. gr. reglugerðar 752/2002, sbr. a.-lið 2. gr. reglugerðar 462/2004, að hún sé að kaupa bifreið í fyrsta sinn. Áður en ákvæðinu var breytt með reglugerð 462/2004 var skilyrðið fyrir 500.000 kr. uppbót að viðkomandi væri að fá uppbót í fyrsta sinn. Skilyrði fyrir hærri uppbótinni voru þannig uppfyllt á árinu 2003 en eru það ekki á árinu 2006. Heimild til að endurskoða upphæð uppbótarinnar er því ekki fyrir hendi.“


Greinargerðin var send kæranda til kynningar með bréfi dags. 24. mars 2006 og var henni gefinn kostur á að koma að athugasemdum og/eða viðbótargögnum. Slíkt hefur ekki borist.



Niðurstaða úrskurðarnefndar:


Mál þetta varðar fjárhæð uppbótar á lífeyri vegna kaupa á bifreið. Kæranda var úthlutað uppbót að fjárhæð kr. 250.000, sbr. bréf Tryggingastofnunar til kæranda dags. 30. janúar 2006. Kærandi hafði áður sótt um uppbót og fékk þá samþykkta uppbót að fjárhæð kr. 500.000, sbr. bréf Tryggingastofnunar til hennar dags. 7. maí 2003 sem hún gat svo ekki nýtt sér.


Í rökstuðningi fyrir kæru kemur fram að kærandi hafi vegna ýmissa persónulegra ástæðna ekki séð sér fært að taka við uppbót sem samþykkt var henni til handa á árinu 2003. Hún hafi sótt aftur um uppbót og hafi þá eingöngu fengið samþykkta uppbót að fjárhæð kr. 250.000. Fer hún fram á að úthlutun frá árinu 2003 fái að gilda.


Í greinargerð Tryggingastofnunar segir að uppbót sem samþykkt hafi verið til kæranda á árinu 2003 hafi fallið niður þar sem ekki hafi verið tekið við henni innan tilskilins frests. Kærandi hafi svo sótt aftur um uppbót en þá hafi hún ekki uppfyllt skilyrði uppbótar að fjárhæð kr. 500.000 heldur eingöngu kr. 250.000 vegna breytingar á reglugerð nr. 752/2002 með reglugerð nr. 462/2004. Skilyrði þess að fá uppbót að fjárhæð kr. 500.000 hafi á árinu 2003 verið að viðkomandi væri að fá uppbót í fyrsta sinn en með þeirri breytingu sem hafi verið gerð með reglugerð nr. 462/2004 sé skilyrði hærri uppbótar að viðkomandi sé að kaupa bifreið í fyrsta sinn.


Lagaheimild fyrir veitingu uppbótar til kaupa á bifreið sem bótaþega er nauðsynlegt að hafa vegna hreyfihömlunar ef sýnt er að bótaþegi kemst ekki af án uppbótarinnar er í 1. mgr. 11. gr. laga nr. 118/1993.


Með stoð í 3. mgr. 33. gr. laga nr. 117/1993 og 2. mgr. 15. gr. laga nr. 118/1993 hefur ráðherra sett reglugerð nr. 752/2002 um styrki og uppbætur Tryggingastofnunar ríkisins til hreyfihamlaðra einstaklinga vegna bifreiða. Reglugerðinni hefur tvívegis verið breytt, með reglugerðum nr. 109/2003 og 462/2004.


Fjárhæðir uppbóta á lífeyri vegna bifreiðakaupa eru tvær samkvæmt tilvitnaðri reglugerð. Annars vegar kr. 250.000 og hins vegar kr. 500.000 til þeirra sem eru að kaupa bifreið í fyrsta sinn.


Áðurnefnd reglugerð nr. 462/2004 um breytingu á reglugerð nr. 752/2002, sbr. reglugerð nr. 109/2003, tók gildi 1. júní 2004. Breytingin hafði því tekið gildi þegar kærandi sótti um uppbót með umsókn dags. 30. desember 2005. Kærandi nýtti sér ekki samþykkta uppbót á árinu 2003 innan tilskilins frests og féll hún því niður. Getur sú ákvörðun ekki raknað við þegar kærandi leggur fram umsókn á ný árið 2005. Við afgreiðslu umsóknar kæranda sem barst Tryggingastofnun 30. desember 2005 bar að leggja til grundvallar gildandi rétt á þeim tíma eins og gert var. Afgreiðsla Tryggingastofnunar er því staðfest.


Ú R S K U R Ð A R O R Ð:


Afgreiðsla Tryggingastofnunar ríkisins frá 30. janúar 2006 á umsókn A um uppbót vegna bifreiðakaupa er staðfest.


F.h. úrskurðarnefndar almannatrygginga


_____________________________________

Friðjón Örn Friðjónsson,

formaður




Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta