Hoppa yfir valmynd

Úrskurður nr. 72 - Ofgreiddar bætur

A


gegn


Tryggingastofnun ríkisins



Ú r s k u r ð u r.


Mál þetta úrskurðuðu Friðjón Örn Friðjónsson, hrl., Guðmundur Sigurðsson, læknir og Þuríður Árnadóttir, lögfræðingur.


Með bréfi dags. 16. febrúar 2006 til úrskurðarnefndar almannatrygginga kærir A endurkröfu Tryggingastofnunar ríkisins vegna ofgreiddra bóta ársins 2004.


Óskað er endurskoðunar.


Málavextir eru þeir samkvæmt málsgögnum að með bréfi dags. 18. janúar 2006 var kæranda tilkynnt að þar sem ekki hefðu borist athugasemdir við endurreikning Tryggingastofnunar ríkisins á bótum ársins 2004 stæði áður kynnt niðurstaða endurreiknings sem uppgjör bóta ársins 2004. Samkvæmt bréfi Tryggingastofnunar voru bætur til kæranda ofgreiddar sem nam kr. 292.838 en að frádreginni staðgreiðslu skatta er krafa Tryggingastofnunar kr. 182.355.

Í rökstuðningi fyrir kæru segir m.a.:


„Ég undirritaður sendi inn kæru með bréfi þessu vegan álagningar sem ég fékk vegan ársins 2004. Málsvik eru þau að ég varð öryrki 2003 og ég er með psoriasis gigt í öllum liðum líkamans og helst ætti ég að búa í heitari löndum að sögn lækna en ég er ekki svo vel stæður að geta það en ég taldi mig vera svo lánsaman sumarið 2004 að hafa áður en ég féll út af vinnumarkaðinum að hafa lagt í séreignar sjóð, og ég skv. læknisráði keypti mér heitan pott til þess að geta notað vegna verkja í skrokknum, þegar ég fjármagnaði hann þá tók ég út þennan séreignarsjóð sem á nú að taka af mér nú 2 árum seinna. Ég sendi ykkur ljósrit af þeirri upphæð sem ég fékk þá út og nú þarf ég að greiða hana til baka til ykkar. Ráðið sem mér dettur í hug er að selja pottinn aftur en hvað þá með verkina og stirðleikan hjá mér? Því fer ég fram á að þessi upphæð sem ég fékk frá séreignarsjóði mínum fái að vera minn áfram og að ég þurfi ekki að greiða hana til baka. Ég sendi ekki inn mótmæli í haust því að í öllum fréttum var talað um að þettað yrði fellt niður þessi eftirá greiðsla hjá okkur öryrkjum en í dag verð ég bara að senda þetta bréf til ykkar með von um góðar undirtektir.“


Úrskurðarnefndin óskaði með bréfi dags. 6. mars 2006 eftir greinargerð Trygginga­stofnunar. Greinargerðin er dags. 16. mars 2006. Þar segir m.a.:


„Kærð er endurkrafa ofgreiddra bóta til A, en krafan myndaðist við endurreikning tekjutengdra bóta til hans vegna ársins 2004.


Í 10. gr. laga um almannatryggingar nr. 117/1993 (atl.) er kveðið á um tilhögun útreiknings tekjutengdra bóta. Í 2. mgr. er tilgreint hvað teljist til tekna við bótaútreikning. Samkvæmt 5. mgr. skal leggja 1/12 hluta af áætluðum tekjum bótagreiðsluársins til grundvallar bótaútreikningi hvers mánaðar. Bótagreiðsluár er almanaksár. Þegar endanlegar upplýsingar um tekjur bótagreiðsluársins liggja fyrir við álagningu skattyfirvalda á opinberum gjöldum skal Tryggingastofnun ríkisins endurreikna bótafjárhæðir á grundvelli tekna lífeyrisþega og eftir atvikum maka hans. Komi í ljós að bætur hafi verið vangreiddar skal bótaþega greitt það sem uppá vantar. Hafi tekjutengdar bætur verið ofgreiddar skal um innheimtu fara skv. 50. gr. atl.


Meginástæða þess að endurkrafa myndast í uppgjöri er sú að þegar samkeyrsla við tekjuupplýsingar af skattframtali 2005 vegna tekjuársins 2004 hafði farið fram kom í ljós að lífeyrissjóðstekjur kæranda á árinu 2004 reyndust nokkuð hærri en tekjuáætlun vegna 2004 gerði ráð fyrir, og hafði kærandi ekki tilkynnt Tryggingastofnun um þær tekjur. Jafnframt reyndust launatekjur maka kæranda nokkuð hærri en tilgreint var í tekjuáætlun vegna ársins 2004.


Samkvæmt 2. mgr. 47. gr. atl. er umsækjanda og bótaþega skylt að veita Tryggingastofnun allar nauðsynlegar upplýsingar til að hægt sé að taka ákvörðun um bótarétt, fjárhæð og greiðslu bóta og endurskoðun þeirra. Að sama skapi er bótaþega skylt að tilkynna Tryggingastofnun um breytingar sem verða á tekjum hans á yfirstandandi tekjuári. Á umsóknareyðublaði um bætur, svo og á eyðublöðum fyrir tekjuyfirlýsingar, er texti sem umsækjendur og lífeyrisþegar undirrita, þar sem þeir ábyrgjast að láta Tryggingastofnun vita ef breytingar verða á tekjum þeirra.


Í þessu ákvæði felst rík skylda lífeyrisþega að vera vakandi fyrir því að tekjuforsendur bótaútreiknings séu réttar á hverjum tíma og gera viðvart ef svo er ekki. Aftur á móti er einungis um heimild hjá Tryggingastofnun að ræða til að afla tekjuupplýsinga. Slík heimild verður þess ekki valdandi að firra lífeyrisþega ábyrgð á upplýsingagjöf sinni samkvæmt ákvæðinu.

Til að auðvelda lífeyrisþegum að fylgjast með bótaútreikningi og meta hvort tilkynna þurfi breytingar hóf Tryggingastofnun í apríl 2004 að prenta gildandi tekjuáætlanir á bakhlið útsendra mánaðarlegra greiðslutilkynninga. Eftir það hefði kærandi því mátt sjá að þær tekjuforsendur sem stofnunin lagði til grundvallar voru ekki alfarið réttar. Ekki liggur fyrir að hann hafi gert neinar ráðstafanir til að koma umræddum tekjuupplýsingum á framfæri.


Með vísun til ofanritaðs telur Tryggingastofnun ekki forsendur til að breyta fyrri ákvörðun sinni um innheimtu ofgreiddra bóta til kæranda.“


Greinargerðin var send kæranda til kynningar með bréfi dags. 21. mars 2006 og var gefinn kostur á að koma að athugasemdum og/eða viðbótargögnum. Slíkt hefur ekki borist.



Niðurstaða úrskurðarnefndar:


Mál þetta varðar endurkröfu ofgreiddra bóta ársins 2004. Var nánar tiltekið um að ræða ofgreiðslu tekjutryggingar og orlofs- og desemberuppbóta til kæranda.


Í rökstuðningi fyrir kæru segir að kærandi, sem þjáist af psoriasis gigt, hafi tekið út séreignarsjóð til þess að fjármagna kaup á heitum potti en samkvæmt læknisráði hafi það átt að hafa góð áhrif á líðan hans. Þá fjárhæð sem hann hafi þá tekið út sé hann nú krafinn um tveimur árum seinna. Kærandi nefnir eina ráðið að selja heita pottinn aftur en spyr hvað verði þá um verki og stirðleika sem hann þjáist af. Kærandi óskar eftir niðurfellingu endurkröfunnar.


Í greinargerð Tryggingastofnunar er meginástæða þess að endurkrafa myndaðist á hendur kæranda sögð sú að þegar samkeyrsla við tekjuupplýsingar af skattframtali 2005, vegna tekjuársins 2004, hafi farið fram hafi komið í ljós að lífeyrissjóðstekjur kæranda á árinu 2004 hafi verið nokkuð hærri en tekjuáætlun 2004 gerði ráð fyrir. Kærandi hafi ekki tilkynnt Tryggingastofnun um hækkun tekna. Jafnframt hafi launatekjur maka kæranda reynst nokkuð hærri en tilgreint hafi verið í tekjuáætlun vegna ársins 2004. Kemur einnig fram í greinargerðinni að Tryggingastofnun hafi í apríl 2004 farið að prenta gildandi tekjuáætlanir á bakhlið útsendra mánaðarlegra greiðsluseðla. Eftir það hefði kærandi því mátt sjá að tekjuforsendur sem lagðar voru til grundvallar við greiðslu bóta ársins 2004 hafi ekki verið alfarið réttar. Ennfremur segir að ekki liggi fyrir að kærandi hafi gert ráðstafanir til að koma leiðréttingum á tekjuupplýsingum á framfæri við stofnunina.


Samkvæmt 2. mgr. 47. gr. almannatryggingalaga er umsækjanda og bótaþega skylt að veita Tryggingastofnun allar nauðsynlegar upplýsingar til þess að hægt sé að taka ákvörðun um bótarétt, fjárhæð og greiðslu bóta og endurskoðun þeirra. Tryggingastofnun ríkisins er heimilt að afla upplýsinga um tekjur hjá skattyfirvöldum, Atvinnuleysistryggingastjóði, Vinnumálastofnun og hjá sambærilegum stofnunum erlendis ef við á, svo fremi að samþykki umsækjanda um bætur liggi fyrir. Eingöngu er þó um að ræða heimild stofnunarinnar en útreikningur bóta grundvallast almennt á upplýsingum frá bótaþegum sem þeim ber skylda samkvæmt lögunum að veita.


Í 5. mgr. 10. gr. almannatryggingalaga er mælt fyrir um að þegar endanlegar upplýsingar um tekjur bótagreiðsluárs liggi fyrir, við álagningu skattyfirvalda á opinberum gjöldum, skuli Tryggingastofnun endurreikna bótafjárhæðir á grundvelli tekna. Komi í ljós að tekjutengdar bætur hafi verið ofgreiddar skuli innheimta þær samkvæmt 50. gr. laganna.


Í 1. mgr. 50. gr. almannatryggingalaga kemur fram að hafi Tryggingastofnun ofgreitt bótaþega bætur samkvæmt lögunum skuli stofnunin draga ofgreiddar bætur frá bótum sem bótaþegi síðar kann að öðlast rétt til. Í 2. mgr. 50. gr. er sérregla um tekjutengdar bætur. Þar segir að þær megi eingöngu draga frá bótum sem bótaþegi kunni síðar að öðlast rétt til ef tekjur á ársgrundvelli eru hærri en lagt var til grundvallar við samtímaútreikning og ofgreiðsla stafi af því að bótaþegi hafi ekki tilkynnt Tryggingastofnun um tekjuaukninguna.


Við samtímaútreikning og greiðslu bóta á árinu 2004 var lagt til grundvallar að kærandi hefði tekjur úr lífeyrissjóði að fjárhæð kr. 1.348.152 á árinu og kr. 120.000 af atvinnurekstri. Áætlaðar launatekjur maka voru kr. 1.261.000. Við endurreikning bóta ársins 2004, þegar álagning skattyfirvalda á opinberum gjöldum þess árs lá fyrir, kom í ljós að lífeyrissjóðstekjur námu kr. 1.738.748 og reiknað endurgjald kæranda var kr. 135.000. Launatekjur maka reyndust svo vera samtals kr. 1.672.394 á árinu en á móti voru frádráttarliðir vegna iðgjalds í lífeyrissjóð og viðbótarlífeyrissparnað hærri. Einnig var um að ræða greiðslu atvinnuleysisbóta að fjárhæð kr. 496.347 til maka kæranda. Var því um að ræða nokkuð hærri tekjur kæranda og maka en lagt var til grundvallar við samtímaútreikning og greiðslu bóta á árinu 2004.


Samkvæmt 6. mgr. 17. gr. laga nr. 117/1993 um almannatryggingar skal þegar um er að ræða hjón þar sem annað nýtur örorkulífeyris skerða tekjutryggingu um 45% þeirra tekna sem eru umfram frítekjumörk. Frítekjumörk tekjutryggingar þegar annað hjóna nýtur örorkulífeyris voru kr. 1.137.148 á árinu 2004. Tekjur kæranda og maka voru talsvert umfram þau mörk og skerðist tekjutrygging kæranda um 45% þeirra tekna sem eru umfram frítekjumörk. Grunnfjárhæð tekjutryggingar örorkulífeyrisþega var kr. 512.136 árið 2004. Við endurreikning tekjutryggingar kæranda skal leggja til grundvallar helming samanlagðra tekna hans og maka. Sú fjárhæð er kr. 1.927.471 en tekið skal fram að atvinnutekjur kæranda vega þar einungis 60%, sbr. 2. mgr. 10. gr. almannatryggingalaga. Mismunur á tekjum kæranda og frítekjumarki tekjutryggingar var kr. 790.323 og skal tekjutrygging skerðast um 45% þeirrar fjárhæðar, þ.e. kr. 355.645. Endurreiknuð fjárhæð tekjutryggingar er því kr. 512.136 (grunnfjárhæð) að frádreginni fjárhæð vegna skerðingar tekna, kr. 355.645 sem gerir kr. 156.491. Orlofs- og desemberuppbætur greiðast sem hlutfall af lífeyri en þar koma allar tekjur til skerðingar.


Nefndin hefur farið yfir réttindi kæranda á árinu 2004 og er endurreikningur Tryggingastofnunar á bótum kæranda í samræmi við réttindi hans það ár.


Tekjur kæranda og maka hans reyndust hærri á árinu 2004 en gert hafði verið ráð fyrir við samtímaútreikning og greiðslu bóta og var Tryggingastofnun ekki tilkynnt sérstaklega um þessa hækkun tekna innan ársins. Er því skilyrði 1. og 2. mgr. 50. gr. laga nr. 117/1993 um almannatryggingar, um frádrátt frá bótum sem kærandi öðlast síðar rétt til, uppfyllt.


Með vísan til alls framangreinds er ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um endurkröfu á hendur kæranda staðfest.


Ú R S K U R Ð A R O R Ð:


Endurkrafa Tryggingastofnunar ríkisins, að fjárhæð kr. 182.355 á hendur A, vegna ofgreiddra bóta ársins 2004 er staðfest.



F.h. úrskurðarnefndar almannatrygginga


___________________________________

Friðjón Örn Friðjónsson,

formaður




Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta