Hoppa yfir valmynd

Nr. 60/2020 Úrskurður

KÆRUNEFND ÚTLENDINGAMÁLA

Þann 7. febrúar 2020 er kveðinn upp svohljóðandi

úrskurður nr. 60/2020

í stjórnsýslumáli nr. KNU19110043

Kæra [...]

á ákvörðun

Útlendingastofnunar

 

I. Kröfur, kærufrestir og kæruheimild

Þann 26. nóvember 2019 kærði [...], fd. [...], ríkisborgari [...] (hér eftir nefnd kærandi), ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 31. október 2019, um að synja umsókn hennar um langtímavegabréfsáritun.

Af kæru má ráða að kærandi krefjist þess að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi.

Fyrrgreind ákvörðun er kærð á grundvelli 7. gr. laga um útlendinga nr. 80/2016 og barst kæran fyrir lok kærufrests.

II. Málsatvik og málsmeðferð

Kæranda var veitt vegabréfsáritun til Íslands af norska sendiráðinu í [...] þann 16. maí 2019 og var gildistími áritunar á tímabilinu 3. ágúst 2019 til 15. nóvember s.á. Umboðsmaður kæranda sótti um langtímavegabréfsáritun fyrir hönd kæranda hjá Útlendingastofnun þann 25. september 2019. Með ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 31. október 2019, var umsókn kæranda synjað. Umboðsmanni kæranda var tilkynnt um ákvörðunina þann 12. nóvember 2019 og 26. nóvember s.á. kærði kærandi ákvörðunina til kærunefndar útlendingamála en kæru fylgdi greinargerð.

III. Ákvörðun Útlendingastofnunar

Í ákvörðun sinni vísaði Útlendingastofnun til ákvæðis 1. mgr. 21. gr. laga um útlendinga auk lögskýringargagna með ákvæðinu, en í ákvæðinu væri fjallað um heimild til útgáfu langtímavegabréfsáritunar. Þá kæmi fram í 1. mgr. 4 gr. reglugerðar um útlendinga nr. 540/2017, með síðari breytingum, að umsækjandi um langtímavegabréfsáritun skuli hafa náð 18 ára aldri en umsækjandi yngri en 18 ára gæti fengið slíka áritun í tengslum við áritun foreldris eða forsjármanns. Vísaði Útlendingastofnun til þess að foreldrar kæranda væru handhafar dvalarleyfis hér á landi og væri umsókn hennar um langtímavegabréfsáritun því ekki í tengslum við áritun foreldris. Var umsókn kæranda því synjað. Vísaði Útlendingastofnun til þess útgefin vegabréfsáritun gilti til 15. nóvember 2019 og bæri henni að yfirgefa landið áður en hún rynni út, ella yrði dvöl hennar hér á landi ólögmæt.

IV. Málsástæður og rök kæranda

Í greinargerð umboðsmanns kæranda kemur fram að foreldrar kæranda séu með dvalarleyfi hér á landi. Umsókn kæranda byggi hins vegar á því að hún dvelji meira með ömmu sinni, sem sé búsett hér á landi. Hafi amma kæranda lýst yfir vilja til þess að eyða meiri tíma með henni áður en kærandi snúi aftur til heimaríkis með móður sinni. Loks er vísað til þess að kærandi og móðir hennar hyggist yfirgefa landið þann 27. janúar 2020.

V. Niðurstaða kærunefndar útlendingamála

Samkvæmt 1. mgr. 21. gr. laga um útlendinga má veita langtímavegabréfsáritun þegar umsækjandi óskar eftir dvöl umfram 90 daga en tilgangur dvalar er ekki af ástæðu sem tilgreind er almennt í dvalarleyfisflokkum og ekki er ætlun umsækjanda að setjast að á landinu. Verður vegabréfsáritun samkvæmt ákvæðinu ekki veitt til lengri tíma en 180 daga. Samkvæmt 4. mgr. 21. gr. laganna setur ráðherra reglugerð um nánari framkvæmd langtímavegabréfsáritunar og í hvaða tilvikum er heimilt að gefa út síka áritun. Í reglugerð um útlendinga, með síðari breytingum, hefur ráðherra útfært nánar reglur um langtímavegabréfsáritanir. Samkvæmt 1. mgr. 4. gr. reglugerðarinnar skal útlendingur sem sækir um langtímavegabréfsáritun hafa náð 18 ára aldri en útlendingur yngri en 18 ára getur fengið slíka áritun í tengslum við áritun foreldris eða forsjármanns.

Samkvæmt gögnum málsins fékk kærandi útgefna vegabréfsáritun til Íslands af norska sendiráðinu í [...] þann 16. maí 2019. Gilti áritunin á tímabilinu 3. ágúst 2019 til 15. nóvember s.á. Fyrir liggur að foreldrar kæranda hafa útgefið dvalarleyfi hér á landi á grundvelli náms, sbr. 65. gr. laga um útlendinga. Að framansögðu virtu er ljóst að umsókn kæranda um langtímavegabréfsáritun uppfyllir ekki skilyrði 1. mgr. 4. gr. reglugerðar um útlendinga, um að hún sé í tengslum við áritun foreldris eða forsjármanns. Verður ákvörðun Útlendingastofnunar því staðfest.

 

Úrskurðarorð

Ákvörðun Útlendingastofnunar er staðfest.

The decision of the Directorate of Immigration is affirmed.

 

Fyrir hönd kærunefndar útlendingamála,

 

Hjörtur Bragi Sverrisson, formaður


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta