Hoppa yfir valmynd

Mál nr. 401/2019 - Úrskurður

 

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 401/2019

Miðvikudaginn 22. janúar 2020

A

gegn

Tryggingastofnun ríkisins

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Rakel Þorsteinsdóttir lögfræðingur, Eva Dís Pálmadóttir lögfræðingur og Ásmundur Helgason lögfræðingur.

Með kæru, dags. 20. september 2019, kærði A, til úrskurðarnefndar velferðarmála ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins frá 19. júlí 2019 um að synja umsókn kæranda um 50-60% styrk til bifreiðakaupa.

I.  Málsatvik og málsmeðferð

Kærandi sótti um 50-60% styrk til kaupa á bifreið með umsókn, dags. 5. júlí 2019. Með bréfi Tryggingastofnunar ríkisins, dags. 19. júlí 2019, var umsókn kæranda synjað.

Kæra barst úrskurðarnefnd velferðarmála 25. september 2019. Með bréfi, dagsettu sama dag, óskaði úrskurðarnefnd eftir greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins ásamt gögnum málsins. Með bréfi, dags. 15. október 2019, barst greinargerð frá Tryggingastofnun og var hún send kæranda til kynningar með bréfi úrskurðarnefndar, dagsettu sama dag. Athugasemdir bárust ekki.

II.  Sjónarmið kæranda

Kærandi gerir kröfu um að ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um að synja umsókn hans um styrk vegna bifreiðakaupa verði felld úr gildi og að ákvörðunin verði endurskoðuð.

Í kæru kemur fram að kæranda hafi verið synjað um styrk til kaupa á bifreið. Kærandi hafi fengið alskaða á mænu […] 2018, en fyrir veikindin hafi hann verið hraustur og í fullu starfi. Kærandi sé nú í rafmagnshjólastól og þurfi alla aðstoð við athafnir daglegs lífs. Kærandi bíði á X eftir að fá inni á B í X.

Það sé kæranda mikilvægt að hafa bifreið til að komast í ýmislegt félagsstarf og sjálfboðastarf fyrir utan mikilvægi þess að geta farið heim og átt samveru með fjölskyldunni. Þá eigi hann X þar sem aðgengi sé gott fyrir fatlaða.

Kærandi sé, þrátt fyrir fötlun sína, mjög virkur í félagsstarfi og vilji halda því áfram til að hámarka lífsgæði sín.

III.  Sjónarmið Tryggingastofnunar ríkisins

Í greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins kemur fram að kærð sé synjun á umsókn um styrk samkvæmt 5. gr. reglugerðar nr. 170/2009 um styrki og uppbætur hreyfihamlaðra einstaklinga vegna bifreiða.

Kærandi hafi sótt um styrk samkvæmt 5. gr. reglugerðarinnar vegna kaupa á bifreið þann 5. júlí 2019. Umsókninni hafi verið synjað þar sem ökumaður hafi ekki verið heimilismaður kæranda og Sjúkratryggingar Íslands höfðu ekki samþykkt að veita kæranda hjálpartæki í samræmi við kröfur 5. gr. reglugerðarinnar.

Samkvæmt 1. mgr. 10. gr. laga nr. 99/2007 um félagslega aðstoð sé heimilt að greiða til elli- og örorkulífeyrisþega, örorkustyrkþega og umönnunargreiðsluþega uppbót vegna kaupa á bifreið sem bótaþega sé nauðsyn að hafa vegna hreyfihömlunar ef sýnt sé að bótaþegi geti ekki komist af án uppbótarinnar. Sama gildi um rekstur bifreiðar eigi í hlut elli- eða örorkustyrkþegar, sbr. 2. mgr. sömu lagagreinar. Samkvæmt 3. mgr. 10. gr. sé Tryggingastofnun heimilt að greiða styrk til að afla bifreiðar sem nauðsynleg sé vegna þess að líkamsstarfsemi sé hömluð eða líkamshluta vanti.

Sett hafi verið reglugerð nr. 170/2009 um styrki og uppbætur til hreyfihamlaðra einstaklinga vegna bifreiða þar sem 10. gr. laganna sé útfærð nánar. Í 1. mgr. 1. gr. komi fram að markmið reglugerðarinnar sé að auðvelda bótaþegum að sækja um lögbundna styrki og uppbætur ef sýnt þyki að bótaþegi geti ekki komist af án uppbótarinnar. Í 1. mgr. komi jafnframt fram að það sé markmið með styrkjum og uppbótum vegna bifreiða að gera hreyfihömluðum einstaklingum kleift að stunda atvinnu, skóla og sækja reglubundna endurhæfingu eða læknismeðferð.

Í 3. mgr. 1. gr. reglugerðarinnar komi fram að með bifreið í reglugerðinni sé átt við fólksbifreið eða sendibifreið sem ætluð sé til daglegra nota.

Í 2. mgr. 4. gr. reglugerðarinnar komi fram að styrkur vegna kaupa á bifreið megi einungis veita ef hinn hreyfihamlaði eða heimilismaður hans hafi ökuréttindi. Samkvæmt 1. mgr. 5. gr. reglugerðarinnar gildi skilyrði 4. gr. reglugerðarinnar einnig um styrki sem veittir séu samkvæmt 5. gr.

Tryggingastofnun hafi skoðað gögn málsins, bæði þau sem hafi legið fyrir við afgreiðslu málsins hjá stofnuninni og þau sem hafi borist með kæru. Ekki sé deilt um hreyfihömlun kæranda í þessu máli.

Í 1. gr. reglugerðar nr. 170/2009 komi fram að Tryggingastofnun sé heimilt að greiða styrki og uppbætur samkvæmt reglugerðinni, að uppfylltum tilteknum skilyrðum. Það sé ljóst að kærandi uppfylli ekki ákveðin skilyrði reglugerðarinnar.

Hinn hreyfihamlaði eða heimilismaður hans þurfi að hafa ökuskírteini til þess að hægt sé að greiða styrk vegna bifreiðakaupa samkvæmt 5. gr. reglugerðarinnar.

Í umsókn kæranda komi fram að hann keyri ekki sjálfur. Skráður ökumaður sé C, en hún sé skráð til heimilis á X. Kærandi dvelji núna til langs tíma á sjúkrastofnun og teljist því ekki lengur heimilismaður C samkvæmt reglugerð nr. 170/2009. 

Núgildandi reglugerð um styrki og uppbætur til hreyfihamlaðra einstaklinga vegna bifreiða hafi tekið gildi árið 2009 og hafi tekið við af eldri reglugerð um styrki og uppbætur Tryggingastofnunar ríkisins til hreyfihamlaðra vegna bifreiða nr. 752/2002, með síðari breytingum.

Með þeirri reglugerð hafi aðgengi að uppbótum og styrkjum verið rýmkað verulega frá því sem áður hafi verið. Í eldri reglugerð hafi eins og nú verið skilyrði fyrir veitingu uppbótar vegna bifreiðakaupa og reksturs bifreiðar að umsækjandi eða heimilismaður hans hefðu ökuréttindi. Fyrir veitingu styrkja vegna bifreiðakaupa hafi hins vegar verið strangari skilyrði en í þeim tilvikum hafi umsækjandi sjálfur þurft að hafa ökuréttindi. Núna séu því gerðar sömu kröfur til ökuréttinda umsækjanda og heimilismanns hans hvort sem um sé að ræða uppbætur vegna bifreiðakaupa og reksturs bifreiða samkvæmt 2. og 3. gr. eða styrki til bifreiðakaupa samkvæmt 4. eða 5. gr. reglugerðarinnar. Réttur einstaklinga sem, eins og kærandi, sæki um styrk samkvæmt 5. gr. reglugerðar til bifreiðakaupa hafi því verið rýmkaður verulega frá fyrra ástandi.

Miðað við skýrt og afdráttarlaust orðalag ofangreindra ákvæða sé ljóst að kærandi eigi ekki rétt á uppbót/styrk til bifreiðakaupa. Rétt sé að benda á að sú niðurstaða Tryggingastofnunar sé í samræmi við fordæmi úrskurðarnefndar, meðal annars í málum nr. 246 og 247 frá árinu 2009 og einnig úrskurði í málum nr. 53/2010, 310/2013, 93/2014, 66/2015, 262/2015 og 10/2016 en þau mál vörðuðu öll uppbót/styrk vegna bifreiða. Sérstaklega sé vakin athygli á úrskurði nefndarinnar í máli nr. 66/2015.

Einnig sé Tryggingastofnun heimilt að óska eftir áliti Sjúkratrygginga Íslands á þörf umsækjanda fyrir hjálpartæki og bifreið samkvæmt lokamálslið 3. mgr. 5. gr. reglugerðar 170/2009, sbr. breytingareglugerð nr. 997/2015. Samkvæmt upplýsingum Tryggingastofnunar hafi Sjúkratryggingar Íslands ekki samþykkt að veita kæranda hjálpartæki sem miðist við að hægt sé að líta á bifreið sem sérútbúna í skilningi 5. gr. reglugerðar nr. 170/2009.

Á þessum forsendum hafi kæranda verið synjað um styrk til bifreiðakaupa samkvæmt 5. gr. reglugerðar nr. 170/2009.

Að lokum sé rétt að taka fram að markmið með styrkjum og uppbótum vegna bifreiða sé að gera hreyfihömluðum einstaklingum kleift að stunda atvinnu, skóla og sækja reglubundna endurhæfingu eða læknismeðferð.

Kærandi sé nú skráður á heilbrigðisstofnun. Sé gert ráð fyrir að vistin verði til lengri tíma þá óski Tryggingastofnun venjulega eftir upplýsingum um það til hvers notkun bifreiðarinnar sé ætluð svo að hægt sé að meta hvort hún uppfylli skilyrði reglugerðar nr. 170/2009 um styrki og uppbætur til hreyfihamlaðra einstaklinga vegna bifreiða. Í tilfelli kæranda sé ljóst að hann uppfylli ekki önnur skilyrði reglugerðarinnar og sé því ekki talin ástæða til þess að óska eftir frekari upplýsingum frá honum þar að lútandi.

Tryggingastofnun telji ekki ástæðu til að breyta fyrri ákvörðun sinni.

IV.  Niðurstaða

Kærð er ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins, dags. 19. júlí 2019, um að synja kæranda um 50-60% styrk vegna kaupa á bifreið.

Lagaheimild fyrir veitingu uppbótar/styrkja til bifreiðakaupa er að finna í 10. gr. laga nr. 99/2007 um félagslega aðstoð, með síðari breytingum. Í nefndri 10. gr. segir meðal annars svo í 1. og 3. mgr.:

„Heimilt er að greiða til elli- og örorkulífeyrisþega, örorkustyrkþega og umönnunargreiðsluþega uppbót vegna kaupa á bifreið sem bótaþega er nauðsyn að hafa vegna hreyfihömlunar ef sýnt er að bótaþegi geti ekki komist af án uppbótarinnar. Heimilt er að veita uppbót á fimm ára fresti vegna sama einstaklings.

[...]

Heimilt er að greiða styrk til að afla bifreiðar sem nauðsynleg er vegna þess að líkamsstarfsemi er hömluð eða vantar líkamshluta. Heimilt er að veita styrk á fimm ára fresti vegna sama einstaklings. Ráðherra setur reglugerð um greiðslur samkvæmt ákvæði þessu, m.a. um sex mánaða búsetuskilyrði.“

Með stoð í 3. málsl. 3. mgr. nefndrar 10. gr. hefur ráðherra sett reglugerð nr. 170/2009 um styrki og uppbætur til hreyfihamlaðra einstaklinga vegna bifreiða. Samkvæmt 1. mgr. 5. gr. reglugerðarinnar er heimilt að veita styrk til að afla bifreiðar sem nemur allt að 50-60% af kaupverði bifreiðar, þ.e. grunnverði án aukabúnaðar, ef um er að ræða einstakling sem ekki kemst af án sérútbúinnar og dýrrar bifreiðar vegna mikillar fötlunar. Þá segir að heimildin eigi þó einungis við þegar umsækjandi uppfylli skilyrði 4. gr. reglugerðarinnar. Skilyrði 2. mgr. 4. gr. reglugerðarinnar hljóða svo:

„Styrkur skal vera kr. 1.440.000 og skal eingöngu veittur þegar eftirfarandi skilyrði eru uppfyllt:

1. Hinn hreyfihamlaði hefur sjálfur ökuréttindi eða annar heimilismaður. […]

2. Nauðsyn á bifreið vegna hreyfihömlunar er ótvíræð og mat á hreyfihömlun liggur fyrir.

3. Einstaklingur er verulega hreyfihamlaður og er t.d. bundinn hjólastól og/eða notar tvær hækjur að staðaldri.

4. Mat á ökuhæfni liggur fyrir.

5. Hinn hreyfihamlaði er sjúkratryggður hér á landi, sbr. 10. gr. laga nr. 112/2008 um sjúkratryggingar.“

Ágreiningur málsins lýtur meðal annars að því hvort kærandi uppfylli fyrrgreint skilyrði 1. tölul. 2. mgr. 4. gr. reglugerðar nr. 170/2009 um að ökumaður kæranda sé heimilismaður hans. Í umsókn kæranda er greint frá því að C sé ökumaður kæranda. Samkvæmt því sem fram kemur í kæru og greinargerð Tryggingastofnunar dvelur kærandi á X og bíður eftir vistun á B. Ljóst er að kærandi uppfyllir þar af leiðandi ekki skilyrði 1. tölul. 2. mgr. 4. gr. reglugerðar nr. 170/2009 um að ökumaður kæranda sé heimilismaður hans. Úrskurðarnefnd velferðarmála telur skilyrðið um að ökumaður sé heimilismaður sé málefnalegt, enda sé nauðsynlegt að tryggja að bifreiðin sé einungis nýtt í þágu bótaþegans. Þegar af þeirri ástæðu er ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins frá 19. júlí 2019 um að synja kæranda um 50-60% styrk til bifreiðakaupa staðfest.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um að synja A, um 50-60% styrk vegna kaupa á bifreið, er staðfest.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

Rakel Þorsteinsdóttir

 

 

 

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta