Hoppa yfir valmynd

Mál nr. 5/2011. Úrskurður kærunefndar útboðsmála:

Úrskurður kærunefndar útboðsmála 18. maí 2011

í máli nr. 5/2011:

Aircool á Íslandi ehf.

gegn

Ríkiskaupum

Með bréfi, dags. 2. mars 2011, kærir Aircool á Íslandi ehf. val á tilboði í lokuðu útboði kærða, Ríkiskaupa, nr. 14934 – Tölvukælar fyrir Varnarmálastofnun. Kærandi gerir eftirfarandi kröfur í málinu:

„1. Krafa um að ákvörðun kærða verði felld úr gildi eða breytt.

2. Beiðni um álit á skaðabótaskyldu kaupanda.“

       Kærði skilaði greinargerð í kærumálinu, dags. 6. apríl 2011. Hann krefst þess að kröfum kæranda verði hafnað. Jafnframt er gerð krafa um að kæranda verði gert að greiða málskostnað með vísan til 3. mgr. 97. gr. laga nr. 84/2007 um opinber innkaup. Kærunefnd útboðsmála bárust frekari athugasemdir frá kæranda 27. apríl 2011.

 

I.

Kærði óskaði fyrir hönd Varnarmálastofnunar í nóvember 2010 eftir tilboðum í endurnýjun á hluta búnaðar í tveimur kælikerfum stofnunarinnar. Um var að ræða lokað útboð að undangengnu forvali. Kærandi var á meðal fjögurra þátttakenda, en þrír skiluðu tilboðum. Í útboðslýsingu kom fram að kærði áskildi sér rétt til að taka lægsta boði eða hafna öllum. Þá myndi verð vega 100 stig við mat á tilboðum og val á samningsaðila.

Tilboð voru opnuð 28. desember 2010. Við opnun tilboða kom í ljós að Rafstjórn ehf. átti lægsta boðið, en tilboð kæranda kom þar á eftir.

      

II.

Kærandi telur að tilboðið sem kærði hafi gengið að í framangreindu útboði hafi ekki uppfyllt skilyrði þess. Í útboðinu hafi verið gerð ófrávíkjanleg krafa um að kælarnir yrðu útbúnir hljódeyfi, sbr. gr. 2.2.1 í útboðsgögnum. Telur kærandi að tilboð Rafstjórnar ehf., sem kærði valdi, hafi ekki uppfyllt kröfu um að allir kælarnir yrðu útbúnir hljóðdeyfi. Bendir hann á að í tækjalista Rafstjórnar ehf. hafi komið fram að sum tækjanna væru búin hljóðdeyfi í loftinntaki til að mæta kröfum um hljóðstig. Í tilboði kæranda hefði aðeins þurft hljóðdeyfa á tvö kælitæki af tólf til að vera innan marka um hljóðstyrk. Þar af leiðandi hafi hin tækin tíu verið undir hljóðmörkum án hljóðdeyfis. Kærandi hafi hins vegar skilið útboðsgögnin svo að það væri ófrávíkjanleg krafa að útvega hljóðdeyfa á öll kælitækin tólf. Því hafi kærandi útvegað hljóðdeyfa á öll tækin jafnvel þótt þess hafi ekki þurft. Lægstbjóðandi hafi ákveðið þvert á kröfur útboðs að setja einungis hljóðdeyfa á þau kælitæki sem voru yfir hljóðmörkum án hljóðdeyfis. Kærandi leggur áherslu á að kostnaður við hljóðdeyfana hafi verið umtalsverður hluti af innkaupsverði tækjanna og skipti milljónum króna með flutningskostnaði og vinnu við að koma búnaðinum fyrir.

       Kærandi telur að ekki sé annað að sjá en að farið hafi verið á svig við skilyrtar kröfur útboðs um hljóðdeyfa. Telur hann að þar með hafi þátttakendum í útboði verið mismunað.

       Í síðari athugasemdum kæranda vísar hann til greinargerðar kærða og bendir á að ólíklegt sé að tæknimaður kærða, sem jafnframt skrifi útboðsgögnin, hafi miskilið gögnin með tilliti til þess hvaða búnaðar sé óskað. Þá hafi kærandi heldur ekki verið upplýstur um að mistök hefðu átt sér stað við yfirferð tilboða sem hefðu leitt til þess að kærandi hafi fengið rangan tækjalista sendan. Bendir kærandi á að hafi hljóðdeyfar fylgt öllum kælum í upphaflegu tilboði lægstbjóðanda væri einfaldast að taka af allan vafa um það með birtingu upphaflega tækjalistans. Að mati kæranda dugi ekki að vísa til þess að bjóðandi staðfesti að hann uppfylli öll skilyrði við undirritun útboðs og komi svo með staðfestingar eftir á um það að hljóðdeyfar, sem óskað hafi verið eftir, séu innifaldir í tilboði, eins og gert sé í tilboði Rafstjórnar ehf.

Kærandi leggur áherslu á að tæknimanni beri að fara yfir tilboðin. Reynist öll skilyrði útboðsgagna uppfyllt og tilboðið gilt skuldbindi tilboðsgjafi sig til þess að útvega búnað og annað í samræmi við samþykkt tilboð. Ekki sé heimilt að bæta við búnaði eftir á til þess að uppfylla þarfir útboðs samkvæmt útboðsreglum.

 

III.

Kærði bendir á að við yfirferð tæknilegs ráðgjafa á hinu kærða tilboði hafi komið í ljós að lægsta tilboðið hafi staðist allar kröfur útboðsins. Fyrir mistök hafi tæknimaður, sem fór yfir tilboðin, litið svo á að ekki þyrfti hljóðdeyfi á tvo minnstu kælana. Þetta hafi ekki verið rétt þar sem hljóðdeyfar fylgdu öllum kælunum samkvæmt áskilnaði útboðslýsingar og annað hafi ekki komið fram í tilboði. Kærði leggur áherslu á að þegar hann hafi upplýst kæranda í sérstökum rökstuðningi fyrir vali tilboðs um að ekki væru umræddir hljóðdeyfar á tveimur kælum hafi þær upplýsingar verið byggðar á misskilningi tækniráðgjafa kaupanda, sem yfirfór tæknilýsingu og taldi að þeir ættu ekki að fylgja þar sem þeir hefðu ekki verið tilgreindir sérstaklega í tæknilýsingu framleiðanda sem fylgdi tilboði. Fyrir mistök hafi þessar upplýsingar verið sendar órýndar til kæranda.

       Kærði leggur áherslu á að lægstbjóðandi, Rafstjórn ehf., hafi staðfest að umræddir hljóðdeyfar fylgi enda sé þess krafist í verklýsingu útboðslýsingar. Aldrei hafi annað staðið til en að uppfylla kröfur útboðslýsingar eins og bjóðandi staðfesti á tilboðsblaði með undirritun sinni.

       Kærði bendir á að misskilningur þessi stafi af því að framangreindar rangar upplýsingar hafi verið sendar kæranda áður en viðkomandi verkefnastjóri kærða hafi farið yfir þær. Að mati kærða hefur kæranda ekki tekist að sýna fram á að um brot á lögum nr. 84/2007 hafi verið að ræða.

       Kærði telur að kæran sé með öllu tilhæfulaus. Með vísun til alls framangreinds gerir hann kröfu um að kröfum kæranda verði hafnað. Jafnframt krefst hann þess að kæranda verði gert að greiða málskostnað með tilvísun til 3. mgr. 97. gr. laga nr. 84/2007.

 

IV.

Deila aðila snýr að því hvort tilboð lægstbjóðanda, Rafstjórnar ehf., í útboði kærða nr. 14934 – Tölvukælar fyrir Varnarmálastofnun, hafi verið gilt. Kærandi heldur því fram að í tilboðinu hafi ekki verið gert ráð fyrir að hljóðdeyfar fylgdu öllum kælum eins og áskilið hafi verið í útboðslýsingu. Kærði fullyrðir hins vegar að mistök tæknimanns hafi valdið því að kærandi hafi fengið upplýsingar um að hljóðdeyfar fylgdu aðeins sumum kælanna en ekki öllum. Í reynd hafi í tilboði Rafstjórnar ehf. verið gert ráð fyrir hljóðdeyfum fyrir alla kæla.   

Kærunefnd útboðsmála óskaði eftir að fá afhent tilboð Rafstjórnar ehf. til þess að ganga úr skugga um hvort í tilboðinu hafi verið gert ráð fyrir hljóðdeyfum fyrir alla kæla eða ekki. Kærði varð við þeirri ósk og hefur kærunefnd yfirfarið umrætt tilboð. Ljóst er að Rafstjórn ehf. hefur ekki undanskilið hljóðdeyfa við neitt kælitækjanna. Ekki er unnt að gera Rafstjórn ehf. ábyrgt fyrir mistökum ráðgjafa kærða. Verður því að telja að tilboð félagsins sé gilt og kærða hafi því verið rétt að ganga til samninga við félagið. Verður kröfu kæranda um að ákvörðun kærða verði felld úr gildi eða breytt því hafnað. Í samræmi við framangreint er það mat kærunefndar útboðsmála að kærði sé ekki skaðabótaskyldur gagnvart kæranda.

 

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kæranda, Aircool á Íslandi ehf., um að ákvörðun kærða, Ríkiskaupa, verði felld úr gildi eða breytt.

 

Það er mat kærunefndar útboðsmála að kærði, Ríkiskaup, sé ekki skaðabótaskyldur gagnvart kæranda, Aircool á Íslandi ehf.

 

 

                   Reykjavík, 18. maí 2011.

 

      Páll Sigurðsson,

               Auður Finnbogadóttir,

      Stanley Pálsson

 

Rétt endurrit staðfestir,

 

Reykjavík, 18. maí 2011.

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta