Mál nr. 14/2011. Ákvörðun kærunefndar útboðsmála
Ákvörðun kærunefndar útboðsmála 23. júní 2011
í máli nr. 14/2011:
Park ehf.
gegn
Hafnarfjarðarbæ
Með bréfi, dags. 23. maí 2011, kærir Park ehf. ákvörðun Hafnarfjarðarbæjar um að hafna tilboði kæranda í útboðinu „Vélsópun í Hafnarfirði 2011“ Kærandi gerir eftirfarandi kröfur:
1. Að kærunefnd útboðsmála stöðvi samningsgerð við aðra bjóðendur þar til endanlega hefur verið skorið úr öllum kröfum kæranda, sbr. 1. mgr. 96. gr. laga nr. 84/2007 um opinber innkaup.
2. Að kærunefnd útboðsmála felli úr gildi ákvörðun kærða að hafna tilboði kæranda í tilgreindu útboði, sbr. 1. mgr. 97. gr. laga nr. 84/2007 og að kærða verði gert skylt að ganga til samninga við kæranda sem lægstbjóðanda í útboðinu.
Fallist kærunefnd ekki á kröfur kæranda er þess til vara krafist:
3. Að kærunefnd útboðsmála láti uppi álit sitt á skaðabótaskyldu kærða gagnvart kæranda vegna þeirrar ákvörðunar kærða að semja ekki við kæranda, sbr. 2. mgr. 97. gr. laga nr. 84/2007.
4. Í báðum tilvikum er þess krafist að kærunefnd útboðsmála ákveði að kærði greiði kæranda kostnað við að hafa kæruna uppi, sbr. 3. mgr. 97. gr. laga nr. 84/2007.
Kærða var kynnt kæran og greinargerð kæranda og gefinn kostur á að gera athugasemdir. Sérstaklega var óskað eftir athugasemdum kærða vegna kröfu kæranda um stöðvun samningsgerðar. Athugasemdir kærða bárust kærunefnd útboðsmála 15. júní 2011. Krefst kærði þess að öllum kröfum kæranda verði hafnað. Jafnframt krefst kærði þess að ákvörðun kærða frá 18. maí 2011 um að tilboði kæranda teldist ekki gilt í framangreindu útboði verði staðfest. Í tölvupóstum kærða, dags. 8. og 15. júní 2011, kemur fram að samningur við Hreinsitækni ehf. hafi verið undirritaður 23. maí 2011 og verktaki hafið störf 26. sama mánaðar.
Í þessum hluta málsins tekur kærunefnd útboðsmála til skoðunar hvort rétt þyki að stöðva samningsgerð í tengslum við útboðið. Endanlega verður leyst úr efnisatriðum kærunnar síðar.
I.
Kærði bauð út í maí 2011 vélsópun gatna og gagnstétta í Hafnarfirði. Var samkvæmt útboðslýsingu um að ræða vélsópun gatna, gagnstétta og þvottur eyja með vatnsbíl. Óskað var eftir tilboðum miðað við að gerður yrði samningur til eins, þriggja eða fimm ára. Skyldi tilboð gert í hvern verklið eins og honum var lýst í útboðsgögnum og innifalinn skyldi allur lög- og samningsbundinn kostnaður. Skyldi bjóðandi í tilboði sínu reikna með þeim magntölum sem gefnar voru upp í tilboðsskrá. Tilboð voru opnuð 19. apríl 2011. Kærandi reyndist eiga lægsta tilboðið og kom Hreinsitækni ehf. þar á eftir.
Í kjölfar opnunar tilboða var Verkfræðistofan Mannvit ásamt starfsmanni kærða fengin til að gera úttekt á tækjabúnaði kæranda. Úttektin fór fram 5. maí 2011 og var niðurstaðan sú að tilgreind tæki kæranda uppfylltu ekki lágmarksskilyrði útboðslýsingar. Þar sem tilboð kæranda var ekki talið standast lágmarkskröfur útboðsskilmála varðandi tækjabúnað var honum tilkynnt með bréfi 18. sama mánaðar að tilboð hans teldist ekki gilt og kæmi því ekki til frekari skoðunar.
Framkvæmdaráð kærða samþykkti 23. maí 2011 að ganga til samninga við Hreinsitækni ehf. til eins árs vegna vélsópunar í Hafnarfirði. Samningur var undirritaður sama dag og hóf verktaki vinnu við verkið 26. sama mánaðar.
II.
Kærandi telur að skilyrði gr. 3.0.7. í útboðslýsingu um lágmarksútbúnað götusópa geti ekki talist lögmætur grundvöllur höfnunar tilboðs kæranda. Markmið tæknilegra skilyrða í útboðslýsingu hljóti að vera þau að tæki uppfyllti þær kröfur er þurfi til að framkvæma verkið, það er hreinsun gatna í bæjarfélagi kærða. Tæki kæranda uppfylli að öllu leyti þær kröfur um tækni og afkastagetu sem þurfi til að vinna það verk sem kærði bauð út. Leggur kærandi áherslu á að höfnun kærða á tilboði hans sé því í andstöðu við 40. gr. laga nr. 84/2007.
Kærandi byggir á því að kærða hafi mátt vera ljóst af þeim tæknilegu upplýsingum um tæki er lögð voru fram að kærandi uppfylli þær kröfur um tækni og afkastagetu er þurfi til framkvæmdar verksins. Sú tækni sem tæki kæranda búi yfir sé jafngild því sem krafa hafi verið gerð um í útboðsskilmálum.
Þá byggir kærandi ennfremur á því að umrædd skilyrði séu andstæð 2. mgr. 40. gr. laga nr. 84/2007, enda leiði þau til óeðlilegra hindrana á samkeppni. Tæknikröfur sem settar séu fram í útboðsskilmálum kærða séu ekki málefnalegar, enda augljóslega ekki á því byggðar að setja fram þær lágmarkskröfur sem þurfi til að framkvæma verkið, það er hreinsun gatna. Kærandi, sem í tilboði sínu hafi boðið fram tæki sem uppfylli augljóslega kröfur um búnað og afköst er þurfi til að framkvæma verkið enda í notkun í stærsta bæjarfélagi landsins, Reykjavík, sé þannig útilokaður frá verki kærða með ómálefnalegum hætti og jafnræði bjóðenda raskað.
Kærandi leggur áherslu á að hvorugt þeirra fyrirtækja sem einnig hafi tekið þátt í útboði kærða hafi uppfyllt þau fjárhagslegu skilyrði sem gerð séu. Þannig hafi hvorugt fyrirtækjanna uppfyllt kröfur útboðsskilmála um jákvæða eiginfjárstöðu. Brýn rök séu því til þess að kærunefnd stöðvi þegar samningsgerð við aðra bjóðendur þar til endanlega hafi verið skorið úr öllum kröfum kæranda, sbr. 1. mgr. 96. gr. laga nr. 84/2007, þannig að ekki verði af samningsgerð í andstöðu við útboðsskilmála kærða.
III.
Kærði bendir á að gengið hafi verið til samninga við Hreinsitækni ehf. um verkið til eins árs og hafi samningur verið undirritaður 23. maí 2011. Hreinsitækni ehf. hafi síðan hafið verkið 26. sama mánaðar. Nauðsynlegt hafi verið að hefja verkið á þeim tíma og því brýnt að ganga strax frá verksamningi. Kærði telur því ekki unnt að stöðva samningsgerð og leggur áherslu á að ekki sé heimilt að ógilda samninginn, sbr. 1. mgr. 100. gr. laga nr. 84/2007.
IV.
Samkvæmt 1. mgr. 96. gr. laga nr. 84/2007 getur kærunefnd útboðsmála stöðvað innkaupaferli eða gerð samnings, þar til endanlega hefur verið skorið úr kæru, telji nefndin að verulegar líkur séu á því að brotið hafi verið gegn lögunum.
Í 1. mgr. 100. gr. laga nr. 84/2007 segir ennfremur að bindandi samningur, sem komið sé á samkvæmt 76. gr. laganna, verði ekki felldur úr gildi eða honum breytt þótt ákvörðun kaupanda um framkvæmd útboðs eða gerð samnings hafi verið ólögmæt.
Í málinu liggur fyrir að gengið var frá samningi við Hreinsitækni ehf. 23. maí 2011 og hóf verktakinn vinnu þremur dögum síðar. Verður því í samræmi við 1. mgr. 100. gr. laga nr. 84/2007 ekki fallist á kröfu kæranda um að stöðva samningsgerð á grundvelli útboðs kærða, „Vélsópun í Hafnarfirði 2011“ þar til endanlega hefur verið skorið úr öllum kröfum hans.
Ákvörðunarorð:
Hafnað er kröfu kæranda, Park ehf., um stöðvun samningsgerðar á grundvelli útboðs kærða, Hafnarfjarðarbæjar, „Vélsópun í Hafnarfirði 2011“ þar til endanlega hefur verið skorið úr öllum kröfum kæranda.
Reykjavík, 23. júní 2011.
Páll Sigurðsson,
Auður Finnbogadóttir,
Stanley Pálsson
Rétt endurrit staðfestir,
Reykjavík, 23. júní 2011.