Hoppa yfir valmynd

Mál nr. 4/2023 - Úrskurður

Úrskurður kærunefndar jafnréttismála

 

 

A

gegn

Menntasjóði námsmanna

 

Ráðning. Mismunun á grundvelli fötlunar. Ekki fallist á brot.

A, sem er með fötlun, kærði ákvarðanir M um ráðningar í störf ráðgjafa. Ekki var fallist á að A hefði leitt líkur að því að henni hefði verið mismunað á grundvelli fötlunar, sbr. 1. mgr. 8. gr., sbr. 1. mgr. 1. gr., laga nr. 86/2018, um jafna meðferð á vinnumarkaði. Var því ekki fallist á að M hefði gerst brotlegur við lög nr. 86/2018.

  1. Á fundi kærunefndar jafnréttismála 23. september 2024 er tekið fyrir mál nr. 4/2023 og kveðinn upp svohljóðandi úrskurður:
  2. Með kæru, dags. 16. mars 2023, kærði A ákvörðun Menntasjóðs námsmanna um að ráða tvær konur í starf ráðgjafa. Kærandi telur að með þessu hafi kærði brotið gegn lögum nr. 86/2018, um jafna meðferð á vinnumarkaði. Gerir kærandi kröfu um að kærði greiði henni málskostnað við að hafa kæruna uppi, sbr. 4. mgr. 8. gr. laga nr. 151/2020, um stjórnsýslu jafnréttismála.
  3. Kæran ásamt fylgigögnum var kynnt kærða með bréfi, dags. 20. mars 2023. Greinar­gerð kærða barst með bréfi, dags. 11. maí s.á., en fylgigögn bárust 16. og 26. s.m., og var hún kynnt kæranda með bréfi kærunefndar 1. júní 2023. Athugasemdir kæranda eru dags. 4. júlí 2023 og athugasemdir kærða dags. 21. ágúst s.á.

     

    MÁLAVEXTIR

     

  4. Kærði auglýsti eftir ráðgjafa á vefsíðum og í dagblöðum 12. ágúst 2022 með umsóknar­fresti til 30. ágúst 2022. Í auglýsingu kom m.a. fram að óskað væri eftir jákvæðum og drífandi einstaklingi í starf ráðgjafa. Í starfinu fælist ráðgjöf og þjónusta við námsmenn og greiðendur námslána, úrvinnsla gagna við afgreiðslu námslána og afborgana ásamt ýmsum öðrum verkefnum tengdum veitingu námslána og innheimtu. Helstu verkefni voru tiltekin sem samskipti og upplýsingagjöf til námsmanna og greiðenda, mat á umsóknum um undanþágur frá afborgun, veiting námslána, þ.m.t. mat á aðstæðum námsmanns, lánshæfi náms, einingaskilum, tekjum og skólagjöldum, mat á rétti til námsstyrks við námslok og innheimta námslána og almenn upplýsingagjöf varðandi afborganir og greiðsluleiðir. Hæfniskröfur voru tilgreindar sem háskólapróf sem nýttist í starfi en reynsla sem nýttist í starfi væri kostur. Gerð var krafa um góða tölvu­kunnáttu og íslensku- og enskukunnáttu en kunnátta í öðrum tungumálum væri kostur. Þá var gerð krafa um frumkvæði, sjálfstæði og öguð vinnubrögð, jákvætt viðmót, góða samskiptafærni, samstarfsvilja og álagsþol.
  5. Alls bárust 35 umsóknir um starfið en tveir umsækjendur drógu umsókn sína til baka. Fjórir umsækjendanna voru boðaðir í viðtal en kærandi var ekki þar á meðal. Tilkynnt var um ráðningu í störfin tvö 3. október 2022.
  6. Kærandi óskaði eftir rökstuðningi 4. október 2022 og var hann veittur með bréfi, dags. 25. s.m. Þá óskaði hún eftir afriti af gögnum málsins 10. nóvember 2022 sem bárust henni 5. desember 2022.

     

    SJÓNARMIÐ KÆRANDA

     

  7. Kærandi telur að ákvörðun kærða um að ráða tvo ráðgjafa feli í sér beina mismunun á grundvelli fötlunar, sbr. 1. mgr. 8. gr., sbr. 1. mgr. 1. gr., laga nr. 86/2018, um jafna meðferð á vinnumarkaði. Heldur kærandi því fram að henni hafi verið mismunað við mat á menntun, starfsreynslu og fleiri þáttum.
  8. Kærandi tekur fram að samkvæmt töflu sem sýnir stigagjöf valnefndar hafi 34 umsækjendum verið gefin stig á bilinu 1–5 fyrir þrjá matsþætti en ekki liggi fyrir af hverju matið hafi einskorðast við þessa matsþætti. Bendir kærandi á að hvorki í gögnum né rökstuðningi liggi neitt fyrir um spurningar úr viðtölum né um viðtalsramma. Þannig virðist engin skráning hafa farið fram í viðtölunum. Hafi skráning því ekki verið í samræmi við 27. gr. upplýsingalaga nr. 140/2012 og geti frammistaða í viðtölum því ekki haft þýðingu í málinu.
  9. Kærandi bendir á að umsókn annarrar konunnar sem fékk starfið sé dags. 5. september 2022 en umsóknarfrestur samkvæmt auglýsingu hafi runnið út 30. ágúst 2022. Liggi ekkert fyrir um að umsóknarfrestur hafi verið framlengdur en ekki sé heimilt að taka umsókn til efnislegrar meðferðar hafi hún borist að liðnum auglýstum fresti nema að undangenginni framlengingu frestsins, sbr. álit umboðsmanns Alþingis í máli nr. 2826/1999. Telur kærandi að ráðningarferlið hafi ekki verið í samræmi við lög og hún hafi ekki fengið sanngjarna og óhlutdræga meðferð af hálfu kærða. Jafnframt telur hún að við meðferð málsins hafi vísvitandi verið gert lítið úr hæfni hennar, menntun og reynslu, en að sama skapi meira úr reynslu þeirra sem voru ráðnar á ákveðnum sviðum. Telur kærandi ljóst að hún hafi meiri menntun og fjölbreyttari starfsreynslu og sé því hæfari en þær til að gegna umræddu starfi. Þá hafi ekki verið samræmi í stigagjöf valnefndar þegar bornar eru saman niðurstöður í matstöflu varðandi hana og þá umsækjendur sem voru ráðnar.
  10. Kærandi tekur fram að hún sé með miklu meiri menntun en þær sem voru ráðnar í starfið, auk þess sem þær hafi litla eða enga starfsreynslu á grundvelli menntunar sinnar ólíkt kæranda. Bendir kærandi á að ekkert hafi komið fram um það hvernig lagt var mat á hvaða menntun myndi nýtast í starfinu eða af hverju tiltekin menntun nýttist betur en önnur menntun. Þá beri veitingarvaldshafa að haga mati á menntun umsækjenda í samræmi við þá hæfnisþætti sem koma fram í auglýsingu. Verði í þessu sambandi að hafa í huga að mat stjórnvalds á sjónarmiðum sem það hefur ákveðið að byggja á verði að vera forsvaranlegt. Bendir kærandi sérstaklega á að veitingar­valds­hafi hafi ekki sama svigrúm til mats á hlutlægum þáttum á borð við menntun og við mat á huglægum matsþáttum. Telur kærandi ljóst að hún hafi fengið óhagstæðari með­ferð en þær sem voru ráðnar við mat á menntun og því mismunað með beinum hætti.
  11. Kærandi bendir á að hún sé með mun meiri starfsreynslu en þær sem voru ráðnar. Þá sé starfsreynsla hennar einnig þess eðlis að ljóst megi vera að hún nýtist betur í þeim verkefnum sem starf ráðgjafa hjá kærða felur í sér miðað við auglýsinguna um starfið. Þrátt fyrir þessa löngu, víðtæku og viðeigandi reynslu hafi hún fengið færri stig en konurnar sem voru ráðnar í matstöflu fyrir reynslu sem nýtist í starfi. Engar skýringar á þessari stigagjöf sé að finna í gögnum málsins og telur kærandi því að verulega hafi hallað á sig að ósekju í mati valnefndar. Þar sem hún hafi ekki verið kölluð í viðtal hafi ekki verið lagt frekara mat á starfsreynslu hennar. Telur kærandi því að hún hafi fengið óhagstæðari meðferð en þær sem voru ráðnar við mat á fyrri starfsreynslu og þannig verið mismunað með beinum hætti.
  12. Kærandi bendir á að fram komi í umsóknargögnum að hún hafi nýtt ýmis upplýsinga­kerfi í störfum sínum og eigi auðvelt með að læra á ný kerfi og takast á við nýjungar, afla sér þekkingar og öðlast nýja færni. Telur kærandi ljóst að hún hafi fengið óhag­stæðari meðferð en þær sem voru ráðnar við mat á tölvukunnáttu og því verið mis­munað með beinum hætti.
  13. Kærandi tekur fram að ekki sé fjallað um aðra matsþætti í matstöflu og því liggi ekki fyrir hvernig hún var metin samanborið við þær sem voru ráðnar í þeim. Engar skýringar hafi verið gefnar á því hvers vegna ekki hafi verið fjallað um aðra matsþætti. Telur kærandi að ef lagt hefði verið mat á þessa þætti hjá öllum umsækjendum hefði hún a.m.k. staðið jafnfætis þeim sem voru ráðnar ef ekki framar. Til dæmis komi m.a. fram í umsóknargögnum hennar varðandi tungumálakunnáttu að íslensku­kunnátta og máltilfinning hennar sé góð. Hún sé beðin um yfirlestur skýrslna og skjala og ritrýni texta. Þá hafi hún góða enskukunnáttu eftir áralanga búsetu og nám í Bandaríkjunum. Þá hafi hún einnig numið dönsku, þýsku, ítölsku og frönsku í mennta­skóla.
  14. Kærandi telur að ekki hafi málefnaleg rök legið fyrir því að boða hana ekki í viðtal. Telur kærandi að gögn málsins sýni að matið hafi hvorki verið málefnalegt né for­svaranlegt. Standist stigagjöf valnefndar kærða ekki þegar litið sé til þeirrar menntunar, reynslu og þekkingar sem búi að baki hjá umsækjendum. Engar skýringar liggi fyrir um af hverju kærandi hafi fengið færri stig en þær sem ráðnar voru þrátt fyrir meiri menntun, víðtækari og meira viðeigandi starfsreynslu og þekkingu.
  15. Kærandi telur að hún hafi sýnt fram á að henni hafi verið mismunað á grundvelli fötlunar við ráðningu í starf ráðgjafa hjá kærða enda hafi hún verið hæfari til að gegna starfinu en þær sem voru ráðnar. Verði ekki séð að aðrar ástæður en fötlun kæranda hafi legið til grundvallar ákvörðunum við ráðningarferlið. Hvíli sönnunarbyrðin á kærða að sýna fram á að aðrar ástæður hafi legið henni til grundvallar.
  16. Kærandi gerir athugasemdir við þá afstöðu kærða að við samanburð á starfsumsóknum sjáist að þær sem ráðnar voru í störfin hafi reynslu af „framlínustörfum“ sem hafi fallið betur að þeim hæfniskröfum sem gerðar hafi verið en starfsreynsla kæranda sem hafi aðallega verið bundin við „störf í bakvinnslu“ sem ekki hafi krafist beinna samskipta við viðskiptavini augliti til auglitis.
  17. Kærandi bendir á að almenn viðtöl við viðskiptavini séu aðeins lítið brot af þeim helstu verkefnum/verkþáttum sem fram koma í starfslýsingu. Allir aðrir verkþættir hafi fremur samræmst „bakvinnslustörfum“. Sé það beinlínis í ósamræmi við starfslýsing­una að ljá reynslu af „framlínustörfum“ svo mikið vægi. Þá hafi hvorki komið fram í auglýsingu um starfið að þessum atriðum yrði gefið sérstakt vægi umfram aðra mats­þætti eins og menntun og almenna starfsreynslu né hafi það verið gert í rökstuðningi, auk þess sem ekki hafi verið um að ræða sérstakan matsþátt í matstöflunni. Að auki hafi enginn samanburður farið fram á kæranda og þeim sem voru ráðnar varðandi þetta tiltekna atriði. Þannig verði ekki séð að horft hafi verið til starfa kæranda sem hafi falið í sér mikil samskipti, þjónustu og upplýsingagjöf. Verði því ekki heldur séð að þær hafi staðið kæranda framar að þessu leyti.
  18. Kærandi tekur fram að það sé rangt að ekkert í starfsumsókn hennar hafi bent til þess að hún væri fötluð. Þannig komi fram í ferilskrá hennar að hún hafi tekið þátt í baráttu fatlaðs fólks fyrir jafnri stöðu í samfélaginu með kvennahreyfingunni Tabú, sem sé femínísk baráttuhreyfing fatlaðra kvenna. Á vefsíðu og Facebook-síðu hreyfingarinnar sé að finna fjöldann allan af skrifum og myndum sem sýna fötlun kæranda. Þá þurfi ekki að leggjast í mikla rannsóknarvinnu á leitarvélum til að fötlun kæranda blasi við, enda hafi kærandi verið ötul baráttukona fyrir réttindum fatlaðs fólks á opinberum vettvangi.
  19. Kærandi tekur fram að hún sé ekki biðja um að henni sé gert hærra undir höfði með jákvæðri mismunun. Hún vilji ekki að sérstakt tillit sé tekið til fötlunar hennar, sem eigi hvorki að hafa áhrif á starfsumsókn hennar til hins betra né verra. Kærandi vilji ekki að henni sé mismunað með neikvæðum hætti á grundvelli fötlunar sinnar. Tekur kærandi fram að hún hafi augljóslega verið hæfari umsækjandi en þeir umsækjendur sem voru ráðnir. Í ljósi þess að kærði haldi því fram að ekkert liggi fyrir um að kærandi hafi sætt annarri og óhagstæðari meðferð en aðrir umsækjendur við úrvinnslu umsóknanna sökum fötlunar geti kærandi ekki séð hvað olli þeirri meðferð þar sem ekki verði fallist á að reynsla af „framlínustörfum“ hafi skipt þar sköpum.
  20. Kærandi telur augljóst að kærði hafi vitað af fötlun hennar og að ákvörðunin hafi verið byggð á henni. Hafi kærði ekki vísað í neinar málefnalegar ástæður fyrir því að kæranda hafi ekki verið boðið í viðtal. Telur kærandi það ótækt að fatlaðir einstaklingar þurfi að tilgreina fötlun sína í umsóknargögnum til að eiga það ekki á hættu að vera mismunað á grundvelli hennar. Það sé eins og að fatlaðir einstaklingar þurfi að tilgreina fötlun sína í starfsumsókn til að stjórnvöld eigi erfiðara með að skýla sér á bak við skort á vitneskju um fötlunina þegar þau taka meðvitaða ákvörðun um að ráða umsækjanda sem sé augljóslega minna hæfur en hinn fatlaði einstaklingur. Hið sama sé síðan hægt að segja um langflest þau atriði sem talin séu upp í 1. mgr. 1. gr. laga nr. 86/2018. Einfaldasta leiðin fyrir stjórnvöld til að komast hjá því að mismuna einstaklingum sé að ráða hæfasta einstaklinginn í starfið hverju sinni.
  21. Kærandi bendir á að kærði virðist ganga út frá því að umsækjendur þurfi að tilgreina fötlun sína með skýrum hætti í umsóknargögnum til að tekið verði tillit til hennar við mat á því hvort umsækjendum sé mismunað en ekki að ráðningaraðilar fletti þeim upp sem séu á meðal hæfustu umsækjenda á leitarvélum á internetinu. Telur kærandi að slíkt samræmist varla samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks, t.a.m. reglum um jöfn tækifæri og fulla og árangursríka þátttöku í samfélaginu án aðgreiningar. Það geti seint talist samræmast þessum reglum að fatlaðir einstaklingar þurfi að veita upplýsingar um fötlun sína, sem eru viðkvæmar persónuupplýsingar skv. b-lið 3. tölul. 3. gr. laga nr. 90/2018, um persónuvernd og vinnslu persónuupplýsinga. Veltir kærandi fyrir sér hvort kærði hefði tekið aðra ákvörðun ef kærandi hefði tilgreint fötlun sína með ítarlegri hætti í umsóknargögnum og hvort kærði hefði þá átt erfiðara með að skýla sér á bak við ætlaðan skort á vitneskju um fötlunina.

     

    SJÓNARMIÐ KÆRÐA

     

  22. Kærði telur að kæran samkvæmt efni sínu falli ekki undir valdsvið kærunefndar. Ef talið verði að hún geri það hafnar kærði því að hafa brotið gegn lögum nr. 86/2018, um jafna meðferð á vinnumarkaði, við ákvörðun um að ráða tvo ráðgjafa hjá kærða.
  23. Kærði tekur fram að hlutverk kærunefndar sé að meta hvort ráðning tveggja umsækj­enda í starf ráðgjafa í stað kæranda hafi brotið gegn ákvæðum 8. gr. laga nr. 86/2018 en ekki hvort kærði hafi brotið gegn ákvæðum annarra laga. Slíkt mat eigi undir dóm­stóla. Kemur því ekki til skoðunar fyrir kærunefnd hvort umrædd ráðning hafi brotið gegn meginreglum stjórnsýsluréttar um að ráða skuli hæfasta umsækjandann í opin­bert starf hverju sinni.
  24. Kærði bendir á að samkvæmt skilgreiningu 8. tölul. 3. gr. laga nr. 86/2018 á hugtakinu fötlun sé ljóst að um sé að ræða þátt sem ekki sé auðvelt að greina í starfsumsókn, ólíkt t.d. aldri og kyni. Samkvæmt sönnunarreglu 15. gr. laganna komi það í hlut kæranda að færa fram staðreyndir eða önnur gögn og upplýsingar sem leiða líkur að því að fötlun hafi haft áhrif á ráðningar sem um ræðir. Kærandi hafi hvorki í starfsumsókn sinni, kæru til kærunefndar né í meðfylgjandi gögnum sýnt fram á að hún búi við slíka fötlun að ákvæði laga nr. 86/2018 geti komið til skoðunar í málinu. Hafi kærandi því ekki uppfyllt þær sönnunarkröfur sem áskildar eru í 15. gr. laga nr. 86/2018. Beri af þeim sökum að vísa kærunni frá kærunefndinni. Verði ekki fallist á það er skorað á kæranda að leggja fram viðhlítandi gögn til kærunefndar sem staðfesta fötlun hennar.
  25. Kærði telur að vísa beri kærunni frá kærunefnd óháð því hvort fötlun kæranda verði staðfest þar sem af umsókn kæranda um starf ráðgjafa hjá kærða hafi á engan hátt verið hægt að sjá að kærandi væri fötluð. Hafi kærða því verið fyrirmunað að mismuna kæranda af þeim sökum. Ekkert í starfsumsókn kæranda hafi bent til þess að hún væri fötluð, þvert á móti benti námsferill og starfsferilsskrá til þess að um væri að ræða umsókn ófatlaðs einstaklings. Telur kærði að kæranda hafi borið að vekja athygli á fötlun sinni ef hún vildi að tekið væri tillit til fötlunar eða hún teldi að fötlun hennar kynni að hafa áhrif á mat á starfsumsókn hennar. Það hafi kærandi ekki gert. Hafi kærði því verið með öllu óupplýstur um að kærandi væri fötluð. Hafi mat á umsókn kæranda á engan hátt verið frábrugðið mati á umsóknum hinna 34 umsækjendanna um störfin, enda þeir einstaklingar sem önnuðust mat á þeim með öllu ómeðvitaðir um fötlun kæranda. Með vísan til framangreinds hafi kærandi ekki sætt óhagstæðari meðferð en aðrir umsækjendur sökum fötlunar sinnar.
  26. Kærði hafnar því að ómálefnalegar ástæður, þ.m.t. fötlun kæranda, hafi legið til grund­vallar ákvörðun kærða um ráðningarnar og að kæranda hafi þannig verið mismunað á grundvelli fötlunar. Kærandi hafi ekki sýnt fram á hvernig fötlun hennar hafði áhrif á mat á umsókn hennar. Þannig hafi ekki verið sýnt fram á eða rökstutt hvernig sú ætlaða mismunun varðandi mat á menntun og reynslu kæranda tengist fötlun hennar. Bendir kærandi á að sömu mælikvarðar hafi verið notaðir við mat á umsókn kæranda og annarra umsækjenda. Þannig hafi í einu og öllu verið gætt jafnræðis og samræmis við heildarmat á öllum starfsumsóknum. Í kjölfar þess hafi þeir einstaklingar sem komu best út úr því heildarmati verið boðaðir í viðtal. Bendir kærandi á að þar sem endurskoðun á slíku mati sé utan valdsviðs kærunefndar verði ekki séð að hún komi til skoðunar í málinu.
  27. Kærði telur að þau gögn sem liggja fyrir í málinu leiði ekki líkur að því að við mat kærða á umsækjendum og úrvinnslu á umræddum umsóknum hafi kæranda verið mismunað á grundvelli fötlunar eða að gögn málsins að öðru leyti bendi til þess að meðferð málsins hafi farið gegn lögum nr. 86/2018.
  28. Kærði tekur fram að samkvæmt almennum grundvallarreglum stjórnsýsluréttar um mat á hæfni umsækjenda um störf sé ráðningaraðila ljáð töluvert svigrúm um mat á vægi einstakra sjónarmiða við samanburð á milli umsækjenda og hvernig einstakir umsækjendur falli að slíkum sjónarmiðum, sbr. t.d. álit umboðsmanns Alþingis í máli nr. 5466/2008. Sé það mat kærða að við ráðningu í umrædd störf hafi mat á vægi einstakra sjónarmiða við samanburð á milli umsækjenda verið innan þess svigrúms sem lög hafi heimilað honum.
  29. Kærði tekur fram að hann andmæli ekki að kærandi hafi mætt almennum hæfnis­skilyrðum og lágmarkskröfum sem gerðar voru til umsækjenda í umræddri auglýsingu. Hins vegar liggi fyrir að það hafi verið mat kærða að fjórir einstaklingar hafi þótt hæfastir til að sinna störfum ráðgjafa. Hafi það mat verið byggt á heildstæðum saman­burði á öllum umsóknum ásamt fylgigögnum. Að loknum viðtölum við þá hafi það verið mat kærða að tvær þeirra hafi verið hæfastar til að mæta þörfum kærða, auðga þann mannauð sem var fyrir og gegna þeim tilteknu störfum sem auglýst voru.
  30. Kærði tekur fram að af orðalagi fyrirliggjandi auglýsingar sé ljóst að leitað var eftir starfsmönnum í framlínustörf sem feli í sér mikil bein dagleg samskipti við fjölbreyttan hóp viðskiptavina kærða þar sem reyni mikið á færni í mannlegum samskiptum líkt og skýrt hafi komið fram í auglýsingu kærða um störfin. Gerð hafi verið krafa um jákvætt viðmót, góða samskiptafærni, samstarfsvilja og álagsþol. Af því hafi leitt að reynsla þeirra sem höfðu sinnt slíkum störfum vó þungt við mat á umsóknum þegar gert var upp á milli þeirra aðila sem uppfylltu lágmarkskröfur skv. auglýsingu.
  31. Kærði tekur fram að við samanburð á starfsumsóknum þeirra sem ráðnar voru við umsókn kæranda sjáist að konurnar hafi haft reynslu af framlínustörfum. Starfs­reynsla kæranda hafi aðallega verið bundin við störf í bakvinnslu sem ekki hafi krafist beinna samskipta við viðskiptavini augliti til auglitis. Þannig hafi starfsreynsla þeirra fallið betur að þeim hæfniskröfum sem gerðar hafi verið.
  32. Kærði bendir á að hafa beri í huga að meiri menntun þýði ekki endilega að viðkomandi sé betur hæfur til að sinna ákveðnu starfi en sá sem hafi minni menntun eins og skilja megi af rökstuðningi kæranda í kæru. Aðalatriðið sé að sú menntun sem viðkomandi hafi nýtist í því starfi sem um sé að ræða. Að sama skapi sé hærri starfsaldur og/eða lengri starfsreynsla ekki ávísun á að einstaklingur sé betur hæfur til að gegna tilteknu starfi sé sú reynsla ekki á því sviði sem umrætt starf er.
  33. Kærði tekur fram að það hafi verið hans mat að starfsreynsla og eiginleikar þeirra sem voru ráðnar hafi hentað betur til þeirra starfa sem voru auglýst en starfsreynsla kæranda. Hafi það verið niðurstaðan að loknum heildstæðum samanburði á menntun, þekkingu og eiginleikum umsækjenda að konurnar sem voru ráðnar hafi verið hæfustu umsækjendurnir til að mæta þörfum kærða og gegna störfum ráðgjafa. Af því leiði að mat kærða á þeim sjónarmiðum sem hann lagði til grundvallar við val á hæfustu umsækjendunum hafi verið málefnalegt, forsvaranlegt og innan þess svigrúms sem hann hafði. Þá sé ekkert í gögnum málsins sem bendi til þess að málsmeðferð kærða við ráðningu í störf ráðgjafa hafi að öðru leyti verið ómálefnaleg eða farið gegn lögum nr. 86/2018.
  34. Kærði telur af öllu framangreindu að verðleikareglunni hafi verið fylgt við ráðninguna, þ.e. hæfustu umsækjendurnir til að sinna umræddum störfum hafi verið valdir úr hópi fjölda umsækjenda sem uppfylltu auglýstar hæfniskröfur. Hafi því verið sýnt fram á að ástæður þess að kærandi hafi ekki verið ráðin hafi ekki tengst fötlun hennar.
  35. Kærði telur að athugasemdir kæranda um ætlaða vanrækslu á skráningu á upplýsing­um skv. 27. gr. upplýsingalaga, ætlaða móttöku starfsumsóknar eftir auglýstan umsóknarfrest eða að hafa ekki birt jafnréttis- og jafnlaunastefnu á heimasíðu sinni falli utan valdsviðs kærunefndar. Áréttar kærði að það falli ekki heldur undir valdsvið kærunefndar að taka afstöðu til þess hvaða umsækjendur hefði átt að ráða í auglýst störf enda beri kærunefnd eingöngu að fjalla um hvort ákvörðun hafi samræmst lögum nr. 86/2018. Bendi ekkert til þess að fötlun kæranda hafi haft áhrif á meðferð umsóknar hennar. Hafi því ekki verið sýnt fram á að kæranda hafi verið mismunað á grundvelli fötlunar og að kærði hafi gerst brotlegur við lög nr. 86/2018. Í samræmi við það verði að hafna kröfu kæranda um greiðslu málskostnaðar, sbr. 4. mgr. 8. gr. laga nr. 151/2020.
  36. Kærði tekur fram að þótt komið hafi fram í ferilskrá kæranda að hún hafi tekið þátt í baráttu fatlaðs fólks með kvennahreyfingunni Tabú hafi það ekki gefið þeim sem fóru yfir umsókn kæranda tilefni til að draga þá ályktun að kærandi væri fötluð. Alþekkt sé að einstaklingar leggi ýmsum verðugum málefnum lið með ráðum og dáð en í því felist ekki staðfesting á því að viðkomandi sé einhverjum eiginleikum gæddur eða ekki. Þannig geti þeir sem séu alsjáandi tekið þátt í starfi Blindravinafélagsins eða stutt það, svo dæmi sé tekið. Tekur kærði fram að sú skylda verði ekki lögð á ráðningaraðila að þeir afli sér frekari upplýsinga um umsækjendur en fram koma í umsóknargögnum umsækjenda. Þannig sé fráleitt að gera ráð fyrir að kærða hafi borið skylda til að kanna sérstaklega hvort finna mætti á vefsíðum og samfélagsmiðlum umsagnir eða frásagnir um alla 34 umsækjendurna, hvað þá að kanna sérstaklega áhugamál þeirra sem vörðuðu ekki hæfni þeirra til að gegna umræddum störfum. Að jafnaði fari slík könnun ekki fram nema þá hugsanlega þegar verið er að gera upp á milli þeirra sem helst koma til greina í auglýst starf. Þá þyki rétt að taka fram að leit að nafni kæranda með leitarvélinni Google skilaði u.þ.b. 1.380.000 niðurstöðum og leit að nafni kæranda og viðskiptafræðingi 24.000 niðurstöðum. Við hvoruga leitina hafi komið upp upplýsingar um kæranda á fyrstu síðum leitarinnar. Þá séu þau gögn sem kærandi lagði fram með andsvörum sínum ekki auðfundin á netinu enda gömul og í raun nauðsynlegt að sá sem leiti viti að hverju hann á að leita. Í umsóknargögnum kæranda hafi ekki verið að finna neinar tilvísanir í þessi gögn og því nær vonlaust fyrir kærða að afla þeirra. Þannig sé ljóst að þótt framkvæmd hefði verið hefðbundin leit að upplýsingum um kæranda á leitarvélum hefðu ekki komið fram upplýsingar um að kærandi væri fötluð, hvað þá að fötlun kæranda hafi blasað við eins og haldið sé fram af hálfu hennar.
  37. Kærði tekur fram að hann sé sammála kæranda um að hún þurfi ekki að sæta því að henni sé mismunað með neikvæðum hætti á grundvelli fötlunar sinnar enda hafi það ekki verið gert. Hins vegar sé kærði ósammála órökstuddri yfirlýsingu kæranda um að hún hafi augljóslega verið hæfari en þær konur sem voru ráðnar til að gegna umræddu starfi. Tekur kærði fram að þess misskilnings virðist gæta hjá kæranda að menntun hennar og starfsreynsla geri hana hæfari til að sinna starfinu en þær sem voru ráðnar. Þótt kærandi kunni t.d. að vera hæfari en þær til að sinna starfi launafulltrúa þýði það ekki sjálfkrafa að hún sé hæfari til að sinna starfi ráðgjafa enda kalli það starf á aðra eiginleika en starf launafulltrúa.
  38. Kærði tekur að endingu fram að hann harmi að kærandi telji sig hafa orðið fyrir órétt­mætri mismunun í ráðningarferlinu enda hafi hann ávallt lagt áherslu á fagleg vinnu­brögð við mannaráðningar sem sjáist m.a. á því að við ráðningarferlið hafi hann notið aðstoðar óháðrar ráðningarstofu.

     

    NIÐURSTAÐA

     

  39. Mál þetta snýr að því hvort kærði hafi brotið gegn ákvæðum 1. mgr. 8. gr., sbr. 1. mgr. 1. gr., laga nr. 86/2018, um jafna meðferð á vinnumarkaði, með því að ráða í tvö störf ráðgjafa. Telur kærandi að henni hafi verið mismunað á grundvelli fötlunar við þessar ákvarðanir kærða.
  40. Í 2. gr. laga nr. 86/2018 kemur fram að markmið laganna sé að vinna gegn mismunun og koma á og viðhalda jafnri meðferð einstaklinga á vinnumarkaði óháð þeim þáttum sem um getur í 1. mgr. 1. gr. laganna, þ.e. kynþætti, þjóðernisuppruna, trú, lífsskoðun, fötlun, skertri starfsgetu, aldri, kynhneigð, kynvitund, kyneinkennum eða kyntjáningu, m.a. hvað varðar aðgengi að störfum, þ.m.t. við ráðningar. Samkvæmt 1. mgr. 7. gr. laganna er hvers kyns mismunun á vinnumarkaði, hvort heldur bein eða óbein, vegna einhverra þeirra þátta sem um getur í 1. mgr. 1. gr. óheimil.
  41. Í 8. gr. laga nr. 86/2018 er sérstaklega vikið að banni við mismunun í starfi og við ráðningu. Samkvæmt 1. mgr. er atvinnurekendum óheimilt að mismuna umsækjendum um starf vegna einhverra þeirra þátta sem um getur í 1. mgr. 1. gr., sbr. þó 2. mgr. 1. gr., 10., 11. og 12. gr. Sama gildir um stöðuhækkun, stöðubreytingu, endurmenntun, símenntun, starfsþjálfun, námsleyfi, uppsögn, vinnuaðstæður og önnur starfskjör starfsmanna.
  42. Í 15. gr. laga nr. 86/2018 kemur fram að ef leiddar eru líkur að því að mismunun hafi átt sér stað skuli sá sem talinn er hafa mismunað sýna fram á að ástæður þær sem legið hafi til grundvallar meðferðinni tengist ekki einhverjum af þeim þáttum sem um getur í 1. mgr. 1. gr. laganna. Af framangreindu er ljóst að það kemur í hlut kæranda að færa fram staðreyndir eða önnur gögn og upplýsingar sem leiða líkur að því að fötlun hafi haft áhrif á niðurstöðu kærða um ráðningar í störf ráðgjafa.
  43. Samkvæmt 1. gr. laga nr. 151/2020 gilda lögin um stjórn­sýslu á sviði jafnréttismála á því sviði sem löggjöf um jafnréttismál tekur til, m.a. lög um jafna meðferð á vinnu­markaði, og um störf kæru­nefndar jafnréttismála. Samkvæmt 1. mgr. 8. gr. laganna tekur kærunefnd jafnréttismála til meðferðar kærur sem til hennar er beint samkvæmt framansögðu og kveður upp skriflegan úrskurð um hvort ákvæði þeirra laga hafi verið brotin.
  44. Í auglýsingu um starf ráðgjafa hjá kærða sem liggur til grundvallar í málinu var auglýst eftir jákvæðum og drífandi einstaklingi. Helstu verkefni voru tiltekin sem samskipti og upplýsingagjöf til námsmanna og greiðenda, mat á umsóknum um undanþágur frá afborgun, veiting námslána, þ.m.t. mat á aðstæðum námsmanns, lánshæfi náms, einingaskilum, tekjum og skólagjöldum, mat á rétti til námsstyrks við námslok og innheimta námslána og almenn upplýsingagjöf varðandi afborganir og greiðsluleiðir. Hæfniskröfur voru tilgreindar sem háskólapróf sem nýttist í starfi en reynsla sem nýttist í starfi væri kostur, góð tölvukunnátta og íslensku- og enskukunnátta en kunnátta í öðrum tungumálum væri kostur. Þá var gerð krafa um frumkvæði, sjálfstæði og öguð vinnubrögð, jákvætt viðmót, góða samskiptafærni, samstarfsvilja og álagsþol.
  45. Kærði hefur gert grein fyrir því að sömu mælikvarðar hafi verið notaðir við mat á umsóknum allra þeirra sem sóttu um starfið til að tryggja jafnræði og samræmi við heildarmatið. Hafi fjórir umsækjendanna sem komu best út úr því mati verið boðaðir í viðtal en kærandi var ekki einn þeirra. Tvær konur hafi í framhaldinu verið ráðnar í störf ráðgjafa á grundvelli heildarmats á þeim þáttum sem komu fram í auglýsingu.
  46. Í gögnum málsins liggur fyrir matskvarðinn sem notaður var við mat á umsóknum og við val á umsækjendum í viðtal. Samkvæmt honum voru 34 umsækjendum gefin stig á bilinu 1–5 fyrir þrjá matsþætti en þrír matsaðilar stóðu að matinu. Þessir þrír matsþættir voru: „háskólapróf sem nýtist í starfi“ sem hafði vægið 60%, „reynsla sem nýtist í starfi er kostur“ sem hafði vægið 30% og „góð tölvukunnátta er skilyrði“ sem hafði vægið 10%. Þá voru færðar inn athugasemdir við hvern umsækjanda undir liðnum „samantekt“. Kærði hefur gert grein fyrir því að við val á umsækjendum í viðtal hafi verið stuðst við heildarmat á umsóknum þar sem sérstök áhersla hafi verið lögð á framangreinda matsþætti sem voru hluti þeirra hæfniskrafna sem komu fram í auglýsingu. Kærunefndin bendir á að þar sem ekki er mælt fyrir um þessa þætti í lögum sé það kærða að ákveða kröfur þessar í ljósi þeirra þarfa sem hann telur nauðsynlegt að uppfylla til starfrækslu þeirra verkefna sem um ræðir með hagsmuni stofnunarinnar að leiðarljósi.
  47. Með vísan til alls framangreinds verður að mati kærunefndar ekki betur séð en að mat kærða á þeim sjónarmiðum sem hann lagði til grundvallar við ákvörðun um val í viðtöl hafi verið málefnalegt og forsvaranlegt og innan þess svigrúms sem hann hafði. Telur kærunefnd því að gögn þau sem liggja fyrir í málinu leiði ekki líkur að því að með ákvörðun kærða um val í viðtöl hafi kæranda verið mismunað á grundvelli fötlunar, sbr. 15. gr. laga nr. 86/2018. Hvort kærði hafi mátt vita um fötlun kæranda á grundvelli fyrirliggjandi umsóknargagna hefur ekki áhrif á þessa niðurstöðu. Að þessu athuguðu kemur ekki til frekari skoðunar hvort umsókn hafi borist eftir auglýstan umsóknar­frest.
  48. Af öllu framangreindu verður ekki talið að sýnt hafi verið fram á að kæranda hafi verið mismunað á grundvelli fötlunar við ákvarðanir um ráðningar í starf ráðgjafa, sbr. 1. mgr. 8. gr., sbr. 1. mgr. 1. gr., laga nr. 86/2018. Samkvæmt því verður ekki fallist á að kærði hafi gerst brotlegur við lög nr. 86/2018.
  49. Í samræmi við þessa niðurstöðu verður ekki fallist á kröfu kæranda um að kærði greiði henni málskostnað við að hafa kæruna uppi, sbr. 4. mgr. 8. gr. laga nr. 151/2020.

Ú r s k u r ð a r o r ð

Kærði, Menntasjóður námsmanna, braut ekki gegn lögum nr. 86/2018, um jafna meðferð á vinnumarkaði, með ákvörðunum um ráðningar í störf tveggja ráðgjafa.

Ekki er fallist á kröfu kæranda um að kærði greiði henni málskostnað við að hafa kæruna uppi.

 

Kristín Benediktsdóttir

 

Anna Tryggvadóttir

 

Ari Karlsson


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta