Hoppa yfir valmynd

Nr. 76/2021 úrskurður

KÆRUNEFND ÚTLENDINGAMÁLA

Þann 18. febrúar 2021 er kveðinn upp svohljóðandi

úrskurður nr. 76/2021

í stjórnsýslumáli nr. KNU20120021

 

Kæra [...]

á ákvörðun

Útlendingastofnunar

 

I. Kröfur, kærufrestir og kæruheimild

Þann 8. desember 2020 kærði einstaklingur er kveðst heita [...], vera fæddur [...] og vera ríkisborgari Palestínu (hér eftir nefndur kærandi), ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 20. nóvember 2020, um að taka ekki til efnismeðferðar umsókn hans um alþjóðlega vernd á Íslandi og vísa honum frá landinu.

Kærandi krefst þess að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi og að umsókn hans um alþjóðlega vernd á Íslandi verði tekin til efnismeðferðar hér á landi, í fyrsta lagi á grundvelli 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga nr. 80/2016 en verði ekki fallist á það er þess krafist í öðru lagi á grundvelli 3. mgr. 36. gr., sbr. 42. laga um útlendinga.

Fyrrgreind ákvörðun er kærð á grundvelli 7. gr. laga um útlendinga og barst kæran fyrir lok kærufrests.

II. Málsmeðferð

Kærandi lagði fram umsókn um alþjóðlega vernd á Íslandi þann 12. ágúst 2020. Við leit að fingraförum kæranda í Eurodac gagnagrunninum, þann 18. ágúst 2020, kom í ljós að fingraför hans höfðu verið skráð í grunninn m.a. af yfirvöldum í Grikklandi. Þá kom þar fram að kæranda hefði verið veitt alþjóðleg vernd þar í landi þann 18. febrúar 2019. Kærandi kom til viðtals hjá Útlendingastofnun, m.a. þann 15. október 2020, ásamt löglærðum talsmanni sínum. Útlendingastofnun ákvað þann 20. nóvember 2020 að taka ekki umsókn kæranda um alþjóðlega vernd hér á landi til efnismeðferðar og að honum skyldi vísað frá landinu. Ákvörðunin var birt fyrir kæranda þann 24. nóvember 2020 og kærði kærandi ákvörðunina þann 8. desember 2020 til kærunefndar útlendingamála. Greinargerð kæranda barst kærunefnd þann 17. desember 2020 ásamt fylgigögnum. Viðbótargögn bárust kærunefnd þann 4. janúar 2021.

III. Ákvörðun Útlendingastofnunar

Í ákvörðun Útlendingastofnunar kom fram að kæranda hefði verið veitt alþjóðleg vernd í Grikklandi. Umsókn hans um alþjóðlega vernd yrði því ekki tekin til efnismeðferðar, sbr. a-lið 1. mgr. 36. gr. laga um útlendinga, enda fæli flutningur kæranda til Grikklands ekki í sér brot gegn 42. gr. laga um útlendinga, sbr. jafnframt 3. mgr. 36. gr. laganna. Þá taldi Útlendingastofnun að kærandi hefði ekki slík tengsl við Ísland að nærtækast væri að hann fengi hér vernd eða að sérstakar ástæður mæltu annars með því að taka bæri umsókn kæranda til efnismeðferðar, sbr. 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga. Kæranda var vísað frá landinu, sbr. c-lið 1. mgr. 106. gr. laga um útlendinga, og skyldi hann fluttur til Grikklands.

IV. Málsástæður og rök kæranda

Í greinargerð sinni til kærunefndar vísar kærandi til greinargerðar sinnar til Útlendingastofnunar hvað varðar málavexti. Þar vísar kærandi til viðtala sinna hjá Útlendingastofnun þar sem hann hafi greint frá því að andleg heilsa hans sé slæm og megi rekja það til veru hans í Grikklandi. Kærandi hafi síðastliðið eitt og hálft ár glímt við kvíða- og svefnvandamál en hann hafi fengið lyf vegna þeirra í Belgíu. Í viðtali sínu hafi kærandi lagt fram skýrslu um andlegt ástand sitt. Kærandi hafi búið í rúmt ár í Grikklandi og hafi ástandið í flóttamannabúðunum verið ómannúðlegt, m.a. hafi salernisaðstæður verið óboðlegar og löng bið verið eftir heilbrigðisaðstoð. Þegar kærandi hafi verið með alþjóðlega vernd í Grikklandi hafi hann misst þá aðstoð sem hann hafi haft þar og eftir það hafi hann verið án húsnæðis, framfærslu og atvinnu. Kæranda hafi verið ómögulegt að afla sér löglegrar atvinnu vegna krafna grískra stjórnvalda. Þá hafi kærandi verið án viðunandi heilbrigðisþjónustu og aðstoðar frá grískum félagsmálayfirvöldum og orðið fyrir fordómum.

Þá vísar kærandi til skjals sem hann kallar fylgiskjal en skjalið rekur afstöðu kæranda til réttinda, framkvæmdar og aðstæðna flóttafólks í Grikklandi. Kærandi byggir á að aðstæður flóttafólks hafi farið versnandi sl. mánuði í Grikklandi, sérstaklega í ljósi eldsvoðans í Moria og mikillar fjölgunar Covid-19 smita í landinu. Kærandi fjallar um fjölda greindra tilfella Covid-19 smita í Grikklandi og vísar m.a. til þess að grísk yfirvöld hafi lýst yfir neyðarástandi og óskað eftir aðstoð annarra Evrópuríkja við viðtöku flóttafólks. Þá vísar kærandi til tilvitnaðra orða forsætisráðherra og telur að á sama tíma og grísk stjórnvöld, Evrópusambandið og Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna vinni að því að fá önnur Evrópulönd til að taka á móti flóttafólki frá Grikklandi vegna óviðunandi aðstæðna þeirra í landinu, þá skjóti skökku við að íslensk stjórnvöld ætli að endursenda annað flóttafólk þangað.

Kærandi gerir nokkrar athugasemdir við hina kærðu ákvörðun, m.a. við trúverðugleikamat Útlendingastofnunar og mat á einstaklingsbundnum aðstæðum kæranda. Kærandi hafnar mati Útlendingastofnunar á að honum standi til boða fullnægjandi heilbrigðis- og félagsþjónusta í Grikklandi. Hvað varðar tilvísun Útlendingastofnunar til HELIOS verkefnisins vísar kærandi til þess að hann hafi þurft að sækja um slíka aðstoð fyrir 31. janúar 2020 og muni hún því ekki standa honum til boða. Ennfremur sé verkefnið tímabundið úrræði til aðlögunar í nokkra mánuði. Þá gerir kærandi athugasemd við mat Útlendingastofnunar á möguleikum hans til að fá framfærslu og félagslega aðstoð í Grikklandi. Kærandi vísar til þess að það verði honum ómögulegt að uppfylla skilyrði fyrir félagslegri aðstoð. Kærandi telur það lágmarksskilyrði að Útlendingastofnun vísi til raunverulegra leiða fyrir kæranda til að tryggja sér framfærslu í Grikklandi í stað þess að fjalla á almennan máta um lagalegan rétt, sem kærandi telji að sé ekki til staðar í raunveruleikanum. Kærandi telji því ljóst að hann verði án félagslegrar aðstoðar verði hann endursendur til Grikklands. Hvað varðar skilyrði 32. gr. a reglugerðar um útlendinga um að efnahagslegar ástæður geti ekki talist til sérstakra ástæðna vísar kærandi til þess að skilyrðið hafi ekki grundvöll í lögum um útlendinga né standist það efnislega þar sem 3. gr. mannréttindasáttmála Evrópu geti leitt til þess að jafnvel efnahagslegur ástæður stöðvi sendingu einstaklings til annars ríkis, þ.e. þegar aðstæður þar ná ákveðnum alvarleikaþröskuldi. Þá vísar kærandi til tiltekinna dóma Mannréttindadómstóls Evrópu máli sínu til stuðnings og telur að aðstæður hans og hvernig hann sé í reynd útilokaður frá fjárhagsaðstoð í Grikklandi nái ofangreindum alvarleikaþröskuldi. Kærandi gagnrýnir það mat Útlendingastofnunar að hann sé ekki útilokaður frá atvinnumarkaði í Grikklandi. Í því sambandi vísar kærandi til þriggja röksemda sem hann telur að leiði til þess að flóttafólk sé í raun útilokað frá atvinnumarkaði þar í landi. Þá telur kærandi að mat stofnunarinnar á fordómum og mismunun í grísku samfélagi sé rangt og andmælir því að hann geti leitað á náðir grískra stjórnvalda.

Kærandi vísar til þess að framtíð hans sé afar nöturleg ef litið sé til aðstæðna hans við mögulega endursendingu til Grikklands með hliðsjón af rökstuðningi hinnar kærðu ákvörðunar og nýlegum úrskurði kærunefndar útlendingamála nr. KNU20110005 frá 10. desember 2020. Kærandi vísar til þess að alhæfingar nefndarinnar í úrskurði sínum og Útlendingastofnunar í hinni kærðu ákvörðun eigi sér ekki stoð í heimildum eða því einstaklingsbundna mati sem þeim beri að framkvæma. Að auki sé matið ekki í samræmi við 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga né 4. mgr. 2. gr. sömu laga.

Loks gerir kærandi athugasemd við umfjöllun Útlendingastofnunar í ákvörðun sinni um áhrif Covid-19 faraldursins, m.a. um að þar sé helst vísað til þess að margt hafi verið á huldu um Covid-19 faraldurinn þann 20. maí 2020. Í því sambandi vísar kærandi til tiltekinna staðreynda varðandi Covid-19 faraldurinn og þess að ennfremur megi hafa áhyggjur af bágri stöðu grísks efnahags og hvort gríska ríkið geti tryggt aðgengi allra að bóluefni í landinu. Kærandi telur að umfjöllun Útlendingastofnunar í hinni kærðu ákvörðun sé ekki til þess fallin að rökstyðja hvers vegna stofnuninni hafi ekki borið að fylgja fyrra mati sínu og kærunefndar um áhrif Covid-19 faraldursins. Kærandi andmælir mati Útlendingastofnunar á að þær takmarkanir sem séu við lýði vegna Covid-19 faraldursins séu takmarkaðar og tímabundnar.

Kærandi byggir í fyrsta lagi á því að taka skuli umsókn hans til efnislegrar meðferðar hér á landi vegna sérstakra ástæðna í máli hans, sbr. 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga, vegna þeirrar alvarlegu mismununar sem hann muni verða fyrir í Grikklandi og vegna þess að staða hans muni verða verulega síðri en staða almennings þar í landi. Íslenskum stjórnvöldum beri að leggja heildstætt mat á einstaklingsbundnar aðstæður kæranda og þær afleiðingar sem endursending geti haft í för með sér fyrir hann, líkamlega og andlega. Kærandi gerir athugasemd við lagastoð reglugerðar nr. 276/2018 og þau skilyrði sem þar séu sett fram. Kærandi telji að skilyrðin, sem geri ríkari kröfur en lög um útlendinga, gangi lengra en ákvæði laga um útlendinga og gangi í raun gegn vilja löggjafans. Ennfremur veki kærandi athygli kærunefndar á orðalagi 32. gr. a í umræddri reglugerð. Þar komi fram að þau viðmið sem þar séu sett fram séu nefnd í dæmaskyni og sé því ekki um að ræða tæmandi talningu á þeim þáttum sem taka beri tillit til við mat á því hvort sérstakar ástæður eigi við. Kærandi vísar til þess að þegar hann hafi fengið alþjóðlega vernd í Grikklandi hafi hann misst alla aðstoð, verið húsnæðislaus og án framfærslu. Þá hafi kærandi ekki fundið atvinnu þrátt fyrir langa leit og orðið fyrir fordómum og mismunun. Kærandi hafi því, og muni, verða fyrir alvarlegri mismunun og geti vænst þess að staða hans, verði verulegra síðri en staða almennings í Grikklandi, í skilningi ákvæðis 32. gr. a fyrrgreindrar reglugerðar.

Kærandi telur að margt bendi til þess að hann sé einstaklingur í sérstaklega viðkvæmri stöðu m.a. með vísan til frásagnar sinnar í viðtölum hjá Útlendingastofnun, skimunarlista sem lagður hafi verið fyrir hann hjá Útlendingastofnun og tíma hans hjá sálfræðingi Göngudeildar sóttvarna.

Kærandi byggir í öðru lagi á því að ótækt sé að beita heimild a-liðar 1. mgr. 36. gr. laga um útlendinga þar sem hann njóti verndar 1. mgr. 42. gr. laga um útlendinga. Ákvæðið mæli fyrir um grundvallarreglu þjóðaréttar um non-refoulement eða bann við endursendingu fólks þangað sem líf þess eða frelsi sé í hættu eða líkur séu á að það muni sæta pyndingum eða ómannúðlegri meðferð, sbr. einnig 3. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994. Lýsingar kæranda á aðstæðum sínum í Grikklandi komi heim og saman við opinberar heimildir um aðstæður þar í landi, m.a. varðandi atvinnu, húsnæði, félagsþjónustu og heilbrigðisþjónustu. Með vísan til þess verði að telja að aðstæður flóttafólks í Grikklandi séu svo slæmar að þær jafnist á við ómannúðlega og vanvirðandi meðferð í skilningi 1. mgr. 42. gr. laga um útlendinga. Að auki myndi ákvörðunin brjóta í bága við 1. mgr. 68. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands, sbr. lög nr. 33/1944, 3. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, 7. gr. samnings Sameinuðu þjóðanna um borgaraleg og stjórnmálaleg réttindi og 33. gr. flóttamannasamnings Sameinuðu þjóðanna. Íslenskum stjórnvöldum beri því skylda til að taka umsókn kæranda til efnismeðferðar með vísan til 3. mgr. 36. gr., sbr. 42. gr. laga um útlendinga.

Í greinargerð sinni fjallar kærandi um hlutverk talsmanns. Kærandi vísar til ákvæða 4. mgr. 24. gr. laga um útlendinga og 24. málsl. 3. gr. sömu laga. Kærandi leggur áherslu á lögbundna skyldu talsmanns til að gæta hagsmuna skjólstæðings síns og vísar til þess að honum beri að draga fram þau atriði í máli hans sem séu til þess fallin að stuðla að jákvæðri niðurstöðu, hið sama gildi um atriði í þeim áreiðanlegu heimildum sem talsmaður vísi til. Það sé ekki hlutverk talsmanns að gæta hlutleysis í störfum sínum.

V. Niðurstaða kærunefndar útlendingamála

Ákvæði 1. mgr. 36. gr. laga um útlendinga

Í 1. mgr. 36. gr. laga um útlendinga er mælt fyrir um að umsókn um alþjóðlega vernd skuli tekin til efnismeðferðar nema undantekningar sem greindar eru í a-, b- og c-liðum ákvæðisins eigi við. Samkvæmt a-lið 1. mgr. 36. gr. er stjórnvöldum heimilt að synja því að taka umsókn um alþjóðlega vernd til efnismeðferðar hafi umsækjandi komið til landsins að eigin frumkvæði eftir að hafa hlotið virka alþjóðlega vernd eða annars konar vernd í öðru ríki eða ef hann, eftir að hafa dvalist í ríki þar sem hann þurfti ekki að sæta ofsóknum, gat óskað eftir því að fá viðurkennda stöðu sem flóttamaður og, ef hann var talinn flóttamaður, fengið vernd í samræmi við alþjóðasamning um stöðu flóttamanna.

Samkvæmt fyrirliggjandi gögnum málsins er kærandi handhafi alþjóðlegrar verndar í Grikklandi. Að mati kærunefndar felur sú vernd sem kærandi nýtur í Grikklandi í sér virka alþjóðlega vernd í skilningi a-liðar 1. mgr. 36. gr. laga um útlendinga.

Í hinni kærðu ákvörðun Útlendingastofnunar kemur fram mat stofnunarinnar á því hvort taka þurfi tillit til sérstakrar stöðu kæranda í samræmi við 1. mgr. 25. gr. laga um útlendinga og var það niðurstaða stofnunarinnar að kærandi væri ekki einstaklingur í sérstaklega viðkvæmri stöðu í skilningi 6. tölul. 3. gr. laga um útlendinga. Kærandi hefur notið heilbrigðisþjónustu hér á landi og lagt fram þó nokkuð af heilsufarsgögnum í málinu. Í gögnum frá Göngudeild sóttvarna, dags. 11. september 2020, kemur fram að kærandi hafi greint frá því að hann hafi orðið fyrir pyndingum árið 2016 og m.a. hafi verið brotinn á honum úlnliðurinn. Brotið hafi ekki gróið rétt og finni kærandi fyrir verkjum í hendi. Samkvæmt gögnum frá heilsugæslu Keflavíkur, dags. 27. október 2020, leitaði kærandi á heilsugæslu vegna fyrrgreinds verkjar í úlnlið og fór hann í röntgenmyndatöku. Samkvæmt gögnum frá Orkuhúsi, dags. 1. desember 2020, fór kærandi í segulómun á úlnlið og kemur m.a. fram að um eldri áverka sé að ræða. Í samskiptaseðli heilsugæslu Keflavíkur, dags. 16. desember 2020, kemur fram að kærandi þurfi hugsanlega að fara til handaskurðlæknis og/eða í sjúkraþjálfun vegna fyrrgreinds brots. Af gögnum málsins má ráða að kærandi hafi notið þjónustu sálfræðings hér á landi í tvö skipti og kemur m.a. fram í samskiptaseðli Göngudeildar sóttvarna, dags. 10. nóvember 2020, að hann sofi illa, fái martraðir og hugsanir um hluti sem hafi gerst í Grikklandi. Í samskiptaseðli Göngudeildar sóttvarna, dags. 8. desember 2020, kemur þá fram að kærandi hafi greint frá því að honum líði betur en sé þó smeykur við að verða sendur aftur til Grikklands.

Í endurriti af viðtali kæranda hjá Útlendingastofnun, dags. 15. október 2020, kemur m.a. fram að kærandi hafi lagt fram gögn frá grískum yfirvöldum, m.a. skýrslu um andlegt ástand hans, og kvað kærandi að gögnin myndu sýna fram á slæma andlega heilsu hans. Í ákvörðun Útlendingastofnunar kemur fram að kærandi hafi, við meðferð málsins, m.a. lagt fram heilsufarsgögn frá Grikklandi en enga frekari umfjöllun er að finna um gögnin í hinni kærðu ákvörðun. Þá hefur kærandi borið fyrir sig hjá kærunefnd að í framangreindum gögnum sé að finna ítarlega úttekt, í samræmi við alþjóðlegar mannréttindaskuldbindingar, á þeim pyndingum sem hann hafi orðið fyrir í heimaríki. Að mati kærunefndar hafi framlagning gagnanna kallað á ítarlegri skoðun Útlendingastofnunar á innihaldi þeirra en ljóst er að gögnin voru ekki send í þýðingu við meðferð málsins hjá Útlendingastofnun og enga frekari umfjöllun var að finna um þau í hinni kærðu ákvörðun. Að mati kærunefndar bera gögnin með sér að innihalda upplýsingar sem geti haft verulega þýðingu fyrir mál kæranda og telur kærunefnd, í ljósi frásagnar kæranda og fyrirliggjandi heilsufarsupplýsinga, að tilefni hefði verið til að senda umrædd gögn í þýðingu og ganga úr skugga um hvert væri innihald þeirra. Kærunefnd lítur einnig til þess að ekki liggja fyrir í málinu sambærileg gögn, unnin hér á landi, sem gætu varpað ljósi á það sem fram kemur í hinu óþýdda skjali.

Í 2. mgr. 23. gr. laga um útlendinga segir að við meðferð mála vegna umsókna um alþjóðlega vernd skuli Útlendingastofnun afla nauðsynlegra og aðgengilegra upplýsinga. Samkvæmt 10. gr. stjórnsýslulaga skal stjórnvald sjá til þess að mál sé nægjanlega upplýst áður en ákvörðun er tekin í því og afla í því skyni nauðsynlegra gagna og upplýsinga. Mál telst nægilega rannsakað þegar þeirra upplýsinga hefur verið aflað sem nauðsynlegar eru til þess að hægt sé að taka efnislega rétta ákvörðun í því. Markmið rannsóknarreglunnar er að tryggja að stjórnvaldsákvarðanir verði bæði löglegar og réttar.

Er það mat kærunefndar að með því að hafa láðst að láta þýða umrædd gögn frá Grikklandi sem kærandi lagði fram við meðferð málsins hafi Útlendingastofnun ekki fullnægt skyldu sinni skv. 10. gr. stjórnsýslulaga og 2. mgr. 23. gr. laga um útlendinga.

Meginmarkmið stjórnsýslukæru er að tryggja réttaröryggi borgara með því að gera þeim kleift að fá umfjöllun um mál sín á tveimur stjórnsýslustigum. Eins og að framan greinir telur kærunefnd að annmarkar hafi verið á rannsókn Útlendingastofnunar í máli kæranda. Kærunefnd telur jafnframt í ljósi aðstæðna að ekki sé unnt að bæta úr þeim annmörkum á kærustigi og því rétt að mál kæranda hljóti nýja meðferð hjá Útlendingastofnun.

Með vísan til þess sem að framan er rakið er það niðurstaða kærunefndar að fella beri ákvörðun Útlendingastofnunar úr gildi. Lagt er fyrir Útlendingastofnun að taka mál kæranda til nýrrar meðferðar.

Í ljósi framangreindrar niðurstöðu er, að mati kærunefndar, ekki tilefni til umfjöllunar um aðrar málsástæður kæranda. 

 

Úrskurðarorð

 

Ákvörðun Útlendingastofnunar er felld úr gildi.

Lagt er fyrir Útlendingastofnun að taka mál kæranda til meðferðar á ný.

 

The decision of the Directorate of Immigration is vacated.

The Directorate is instructed to re-examine the case.

 

Hjörtur Bragi Sverrisson

Þorbjörg I. Jónsdóttir                                          Bjarnveig Eiríksdóttir


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á hjalp@utn.is

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta