Hoppa yfir valmynd

Nr. 84/2020 Úrskurður

KÆRUNEFND ÚTLENDINGAMÁLA

Þann 12. mars 2020 er kveðinn upp svohljóðandi

úrskurður nr. 84/2020

í stjórnsýslumáli nr. KNU19110016

 

Kæra [...]

á ákvörðun

Útlendingastofnunar

 

I. Kröfur, kærufrestir og kæruheimild

Þann 12. nóvember 2019 kærði einstaklingur er kveðst heita [...], vera fæddur [...] og vera ríkisborgari [...] (hér eftir nefndur kærandi) ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 29. október 2019, um að taka ekki til efnismeðferðar umsókn hans um alþjóðlega vernd á Íslandi og vísa honum frá landinu.

Þess er krafist að hin kærða ákvörðun Útlendingastofnunar verði felld úr gildi og að stofnuninni verði gert að taka umsókn kæranda um alþjóðlega vernd hér á landi til efnismeðferðar, í fyrsta lagi á grundvelli 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga nr. 80/2016 og í öðru lagi á grundvelli 3. mgr. 36. gr., sbr. 1. mgr. 42. gr. laga um útlendinga og 3. gr. mannréttindasáttmála Evrópu sem lögfestur var hér á landi með lögum nr. 62/1994 um mannréttindasáttmála Evrópu.

Fyrrgreind ákvörðun er kærð á grundvelli 7. gr. laga um útlendinga og barst kæran fyrir lok kærufrests.

II. Málsmeðferð

Kærandi lagði fram umsókn um alþjóðlega vernd á Íslandi þann 13. september 2019. Við leit að fingraförum kæranda í Eurodac gagnagrunninum, þann 16. september 2019, kom í ljós að fingraför hans höfðu hvergi verið skráð. Kærandi greindi frá því í viðtali hjá Útlendingastofnun að hann hafi fengið synjun á umsókn um alþjóðlega vernd í Noregi. Þann 18. september 2019 var beiðni send til norskra yfirvalda þar sem óskað var eftir upplýsingum um kæranda og umsókn hans um alþjóðlega vernd í Noregi. Í svari frá norskum yfirvöldum, dags. 19. september 2019, kom fram að kæranda hafi sótt um vernd þar í landi þann 27. október 2006. Þann 20. september 2019 var því beiðni um viðtöku kæranda og umsóknar hans um alþjóðlega vernd beint til yfirvalda í Noregi, sbr. 1. eða 3. mgr. 12. gr. reglugerðar Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) nr. 604/2013 (hér eftir nefnd Dyflinnarreglugerðin). Í svari frá norskum yfirvöldum, dags. 23. september 2019, samþykktu þau viðtöku kæranda á grundvelli d-liðar 1. mgr. 18. gr. Dyflinnarreglugerðarinnar. Útlendingastofnun ákvað þann 29. október 2019 að taka ekki umsókn kæranda um alþjóðlega vernd hér á landi til efnismeðferðar og að honum skyldi vísað frá landinu. Ákvörðunin var birt fyrir kæranda þann 29. október 2019 og kærði kærandi ákvörðunina þann 12. nóvember 2019 til kærunefndar útlendingamála. Greinargerð kæranda barst kærunefnd 20. nóvember 2019 ásamt fylgigögnum. Frekari gögn bárust kærunefnd þann 4. desember 2019. Þá var kæranda leiðbeint með tölvupósti kærunefndar, dags. 4. febrúar 2020, um að leggja fram frekari gögn í málinu. Í svari frá talsmanni kæranda, dags. 7. febrúar 2020, kom fram að engin ný gögn lægju fyrir í málinu.

III. Ákvörðun Útlendingastofnunar

Í ákvörðun Útlendingastofnunar kom fram að norsk stjórnvöld bæru ábyrgð á meðferð umsóknar kæranda um alþjóðlega vernd á grundvelli Dyflinnarreglugerðarinnar. Umsóknin yrði því ekki tekin til efnismeðferðar, sbr. c-lið 1. mgr. 36. gr. laga um útlendinga, enda fæli flutningur kæranda til Noregs ekki í sér brot gegn 42. gr. laga um útlendinga, sbr. jafnframt 3. mgr. 36. gr. laganna. Þá taldi Útlendingastofnun að kærandi hefði ekki slík tengsl við Ísland að nærtækast væri að hann fengi hér vernd eða að sérstakar ástæður mæltu með því að taka bæri umsókn kæranda til efnismeðferðar, sbr. 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga. Kæranda var vísað frá landinu, sbr. c-lið 1. mgr. 106. gr. laga um útlendinga, og skyldi hann fluttur til Noregs.

IV. Málsástæður og rök kæranda

Í greinargerð kæranda kemur fram að hann hafi í viðtölum hjá Útlendingastofnun, aðspurður um heilsufar sitt, m.a. greint frá því að líkamlegt heilsufar sitt væri í lagi en honum liði illa andlega. Hann fyndi fyrir sektarkennd vegna móður sinnar en hún hafi fengið hjartaáfall og [...]. Aðspurður hafi kærandi greint frá því að nokkrir atburðir hafi haft áhrif á líkamlega og andlega heilsu hans, m.a. [...] og [...]. Þá hafi kærandi gert athugasemd við að vera sendur aftur til Noregs. Hann hafi engin réttindi þar í landi auk þess sem þar bíði hans þriggja mánaða fangelsisvist. Hann hafi unnið á veitingastað frá 2014 til 2017 án atvinnuleyfis. Hann hafi verið handtekinn vegna þess í október 2017 og verið í haldi lögreglu í 24 klukkustundir. Dómur hafi þó ekki fallið fyrr en árið 2019. Kærandi kvað aðstæður sínar í Noregi hafa verið slæmar. Hann hafi verið þar í 14 ár og dvalið í flóttamannabúðum. Árið 2012 hafi hann fengið synjun á umsókn sinni um alþjóðlega vernd og fengið að dvelja í flóttamannabúðum til ársins 2014. Kærandi hafi haft aðgang að húsnæði og fengið mánaðarlegar greiðslur til ársins 2014. Eftir það hafi hann m.a. dvalið hjá vini sínum, sofið á götunni eða jafnvel þurft að sofa á almenningssalernum. Þá hafi kærandi ekki haft aðgang að heilbrigðiskerfinu frá árinu 2014. Í Noregi hafi hann verið mjög kvíðinn og þunglyndur en hafi ekki getað leitað til læknis þar sem hann hafi ekki haft efni á því. Hann hafi þá einungis fengið gjaldfrjálsa lögfræðiþjónustu í fimm klukkustundir en eftir það hafi hann þurft að greiða fyrir þjónustuna.

Í greinargerð kæranda eru gerðar nokkrar athugasemdir við hina kærðu ákvörðun Útlendingastofnunar. Í fyrsta lagi gerir kærandi athugasemd við það mat Útlendingastofnunar að honum standi til boða öll nauðsynleg grunnþjónusta í Noregi. Kærandi kveður að umsækjendur sem fengið hafi lokasynjun á umsókn sinni í Noregi hafi takmarkaðan aðgang að heilbrigðisþjónustu. Í öðru lagi gerir kærandi athugasemd við það mat Útlendingastofnunar að norsk stjórnvöld veiti fullnægjandi vernd gegn því að umsækjendur séu sendir til landa þar sem þeir eigi á hættu að verða fyrir ofsóknum og lífi þeirra eða frelsi ógnað. Komi fram í ákvörðun Útlendingastofnunar að hafi umsækjandi sótt um vernd í öðru ríki sem sé aðili að Dyflinnarmeðferðinni og umsækjandi sé sendur aftur til Noregs verði umsókn hans um alþjóðlega vernd ekki endurskoðuð. Hafi umsækjanda verið synjað um vernd standi sú synjun og umsækjandi þurfi að snúa til heimaríkis. Umsækjendur hafi ekki tækifæri á að leggja fram nýja umsókn í Noregi heldur eingöngu að leggja fram beiðni um endurupptöku máls. Kærandi telur ljóst að norsk stjórnvöld geti ekki veitt honum fullnægjandi vernd gegn því að hann verði sendur aftur til heimaríkis. Vísar kærandi til dóms stjórnsýsludómstóls í Lyon í Frakklandi þessu til stuðnings. Í þriðja lagi gerir kærandi athugasemd við mat Útlendingastofnunar á því að hann sé ekki í sérstaklega viðkvæmri stöðu. Ýmislegt bendi til þess að kærandi teljist í sérstaklega viðkvæmri stöðu en í viðtali hjá Útlendingastofnun hafi hann greint frá [...]. Þá hafi hann [...] sem hafi haft mikil áhrif á hann andlega. Hann hafi átt erfitt með svefn og í skimunarlista komi fram að kærandi finni verulega oft fyrir leiða og sorg, hann hugsi verulega mikið, verði oft mjög eirðarlaus og gráti við minnsta tilefni. Þá endurupplifi hann oft áföll úr fortíðinni, fái svitaköst, hraðan hjartslátt og sé einnig verulega tilfinningadofinn. Telur kærandi að tilefni sé til að kærunefnd endurskoði mat Útlendingastofnunar á því hvort kærandi teljist einstaklingur í sérstaklega viðkvæmri stöðu í skilningi 6. tölul. 3. gr. laga um útlendinga. Kærandi gerir einnig athugasemd við beitingu reglugerðar nr. 276/2018, um breytingu á reglugerð nr. 540/2017 um útlendinga, þar sem hugtakið sérstakar ástæður sé útfært nánar. Kveði kærandi að reglugerðina skorti lagastoð í þeim tilvikum sem hún gangi lengra en ákvæði laga um útlendinga heimila og gangi í raun gegn vilja löggjafans. Við vinnslu málsins hafi Útlendingastofnun því ekki átt að horfa til afmarkaðra og þröngra skilyrða umræddrar reglugerðar heldur hafi stofnuninni borið að framkvæma heildstætt mat á einstaklingsbundnum aðstæðum kæranda og þær afleiðingar sem endursending gæti haft í för með sér fyrir hann og þær aðstæður sem kærandi muni standa frammi fyrir í Noregi komi til endursendingar.

Kærandi byggir á því að ótækt sé að beita heimild c-liðar 1. mgr. 36. gr. laga um útlendinga þar sem íslenskum stjórnvöldum sé skylt að taka mál hans til efnislegrar meðferðar vegna sérstakra ástæðna sbr. 2. mgr. 36. gr. sömu laga. Rétt sé að undirstrika að 1. mgr. 36. gr. laga um útlendinga kveði aðeins á um heimild til handa stjórnvöldum til að synja umsækjendum um alþjóðlega vernd til efnismeðferðar nema tilgreindir stafliðir eigi við. Meginregla laganna sé því að allar umsóknir skuli taka til efnismeðferðar nema að undantekningarreglur laganna eigi við. Stjórnvöld þurfi við mat á því hvort sérstakar ástæður í skilningi 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga eigi við, að kanna hvort umsækjandi muni eiga erfitt uppdráttar í viðtökuríki, annað hvort vegna einstaklingsbundinna aðstæðna sinna eða vegna almennra aðstæðna í viðtökuríki. Í þeim tilvikum sem annað eða bæði þessara atriða eigi við beri að líta svo á að sérstakar ástæður séu fyrir hendi í málinu og það skuli því almennt tekið til efnismeðferðar. Um mat á því hvenær einstaklingur telst eiga erfitt uppdráttar í viðtökuríki vísar kærandi til fyrri úrskurða kærunefndar. Telur kærandi varhugavert að endursenda hann til Noregs vegna þess réttindaleysis sem hann hefur mátt búa við síðustu ár, auk þess sem þar bíði hans þriggja mánaða fangelsisvist og síðar endursending til heimaríkis. Þá séu verulegar líkur á að hann verði hnepptur í varðhald við endursendingu til Noregs.

Kærandi byggir kröfu sína í öðru lagi á því að ótækt sé að beita heimild c-liðar 1. mgr. 36. gr. laga um útlendinga í tilviki hans þar sem hann nýtur verndar 2. mgr. 42. gr. sömu laga. Þegar svo ber undir sé stjórnvöldum skylt að taka mál til efnismeðferðar skv. 3. mgr. 36. gr. sömu laga. Íslenska ríkið sé bundið af grundvallarreglunni um að vísa fólki ekki brott þangað sem líf þess eða frelsi kann að vera í hættu samkvæmt skuldbindingum í alþjóðlegum mannréttindasamningum og eftir viðurkenndum grundvallarreglum þjóðaréttar. Í máli þessu liggi fyrir að kærandi hafi fengið lokasynjun umsóknar sinnar um alþjóðlega vernd í Noregi og standi hann því að öllum líkindum frammi fyrir flutningi þaðan til heimaríkis. Norsk stjórnvöld hafi áður sent umsækjendur til [...] í hræðilegar aðstæður. Þá greini heimildir frá því að í Noregi séu umsækjendur settir í varðhald þegar tekin hefur verið ákvörðun um að brottvísa þeim frá landinu. Íslensk stjórnvöld verði að tryggja, sbr. 2. mgr. 42. gr. laga um útlendinga, að kærandi verði ekki áframsendur frá Noregi til svæðis þar sem hann verði m.a. í yfirvofandi hættu á að láta lífið eða verða fyrir ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð.

V. Niðurstaða kærunefndar útlendingamála

Ákvæði 1. mgr. 36. gr. laga um útlendinga

Í 1. mgr. 36. gr. laga um útlendinga er mælt fyrir um að umsókn um alþjóðlega vernd skuli tekin til efnismeðferðar nema undantekningar sem greindar eru í a-, b- og c-liðum ákvæðisins eigi við. Samkvæmt c-lið 1. mgr. 36. gr. laga um útlendinga er stjórnvöldum heimilt að synja því að taka umsókn um alþjóðlega vernd til efnismeðferðar ef krefja má annað ríki, sem tekur þátt í samstarfi á grundvelli samninga sem Ísland hefur gert um viðmiðanir og fyrirkomulag við að ákvarða hvaða ríki skuli fara með beiðni um alþjóðlega vernd sem lögð er fram hér á landi eða í einhverju samningsríkjanna, um að taka við umsækjanda. Í samræmi við samning ráðs Evrópusambandsins og Íslands og Noregs um þátttöku hinna síðarnefndu í framkvæmd, beitingu og þróun Schengen-gerðanna samþykkti Ísland áðurnefnda Dyflinnarreglugerð, sbr. auglýsingu í C-deild Stjórnartíðinda nr. 1/2014.

Í III. kafla Dyflinnarreglugerðarinnar koma fram viðmið, í ákveðinni forgangsröð, um hvaða ríki skuli bera ábyrgð á umsókn um alþjóðlega vernd. Ábyrgð Noregs á umsókn kæranda er byggð á d-lið 1. mgr. 18. gr. Dyflinnarreglugerðarinnar þar sem kærandi hafi fengið synjun á umsókn sinni um alþjóðlega vernd þar í landi. Samkvæmt framansögðu er heimilt að krefja norsk stjórnvöld um að taka við kæranda, sbr. c-lið 1. mgr. 36. gr. laga um útlendinga.

Einstaklingsbundnar aðstæður kæranda

Samkvæmt gögnum málsins er kærandi þrítugur karlmaður sem staddur er einsamall hér á landi. Í viðtölum hjá Útlendingastofnun greindi kærandi m.a. frá því að andleg heilsa hans væri ekki góð og hann svæfi illa. [...] hafi haft mikil áhrif á hann. Í gögnum frá Göngudeild sóttvarna, dags. 26. september 2019 og 2. desember 2019, kemur m.a. fram að kærandi sé hraustlegur og almennt heilbrigður en hafi átt erfitt með svefn út af stressi.

Í málinu liggja fyrir gögn um heilsufar kæranda, sem hann hefur lagt fram við meðferð málsins. Kæranda var leiðbeint með tölvupósti kærunefndar, dags. 4. febrúar 2020, um framlagningu frekari gagna. Í svari frá talsmanni kæranda, dags. 7. febrúar 2020, kom fram að engin ný gögn lægju fyrir í málinu. Það er mat kærunefndar, m.a. í ljósi framangreindrar málsmeðferðar, að málið sé nægjanlega upplýst með tilliti til heilsufars.

Aðstæður í Noregi

Kærunefnd útlendingamála hefur lagt mat á aðstæður og málsmeðferð umsókna um alþjóðlega vernd í Noregi, m.a. með hliðsjón af eftirfarandi skýrslum og gögnum:

  • 2017 Country Reports on Human Rights – Norway (United States Department of State, 20. apríl 2018);
  • 2018 Country Reports on Human Rights – Norway (United States Department of State, 13. mars 2019);
  • Amnesty International Report 2017/18 – Norway (Amnesty International, 22. febrúar 2018);
  • Annual Report on the Situation of Asylum in the European Union 2018 (European Asylum Support Office, 1. júní 2019);
  • Freedom in the World 2019 – Norway (Freedom House, 29. janúar 2019);
  • Informasjonsnotat om asylankomster – Første halvår 2019 (Utlendingsdirektoratet, 2019);
  • Norway Immigration Detention Profile (af vefsíðu Global Detention Project, www.globaldetentionproject.org/countries/europe/norway, febrúar 2018);
  • The Organisation of Reception Facilities for Asylum Seekers in Norway (Utlendingsdirektoratet, 2014);
  • Your rights to healthcare as a refugee or an asylum seeker (af vefsíðu lýðheilsustofnunar Noregs, www.helsenorge.no, 10. desember 2019) og
  • Upplýsingar af vefsíðum landinfo (www.landinfo.no), norsku útlendingastofnunarinnar (www.udi.no), norsku kærunefndar útlendingamála (www.une.no), norska heilbrigðisráðuneytisins (www.legemiddelverket.no), um heilbrigðiskerfið í Noregi (www.helsenorge.no) og norskra hjálparsamtaka fyrir umsækjendur um alþjóðlega vernd (www.noas.no).

Af framangreindum skýrslum og gögnum má ráða að útlendingastofnun Noregs (n. Utlendingsdirektoratet) tekur ákvarðanir er varða umsóknir um alþjóðlega vernd þar í landi. Neikvæða ákvörðun útlendingastofnunar er þá hægt að kæra til sérstakrar kærunefndar útlendingamála (n. Utlendingsnemnda). Fái umsækjandi um alþjóðlega vernd í Noregi synjun á umsókn sinni hjá útlendingastofnun eða kærunefnd á hann möguleika á því að bera málið undir dómstóla. Þá geta umsækjendur um alþjóðlega vernd óskað eftir endurupptöku á máli sínu hjá kærunefndinni m.a. á grundvelli nýrra gagna sem gefa til kynna að úrskurður kærunefndarinnar sé byggður á röngum upplýsingum um umsækjanda eða um aðstæður hans. Þá geta umsækjendur, sem telja á sér brotið í samskiptum sínum við stjórnvöld, kvartað til umboðsmanns norska þingsins (n. Sivilombudsmannen). Umsækjendur um alþjóðlega vernd eiga þess kost að leggja fram beiðni fyrir Mannréttindadómstól Evrópu um bráðabirgðaráðstöfun skv. 39. gr. málsmeðferðarreglna dómstólsins, telji þeir endanlega niðurstöðu um synjun á alþjóðlegri vernd og brottvísun til heimaríkis hafa í för með sér hættu á ofsóknum eða að um meðferð sé að ræða sem brjóti í bága við ákvæði mannréttindasáttmálans.

Í ofangreindum gögnum kemur fram að umsækjendur um alþjóðlega vernd í Noregi geta fengið ákveðinn fjölda klukkustunda í lögfræðiþjónustu endurgjaldslaust ef umsókn þeirra um vernd hefur verið synjað af útlendingastofnun Noregs. Umsækjendur eiga því rétt á lögfræðiaðstoð sér að kostnaðarlausu við meðferð máls á kærustigi og hafa þeir nokkurt val um hvaða lögfræðingur sinni þeirra máli. Jafnframt geta umsækjendur um alþjóðlega vernd leitað til mannúðarsamtaka sem veita lögfræðiþjónustu.

Af rannsókn kærunefndar á viðtöku umsækjenda um alþjóðlega vernd sem hafa fengið synjun í Noregi, en sæta endursendingu þangað frá öðrum aðildarríkjum Dyflinnarreglugerðarinnar, verður ráðið að þeir dvelji yfirleitt í svokölluðum viðkomumiðstöðvum (e. transit centres) þar til þeir eru endursendir til heimaríkis. Í viðkomumiðstöðvum í Noregi, líkt og í öðrum móttökumiðstöðvum, fá umsækjendur fæði og klæði eftir þörfum, auk vasapeninga. Þá eiga umsækjendur sem hafa fengið synjun á umsókn sinni rétt á nauðsynlegri heilbrigðisþjónustu, þ. á m. geðheilbrigðisþjónustu. Eftir að synjun á umsókn liggur fyrir þarf viðkomandi einstaklingur almennt að greiða fyrir heilbrigðisþjónustu. Standi hann ekki undir þeim kostnaði er sá kostaður greiddur af heilbrigðisyfirvöldum í Noregi. Kærunefnd hefur í öðrum málum sem nefndin hefur haft til meðferðar aflað upplýsinga frá norskum stjórnvöldum um ýmis atriði er lúta að umsækjendum um alþjóðlega vernd þar í landi, s.s. hvað varðar þjónustu, varðhald og aðstoð við heimför. Í þeim upplýsingum kemur m.a. fram að varðhaldi sé ekki beitt sjálfkrafa við endurviðtöku en lögreglan framkvæmi mat á hættu á flótta í hverju tilviki fyrir sig. Þá má ráða af fyrrgreindum upplýsingum frá norskum stjórnvöldum sem og ofangreindum skýrslum að einstaklingar sem hlotið hafa neikvæða niðurstöðu í máli sínu í Noregi geti almennt sótt um aðstoð við heimför hjá Alþjóðastofnun um fólksflutninga (e. International Organization for Migration) og norskum lögregluyfirvöldum. Þá er ljóst af ofangreindum gögnum að í Noregi sé starfandi skilvirk löggæsla sem lúti styrkri stjórn yfirvalda.

Ákvæði 3. mgr. 36. gr. laga um útlendinga

Í 3. mgr. 36. gr. laganna kemur fram að ef beiting 1. mgr. myndi leiða til þess að brotið væri gegn 42. gr., t.d. vegna aðstæðna í því ríki sem senda á umsækjanda til, skuli taka umsókn til efnismeðferðar. Í 1. mgr. 42. gr. laga um útlendinga er kveðið á um að ekki sé heimilt að senda útlending eða ríkisfangslausan útlending til svæðis þar sem hann hefur ástæðu til að óttast ofsóknir, sbr. 37. og 38. gr., eða vegna svipaðra aðstæðna og greinir í flóttamannahugtakinu er í yfirvofandi hættu á að láta lífið eða verða fyrir ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð. Þá segir í 2. mgr. ákvæðisins að 1. mgr. eigi einnig við um sendingu útlendings til svæðis þar sem ekki er tryggt að hann verði ekki sendur áfram til slíks svæðis sem greinir í 1. mgr. Við túlkun á inntaki 42. gr. laga um útlendinga telur kærunefnd jafnframt að líta verði til þess að ákvörðun aðildarríkis um brottvísun eða frávísun sem setur einstakling í raunverulega hættu á að verða fyrir pyndingum, ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu er í andstöðu við 3. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994, sbr. jafnframt 68. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands, nr. 33/1944.

Í dómaframkvæmd Mannréttindadómstóls Evrópu hefur verið byggt á því að sú meðferð sem einstaklingur á von á við brottvísun eða frávísun verði að ná tilteknu lágmarks alvarleikastigi til að ákvörðunin verði talin brot á 3. gr. mannréttindasáttmálans. Horfa verði til allra aðstæðna í fyrirliggjandi máli, svo sem lengdar og eðlis meðferðar, andlegra og líkamlegra áhrifa hennar auk stöðu einstaklings hverju sinni, svo sem kyns, aldurs og heilsufars. Við mat á umræddu alvarleikastigi hefur dómstóllinn jafnframt litið til annarra þátta, t.d. hvort einstaklingurinn er í viðkvæmri stöðu, sbr. t.d. dóm Mannréttindadómstóls Evrópu í máli Khlaifia o.fl. gegn Ítalíu (nr. 16483/12) frá 15. desember 2016. Í því sambandi hefur dómstóllinn lagt ákveðna áherslu á að umsækjendur um alþjóðlega vernd tilheyri jaðarsettum og viðkvæmum þjóðfélagshóp sem þurfi sérstaka vernd, sbr. t.d. dóm í máli Tarakhel gegn Sviss (nr. 29217/12) frá 4. nóvember 2012. Þrátt fyrir það verði 3. gr. mannréttindasáttmálans ekki túlkuð á þann hátt að í greininni felist skylda aðildarríkja til að sjá umsækjendum um alþjóðlega vernd fyrir húsnæði eða fjárhagsaðstoð sem geri þeim kleift að viðhalda ákveðnum lífskjörum, sbr. dóm í máli M.S.S. gegn Belgíu og Grikklandi (nr. 30696/09) frá 21. janúar 2011.

Með vísan til umfjöllunar um aðstæður og móttökuskilyrði umsækjenda um alþjóðlega vernd í Noregi er það niðurstaða kærunefndar að synjun á efnismeðferð umsóknar kæranda um alþjóðlega vernd leiði ekki til brots gegn 1. mgr. 42. gr. laga um útlendinga, sbr. jafnframt 3. gr. mannréttindasáttmála Evrópu. Þá benda öll gögn til þess að kærandi hafi raunhæf úrræði í Noregi, bæði fyrir landsrétti og fyrir Mannréttindadómstól Evrópu, sbr. jafnframt 13. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, sem tryggja að hann verði ekki sendur áfram til annars ríkis þar sem líf hans eða frelsi kann að vera í hættu, sbr. 2. mgr. 42. gr. laga um útlendinga.

Áður hefur verið fjallað um málsmeðferð umsókna um alþjóðlega vernd í Noregi, þ.m.t. möguleika umsækjenda til að fá ákvarðanir um synjun verndar endurskoðaðar hjá norskum yfirvöldum. Norsk yfirvöld eru bundin af sambærilegum reglum og Ísland um vernd gegn brottvísun umsækjenda um alþjóðlega vernd til ríkis þar sem einstaklingar eiga á hættu að verða fyrir ofsóknum og lífi þeirra og frelsi ógnað (non-refoulement), sbr. 73. gr. norskra laga um útlendinga (n. Lov om utlendingers adgang til riket og deres opphold her). Að mati kærunefndar bera gögn málsins jafnframt með sér að í Noregi sé veitt raunhæf vernd gegn því að fólki sé vísað brott eða endursent til ríkja þar sem það eigi á hættu að verða fyrir ofsóknum eða þar sem lífi þess og frelsi er ógnað. Í því sambandi hefur kærunefnd einkum litið til þess að gögnin benda til þess að meðferð norskra stjórnvalda á umsóknum um alþjóðlega vernd sé með þeim hætti að lagt sé einstaklingsbundið mat á aðstæður þeirra. Þótt fyrir liggi að kærandi hafi fengið synjun á umsókn sinni um alþjóðlega vernd telur kærunefnd að gögn málsins, gefi ekki til kynna að endursending kæranda til viðtökuríkis sé í andstöðu við 1. mgr. 42. gr. laga um útlendinga, sbr. 2. mgr. ákvæðisins.

Ákvæði 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga

Í 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga kemur fram að ef svo standi á sem greini í 1. mgr. skuli þó taka umsókn um alþjóðlega vernd til efnismeðferðar ef útlendingurinn hefur slík sérstök tengsl við landið að nærtækast sé að hann fái hér vernd eða ef sérstakar ástæður mæli annars með því. Í 32. gr. a og 32. gr. b reglugerðar um útlendinga nr. 540/2017, sbr. 4. mgr. 36. gr. laganna, koma fram viðmið varðandi mat á því hvort taka skuli umsókn um alþjóðlega vernd til efnismeðferðar vegna sérstakra tengsla eða ef sérstakar ástæður mæla með því. Þá segir í 2. mgr. 36. gr. laganna að ef meira en 12 mánuðir hafa liðið frá því að umsókn um alþjóðlega vernd barst fyrst íslenskum stjórnvöldum og tafir á afgreiðslu hennar eru ekki á ábyrgð umsækjanda sjálfs skal taka hana til efnismeðferðar.

Aðstæðum kæranda hefur þegar verið lýst og telur kærunefnd að þær séu ekki þess eðlis að þær teljist til sérstakra ástæðna í skilningi 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga eða samkvæmt þeim viðmiðum sem talin eru upp í dæmaskyni í 32. gr. a reglugerðar um útlendinga. Í greinargerð kæranda er vísað til þess að hann hafi fengið lokasynjun á umsókn sinni um alþjóðlega vernd í Noregi og standi frammi fyrir brottvísun þaðan. Eins og áður hefur komið fram er það mat nefndarinnar að málsmeðferð norskra yfirvalda sé með þeim hætti að einstaklingsbundið mat sé lagt á aðstæður umsækjenda og að málsmeðferðin veiti fullnægjandi vernd gegn því að fólk sé endursent þangað sem það eigi á hættu að verða fyrir ofsóknum eða lífi þess eða frelsi ógnað. Að mati nefndarinnar verður ekki talið að einstaklingsbundnar aðstæður kæranda séu þess eðlis að hann verði talinn eiga erfitt uppdráttar vegna þessara aðstæðna eða að sérstakar ástæður séu að öðru leyti fyrir hendi í málinu á þessum grundvelli. Þá telur kærunefnd að gögn málsins beri ekki með sér að kærandi muni eiga erfitt uppdráttar í viðtökuríki vegna alvarlegrar mismununar eða að hann geti af sömu ástæðu vænst þess að staða hans verði verulega síðri en staða almennings í viðtökuríki, sbr. áðurnefnd viðmið í 32. gr. a reglugerðar um útlendinga. Þá benda þau gögn sem kærunefnd hefur kynnt sér til þess að telji kærandi sér mismunað eða óttist hann um öryggi sitt að einhverju leyti geti hann leitað aðstoðar hjá þar til bærum stjórnvöldum í Noregi.

Hvað varðar sjónarmið kæranda um að varðhald í Noregi kunni að bíða hans við komuna þangað til lands áréttar kærunefnd það sem þegar hefur komið fram um varðhald þar í landi. Umsækjendum um alþjóðlega vernd sem hlotið hafa endanlega neikvæða niðurstöðu í Noregi getur, eftir atvikum, verið gert að sæta varðhaldi í samræmi við skilyrði norskra laga þar um og getur það t.d. átt við þegar einstaklingur á yfir höfði sér brottvísun og grunur leikur á um að hann muni koma sér undan slíkri ákvörðun. Kærandi vísar einnig til þess í greinargerð sinni að hans bíði fangelsisvist við komuna til Noregs. Telur kærunefnd að almennt sé aðbúnaður í norskum fangelsum og varðhaldsmiðstöðvum í samræmi við gildandi lög og grundvallarréttindi þar í landi og reglur sem leiða m.a. af mannréttindasáttmála Evrópu. Með hliðsjón af framangreindu telur nefndin því ljóst að sá möguleiki að kærandi kunni að vera færður í varðhald eða fangelsi leiði ekki til þess að fyrir hendi séu sérstakar ástæður í máli hans af þeim sökum.

Að því er heilsufar kæranda varðar telur nefndin að heilsufar hans sé ekki með þeim hætti að hann teljist glíma við mikil og alvarleg veikindi, s.s. skyndilegan og lífshættulegan sjúkdóm og meðferð við honum er aðgengileg hér á landi en ekki í viðtökuríki eins og segir í 2. mgr. 32. gr. a reglugerðarinnar.

Þá telur nefndin að heilbrigðisaðstæður kæranda geti ekki talist til ástæðna sem séu svo einstaklingsbundnar og sérstakar að ekki verði framhjá þeim litið, sbr. 3. mgr. sömu greinar. Af þeim gögnum sem kærunefnd hefur kynnt sér um aðstæður og aðbúnað umsækjenda um alþjóðlega vernd í Noregi verður ráðið að umsækjendur sem hafa fengið synjun á umsókn sinni um alþjóðlega vernd þar í landi eigi rétt á nauðsynlegri heilbrigðisþjónustu, þ. á m. geðheilbrigðisþjónustu. Að framangreindu virtu er það mat kærunefndar að kærandi komi því til með að hafa aðgang að fullnægjandi heilbrigðisþjónustu þar í landi, en hann mun e.t.v. þurfa að greiða fyrir slíka þjónustu sjálfur. Það er mat kærunefndar að aðstæður kæranda séu ekki slíkar að hann muni ekki geta sótt sér þá heilbrigðisþjónustu eða aðra þá þjónustu sem hann þarf á að halda í Noregi.

Það er jafnframt mat kærunefndar að málsástæður kæranda að öðru leyti verði ekki taldar til sérstakra ástæðna í skilningi 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga.

Vegna tilvísunar í greinargerð kæranda til úrskurða kærunefndar í málum 550/2017, 552/2017 frá 10. október 2017, og úrskurða nr. 583/2017 og 586/2017 frá 24. október 2017, tekur kærunefnd fram að ekki sé hægt að jafna stöðu kæranda í þessu máli við stöðu kærenda í framangreindum úrskurðum enda ekki um að ræða sömu viðtökuríki auk þess sem aðstæður þeirra séu einnig ólíkar að öðru leyti.

Að teknu tilliti til einstaklingsbundinna aðstæðna kæranda er það mat kærunefndar að ekki séu fyrir hendi sérstakar ástæður sem mæli með því að mál hans verði tekið til efnismeðferðar hér á landi, sbr. 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga.

Kærandi kvaðst í viðtali hjá Útlendingastofnun þann 4. október 2019 ekki hafa sérstök tengsl við Ísland. Þar að auki er ekkert í gögnum málsins sem bendir til þess að kærandi hafi slík tengsl við landið að beita beri ákvæði 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga.

Þá telur kærunefnd ljóst að síðari málsliður 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga eigi ekki við í máli kæranda þar sem ekki eru liðnir 12 mánuðir frá því að kærandi sótti um alþjóðlega vernd hér á landi, en hann lagði fram umsókn sína þann 13. september 2019.

Athugasemdir kæranda við hina kærðu ákvörðun

Svo sem fram hefur komið gerir kærandi ýmsar athugasemdir við hina kærðu ákvörðun, m.a. við umfjöllun stofnunarinnar um aðgang að grunnþjónustu í Noregi eftir að umsókn hefur verið synjað og mat stofnunarinnar á viðkvæmri stöðu kæranda. Þá gerir kærandi athugasemd við lagastoð og beitingu reglugerðar nr. 276/2018 um breytingu á reglugerð um útlendinga.

Eins og að framan greinir hefur kærunefnd lagt einstaklingsbundið mat á umsókn kæranda og komist að niðurstöðu um að taka umsókn hans ekki til efnismeðferðar með vísan til ákvæða laga um útlendinga eins og þau hafa verið útfærð í reglugerð um útlendinga. Er niðurstaða í málinu byggð á túlkun kærunefndar á framangreindum ákvæðum og sjónarmiðum sem nefndin telur málefnaleg en áður hefur komið fram í úrskurðum kærunefndar að reglugerðina skorti ekki lagastoð. Að mati kærunefndar er því ekki tilefni til frekari umfjöllunar um athugasemdir kæranda að þessu leyti.

Vegna athugasemda kæranda í greinargerð um beitingu ákvæða 32. gr. a reglugerðar um útlendinga tekur kærunefnd sérstaklega fram að hún telji ljóst að það leiði bæði af orðalaginu „viðmið“ og tilvísun í reglugerðinni um að þau séu í „dæmaskyni“ að ekki sé um að ræða tæmandi upptalningu á þeim sjónarmiðum sem komið geta til greina við mat á því hvort sérstakar ástæður eru fyrir hendi í máli. Kærunefnd áréttar í þessu samhengi að við meðferð mála hjá kærunefnd er ávallt horft til einstaklingsbundinna aðstæðna einstaklingsins við mat á því hvort sérstakar ástæður mæli með því að mál verði tekið til efnismeðferðar, í skilningi 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga, þ.m.t. heilsufars hans og annarra þátta sem benda til viðkvæmrar stöðu einstaklingsins. Kærunefnd leggur því áherslu á að heildarmat sé lagt á atvik í hverju máli fyrir sig á grundvelli einstaklingsbundinna aðstæðna einstaklingsins og aðstæðna í viðtökuríki.

Kærunefnd hefur farið yfir hina kærðu ákvörðun og telur ekki tilefni til þess að gera athugasemdir við hana. Hefur kærunefnd skoðað alla þætti málsins og komist að sömu niðurstöðu og Útlendingastofnun. Að mati kærunefndar er því ekki tilefni til frekari umfjöllunar um athugasemdir kæranda.

Frávísun

Kærandi kom hingað til lands þann 13. september 2019 og sótti um alþjóðlega vernd sama dag. Eins og að framan greinir hefur umsókn hans um alþjóðlega vernd verið synjað um efnismeðferð og hefur hann því ekki tilskilin leyfi til dvalar enda verður að líta á umsókn hans um alþjóðlega vernd sem áform um að dveljast í landinu meira en 90 daga, sbr. til hliðsjónar 3. mgr. 42. gr. reglugerðar um útlendinga. Verður kæranda því vísað frá landinu á grundvelli c-liðar 1. mgr. 106. gr. laga um útlendinga, sbr. 2. og 5. mgr. 106. gr. laganna, enda hafði hann verið hér á landi í innan við níu mánuði þegar málsmeðferð umsóknar hans hófst hjá Útlendingastofnun.

Kærandi skal fluttur til Noregs innan tilskilins frests nema ákveðið verði að fresta réttaráhrifum úrskurðar þessa að kröfu kæranda, sbr. 6. mgr. 104. gr. laga um útlendinga.

Samantekt

Í máli þessu hafa norsk stjórnvöld fallist á að taka við kæranda og umsókn hans um alþjóðlega vernd á grundvelli ákvæða Dyflinnarreglugerðarinnar. Í ljósi alls ofangreinds er það niðurstaða kærunefndar að rétt sé að synja því að taka til efnismeðferðar umsókn kæranda um alþjóðlega vernd hér á landi og senda kæranda til Noregs með vísan til c-liðar 1. mgr. 36. gr. laga um útlendinga.

Ákvörðun Útlendingastofnunar er því staðfest.

Athygli kæranda er vakin á því að skv. 6. mgr. 104. gr. laga um útlendinga frestar málshöfðun fyrir dómstólum til ógildingar á endanlegri ákvörðun um að útlendingur skuli yfirgefa landið ekki framkvæmd hennar. Að kröfu útlendings getur kærunefnd útlendingamála þó ákveðið að fresta réttaráhrifum endanlegrar ákvörðunar sé talin ástæða til þess. Krafa þess efnis skal gerð ekki síðar en sjö dögum frá birtingu endanlegrar ákvörðunar. Skal frestun bundin því skilyrði að útlendingur beri málið undir dómstóla innan fimm daga frá birtingu ákvörðunar um frestun réttaráhrifa úrskurðar og óski eftir að það hljóti flýtimeðferð. Nú er beiðni um flýtimeðferð synjað og skal þá mál höfðað innan sjö daga frá þeirri synjun. Þó getur kærunefnd útlendingamála tekið ákvörðun um að fresta framkvæmd ef sýnt er fram á að verulega breyttar aðstæður hafi skapast frá því að endanleg ákvörðun var tekin. 

 

Úrskurðarorð

Ákvörðun Útlendingastofnunar er staðfest.

The decision of the Directorate of Immigration is affirmed.

Áslaug Magnúsdóttir

Þorbjörg Inga Jónsdóttir                                                                             Bjarnveig Eiríksdóttir


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta