Hoppa yfir valmynd

Mál nr. 119/2013

Fimmtudaginn 29. október 2015

 

A og B

gegn

umboðsmanni skuldara

 

Úrskurður

Mál þetta úrskurða Sigríður Ingvarsdóttir formaður, Eggert Óskarsson og Lára Sverrisdóttir.

Þann 29. júlí 2013 barst kærunefnd greiðsluaðlögunarmála kæra A og B. Kærð var ákvörðun umboðsmanns skuldara sem tilkynnt var með bréfi 12. júlí 2013 þar sem greiðsluaðlögunarumleitanir kærenda voru felldar niður.

Með bréfi 9. ágúst 2013 óskaði kærunefnd greiðsluaðlögunarmála eftir greinargerð umboðsmanns skuldara sem barst með bréfi 13. ágúst 2013.

Greinargerðin var send kærendum til kynningar með bréfi 15. ágúst 2013 og þeim gefinn kostur á að koma að athugasemdum. Ítrekun var send 6. mars 2014. Engar athugasemdir bárust.

 

I. Málsatvik

Kærendur eru fædd 1964 og 1967. Þau búa ásamt þremur börnum sínum í 120 fermetra leiguhúsnæði að C götu nr. 11 í sveitarfélaginu D. Kærandi B greiðir meðlag með tveimur öðrum börnum sínum.

Kærandi A starfar á leikskóla en kærandi B er löndunarstjóri.

Heildarskuldir kærenda, samkvæmt skuldayfirliti umboðsmanns skuldara, eru 43.149.415 krónur.

Kærendur rekja greiðsluerfiðleika sína til tekjulækkunar og veikinda.

Kærendur sóttu um greiðsluaðlögun 27. apríl 2011. Með ákvörðun umboðsmanns skuldara 14. febrúar 2012 var kærendum veitt heimild til greiðsluaðlögunar og umsjónarmaður skipaður með greiðsluaðlögunarumleitunum þeirra. Í fylgiskjali með ákvörðun umboðsmanns var upplýst um skyldur skuldara við greiðsluaðlögun samkvæmt 12. gr. laga um greiðsluaðlögun einstaklinga (lge.).

Með bréfi umsjónarmanns til umboðsmanns skuldara 7. janúar 2013 lagði umsjónarmaður til að greiðsluaðlögunarumleitanir kærenda yrðu felldar niður samkvæmt 15. gr. lge.

Í bréfinu er vísað til þess að við meðferð málsins hafi komið fram að kærendur hefðu ekkert lagt til hliðar, þrátt fyrir verulega greiðslugetu. Ástæður þess hafi kærendur kveðið háan framfærslukostnað og búsetu kæranda B í öðru sveitarfélagi þar sem hann stundaði atvinnu. Þar þyrfti hann að leigja sér húsnæði og greiða ferðakostnað. Kærendur hefðu verið beðin um að styðja þetta gögnum en viðhlítandi gögn hefðu ekki verið lögð fram. Með vísan til þessa teldi umsjónarmaður að fram væru komnar upplýsingar sem ætla mætti að hindruðu að greiðsluaðlögun kærenda væri heimil, sbr. a-lið 1. mgr. 12. gr. lge.

Með bréfi umboðsmanns skuldara til kærenda 14. júní 2013 var þeim gefinn kostur á að láta álit sitt í ljós innan tilskilins frests og leggja fram frekari gögn áður en umboðsmaður skuldara tæki ákvörðun um hvort fella skyldi niður greiðsluaðlögunarumleitanir kærenda, sbr. 1. mgr. 15. gr. lge. Kærendur hafi ekki svarað bréfinu.

Með bréfi til kærenda 12. júlí 2013 felldi umboðsmaður skuldara greiðsluaðlögunarumleitanir þeirra niður með vísan til 15. gr., sbr. a-lið 1. mgr. 12. gr. lge.

 

II. Sjónarmið kærenda

Kærendur gera ekki kröfur í málinu en skilja verður kæru þeirra þannig að þess sé krafist að ákvörðun umboðsmanns skuldara verði felld úr gildi.

Kærendur gera athugasemd við langan málsmeðferðartíma hjá umboðsmanni skuldara en færa ekki efnisleg rök fyrir kæru sinni.

 

III. Sjónarmið umboðsmanns skuldara

Af hálfu umboðsmanns skuldara er vísað til þess að komi fram upplýsingar sem ætla megi að hindri að greiðsluaðlögun sé heimil á grundvelli lge., skuli umsjónarmaður tilkynna um það til umboðsmanns skuldara sem í kjölfarið taki afstöðu til málsins með rökstuddri ákvörðun, sbr. 1. mgr. 15. gr. lge. Skuldara skuli gefið tækifæri til að láta álit sitt í ljós áður en slík ákvörðun sé tekin. Samkvæmt a-lið 1. mgr. lagagreinarinnar skuli skuldari leggja til hliðar af launum og öðrum tekjum sínum það fé sem sé umfram það sem hann þurfi til að sjá sér og fjölskyldu sinni farborða.

Greiðsluskjól kærenda hafi staðið yfir í rúmlega 24 mánuði en miðað sé við tímabilið frá 1. maí 2011 til 31. maí 2013. Samkvæmt fyrirliggjandi gögnum hafi kærendur haft neðangreindar tekjur á tímabilinu í krónum:

 

Launatekjur 1. maí 2011 til 31. maí 2013 að frádregnum skatti 15.264.864
Barnabætur, vaxtabætur, leigutekjur o.fl. 1.745.910
Samtals 17.010.774
Mánaðarlegar meðaltekjur 708.782
Framfærslukostnaður á mánuði 525.074
Greiðslugeta að meðaltali á mánuði 183.708
Samtals greiðslugeta í 24 mánuði 4.408.998

 

Samkvæmt þessu verði lagt til grundvallar að kærendur hafi haft 708.782 krónur í meðaltekjur á mánuði á 24 mánaða tímabili sem notað sé til viðmiðunar á þeim tíma er kærendur nutu greiðsluskjóls.

Samkvæmt 4. mgr. 16. gr. lge. skuli umsjónarmaður notast við framfærsluviðmið sem umboðsmaður skuldara setji. Sé umsjónarmanni almennt óheimilt að miða við annan framfærslukostnað en þann sem reiknaður hafi verið fyrir kærendur með tilliti til fjölskylduaðstæðna. Framfærsluviðmið umboðsmanns skuldara byggist á hlutlægum viðmiðum um almenna framfærslu með tilliti til fjölskyldustærðar og taki mið af vísitölu. Að auki skuli lagt til grundvallar að við mat á því hvort kærendur hafi sinnt skyldum sínum meðan á frestun greiðslna standi, sé þeim jafnan játað nokkuð svigrúm til að mæta óvæntum útgjöldum í mánuði hverjum. Þá sé almennt tekið tillit til annarra útgjaldaliða sem fella megi undir almennan heimilisrekstur samkvæmt a-lið 1. mgr. 12. gr. lge.

Miðað við framangreindar forsendur megi ætla að mánaðarleg heildarútgjöld kærenda hafi mest verið 525.074 krónur á meðan þau hafi notið greiðsluskjóls. Miðað sé við nýjustu framfærsluviðmið kærendum í hag og framfærslukostnað júnímánaðar 2013 fyrir hjón með þrjú börn sem greiði að auki meðlag með tveimur börnum. Samkvæmt þessu sé gengið út frá því að kærendur hafi haft getu til að leggja fyrir 4.408.998 krónur á fyrrnefndu tímabili sé miðað við meðal greiðslugetu að fjárhæð 183.708 krónur á mánuði í 24 mánuði.

Við framangreindan útreikning sé gert ráð fyrir að kærendur haldi tvö heimili. Þannig sé gert ráð fyrir leigu- og ferðakostnaði vegna atvinnu kæranda B í sveitarfélaginu D. Frá ofangreindum 4.408.998 krónum séu dregnar frá 775.000 krónur samkvæmt kvittunum vegna leigukostnaðar. Niðurstaðan sé því sú að kærendur hefðu átt að geta lagt fyrir 3.633.998 krónur í greiðsluskjólinu.

Að framangreindu virtu og með hliðsjón af gögnum málsins hafi ekki verið hjá því komist að fella niður greiðsluaðlögunarumleitanir kærenda samkvæmt 15. gr., sbr. a-lið 1. mgr. 12. gr. lge.

Umboðsmaður skuldara fer fram á að hin kærða ákvörðun verði staðfest með vísan til forsendna sem fram komi í henni.

 

IV. Niðurstaða

Ákvörðun umboðsmanns skuldara byggist á 15. gr. lge. með vísan til a-liðar 1. mgr. 12. gr. lge., þar sem fjallað er um skyldur skuldara á meðan leitað er greiðsluaðlögunar.

Samkvæmt a-lið 1. mgr. 12. gr. lge. skal skuldari leggja til hliðar af launum og öðrum tekjum það fé sem er umfram það sem hann þarf til að sjá sér og fjölskyldu sinni farborða. Í 2. mgr. 12. gr. kemur fram að telji umsjónarmaður að skuldari hafi brugðist skyldum sínum, skuli hann óska þess við umboðsmann skuldara að greiðsluaðlögunarumleitanir verði felldar niður samkvæmt 15. gr. lge.

Með bréfi til umboðsmanns skuldara 7. janúar 2013 lagði umsjónarmaður til að greiðsluaðlögunarumleitanir kærenda yrðu felldar niður samkvæmt 15. gr. lge. Í bréfinu kemur fram að kærendur hefðu brugðist skyldum sínum samkvæmt a-lið 1. mgr. 12. gr. lge. með því að láta hjá líða að leggja fé til hliðar í greiðsluskjóli. Í framhaldi af þessu felldi umboðsmaður skuldara greiðsluaðlögunarumleitanir kærenda niður 12. júlí 2013.

Ákvörðun umboðsmanns skuldara byggist á því að kærendur hafi ekki lagt til hliðar þá fjármuni sem þeim hafi verið skylt að leggja til hliðar á því tímabili sem þau nutu greiðsluskjóls. Kærendur segja framfærslukostnað sinn hafa verið háan.

Í 1. mgr. 11. gr. lge. kemur fram að frestun greiðslna hefjist þegar umboðsmaður skuldara hefur samþykkt umsókn til greiðsluaðlögunar. Samkvæmt bráðabirgðaákvæði laganna, sbr. 1. gr. laga nr. 128/2010, hófst tímabundin frestun greiðslna samkvæmt 11. gr. þegar umboðsmaður tók á móti umsókn kærenda um greiðsluaðlögun. Þá kemur einnig fram í bráðabirgðaákvæðinu að skyldur samkvæmt 12. gr. laganna eigi við þegar umboðsmaður skuldara hefur tekið á móti umsókn. Bar kærendum því að virða skyldur sínar samkvæmt 12. gr. laganna strax eftir að umsókn þeirra var móttekin hjá umboðsmanni skuldara.

Að mati umboðsmanns skuldara hafa kærendur átt að leggja til hliðar 3.633.998 krónur á tímabili greiðsluskjóls. Kærendur hafa ekki sýnt fram á að hafa lagt fé til hliðar á tímabilinu.

Samkvæmt fyrirliggjandi skattframtölum og launaupplýsingum ríkisskattstjóra, sem eru meðal gagna málsins, hafa mánaðartekjur kærenda í krónum verið eftirfarandi í greiðsluskjóli á neðangreindu tímabili:

 

Tímabilið 1. maí 2011 til 31. desember 2011: Átta mánuðir  
Nettótekjur A 928.723
Nettó mánaðartekjur A að meðaltali 116.090
Nettótekjur B 4.088.366
Nettó mánaðartekjur B að meðaltali 511.046
Nettótekjur alls 5.017.089
Mánaðartekjur alls að meðaltali 627.136


Tímabilið 1. janúar 2012 til 31. desember 2012: 12 mánuðir  
Nettótekjur A 1.587.887
Nettó mánaðartekjur A að meðaltali 132.324
Nettótekjur B 6.055.281
Nettó mánaðartekjur B að meðaltali 504.607
Nettótekjur alls 7.643.168
Mánaðartekjur alls að meðaltali 636.931


Tímabilið 1. janúar 2013 til 30. júní 2013: Sex mánuðir  
Nettótekjur A 1.079.886
Nettó mánaðartekjur A að meðaltali 179.981
Nettótekjur B 2.641.201
Nettó mánaðartekjur B að meðaltali 440.200
Nettótekjur alls 3.721.087
Mánaðartekjur alls að meðaltali 620.181


Nettótekjur alls í greiðsluskjóli 16.381.344
Nettó mánaðartekjur alls að meðaltali í greiðsluskjóli 630.052

 

Sé miðað við framfærslukostnað samkvæmt ákvörðun umboðsmanns skuldara, tekjur kærenda og bætur var greiðslugeta þeirra þessi í greiðsluskjóli í krónum:

 

Tímabilið 1. maí 2011 til 30. júní 2013: 26 mánuðir
Nettótekjur alls í greiðsluskjóli 16.381.344
Bótagreiðslur 137.040
Alls til ráðstöfunar í greiðsluskjóli 16.518.384
Mánaðarlegar ráðstöfunartekjur að meðaltali í greiðsluskjóli 635.322
Mánaðarleg útgjöld samkvæmt ákvörðun umboðsmanns 525.074
Greiðslugeta kæranda á mánuði 110.248
Alls sparnaður í 26 mánuði í greiðsluskjóli x 110.248 2.866.460

 

Í ákvörðun sinni gerir umboðsmaður skuldara ráð fyrir að kærendur hafi haft leigutekjur á tímabilinu en um það liggja ekki fyrir nein gögn og verður ekki við það miðað.

Við mat á því hvaða fjárhæð skuldarar eiga að leggja til hliðar af launum sínum í greiðsluskjóli ber samkvæmt 4. mgr. 16. gr. lge. að notast við framfærsluviðmið sem umboðsmaður skuldara setur. Þegar metið er hvort skuldari hafi sinnt skyldum sínum meðan á frestun greiðslna stendur er gert ráð fyrir svigrúmi til að mæta óvæntum útgjöldum. Í framfærslukostnaði umboðsmanns skuldara hefur verið tekið tillit til þess að annar kærenda sótti vinnu utan heimabyggðar með auknum húsnæðis- og ferðakostnaði og er þannig gert ráð fyrir að mánaðarlegur framfærslukostnaður sé 525.074 krónur. Kærendur hafa ekki gert athugasemdir við þá útreikninga.

Samkvæmt ofangreindu verður lagt til grundvallar við úrlausn málsins að kærendur hefðu átt að leggja til hliðar 2.866.460 krónur á tíma greiðsluaðlögunarumleitana en það hafi þau ekki gert. Frá þeirri fjárhæð þykir rétt að draga leigukostnað að fjárhæð 775.000 krónur í samræmi við ákvörðun umboðsmanns skuldara. Sparnaðar kærenda hefði samkvæmt því átt að vera 2.091.460 krónur.

Samkvæmt þessu fellst kærunefndin á þá niðurstöðu umboðsmanns skuldara að kærendur hafi ekki sinnt skyldum sínum samkvæmt a-lið 1. mgr. 12. gr. lge. á þeim tíma er þau nutu greiðsluskjóls. Bar umboðsmanni skuldara samkvæmt 1. mgr. 15. gr. laganna því að fella greiðsluaðlögunarumleitanir kærenda niður. Með vísan til þessa er hin kærða ákvörðun umboðsmanns skuldara staðfest.

 

ÚRSKURÐARORÐ

Ákvörðun umboðsmanns skuldara um að fella niður greiðsluaðlögunarumleitanir A og B er staðfest.

 

Sigríður Ingvarsdóttir

Eggert Óskarsson

Lára Sverrisdóttir


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta