Hoppa yfir valmynd

Mál nr. 123/2013

Fimmtudaginn 29. október 2015

 


A og B

gegn

umboðsmanni skuldara

 

Úrskurður

Mál þetta úrskurða Sigríður Ingvarsdóttir formaður, Eggert Óskarsson og Lára Sverrisdóttir.

Þann 14. ágúst 2013 barst kærunefnd greiðsluaðlögunarmála kæra A og B. Kærð var ákvörðun umboðsmanns skuldara sem tilkynnt var með bréfi 26. júlí 2013 þar sem greiðsluaðlögunarumleitanir kærenda voru felldar niður.

Með bréfi 20. ágúst 2013 óskaði kærunefnd greiðsluaðlögunarmála eftir greinargerð umboðsmanns skuldara sem barst með bréfi 2. september 2013.

Greinargerðin var send kærendum til kynningar með bréfi 6. september 2013 og þeim gefinn kostur á að koma að athugasemdum. Ítrekun var send 6. mars 2014. Frekari athugasemdir bárust ekki.

 

I. Málsatvik

Kærendur eru fædd 1981 og 1980. Þau eru gift og búa ásamt tveim börnum sínum í eigin 93 fermetra íbúð að C götu nr. 25 í sveitarfélaginu D.

Kærandi A er menntaður þyrluflugmaður en kærandi B er í námi. Tekjur kærenda eru vegna launa, námslána, barna- og vaxtabóta.

Heildarskuldir kærenda, samkvæmt skuldayfirliti umboðsmanns skuldara,p eru 49.374.743 krónur.

Kærendur rekja greiðsluerfiðleika sína meðal annars til atvinnuleysis, hækkunar lána og minnkandi kaupmáttar.

Kærendur sóttu um greiðsluaðlögun 8. febrúar 2011. Með ákvörðun umboðsmanns skuldara 16. september 2011 var kærendum veitt heimild til greiðsluaðlögunar og umsjónarmaður skipaður með greiðsluaðlögunarumleitunum þeirra. Í fylgiskjali með ákvörðun umboðsmanns var upplýst um skyldur skuldara við greiðsluaðlögun samkvæmt 12. gr. laga um greiðsluaðlögun einstaklinga (lge.).

Með bréfi umsjónarmanns til umboðsmanns skuldara 15. desember 2012 óskaði umsjónarmaður eftir því að greiðsluaðlögunarumleitanir kærenda yrðu felldar niður með vísan til 15. gr. lge. Í bréfinu kom fram að á meðan leitað sé greiðsluaðlögunar skuli skuldari leggja til hliðar af launum og öðrum tekjum sínum það fé sem sé umfram það sem hann þurfi til að sjá sér og fjölskyldu sinni farborða samkvæmt a-lið 1. mgr. 12. gr. lge. Samkvæmt 2. mgr. sömu greinar skuli umsjónarmaður óska þess við umboðsmann skuldara að greiðsluaðlögunarumleitanir verði felldar niður samkvæmt 15. gr. lge. telji hann að skuldari hafi brotið gegn skyldum sínum samkvæmt 1. mgr. 12. gr. laganna.

Umsjónarmaður vísar til þess að kærendur hefðu átt að leggja fé til hliðar á þeim tíma er þau nutu greiðsluskjóls. Reiknist umsjónarmanni til að miðað við greiðslugetu hefðu kærendur átt að geta lagt fyrir 5.259.450 krónur á tímabili greiðsluskjóls. Þau hafi aðeins lagt fyrir 1.001.153 krónur. Umsjónarmaður hafi óskað eftir skýringum kæranda á þessu. Hafi kærendur þá lagt fram útreikninga samkvæmt neysluviðmiði velferðarráðuneytisins ásamt yfirliti reikninga úr heimabanka. Hafi umsjónarmaður ekki talið þetta breyta niðurstöðu sinni um fjárhæð sparnaðar þar sem ekki sé fært að miða við önnur neysluviðmið en umboðsmaður skuldara hafi reiknað út. Telji umsjónarmaður því að kærendur hafi brugðist skyldu sinni samkvæmt a-lið 1. mgr. 12. gr. lge.

Með bréfi umboðsmanns skuldara til kærenda 15. apríl 2013 var þeim gefinn kostur á að láta álit sitt í ljós innan tilskilins frests og leggja fram frekari gögn áður en umboðsmaður skuldara tæki ákvörðun um hvort fella skyldi niður greiðsluaðlögunarumleitanir kærenda, sbr. 1. mgr. 15. gr. lge. Í svari kærenda hafi komið fram að þau hefðu orðið fyrir auknum kostnaði á tímabili greiðsluskjóls vegna tímabundinna sambúðarslita. Þau telji þennan kostnað falla undir það að sjá fjölskyldu sinni farborða.

Með bréfi til kærenda 26. júlí 2013 felldi umboðsmaður skuldara greiðsluaðlögunar-umleitanir kærenda niður með vísan til 15. gr., sbr. a-lið 1. mgr. 12. gr. lge.

 

II. Sjónarmið kærenda

Kærendur krefjast þess að kærunefnd greiðsluaðlögunarmála felli úr gildi ákvörðun umboðsmanns skuldara um að fella niður heimild þeirra til greiðsluaðlögunar og veiti þeim áframhaldandi heimild til greiðsluaðlögunar. Kröfugerðina ber að skilja með tilliti til þess að verði hin kærða ákvörðun felld úr gildi leiðir það til þess að greiðsluaðlögunarumleitanir kærenda halda áfram.

Kærendur hafni þeim forsendum sem ákvörðun umboðsmanns skuldara byggist á. Hafi þau lagt fram gögn sem sýni að útgjöld fjölskyldunnar hafi verið umtalsvert hærri en umboðsmaður geri ráð fyrir. Ástæður þessa séu fyrst og fremst tímabundin samvistarslit kærenda en í byrjun árs 2012 hafi þau ákveðið að slíta samvistir. Kærandi B hafi flutt af heimili þeirra og í leiguhúsnæði. Hafi þetta haft í för með sér aukin útgjöld fyrir kærendur þar sem þau hafi þurft að reka tvö heimili og tvo bíla á tímabili sambúðarslita. Nemi sú fjárhæð að minnsta kosti 2.953.465 krónum. Kærandi A hafi að stærstum hluta staðið straum af þessum kostnaði þar sem kærandi B hafi litlar tekjur haft. Kærendur hafi tekið saman að nýju í apríl 2013.

Í ákvörðun sinni tiltaki umboðsmaður skuldara að ekki liggi fyrir gögn frá þjóðskrá sem staðfesti tímabundin sambúðarslit kærenda og vísi í því sambandi til 1. mgr. 4. gr. lge. Kærendur bendi á hinn bóginn á að fyrrnefnd lagagrein eigi aðeins við þegar dvalarstaður skuldara er annar en lögheimili þegar sótt er um greiðsluaðlögun. Þar sem kærendur hafi verið í sambúð og með sameiginlegt lögheimili þegar þau óskuðu greiðsluaðlögunar eigi lagatilvísun umboðsmanns skuldara ekki við í máli þeirra. Kærendur hafi sótt ráðgjöf á meðan þau hafi búið aðskilin og hafi þau lagt fram staðfestingar þess efnis frá þeim ráðgjöfum er þau leituðu til. Einnig hafi þau lagt fram gögn er staðfesti hluta þess kostnaðar sem sambúðarslitin hafi haft í för með sér.

Í a-lið 1. mgr. 12. gr. lge. sé kveðið á um skyldu skuldara til að leggja til hliðar af tekjum sínum það fé sem sé umfram það sem hann þurfi til að sjá sér og fjölskyldu sinni farborða. Að þessu virtu megi telja óumdeilt að það fé sem kærendur hafi varið til að mæta auknum útgjöldum á tímabili sambúðarslita falli undir það að sjá sér og fjölskyldu sinni farborða. Ef ekki hefði komið til tímabundinna sambúðarslita kærenda hefðu þeir fjármunir sem nýttir voru til greiðslu aukinna útgjalda komið til viðbótar á sparnaði í greiðsluskjóli. Sparnaður kærenda nemi nú 2.370.519 krónum og sé fyrrnefndum kostnaði, 2.953.465 krónum, bætt við sé raunverulegur sparnaður kærenda í greiðsluskjóli að minnsta kosti 5.323.984 krónur.

Samkvæmt þessu verði að telja að umboðsmanni skuldara beri að veita svigrúm við mat sitt á sparnaði í greiðsluskjóli með tilliti til aðstæðna skuldara hverju sinni. Af orðalagi a-liðar 1. mgr. 12. gr. lge. megi sjá að ákvæðið feli í sér matskennda ákvörðun. Í slíkum tilvikum beri að líta til tilvika hverju sinni en ekki setja verklagsreglur sem takmarki slíkt mat verulega eða afnemi það. Í tilviki kærenda þurfi til dæmis að taka tillit til þess að þau þurfi að sækja vinnu og nám um langan veg með tilheyrandi kostnaði. Kærandi A þurfi að hafa bíl til umráða vegna starfs síns en hann sé oft kallaður út með litlum fyrirvara á öllum tímum sólarhrings. Því sé kærendum nauðsynlegt að hafa tvær bifreiðar til umráða. Af þessum ástæðum sé kostnaður kærenda vegna bifreiða mun hærri en framfærsluviðmið umboðsmanns skuldara geri ráð fyrir.

Það hafi lengi verið ljóst að þau framfærsluviðmið sem umboðsmaður skuldara gangi út frá séu langt frá því að vera í samræmi við raunverulegan framfærslukostnað til lengri tíma litið. Sé ekki hægt að ætlast til þess að skuldarar hagi lífi sínu svo árum skipti eftir þeim þröngu skilyrðum sem framfærsluviðmið umboðsmanns skuldara setji þeim, allt vegna þess að afgreiðsla máls hafi dregist úr hófi. Benda megi á að í 1. mgr. 7. gr., sbr. 1. mgr. 8. gr. lge., sé kveðið á um að umboðsmaður skuldara skuli taka ákvörðun um afgreiðslu á umsókn innan tveggja vikna frá því að hún liggi fyrir fullbúin. Tilgangur löggjafans með þessu ákvæði geti ekki verið sá að skuldarar haldi sér og fjölskyldu sinni í fjárhagslegri spennitreyju fyrrnefndra framfærsluviðmiða um árabil líkt og í tilviki kærenda.

Í þessu samhengi megi einnig vísa til almennra athugasemda með frumvarpi til lge. þar sem segi: „Greiðsluaðlögun er að þessu leyti ólík gjaldþrotaskiptum sem eru fyrst og fremst sameiginleg fullnustugerð allra lánardrottna, enda starfar skiptastjóri í raun í umboði lánardrottna og honum ber sem slíkum að gæta hagsmuna þeirra í störfum sínum við uppgjör búsins. Við skuldauppgjör samkvæmt þessu frumvarpi eru hagsmunir skuldara hins vegar hafðir að leiðarljósi. Með frumvarpinu er ætlunin að festa í lög sértækar reglur, m.a. að norskri fyrirmynd (lov, av 17. juli 1992 nr. 99, om frivillig og tvungen gjeldsordning for privatpersoner (gjeldsordningsloven)), sem er ætlað að ná því markmiði að færa raunvirði fjárkrafna að veruleikanum. Það er markmið þessa frumvarps að einstaklingar fari framvegis frekar þessa leið við uppgjör og endurskipulagningu fjármála sinna en þvingaða leið skuldaskilaréttarins.“

Með því að setja kærendum svo þröng skilyrði um það fé sem þeim beri að leggja til hliðar í greiðsluskjóli og með tilliti til þess tíma er málsmeðferðin hafi tekið, sé ljóst að hagsmunir kærenda séu ekki hafðir að leiðarljósi. Sama megi segja um það markmið lge. að gera einstaklingum auðveldara og hagfelldara að fara í greiðsluaðlögun heldur en að óska gjaldþrotaskipta.

Þrátt fyrir að kærendur hafi ekki lagt fyrir þær fjárhæðir sem umboðsmanni skuldara reiknist til hafi þau engu að síður lagt fyrir umtalsverðar fjárhæðir í greiðsluskjólinu.

 

III. Sjónarmið umboðsmanns skuldara

Af hálfu umboðsmanns skuldara er vísað til þess að komi fram upplýsingar sem ætla megi að hindri að greiðsluaðlögun sé heimil á grundvelli lge., skuli umsjónarmaður tilkynna um það til umboðsmanns skuldara sem í kjölfarið taki afstöðu til málsins með rökstuddri ákvörðun, sbr. 1. mgr. 15. gr. lge. Í 12. gr. lge. sé fjallað um skyldur skuldara meðan hann njóti greiðsluskjóls. Samkvæmt a-lið 1. mgr. lagagreinarinnar skuli skuldari leggja til hliðar af launum og öðrum tekjum sínum það fé sem sé umfram það sem hann þurfi til að sjá sér og fjölskyldu sinni farborða.

Kærendur hafi óskað greiðsluaðlögunar 11. febrúar 2011 og hafi frestun greiðslna, svokallað greiðsluskjól, hafist á þeim degi. Skriflegar leiðbeiningar um 12. gr. lge. hafi fylgt með ákvörðun um samþykki umsóknar kærenda um greiðsluaðlögun sem þeim hafi borist með ábyrgðarbréfi. Umræddar upplýsingar hafi enn fremur verið aðgengilegar á heimasíðu umboðsmanns skuldara. Að auki séu skyldur skuldara í greiðsluskjóli samkvæmt 12. gr. lge. ávallt útskýrðar og ítrekaðar á fyrsta fundi umsjónarmanns og skuldara. Hafi kærendum því mátt vel vera ljóst að þau skyldu halda til haga þeim fjármunum sem þau hafi átt aflögu í lok hvers mánaðar til greiðslu af skuldum þegar að því kæmi að semja við kröfuhafa.

Greiðsluskjól kærenda hafi staðið yfir í 25 mánuði en miðað sé við tímabilið frá 1. mars 2011 til 31. mars 2013. Samkvæmt fyrirliggjandi gögnum hafi kærendur haft neðangreindar tekjur á tímabilinu í krónum:

 

Launatekjur 1. mars 2011 til 31. mars 2013 að frádregnum skatti 16.554.230
Námslán 2012 til 2013 2.377.704
Vaxta- og barnabætur á tímabilinu 396.802
Samtals 19.328.736
Mánaðarlegar meðaltekjur 773.149
Framfærslukostnaður á mánuði 368.197
Greiðslugeta að meðaltali á mánuði 404.952
Samtals greiðslugeta í 25 mánuði 10.123.811

 

Samkvæmt þessu verði lagt til grundvallar að kærendur hafi haft 773.149 krónur í meðaltekjur á mánuði á 25 mánaða tímabili sem notað sé til viðmiðunar á þeim tíma er kærendur nutu greiðsluskjóls.

Samkvæmt 4. mgr. 16. gr. lge. skuli umsjónarmaður notast við framfærsluviðmið sem umboðsmaður skuldara setji. Sé umsjónarmanni almennt óheimilt að miða við annan framfærslukostnað en þann sem reiknaður hafi verið fyrir kærendur með tilliti til fjölskylduaðstæðna. Framfærsluviðmið umboðsmanns skuldara byggist á hlutlægum viðmiðum um almenna framfærslu með tilliti til fjölskyldustærðar og taki mið af vísitölu. Að auki skuli lagt til grundvallar að við mat á því hvort kærendur hafi sinnt skyldum sínum meðan á frestun greiðslna standi, sé þeim jafnan játað nokkuð svigrúm til að mæta óvæntum útgjöldum í mánuði hverjum.

Miðað við framangreindar forsendur megi ætla að mánaðarleg heildarútgjöld kærenda hafi mest verið um 368.197 krónur á mánuði á meðan þau hafi notið greiðsluskjóls. Miðað sé við nýjustu framfærsluviðmið kærendum í hag og framfærslukostnað júlímánaðar 2013 fyrir hjón með tvö börn. Samkvæmt þessu sé gengið út frá því að kærendur hafi haft getu til að leggja fyrir um 10.123.800 krónur á fyrrnefndu tímabili, sé miðað við meðal greiðslugetu að fjárhæð 404.952 krónur á mánuði í 25 mánuði.

Að mati umboðsmanns skuldara hafi kærendur ekki lagt fram haldbær gögn sem veitt gætu tæmandi skýringar á því hvers vegna þau hafi ekki lagt fyrir fé í námunda við 10.123.800 krónur í greiðsluskjóli en þau hafi aðeins lagt fyrir 2.370.519 krónur. Kærendur hafi borið því við að útgjöld þeirra og framfærslukostnaður hafi aukist um 2.953.465 krónur vegna tímabundinna sambúðarslita. Samkvæmt upplýsingum frá Þjóðskrá Íslands liggi ekki fyrir nein gögn er staðfesti þetta, en samkvæmt 1. mgr. 4. gr. lge. sé gerð sú krafa að skuldarar upplýsi um dvalarstað sinn ef hann er annar en lögheimili. Telur umboðsmaður skuldara að gera megi þær lágmarkskröfur til kærenda að slíkar grundvallarupplýsingar liggi fyrir með hliðsjón af eðli greiðsluaðlögunar. Jafnvel þó að tekið yrði tillit til útskýringa kærenda sé ljóst að sá kostnaður, sem þau segi að hafi fylgt tímabundnum samvistarslitum þeirra til viðbótar við fjárhæð sparnaðar, sé aðeins hluti þess fjár sem kærendur hefðu átt að getað lagt til hliðar.

Kærendur telji að við mat á sparnaði í greiðsluskjóli beri umboðsmanni skuldara að veita svigrúm miðað við aðstæður kærenda, en ekki setja verklagsreglur sem takmarki matið verulega þar sem a-liður 1. mgr. 12. gr. lge. feli í sér matskennda stjórnvaldsákvörðun. Kærendur telji að í þeirra tilviki hafi rekstrarkostnaður bifreiða verið mjög mikill þar sem þau hafi slitið sambúð og einnig þurft að sækja nám og vinnu um langan veg. Bendi embættið á að stjórnvöldum hafi verið talið heimilt að setja sér viðmiðunarreglur við töku stjórnvaldsákvarðana og takmarka þar með skyldubundið mat að einhverju leyti.

Að framangreindu virtu og með hliðsjón af gögnum málsins hafi ekki verið hjá því komist að fella niður greiðsluaðlögunarumleitanir kærenda samkvæmt 15. gr., sbr. a-lið 1. mgr. 12. gr. lge.

Umboðsmaður skuldara fer fram á að hin kærða ákvörðun verði staðfest með vísan til forsendna sem fram komi í henni.

 

IV. Niðurstaða

Ákvörðun umboðsmanns skuldara byggist á 15. gr. lge. með vísan til a-liðar 1. mgr. 12. gr. lge., þar sem fjallað er um skyldur skuldara á meðan leitað er greiðsluaðlögunar.

Samkvæmt a-lið 1. mgr. 12. gr. lge. skal skuldari leggja til hliðar af launum og öðrum tekjum það fé sem er umfram það sem hann þarf til að sjá sér og fjölskyldu sinni farborða. Í 2. mgr. 12. gr. kemur fram að telji umsjónarmaður að skuldari hafi brugðist skyldum sínum, skuli hann óska þess við umboðsmann skuldara að greiðsluaðlögunarumleitanir verði felldar niður samkvæmt 15. gr. lge.

Með bréfi umsjónarmanns til umboðsmanns skuldara 15. desember 2012 óskaði umsjónarmaður eftir því að greiðsluaðlögunarumleitanir kærenda yrðu felldar niður þar sem fram væru komnar upplýsingar sem bentu til þess að kærendur hefðu brugðist skyldum sínum samkvæmt a-lið 1. mgr. 12. gr. lge. með því að leggja aðeins fyrir hluta þeirrar fjárhæðar sem þeim bar í greiðsluskjóli. Í framhaldi af þessu felldi umboðsmaður skuldara greiðsluaðlögunarumleitanir kærenda niður 26. júlí 2013.

Ákvörðun umboðsmanns skuldara byggist á því að kærendur hafi ekki lagt til hliðar þá fjármuni sem þeim hafi verið skylt að leggja til hliðar á því tímabili sem þau nutu greiðsluskjóls. Kærendur telja framfærslukostnað sinn hafa verið hærri en framfærsluviðmið umboðsmanns skuldara geri ráð fyrir, vegna sérstakra aðstæðna þeirra á tímabilinu.

Í 1. mgr. 11. gr. lge. kemur fram að frestun greiðslna, svokallað greiðsluskjól, hefjist þegar umboðsmaður skuldara hefur samþykkt umsókn til greiðsluaðlögunar. Samkvæmt bráðabirgðaákvæði II þeirra laga hófst tímabundin frestun greiðslna samkvæmt 11. gr. þegar umboðsmaður tók á móti umsókn kærenda um greiðsluaðlögun. Þá kemur einnig fram í bráðabirgðaákvæðinu að skyldur samkvæmt 12. gr. laganna eigi við þegar umboðsmaður skuldara hefur tekið á móti umsókn. Bar kærendum því að virða skyldur sínar samkvæmt 12. gr. laganna strax eftir að umsókn þeirra var móttekin hjá umboðsmanni skuldara. Samkvæmt gögnum málsins hafa kærendur verið upplýst um skyldur sínar samkvæmt a-lið 1. mgr. 12. gr. lge.

Að mati umboðsmanns skuldara hafa kærendur átt að leggja til hliðar 10.123.800 krónur á tímabili greiðsluskjóls. Kærendur hafa greint frá því að sparnaður þeirra sé 2.370.950 krónur. Þá segjast kærendur hafa orðið fyrir auknum kostnaði að fjárhæð 2.953.465 krónur, meðal annars vegna sambúðarslita. Alls eru þetta 5.324.415 krónur.

Samkvæmt fyrirliggjandi skattframtölum og launaupplýsingum ríkisskattstjóra, sem eru meðal gagna málsins, hafa mánaðartekjur kærenda í krónum verið eftirfarandi í greiðsluskjóli á neðangreindu tímabili:

 

Tímabilið 1. mars 2011 til 31. desember 2011: Tíu mánuðir
Nettótekjur A 5.224.677
Nettó mánaðartekjur A að meðaltali 522.468
Nettótekjur B 861.648
Nettó mánaðartekjur B að meðaltali 86.165
Nettótekjur alls 6.086.325
Mánaðartekjur alls að meðaltali 608.633


Tímabilið 1. janúar 2012 til 31. desember 2012: 12 mánuðir
Nettótekjur A 7.093.825
Nettó mánaðartekjur A að meðaltali 591.152
Nettótekjur B 1.437.210
Nettó mánaðartekjur B að meðaltali 119.768
Nettótekjur alls 8.531.035
Mánaðartekjur alls að meðaltali 710.920


Tímabilið 1. janúar 2013 til 30. júní 2013: Sex mánuðir
Nettótekjur A 3.823.403
Nettó mánaðartekjur A að meðaltali 637.234
Nettótekjur B 141.442
Nettó mánaðartekjur B að meðaltali 23.574
Nettótekjur alls 3.964.845
Mánaðartekjur alls að meðaltali 660.808


Nettótekjur alls í greiðsluskjóli 18.582.205
Nettó mánaðartekjur alls að meðaltali í greiðsluskjóli 663.650

 

Sé miðað við framfærslukostnað samkvæmt ákvörðun umboðsmanns skuldara, tekjur kærenda, bætur og námslán var greiðslugeta þeirra þessi í greiðsluskjóli í krónum:

 

Tímabilið 1. mars 2011 til 30. júní 2013: 28 mánuðir
Nettótekjur alls í greiðsluskjóli 18.582.205
Bótagreiðslur 2011 og 2012 396.802
Námslán 6. janúar 2012 til 22. maí 2013 2.699.243
Alls til ráðstöfunar í greiðsluskjóli 21.678.250
Mánaðarlegar ráðstöfunartekjur að meðaltali í greiðsluskjóli 774.223
Mánaðarleg útgjöld samkvæmt ákvörðun umboðsmanns 368.197
Greiðslugeta kærenda á mánuði 406.026
Alls sparnaður í 28 mánuði í greiðsluskjóli x 406.026 11.368.734

 

Kærendur telja að umboðsmaður skuldara skuli veita svigrúm við mat sitt á sparnaði í greiðsluskjóli með tilliti til aðstæðna skuldara hverju sinni. Í tilviki kærenda þurfi til dæmis að taka tillit til þess að þau þurfi að sækja vinnu og nám um langan veg með tilheyrandi kostnaði svo og til tímabundinna sambúðarslita.

Það er markmið lge. að gera einstaklingum kleift að endurskipuleggja fjárhag sinn með samningum við kröfuhafa, eftir atvikum með niðurfellingu skulda að einhverju eða öllu leyti. Samkvæmt reglum lge. er skuldara gert að greiða eins hátt hlutfall af kröfum og sanngjarnt er þar sem í greiðsluaðlögun felst að jafnaði eftirgjöf af kröfum með tilheyrandi afskriftum í lok greiðsluaðlögunartímabils. Meðal annars þess vegna er skuldara gert að leggja til hliðar af launum sínum og öðrum tekjum það fé sem er umfram framfærslukostnað á meðan leitað er greiðsluaðlögunar. Féð skal nota til að greiða kröfuhöfum þegar kemur að efndum greiðsluaðlögunarsamnings.

Í c-lið 2. mgr. 1. gr. laga um umboðsmann skuldara nr. 100/2010 kemur fram að eitt af hlutverkum umboðsmannsins sé að veita atbeina til tilrauna til samninga um greiðsluaðlögun. Í nefndaráliti félags- og tryggingamálanefndar Alþingis frá 15. júní 2010 segir um frumvarp til laga um umboðsmann skuldara, er síðar varð að lögum nr. 100/2010: „Nefndin ræddi ítarlega hlutverk umboðsmanns skuldara og telur mikilvægt að stofnuninni verði falið að útbúa lágmarksframfærsluviðmið og uppfæra þau reglulega. Nauðsynlegt er að í frumvarpi til greiðsluaðlögunar komi fram raunhæf tillaga að greiðslum þar sem gert er ráð fyrir framfærsluþörf einstaklingsins og fjölskyldu hans. Jafnframt er mikilvægt að samræmis sé gætt að þessu leyti.“ Samkvæmt þessu gerði nefndin þá breytingartillögu á fyrirliggjandi frumvarpi til laga um umboðsmann skuldara að inn í 2. mgr. 1. gr. var bætt staflið d þar sem fram kemur að hlutverk embættis umboðsmanns skuldara sé að útbúa framfærsluviðmið og uppfæra það reglulega.

Í 12. gr. lge. er gerð grein fyrir því hvernig skuldari skuli haga fjármálum sínum á meðan leitað er greiðsluaðlögunar, þar á meðal að leggja fyrir á tímabilinu það fé sem er umfram framfærslukostnað. Þetta tiltekna ákvæði veitir út af fyrir sig ekki nákvæmar leiðbeiningar um hvernig framfærslukostnaður skuli reiknaður. Hér verður að hafa í huga að þær aðstæður sem 12. gr. lge. varðar eru þær að skuldarinn hefur sjálfur óskað greiðsluaðlögunarsamnings við kröfuhafa. Eins og áður hefur verið vikið að er um að ræða samninga sem að jafnaði fela í sér niðurfellingu krafna að samningstíma liðnum. Samningsferlið leggur þær skyldur á herðar skuldara að hann greiði svo mikið sem honum er unnt af kröfunum. Meðal annars í því skyni að gefa skuldara svigrúm til að leggja fyrir á meðan samningaumleitanir eru undirbúnar og yfirstandandi er lagt bann við því að kröfuhafar taki á móti greiðslum frá skuldara eða innheimti kröfur á hendur honum, sbr. 3. gr. lge. Jafnframt verður skuldari að stilla framfærslukostnaði sínum í hóf á þessu tímabili til þess að honum takist að leggja fyrir á tímabilinu. Það er einnig mikilvægt að bæði skuldarar og kröfuhafar njóti jafnræðis að þessu leyti og því verður framfærslukostnaður skuldara að styðjast við fyrirfram ákveðið almennt viðmið. Í ljósi laga um umboðsmann skuldara nr. 100/2010, lögskýringargagna, lge. og þess sem hér hefur verið rakið liggur fyrir að ekki verður byggt á öðru viðmiði en framfærsluviðmiði umboðsmanns skuldara. Telur kærunefndin því að við mat á því hvaða fjárhæð skuldarar eigi að leggja til hliðar af launum sínum í greiðsluskjóli beri að notast við framfærsluviðmið sem umboðsmaður skuldara setur, sbr. 4. mgr. 16. gr. lge.

Kærendur hafa framvísað gögnum um sparnað að fjárhæð 2.370.950 krónur. Þá hafa þau lagt fram staðfestingu meðferðaraðila þess efnis að þau hafi slitið samvistir á tímabili greiðsluaðlögunar. Tímabil samvistarslita er þó á reiki þar sem í staðfestingunni kemur fram að um tíu mánuði hafi verið að ræða en kærendur tilgreina sjálf tímabilið frá byrjun árs 2012 fram í apríl 2013. Kærendur skráðu samvistarslit sín ekki hjá Þjóðskrá. Kærendur telja kostnað sinn vegna þessa hafa numið 2.953.465 krónum. Þau hafa þó ekki lagt fram staðfestingu á helstu kostnaðarliðum vegna þessa svo sem húsaleigusamning, gögn um rekstur bifreiðar eða kvittanir og telur kærunefndin því ekki unnt að taka tillit til þessa kostnaðar. Þó þykir rétt að taka fram að jafnvel þó að tekið yrði tillit til þess kostnaðar sem kærendur kveðast hafa orðið fyrir vegna samvistarslitanna að viðbættum sparnaði, alls 5.324.415 krónur, skortir enn 6.044.319 krónur upp á þá fjárhæð sem kærendur hefðu átt að leggja til hliðar á tímabili greiðsluskjóls.

Samkvæmt þessu fellst kærunefndin á þá niðurstöðu umboðsmanns skuldara að kærendur hafi ekki sinnt skyldum sínum samkvæmt a-lið 1. mgr. 12. gr. lge. á þeim tíma er þau nutu greiðsluskjóls. Bar umboðsmanni skuldara samkvæmt 1. mgr. 15. gr. laganna því að fella greiðsluaðlögunarumleitanir kærenda niður. Hin kærða ákvörðun umboðsmanns skuldara er með vísan til þess staðfest.

 

ÚRSKURÐARORÐ

Ákvörðun umboðsmanns skuldara um að fella niður greiðsluaðlögunarumleitanir A og B er staðfest.

 

Sigríður Ingvarsdóttir

Eggert Óskarsson

Lára Sverrisdóttir


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta