Hoppa yfir valmynd

Nr. 188/2020 Úrskurður

KÆRUNEFND ÚTLENDINGAMÁLA

Þann 22. maí 2020 er kveðinn upp svohljóðandi

úrskurður nr. 188/2020

í stjórnsýslumáli nr. KNU20030044

Kæra [...]

á ákvörðun

Útlendingastofnunar

 

I. Kröfur, kærufrestir og kæruheimild

Þann 29. mars 2020 kærði [...], kt. [...], ríkisborgari [...] (hér eftir nefndur kærandi), ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 12. mars 2020, um að synja honum um ótímabundið dvalarleyfi.

Kærandi krefst þess að ákvörðun Útlendingastofnunar verði felld úr gildi og að máli hans verði vísað til nýrrar meðferðar hjá stofnuninni.

Fyrrgreind ákvörðun er kærð á grundvelli 7. gr. laga um útlendinga nr. 80/2016 og barst kæran fyrir lok kærufrests.

II. Málsatvik og málsmeðferð

Kærandi fékk fyrst útgefið dvalarleyfi hér á landi vegna starfs sem krefst sérfræðiþekkingar þann 3. janúar 2017 og var það leyfi endurnýjað nokkrum sinnum, nú síðast með gildistíma til 31. desember 2019. Þann 9. október 2019 lagði kærandi fram umsókn um ótímabundið dvalarleyfi. Með ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 12. mars 2020, var umsókninni synjað. Kæranda var tilkynnt um ákvörðunina þann 17. mars sl. og þann 29. mars sl. kærði kærandi ákvörðunina til kærunefndar útlendingamála. Greinagerð kæranda barst kærunefnd þann 17. apríl sl. ásamt fylgigögnum.

III. Ákvörðun Útlendingastofnunar

Í ákvörðun Útlendingastofnunar var vísað til þess að eitt af skilyrðum fyrir veitingu ótímabundins dvalarleyfis skv. 1. mgr. 58. gr. laga um útlendinga væri að útlendingur hefði dvalist hér á landi samfellt í fjögur ár samkvæmt dvalarleyfi sem gæti verið grundvöllur ótímabundins leyfis. Þá væri mælt fyrir undanþáguheimild frá framangreindu tímaskilyrði í 3. mgr. 58. gr. laganna. Komst Útlendingastofnun að þeirri niðurstöðu að kærandi uppfyllti ekki búsetuskilyrði 1. mgr. 58. gr. laga um útlendinga. Var umsókn hans því synjað.

IV. Málsástæður og rök kæranda

Í greinargerð vísar kærandi til þess að hann hafi komið fyrst til Íslands þann 22. desember 2016 til að hefja doktorsnám í rafmagnsverkfræði við Háskólann í Reykjavík. Þann 22. júní 2019 hafi kærandi lokið doktorsnámi sínu og í kjölfarið verið ráðinn til starfa sem sérfræðingur með doktorsgráðu við háskólann. Þá uppfylli hann tilgreind skilyrði stafliða a-e 1. mgr. 58. gr. laga um útlendinga. Kærandi byggir á því að Útlendingastofnun hafi brotið gegn rannsóknarreglu stjórnsýslulaga nr. 37/1993, sbr. 10. gr. laganna, með ófullnægjandi mati á umsókn hans. Þá skorti ákvörðunin lagaheimild enda stangist hún á við skýran lagatexta b-liðar 2. mgr. 58. gr. laga um útlendinga, en þar sé kveðið á um undantekningu frá 1. mgr. ákvæðisins í þeim tilvikum þegar doktorsnemi hefur dvalið hér á landi á grundvelli starfs sem krefst sérfræðiþekkingar, skv. 61. gr., í að minnsta kosti þrjú ár og lokið doktorsnámi hér á landi. Kærandi telji sig uppfylla framangreinda undantekningu og byggir á því að búsetuskilyrði ætti ekki að koma í veg fyrir að hann fái útgefið ótímabundið dvalarleyfi. Hann hafi lagt inn umsókn um ótímabundið dvalarleyfi þann 9. október 2019 með það í huga að málsmeðferð gæti tekið allt að þrjá mánuði. Á meðan umsókn hans hafi verið til meðferðar hafi hann uppfyllt búsetuskilyrði skv. b-lið 2. mgr. 58. gr. laga um útlendinga, þ.e. þann 3. janúar 2020. Að auki byggir kærandi á því að Útlendingastofnun hafi brotið gegn meginreglunni um réttmætar væntingar, meðalhófsreglunni, sbr. 12. gr. stjórnsýslulaga sem og vönduðum og góðum stjórnsýsluháttum. Með vísan til framangreinds sé málsmeðferð Útlendingastofnunar á umsókn hans haldin annmarka og sé því rétt að ákvörðunin verði felld úr gildi.

V. Niðurstaða kærunefndar útlendingamála

Samkvæmt 1. mgr. 58. gr. laga um útlendinga er heimilt að veita útlendingi ótímabundið dvalarleyfi hafi hann dvalist hér á landi samfellt síðustu fjögur ár samkvæmt dvalarleyfi sem geti verið grundvöllur ótímabundins dvalarleyfis. Um nánari skilyrði fyrir veitingu ótímabundins er m.a. mælt fyrir um í a - e-liðum 1. mgr. 58. gr. laganna. Í 2. og 3. mgr. 58. gr. laga um útlendinga er mælt fyrir um undanþáguheimildir frá skilyrðum 1. mgr. ákvæðisins. Samkvæmt b-lið 2. mgr. 58. gr. laganna er m.a. heimilt að víkja frá skilyrði um að útlendingur hafi dvalist hér á landi síðustu fjögur ár samkvæmt dvalarleyfi sem getur verið grundvöllur ótímabundins dvalarleyfis í þeim tilvikum þegar doktorsnemi hefur dvalið hér á landi á grundvelli dvalarleyfis vegna starfs sem krefst sérfræðiþekkingar skv. 61. gr. í að minnsta kosti þrjú ár og lokið doktorsnámi hér á landi.

Líkt og áður greinir fékk kærandi fyrst útgefið dvalarleyfi vegna starfs sem krefst sérfræðiþekkingar þann 3. janúar 2017 og var það leyfi endurnýjað nokkrum sinnum, síðast með gildistíma til 31. desember 2019. Af gögnum málsins verður ekki annað ráðið en að grundvöllur framangreinds dvalarleyfis hafi verið doktorsnám kæranda í rafmagnsverkfræði við Háskólann í Reykjavík. Samkvæmt gögnum málsins lauk hann doktorsnáminu þann 22. júní 2019. Í ákvörðun Útlendingastofnunar var ekki tekið til skoðunar hvort kærandi uppfylli skilyrði b-liðar 2. mgr. 58. gr. laga um útlendinga, heldur einungis tekin afstaða til 1. og 3. mgr. 58. gr. laganna og umsókn hans synjað þar sem hann uppfyllti ekki búsetuskilyrði skv. 1. mgr. ákvæðisins, þ.e. fjögurra ára búsetu. Líkt og áður greinir byggir kærandi m.a. á því að hann uppfylli skilyrði b-liðar 2. mgr. 58. gr. laga um útlendinga þar sem skilyrði um þriggja ára búsetu hafi verið náð á meðan umsóknin hafi verið til meðferðar hjá Útlendingastofnun.

Meginmarkmið með stjórnsýslukæru er að tryggja réttaröryggi borgaranna á þann hátt að þeir fái skoðun á máli sínu á tveimur stjórnsýslustigum. Að mati kærunefndar er réttaröryggi kæranda betur tryggt með því að Útlendingastofnun taki afstöðu til þess hvort kærandi uppfylli skilyrði b-liðar 2. mgr. 58. gr. laga um útlendinga, sem eftir atvikum getur þá sætt endurskoðun hjá kærunefnd. Verður því lagt fyrir Útlendingastofnun að taka mál kæranda til meðferðar að nýju.

 

Úrskurðarorð

 

Ákvörðun Útlendingastofnunar er felld úr gildi. Lagt er fyrir Útlendingastofnun að taka mál kæranda til nýrrar meðferðar.

The decision of the Directorate of Immigration is vacated. The Directorate is instructed to re-examine the appellant’s case.

Jóna Aðalheiður Pálmadóttir

 

Gunnar Páll Baldvinsson                                                                   Daníel Isebarn Ágústsson


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta