Hoppa yfir valmynd

Mál nr. 347/2019 - Úrskurður

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 347/2019

Miðvikudaginn 12. febrúar 2020

A

gegn

Tryggingastofnun ríkisins

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Rakel Þorsteinsdóttir lögfræðingur, Eva Dís Pálmadóttir lögfræðingur og Ásmundur Helgason lögfræðingur.

Með rafrænni kæru, móttekinni 25. ágúst 2019, kærði A, til úrskurðarnefndar velferðarmála ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins frá 30. júlí 2019 um að endurreikningur og uppgjör tekjutengdra greiðslna ársins 2018 skyldi standa óbreyttur.

I.  Málsatvik og málsmeðferð

Við endurreikning og uppgjör tekjutengdra bóta vegna ársins 2018 komst Tryggingastofnun ríkisins að þeirri niðurstöðu að kæranda hefðu verið ofgreiddar bætur það ár að fjárhæð 1.154.633 kr. að teknu tilliti til endurgreiddrar staðgreiðslu. Með bréfi, dags. 22. maí 2019, fór stofnunin fram á endurgreiðslu hinna ofgreiddu bóta. Endurreikningnum var andmælt með bréfi, dags. 23. júní 2019, en með bréfi Tryggingastofnunar, dags. 30. júlí 2019, var kæranda tilkynnt um að endurreikningurinn skyldi standa óbreyttur.

Kæra barst úrskurðarnefnd velferðarmála þann 25. ágúst 2019. Með bréfi, dags. 26. ágúst 2019, óskaði úrskurðarnefnd velferðarmála eftir greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins ásamt gögnum málsins. Greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins barst með bréfi, dags. 20. september 2019 og var hún kynnt kæranda með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 23. september 2019. Athugasemdir bárust frá kæranda 7. október 2019 og voru þær sendar Tryggingastofnun ríkisins til kynningar með bréfi, dags. 8. október 2019. Efnislegar athugasemdir bárust ekki.   

II.  Sjónarmið kæranda

Í kæru segir að svar Tryggingastofnunar við andmælum kæranda sé með öllu óviðunandi. Eins og fram hafi komið í andmælunum þá sé ljóst að tekjur þær sem stofnunin hafi reiknað kæranda til frádráttar séu annars vegar tekjur frá árinu 2016 og hins vegar bókhaldsfærsla af hálfu ríkisskattstjóra sem hafi þann tilgang að láta kæranda greiða álag á frestaða skattgreiðslu. Hvorugt séu tekjur á árinu 2018 og sé Tryggingastofnun því óheimilt að reikna þær til frádráttar lífeyrisgreiðslum kæranda á því ári. Kærandi vísar í andmælabréf hans til Tryggingastofnunar þar sem meðal annars kemur fram að um hafi verið að ræða skattalega tilfærslu milli ára þar sem skattlagningu söluhagnaðar sauðfjárkvóta hafi verið frestað í tengslum við að kærandi hafi hætt búrekstri á árinu 2016. Heimilt sé samkvæmt lögum um tekjuskatt að fresta skattlagningu söluhagnaðar um tvenn áramót og þá heimild hafi kærandi nýtt sér þar sem til hafi staðið að skipta um íbúðarhúsnæði. Ekkert hafi orðið af þeim fasteignakaupum og því hafi skattlagning farið fram ásamt álagsgreiðslu árinu 2018 lögum samkvæmt.

Í athugasemdum kæranda, dags. 7. október 2019, segir að afstaða Tryggingastofnunar sé fráleit. Hvergi komi fram í tilvitnuðum lagaákvæðum að stofnuninni beri skylda til að reikna skattlagningu sem tekjur, enda óskyld málefni. Verklag ríkiskattstjóra við eftirá álagningu skatta og álagsgreiðslu því tengdu geti aldrei búið til nýjan tekjustofn hjá kæranda sem skerði lífeyrisgreiðslur.

Gera verði þá kröfu til Tryggingastofnunar að hún leiti til til ríkisskattstjóra eftir leiðbeiningum um hvort málflutningur kæranda byggi á réttum forsendum áður en ákvörðun sé tekin.

Álagsgreiðslan, sem sé hluti þeirrar fjárhæðar sem um sé rætt, sé hrein skattlagning og skapi engar tekjur fyrir kæranda, heldur þvert á móti búi til kostnað, þ.e. skattgreiðslu. Framsetning þeirrar skattlagningar á skattframtali sé á ábyrgð ríkisskattstjóra en ekki kæranda og það verklag ríkisskattstjóra geti ekki undir neinum kringumstæðum orðið grundvöllur skerðinga á lífeyrisgreiðslu frá Tryggingastofnun.

Tekjur ársins 2016 sem sannanlega séu tekjur þess árs, samkvæmt kaupsamningi og greiddar hafi verið inn á reikning kæranda þann 5. janúar 2017, geti ekki undir neinum kringumstæðum orðið að tekjum ársins 2018. Allur málflutningur Tryggingastofnunar á þá leið sé hrein rökvilla.

III.  Sjónarmið Tryggingastofnunar

Í greinargerð Tryggingastofnunar kemur fram að kærður sé endurreikningur tekjutengdra bóta ársins 2018.

Í 16. gr. laga nr. 100/2007 um almannatryggingar, með síðari breytingum, sé kveðið á um tilhögun útreiknings tekjutengdra bóta. Í 2. mgr. ákvæðisins sé vísað til laga nr. 90/2003 um tekjuskatt varðandi hvað skuli teljast til tekna. Til tekna samkvæmt III. kafla laga um almannatryggingar teljist tekjur samkvæmt II. kafla laga um tekjuskatt, að teknu tilliti til ákvæða 28. gr. sömu laga um hvað teljist ekki til tekna og frádráttarliða samkvæmt 1., 3., 4. og 5. tölul. A-liðar 1. mgr. 30. gr. og 31. gr. sömu laga eða undantekninga og takmarkana samkvæmt öðrum sérlögum.

Tryggingastofnun greiði lífeyri á grundvelli áætlunar um tekjur viðkomandi árs, sbr. 5. mgr. 16. gr. laga um almannatryggingar. Bótaþegi beri ábyrgð á því að slík tekjuáætlun endurspegli árstekjur og beri að breyta áætluninni ef svo sé ekki, sbr. 1. mgr. 39. gr. sömu laga og 3. gr. reglugerðar nr. 598/2009 um útreikning, endurreikning og uppgjör tekjutengdra bóta og vistunarframlags, en þar komi fram að bótaþega sé skylt að veita Tryggingastofnun allar nauðsynlegar upplýsingar til að hægt sé að taka ákvörðun um bótarétt, fjárhæð og greiðslu bóta og endurskoðun þeirra. Að sama skapi sé bótaþega skylt að tilkynna Tryggingastofnun um breytingar á tekjum eða öðrum aðstæðum sem geta haft áhrif á greiðslur.

Í 7. mgr. 16. gr. laga um almannatryggingar komi fram að þegar endanlegar upplýsingar um tekjur bótagreiðsluársins liggi fyrir við álagningu skattyfirvalda á opinberum gjöldum, þá skuli Tryggingastofnun endurreikna bótafjárhæðir á grundvelli tekna. Einnig sé fjallað um endurreikning í reglugerð nr. 598/2009. Tryggingastofnun hafi ekki heimild til að líta fram hjá tekjuupplýsingum sem fram komi í skattframtölum.

Samkvæmt 4. mgr. 4. gr. reglugerðar nr. 170/2009, sbr. breytingarreglugerð nr. 1118/2013, þá sé Tryggingastofnun ríkisins heimilt, þegar einstaklingur leggi inn nýja umsókn um bætur, að miða útreikning bóta eingöngu við þær tekjur sem áætlað sé að aflað verði eftir að bótaréttur stofnast. Unnt sé að beita heimildinni bæði um nýja umsókn um örorkubætur/endurhæfingarlífeyri og um nýja umsókn um ellilífeyri hjá sama einstaklingi, enda sé ekki um samfellt bótatímabil að ræða. Heimildinni verði þó eingöngu beitt einu sinni um útreikning ellilífeyris. Þegar um endurhæfingar- eða örorkulífeyrisþega sé að ræða teljist umsókn vera ný ef liðin séu meira en tvö ár frá því að síðasta örorkumat rann út eða viðkomandi einstaklingur hafi verið í virkri endurhæfingu og/eða hafi fengið greiðslur frá Tryggingastofnun.

Komi í ljós við endurreikning bóta að bætur hafa verið ofgreiddar fari um það samkvæmt 55. gr. laganna. Þar komi fram sú skylda Tryggingastofnunar til að innheimta ofgreiddar bætur. Sú meginregla sé ítrekuð í 9. gr. reglugerðar nr. 598/2009.

Á árinu 2018 hafi kærandi verið með ellilífeyri frá 1. apríl 2018 og út árið. Í samræmi við ákvæði 4. mgr. 4. gr. reglugerðar nr. 598/2009 þá hafi allar tekjur kæranda á tímabilinu 1. apríl 2018 til 31. desember 2018 áhrif á réttindi kæranda. Uppgjör tekjutengdra bóta ársins hafi leitt til 1.154.633 kr. ofgreiðslu að teknu tilliti til greiddrar staðgreiðslu. Ástæða þess að endurkrafa hafi myndast sé að við samkeyrslu við tekjuupplýsingar af skattframtali 2019 vegna tekjuársins 2018, hafi komið í ljós að tekjur kæranda hafi reynst hærri en tekjuáætlun hafi gert ráð fyrir. Endurreikningur byggist á upplýsingum úr skattframtölum bótaþega.

Kærandi hafi sent inn tekjuáætlun þann 10. mars 2018 þar sem gert hafi verið ráð fyrir 850.000 kr. í lífeyrissjóðstekjur, 700.000 kr. í vexti og 200.000 kr. í arð af hlutabréfum. Tryggingastofnun hafi fallist á þá tekjuáætlun og hafi kæranda verið greitt samkvæmt henni út árið 2018.

Við bótauppgjör ársins 2018 hafi komið í ljós að á tímabilinu 1. apríl 2018 til 31. desember 2018 hafði kærandi verið með 32.000 kr. í launatekjur, 135.000 kr. í reiknað endurgjald, 3.765.262 kr. í hagnað af atvinnustarfsemi og 639.548 kr. í lífeyrissjóðstekjur. Sameiginlegar tekjur þeirra hjóna hafi verið 543.261 kr. í vexti og verðbætur og 88.636 kr. í arð. Niðurstaða endurreiknings tekjutengdra bóta ársins 2018 hafi verið að kærandi hafi fengið ofgreitt í bótaflokkunum ellilífeyrir og orlofs- og desemberuppbætur.

Tryggingastofnun sé skylt lögum samkvæmt að framkvæma endurreikning ár hvert þegar endanlegar upplýsingar um tekjur bótagreiðsluársins liggi fyrir við álagningu skattyfirvalda á opinberum gjöldum. Tryggingastofnun sé ekki heimilt að horfa fram hjá tekjum sem birtist á framtali bótaþega, eins og ítrekað hafi verið staðfest af úrskurðarnefnd og hafi einnig verið staðfest fyrir dómstólum.

Niðurstaða endurreiknings tekjutengdra bóta ársins 2018 hafi verið að kærandi hafði fengið greitt á árinu 2.431.757 kr. en hefði átt að fá greitt 600.750 kr. Þessi mismunur hafi leitt til ofgreiðslu að fjárhæð 1.154.633 kr. að teknu tilliti til endurgreiddrar staðgreiðslu.

Kærandi segir í kæru sinni og andmælum að þær tekjur sem Tryggingastofnun reikni til frádráttar séu tekjur frá á árinu 2016 en hann hefði frestað skattlagningu þeirra um tvö ár.

Umræddar tekjur birtist á skattframtali kæranda 2019 vegna tekjuársins 2018. Eins og komið hafi fram sé Tryggingastofnun ekki heimilt að horfa fram hjá tekjum sem birtast á framtali bótaþega, eins og margsinnis hefur verið staðfest af úrskurðarnefnd og hefur einnig verið staðfest fyrir dómstólum.

Með vísun til framanritaðs telji Tryggingastofnun ekki forsendur til að breyta fyrri ákvörðun sinni.

IV.  Niðurstaða

Mál þetta varðar ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um endurreikning og uppgjör á tekjutengdum bótum kæranda vegna ársins 2018.

Kærandi fékk greiddar tekjutengdar bætur frá Tryggingastofnun ríkisins frá 1. apríl 2018. Samkvæmt 39. gr. laga nr. 100/2007 um almannatryggingar, með síðari breytingum, er umsækjanda eða greiðsluþega skylt að veita stofnuninni allar nauðsynlegar upplýsingar til að hægt sé að taka ákvörðun um bótarétt, fjárhæð og greiðslu bóta og annarra greiðslna samkvæmt lögunum og endurskoðun þeirra. Enn fremur er skylt að tilkynna stofnuninni um breytingar á tekjum eða öðrum aðstæðum sem geta haft áhrif á bætur eða greiðslur. Af framangreindu verður ráðið að sú skylda hvíli á greiðsluþegum að upplýsa Tryggingastofnun um tekjur á bótagreiðsluári sem kunna að hafa áhrif á bótarétt.

Í 16. gr. laga um almannatryggingar er kveðið á um tekjutengingu lífeyristrygginga og hvernig Tryggingastofnun ríkisins skuli standa að útreikningi bóta. Í 2. mgr. 16. gr. laga um almannatryggingar segir að til tekna samkvæmt III. kafla teljist tekjur samkvæmt II. kafla laga nr. 90/2003 um tekjuskatt með tilteknum undantekningum. Á grundvelli 7. mgr. 16. gr. þeirra laga ber Tryggingastofnun ríkisins að endurreikna bótafjárhæðir eftir að endanlegar upplýsingar um tekjur bótagreiðsluárs liggja fyrir við álagningu skattyfirvalda á opinberum gjöldum. Í 23. gr. laga um almannatryggingar er kveðið á um útreikning ellilífeyris en þar segir að ellilífeyrir skuli lækka um 45% af tekjum lífeyrisþegans, sbr. 16. gr. laganna, uns lífeyririnn fellur niður. Leiði endurreikningur í ljós að bætur hafi verið ofgreiddar ber Tryggingastofnun að innheimta þær samkvæmt 55. gr. laga um almannatryggingar. Sú meginregla er ítrekuð í 9. gr. reglugerðar nr. 598/2009 um útreikning, endurreikning og uppgjör tekjutengdra bóta og vistunarframlags.

Við úrlausn þessa máls hefur úrskurðarnefnd velferðarmála hliðsjón af þeim lagaákvæðum sem tilgreind hafa verið hér að framan.

Samkvæmt gögnum málsins átti kærandi rétt á ellilífeyri frá 1. apríl 2018 samkvæmt lögum um almannatryggingar. Þann 10. mars 2018 sendi kærandi Tryggingastofnun rafræna tekjuáætlun vegna ársins þar sem hann gerði ráð fyrir 850.000 kr. í lífeyrissjóðstekjur og 700.000 kr. í vexti og 200.000 kr. í arð af hlutabréfum á árinu. Tryggingastofnun greiddi kæranda samkvæmt þessari tekjuáætlun út árið 2018. Samkvæmt upplýsingum úr skattframtali kæranda vegna tekjuársins 2018 reyndust tekjur kæranda á tímabilinu apríl til desember 2018 hafa verið 32.000 kr. í launatekjur, 135.000 kr. í reiknað endurgjald, 3.765.262 kr. í hagnað af atvinnustarfsemi, 639.548 kr. í lífeyrissjóð og 631.897 kr. í fjármagnstekjur. Endurreikningur Tryggingastofnunar á tekjutengdum bótagreiðslum vegna ársins 2018 leiddi í ljós að kærandi hafi átt rétt á 600.750 kr. í greiðslur á árinu en heildargreiðslur ársins hafi verið 2.431.757 kr. Samtals reyndist ofgreiðsla vera 1.154.633 kr., að teknu tilliti til endurgreiddrar staðgreiðslu. Kærandi hefur verið krafinn um endurgreiðslu þeirrar fjárhæðar.

Ágreiningur málsins varðar þann tekjulið í skattframtali kæranda þar sem fram koma upplýsingar um hagnað af atvinnustarfsemi. Í andmælabréfi kæranda til Tryggingastofnunar, dags. 23. júní 2019, vegna endurreiknings og uppgjörs tekjutengdra bóta ársins 2018, gerir kærandi athugasemdir við að litið hafi verið til tekna sem kærandi aflaði á árinu 2016 við endurreikning og uppgjör ársins 2018. Fram kemur að um sé að ræða skattalega tilfærslu milli ára þar sem skattlagningu söluhagnaðar sauðfjárkvóta hafi verið frestað í tengslum við að kærandi hafi hætt búrekstri á árinu 2016. Kærandi hafi nýtt sér heimild samkvæmt lögum um tekjuskatt til að fresta skattlagningu söluhagnaðar um tvenn áramót og skattlagning hafi farið fram árinu 2018 lögum samkvæmt ásamt álagsgreiðslu. Álagsgreiðslan sé ekki tekjur heldur auka skattlagning. Með andmælabréfi kæranda fylgdi meðal annars landbúnaðarskýrsla, fylgiskjal með skattframtali 2019. Í skýrslunni koma fram upplýsingar um tekjufærslu söluhagnaðar frá fyrri árum og álag vegna frestaðs söluhagnaðar.

Samkvæmt 1. málsl. 4. mgr. 15. gr. laga um tekjuskatt getur skattaðili farið fram á frestun skattlagningar söluhagnaðar af landi bújarða og ófyrnanlegum náttúruauðæfum á bújörðum um tvenn áramót frá söludegi, enda afli hann sér sams konar eignar eða íbúðarhúsnæðis til eigin nota í stað hinnar seldu innan þess tíma og færist þá söluhagnaðurinn til lækkunar stofnverði hinnar nýju eignar. Þá segir í 4. málsl. 4. mgr. 15. gr. laganna að ef þessum skilyrðum sé ekki fullnægt teljist söluhagnaðurinn með skattskyldum tekjum þess árs þegar skilyrðið sé rofið, að viðbættu 10% álagi.

Við mat á því hvort tekjur komi til skerðingar tekjutengdum bótum frá Tryggingastofnun ríkisins lítur úrskurðarnefnd velferðarmála til 2. mgr. 16. gr. laga um almannatryggingar. Þar segir eins og áður hefur komið fram að til tekna samkvæmt III. kafla laganna teljist tekjur samkvæmt II. kafla laga um tekjuskatt með tilteknum undantekningum. Samkvæmt 1. mgr. 7. gr. laga um tekjuskatt teljast skattskyldar tekjur hvers konar gæði, arður, laun og hagnaður sem skattaðila hlotnast og metin verða til peningaverðs.

Úrskurðarnefnd velferðarmála telur ljóst að hagnaður af atvinnustarfsemi sé tekjustofn sem skerðir tekjutengdar bætur, sbr. B-lið 1. mgr. 7. gr. laga um tekjustofn. Úrskurðarnefndin horfir til þess að tekjur kæranda vegna hagnaðar af atvinnustarfsemi frá árinu 2016 voru færðar á skattframtali kæranda vegna tekjuársins 2018. Tryggingastofnun er ekki heimilt að horfa fram hjá tekjum sem birtast á framtali bótaþega, enda kveður 7. mgr. 16. gr. laga um almannatryggingar skýrt á um að eftir að endanlegar upplýsingar um tekjur bótagreiðsluársins liggja fyrir við álagningu skattyfirvalda á opinberum gjöldum skuli stofnunin endurreikna bótafjárhæðir á grundvelli tekna samkvæmt þessari grein. Að þessu virtu fellst úrskurðarnefnd ekki á kröfu kæranda um að tekjur vegna hagnaðar af atvinnustarfsemi skerði ekki tekjutengd bótaréttindi frá Tryggingastofnun ríkisins á árinu 2018.

Úrskurðarnefndin telur aftur á móti að álagsgreiðsla vegna frestaðs söluhagnaðar séu ekki tekjur í skilningi 2. mgr. 16. gr. laga um almannatryggingar, sbr. II. kafla laga um tekjuskatt, enda er ekki um að ræða gæði, arð, laun eða hagnað sem skattaðila hlotnast. Kærandi byggði á því í andmælabréfi til Tryggingastofnunar að álagsgreiðslan hefði komið til skerðingar á tekjutengdum bótum kæranda við endurreikning og uppgjör ársins 2018 og lagði fram gögn því til stuðnings. Tryggingastofnun hefur ekki svarað framangreindri málsástæðu kæranda, hvorki í hinni kærðu ákvörðun frá 30. júlí 2019 né greinargerð til úrskurðarnefndarinnar, og af gögnum málsins verður ráðið að stofnunin hafi ekki rannsakað hvort hún ætti við rök að styðjast. Úrskurðarnefndin telur því að Tryggingastofnun hafi ekki rannsakað málið nægjanlega áður en hin kærða ákvörðun frá 30. júlí 2019 var tekin, sbr. 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 og 38. gr. laga um almannatryggingar. Að því virtu telur úrskurðarnefndin rétt að vísa málinu aftur til Tryggingastofnunar til rannsóknar á framangreindu.

Með hliðsjón af öllu framangreindu er það niðurstaða úrskurðarnefndar velferðarmála að fella úr gildi endurreikning og uppgjör Tryggingastofnunar ríkisins á tekjutengdum bótum kæranda vegna ársins 2018. Málinu er vísað aftur til stofnunarinnar til nýrrar meðferðar.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um endurreikning og uppgjör á tekjutengdum bótum A, á árinu 2018 er felld úr gildi. Málinu er vísað aftur til stofnunarinnar til nýrrar meðferðar.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

Rakel Þorsteinsdóttir

 

 

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta