Mál nr. 48/2013
Úrskurðarnefnd félagsþjónustu og húsnæðismála
Hafnarhúsinu v/Tryggvagötu, 150 Reykjvík
Miðvikudaginn 12. mars 2014 var á fundi úrskurðarnefndar félagsþjónustu og húsnæðismála tekið fyrir mál nr. 48/2013:
Kæra A
á ákvörðun
Reykjavíkurborgar
og kveðinn upp svohljóðandi
Ú R S K U R Ð U R:
B hefur f.h. A, hér eftir nefndur kærandi, með kæru, dags. 20. september 2013, skotið til úrskurðarnefndar félagsþjónustu og húsnæðismála synjun Reykjavíkurborgar, dags. 26. júní 2013, á umsókn hans um sérstaka aðstoð vegna stuðningsvinnu til að greiða kostnað vegna tannlækninga að fjárhæð 171.725 kr.
I. Málavextir og málsmeðferð
Kærandi sótti um sérstaka aðstoð vegna stuðningsvinnu til að greiða kostnað vegna tannlækninga að fjárhæð 171.725 kr. hjá Reykjavíkurborg með umsókn, dags. 5. júní 2013. Umsókn kæranda var synjað með bréfi þjónustumiðstöðvar, dags. 7. júní 2013, með þeim rökum að umsóknin samræmdist ekki reglum Reykjavíkurborgar. Kærandi áfrýjaði synjuninni til velferðarráðs með bréfi, dags. 8. júní 2013. Velferðarráð tók málið fyrir á fundi sínum þann 26. júní 2013 og samþykkti svohljóðandi bókun:
„Velferðarráð staðfesti synjun starfsmanna þjónustumiðstöðvar um styrk að upphæð kr. 171.125.- þar sem eigi verður talið að aðstæður umsækjanda falli að skilyrðum þeim sem sett eru í a-lið 27. gr. reglna um fjárhagsaðstoð varðandi styrk vegna sérstakrar aðstoðar vegna stuðningsvinnu og / eða annarra sérstakra aðstæðna.“
Niðurstaða velferðarráðs var tilkynnt kæranda með bréfi, dags. 26. júní 2013. Kærandi óskaði eftir rökstuðningi frá Reykjavíkurborg með bréfi, dags. 17. júlí 2013, og var hann sendur kæranda með bréfi Reykjavíkurborgar, dags. 27. ágúst 2013.
Kærandi lagði fram kæru hjá úrskurðarnefnd félagsþjónustu og húsnæðismála með bréfi, dags. 20. september 2013. Með bréfi, dags. 24. september 2013, óskaði úrskurðarnefnd félagsþjónustu og húsnæðismála eftir öllum gögnum málsins, þar á meðal umsókn kæranda, ákvörðun sveitarfélagsins og gögnum um fjárhag kæranda. Enn fremur var óskað eftir greinargerð Reykjavíkurborgar þar sem fram kæmi meðal annars rökstuðningur fyrir hinni kærðu ákvörðun. Greinargerð Reykjavíkurborgar barst með bréfi, dags. 9. október 2013. Með bréfi úrskurðarnefndar félagsþjónustu og húsnæðismála, dags. 10. október 2013, var bréf Reykjavíkurborgar sent kæranda til kynningar. Engar frekari athugasemdir bárust frá kæranda. Umboðsmaður kæranda óskaði upplýsinga um stöðu málsins með símtali þann 28. október 2013 og voru þær upplýsingar veittar. Með bréfi úrskurðarnefndar félagsþjónustu og húsnæðismála, dags. 28. janúar 2014, var kæranda tilkynnt um tafir á afgreiðslu málsins sem orsökuðust af miklum málafjölda hjá úrskurðarnefndinni en að vonir stæðu til þess að ljúka málinu sem fyrst.
II. Málsástæður kæranda
Kærandi kveður tannlæknasögu sína vera langa og stranga. Hann hafi sótt um styrk til að greiða tannlæknakostnað vegna aðgerðar sem enginn hafi séð fyrir. Kærandi bendir á að ákvæði a-liðar 27. gr. reglna um fjárhagsaðstoð frá Reykjavíkurborg eigi við um aðstæður hans. Honum sé veittur stanslaus og markviss stuðningur. Hann sé stanslaust undir eftirliti hjá tannlækni og aðgerðin sé einmitt liður í að viðhalda þeim árangri sem náðst hafi. Annars myndu allar tennur hans losna og öll vinna verið til einskis. Móðir kæranda leggi út fyrir öllum tannviðgerðum og öðrum tilfallandi kostnaði.
III. Sjónarmið Reykjavíkurborgar
Í greinargerð Reykjavíkurborgar vegna kærunnar kemur fram að kærandi eigi sér langa sögu um geðræn veikindi. Frá 16 ára aldri hafi hann glímt við félagsfælni, þráhyggju, ofsakvíða og þunglyndi. Um tvítugt hafi hann greinst með geðklofa og farið í endurhæfingarinnlögn á Kleppsspítala. Því næst hafi kærandi verið greindur með vökvafíkn sem sé eitt af einkennum geðklofasjúkdómsins. Vökvafíkn hans lýsi sér þannig að hann drekki óhóflegt magn af gosdrykkjum hvern dag en kærandi hafi ekki stjórn á fíkn sinni sökum sjúkdómsins. Gosdrykkjan hafi valdið miklum tannskemmdum hjá kæranda. Reykjavíkurborg bendir á að núgildandi reglur um fjárhagsaðstoð frá Reykjavíkurborg með áorðnum breytingum hafi tekið gildi þann 1. janúar 2011 og samþykktar í velferðarráði Reykjavíkurborgar þann 17. nóvember 2010 og í borgarráði þann 25. nóvember 2010. Samkvæmt a-lið 27. gr. reglnanna sé heimilt að veita sérstaka aðstoð í málum þar sem verið sé að veita markvissan stuðning. Aðstoðin miði að því að viðhalda árangri sem náðst hafi með stuðningsvinnu. Skilyrði sé að umsækjandi eigi í miklum félagslegum erfiðleikum. Reykjavíkurborg bendir á að kærandi óski eftir styrk til greiðslu tannlæknakostnaðar en um heilbrigðiskostnað sé að ræða. Slíkur kostnaður sé ekki hluti af félagsþjónustu sveitarfélaga og falli þar af leiðandi ekki undir a-lið 27. gr. reglnanna. Þá sé ljóst að kærandi uppfylli ekki ofangreind skilyrði ákvæðisins sem miði að því að viðhalda árangri sem náðst hafi með stuðningsvinnu. Árið 2011 hafi velferðarráð veitt kæranda styrk að fjárhæð 500.000 kr. til að greiða fyrir tannlækningar og hafi þá verið tekið tillit til sérstakra aðstæðna í máli kæranda. Tannviðgerðir þær sem kærandi hafi óskað styrks fyrir núna hafi verið framkvæmdar og því sé sótt um styrk til greiðslu skuldar hjá tannlækni. Samkvæmt upplýsingum frá tannlækni kæranda komi fram að tannhirða kæranda sé ófullnægjandi. Samkvæmt upplýsingum á heimasíðu Tannlæknafélags Íslands komi fram að tannholdsbólga leiði að lokum til tannskemmda og jafnvel að tennur losni ef ekkert sé að gert. Ekki hafi því verið sýnt fram á að orsakatengsl séu milli tannviðgerðanna árið 2011 og tannholdsbólgunnar sem nú sé sótt um styrk til að greiða fyrir lagfæringu á. Enda myndi slíkt auk þess ekki leiða til að sveitarfélag bæri ábyrgð á greiðslu tannlæknakostnaðar þar sem slíkur heilbrigðiskostnaður falli ekki undir félagsþjónustu sveitarfélags.
IV. Niðurstaða
Málskotsheimild kæranda er reist á 63. gr. laga um félagsþjónustu sveitarfélaga, nr. 40/1991. Fyrir nefndinni liggja reglur um fjárhagsaðstoð frá Reykjavíkurborg frá 1. janúar 2011, með síðari breytingum. Í máli þessu er ágreiningur um hvort Reykjavíkurborg hafi borið að samþykkja umsókn kæranda um sérstaka aðstoð vegna stuðningsvinnu til að greiða kostnað vegna tannlækninga að fjárhæð 171.725 kr.
Fjallað er um rétt til fjárhagsaðstoðar til þeirra sem eigi fá séð fyrir sjálfum sér, maka sínum og börnum yngri en 18 ára í IV. og VI. kafla laga um félagsþjónustu sveitarfélaga, nr. 40/1991. Samkvæmt 21. gr. laganna skal sveitarstjórn setja sér reglur um framkvæmd fjárhagsaðstoðar að fengnum tillögum félagsmálanefndar er metur þörf og ákveður fjárhagsaðstoð til einstaklinga í samræmi við reglur sveitarstjórnar, sbr. 2. mgr. sömu greinar. Lög nr. 40/1991 veita þannig sveitarfélögum ákveðið svigrúm til að meta sjálf miðað við aðstæður á hverjum stað, hvers konar þjónustu þau vilja veita. Í samræmi við þetta og ákvæði stjórnarskrárinnar um sjálfsstjórn sveitarfélaga er mat á þeirri nauðsyn að meginstefnu til lagt í hendur þeirrar sveitarstjórnar er þjónustuna veitir. Verður ekki við því mati hróflað af hálfu úrskurðarnefndar félagsþjónustu og húsnæðismála enda byggist það á lögmætum sjónarmiðum og sé í samræmi við lög að öðru leyti.
Kærandi sótti um sérstaka aðstoð vegna stuðningsvinnu til að greiða kostnað vegna tannlækninga að fjárhæð 171.725 kr. Umsókn hans var synjað á grundvelli þess að skilyrðum a-liðar 27. gr. reglna um fjárhagsaðstoð frá Reykjavíkurborg hafi ekki verið fullnægt í málinu sem miði að því að viðhalda árangri sem náðst hafi með stuðningsvinnu. Reykjavíkurborg hefur við meðferð málsins bent á að heilbrigðiskostnaður sé ekki hluti af félagsþjónustu sveitarfélaga og falli því ekki undir a-lið 27. gr. reglnanna. Þá hafi tannviðgerðirnar verið framkvæmdar og því sé óskað styrks til greiðslu skuldar. Enn fremur bendir Reykjavíkurborg á að ekki hafi verið sýnt fram á að orsakatengsl séu milli tannviðgerða kæranda árið 2011 og tannholdsbólgunnar sem nú sé sótt um styrk til að greiða fyrir lagfæringu á.
Í a-lið 27. gr. reglna Reykjavíkurborgar kemur fram að heimilt sé að veita sérstaka aðstoð í málum þar sem verið er að veita markvissan stuðning. Aðstoðin miði að því að viðhalda árangri sem náðst hafi með stuðningsvinnu. Skilyrði er sett um að umsækjandi eigi í miklum félagslegum erfiðleikum. Úrskurðarnefndin telur að í máli þessu liggi ekki fyrir með nægjanlega skýrum hætti hvernig Reykjavíkurborg lagði mat á aðstæður kæranda. Hefur þannig ekkert komið fram um hvort Reykjavíkurborg hafi talið að honum hafi verið veittur markviss stuðningur né hvort og að hvaða leyti tannviðgerðir hans hafi talist til stuðningsvinnu, sbr. a-lið 27. gr. reglnanna. Enn fremur hefur ekki komið fram um á hvaða grundvelli kæranda var veittur styrkur þann 30. desember 2011 að fjárhæð 500.000 kr. fyrir tannviðgerðum og að hvaða leyti aðstæður hans eru nú frábrugðnar því sem þá var. Úrskurðarnefndin bendir einnig á að þann 23. september 2008 var kæranda veittur styrkur að fjárhæð 675.000 kr. til að greiða skuldir og liggur ekki fyrir á hvaða grundvelli sá styrkur var veittur né hvernig aðstæður hans eru nú frábrugðnar því sem þá var. Úrskurðarnefndin bendir á að Reykjavíkurborg er bundin af jafnræðisreglu stjórnsýslulaga, sbr. 11. gr. laga nr. 37/1993, en samkvæmt henni skulu stjórnvöld gæta samræmis og jafnræðis í lagalegu tilliti. Þegar stjórnvald hefur byggt ákvörðun á tilteknum sjónarmiðum og lagt áherslu á ákveðin sjónarmið leiðir jafnræðisreglan almennt til þess að þegar sambærilegt mál kemur aftur til úrlausnar ber almennt að leysa úr því á grundvelli sömu sjónarmiða og með sömu áherslu og gert var við úrlausn hinna eldri mála. Það er mat úrskurðarnefndarinnar að mál þetta hafi ekki verið upplýst nægjanlega, sbr. 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, og að ekki verði úr þeim annmarka bætt af hálfu úrskurðarnefndarinnar. Hin kærða ákvörðun verður því felld úr gildi og lagt fyrir Reykjavíkurborg að taka málið til löglegrar meðferðar.
Úrskurð þennan kváðu upp Bergþóra Ingólfsdóttir formaður, Sveinbjörg Birna Sveinbjörnsdóttir og Gunnar Eydal, meðnefndarmenn.
Ú R S K U R Ð A R O R Ð
Ákvörðun Reykjavíkurborgar, dags. 26. júní 2013, um synjun á umsókn A um sérstaka aðstoð vegna stuðningsvinnu til að greiða kostnað vegna tannlækninga að fjárhæð 171.725 kr. er felld úr gildi og lagt fyrir Reykjavíkurborg að taka málið til löglegrar meðferðar.
Bergþóra Ingólfsdóttir, formaður
Sveinbjörg Birna Sveinbjörnsdóttir
Gunnar Eydal