Hoppa yfir valmynd

Mál nr. 62/2013

Úrskurðarnefnd félagsþjónustu og húsnæðismála
Hafnarhúsinu v/Tryggvagötu, 150 Reykjavík

       

Fimmtudaginn 27. mars 2014 var á fundi úrskurðarnefndar félagsþjónustu og húsnæðismála tekið fyrir mál nr. 62/2013:

Kæra A

á ákvörðun

Reykjavíkurborgar

og kveðinn upp svohljóðandi

Ú R S K U R Ð U R:

 

A, hér eftir nefndur kærandi, hefur með kæru, dags. 25. október 2013, skotið til úrskurðarnefndar félagsþjónustu og húsnæðismála synjun Reykjavíkurborgar, dags. 25. október 2013, á umsókn hans um námsstyrk fyrir tímabilið 1. september til 31. desember 2013.

I. Málavextir og málsmeðferð

Kærandi missti vinnuna í október 2012 og hefur fengið greiddar atvinnuleysisbætur frá þeim tíma. Í janúar 2013 hóf hann nám við B á námssamningi 1 frá Vinnumálastofnun. Kærandi lagði stund á sjö fög á vorönn 2013 en féll í einu fagi og því stóð honum ekki til boða að vera áfram á námssamningi 1 hjá Vinnumálastofnun. Kæranda stóð til boða að fara á námssamning 2 en í honum fólst að kærandi þyrfti að vera í virkri atvinnuleit og nýta öll atvinnuúrræði sem í boði væru ásamt því að leggja stund á fagið sem hann féll í á vorönn 2013. Þegar kærandi fékk umræddar upplýsingar frá Vinnumálastofnun hafði hann þegar skráð sig í fullt nám á haustönn 2013.

Kærandi sótti um námsstyrk fyrir tímabilið 1. september til 31. desember 2013, styrk til greiðslu innritunargjalds að fjárhæð 20.000 krónur og styrk til greiðslu bókakostnaðar að fjárhæð 25.000 krónur hjá Reykjavíkurborg með umsókn, dags. 20. ágúst 2013. Umsókn kæranda var synjað með bréfum þjónustumiðstöðvar, dags. 23. ágúst 2013, með þeim rökum að umsóknin félli ekki að skilyrðum 18. gr. reglna um fjárhagsaðstoð frá Reykjavíkurborg. Kærandi áfrýjaði synjuninni til velferðarráðs með bréfi, dags. 2. september 2013. Velferðarráð tók málið fyrir á fundi sínum þann 25. september 2013 og samþykkti svohljóðandi bókun:

Velferðarráð staðfesti synjun starfsmanna þjónustumiðstöðvar um námsstyrk tímabilið 1. september 2013 til 31. desember 2013 ásamt innritunar- og bókakostnaði samtals kr. 45.000.- þar sem aðstæður umsækjanda falli eigi að skilyrðum þeim sem sett eru í 18. gr. reglna um fjárhagsaðstoð varðandi námsstyrki.

Niðurstaða velferðarráðs var tilkynnt kæranda með bréfi, dags. 25. september 2013. Kærandi lagði fram kæru hjá úrskurðarnefnd félagsþjónustu og húsnæðismála með bréfi, dags. 25. október 2013. Með bréfi, dags. 14. nóvember 2013, óskaði úrskurðarnefnd félagsþjónustu og húsnæðismála eftir öllum gögnum málsins, þar á meðal umsókn kæranda, ákvörðun sveitarfélagsins og gögnum um fjárhag kæranda. Enn fremur var óskað eftir greinargerð Reykjavíkurborgar þar sem fram kæmi meðal annars rökstuðningur fyrir hinni kærðu ákvörðun. Greinargerð Reykjavíkurborgar barst með bréfi, dags. 13. desember 2013. Með bréfi úrskurðarnefndar félagsþjónustu og húsnæðismála, dags. 18. desember 2013, var bréf Reykjavíkurborgar sent kæranda til kynningar. Engar frekari athugasemdir bárust frá kæranda. Með bréfi úrskurðarnefndar félagsþjónustu og húsnæðismála, dags. 28. janúar 2014, var kæranda tilkynnt um tafir á afgreiðslu málsins sem orsökuðust af miklum málafjölda hjá úrskurðarnefndinni en að vonir stæðu til þess að ljúka málinu sem fyrst.

II. Málsástæður kæranda

Kærandi bendir á að hann hafi ekki átt rétt á bótum frá Vinnumálastofnun, sbr. staðfestingu þess efnis. Að öðru leyti vísar kærandi í samskipti sín við sveitarfélagið.

Í áfrýjunarbréfi kæranda til velferðarráðs, dags. 2. september 2013, kemur fram að kærandi telji sig uppfylla skilyrði 18. gr. reglna um fjárhagsaðstoð frá Reykjavíkurborg. Kærandi kveðst hafa þegið atvinnuleysisbætur undanfarna mánuði en þær hafi fallið niður þann 21. ágúst 2013. Hann sé skráður í 18 einingar í B og gangi allt eftir muni hann ljúka C. Hann hafi ekki tök á að vinna með náminu þar sem heilsan leyfi það ekki vegna mígreni. Þar sem ljóst sé að hann eigi ekki rétt á atvinnuleysisbótum og hann geti ekki unnið með náminu muni hann flosna upp úr námi nema hann fái námsstyrk frá Reykjavíkurborg. Því telur kærandi að ákvæði 18. gr. reglnanna eigi við í tilfelli hans og því hafi ekki verið réttmætt að synja styrkbeiðnum hans.

III. Sjónarmið Reykjavíkurborgar

Í greinargerð Reykjavíkurborgar eru rakin ákvæði 18. gr. reglna um fjárhagsaðstoð frá Reykjavíkurborg. Fram kemur að aðstæður kæranda hafi ekki fallið að a-lið þar sem kærandi hafi ekki átt við mikla félagslega erfiðleika að stríða. Þá falli kærandi ekki að b-lið þar sem hann hafi ekki haft atvinnutekjur sem séu lægri en grunnfjárhæð fjárhagsaðstoðar undanfarna tólf mánuði og ekki sé talið að hann hafi átt í félagslegum erfiðleikum. Þá eigi d-liður ekki við í tilfelli kæranda þar sem hann hafi verið atvinnulaus og notið bótaréttar frá Vinnumálastofnun. Þá eigi e-liður ekki við í tilfelli kæranda. Hvað varði c-lið þá sé kærandi að ljúka C og stefni í framhaldinu á að komast að í D sem sé lánshæft hjá Lánasjóði íslenskra námsmanna. Samkvæmt fyrri sögu hafi kærandi áður unnið meðan hann hafi verið í námi en hann kveðist þó ekki treysta sér til að vinna með náminu í dag þar sem hann telji að álagið verði of mikið. Þá liggi fyrir að kæranda hafi staðið til boða að vera á námssamningi 2 hjá Vinnumálastofnun og leggja stund á fagið sem hann hafi fallið í vorið 2013 ásamt því að þiggja atvinnuleysisbætur og sinna virkri atvinnuleit og nýta öll atvinnuúrræði sem í boði væru. Því hafi Reykjavíkurborg talið að aðstæður kæranda féllu ekki að c-lið 18. gr.

Ákvæði 18. gr. reglna um fjárhagsaðstoð frá Reykjavíkurborg um námsstyrk sé heimildarákvæði og í lögum um félagsþjónustu sveitarfélaga sé ekki að finna ákvæði sem skyldi sveitarfélög til að framfæra einstaklinga sem leggi stund á nám. Samkvæmt 12. gr. laga um félagsþjónustu sveitarfélaga skuli sveitarfélag tryggja að íbúar geti séð fyrir sér og sínum en aðstoð skuli vera til þess fallin að bæta úr vanda og koma í veg fyrir að einstaklingar og fjölskyldur komist í þá aðstöðu að geta ekki ráðið fram úr málum sínum sjálf. Almennt sé gert ráð fyrir að einstaklingar sem leiti eftir fjárhagsaðstoð séu í atvinnuleit en leggi ekki stund á nám. Í þessu samhengi verði einnig að líta til þess sem fram komi í frumvarpi til laga sem síðar hafi orðið að lögum um félagsþjónustu sveitarfélaga, nr. 40/1991, en þar segi um 1. gr. að opinber félagsþjónusta megi ekki verða til þess að deyfa tilfinninguna fyrir ábyrgð einstaklingsins á sjálfum sér og öðrum. Gera verði þá kröfu að einstaklingar hugi að framfærslu sinni og þeirra sem þeim beri lögum samkvæmt skylda til að framfæra. Fjárhagsaðstoð sé öryggisnet til þrautavara, þ.e. tímabundið úrræði og neyðarráðstöfun, til þess að forða þeim einstaklingum og fjölskyldum frá örbirgð sem ekki eigi neinna annarra kosta völ til þess að eiga í sig og á.

Þá komi einnig fram í 4. mgr. 1. gr. reglna um fjárhagsaðstoð frá Reykjavíkurborg að kanna skuli til þrautar rétt umsækjanda til annarra greiðslna, þar með talið frá almannatryggingum, atvinnuleysistryggingum, lífeyrissjóðum og sjúkrasjóðum stéttarfélaga, svo og skuli kanna rétt til aðstoðar samkvæmt lögum um námsstyrki. Kærandi í máli þessu hafi fengið greiddar atvinnuleysisbætur og hafi á vorönn 2013 verið í námi ásamt því að þiggja atvinnuleysisbætur, þ.e. kærandi hafi verið á námssamningi 1 hjá Vinnumálastofnun. Kæranda hafi staðið til boða að vera á námssamningi 2 hjá Vinnumálastofnun á haustönn 2013 en í slíkum samningi felist að kærandi þurfi að vera í virkri atvinnuleit og nýta öll atvinnuúrræði sem í boði séu ásamt því að leggja stund á fagið sem kærandi hafi fallið í á vorönn 2013. Kærandi hafi skráð sig í fullt nám á haustönn 2013 og hafi þannig fyrirgert rétti sínum til að þiggja atvinnuleysisbætur samhliða því að leggja stund á nám. Ljóst sé að kærandi hefði getað notið réttar til atvinnuleysisbóta hjá Vinnumálastofnun hefði hann þegið að vera á námssamningi 2 hjá Vinnumálastofnun. Það að kærandi hafi skráð sig í fullt nám sé á hans ábyrgð og hans val.

Samkvæmt 19. gr. laga um félagsþjónustu sveitarfélaga hvíli sú skylda á kæranda að framfæra sjálfan sig og beri honum að leita leiða til að framfæra sig áður en leitað sé eftir aðstoð frá sveitarfélagi. Kæranda beri því að huga að og tryggja framfærslu sína með þeim ráðum sem honum standi til boða áður en leitað sé eftir fjárhagsaðstoð frá sveitarfélagi. Kærandi í máli þessu hafi valið að leggja stund á nám og sé það almennt ekki skylda sveitarfélaga að framfleyta þá einstaklinga sem leggi stund á nám. Þá falli kærandi ekki undir heimildarákvæði 18. gr. reglnanna eins og að framan sé rakið. Með hliðsjón af framansögðu hafi umsókn kæranda verið synjað.

IV. Niðurstaða

Málskotsheimild kæranda er reist á 63. gr. laga um félagsþjónustu sveitarfélaga, nr. 40/1991. Fyrir nefndinni liggja reglur um fjárhagsaðstoð frá Reykjavíkurborg frá 1. janúar 2011, með síðari breytingum. Í máli þessu er ágreiningur um hvort Reykjavíkurborg hafi borið að samþykkja umsókn kæranda um námsstyrk fyrir tímabilið 1. september til 31. desember 2013, styrk til greiðslu innritunargjalds að fjárhæð 20.000 krónur og styrk til greiðslu bókakostnaðar að fjárhæð 25.000 krónur.

Fjallað er um rétt til fjárhagsaðstoðar til þeirra sem eigi fá séð fyrir sjálfum sér, maka sínum og börnum yngri en 18 ára í IV. og VI. kafla laga um félagsþjónustu sveitarfélaga, nr. 40/1991. Samkvæmt 21. gr. laganna skal sveitarstjórn setja sér reglur um framkvæmd fjárhagsaðstoðar að fengnum tillögum félagsmálanefndar er metur þörf og ákveður fjárhagsaðstoð til einstaklinga í samræmi við reglur sveitarstjórnar, sbr. 2. mgr. sömu greinar. Lög nr. 40/1991 veita þannig sveitarfélögum ákveðið svigrúm til að meta sjálf miðað við aðstæður á hverjum stað, hvers konar þjónustu þau vilja veita. Í samræmi við þetta og ákvæði stjórnarskrárinnar um sjálfsstjórn sveitarfélaga er mat á þeirri nauðsyn að meginstefnu til lagt í hendur þeirrar sveitarstjórnar er þjónustuna veitir. Verður ekki við því mati hróflað af hálfu úrskurðarnefndar félagsþjónustu og húsnæðismála enda byggist það á lögmætum sjónarmiðum og sé í samræmi við lög að öðru leyti.

Kærandi sótti um námsstyrk fyrir tímabilið 1. september til 31. desember 2013, styrk til greiðslu innritunargjalds að fjárhæð 20.000 krónur og styrk til greiðslu bókakostnaðar að fjárhæð 25.000 krónur. Umsókn hans var synjað á þeim grundvelli að skilyrði 18. gr. reglna um fjárhagsaðstoð frá Reykjavíkurborg hafi ekki verið uppfyllt.

Í 18. gr. reglna um fjárhagsaðstoð frá Reykjavíkurborg kemur fram að námsstyrki sé heimilt að veita í eftirfarandi tilvikum og aðstoðin miðist við grunnfjárhæð fjárhagsaðstoðar skv. 11. gr. ásamt almennum skólagjöldum og bókakostnaði:

a)      Til einstaklinga 18–24 ára, sem ekki hafa lokið grunnskóla eða framhaldsskóla og hafa átt við mikla félagslega erfiðleika að stríða.

b)      Til einstæðra foreldra á aldrinum 18–24 ára, sem ekki hafa lokið grunnskóla eða framhaldsskóla og hafa haft atvinnutekjur sem eru lægri en grunnfjárhæð fjárhagsaðstoðar, sbr. 1. mgr. 11. gr. reglna þessara, undanfarna tólf mánuði. Skilyrði er að umsækjandi hafi átt í félagslegum erfiðleikum.

c)      Til einstaklinga á aldrinum 18–24 ára sem ekki hafa lokið framhaldsskóla og eiga eftir óloknum að hámarki tveimur önnum. Um sé að ræða einstakling sem ekki hefur tök á að vinna með skóla og fyrir liggur mat á því að ef ekki komi til aðstoðar sé ljóst að viðkomandi flosni upp úr námi.

d)      Til einstaklinga sem hafa verið atvinnulausir án bótaréttar eða þegið fjárhagsaðstoð í sex mánuði eða lengur og hafa ekki lokið grunnnámi sem gefur rétt á námsláni.

e)      Heimilt er að veita tekjulágum foreldrum fjárstyrk vegna náms 16 og 17 ára barna. Hér er átt við tekjulága foreldra sem átt hafa í langvarandi félagslegum erfiðleikum.

Reykjavíkurborg taldi að aðstæður kæranda hafi ekki fallið að a-lið 18. gr. þar sem kærandi hafi ekki átt við mikla félagslega erfiðleika að stríða. Þá taldi Reykjavíkurborg að aðstæður kæranda hafi ekki fallið að b-lið 18. gr. þar sem hann hafi ekki haft atvinnutekjur sem séu lægri en grunnfjárhæð fjárhagsaðstoðar undanfarna tólf mánuði og ekki hafi verið talið að hann hafi átt í félagslegum erfiðleikum. Úrskurðarnefndin telur að ekkert hafi komið fram í málinu sem gefi tilefni til að gera athugasemdir við mat Reykjavíkurborgar á félagslegum erfiðleikum kæranda og tekur því undir með sveitarfélaginu að aðstæður kæranda hafi ekki fallið að a- og b-liðum 18. gr. Þá taldi Reykjavíkurborg d-lið 18. gr. ekki eiga við í tilfelli kæranda þar sem hann hafi verið atvinnulaus og notið bótaréttar frá Vinnumálastofnun. Kærandi hefur lagt fram staðfestingu frá Starfi, vinnumiðlun og ráðgjöf, dags. 27. september 2013, um að hann hafi lokið bótarétti og hafi fengið síðustu útborgun launa frá Atvinnuleysistryggingasjóði þann 1. september 2013. Kærandi sótti um námsstyrk í ágúst 2013 og hafði þá verið atvinnulaus en þegið atvinnuleysisbætur. Úrskurðarnefndin telur því að d-liður 18. gr. reglnanna hafi ekki átt við í máli kæranda. Reykjavíkurborg taldi að e-liður 18. gr. hafi ekki átt við í tilfelli kæranda og tekur úrskurðarnefndin undir það, enda hefur þegar komið fram að kærandi hafi ekki verið talinn eiga við mikla félagslega erfiðleika að stríða.

Enn fremur taldi Reykjavíkurborg að aðstæður kæranda féllu ekki að c-lið 18. gr. þar sem kæranda hafi staðið til boða að vera á námssamningi 2 hjá Vinnumálastofnun og leggja stund á fagið sem hann hafi fallið í vorið 2013 ásamt því að þiggja atvinnuleysisbætur og sinna virkri atvinnuleit og nýta öll atvinnuúrræði sem í boði væru. Reykjavíkurborg bendir á að í 4. mgr. 1. gr. reglna um fjárhagsaðstoð frá Reykjavíkurborg komi fram að kanna skuli til þrautar rétt umsækjanda til annarra greiðslna, þar með talið frá atvinnuleysistryggingum. Kærandi í máli þessu hafi fengið greiddar atvinnuleysisbætur og hafi á vorönn 2013 verið í námi ásamt því að þiggja atvinnuleysisbætur. Kærandi hafi skráð sig í fullt nám á haustönn 2013 og hafi þannig fyrirgert rétti sínum til að þiggja atvinnuleysisbætur samhliða því að leggja stund á nám. Ljóst sé að kærandi hefði getað notið réttar til atvinnuleysisbóta hjá Vinnumálastofnun hefði hann þegið að vera á námssamningi 2 hjá Vinnumálastofnun. Það að kærandi hafi skráð sig í fullt nám sé á hans ábyrgð og hans val. Úrskurðarnefndin bendir á að kærandi var 24 ára þegar hann sótti um námsstyrk. Hann hafði ekki lokið framhaldsskóla en ekki hefur verið upplýst hversu mörgum önnum hann átti eftir óloknum. Þá liggur ekki fyrir hvort Reykjavíkurborg hafi lagt mat á hvort kærandi hefði tök á að vinna með skóla né mat á því hvort hann myndi flosna upp úr námi fengi hann ekki aðstoð frá sveitarfélaginu, þrátt fyrir að kærandi hafi byggt á því að heilsa hans leyfði ekki að hann ynni með námi. Í ljósi þessa telur úrskurðarnefndin að ekki hafi verið nægjanlega rannsakað hvort kærandi uppfyllti skilyrði c-liðar 18. gr. reglna um fjárhagsaðstoð frá Reykjavíkurborg. Hin kærða ákvörðun verður því felld úr gildi og lagt fyrir Reykjavíkurborg að taka umsókn kæranda um námsstyrk fyrir tímabilið 1. september til 31. desember 2013 til löglegrar meðferðar.

Úrskurð þennan kváðu upp Bergþóra Ingólfsdóttir formaður, Sveinbjörg Birna Sveinbjörnsdóttir og Gunnar Eydal, meðnefndarmenn.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Ákvörðun Reykjavíkurborgar, dags. 25. október 2013, um synjun á umsókn A um námsstyrk fyrir tímabilið 1. september til 31. desember 2013 er felld úr gildi og lagt fyrir Reykjavíkurborg að taka málið til löglegrar meðferðar.

Bergþóra Ingólfsdóttir, formaður

Sveinbjörg Birna Sveinbjörnsdóttir

Gunnar Eydal

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta