Hoppa yfir valmynd

Mál nr. 63/2013

Úrskurðarnefnd félagsþjónustu og húsnæðismála
Hafnarhúsinu v/Tryggvagötu, 150 Reykjavík

                                                            

Fimmtudaginn 27. mars 2014 var á fundi úrskurðarnefndar félagsþjónustu og húsnæðismála tekið fyrir mál nr. 63/2013:

Kæra A

á ákvörðun

Íbúðalánasjóðs

og kveðinn upp svohljóðandi

Ú R S K U R Ð U R:

A, hér eftir nefndur kærandi, hefur með kæru, dags. 18. nóvember 2013, kært til úrskurðarnefndar félagsþjónustu og húsnæðismála kröfu Íbúðalánasjóðs um greiðslu eftirstöðva veðskuldar við sjóðinn eftir nauðungarsölu dags. 12. júní 2012.

I. Helstu málsatvik og kæruefni

Fasteign kæranda var seld á nauðungaruppboði þann 26. september 2011 og eignaðist Íbúðalánasjóður þá eignina. Íbúðalánasjóður aflaði verðmats löggilts fasteignasala, dags. 13. mars 2012, og var fasteignin metin á 16.800.000 kr. Með bréfi Íbúðalánasjóðs, dags. 12. júní 2012, var kæranda tilkynnt um skuldastöðu eftir nauðungarsölu og áskorun um greiðslu þar sem byggt var á framangreindu verðmati.

II. Málsmeðferð

Með bréfi, dags. 20. nóvember 2013, óskaði úrskurðarnefnd félagsþjónustu og húsnæðismála eftir afstöðu Íbúðalánasjóðs til málsins, upplýsingum um meðferð þess hjá sjóðnum og öllum gögnum. Afstaða Íbúðalánasjóðs barst með bréfi, dags. 10. janúar 2014. Með bréfi úrskurðarnefndar félagsþjónustu og húsnæðismála, dags. 13. janúar 2014, var bréf Íbúðalánasjóðs sent kæranda til kynningar. Engar frekari athugasemdir bárust frá kæranda. Með bréfi úrskurðarnefndarinnar, dags. 28. janúar 2014, var kæranda tilkynnt um tafir á meðferð máls.

III. Sjónarmið kæranda

Kærandi bendir á að fasteignamat íbúðarinnar hafi verið töluvert hærra en verðmat miðað við uppboðsdag.

IV. Sjónarmið Íbúðalánasjóðs

Í athugasemdum Íbúðalánasjóðs vegna kærunnar kemur fram að verðmat á íbúð kæranda hafi verið unnið að beiðni Íbúðalánasjóðs af Fasteignasölunni Höfða og matið sé dagsett 13. mars 2012. Íbúðin hafi verið metin á 16.800.000 kr. og fasteignamat hafi þá verið 16.500.000 kr. Ekki fáist séð að sá munur hafi verið til staðar á fasteignamati og verðmati sem kærandi haldi fram heldur hafi hækkun á fasteignamati komið til síðar.

V. Niðurstaða

Málskot kæranda er reist á 1. mgr. 42. gr. laga um húsnæðismál, nr. 44/1998. Hlutverk úrskurðarnefndar félagsþjónustu og húsnæðismála er meðal annars að skera úr ágreiningsmálum er kunna að rísa vegna ákvarðana Íbúðalánasjóðs og húsnæðisnefnda. Hin kærða ákvörðun varðar kröfu Íbúðalánasjóðs um greiðslu eftirstöðva veðskuldar við sjóðinn eftir nauðungarsölu frá 12. júní 2012.

Í 1. mgr. 42. gr. laga um húsnæðismál kemur fram að málsaðili geti skotið ákvörðun Íbúðalánasjóðs til úrskurðarnefndar félagsþjónustu og húsnæðismála. Ákvæðinu var breytt með 2. gr. laga nr. 77/2001 en í athugasemdum við 2. gr. frumvarpsins segir að með ákvörðun Íbúðalánasjóðs sé átt við stjórnvaldsákvörðun í skilningi stjórnsýslulaga. Svo úrskurðarnefndin geti tekið kæru til efnislegrar meðferðar þarf því að liggja fyrir stjórnvaldsákvörðun. Um stjórnvaldsákvörðun er einungis að ræða hafi stjórnvald tekið ákvörðun um rétt eða skyldu tiltekins aðila í skjóli stjórnsýsluvalds. Úrskurðarnefndin bendir á að kaup fasteigna við nauðungarsölu teljast ekki liður í almennri starfsemi Íbúðalánasjóðs, heldur er um að ræða úrræði sem gripið er til ef hagur sjóðsins beinlínis krefst þess í því skyni að verja kröfur sínar. Í framhaldi af nauðungarsölu á íbúð kæranda krafði Íbúðalánasjóður kæranda um greiðslu þess sem eftir stóð af veðskuld hans þar sem sjóðurinn taldi að markaðsverð eignarinnar við samþykki boðs hafi ekki nægt til fullnustu kröfunnar, sbr. 1. mgr. 57. gr. laga um nauðungarsölu, nr. 90/1991. Það er mat úrskurðarnefndarinnar að krafa Íbúðalánasjóðs um greiðslu eftirstöðva veðskuldar á grundvelli laga um nauðungarsölu teljist ekki til stjórnvaldsákvarðana. Kæru á kröfu Íbúðalánasjóðs um greiðslu eftirstöðva veðskuldar við sjóðinn eftir nauðungarsölu frá 12. júní 2012 verður því vísað frá.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Kæru A er vísað frá úrskurðarnefnd félagsþjónustu og húsnæðismála.

Bergþóra Ingólfsdóttir, formaður

Sveinbjörg Birna Sveinbjörnsdóttir

Gunnar Eydal

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta