Hoppa yfir valmynd

Mál nr. 52/2013

Úrskurðarnefnd félagsþjónustu og húsnæðismála
Hafnarhúsinu v/Tryggvagötu, 150 Reykjavík

Miðvikudaginn  9. apríl 2014 var á fundi úrskurðarnefndar félagsþjónustu og húsnæðismála tekið fyrir mál nr. 52/2013:

Kæra A

á ákvörðun

Kópavogsbæjar

og kveðinn upp svohljóðandi

Ú R S K U R Ð U R:

A, hér eftir nefnd kærandi, hefur með kæru, dags. 2. október 2013, skotið til úrskurðarnefndar félagsþjónustu og húsnæðismála synjun Kópavogsbæjar, dags. 17. september 2013, á umsókn hennar um sérstaka aðstoð vegna barna til greiðslu jazzballets.

I. Málavextir og málsmeðferð

Kærandi sótti um sérstaka aðstoð vegna barna til greiðslu skólamáltíða og jazzballets hjá Kópavogsbæ með umsókn, dags. 12. ágúst 2013. Umsókn kæranda var tekin fyrir á teymisfundi þann 14. ágúst 2013 þar sem eftirfarandi bókun var gerð:

Umsókn um styrk til greiðslu skólamáltíða og jazzballetts er synjað þar sem umsækjandi er yfir tekjumörkum greinarinnar.

Niðurstaða teymisfundar var tilkynnt kæranda með bréfi, dags. 14. ágúst 2013. Kærandi áfrýjaði synjuninni til félagsmálaráðs Kópavogs með bréfi, dags. 4. september 2013. Félagsmálaráð Kópavogs tók málið fyrir á fundi sínum þann 17. september 2013 og samþykkti svohljóðandi bókun:

Félagsmálaráð samþykkir m.t.t. aðstæðna og þarfa barnanna að greiða kostnað ve[gn]a skólamáltíða.

Niðurstaða félagsmálaráðs var tilkynnt kæranda með bréfi, dags. 18. september 2013. Kærandi lagði fram kæru hjá úrskurðarnefnd félagsþjónustu og húsnæðismála með bréfi, dags. 2. október 2013. Með bréfi, dags. 10. október 2013, óskaði úrskurðarnefnd félagsþjónustu og húsnæðismála eftir öllum gögnum málsins, þar á meðal umsókn kæranda, ákvörðun sveitarfélagsins og gögnum um fjárhag kæranda. Enn fremur var óskað eftir greinargerð Kópavogsbæjar þar sem fram kæmi meðal annars rökstuðningur fyrir hinni kærðu ákvörðun. Greinargerð Kópavogsbæjar barst með bréfi, dags. 24. október 2013. Með bréfi úrskurðarnefndar félagsþjónustu og húsnæðismála, dags. 30. október 2013, var bréf Kópavogsbæjar sent kæranda til kynningar. Frekari athugasemdir bárust frá kæranda með bréfi, dags. 11. nóvember 2013. Með bréfi úrskurðarnefndar félagsþjónustu og húsnæðismála, dags. 28. janúar 2014, var kæranda tilkynnt um tafir á afgreiðslu málsins sem orsökuðust af miklum málafjölda hjá úrskurðarnefndinni en að vonir stæðu til þess að ljúka málinu sem fyrst. Úrskurðarnefndin óskaði frekari gagna frá Kópavogsbæ þann 28. febrúar 2014 og bárust þau með tölvupósti þann sama dag. Með bréfi úrskurðarnefndarinnar, dags. 13. mars 2014, var óskað eftir viðbótarupplýsingum frá Kópavogsbæ og bárust þær með bréfi, dags. 18. mars 2014.

II. Málsástæður kæranda

Kærandi kveðst hafa sótt um styrk svo börn hennar gætu stundað jazzballett. Önnur dóttir hennar hafi verið greind með ADHD og þurfi að hafa nóg að gera. Kærandi vísar til bréfs hennar til Kópavogsbæjar, dags. 23. september 2013. Þar kemur fram að henni sé ekki fært að borga fyrir tómstundir sem séu til þess fallnar að stuðla að þroska og menntunar barna hennar. Kærandi kveðst hafa varanlega örorku og kostnaður vegna heilsu hennar hafi aukist. Dætur hennar geti ekki stundað dansinn nema styrkurinn fáist samþykktur. Í bréfi kæranda til Kópavogsbæjar, dags. 4. september 2013, kemur fram að börn hennar hafi á síðustu árum notið styrks til að stunda jazzballett. Kærandi sé á örorkubótum en þær dugi ekki til reksturs heimilisins, skólagöngu barnanna og tómstunda. Enn fremur njóti kærandi ekki stuðnings frá feðrum barnanna.

Í athugasemdum kæranda vegna greinargerðar Kópavogsbæjar vísar hún til svonefnds færslubréfs sem fylgt hafi greinargerðinni. Kærandi rengir þær fjárhæðir sem fullyrt er að greiddar séu vegna barna hennar þar sem henni hafi aldrei verið kynnt útgjöld þessi og þykir henni fjárhæðirnar háar miðað við þá þjónustu sem börn hennar hafi notið. Þá bendir kærandi á að lán vegna sérstakra erfiðleika og styrkir vegna sérstakra erfiðleika hafi ekki verið styrkir heldur hafi hún greitt þessi lán að fullu. Kærandi kveðst draga í efa kunnáttu og heilindi starfsmanna félagsþjónustu Kópavogs til að fara með reiknishald og bókhald vegna tilsvara starfsmanna og fyrri reynslu af þeim en kæranda hafi verið reiknuð fósturlaun að fjárhæð 2.000.000 kr. og hafi hún þurft að berjast við skattayfirvöld til að ná fram leiðréttingu.

III. Sjónarmið Kópavogsbæjar

Í athugasemdum Kópavogsbæjar vegna kærunnar kemur fram að tekjur kæranda séu samtals 363.322 kr. og útgjöld sögð vera 164.976 kr. Rakin eru ákvæði 33. gr. reglna Kópavogsbæjar um fjárhagsaðstoð. Kópavogsbær bendir á að tekjur kæranda séu töluvert yfir viðmiðunarmörkum um sérstaka aðstoð vegna barna og uppfylli að öðru leyti ekki skilyrði ákvæðisins sem sett hafi verið í reglur til að mæta aðstæðum þeirra foreldra sem í kjölfar efnahagshrunsins hafi lent í greiðsluerfiðleikum. Markmið ákvæðisins sé að aðstoða þá sem eigi í alvarlegum greiðsluerfiðleikum til þess að sjá börnum sínum fyrir daggæslu, skólamáltíðum og þess háttar og jafnframt að börn þeirra gætu haldið áfram í tómstundum. Þessar aðstæður eigi ekki við um áfrýjanda og hafi umsókninni því verið synjað á teymisfundi. Félagsmálaráð Kópavogs hafi samþykkt umsókn um greiðslu skólamáltíða en synjað um greiðslu tómstunda. Sú ákvörðun hafi verið tekin með hagsmuni barna kæranda í huga en að mati ráðsins hafi verið talið brýnt að þau fengi notið skólamáltíða. Að baki ákvörðunarinnar hafi legið mat á aðstæðum kæranda, öðrum en fjárhagslegum, en hún hafi um margra ára skeið notið stuðnings Kópavogsbæjar. Að virtu mati á aðstæðum og tekjum kæranda hafi félagsmálaráð Kópavogs ekki talið að sömu rök stæðu til þess að veita undanþágu frá tekjuviðmiði þegar komið hafi að tómstundaiðkun dætra hennar. Tekjur hennar séu 363.322 kr. á mánuði en föst útgjöld rúmlega 160.000 kr. á mánuði. Mánaðarlegar ráðstöfunartekjur hennar séu því á bilinu 150.000-200.000 kr. Samkvæmt þeim upplýsingum sem legið hafi fyrir á fundi félagsmálaráðs eigi kærandi að geta greitt fyrir tómstundir barna sinna. Kjósi hún að gera það ekki sé hennar val og geti ekki talist sem vanræksla barna með sama hætti og að sjá þeim ekki fyrir skólamáltíðum.

Úrskurðarnefndin óskaði eftir frekari upplýsingum frá Kópavogsbæ og í svari sveitarfélagsins kemur fram að kæranda hafi verið veittur styrkur til greiðslu tómstunda dætra sinna með ákvörðun félagsmálaráðs, dags. 12. september 2012, eftir að kærandi hafi áfrýjað til ráðsins þeirri ákvörðun teymisfundar að synja umsókn hennar. Við ákvörðunartökuna hafi félagsmálaráð litið til þess að kærandi hafi verið í því ferli að greiða niður skammtímaskuldir sem hún hafi stofnað til við smálánafyrirtæki o.fl. Félagsmálaráði hafi verið ljóst af þeirri áætlun sem sett hafi verið upp með kæranda að ráðstöfunartekjur hafi verið af skornum skammti og hún væri ekki fær um að veita dætrum sínum tómstundir meðan hún væri að greiða niður skuldirnar. Í ljósi framangreinds hafi verið samþykkt að veita henni umræddan styrk.

Kópavogsbær bendir á að félagsleg ráðgjöf taki meðal annars til ráðgjafar á sviði fjármála, sbr. ákvæði 17. gr. félagsþjónustu sveitarfélaga. Það ferli sem vísað hafi verið til að ofan hafi verið hluti af viðleitni félagsráðgjafa til að aðstoða kæranda með að leysa úr greiðsluvanda sínum. Í tilviki kæranda hafi félagsráðgjafi aðstoðað hana við að semja við viðskiptabanka sinn. Bankinn hafi veitt kæranda yfirdráttarlán og kærandi samþykkt að fá greitt tvisvar í viku ákveðna fjárhæð til framfærslu. Tilsjónarkona sem kærandi hafi haft sér til stuðnings um árabil hafi aðstoðað kæranda og veitt henni aðhald í ferlinu. Samkomulagið hafi verið tímabundið til 1. september 2013. Ekki sé rétt að segja að tilsjónarkona hafi verið fjárhaldsmaður kæranda eins og komi fram í texta frá félagsráðgjafa í greinargerð til áfrýjunar til félagsmálaráðs þann 12. september 2012. Það að ráðgjafinn hafi notað hugtakið fjárhaldsmaður sé villandi í þessu samhengi en kærandi hafi verið og sé með full fjárráð. Kópavogsbæ sé ekki kunnugt um að kærandi hafi rift fyrrnefndu samkomulagi, dags. 27. janúar 2011. Ekki sé að finna tilvísun til riftunar samkomulagsins í dagálum félagsráðgjafa og það hafi ekki verið gert með vitund félagsráðgjafa. Kæranda hafi þó að sjálfsögðu verið heimilt að segja sig frá samkomulaginu og engar kvaðir eða skilyrði hafi verið sett af hálfu sveitarfélagsins. Í ljósi þess að Kópavogsbæ hafi ekki verið kunnugt um að kærandi hafi rift samkomulaginu megi svara því neitandi að riftun hafi haft áhrif á hina kærðu ákvörðun. Því megi bæta við að samkvæmt þeirri áætlun sem gerð hafi verið með kæranda um að greiða upp áðurnefndar skuldir hafi kærandi  átt að hafa verið búin að leysa úr greiðsluvanda sínum fyrir 1. september 2013 og því ekki fyrir hendi þær aðstæður sem hafi þótt réttlæta úthlutun tómstundastyrks árið áður. Eins og fram hafi komið í greinargerð Kópavogsbæjar, dags. 24. október 2013, hafi sú ákvörðun félagsmálaráðs um að greiða skólamáltíðir barnanna verið byggð fyrst og fremst á sjónarmiðum um hagsmuni barna kæranda en í ljósi forsögu málsins hafi verið efasemdir um að kærandi myndi forgangsraða útgjöldum sínum þannig að skólamáltíðir barnanna yrðu greiddar.

IV. Niðurstaða

Málskotsheimild kæranda er reist á 63. gr. laga um félagsþjónustu sveitarfélaga, nr. 40/1991. Fyrir nefndinni liggja reglur Kópavogsbæjar um fjárhagsaðstoð frá 30. desember 2003 með síðari breytingum. Í máli þessu er ágreiningur um hvort Kópavogsbæ hafi borið að samþykkja umsókn kæranda um fjárhagsaðstoð.

Úrskurðarnefndin tekur fram að með bréfi nefndarinnar, dags. 10. október 2013, var óskað allra gagna málsins frá Kópavogsbæ. Í gögnum sem bárust frá Kópavogsbæ með bréfi, dags. 24. október 2013, var hins vegar ekki að finna ákvörðun teymisfundar frá fundi þann 14. ágúst 2013 um synjun á umsókn kæranda. Úrskurðarnefndin bendir á að afar brýnt er að við meðferð kærumála liggi fyrir öll þau gögn og upplýsingar sem hin kærða ákvörðun byggir á. Úrskurðarnefndin beinir þeim tilmælum til Kópavogsbæjar að framangreint verði haft í huga við afhendingu gagna í tilefni af stjórnsýslukæru til úrskurðarnefndar félagsþjónustu og húsnæðismála.

Fjallað er um rétt til fjárhagsaðstoðar til þeirra sem eigi fá séð fyrir sjálfum sér, maka sínum og börnum yngri en 18 ára í IV. og VI. kafla laga um félagsþjónustu sveitarfélaga, nr. 40/1991. Samkvæmt 21. gr. laganna skal sveitarstjórn setja sér reglur um framkvæmd fjárhagsaðstoðar að fengnum tillögum félagsmálanefndar er metur þörf og ákveður fjárhagsaðstoð til einstaklinga í samræmi við reglur sveitarstjórnar, sbr. 2. mgr. sömu greinar. Lög nr. 40/1991 veita þannig sveitarfélögum ákveðið svigrúm til að meta sjálf miðað við aðstæður á hverjum stað, hvers konar þjónustu þau vilja veita. Í samræmi við þetta og ákvæði stjórnarskrárinnar um sjálfstjórn sveitarfélaga er mat á þeirri nauðsyn að meginstefnu til lagt í hendur þeirrar sveitarstjórnar er þjónustuna veitir. Verður ekki við því mati hróflað af hálfu úrskurðarnefndar félagsþjónustu og húsnæðismála enda byggist það á lögmætum sjónarmiðum og sé í samræmi við lög að öðru leyti.

Kærandi sótti um sérstaka aðstoð vegna barna til greiðslu skólamáltíða og jazzballets hjá Kópavogsbæ. Kópavogsbær samþykkti sérstaka aðstoð til greiðslu skólamáltíða en synjaði um sérstaka aðstoð til greiðslu jazzballets. Synjunin byggðist á því að tekjur kæranda hafi verið 363.322 kr. og því töluvert yfir viðmiðunarmörkum 33. gr. reglna Kópavogsbæjar um fjárhagsaðstoð. Þá taldi Kópavogsbær að kærandi hafi að öðru leyti ekki uppfyllt skilyrði 33. gr. reglnanna sem hafi það að markmiði að aðstoða þá sem eigi í alvarlegum greiðsluerfiðleikum til þess að sjá börnum sínum fyrir daggæslu, skólamáltíðum og þess háttar og jafnframt að börn þeirra gætu haldið áfram í tómstundum. Mánaðartekjur kæranda hafi verið 363.322 kr. og föst útgjöld rúmlega 160.000 kr. á mánuði. Mánaðarlegar ráðstöfunartekjur hafi því verið á bilinu 150.000-200.000 kr. Kópavogsbær hafi hins vegar talið brýnt að börn kæranda fengju skólamáltíðir og því hafi verið samþykkt að veita aðstoð vegna þess. Að virtu mati á aðstæðum og tekjum kæranda taldi Kópavogsbær ekki sömu rök standa til að veita undanþágu frá tekjuviðmiði vegna umsóknar um aðstoð til greiðslu jazzballets.

Í 33. gr. reglna Kópavogsbæjar um fjárhagsaðstoð er fjallað um sérstaka aðstoð til foreldra vegna barna á þeirra framfæri. Í 1. mgr. ákvæðisins kemur fram að ef ljóst þyki að stuðningur við börn sé nauðsynlegur vegna alvarlegra greiðsluerfiðleika foreldra sé heimilt að víkja frá skilyrðum um grunntekjur og veita foreldrum barna aðstoð til greiðslu eftirfarandi:

a. Daggæslu barna í heimahúsum.

b. Leikskólagjalda.

c. Skólamáltíða.

d. Dægradvalar í skóla.

e. Áframhaldandi tómstundaiðkunar barna.

f. Skólagjalda og bókakostnaðar í framhaldsskóla.

Í 2. mgr. 33. gr. reglnanna kemur fram að heildartekjur einstæðs foreldris með eitt barn megi að hámarki nema kr. 252.480 á mánuði en samanlagðar tekjur hjóna/sambúðarfólks með eitt barn kr. 391.344 á mánuði. Tekjuviðmið hækka um kr. 21.040 með hverju barni til viðbótar. Með heildartekjum samkvæmt 33. gr. reglnanna sé átt við launatekjur, atvinnutekjur, bótagreiðslur frá TR, greiðslur úr lífeyrissjóðum, atvinnuleysisbætur, leigutekjur, mæðra- og feðralaun og menntunarlífeyri og jafnframt greiðslur vegna barna eins og meðlög, barnabætur og umönnunarbætur. Í 3. mgr. 33. gr. reglnanna kemur fram að aðstoð sé að jafnaði veitt í 3 mánuði. Ekki þurfi að liggja fyrir samningur um félagslega ráðgjöf.

Samkvæmt 1. mgr. 33. gr. reglna Kópavogsbæjar um fjárhagsaðstoð er einungis heimilt að víkja frá skilyrðum um grunntekjur þegar ljóst þykir að stuðningur við börn sé nauðsynlegur vegna alvarlegra greiðsluerfiðleika foreldra. Teljist framangreind skilyrði uppfyllt er þannig lagt mat á hvort tekjur umsækjanda séu undir tekjuviðmiði 2. mgr. 33. gr. reglnanna.

Við mat Kópavogsbæjar á því hvort kærandi ætti í alvarlegum greiðsluerfiðleikum voru mánaðarleg útgjöld hennar dregin frá mánaðartekjum hennar. Í greinargerð félagsráðgjafa vegna áfrýjunar til félagsmálaráðs, sem fyrir liggur í málinu, er að finna upplýsingar um tekjur og útgjöld kæranda. Við útreikning mánaðartekna kæranda lagði Kópavogsbær til grundvallar skattskyldar tekjur kæranda, meðlag, barnalífeyri og barnabætur, samtals að fjárhæð 363.322 kr. Mánaðarleg útgjöld kæranda voru sögð hiti og rafmagn, hússjóður, afborgun lána, fasteigna- og bifreiðagjöld, sími, og önnur útgjöld, þ.e. tryggingar, kreditkort, yfirdráttur og áskriftargjöld, samtals að fjárhæð 164.967 kr.  Af gögnum málsins má ráða að Kópavogsbær hafi ekki talið kæranda eiga í alvarlegum greiðsluerfiðleikum svo stuðningur við börn hennar hafi verið nauðsynlegur þar sem mánaðarlegar ráðstöfunartekjur hennar hafi verið á bilinu 150.000-200.000 kr. Þá hefur komið fram af hálfu Kópavogsbæjar að kærandi hafi árið 2012 fengið greidda sérstaka aðstoð vegna barna til greiðslu tómstunda. Þá hafi hún verið í því ferli að greiða niður skammtímaskuldir sem hún hafi stofnað til við smálánafyrirtæki o.fl. Samkvæmt áætlun kæranda og félagsráðgjafa hjá Kópavogsbæ hafi kærandi átt að hafa leyst úr greiðsluvanda sínum fyrir 1. september 2013 og því ekki fyrir hendi þær aðstæður sem hafi þótt réttlæta úthlutun tómstundastyrks árið áður. Úrskurðarnefndin telur ekki ástæðu til að gera athugasemdir við framangreint mat Kópavogsbæjar á því hvort kærandi hafi átt í alvarlegum greiðsluerfiðleikum.

Þar sem sveitarfélagið taldi kæranda ekki uppfylla skilyrði 1. mgr. 33. gr. reglna Kópavogsbæjar um fjárhagsaðstoð var því óheimilt að víkja frá skilyrðum reglnanna um grunntekjur. Framfærslugrunnur einstaklinga 18 ára og eldri sem sannanlega reka eigið heimili er 142.020, sbr. 16. gr. reglnanna, eins og þær voru þegar umsókn kæranda var afgreidd. Í málinu liggur fyrir skattframtal kæranda vegna tekna ársins 2012 og samkvæmt því voru meðalmánaðartekjur hennar árið 2012, 213.612 kr. Það er því mat úrskurðarnefndarinnar að kærandi hafi ekki átt rétt á sérstakri aðstoð á grundvelli 33. gr. reglna Kópavogsbæjar um fjárhagsaðstoð. Engu að síður fékk hún greidda sérstaka aðstoð vegna barna til greiðslu skólamáltíða. Verður þó að líta til þess að umrædd ákvörðun var ívilnandi fyrir kæranda og er það því niðurstaða úrskurðarnefndarinnar að ekki verði við henni haggað. Hin kærða ákvörðun verður því staðfest.

Úrskurð þennan kváðu upp Bergþóra Ingólfsdóttir formaður, Ingibjörg Ólöf Vilhjálmsdóttir og Gunnar Eydal, meðnefndarmenn.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Ákvörðun Kópavogsbæjar, dags. 17. september 2013, um synjun á umsókn A um sérstaka aðstoð vegna barna til greiðslu jazzballets er staðfest.

Bergþóra Ingólfsdóttir, formaður

Ingibjörg Ólöf Vilhjálmsdóttir

Gunnar Eydal

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta