Hoppa yfir valmynd

Mál nr. 69/2013

Úrskurðarnefnd félagsþjónustu og húsnæðismála
Hafnarhúsinu v/Tryggvagötu, 150 Reykjavík

                                                          

Á fundi úrskurðarnefndar félagsþjónustu og húsnæðismála þann 9. apríl 2014 var tekið fyrir mál nr. 69/2013:

Kæra A

á ákvörðun

Reykjavíkurborgar

og kveðinn upp svohljóðandi

Ú R S K U R Ð U R:

 A, hér eftir nefndur kærandi, hefur með kæru, dags. 28. nóvember 2013, skotið til úrskurðarnefndar félagsþjónustu og húsnæðismála synjun Reykjavíkurborgar, dags. 20. nóvember 2013, á umsókn hans um fjárhagsaðstoð fyrir tímabilið 1. ágúst til 31. október 2013.

I. Málavextir og málsmeðferð

Kærandi sótti um fjárhagsaðstoð fyrir tímabilið 1. ágúst til 31. október 2013 hjá Reykjavíkurborg með umsókn, dags. 30. júlí 2013. Umsókn kæranda var synjað með bréfi þjónustumiðstöðvar, dags. 20. september 2013, með þeim rökum að hún samrýmdist ekki 12. gr. reglna um fjárhagsaðstoð frá Reykjavíkurborg. Kærandi áfrýjaði synjuninni til velferðarráðs og tók velferðarráð málið fyrir á fundi sínum þann 20. nóvember 2013 og samþykkti svohljóðandi bókun:

Velferðarráð staðfesti synjun starfsmanna þjónustumiðstöðvar um fjárhagsaðstoð tímabilið 1. ágúst 2013 til 31. október 2013 skv. 12. gr. reglna um fjárhagsaðstoð

Niðurstaða velferðarráðs var tilkynnt kæranda með bréfi, dags. 20. nóvember 2013. Kærandi óskaði eftir rökstuðningi með bréfi, dags. 28. nóvember 2013, og barst hann með bréfi Reykjavíkurborgar, dags. 19. desember 2013. Kærandi lagði fram kæru hjá úrskurðarnefnd félagsþjónustu og húsnæðismála með bréfi, dags. 28. nóvember 2013. Með bréfi, dags. 4. desember 2013, óskaði úrskurðarnefnd félagsþjónustu og húsnæðismála eftir öllum gögnum málsins, þar á meðal umsókn kæranda, ákvörðun sveitarfélagsins og gögnum um fjárhag kæranda. Enn fremur var óskað eftir greinargerð Reykjavíkurborgar þar sem fram kæmi meðal annars rökstuðningur fyrir hinni kærðu ákvörðun. Greinargerð Reykjavíkurborgar barst með bréfi, dags. 20. desember 2013. Með bréfi úrskurðarnefndar félagsþjónustu og húsnæðismála, dags. 3. janúar 2013, var bréf Reykjavíkurborgar sent kæranda til kynningar. Frekari athugasemdir bárust frá kæranda með bréfi, dags. 16. janúar 2014. Með bréfi úrskurðarnefndar félagsþjónustu og húsnæðismála, dags. 28. janúar 2014, var kæranda tilkynnt um tafir á afgreiðslu málsins sem orsökuðust af miklum málafjölda hjá úrskurðarnefndinni en að vonir stæðu til þess að ljúka málinu sem fyrst.

II. Málsástæður kæranda

Kærandi bendir á að umsókn hans hafi verið synjað þar sem afskrá þurfi fyrirtæki sem hann sé skráður fyrir. Kærandi heldur því fram að umrætt fyrirtæki sé verðlaust og kostnaðurinn sé 350.000 krónur. Þar sem fyrirtækið sé ógjaldfært og komið í þrot árið 2012 sé sú fjárhæð ekki tiltæk. Það sé því ekki hægt að loka fyrirtækinu. Samt sem áður hafi umsókn kæranda verið synjað. Einnig liggi fyrir gögn um langvinn veikindi sem hafi orsakað skerta starfsorku. Krafa um að slíta fyrirtækjum sé ekki í samræmi við fyrri túlkun þar sem aðeins hafi þurft að sýna fram á verðleysi þeirra, þ.e. tap eða greiðsluþrotsstöðu. Þetta ósamræmri sé óútskýrt og breytingar ekki kynntar. Kærandi gerir kröfu um að synjunin verði felld úr gildi. Einnig gerir kærandi kröfu um að svo framarlega sem hægt sé að sýna fram á verðleysi fyrirtækja þurfi ekki að slíta félögum með tilheyrandi kostnaði.

Í athugasemdum kæranda vegna greinargerðar Reykjavíkurborgar kemur fram að málið snúist um málsmeðferð og ítrekuð brot á siðareglum. Kærandi bendir á að sveitarfélagið hafi ekki óskað eftir réttum upplýsingum, hafi ekki svarað fyrirspurnum um hvers hafi verið óskað og horft framhjá þeirri staðreynd að allar upplýsingar hafi legið fyrir í ágúst. Kærandi telur að litið hafi verið fram hjá því að kærandi hafi að hluta á tímabili verið með öllu óvinnufær. Þá telur kærandi vart skiljanlegt að þjónustumiðstöðin hafi viðurkennt mistök en hafi ekki tekið tillit til þeirra eða leiðrétt þau.  Starfsfólk þjónustumiðstöðvar og framkvæmdastjóri virðast ekki taka mark á siðareglum né góðum stjórnsýsluháttum og synji nú að afhenda upplýsingar sem kærandi hafi óskað eftir á grundvelli upplýsingalaga. Þrátt fyrir trúnaðarbrest af hálfu starfsmanna miðstöðvarinnar hafi framkvæmdastjóri ekki flutt málið á aðra starfsstöð. Starfsmenn þjónustumiðstöðvarinnar hafi ekki óskað frekari upplýsinga heldur hafi í raun njósnað um aðstæður kæranda. Þetta komi meðal annars fram í athugasemd um eignarhald á bifreið, gamlar styrkveitingar og rekstur. Vinnubrögðin beri merki eftirlitsleysis af hálfu óháðs aðila og ábyrgðarleysi stjórnenda. Í svari framkvæmdastjóra til kæranda þann 23. desember 2013 komi fram að hann telji þjónustumiðstöðina ekki þurfa að sýna fram á hvernig málið hafi verið unnið og hvort það hafi yfirleitt verið unnið á umræddu tímabil. Málið hafi tekið nærri fimm mánuði. Kærandi óskar eftir áliti úrskurðarnefndarinnar á því hvort heimilt sé að taka allar tekjur til frádráttar, það er tekjur til fyrirtækis skráð á umsækjanda, sem sannanlega renni allar í skuldir fyrirtækisins en ekki til umsækjanda. Þá áskilur kærandi sér rétt til skaðabóta.

III. Sjónarmið Reykjavíkurborgar

Í greinargerð Reykjavíkurborgar kemur fram að kærandi hafi sótt um fjárhagsaðstoð tímabilið 1. ágúst til 31. október 2013 með umsókn, dags. 30. júlí 2013. Vinnsla umsóknarinnar hafi tekið langan tíma meðal annars þar sem ekki hafi borist gögn eða svör varðandi eignir í skattframtali og vegna bresta í samskiptum kæranda og þjónustumiðstöðvar. Kærandi hafi verið beðinn afsökunar á vinnubrögðum þjónustumiðstöðvar með bréfi, dags. 18. september 2013. Reykjavíkurborg bendir á að um fjárhagsaðstoð frá sveitarfélaginu gildi meginreglan að umsækjandi fái aðeins greidda fjárhagsaðstoð geti hann ekki framfleytt sér sjálfur, meðal annars af eignum sínum. Umrædd meginregla eigi sér stoð í 2. gr. reglna um fjárhagsaðstoð, sbr. og 19. gr. laga um félagsþjónustu sveitarfélaga nr. 40/1991, sem kveði meðal annars á um skyldu hvers og eins að framfæra sjálfan sig, maka sinn og börn yngri en 18 ára. Við mat á því hvort umsækjandi geti átt rétt til fjárhagsaðstoðar til framfærslu á grundvelli 11. gr. reglna um fjárhagsaðstoð skuli meðal annars horft til 12. gr. reglnanna sem kveði á um hvernig litið skuli til tekna og eigna umsækjanda. Í greinargerð Reykjavíkurborgar eru ákvæði 12. gr. rakin.

Við afgreiðslu umsóknar kæranda um fjárhagsaðstoð hafi komið í ljós að samkvæmt rafrænni álagningarskrá ríkisskattstjóra fyrir árið 2012, sem komið hafi út í ágúst 2013, þá ætti kærandi hlutabréf/stofnbréf að verðmæti 500.000 krónur. Í kjölfar þess hafi þjónustumiðstöð óskað eftir upplýsingum frá kæranda um hlutabréfin. Um hafi verið að ræða hlutabréf í B ehf. og kærandi hafi verið skráður forráðamaður fyrirtækisins. Síðar hafi komið í ljós að kærandi hafi einnig verið skráður fyrir tveimur bifreiðum en kærandi hafi afskráð aðra bifreiðina þann 25. september 2013. Því hafi ekki verið litið frekar til bifreiðaeignar kæranda, sem í kjölfar afskráningar annarrar þeirra, hafi verið í samræmi við 12. gr. reglna um fjárhagsaðstoð. Hvað varði rekstur fyrirtækisins þá hafi kærandi þann 11. apríl 2012 framvísað gögnum um að virðisaukaskattsnúmeri fyrirtækisins hefði verið lokað sama dag. Frekari gögn um rekstur fyrirtækis kæranda hafi ekki borist fyrr en 8. október 2013 en þá hafi kærandi framvísað afriti af skattframtali B ehf. fyrir árið 2012.

Í 12. gr. reglna um fjárhagsaðstoð frá Reykjavíkurborg komi fram að eigi umsækjandi, maki hans eða sambýlingur, eignir umfram íbúðarhúsnæði sem umsækjandi eða fjölskylda hans búi í og eina fjölskyldubifreið, eða hann hafi nýlega selt eignir sínar skuli honum vísað á lánafyrirgreiðslu banka og sparisjóða, þó að tekjur hans séu lægri en grunnfjárhæð. Ljóst sé að samkvæmt upplýsingum frá ríkisskattstjóra að kærandi sé skráður fyrir hlutabréfum að verðmæti 500.000 krónur og upplýst hafi verið að um sé að ræða hlutabréf í fyrirtækinu B ehf. Samkvæmt skattframtali rekstraraðila 2012 komi fram að rekstrartekjur fyrirtækisins hafi verið 7.155.200 krónur. Ekki sé því unnt að líta svo á að fyrirtækið hafi hætt allri starfsemi en samkvæmt skattframtalinu séu skuldir fyrirtækisins umfram eignir 3.429.396 krónur. Þá hafi fyrirtækið ekki verið lagt niður formlega. Sveitarfélaginu sé skylt að byggja ákvörðun á þeim upplýsingum er fram komi á opinberum gögnum frá öðrum stjórnvöldum. Gögn sem framvísað hafi verið bendi til þess að fyrirtækið stundi einhverja starfsemi en skuldir séu umfram eignir. Kærandi sé skráður fyrir hlutabréfum í fyrirtækinu að fjárhæð 500.000 krónur og óljóst sé hvert söluverðmæti hlutabréfanna sé og geti starfsmenn velferðarsviðs ekki lagt mat á verðmæti bréfanna enda falli slíkt mat ekki innan starfssviðs sviðsins. Samkvæmt gögnum ríkisskattstjóra sé verðmæti hlutabréfanna skráð 500.000 krónur og sé slíkt ekki rétt sé nauðsynlegt að gengið sé frá þeim breytingum gagnvart réttum opinberum yfirvöldum, það er skattyfirvöldum. Ekki verði litið framhjá því að kærandi hafi verið skráður fyrir umræddri eign samkvæmt opinberum gögnum. Því verði að líta svo á að umrædd eign sé til staðar og kæranda beri að nýta sér hana til framfærslu.

Reykjavíkurborg telur nauðsynlegt að líta til þess að skattyfirvöld séu það stjórnvald sem hafi yfir að búa sérfræðikunnáttu varðandi rekstur, skattlagningu og eignir/tap fyrirtækja. Velferðarsvið Reykjavíkurborgar búi ekki yfir þeirri sérfræðikunnáttu sem nauðsynleg sé til að meta verðmæti eða rekstur fyrirtækja og verði því að leggja traust sitt á þau opinberu yfirvöld sem annist slík mál sem og ganga út frá því að sú skráning sem fram komi hjá skattyfirvöldum sé rétt. Því sé nauðsynlegt að einstaklingar leiti til skattyfirvalda og gangi frá málum sínum gagnvart þeim sé skráning hjá skattyfirvöldum ekki rétt.

Við undirbúning málsins í þjónustumiðstöð fyrir meðferð áfrýjunarnefndar velferðarráðs í október 2013 hafi komið í ljós að kærandi sé einnig skráður fyrir fyrirtækinu C sem sé einstaklingsfyrirtæki með kennitölu. Kærandi hafi ekki upplýst velferðarsvið um umrætt fyrirtæki og það sé ekki skráð í skattframtal kæranda. Fyrirtækið og kærandi hafi fengið styrki frá Kvikmyndasjóði Íslands árið 2012 og 2013 sem kærandi hafi ekki upplýst um. Með hliðsjón af framangreindu hafi velferðarráð talið ljóst að kærandi ætti eignir umfram þær sem kveðið sé á um í 12. gr. reglna um fjárhagsaðstoð. Kæranda beri að nýta umræddar eignir sér til framfærslu áður en leitað sé eftir fjárhagsaðstoð frá sveitarfélagi en um sé að ræða neyðaraðstoð.

IV. Niðurstaða

Málskotsheimild kæranda er reist á 63. gr. laga um félagsþjónustu sveitarfélaga, nr. 40/1991. Fyrir nefndinni liggja reglur um fjárhagsaðstoð frá Reykjavíkurborg frá 1. janúar 2011, með síðari breytingum. Í máli þessu er ágreiningur um hvort Reykjavíkurborg hafi borið að samþykkja umsókn kæranda um fjárhagsaðstoð fyrir tímabilið 1. ágúst til 31. október 2013.

Fjallað er um rétt til fjárhagsaðstoðar til þeirra sem eigi fá séð fyrir sjálfum sér, maka sínum og börnum yngri en 18 ára í IV. og VI. kafla laga um félagsþjónustu sveitarfélaga, nr. 40/1991. Samkvæmt 21. gr. laganna skal sveitarstjórn setja sér reglur um framkvæmd fjárhagsaðstoðar að fengnum tillögum félagsmálanefndar er metur þörf og ákveður fjárhagsaðstoð til einstaklinga í samræmi við reglur sveitarstjórnar, sbr. 2. mgr. sömu greinar. Lög nr. 40/1991 veita þannig sveitarfélögum ákveðið svigrúm til að meta sjálf miðað við aðstæður á hverjum stað, hvers konar þjónustu þau vilja veita. Í samræmi við þetta og ákvæði stjórnarskrárinnar um sjálfsstjórn sveitarfélaga er mat á þeirri nauðsyn að meginstefnu til lagt í hendur þeirrar sveitarstjórnar er þjónustuna veitir. Verður ekki við því mati hróflað af hálfu úrskurðarnefndar félagsþjónustu og húsnæðismála enda byggist það á lögmætum sjónarmiðum og sé í samræmi við lög að öðru leyti.

Kærandi sótti um fjárhagsaðstoð fyrir tímabilið 1. ágúst til 31. október 2013. Umsókn kæranda var synjað þar sem hann átti hlutabréf/stofnbréf að verðmæti 500.000 krónur og var því talinn eiga eignir umfram íbúðarhúsnæði og eina fjölskyldubifreið, sbr. 5. mgr. 12. gr. reglna um fjárhagsaðstoð frá Reykjavíkurborg. Af hálfu Reykjavíkurborgar hefur komið fram að kærandi hafi framvísað gögnum um að virðisaukaskattsnúmeri fyrirtækisins hefði verið lokað þann 11. apríl 2012. Samkvæmt skattframtali rekstraraðila 2012 hafi rekstrartekjur fyrirtækisins verið 7.155.200 krónur. Reykjavíkurborg hafi því ekki getað litið svo á að fyrirtækið hafi hætt allri starfsemi en samkvæmt skattframtalinu séu skuldir fyrirtækisins umfram eignir 3.429.396 krónur. Þá hafi fyrirtækið ekki verið lagt niður formlega. Kærandi heldur því fram að fyrirtækið sé verðlaust og eigi því ekki fjármuni til að afskrá félagið. Kærandi bendir á að krafa um að slíta fyrirtæki sé ekki í samræmi við fyrri túlkun Reykjavíkurborgar þar sem aðeins hafi þurft að sýna fram á verðleysi þeirra, þ.e. tap eða greiðsluþrotsstöðu. Kærandi óskar eftir áliti úrskurðarnefndarinnar á því hvort heimilt sé að taka allar tekjur til frádráttar, það er tekjur til fyrirtækis skráð á umsækjanda, sem sannanlega renni allar í skuldir fyrirtækisins en ekki til umsækjanda.

Í 5. mgr. 12. gr. reglna um fjárhagsaðstoð frá Reykjavíkurborg kemur fram að eigi umsækjandi, maki hans eða sambýlingur, eignir umfram íbúðarhúsnæði og eina fjölskyldubifreið, eða hafi hann nýlega selt eignir sínar, skal honum vísað á lánafyrirgreiðslu banka og sparisjóða, þó að tekjur hans séu lægri en grunnfjárhæð. Samkvæmt álagningarskrá ríkisskattstjóra fyrir árið 2012 á kærandi hlutabréf að verðmæti 500.000 krónur. Fram hefur komið að umrædd hlutafjáreign sé í B ehf. og í málinu liggur fyrir skattframtal félagsins 2012.

Úrskurðarnefndin hefur byggt á því að jafnvel þótt umsækjandi um fjárhagsaðstoð hafi átt hlutafé í fyrirtæki sem ekki sé í rekstri sé eðlilegt að nota andvirði hlutafjáreignarinnar sem neyðarúrræði til framfærslu áður en fengin sé fjárhagsaðstoð frá Reykjavíkurborg nema sýnt hafi verið fram á að fyrirtækið hafi verið afskráð eða tekið til gjaldþrotaskipta. Í máli þessu liggur hvorki fyrir að B ehf. hafi verið afskráð né tekið til gjaldþrotaskipta. Úrskurðarnefndin telur því ekki ástæðu til að gera athugasemd við synjun Reykjavíkurborgar á umsókn kæranda um fjárhagsaðstoð fyrir tímabilið 1. ágúst til 31. október 2013 á grundvelli 5. mgr. 12. gr. reglna um fjárhagsaðstoð frá Reykjavíkurborg. Í málinu liggur þó ekkert fyrir um að kæranda hafi verið vísað á lánafyrirgreiðslu banka eða sparisjóða og gerir úrskurðarnefndin athugasemd við það. Hin kærða ákvörðun verður þó staðfest.

Úrskurð þennan kváðu upp Bergþóra Ingólfsdóttir formaður, Ingibjörg Ólöf Vilhjálmsdóttir og Gunnar Eydal, meðnefndarmenn.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Ákvörðun Reykjavíkurborgar, dags. 20. nóvember 2013, um synjun á umsókn A um fjárhagsaðstoð fyrir tímabilið 1. ágúst til 31. október 2013 er staðfest.

 

Bergþóra Ingólfsdóttir, formaður

Ingibjörg Ólöf Vilhjálmsdóttir

Gunnar Eydal

 

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta