Hoppa yfir valmynd

Mál nr. 70/2013

Úrskurðarnefnd félagsþjónustu og húsnæðismála
Hafnarhúsinu v/Tryggvagötu, 150 Reykjavík

                                                             

Á fundi úrskurðarnefndar félagsþjónustu og húsnæðismála þann 9. apríl 2014 var tekið fyrir mál nr. 70/2013:

Kæra A

á ákvörðun

Hafnarfjarðarbæjar

og kveðinn upp svohljóðandi

Ú R S K U R Ð U R:

A, hér eftir nefndur kærandi, hefur með kæru, dags. 28. nóvember 2013, skotið til úrskurðarnefndar félagsþjónustu og húsnæðismála synjun Hafnarfjarðarbæjar, dags. 28. ágúst 2013, á umsókn hans um fulla fjárhagsaðstoð fyrir maí 2013.

I. Málavextir og málsmeðferð

Kærandi sótti um fjárhagsaðstoð fyrir maí 2013 hjá Hafnarfjarðarbæ með umsókn, dags. 30. apríl 2013. Kærandi fékk þær upplýsingar frá sveitarfélaginu að hann ætti einungis rétt á hálfri grunnfjárhæð fjárhagsaðstoðar. Hann óskaði því sérstaklega eftir því að hann fengi fulla fjárhagsaðstoð. Umsókn kæranda var tekin fyrir á afgreiðslufundi fjölskylduþjónustunnar í Hafnarfirði þann 4. júní 2013 og var gerð svohljóðandi bókun:

Beiðni umsækjanda um hærri fjárhagsaðstoð er synjað með vísan til 1. mgr. 11. gr. reglna um fjárhagsaðstoð hjá Hafnarfjarðarbæ þar sem fyrir liggur að umsækjandi býr í foreldrahúsum og á því aðeins rétt á hálfri grunnupphæð framfærsluaðstoðar.

Niðurstaðan var birt kæranda með bréfi, dags. 5. júní 2013. Kærandi áfrýjaði synjuninni til fjölskylduráðs Hafnarfjarðar með bréfi, dags. 14. júní 2013. Fjölskylduráð tók málið fyrir á fundi sínum þann 28. ágúst 2013 og samþykkti svohljóðandi bókun:

Fjölskylduráð Hafnarfjarðar staðfestir niðurstöðu afgreiðslufundar Fjölskylduþjónustunnar um að synja beiðni umsækjanda um hærri fjárhagsaðstoð með vísan til 1. mgr. 11. gr. reglna um fjárhagsaðstoð hjá Hafnarfjarðarbæ þar sem umsækjandi býr í foreldrahúsum og á því aðeins rétt á hálfri grunnupphæð framfærsluaðstoðar.

Niðurstaða fjölskylduráðs var tilkynnt kæranda með bréfi, dags. 4. september 2013. Kærandi lagði fram kæru hjá úrskurðarnefnd félagsþjónustu og húsnæðismála með bréfi, dags. 28. nóvember 2013. Með bréfi, dags. 4. desember 2013, óskaði úrskurðarnefnd félagsþjónustu og húsnæðismála eftir öllum gögnum málsins, þar á meðal umsókn kæranda, ákvörðun sveitarfélagsins og gögnum um fjárhag kæranda. Enn fremur var óskað eftir greinargerð Hafnarfjarðarbæjar þar sem fram kæmi meðal annars rökstuðningur fyrir hinni kærðu ákvörðun. Greinargerð Hafnarfjarðarbæjar barst með bréfi, dags. 14. janúar 2014. Með bréfi úrskurðarnefndar félagsþjónustu og húsnæðismála, dags. 24. janúar 2014, var bréf Hafnarfjarðarbæjar sent kæranda til kynningar. Engar frekari athugasemdir bárust frá kæranda. Með bréfi úrskurðarnefndar félagsþjónustu og húsnæðismála, dags. 28. janúar 2014, var kæranda tilkynnt um tafir á afgreiðslu málsins sem orsökuðust af miklum málafjölda hjá úrskurðarnefndinni en að vonir stæðu til þess að ljúka málinu sem fyrst.

II. Málsástæður kæranda

Kærandi fer fram á óskerta fjárhagsaðstoð að fjárhæð 135.000 krónur á mánuði. Forsendur synjunar séu að kærandi sé til heimilis hjá foreldrum sínum en þau búi í leiguhúsnæði frá Hafnarfjarðarbæ. Kærandi bendir á að foreldrar hans séu aldraðir og hafi heilsu þeirra hrakað mjög. Faðir hans sé á spítala í endurhæfingu og móðir hans, sem einnig hafi átt við veikindi að stríða, væri því ein heima byggi kærandi ekki hjá þeim. Ljóst væri að þau þyrftu á félagslegri aðstoð að halda ef svo væri ekki. Kærandi kveðst greiða til foreldra sinna fyrir fæði og annan sameiginlegan kostnað. Foreldrar hans séu á eftirlaunum og hafi því ekki fjárráð umfram brýnustu þarfir. Þátttaka hans í rekstri heimilisins sé því mjög brýn. Skerðing á fjárhagsaðstoð til kæranda geri stöðu hans til eigin framfærslu mjög erfiða þar sem hann eigi ekki lengur rétt á atvinnuleysisbótum.

III. Sjónarmið Hafnarfjarðarbæjar

Í greinargerð Hafnarfjarðarbæjar kemur fram að kærandi hafi fengið greidda fjárhagsaðstoð frá Hafnarfjarðarbæ í júní 2013 sem hafi numið hálfri grunnfjárhæð framfærsluaðstoðar í samræmi við ákvæði 1. mgr. 11. gr. reglna um fjárhagsaðstoð hjá Hafnarfjarðarbæ þar sem hann búi í foreldrahúsum. Í ákvæðinu komi meðal annars fram að þeir sem búi hjá foreldrum, ættingjum eða öðrum og hafi tekjur undir viðmiðunarmörkum eigi rétt á hálfri grunnfjárhæð framfærsluaðstoðar á mánuði njóti þeir sannanlega hagræðis af sambúðinni. Grunnfjárhæð fyrir einstakling á árinu 2013 hafi verið 148.938 krónur. Hafnarfjarðarbær bendir á að kærandi búi ásamt foreldrum sínum í félagslegri leiguíbúð Hafnarfjarðarbæjar. Foreldrar hans hafi fengið íbúðinni úthlutaðri árið 2007 og hafi verið tekið mið af því varðandi stærð íbúðarinnar að kærandi myndi búa þar með þeim og hafi þau þrjú haldið sameiginlegt heimili síðan. Kærandi leigi þó atvinnuhúsnæði í Hafnarfirði á 80.000 krónur á mánuði. Kærandi hafi flutt lögheimili sitt til frændfólks síns í því skyni að fá hærri fjárhagsaðstoð en eins og komi fram í dagál félagsráðgjafa frá 2. júlí 2013 búi hann í raun enn með foreldrum sínum.

Að mati fjölskylduráðs Hafnarfjarðar sé eðlilegt að gera ráð fyrir því að þeir sem haldi heimili með öðrum njóti nokkurs fjárhagslegs hagræðis af sambúðinni, til dæmis varðandi sameiginleg matarinnkaup, sameiginlegan kostnað vegna kaupa á hreinlætis- og snyrtivörum, heimilisbúnaðar, hita, rafmagns og fleiru sem fylgi venjulegu heimilishaldi. Benda megi á í því sambandi að grunnfjárhæð fjárhagsaðstoðar fyrir hjón sé lægri en grunnfjárhæð fyrir einstakling. Kærandi haldi heimili með foreldrum sínum í félagslegu leiguhúsnæði Hafnarfjarðarbæjar sem þau hafi fengið úthlutuðu sem þriggja manna fjölskylda. Ætla megi að þau þrjú deili kostnaði sem af heimilishaldinu hljótist og það sé því álit fjölskylduráðs Hafnarfjarðar að kærandi njóti fjárhagslegs hagræðis af sambúð við foreldra sína.

IV. Niðurstaða

Málskotsheimild kæranda er reist á 63. gr. laga um félagsþjónustu sveitarfélaga, nr. 40/1991. Fyrir nefndinni liggja reglur um fjárhagsaðstoð hjá Hafnarfjarðarbæ frá 1. janúar 2004, með síðari breytingum. Í máli þessu er ágreiningur um hvort Hafnarfjarðarbæ hafi borið að samþykkja umsókn kæranda um fulla fjárhagsaðstoð fyrir maí 2013.

Fjallað er um rétt til fjárhagsaðstoðar til þeirra sem eigi fá séð fyrir sjálfum sér, maka sínum og börnum yngri en 18 ára í IV. og VI. kafla laga um félagsþjónustu sveitarfélaga, nr. 40/1991. Samkvæmt 21. gr. laganna skal sveitarstjórn setja sér reglur um framkvæmd fjárhagsaðstoðar að fengnum tillögum félagsmálanefndar er metur þörf og ákveður fjárhagsaðstoð til einstaklinga í samræmi við reglur sveitarstjórnar, sbr. 2. mgr. sömu greinar. Lög nr. 40/1991 veita þannig sveitarfélögum ákveðið svigrúm til að meta sjálf miðað við aðstæður á hverjum stað, hvers konar þjónustu þau vilja veita. Í samræmi við þetta og ákvæði stjórnarskrárinnar um sjálfstjórn sveitarfélaga er mat á þeirri nauðsyn að meginstefnu til lagt í hendur þeirrar sveitarstjórnar er þjónustuna veitir. Verður ekki við því mati hróflað af hálfu úrskurðarnefndar félagsþjónustu og húsnæðismála enda byggist það á lögmætum sjónarmiðum og sé í samræmi við lög að öðru leyti.

Kærandi sótti um fulla fjárhagsaðstoð fyrir maí 2013. Umsókn hans um fulla fjárhagsaðstoð var synjað á þeim grundvelli að hann byggi hjá foreldrum sínum og nyti sannanlega hagræðis af sambúðinni og ætti því einungis rétt á hálfri grunnfjárhæð fjárhagsaðstoðar, sbr. 1. mgr. 11. gr. reglna um fjárhagsaðstoð hjá Hafnarfjarðarbæ. Í ákvæðinu kemur fram að einstaklingar sem búa hjá foreldrum, ættingjum eða öðrum og hafa tekjur undir viðmiðunarmörkum eiga rétt á hálfri grunnupphæð framfærsluaðstoðar á mánuði njóti þeir sannanlega hagræðis af sambúðinni. Kærandi á lögheimili hjá foreldrum sínum og hefur kærandi upplýst að hann búi þar til að aðstoða foreldra sína. Af hálfu Hafnarfjarðarbæjar hefur komið fram að eðlilegt sé að gera ráð fyrir því að þeir sem haldi heimili með öðrum njóti nokkurs fjárhagslegs hagræðis af sambúðinni, til dæmis varðandi sameiginleg matarinnkaup, sameiginlegan kostnað vegna kaupa á hreinlætis- og snyrtivörum, heimilisbúnaðar, hita, rafmagns og fleiru sem fylgi venjulegu heimilishaldi. Enn fremur hefur komið fram að foreldrar kæranda hafi fengið úthlutaðri félagslegri íbúð og hafi verið tekið mið af því varðandi stærð íbúðarinnar að kærandi myndi búa þar með þeim og hafi þau þrjú haldið sameiginlegt heimili síðan. Úrskurðarnefndin telur að ekkert hafi komið fram um að kærandi njóti ekki hagræðis af sambúðinni og er það því niðurstaða nefndarinnar að kærandi hafi átt rétt á hálfri grunnfjárhæð fjárhagsaðstoðar, sbr. 1. mgr. 11. gr. reglna um fjárhagsaðstoð frá Hafnarfjarðarbæ. Hin kærða ákvörðun verður því staðfest.

Úrskurð þennan kváðu upp Bergþóra Ingólfsdóttir formaður, Ingibjörg Ólöf Vilhjálmsdóttir og Gunnar Eydal, meðnefndarmenn.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Ákvörðun Hafnarfjarðarbæjar, dags. 28. ágúst 2013, um synjun á umsókn A á umsókn hans um fulla fjárhagsaðstoð fyrir maí 2013 er staðfest.

 

Bergþóra Ingólfsdóttir, formaður

Ingibjörg Ólöf Vilhjálmsdóttir

Gunnar Eydal

 

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta