Hoppa yfir valmynd

Mannanafnanefnd, úrskurðir 4. febrúar 2010

Mál nr. 69/2009       Eiginnafn / ritháttur:           Veronica  (kvk.)

 

Hinn 4. febrúar 2010 kveður mannanafnanefnd upp svohljóðandi úrskurð í málinu 69/2009:

Mál þetta, sem móttekið var með tölvupósti 17. júlí 2009, var tekið fyrir á fundi mannanafnanefndar 20. júlí sl. en afgreiðslu þess þá frestað til frekari skoðunar og gagnaöflunar. Er málið nú tekið til afgreiðslu.

Öll skilyrði 1. mgr. 5. gr. laga nr. 45/1996 um mannanöfn þurfa að vera uppfyllt svo að mögulegt sé að samþykkja nýtt eiginnafn og færa það á mannanafnaskrá. Skilyrðin eru þessi:

(1) Eiginnafn skal geta tekið íslenska eignarfallsendingu eða hafa unnið sér hefð í íslensku máli. (2) Nafnið má ekki brjóta í bág við íslenskt málkerfi. (3) Það skal ritað í samræmi við almennar ritreglur íslensks máls nema hefð sé fyrir öðrum rithætti þess. (Með almennum ritreglum íslensks máls er vísað til auglýsinga nr. 132/1974 og 261/1977 um íslenska stafsetningu).

Þegar svo háttar að eiginnafn uppfyllir ekki þau skilyrði, sem tilgreind eru í 1. og 3. málslið 1. mgr. 5. gr. laga nr. 45/1996 um mannanöfn, þ.e. tekur ekki íslenska eignarfallsendingu og/eða telst ekki ritað í samræmi við almennar ritreglur íslensks máls, er unnt að samþykkja nafnið á mannanafnaskrá ef það telst hafa áunnið sér hefð. Hins vegar heimila mannanafnalög ekki að unnt sé að samþykkja nýtt eiginnafn á mannanafnaskrá á grundvelli hefðar ef það brýtur í bág við önnur ákvæði 5. gr. laganna, þ.e. 2. málslið 1. mgr., 2. mgr. og 3. mgr. 5. gr.

Hugtakið hefð í mannanafnalögum varðar einkum erlend nöfn frá síðari öldum sem ekki hafa aðlagast ritreglum íslensks máls. Þau eru stundum nefnd ung tökunöfn og koma fyrst fram í íslensku máli árið 1703 þegar manntal á Íslandi var tekið fyrsta sinni. Túlkun mannanafnanefndar á hugtakinu hefð í 5. og 6. gr. laga nr. 45/1996 styðst við eftirfarandi vinnulagsreglur sem nefndin setti sér á fundi 14. nóvember 2006 og sem eru byggðar á greinargerð með frumvarpi að mannanafnalögum og eldri vinnulagsreglum:

  1. Ungt tökunafn telst hafa unnið sér hefð í íslensku máli ef það fullnægir einhverju eftirfarandi skilyrða:
  1. Það er nú borið af a.m.k. 15 Íslendingum;
  2. Það er nú borið af 10–14 Íslendingum og hinn elsti þeirra hefur náð a.m.k. 30 ára aldri;
  3. Það er nú borið af 5–9 Íslendingum og hinn elsti þeirra hefur náð a.m.k. 60 ára aldri;
  4. Það er nú borið af 1–4 Íslendingum og kemur þegar fyrir í manntalinu 1910;
  5. Það er ekki borið af neinum Íslendingi nú en kemur a.m.k. fyrir í tveimur manntölum frá 1703–1910.
  1. Með Íslendingum er átt við þá sem öðlast hafa íslenskan ríkisborgararétt án umsóknar og eiga eða hafa átt lögheimili á Íslandi.
  2. Tökunafn getur verið hefðað þó að það komi ekki fyrir í manntölum ef það hefur unnið sér menningarhelgi. Nafn telst hafa unnið sér menningarhelgi komi það fyrir í alkunnum ritum, frumsömdum eða þýddum, í nafnmynd sem ekki brýtur í bág við íslenskt málkerfi.

Eiginnafnið Veronica (kvk.) getur ekki talist ritað í samræmi við almennar ritreglur íslensks máls. Bókstafurinn ‘c’ telst ekki til íslenska stafrófsins þótt hann komi fyrir í nokkrum mannanöfnum sem hafa unnið sér hefð. Samkvæmt gögnum Þjóðskrár eru 6 konur skráðar með eiginnafnið Veronica sem uppfylla skilyrði 2. gr. ofangreindra vinnulagsreglna og er sú elsta þeirra fædd árið 1972. Því telst ekki vera hefð fyrir þessum rithætti. Eiginnafnið Veronica (kvk.) uppfyllir þar af leiðandi ekki öll ákvæði 5. gr. laga nr. 45/1996 og því er ekki mögulegt að fallast á það.

Rétt er að benda á að eiginafnið Veróníka (kvk.) og ritmyndir þess, Veronika og Veroníka, eru á mannanafnaskrá.

 

Úrskurðarorð:

Beiðni um eiginnafnið og ritháttinn Veronica (kvk.) er hafnað.

 

 

 

Mál nr. 6/2010                      Eiginnafn:     Besti

 

Hinn 4. febrúar 2010 kveður mannanafnanefnd upp svohljóðandi úrskurð í máli 6/2010:

 Öll skilyrði 1. mgr. 5. gr. laga nr. 45/1996 um mannanöfn þurfa að vera uppfyllt svo að mögulegt sé að samþykkja nýtt eiginnafn og færa það á mannanafnaskrá. Skilyrðin eru þessi: (1) Eiginnafn skal geta tekið íslenska eignarfallsendingu eða hafa unnið sér hefð í íslensku máli. (2) Nafnið má ekki brjóta í bág við íslenskt málkerfi. (3) Það skal ritað í samræmi við almennar ritreglur íslensks máls nema hefð sé fyrir öðrum rithætti þess. Með almennum ritreglum íslensks máls er vísað til auglýsinga nr. 132/1974 og 261/1977 um íslenska stafsetningu.

Eiginnafnið Besti (kk.) tekur íslenskri eignarfallsendingu og er ritað í samræmi við almennar ritreglur íslensks máls. Það uppfyllir því skilyrði 1. og 3. málsliðar. Nafnið uppfyllir hins vegar ekki skilyrði 2. málsliðar, um íslenskt málkerfi. Íslenskt málkerfi er samansafn þeirra reglna sem unnið hafa sér hefð í íslensku máli. Ýmis eiginnöfn eru leidd af lýsingarorðum, s.s. Tryggvi af lýsingarorðinu tryggur og Fróði af fróður. Engin hefð er á hinn bóginn fyrir því að eiginnöfn séu leidd af miðstigi eða efsta stigi lýsingarorða. Eiginnafnið Besti er myndað með viðskeytinu -st-, en með því viðskeyti er efsta stig lýsingarorða myndað. Nafnið telst því brjóta í bág við íslenskt málkerfi. Eiginnafnið Besti uppfyllir þar af leiðandi ekki öll skilyrði 5. gr. laga nr. 45/1996 um mannanöfn og því er ekki mögulegt að fallast á það.

 

Úrskurðarorð:

Beiðni um eiginnafnið Besti (kk.) er hafnað.

 

 

 

Mál nr. 8/2010                      Eiginnafn:     Liljarós

                                               Eiginnafn:     Liljurós

 

Hinn 4. febrúar 2010 kveður mannanafnanefnd upp svohljóðandi úrskurð í máli 8/2010:

Öll skilyrði 1. mgr. 5. gr. laga nr. 45/1996 um mannanöfn þurfa að vera uppfyllt svo að mögulegt sé að samþykkja nýtt eiginnafn og færa það á mannanafnaskrá. Skilyrðin eru þessi: (1) Eiginnafn skal geta tekið íslenska eignarfallsendingu eða hafa unnið sér hefð í íslensku máli. (2) Nafnið má ekki brjóta í bág við íslenskt málkerfi. (3) Það skal ritað í samræmi við almennar ritreglur íslensks máls nema hefð sé fyrir öðrum rithætti þess. (Með almennum ritreglum íslensks máls er vísað til auglýsinga nr. 132/1974 og 261/1977 um íslenska stafsetningu.)

Eiginnafnið Liljarós (kvk.) fer gegn viðurkenndum nafnmyndunarreglum í íslensku. Það er samsett úr tveimur sjálfstæðum eiginnöfnum, Lilja og Rós, sem bæði eru á mannanafnaskrá. Það getur ekki talist í samræmi við almennar ritreglur íslensks máls að rita tvö sjálfstæð eiginnöfn á borð við Lilja og Rós sem eitt orð. Tvínefnið Lilja Rós er borið af 39 konum sem skráðar eru á þjóðskrá og beygjast bæði nöfnin:  nf. Lilja Rós, þf. Lilju Rós, þgf. Lilju Rós og ef. Lilju Rósar. Rithátturinn Liljarós er ekki í samræmi við almennar ritreglur íslensks máls og uppfyllir þ.a.l. ekki tilvitnað ákvæði laga nr. 45/1996.

Eiginnafnið Liljurós (kvk.) er myndað í samræmi við íslenskar orðmyndunarreglur. Þegar veik kvenkynsorð sem enda á -a í nefnifalli mynda fyrri lið í samsettum orðum er venjan að þau standi í eignarfalli (Liljurós). Eiginnafnið Liljurós tekur íslenskri beygingu í eignarfalli, Liljurósar, og telst að öðru leyti uppfylla ákvæði 5. gr. laga nr. 45/1996.

 

Úrskurðarorð:

Beiðni um eiginnafnið Liljarós (kvk.) er hafnað.

Beiðni um eiginnafnið Liljurós (kvk.) er samþykkt og skal nafnið fært á mannanafnaskrá.

 

 

 

Mál nr. 9/2010                      Eiginnafn:     Hinrikka

 

Hinn 4. febrúar 2010 kveður mannanafnanefnd upp svohljóðandi úrskurð í máli 9/2010:

Eiginnafnið Hinrikka (kvk.) tekur íslenskri beygingu í eignarfalli, Hinrikku, og telst að öðru leyti uppfylla ákvæði 5. gr. laga nr. 45/1996 um mannanöfn.

 

Úrskurðarorð:

Beiðni um eiginnafnið Hinrikka (kvk.) er samþykkt og skal nafnið fært á mannanafnaskrá.

 

 

 

Mál nr. 10/2010                    Eiginnafn:     Vigný

 

Hinn 4. febrúar 2010 kveður mannanafnanefnd upp svohljóðandi úrskurð í máli 10/2010:

Eiginnafnið Vigný (kvk.) tekur íslenskri beygingu í eignarfalli, Vignýjar, og telst að öðru leyti uppfylla ákvæði 5. gr. laga nr. 45/1996 um mannanöfn.

 

Úrskurðarorð:

Beiðni um eiginnafnið Vigný (kvk.) er samþykkt og skal nafnið fært á mannanafnaskrá.




Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta