Hoppa yfir valmynd

Nr. 474/2018 Úrskurður

KÆRUNEFND ÚTLENDINGAMÁLA

 

Þann 8. nóvember 2018 er kveðinn upp svohljóðandi

úrskurður nr. 474/2018

í stjórnsýslumáli nr. KNU18110005

 

Beiðni [...] um endurupptöku

I.                    Málsatvik

Þann 20. september 2018 staðfesti kærunefnd útlendingamála ákvörðun Útlendingastofnunar frá 2. júlí 2018 um að synja [...], fd. [...], og vera ríkisborgara Aserbaídsjan (hér eftir nefndur kærandi), um alþjóðlega vernd og dvalarleyfi á Íslandi.

Niðurstaða kærunefndar var birt kæranda þann 24. september 2018. Þann 27. september 2018 barst kærunefnd beiðni kæranda um frestun réttaráhrifa á úrskurði nefndarinnar. Beiðni kæranda um frestun réttaráhrifa á úrskurði nefndarinnar var synjað af kærunefnd þann 6. október 2018. Þann 2. nóvember 2018 barst kærunefnd beiðni kæranda um að nefndin endurskoðaði fyrri úrskurð nefndarinnar varðandi frestun réttaráhrifa.

Kærunefnd leggur þann skilning í beiðni aðila að hann fari fram á endurupptöku á beiðni hans um frestun réttaráhrifa á grundvelli 1. mgr. 24. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

II.                  Málsástæður og rök kæranda

Af greinargerð má skilja að kærandi byggi beiðni sína um endurupptöku á 1. mgr. 24. gr. stjórnsýslulaga.

Í beiðni kæranda er meðferð mál hans hjá íslenskum stjórnvöldum rakin. Kærandi tekur fram að hann telji líf sitt vera í hættu verði honum gert að snúa aftur til heimaríkis. Kærandi hafi lagt inn umsókn um íslenskan ríkisborgararétt hjá Útlendingastofnun þann 28. september sl. auk þess sem hann hafi höfðað mál fyrir íslenskum dómstólum til ógildingar á ákvörðun Útlendingastofnunar og úrskurði kærunefndar útlendingamála sem hafi verið þingfest þann 18. október sl. Þá sé kærandi ósáttur við að lögregluyfirvöld hafi tekið vegabréf kæranda við komu hans til landsins. Sú staða að kærandi hafi verið vegabréfslaus hafi takmarkað getu kæranda til að taka frumkvæði í máli sínu, svo sem varðandi að yfirgefa Ísland og ferðast til annarra ríkja á eigin vegum.

Í ljósi alls framangreinds telji kærandi tilefni til þess að beiðni hans um frestun réttaráhrifa verði tekin upp að nýju og að uppfyllt séu skilyrði 1. mgr. 24. gr. stjórnsýslulaga.

III.                Niðurstaða kærunefndar útlendingamála varðandi beiðni um endurupptöku

Samkvæmt 24. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 á aðili máls rétt á því að mál sé tekið upp á ný ef ákvörðun hefur byggst á ófullnægjandi eða röngum upplýsingum um málsatvik eða íþyngjandi ákvörðun um boð eða bann hefur byggst á atvikum sem breyst hafa verulega frá því að ákvörðun var tekin.

Eins og áður hefur komið fram kvað kærunefnd upp úrskurð í máli kæranda er sneri að frestun réttaráhrifa þann 6. október 2018. Í úrskurðinum komst kærunefnd útlendingamála að þeirri niðurstöðu að kærandi uppfyllti ekki skilyrði 6. mgr. 104. gr. laga um útlendinga og því yrði réttaráhrifum ákvörðunarinnar ekki frestað í máli kæranda.

Kærunefnd hefur farið yfir beiðni kæranda um endurupptöku á úrskurði kærunefndarinnar, dags. 6. október 2018. Engin ný gögn í máli kæranda hafa borist kærunefndinni. Þá koma engar nýjar upplýsingar fram í beiðni kæranda um endurupptöku sem ekki lágu fyrir við meðferð málsins hjá kærunefnd. Að teknu tilliti til frásagnar kæranda og gagna málsins er það mat kærunefndar að ekki sé hægt að fallast á að úrskurður kærunefndar frá 6. október 2018 hafi byggst á ófullnægjandi eða röngum upplýsingum um málsatvik eða að úrskurður kærunefndar hafi byggst á atvikum sem hafi breyst verulega frá því að úrskurðurinn var kveðinn upp, sbr. 1. mgr. 24. gr. stjórnsýslulaga. Kröfu kæranda um endurupptöku málsins er því hafnað.

Kærunefnd telur samkvæmt framansögðu að skilyrði 1. mgr. 24. gr. stjórnsýslulaga séu ekki uppfyllt. Kröfu kæranda um endurupptöku máls hans hjá kærunefnd er því hafnað.

 

 

 

Úrskurðarorð

 

Kröfu kæranda um endurupptöku er hafnað.

The request of the appellant to re-examine the case is denied.

 

 

 

Hjörtur Bragi Sverrisson                                                              Þorbjörg Inga Jónsdóttir


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta