Hoppa yfir valmynd

Mál nr. 275/2016

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 275/2016

Fimmtudaginn 11. ágúst 2016

A

gegn

Vestmannaeyjabæ


Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Kári Gunndórsson lögfræðingur, Agnar Bragi Bragason lögfræðingur og Eva Dís Pálmadóttir lögfræðingur.

Með kæru, móttekinni 27. júlí 2016, kærir A til úrskurðarnefndar velferðarmála svarbréf Vestmannaeyjabæjar, dags. 18. júlí 2016.

I. Málavextir og málsmeðferð

Kærandi lagði fram kæru hjá úrskurðarnefnd velferðarmála þann 27. júlí 2016 vegna svarbréfs Vestmanneyjabæjar, dags. 18. júlí 2016, við erindi hans frá 13. júlí 2016. Kærandi gerir athugasemd við að Vestmannaeyjabær hafi ekki sett reglur um sérstakar húsaleigubætur og að sveitarfélagið hafi ekki veitt honum viðeigandi rökstuðning. Þá óskar kærandi eftir tilteknum upplýsingum frá úrskurðarnefndinni vegna synjunar sveitarfélagsins á fyrirgreiðslu vegna lyfjakaupa.

II. Niðurstaða

Samkvæmt 1. mgr. 63. gr. laga nr. 40/1991 um félagsþjónustu sveitarfélaga getur málsaðili skotið ákvörðun félagsmálanefndar til úrskurðarnefndar velferðarmála. Hlutverk úrskurðarnefndar velferðarmála er að úrskurða í kærumálum vegna stjórnvaldsákvarðana eftir því sem mælt er fyrir um í lögum sem kveða á um málskot til nefndarinnar, sbr. 1. gr. laga nr. 85/2015 um úrskurðarnefnd velferðarmála. Til þess að úrskurðarnefndin geti tekið kæru til efnislegrar meðferðar þarf því að liggja fyrir stjórnvaldsákvörðun. Um stjórnvaldsákvörðun er einungis að ræða hafi stjórnvald tekið ákvörðun um rétt eða skyldu tiltekins aðila í skjóli stjórnsýsluvalds, sbr. 2. mgr. 1. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

Samkvæmt gögnum málsins lagði kærandi inn erindi til Vestmannaeyjabæjar og fékk svar frá sveitarfélaginu með bréfi, dags. 18. júlí 2016. Af gögnum málsins verður ekki ráðið að tekin hafi verið kæranleg stjórnvaldsákvörðun í tilviki kæranda. Það er því mat úrskurðarnefndarinnar að málið sé ekki tækt til efnismeðferðar. Kærunni er vísað frá úrskurðarnefnd velferðarmála.

Úrskurðarnefndin bendir á að félagsþjónusta sveitarfélaga heyrir undir velferðarráðuneytið sem hefur eftirlit með því að sveitarfélögin veiti lögboðna þjónustu, sbr. 3. gr. laga nr. 40/1991. Með vísan til þessa er kæranda unnt að leita til velferðarráðuneytisins telji hann þjónustu sveitarfélagsins ábótavant.

 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Kæru A er vísað frá úrskurðarnefnd velferðarmála.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

Kári Gunndórsson

 

 

 

                                                                    

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta