Mál nr. 5/2009. Ákvörðun kærunefndar útboðsmála:
Ákvörðun kærunefndar útboðsmála 9. mars 2009
í máli nr. 5/2009:
Hf. Eimskipafélag Íslands
gegn
Ríkiskaupum
Með bréfi, dags. 10. febrúar 2009, kærir Hf. Eimskipafélag Íslands ákvörðun Ríkiskaupa, dags. 6. febrúar 2009, að hafna Hf. Eimskipafélagi Íslands sem viðsemjanda í útboði nr. 1585 „Flutningur á áfengi og tóbaki innanlands fyrir ÁTVR“ á þeim flutningaleiðum, sem tilkynnt hafði verið um þann 31. desember 2008 að samið yrði við félagið um að sinna. Í kæru voru kröfur kæranda orðaðar með eftirfarandi hætti:
„Þess er krafist að kæra þessi verði sameinuð kærumálinu nr. 2/2009.
Þess er krafist að kærunefnd útboðsmála úrskurði að stöðva skuli samningsgerð kærða við væntanlega samningsaðila á flutningaleiðum sem tilkynnt hafði verið um þann 31. desember 2008 að samið yrði við kæranda um að sinna, sbr. fylgiskjal 2, þar til leyst hefur verið úr kæru þessari.
Verði ekki fallist aðalkröfu kæranda um ógildingu útboðsins, sbr. kæru í máli nr. 2/2009, er þess krafist til vara að kærunefnd útboðsmála ógildi ákvörðun kærða, dags. 6. febrúar 2009, um að hafna kæranda sem viðsemjanda í útboði nr. 14585 „Flutningur á áfengi og tóbaki innanlands fyrir ÁTVR“ á þeim flutningaleiðum, sem tilkynnt hafði verið um þann 31. desember 2008 að samið yrði við kæranda um að sinna.
Kærandi áskilur sér jafnframt rétt til þess að koma að frekari kröfum síðar, þ.á m. að kærunefndin tjái sig um bótaskyldu kærða og grundvöll skaðabóta.
Þá er þess krafist að kærða verði gert að greiða kostnað kæranda við að hafa kæruna uppi að skaðlausu samkvæmt mati nefndarinnar eða framlögðu málskostnaðaryfirliti.“
Kærði krefst þess að kröfum kæranda verði hafnað.
Í þessum hluta málsins tekur kærunefnd útboðsmála til skoðunar hvort rétt þyki að stöðva samningsgerð í tengslum við útboðið. Endanlega verður leyst úr efnisatriðum kærunnar síðar.
I.
Kærði, fyrir hönd Áfengis- og tóbaksverslunar ríkisins (ÁTVR), óskaði í september 2008 eftir tilboðum í flutning á áfengi, tóbaki og öðrum vörum innanlands, frá Reykjavík til vínbúða utan höfuðborgarsvæðisins. Áætlað var að flytja 8.770 tonn á ári og á 36 flutningaleiðum. Heimilt var að bjóða í einstaka leiðir. Þá áskildi kærði sér rétt til að taka hagstæðasta tilboði eða hafna öllum. Enn fremur áskildi hann sér rétt til að taka hluta tilboðs og taka tilboði frá fleiri en einum aðila. Tilboð bárust frá sjö aðilum.
Niðurstaða útboðsins var send í tölvupósti til þátttakenda í útboðinu 31. desember 2008. Tilboði kæranda var tekið í eftirtaldar sex leiðir: Búðardalur, Hvammstangi, Blönduós, Sauðárkrókur, Siglufjörður og Vestmannaeyjar.
Kærði tilkynnti kæranda með tölvupósti, dags. 6. febrúar 2009, að ákveðið hefði verið að hafna tilboði kæranda á grundvelli fyrirliggjandi upplýsinga um fjárhagsstöðu félagsins í stað þess að ganga til samninga við félagið, eins og áður hafði verið ákveðið.
Kærandi hefur óskað eftir rökstuðningi kærða á þessari ákvörðun.
II.
Kærandi byggir á því að verulegar líkur séu á því að brotið hafi verið gegn lögum nr. 84/2007 um opinber innkaup og því sjái hann sér ekki annað fært á þessu stigi en að óska eftir stöðvun á samningsgerð, sbr. 1. mgr. 76. gr. og 96. gr. laga nr. 84/2007. Kærandi telur það óhjákvæmlegt að stöðva samningsgerð þar til leyst hefur verið úr varakröfunni, þar sem að öðrum kosti kunni öðrum að verða veittur samningur á þeim flutningaleiðum sem um ræði og það valdi kæranda réttarspjöllum.
Bendir kærandi á að með því að kærði hafi tilkynnt að ekki eigi að semja við kæranda megi vænta þess að kærði hyggist á næstunni leita samninga við aðra bjóðendur um framangreindar leiðir. Kærandi lítur svo á að val á nýjum viðsemjanda við þessar aðstæður feli í sér ákvörðun samkvæmt 1. mgr. 76. gr. laga nr. 84/2007 og því sé kærða skylt að gæta að 10 daga fresti samkvæmt ákvæðinu áður en endanlega verði gengið að öðru tilboði. Áður en umræddur frestur sé á enda sé þess krafist að kærunefnd taki ákvörðun um stöðvun frekari samningsgerðar um umræddar sex flutningaleiðir sem tilkynnt hafði verið um að samið skyldi um við kæranda.
III.
Kærði greinir frá því að engu tilboði hafi verið tekið og ekki hafi verið tilkynnt um val tilboðs vegna hinna kærðu leiða. Það verði ekki gert fyrr en kærunefnd hafi lokið meðferð þessa máls. Þá verði tilkynnt um val á tilboði samkvæmt 1. mgr. 76. gr. laga nr. 84/2007 og þá byrji 10 daga biðtími að líða. Þann tíma geti kærandi nýtt til að gera athugasemdir og/eða eftir atvikum kæra það val.
IV.
Í 1. mgr. 96. gr. laga nr. 84/2007 kemur fram að ef kærunefnd útboðsmála telur að verulegar líkur séu á því að brotið hafi verið gegn lögunum geti hún, eftir kröfu kæranda, stöðvað innkaupaferli eða gerð samnings þar til endanlega hefur verið skorið úr kæru.
Kærandi krefst stöðvunar á samningsgerð við væntanlega samningsaðila á þeim flutningaleiðum sem ætlunin var að ganga til samninga við hann um. Í máli þessu liggur fyrir að hvorki hafi öðru tilboði í umræddar flutningaleiðir verið tekið né tilkynnt um val tilboðs. Þá hefur kærði jafnframt lýst því yfir að það verði ekki gert fyrr en kærunefnd hafi lokið meðferð þessa máls.
Af gögnum málsins verður ekki séð að verulegar líkur séu á því að brotið hafi verið gegn lögum nr. 84/2007 sem réttlæti stöðvun innkaupaferlis eða samningsgerðar við væntanlega samningsaðila á títtnefndum flutningaleiðum. Telur kærunefnd útboðsmála því að hafna beri kröfu kæranda um stöðvun samningsgerðar.
Ákvörðunarorð:
Kröfu kæranda, Hf. Eimskipafélags Íslands, um stöðvun samningsgerðar á leiðunum: Búðardalur, Hvammstangi, Blönduós, Sauðárkrókur, Siglufjörður og Vestmannaeyjar, í útboði Ríkiskaupa nr. 14585 „Flutningur á áfengi og tóbaki innanlands fyrir ÁTVR“ er hafnað.
Reykjavík, 9. mars 2009.
Páll Sigurðsson
Sigfús Jónsson
Rétt endurrit staðfestir,
Reykjavík, 9. mars 2009.