Hoppa yfir valmynd

Nr. 652/2021 Úrskurður

 

KÆRUNEFND ÚTLENDINGAMÁLA

 

Hinn 9. desember 2021 er kveðinn upp svohljóðandi

úrskurður nr. 652/2021

í stjórnsýslumáli nr. KNU21100070

 

Kæra […]

á ákvörðun

Útlendingastofnunar

 

I.       Kröfur, kærufrestir og kæruheimild

Hinn 26. október 2021 kærði […], fd. […], ríkisborgari Venesúela og Kólumbíu (hér eftir nefnd kærandi), ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 7. október 2021, um að synja henni um alþjóðlega vernd á Íslandi ásamt því að synja henni um dvalarleyfi á grundvelli 74. gr. laga nr. 80/2016 um útlendinga.

Kærandi krefst þess aðallega að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi og að málinu verði vísað til nýrrar meðferðar hjá Útlendingastofnunar vegna brots á rannsóknarreglu stjórnsýsluréttar, sbr. 2. mgr. 23. gr. laga um útlendinga og 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Til vara er þess krafist að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi og að kæranda verði veitt alþjóðleg vernd með vísan til 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga. Til þrautavara er þess krafist að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi og að kæranda verði veitt viðbótarvernd með vísan til 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga. Að lokum er þess krafist að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi og að kæranda verði veitt dvalarleyfi á grundvelli 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga.

Fyrrgreind ákvörðun er kærð á grundvelli 7. gr. laga um útlendinga og barst kæran fyrir lok kærufrests.

II.        Málsmeðferð

Kærandi sótti um alþjóðlega vernd hér á landi hinn 23. júlí 2021. Kærandi kom í viðtal hjá Útlendingastofnun m.a. dagana 19. og 27. ágúst 2021 ásamt talsmanni sínum. Með ákvörðun, dags. 7. október 2021, synjaði Útlendingastofnun kæranda um alþjóðlega vernd ásamt því að synja henni um dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða. Var framangreind ákvörðun kærð til kærunefndar útlendingamála hinn 26. október 2021. Kærunefnd barst greinargerð kæranda hinn 17. nóvember 2021 ásamt fylgigögnum. Í greinargerð óskaði kærandi eftir því að koma fyrir nefndina og tjá sig um efni málsins. Í ljósi frásagnar kæranda og skýrslna um heimaríki hennar taldi kærunefnd ekki ástæðu til að gefa henni kost á að koma fyrir nefndina, sbr. 7. mgr. 8. gr. laga um útlendinga.

III.       Ákvörðun Útlendingastofnunar

Í ákvörðun Útlendingastofnunar kemur fram að kærandi byggi umsókn sína um alþjóðlega vernd á því að hún sé í hættu í heimaríkjum sínum. Í Venesúela vegna stjórnmálaskoðana sinna og almenns ástands í landinu. Þá eigi hún á hættu ofsóknir í Kólumbíu frá stjórnvöldum Venesúela og mismunun vegna þjóðernis síns sem flóttamaður frá Venesúela í Kólumbíu og almenns ástands þar í landi.

Niðurstaða ákvörðunar Útlendingastofnunar í máli kæranda var sú að kærandi væri ekki flóttamaður og henni skyldi synjað um alþjóðlega vernd á Íslandi samkvæmt ákvæðum 37. og 40. gr. laga um útlendinga. Kæranda var jafnframt synjað um dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða samkvæmt 74. gr. laga um útlendinga. Þá taldi stofnunin að ákvæði 42. gr. laga um útlendinga stæði endursendingu til heimaríkis ekki í vegi.

Kæranda var vísað frá landinu á grundvelli c-liðar 1. mgr. 106. gr. laga um útlendinga. Útlendingastofnun tilkynnti kæranda jafnframt að kæra frestaði réttaráhrifum ákvörðunarinnar, sbr. 1. mgr. 35. gr. laga um útlendinga.

IV.       Málsástæður og rök kæranda

Kærandi vísar til greinargerðar sinnar til Útlendingastofnunar, dags. 23. september 2021, og viðtala hjá stofnuninni er varðar málavexti og upplýsingar um ástand mála í Kólumbíu. Þar kemur fram að kærandi hafi greint frá ástæðum þess að hún hafi flúið heimaríki sitt. Kærandi hafi m.a. greint frá því að hún sé fædd og uppalin í […], Venesúela. Fjölskylda hennar hafi verið virk í stjórnmálum og fjölskyldumeðlimir hennar hafi yfirgefið landið þegar þau hafi fengið hótanir. Kærandi hafi yfirgefið Venesúela og farið til Kólumbíu árið 2017 þar sem hún hafi sameinast sambýlismanni og syni sínum. Kærandi hafi greint frá erfiðum efnahagslegum aðstæðum þeirra í Kólumbíu. Kærandi hafi leitað til lögreglunnar í Kólumbíu vegna hótana sem henni hafi borist í síma en lögreglan hafi sagt að hún gæti ekkert aðhafst og varpað ábyrgð á þessari stöðu á venesúelsk stjórnvöld. Kærandi hafi greint frá því að hún óttist að verða fyrir ofbeldi í Kólumbíu. Annars vegar vegna tengsla hennar við frænda sinn og hins vegar vegna þess að hún sé frá Venesúela. Þekkt sé að Venesúelabúar verði fyrir fordómum og mismunun vegna uppruna þeirra í Kólumbíu.

Í fyrrnefndri greinargerð kæranda er, með vísan til heimilda, fjallað almennt um aðstæður í Kólumbíu. Þar komi m.a. fram að síðustu 50 ár hafi geisað vopnuð átök þar í landi og rúmlega 200.000 manns hafi látið lífið og tugir þúsunda horfið. Mannskæð átök hafi m.a. veikt stöðu stjórnvalda og dregið úr getu þeirra til að sinna samfélagslegu hlutverki og vernda borgara landsins. Á meðal alvarlegustu mannréttindabrota sem framin séu í landinu séu m.a. morð í skjóli refsileysis og víðtæk spilling.

Ólöglegir vopnaðir glæpahópar hafi framið fjölda ódæðisverka á ári hverju, þ.m.t. fjárkúganir, mannrán, pyndingar, mansal, sprengjuárásir, hótanir og ógnanir í garð fjölmiðlafólks, kvenna og aðgerðarsinna. Frá 1. janúar 2020 og fram í júní sama ár hafi verið tilkynnt um 2.052 mannshvörf í landinu, auk 53 tilvika þar sem fólk hafi verið numið á brott gegn vilja þeirra en yfirvöld hafi ekki veitt upplýsingar um fjölda þeirra einstaklinga sem hafi fundist. Þrátt fyrir að yfirvöld hafi gert friðarsamkomulag við skæruliðahópinn FARC (e. Revolutionary Armed Forces of Colombia – People´s Army) árið 2016 hafi  innleiðingu samkomulagsins í lög ítrekað verið frestað. Blóðug átök tengd einum stærsta skæruliðahópi landsins, ELN (e. National Liberation Army), geisi enn ásamt átökum tengdum öðrum skæruliðahópum.

Í greinargerð kæranda til kærunefndar er fjallað um ítök og framferði venesúelskra stjórnvalda á kólumbískri grundu og erfiða stöðu Venesúelabúa í Kólumbíu. Fram kemur að venesúelskir flóttamenn í Kólumbíu eigi á hættu að verða fyrir mannréttindabrotum þar í landi, stöðu sinnar vegna. Fréttaumfjöllun frá 21. september 2020 greini frá njósnum og ofsóknum á vegum venesúelskra yfirvalda á kólumbískri grundu. Komi þar m.a. fram að Nicolás Maduro hafi sent hundruð leyniþjónustumanna til þess að stunda njósnir um starfsemi kólumbískra yfirvalda og til þess að ofsækja meðlimi stjórnarandstöðunnar sem séu þar í útlegð. Þá séu heimildir um að skæruliðahópar í Kólumbíu starfi með venesúelska hernum og að upplýsingar flæði á milli venesúelsku leyniþjónustunnar SEBIN og skæruliðasamtakanna FARC í Kólumbíu. Fjallað hafi verið um mismunun í garð venesúelskra flóttamanna í Kólumbíu á vefsvæði OPEN Democrazy hinn 27. janúar 2020. Þar sé vísað til niðurstaðna úr skoðunarkönnun sem gerð hafi verið í desember 2019 og sýni að viðhorf meirihluta almennings í Kólumbíu til venesúelskra innflytjenda og flóttafólks sé afar neikvætt. Fram komi að 62% almennings vilji ekki að yfirvöld bjóði venesúelskt flóttafólk velkomið í landið og 69% almennings hafi óvinveitt viðhorf til einstaklinga af venesúelskum uppruna sem þegar búi í landinu. Þá komi fram að útlendingahatur gagnvart venesúelskum innflytjendum hafi aukist á undanförnum árum og að yfirvöld noti framangreindan hóp sem blóraböggul fyrir versnandi öryggisástand í landinu. Þá hafi Covid-19-heimsfaraldurinn haft í för með sér versnandi efnahagsástand í Kólumbíu og aukna hættu á ofbeldi og hatri gegn flóttafólki. Þá hafi ofbeldi í garð venesúelskra kvenna í Kólumbíu færst í aukana.

Í greinargerðinni kæranda til kærunefndar er fjallað um ofbeldisbylgju sem hafi skekið kólumbísku þjóðina frá því í apríl 2021. Fram kemur að upphaf bylgjunnar megi rekja til mótmæla gegn nýrri skattalöggjöf sem hafi þróast í ákall þjóðarinnar um breytingar í efnahagskerfinu. Ólga hafi brotist út á meðal mótmælenda sökum mikillar hörku af hálfu lögreglu, misréttis og spillingar. Frá því að mótmæli hafi brotist út hafi kólumbíska lögreglan og öryggissveitir beitt mótmælendur ofbeldi þrátt fyrir að mótmælin hafi flest farið fram á friðsamlegan máta. Mannréttindasamtökin Human Rights Watch hafi nýlega fordæmt hin verulega alvarlegu ofbeldisbrot sem framin hafi verið af hálfu öryggissveita gegn friðsömum mótmælendum.

Kærandi byggir aðalkröfu sína um að ákvörðun Útlendingastofnunar verði felld úr gildi á þeim grundvelli að stofnunin hafi brotið rannsóknarreglu 10. gr. stjórnsýslulaga og 2. mgr. 23. gr. laga um útlendinga. Útlendingastofnun hafi vísað í úreltar og óuppfærðar heimildir um ástandið í Kólumbíu. Með vísan til mikilvægis þeirra upplýsinga um ástand mála í Kólumbíu um þessar mundir og þeirra ógna sem kærandi hafi greint frá sé ljóst að stofnunin hafi ekki uppfyllt rannsóknarskyldu sína.

Kærandi byggir varakröfu sína á því að hún sé flóttamaður samkvæmt 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga vegna aðildar að tilteknum þjóðfélagshópi vegna stjórnmálaskoðana. Kærandi telur að hún eigi á hættu ofsóknir vegna þess af hálfu útsendara á vegum venesúelskra stjórnvalda í Kólumbíu. Kærandi sé náskyld stjórnarandstæðingnum […] og hafi stutt framboð hans. Hún hafi lýst ofsóknum og hótunum sem hún og fjölskyldumeðlimir hennar hafi orðið fyrir vegna tengsla við hann, bæði í heimaríki og í þeim ríkjum sem fjölskyldumeðlimir hennar hafi flúið til vegna pólitískra ofsókna. Þá telur kærandi að hún eigi á hættu ofsóknir vegna stöðu sinnar sem flóttakona frá Venesúela í Kólumbíu. Venesúelskir flóttamenn í Kólumbíu búi við mikla hættu á ofbeldi af hálfu almennings og vopnaðra hópa þar í landi.

Kærandi krefst þess til þrautavara að henni verði veitt viðbótarvernd hér á landi með vísan til 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga vegna þess alvarlega almenna ástands sem ríki í Kólumbíu vegna glæpagengja, skæruliðahópa og annarra vopnaðra hópa. Öryggisástand sé afar ótryggt og ljóst að raunverulegum friði verði ekki komið á í bráð. Vopnaðir uppreisnarhópar, glæpagengi og skæruliðahreyfingar ógni öryggi óbreyttra borgara í landinu og fremji fjölda ódæðisverka. Þrátt fyrir fullgildingu friðarsamkomulags kólumbískra stjórnvalda við FARC sé vopnuðum átökum í landinu ekki lokið og ljóst að afsprengihópar FARC fari ört stækkandi. Á síðasta ári hafi ofbeldisverk slíkra hópa aukist enn frekar og ástandið fari versnandi. Með vísan til framangreinds telur kærandi að hún eigi í raunverulegri hættu á að verða fyrir ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð í Kólumbíu.

Til þrautaþrautavara krefst kærandi þess að henni verði veitt dvalarleyfi hér á landi á grundvelli mannúðarsjónarmiða, sbr. 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga. Almennir borgarar í Kólumbíu eigi á hættu að verða fyrir handahófskenndum árásum og glæpum af hálfu skæruliðahópa og annarra vopnaðra hópa í skjóli refsileysis. Þá búi kærandi við ótta við að verða fyrir ofbeldi eða vera myrt vegna uppruna síns frá Venesúela. Tilraunir stjórnvalda í Kólumbíu til úrbóta hafi engu breytt fyrir einstaklinga í sambærilegri stöðu og þeirri sem kærandi standi frammi fyrir. Þá hafi óttinn sem hún búi við haft áhrif á andlega heilsu hennar.

Að lokum telur kærandi að með því að senda hana til heimaríkis yrði brotið gegn meginreglunni um bann við endursendingum, sbr. 42. gr. laga um útlendinga. Að auki telur kærandi að slík ákvörðun myndi brjóta í bága við 1. mgr. 68. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands nr. 33/1944, 2. og 3. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994, 6. og 7. gr. alþjóðasamnings um borgaraleg og stjórnmálaleg réttindi og 33. gr. alþjóðasamnings um réttarstöðu flóttamanna.

V.        Niðurstaða kærunefndar útlendingamála

Lagagrundvöllur

Í máli þessu gilda einkum ákvæði laga um útlendinga nr. 80/2016, reglugerð nr. 540/2017 um útlendinga, ákvæði stjórnsýslulaga nr. 37/1993, stjórnarskrá lýðveldisins Íslands nr. 33/1944 og mannréttindasáttmáli Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994. Jafnframt ber að líta til ákvæða alþjóðasamnings um stöðu flóttamanna frá 1951, ásamt viðauka við samninginn frá 1967, og annarra alþjóðlegra skuldbindinga Íslands á sviði mannréttinda eftir því sem tilefni er til.

Auðkenni

Í ákvörðun Útlendingastofnunar kemur fram að til að sanna á sér deili hafi kærandi framvísað kólumbísku vegabréfi. Telur kærunefndin því ljóst að kærandi sé kólumbískur ríkisborgari.

Landaupplýsingar

Kærunefnd útlendingamála hefur lagt mat á aðstæður í Kólumbíu, m.a. með hliðsjón af eftirfarandi skýrslum:

  • Achieving Health Outcomes in Colombia. Civil Registration and Vital Statistics System, Unique Personal Identification Number, and Unified Beneficiary Registry System for Births and Death (World Bank Group, 2019);
  • A FONDO-Cuando el coronavirus golpea a Venezuela, Maduro reprime con más fuerza a las voces opositoras (Reuters, 25. mars 2020);
  • Amnesty International Report 2020/2021 – Colombia (Amnesty International, 7. apríl 2021);
  • Challenges faced in receiving 1.4 million Venezuelan citizens at the centre of Colombia´s dialogue with the Committee on Migrant Workers (Committee on the Protection of the Rights of All Migrant Workers, OHCHR, 4. september 2019);
  • Colombia at a Stabilization Crossroads (Center for Strategic and International Studies (CSIS), 5. mars 2020);
  • Colombia: Compound structural vulnerabilities facing Christian women under pressure for their faith (Open Doors International / World Watch Research Unit, nóvember 2018);
  • Colombia: Fact-Finding Mission Report. Conflict Dynamics in the Post-FARC-EP Period and State Protection (Immigration and Refugee Board of Canada, mars 2020);
  • Colombia 2020 Crime and Safety Report (US Department of State, Bureau of Diplomatic Security, 13. mars 2020);
  • Colombia: Egregious Police Abuses Against Protesters: Police Reform Urgently Needed to Prevent Future Violations (Human Rights Watch, 9. júní 2021);
  • Colombia: Spike in attacks against peace community shows conflict still alive (Amnesty International, 21. mars 2017);
  • Colombia arrested 134 anti-government activists in one week (Colombia Reports, 27. júlí 2021);
  • Colombia´s Armed Groups Battle for the Spoils of Peace (International Crisis Group, 19. október 2017);
  • Colombians Revive Protests Amid New Tax Plan (VOA News, 21. júlí 2021);
  • Colombia at a Stabilization Crossroads (Center for Strategic and International Studies (CSIS), 5. mars 2020);
  • Colombia’s Armed Groups Battle for the Spoils of Peace. Latin America Report No. 63 (International Crisis Group (ICG), 19. október 2017);
  • Education in Colombia (World Education News And Reviews, 23. júní 2020);
  • Freedom in the World 2021 – Colombia (Freedom House, 3. mars 2021);
  • Human rights ombudsman says 58 killed in Colombia protests (AP News, 8. júní 2021);
  • In the Shadow of “No“: Peace after Colombia’s Plebiscite. Latin America Report No. 60 (International Crisis Group (ICG), 31. janúar 2017);
  • Más de 360 migrantes venezolanos han sido asesinados en Colombia en el 2021 (INFOBAE, 26. Ágúst 2021);
  • Mental Health ATLAS 2017. Member State Profile. Colombia (World Health Organization, 2018);
  • Observations and recommendations. Working visit to Colombia(Inter-American Commission on Human Rights, IACHR, júní 2021);
  • Progress of women in Colombia 2018: Transforming the economy to guarantee rights (UN Women, 2018);
  • Primary Health Care Systems (Prymasis). Case study from Colombia (World Health Organization, 2017);
  • Recycled Violence, Abuses by FARC dissident groups in Tumaco on Colombia’s Pacific Coast (Human Rights Watch, 13. desember 2018);
  • Searching for Home: How Covid-19 Threatens Progress for Venezuelan Integration in Colombia (Refugees International, 26. maí 2020);
  • Situation of human rights in Colombia. Report of the United Nations High Commissioner for Human Rights (UN Human Rights Council, 10. febrúar 2021);
  • Social Security Throughout the World, The Americas, 2019 - Colombia (Social Security Administration. Office of Retirement and Disability Policy. Office of Research, Evaluation, and Statistics, mars 2020);
  • Supporting Colombian Host Communities and Venezuelan Migrants During the COVID-19 Pandemic (The World Bank, 31. október 2021);
  • Supporting Solidarity: Why the World Must Bolster Colombia´s Response to the Venezuelan Displacement Crisis (Refugees International, 20. desember 2019);
  • The World Factbook: Colombia (CIA, síðast uppfært 30. nóvember 2021);
  • Trincheras y balas en Siloé: 74 muertos y unas protestas que no cesan en Colombia (El Confidencial, 13. júní 2021);
  • The Missing Peace: Colombia’s New Government and Last Guerrillas. Latin America Report No 68 (International Crisis Group (ICG), 12. júlí 2018);
  • UNHCR Eligibility Guidelines for Assessing the International Protection Needs of Asylum- Seekers from Colombia (UNHCR, september 2015);
  • Upplýsingar af vefsíðu kólumbíska heilbrigðis- og félagsmálaráðuneytisins (https://www.minsalud.gov.co);
  • Upplýsingar af vefsíðu Colombia Reports (colombiareports.com);
  • Upplýsingar af vefsíðu InSight Crime (insightcrime.org);
  • Upplýsingar af vefsíðu Refugees International (https://www.refugeesinternational.org);
  • Venezuela, the ´Red Group´and their military targets in the ´Green Country´ (Colombia Reports, 8. september 2019);
  • World Report 2020. Columbia – Events of 2019 (Human Rights Watch, 14. janúar 2020);
  • World Report 2021. Columbia - Events of 2020 (Human Rights Watch, 13 . janúar. 2021)
  • Yes, But Not Here: Perceptions of xenophobia and discrimination towards Venezuelan migrants in Colombia, Ecuador and Peru (Oxfam Research Report, 24. október 2019) og
  • 2020 Country Reports on Human Rights Practices – Colombia (US Department of State, 30. mars 2021).

Kólumbía er stjórnarskrárbundið lýðveldi með rúmlega 50 milljónir íbúa. Í landinu aðhyllist 79% íbúa kaþólska trú. Hinn 5. nóvember 1945 gerðist Kólumbía aðili að Sameinuðu þjóðunum. Ríkið fullgilti alþjóðasamning um borgaraleg og stjórnmálaleg réttindi ásamt alþjóðasamningi um efnahagsleg, félagsleg og menningarleg réttindi árið 1969. Ríkið fullgilti alþjóðasamning um afnám allrar mismununar gegn konum árið 1982 og samning Sameinuðu þjóðanna gegn pyndingum og annarri grimmilegri, ómannlegri og vanvirðandi meðferð eða refsingu árið 1987.

Í skýrslu bandaríska utanríkisráðuneytisins fyrir árið 2020 kemur fram að helstu vandamál á sviði mannréttinda í landinu séu m.a. handahófskennd morð, pyndingar, víðtæk spilling, nauðganir og misnotkun kvenna og barna af hálfu ólöglegra vopnaðra hópa í landinu og ofbeldi gegn LGBTI einstaklingum. Spilling sé umtalsverð á meðal stjórnmálamanna og innan lögreglu landsins. Þó hafi forseta- og þingkosningar í júní árið 2018 verið taldar hafa farið fram með frjálsum og sanngjörnum hætti og hafi þær hafi verið hinar friðsömustu í áratugi.

Í skýrslu samtakanna Freedom House frá 2021 kemur t.a.m. fram að spillingar gæti víða í kólumbísku stjórnkerfi. Á síðustu árum hafi komið upp á yfirborðið hneykslismál tengd ýmsum alríkisstofnunum sem hafi verið rannsökuð og sakfellt hafi verið fyrir brot, þ. á m. brot háttsettra embættismanna. Þá hafi refsileysi innan öryggissveita landsins verið vandamál en stjórnvöld hafi á síðustu árum aukið þjálfun liðsmanna öryggissveita landsins hvað varðar mannréttindi ásamt því að rannsaka og sakfella í auknum mæli brot liðsmanna þeirra. Þá hafi dregið úr samstarfi á milli öryggissveita og ólöglegra vopnahópa. Mannréttindasamtök hafi þó gagnrýnt að á sumum svæðum virðist glæpahópar fá að starfa því sem næst óáreittir. Lögregla sé fagmannlegri en í nágrannaríkjum Kólumbíu en skortur sé á fjármagni og mannafla. Enn fremur hafi lögreglan verið sökuð um að vinna með glæpamönnum og að vera ekki til staðar á strjálbýlli svæðum þar sem hættulegir hópar séu virkir.

Af framangreindum heimildum má ráða að glæpa- og morðtíðni í Kólumbíu sé há og að glæpahópar séu starfandi víðs vegar um landið og séu ráðandi á ákveðnum svæðum, einkum í héruðunum Cauca, Nariño, Catatumbo og Norte de Santander. Þeir stærstu og þekktustu hafi verið skæruliðahóparnir FARC-EP (e. Revolutionary Armed Forces of Colombia – People’s Army) og ELN (e. National Liberation Army). Þá séu þar einnig starfandi svokallaðir NAG (e. New Armed Groups) sem hafi sprottið út frá hersveitum sem áður hafi starfað í landinu. Fram kemur í skýrslu bandaríska utanríkisráðuneytisins fyrir árið 2020 að í kjölfar undirritunar friðarsamkomulags stjórnvalda við skæruliðahópinn FARC, hafi formlegri afvopnun hópsins lokið árið 2017 og það sama ár hafi fyrrum meðlimir myndað stjórnmálaflokk. Allt að 1500 meðlimir FARC hafi ekki tekið þátt í friðarferlinu og sé nú áætlað að meðlimir í afsprengihópum FARC séu um 2.600 talsins. Í skýrslu Human Rights Watch fyrir árið 2020 kemur fram að almennir borgarar hafi verið beittir misnotkun og ofbeldi af hendi framangreindra skæruliðahópa og glæpahópa. Meðlimir mannréttindasamtaka, fjölmiðlafólk, leiðtogar frumbyggja og aðrir aðgerðarsinnar hafi staðið frammi fyrir margvíslegu ofbeldi og líflátshótunum og hafi stjórnvöld hafi ekki gripið til fullnægjandi ráðstafana til að vernda þau. Í skýrslu frá bandaríska utanríkisráðuneytinu um glæpi og öryggi í Kólumbíu frá 13. mars 2020 kemur m.a. fram að lögregluyfirvöld í Kólumbíu séu alla jafna öflug og fagleg.

Í fyrrnefndri skýrslu Human Rights Watch kemur fram að kólumbíska ríkislögreglan hafi í nóvember árið 2019 ráðist að mótmælendum í landinu, sem hafi mótmælt breytingum á skattalöggjöf og morðum á mannréttindaaðgerðarsinnum. Í frétt samtakanna frá 9. júní 2021 kemur fram að hinn 28. apríl 2021 hafi þúsundir manns tekið þátt í mótmælum vegna fyrirhugaðra breytinga á skattalöggjöf. Stjórnvöld hafi dregið umræddar tillögur til baka en mótmæli hafi haldið áfram og tengst óánægju mótmælenda á mörgum sviðum, s.s. atvinnuleysi, versnandi efnahagsástandi í kjölfar COVID-19 heimsfaraldursins, ójöfnuði, glæpatíðni, ofbeldi lögregluyfirvalda o.fl. Í skýrslu sinni frá 2021 greinir Amnesty International frá ofbeldi og alvarlegum mannréttindabrotum gagnvart mótmælendum af hendi öryggissveita og vopnaðra aðila. Frá því mótmæli hafi hafist hafi kólumbíska lögreglan og öryggissveitir beitt mótmælendur ofbeldi þrátt fyrir að mótmælin hafi flest farið fram með friðsamlegum hætti. Lögreglan hafi brugðist við með því að grípa til óhóflegrar valdbeitingar, beitingu skotvopna og handahófskenndra handtaka. Í frétt AP News frá 8. júní 2021 kemur fram að 58 dauðsföll mótmælenda hafi verið skráð víðsvegar um landið. Þá hafi umboðsmanni mannréttinda í Kólumbíu borist 400 tilkynningar um ofbeldi og mannréttindabrot sem hafi átt sér stað á mótmælunum, m.a. af hálfu lögreglu og öryggissveita. Forseti Kólumbíu hafi lagt fram tillögu að umbótum á lögregluliði Kólumbíu sem feli m.a. í sér að lögreglumenn skuli bera líkamsmyndavélar og að sett verði á fót mannréttindaembætti innan lögreglunnar sem eigi að fá utanaðkomandi tillögur að stefnumótun. Þá ætli ríkisstjórnin að bæta verklag fyrir kvartanir almennings vegna aðgerða lögreglunnar.

Fram kemur í skýrslu bandaríska utanríkisráðuneytisins fyrir árið 2020 að um 8 milljónir íbúa í Kólumbíu séu vegalausir innanlands (e. internally displaced people), flestir vegna vopnaðra átaka í landinu. Þá hafi hætta af ólöglegum vopnuðum hópum í landinu valdið fólksflutningum, bæði í þéttbýli sem og í dreifbýli. Samkvæmt lögum hafi 52 opinberar stofnanir í Kólumbíu það hlutverk að veita einstaklingum sem hafi þurft að flýja heimkynni sín aðstoð. Jafnframt séu fjöldi félaga og samtaka í samstarfi með stjórnvöldum og hafi tekið að sér að veita mannúðaraðstoð til þeirra sem hafi þurft að flytjast á brott frá heimasvæði sínu. Stjórnvöld hafi þó sætt gagnrýni fyrir seinar og ófullnægjandi aðgerðir. Þá hafi mannúðarsamtök aukið fræðslu og dreifingu hreinlætisvara í tengslum við COVID-19-heimsfaraldurinn.

Í framangreindum skýrslum, þ. á m. í skýrslum Freedom House og bandarísku utanríkisþjónustunnar frá 2021, er fjallað um stöðu kvenna í Kólumbíu. Fram kemur m.a. að konur standi frammi fyrir mismunun á vinnumarkaði og verði fyrir kynferðislegri áreitni á vinnustöðum. Kólumbísk lög leggi bann við hvers kyns áreitni á vinnustað og mæli jafnframt fyrir um eins til þriggja ára fangelsisvist fyrir slík brot. Þá hafi konur orðið fyrir kynbundnu ofbeldi í tengslum við átök tengd glæpastarfsemi og baráttu stjórnvalda við glæpahópa í landinu. Auk þess hafi nokkuð skort á innleiðingu kynbundinna þátta friðarsamkomulagsins frá árinu 2016. Auk framagreinds kemur fram í skýrslu samtakanna Open Doors um Kólumbíu frá árinu 2018 að erfiðara geti verið fyrir konur, jafnvel ómögulegt, að kaupa eða selja jarðir eða sýna fram á eignarhald á jörð vegna karllægra viðhorfa og fordóma gagnvart konum. Einstæðar konur séu því líklegri til þess að enda heimilis- og vegalausar. Þá kemur fram að alvara mismununar gagnvart konum velti á ýmsum lýðfræðilegum þáttum, m.a. þjóðerni þeirra, efnahag, menntun og búsetu, þ.e. hvort þær búi í þéttbýli eða dreifbýli. Almennt séu félagslegar aðstæður kvenna verri og líkur á að þær sæti ofbeldi meiri í strjálbýli en á þéttbýlli svæðum.

Samkvæmt stjórnarskrá Kólumbíu eiga ríkisborgarar rétt á grunnheilbrigðisþjónustu og félagslegri aðstoð í landinu. Samkvæmt vefsvæði Alþjóðabankans var atvinnuleysi í Kólumbíu 15,4% og hafði aukist verulega frá árinu 2019. Ráðuneyti heilbrigðis- og félagslegrar verndar (s. Ministerio de Salud y de Protección Social) ber ábyrgð á að hafa eftirlit með og samræma þjónustu á starfssviði sínu á landsvísu. Samkvæmt lögum um heilbrigðisþjónustu frá 2015 (s. La Ley Estatutaria de Salud 1751 de 2015) telst heilbrigði til grundvallarmannréttinda og bann er lagt við því að synja sjúklingum um nauðsynlega heilbrigðisþjónustu á grundvelli efnahagslegrar stöðu. Samkvæmt upplýsingum frá Alþjóðaheilbrigðismálastofnuninni (e. World Health Organization, WHO) frá árinu 2018 hefur verið í gildi sérstök löggjöf um geðheilbrigðismál í Kólumbíu frá árinu 2013. Slík heilbrigðisþjónusta sé að mestu tryggð með sjúkratryggingakerfi landsins og meirihluti fólks sem eigi við andleg vandamál að stríða þurfi ekki að greiða fyrir slíka þjónustu.

Í frétt á vefsvæði Alþjóðabankans (e. The World Bank), dags. 31. október 2021, kemur fram að yfir 1,7 milljón venesúelskra ríkisborgara dvelji í Kólumbíu. Ólíkt öðrum nágrannaþjóðum Venesúela hafi Kólumbía haldið landamærum sínum opnum fyrir venesúelskum flóttamönnum þrátt fyrir að aðgengi að vatni, heilbrigðisþjónustu, menntun og atvinnu sé takmarkað. Kólumbía hafi brugðist við þessum mikla fjölda flóttamanna með heildstæðum hætti og komið  til móts við þarfir hópsins, þ. á m. í kjölfar Covid-19-heimfaraldursins. Kólumbísk stjórnvöld hafi m.a. veitt venesúelskum ríkisborgurum atvinnu- og dvalarleyfi og tryggt þeim aðgengi  að heilbrigðis- menntunar og félagslegum styrkjum. Þá kemur fram í skýrslu bandaríska utanríkisráðuneytisins fyrir árið 2020 að 95% umsækjenda um alþjóðlega vernd í Kólumbíu hafi verið venesúelskir ríkisborgarar. Þrátt fyrir að venesúelskir ríkisborgarar upplifi oft fordóma og mismunun í Kólumbíu þá sýni meirihluti íbúa Kólumbíu Venesúelabúum skilning og telji rétt að Kólumbía taki á móti þeim. Þá hafi kólumbísk stjórnvöld, í samvinnu við alþjóðlegar stofnanir, unnið að því  að draga úr mannúðarvanda sem venesúelskir ríkisborgarar upplifi, sem og að bæta félagslegar aðstæður þeirra þannig að þeir eigi auðveldara með að aðlagast kólumbíska samfélaginu. Þrátt fyrir þessar aðferðir þá sé hópurinn félagslega- og efnahagslega jaðarsettur í landinu. Kólumbísk stjórnvöld telji að útlendingaandúð sé ekki útbreidd meðal almennings þrátt fyrir að slík orðræða geti átt sér stað. Þá hafi slík orðræða verið fordæmd af háttsettum embættismönnum í landinu. Í skýrslu samtakanna Refugees International kemur fram að heimsfaraldur Covid-19 hafi lagst sérstaklega þungt á ríkisborgara Venesúela í Kólumbíu þrátt fyrir einlægan vilja kólumbískra stjórnvalda til að tryggja þeim aðstoð og heilbrigðisþjónustu. Tugir þúsunda einstaklinga hafi neyðst til að yfirgefa Kólumbíu vegna atvinnumissis, fjárskorts, skorts á húsnæði, mat o.fl. og snúið aftur til Venesúela þrátt fyrir slæmt ástand þar í landi.

Í skýrslu mannréttindanefndar Ameríkuríkja (e. Inter-American Commission of Human Rights), í tengslum við heimsókn nefndarinnar til landsins í júní 2021, kemur fram að nefndin hafi fundið víðtækan samhljóm meðal fulltrúa ríkisins og fulltrúa borgaralega samfélagsins varðandi orsakir mótmælanna sem liggi í miklum ójöfnuði og misskiptingu auðs, fátækt og skorti á aðgengi að efnahagslegum, menningarlegum og félagslegum réttindum, einkum aðgengi að menntun, atvinnu og heilbrigðisþjónustu. Í skýrslu Freedom House fyrir árið 2020 kemur fram að Hæstiréttur Kólumbíu hafi skipað fyrir um að réttur til að mótmæla og tjáningarfrelsi skyldi virtur og lagt fyrir hlutaðeigandi stofnanir að setja reglugerðir til að koma í veg fyrir ofbeldi af hálfu öryggissveita.

Ákvæði 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga

Í 1. mgr. 37. gr. laga nr. 80/2016 um útlendinga, sem byggir á A-lið 1. gr. flóttamannasamningsins, segir:

Flóttamaður samkvæmt lögum þessum telst vera útlendingur sem er utan heimalands síns af ástæðuríkum ótta við að vera ofsóttur vegna kynþáttar, trúarbragða, þjóðernis, aðildar að tilteknum þjóðfélagshópi eða vegna stjórnmálaskoðana og getur ekki eða vill ekki vegna slíks ótta færa sér í nyt vernd þess lands; eða sá sem er ríkisfangslaus og er utan þess lands þar sem hann áður hafði reglulegt aðsetur vegna slíkra atburða og getur ekki eða vill ekki vegna slíks ótta hverfa aftur þangað, sbr. A-lið 1. gr. alþjóðasamnings um réttarstöðu flóttamanna frá 28. júlí 1951 og bókun við samninginn frá 31. janúar 1967, sbr. einnig 38. gr. laga þessara.

Í 38. gr. laga um útlendinga eru sett fram viðmið um það hvað felist í hugtakinu ofsóknir samkvæmt 1. mgr. 37. gr., á hvaða grundvelli ofsóknir geta byggst og hvaða aðilar geta verið valdir að þeim. Í 1. mgr. ákvæðisins segir:

Ofsóknir samkvæmt 1. mgr. 37. gr. eru þær athafnir sem í eðli sínu eða vegna þess að þær eru endurteknar fela í sér alvarleg brot á grundvallarmannréttindum, einkum ófrávíkjanlegum grundvallarmannréttindum á borð við réttinn til lífs og bann við pyndingum eða ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu, bann við þrældómi og þrælkun og bann við refsingum án laga. Sama á við um samsafn athafna, þ.m.t. ólögmæta mismunun, sem hafa eða geta haft sömu eða sambærileg áhrif á einstakling.

Í 2. mgr. 38. gr. laga um útlendinga er fjallað um í hverju ofsóknir geta falist. Þá eru þær ástæður sem ofsóknir þurfa að tengjast skilgreindar nánar í 3. mgr. 38. gr. laganna.

Í 4. mgr. 38. gr. laga um útlendinga kemur fram að þeir aðilar sem geta verið valdir að ofsóknum eða ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð séu:

a. ríkið,

b. hópar eða samtök sem stjórna ríkinu eða verulegum hluta landsvæðis þess,

c. aðrir aðilar, sem ekki fara með ríkisvald, ef sýnt er fram á að ríkið eða hópar eða samtök samkvæmt b-lið, þ.m.t. alþjóðastofnanir, geti ekki eða vilji ekki veita vernd gegn ofsóknum eða meðferð sem fellur undir 2. mgr. 37. gr., m.a. með því að ákæra og refsa fyrir athafnir sem fela í sér ofsóknir.

Orðsambandið „ástæðuríkur ótti við að vera ofsóttur“ í 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga inniheldur huglæga og hlutlæga þætti og þarf að taka tillit til hvors tveggja þegar mat er lagt á umsókn um alþjóðlega vernd. Mat á því hvort ótti umsækjanda sé ástæðuríkur getur verið byggt á persónulegri reynslu umsækjanda sem og á upplýsingum um ofsóknir sem aðrir í umhverfi hans eða þeir sem tilheyra sama hópi hafa orðið fyrir. Umsækjandi sem hefur sýnt fram á að hann hafi þegar orðið fyrir ofsóknum í heimaríki, sbr. 1. mgr. 38. gr. laga um útlendinga, eða beinum og marktækum hótunum um slíkar ofsóknir, yrði almennt talinn hafa sýnt fram á ástæðuríkan ótta við slíkar ofsóknir snúi hann aftur til heimaríkis nema talið verði að miklar líkur séu á því að slíkar ofsóknir yrðu ekki endurteknar, t.d. þar sem aðstæður í heimaríki hans hafi breyst. Þótt umsækjandi um alþjóðlega vernd skuli njóta vafa upp að ákveðnu marki, verður umsækjandinn með rökstuddum hætti að leiða líkur að því að hans bíði ofsóknir í heimaríki. Frásögn umsækjanda og önnur gögn um einstaklingsbundnar aðstæður hans verða því almennt að fá stuðning í hlutlægum og áreiðanlegum upplýsingum um heimaríki umsækjanda, stjórnvöld, stjórnarfar og löggjöf þess. Þá er litið til sambærilegra upplýsinga um ástand, aðstöðu og verndarþörf þess hóps sem umsækjandi tilheyrir eða er talinn tilheyra.

Kærunefnd hefur við mat sitt á umsókn kæranda haft til hliðsjónar handbók Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna um málsmeðferð og viðmið við mat á umsókn um alþjóðlega vernd (Handbook and Guidelines on Procedures and Criteria for Determining Refugee Status, Genf 2019). Þá hefur aðferðarfræði trúverðugleikamats kærunefndar tekið mið af skýrslu Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna og Flóttamannasjóðs Evrópusambandsins um trúverðugleikamat, eftir því sem við á (Beyond Proof: Credibility Assessment in EU Asylum Systems, Brussel 2013).

Þar sem kærandi er ríkisborgari Kólumbíu telur kærunefnd, eins og aðstæðum er háttað í þessu máli, að aðeins sé þörf á að fjalla um aðstæður kæranda þar í landi, sbr. m.a. 2. mgr. A-liðar 1. gr. flóttamannasamningsins.

Krafa kæranda um alþjóðlega vernd er annars vegar byggð á því að hún tilheyri tilteknum þjóðfélagshópi vegna stjórnmálaskoðana og hins vegar vegna þess að hún eigi á hættu ofsóknir vegna stöðu sinnar sem flóttamaður frá Venesúela í Kólumbíu. Kærandi hafi yfirgefið Venesúela árið 2017 vegna þess að fjölskyldu hennar hafi borist hótanir og verið ógnað vegna tengsla við frænda hennar, […], sem sé stjórnmálamaður í Venesúela. Kærandi hafi lagt fram gögn, m.a. yfirlýsingu frá frænda hennar, dags. 4. september 2020, þar sem fram komi að kærandi hafi tekið þátt í mótmælum gegn stjórnvöldum árið 2017 í borginni […]. Kærandi hafi fengið hótanir frá ótilgreindum aðilum í gegnum síma þar sem henni hafi verið tjáð að frændfólk hennar ætti að halda sig til hlés í stjórnmálum í Venesúela. Hún hafi í kjölfarið flutt sig um set til Kólumbíu. Þá hafi hún fengið upplýsingar frá vinkonu sinni í Venesúela, sem vinni í stjórnmálum, um að fylgst væri með henni. Kærandi hafi leitað til lögreglu í Kólumbíu vegna framangreindra hótana en hún hafi ekki fengið aðstoð. Kærandi óttist vopnaða hópa í Kólumbíu og ástandið þar í landi í kjölfar mótmæla. Þá hafi kærandi greint frá erfiðum efnahagslegum aðstæðum sínum í Kólumbíu.

Að mati kærunefndar er ekki ástæða til að draga í efa að kærandi hafi tekið þátt í stjórnmálastarfi í Venesúela og mótmælum gegn venesúelskum stjórnvöldum. Kærunefnd telur hins vegar, að virtum gögnum málsins, ekkert hafa komið fram í málinu sem gefi til kynna að kærandi eigi á hættu ofsóknir í Kólumbíu vegna stjórnmálaskoðana hennar. Við mat á því hefur kærunefnd m.a. litið til þess að gögn málsins og framburður kæranda benda ekki til þess að hún hafi tekið þátt í stjórnmálastarfi í Kólumbíu eða mótmælum gegn þarlendum yfirvöldum. Þá hefur kærandi hvorki leitt að því líkur, t.d. með framlagningu gagna, að henni hafi borist hótanir frá ótilgreindum aðilum í Kólumbíu né að henni standi ekki til boða raunhæf og skilvirk vernd kólumbískra stjórnvalda.

Í viðtali hjá Útlendingastofnun greindi kærandi frá því að venesúelskir ríkisborgarar verði fyrir fordómum og mismunun í Kólumbíu. Frásögn kæranda fær vissa stoð í þeim gögnum sem kærunefnd hefur skoðað. Líkt og fram hefur komið séu yfir 1,7 milljón Venesúelabúa sem hafi flúið yfir til Kólumbíu á undanförnum misserum. Því fylgi ótti meðal margra íbúa Kólumbíu sem telji að stjórnvöld hafi ekki nægilegt fjármagn til að taka á móti Venesúelabúum og að þeir muni taka störf frá kólumbískum íbúum. Þá hafi Covid-19-heimsfaraldurinn aukið enn á spennu og erfiða stöðu venesúelskra flóttamanna í Kólumbíu. Stjórnvöld hafi hins vegar sýnt einlægan vilja til að taka vel á móti Venesúelabúum og hjálpa þeim við að aðlagast samfélaginu. Þrátt fyrir að Venesúelabúar geti upplifað fordóma og mismunun í Kólumbíu er það mat kærunefndar, með tilliti til framangreindra gagna, að það nái ekki því alvarleikastigi sem mælt er fyrir um í 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga.

Kærandi hefur ekki borið fyrir sig að hafa sætt ofsóknum eða að hún óttist ofsóknir af hálfu kólumbískra yfirvalda sem hafa eða gætu náð því alvarleikastigi sem 1. mgr. 38. gr. laga um útlendinga mælir fyrir um. Þá benda önnur gögn málsins ekki til þess að slíkar ofsóknir hafi átt sér stað eða að kærandi eigi þær á hættu. Skýrslur og önnur gögn sem kærunefnd hefur kynnt sér um aðstæður í Kólumbíu bera m.a. með sér að ítök glæpahópa séu á sumum svæðum sterk og löggæsla veik. Þó svo að gögn beri með sér að skilvirkni lögregluyfirvalda og dómstóla sé að nokkru leyti ábótavant og spilling sé í landinu, er það mat kærunefndar, að ekki verði séð að stjórnvöld geti ekki eða vilji ekki veita kæranda vernd, m.a. með því að ákæra eða refsa fyrir þær athafnir sem feli í sér ofsóknir.

Með vísan til framangreinds er það niðurstaða kærunefndar að kærandi hafi ekki með rökstuddum hætti leitt líkur að því að hún hafi ástæðuríkan ótta við ofsóknir í skilningi 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga, sbr. 1. og 4. mgr. 38. gr. laganna.

Telur kærunefnd því ljóst að kærandi uppfylli ekki skilyrði 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga fyrir viðurkenningu á stöðu sem flóttamaður hér á landi.

Ákvæði 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga

Samkvæmt 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga er útlendingur einnig flóttamaður ef, verði hann sendur aftur til heimaríkis síns, raunhæf ástæða er til að ætla að hann eigi á hættu að sæta dauðarefsingu, pyndingum eða annarri ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu eða hann verði fyrir alvarlegum skaða af völdum árása í vopnuðum átökum þar sem ekki er greint á milli hernaðarlegra og borgaralegra skotmarka. Sama gildir um ríkisfangslausan einstakling.

Við mat á því hvort aðstæður kæranda séu slíkar að þær eigi undir 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga ber að líta til 3. gr. mannréttindasáttmála Evrópu. Mannréttindadómstóll Evrópu hefur fjallað um það mat sem þarf að fara fram þegar metið er hvort kærandi sé í raunverulegri hættu á að verða fyrir meðferð sem falli undir 3. gr. mannréttindasáttmála Evrópu sem bannar pyndingar og ómannlega eða vanvirðandi meðferð eða refsingu. Hefur dómstóllinn sagt að 3. gr. sáttmálans geti átt við þegar hættan stafar frá einstaklingum eða hópi fólks sem ekki séu fulltrúar stjórnvalda. Kærandi verður þó að geta sýnt fram á að gildar ástæður séu til að ætla að um raunverulega hættu sé að ræða og að stjórnvöld í ríkinu séu ekki í stakk búin til að veita viðeigandi vernd. Ekki er nóg að aðeins sé um að ræða möguleika á illri meðferð og verður frásögn kæranda að fá stuðning í öðrum gögnum (sjá t.d. dóma Mannréttindadómstóls Evrópu í máli NA gegn Bretlandi (mál nr. 25904/07) frá 7. júlí 2008 og H.L.R. gegn Frakklandi (mál nr. 24573/94) frá 29. apríl 1997).

Kærandi vísar til þess að hún sé í hættu vegna ótryggs ástands í heimaríki. Þau gögn sem kærunefnd hefur kynnt sér benda til þess að ástandið í Kólumbíu sé víða ótryggt, sumum svæðum sé að mestu leyti stjórnað af glæpa- eða skæruliðahópum og að íbúar landsins kunni að eiga á hættu að vera beittir ofbeldi af hálfu slíkra hópa. Það er mat kærunefndar að frásögn kæranda af almennu ástandi í Kólumbíu sé í meginatriðum í samræmi við fyrirliggjandi gögn og upplýsingar um heimaríki hennar. Þau gögn og heimildir sem kærunefnd hefur yfirfarið benda til þess að töluvert hafi verið um mótmæli í heimaríki kæranda og að aðgerðir öryggissveita gagnvart mótmælendum hafi verið gagnrýndar. Hins vegar, að virtum framburði kærenda, gögnum málsins og landaupplýsingum um ástandið á því svæði sem hún hafði búsetu í Kólumbíu er það mat kærunefndar að hún eigi ekki á hættu að sæta dauðarefsingum, pyndingum eða annarri ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu eða verða fyrir alvarlegum skaða af völdum árása í vopnuðum átökum þar sem ekki sé greint á milli hernaðarlegra og borgaralegra skotmarka, verði henni gert að snúa aftur til heimaríkis.

Í ljósi þess sem að framan er rakið og þeirra gagna sem liggja fyrir um heimaríki kæranda telur kærunefndin að aðstæður hans þar séu ekki þannig að þær falli undir ákvæði 2. mgr. 37. gr. laganna. Telur kærunefndin því ljóst að kærandi uppfylli heldur ekki skilyrði 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga fyrir viðurkenningu á stöðu sem flóttamaður hér á landi.

Alþjóðleg vernd á grundvelli 40. gr. laga um útlendinga

Þar sem kærunefnd hefur komist að þeirri niðurstöðu að kærandi uppfylli ekki skilyrði 1. eða 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga á kærandi ekki rétt á alþjóðlegri vernd hér á landi, sbr. 40. gr. laga um útlendinga.

Dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða samkvæmt 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga

Samkvæmt 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga er heimilt að veita útlendingi sem staddur er hér á landi dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða, þrátt fyrir að skilyrði 37. gr. séu ekki uppfyllt, ef útlendingur getur sýnt fram á ríka þörf fyrir vernd, t.d. af heilbrigðisástæðum eða vegna erfiðra félagslegra aðstæðna viðkomandi eða erfiðra almennra aðstæðna í heimaríki eða í landi sem honum yrði vísað til. Kærunefnd telur, með vísan til orðalags ákvæðisins um „ríka þörf fyrir vernd“ auk lögskýringargagna sem fylgdu greininni, að dvalarleyfi á grundvelli 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga verði ekki veitt nema aðstæður, bæði almennar og sérstakar m.t.t. heilsufars og félagslegra þátta, auk atvika sem þar er vísað til, nái ákveðnu alvarleikastigi þegar málið er virt í heild.

Kærandi hefur greint frá erfiðum aðstæðum í heimaríki hennar vegna starfsemi glæpahópa, mótmæla í landinu og að yfirvöld geti ekki veitt henni fullnægjandi vernd. Kærandi verði fyrir fordómum í Kólumbíu sem venesúelskur ríkisborgari auk þess sem hún sé í hættu vegna tengsla sinna og stjórnmálaþátttöku fjölskyldumeðlima sinna í Venesúela. Kærandi telji ljóst að hún geti ekki lifað öruggu og eðlilegu lífi fjarri ofbeldi og hefndaraðgerðum í heimaríki sínu og að ástand mannréttindamála þar í landi sé slæmt og félagslegar aðstæður bágbornar. Í athugasemdum við frumvarp til laga um útlendinga kemur fram að ákvæði 1. mgr. 74. gr. vísi einnig til alvarlegra aðstæðna í heimaríki og væri þar oft um að ræða viðvarandi mannréttindabrot í ríkinu eða þá aðstöðu að yfirvöld veiti ekki þegnum sínum vernd gegn ofbeldisbrotum eða glæpum. Í athugasemdunum kemur jafnframt fram að erfiðar almennar aðstæður geta tekið til óvenjulegra aðstæðna á borð við náttúruhamfarir eða langvarandi stríðsástand í heimaríki. Með vísan til framangreindrar umfjöllunar um aðstæður í heimaríki kæranda telur kærunefnd að almennar aðstæður hennar séu ekki slíkar að grundvöllur sé til veitingar dvalarleyfis á grundvelli erfiðra almennra ástæðna.

Kærandi byggir á því að félagslegar aðstæður hennar í heimaríki verði bágbornar. Í athugasemdum með frumvarpi til laga um útlendinga er fjallað um erfiðar félagslegar aðstæður. Þar kemur fram að átt sé við að útlendingur hafi þörf á vernd vegna félagslegra aðstæðna í heimalandi og eru þar nefnd sem dæmi aðstæður kvenna sem hafa sætt kynferðislegu ofbeldi, sem leitt getur til erfiðrar stöðu þeirra í heimalandi, eða aðstæður kvenna sem ekki fella sig við kynhlutverk sem er hefðbundið í heimaríki þeirra og eiga á hættu útskúfun eða ofbeldi við endurkomu. Verndarþörf þjóðfélagshópa að öðru leyti myndi fara eftir aðstæðum í hverju máli. Með vísan til fyrri umfjöllunar er það mat kærunefndar að kærandi hafi ekki sýnt fram á ríka þörf á vernd á grundvelli félagslegra aðstæðna.

Þá hefur kærandi greint frá erfiðum efnahagslegum aðstæðum sínum og að hún geti ekki framfleytt sér í heimaríki. Í athugasemdum með frumvarpi til laga um útlendinga kemur fram að ákvæðið um dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða yrði að jafnaði ekki talið ná til neyðar af efnahagslegum rótum, svo sem fátæktar, hungursneyðar eða húsnæðisskorts. Við meðferð málsins hafa ekki komið fram gögn sem kalla á að vikið sé frá þeim meginsjónarmiðum sem fram koma í þeim athugasemdum.

Kærunefnd hefur jafnframt litið til þeirra tímabundnu erfiðleika sem heimaríki kæranda kann að þurfa að glíma við vegna Covid-19 faraldursins. Kærunefnd telur þá erfiðleika ekki vera þess eðlis að þeir leiði til þess, einir og sér eða í samhengi við önnur gögn málsins, að heimilt sé að veita kæranda dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða.

Þegar upplýsingar um heimaríki kæranda og gögn málsins eru virt í heild, með hliðsjón af aðstæðum hennar í heimaríki, er það niðurstaða kærunefndar að kærandi hafi ekki sýnt fram á aðstæður sem ná því alvarleikastigi að hún hafi ríka þörf á vernd líkt og kveðið er á um í 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga. Því er fallist á það með Útlendingastofnun að aðstæður kæranda í heimaríki séu ekki með þeim hætti að veita beri henni dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða, sbr. 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga.

Bann við endursendingu samkvæmt 42. gr. laga um útlendinga

Samkvæmt 1. mgr. 42. gr. laga um útlendinga er ekki heimilt að senda útlending eða ríkisfangslausan einstakling til svæðis þar sem hann hefur ástæðu til að óttast ofsóknir, sbr. 37. og 38. gr., eða vegna svipaðra aðstæðna og greinir í flóttamannahugtakinu er í yfirvofandi hættu á að láta lífið eða verða fyrir ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð. Samkvæmt 2. mgr. sömu greinar er einnig óheimilt að senda útlending til svæðis þar sem ekki er tryggt að hann verði ekki sendur áfram til slíks svæðis sem greinir í 1. mgr.

Með vísan til umfjöllunar að framan um heimaríki kæranda telur kærunefnd að þær aðstæður sem ákvæðið tekur til ekki eiga við í máli kæranda. Kærunefnd telur því að ákvæði 42. gr. laga um útlendinga standi ekki í vegi fyrir endursendingu kæranda þangað.

Athugasemdir kæranda við ákvörðun Útlendingastofnunar

Kærandi gerir í greinargerð sinni ýmsar athugasemdir við ákvörðun Útlendingastofnunar, m.a. að í ákvörðuninni hafi verið vísað til eldri heimilda um aðstæður í heimaríki. Taka má undir það með kærendum að rannsókn Útlendingastofnunar hafi ekki verið lýtalaus, m.a. m.t.t. þeirra heimilda um stöðu heimaríkis sem útlistaðar eru í hinni kærðu ákvörðun. Við meðferð málsins á æðra stjórnsýslustigi hefur kærunefnd bætt úr þeim annmörkum, skoðað alla þætti málsins og komist að sömu niðurstöðu og Útlendingastofnun, svo sem að framan greinir. Af þeim sökum er aðalkröfu kæranda hafnað.

Frávísun og frestur til að yfirgefa landið

Kærandi kom hingað til lands 23. júlí 2021 og sótti um alþjóðlega vernd sama dag. Eins og að framan greinir hefur umsókn hennar um vernd og dvalarleyfi hér á landi verið synjað og hefur hún því ekki tilskilin leyfi til dvalar enda verður að líta á umsókn hennar um alþjóðlega vernd sem áform um að dveljast í landinu meira en 90 daga, sbr. til hliðsjónar 3. mgr. 43. gr. reglugerðar um útlendinga nr. 540/2017. Verður kæranda því vísað frá landinu á grundvelli c-liðar 1. mgr. 106. gr. laga um útlendinga, sbr. 2. og 5. mgr. 106. laganna, enda hafði hún verið hér á landi í innan við níu mánuði þegar málsmeðferð umsóknar hennar hófst hjá Útlendingastofnun.

Kærandi er við ágæta heilsu. Að mati kærunefndar og með vísan til 2. mgr. 104. gr. laga um útlendinga og þegar litið er til ferðatakmarkana vegna Covid-19 faraldursins teljast 15 dagar hæfilegur frestur til að yfirgefa landið.

Í ljósi Covid-19 faraldursins er athygli kæranda einnig vakin á því að Útlendingastofnun getur frestað framkvæmd ákvörðunar með vísan til 2. mgr. 103. gr. laga um útlendinga vegna sérstakra aðstæðna útlendings eða vegna þess að ómögulegt sé að framkvæma ákvörðun að svo stöddu.

Samantekt

Með vísan til alls þess sem að framan er rakið og forsendna hinnar kærðu ákvörðunar þykir rétt að staðfesta ákvörðun Útlendingastofnunar.

Athygli kæranda er vakin á því að samkvæmt 6. mgr. 104. gr. laga um útlendinga frestar málshöfðun fyrir dómstólum til ógildingar á endanlegri ákvörðun um að útlendingur skuli yfirgefa landið ekki framkvæmd hennar. Að kröfu útlendings getur kærunefnd útlendingamála þó ákveðið að fresta réttaráhrifum endanlegrar ákvörðunar sé talin ástæða til þess. Krafa þess efnis skal gerð ekki síðar en sjö dögum eftir birtingu endanlegrar ákvörðunar. Skal frestun bundin því skilyrði að útlendingur beri málið undir dómstóla innan fimm daga frá birtingu ákvörðunar um frestun réttaráhrifa úrskurðar og óski eftir að það hljóti flýtimeðferð. Nú er beiðni um flýtimeðferð synjað og skal þá mál höfðað innan sjö daga frá þeirri synjun. Þó getur kærunefnd útlendingamála tekið ákvörðun um að fresta framkvæmd ákvörðunarinnar ef sýnt er fram á að verulega breyttar aðstæður hafi skapast frá því að endanleg ákvörðun var tekin.

 

 

Úrskurðarorð:

Ákvörðun Útlendingastofnunar er staðfest. Lagt er fyrir kæranda að hverfa af landi brott. Kæranda er veittur 15 daga frestur til að yfirgefa landið sjálfviljug.

The decision of the Directorate of Immigration is affirmed. The appellant is requested to leave the country. The appellant has 15 days to leave the country voluntarily.

 

Tómas Hrafn Sveinsson

 

Sindri M. Stephensen                                                                  Þorbjörg I. Jónsdóttir

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta