Hoppa yfir valmynd

Nr. 300/2020 Úrskurður

KÆRUNEFND ÚTLENDINGAMÁLA

 

Þann 22. október 2020 er kveðinn upp svohljóðandi

úrskurður nr. 300/2020

í stjórnsýslumáli nr. KNU20030045

 

Kæra […]

á ákvörðun

Útlendingastofnunar

 

I.          Kröfur, kærufrestir og kæruheimild

Þann 30. mars 2020 kærði einstaklingur er kveðst heita […], vera fæddur […] og vera ríkisborgari Búrkína Fasó (hér eftir nefndur kærandi) ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 10. mars 2020, um að synja honum um alþjóðlega vernd á Íslandi ásamt því að synja honum um dvalarleyfi á grundvelli 74. gr. laga nr. 80/2016 um útlendinga.

Kærandi krefst þess aðallega að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi og breytt á þann hátt að kæranda verði veitt réttarstaða flóttamanns, sbr. 1. og 5. mgr. 37. gr. laga um útlendinga. Til vara er þess krafist að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi og breytt á þann hátt að kæranda verði veitt viðbótarvernd hér á landi með vísan til 2. og 5. mgr. 37. gr. laga um útlendinga. Til þrautavara er þess krafist að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi og breytt á þann hátt að kæranda verði veitt dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða, sbr. 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga eða vegna sérstakra tengsla við landið.

Fyrrgreind ákvörðun er kærð á grundvelli 7. gr. laga um útlendinga og barst kæran fyrir lok kærufrests.

II.            Málsatvik og málsmeðferð

Kærandi sótti um alþjóðlega vernd hér á landi þann 29. apríl 2019. Kærandi kom í viðtal hjá Útlendingastofnun m.a. þann 23. janúar 2020 ásamt talsmanni sínum. Með ákvörðun, dags. 10. mars 2020, synjaði Útlendingastofnun kæranda um alþjóðlega vernd ásamt því að synja honum um dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða. Var sú ákvörðun kærð til kærunefndar útlendingamála þann 30. mars 2020. Kærunefnd barst greinargerð kæranda þann 16. apríl 2020 ásamt fylgigögnum. Kærunefnd bárust viðbótargögn daganna 25. maí, 3. júní og 28. júlí 2020 og þá barst kærunefnd skýrsla vegna sálfræðimats á kæranda þann 8. september 2020. Frekari gögn bárust kærunefnd þann 17. september 2020 og þá kom kærandi til viðtals hjá kærunefnd þann 24. september 2020.

III.        Ákvörðun Útlendingastofnunar

Í ákvörðun Útlendingastofnunar kemur fram að kærandi byggi umsókn sína um alþjóðlega vernd á því að hann óttist að verða látinn sinna herskyldu í heimaríki gegn vilja sínum auk þess sem hann verði fyrir ofsóknum vegna aðildar að tilteknum þjóðfélagshópi. Þá sé kærandi í hættu í heimaríki vegna almennra aðstæðna þar í landi.

Niðurstaða ákvörðunar Útlendingastofnunar í máli kæranda var sú að kærandi sé ekki flóttamaður og honum skuli synjað um alþjóðlega vernd á Íslandi skv. ákvæðum 37. og 40. gr. laga um útlendinga. Kæranda var jafnframt synjað um dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða skv. 74. gr. laga um útlendinga. Þá taldi stofnunin að ákvæði 42. gr. laga um útlendinga stæði endursendingu til heimaríkis ekki í vegi.

Kæranda var vísað frá landinu á grundvelli c-liðar 1. mgr. 106. gr. laga um útlendinga. Útlendingastofnun tilkynnti kæranda jafnframt að kæra frestaði réttaráhrifum ákvörðunarinnar, sbr. 1. mgr. 35. gr. laga um útlendinga.

IV.        Málsástæður og rök kæranda

Í greinargerð kæranda kemur fram að faðir hans hafi látist þegar hann hafi verið þriggja ára og þá hafi móðir hans látist degi eftir að hafa fætt yngri bróður kæranda. Kærandi hafi aldrei kynnst bróður sínum þar sem frændi þeirra hafi sent bróður kæranda á heimili fyrir munaðarlausa. Þá hafi systir kæranda látist sem og æskuvinur föður kæranda sem hafi tekið kæranda í fóstur allt til þrettán ára aldurs. Kærandi sé ekki í sambandi við aðra fjölskyldumeðlimi í heimaríki og hafi því ekki tengslanet þar í landi. Fram kemur í greinargerð að kærandi hafi lagt fram umsókn um alþjóðlega vernd hér á landi vegna þeirrar ómannúðlegu meðferðar og ofsókna sem hann hafi orðið fyrir í heimaríki og rekja megi til þátttöku föður hans og afa hjá yfirvöldum þar í landi. Faðir kæranda hafi starfað sem tollvörður í heimaríki og þegar hann hafi látist hafi ríkið hirt af kæranda arfinn. Þá vísar kærandi í greinargerð sinni til handskrifaðs bréfs um ástæður flótta hans auk fjölda stuðningsbréfa frá einstaklingum sem þekki til kæranda hér á landi.

Í greinargerð óskar kærandi eftir leiðréttingu á aldri þannig að hann verði skilgreindur sem fylgdarlaust barn, sbr. 11. tölul. 3. gr. laga um útlendinga, enda sé hann aðeins […] ára. Byggir kærandi á því að í gögnum málsins sé að finna misræmi á fæðingardegi kæranda sem og ranga greiningu á aldri hans í kjölfar tanngreiningar. Kærandi telji að Útlendingastofnun hafi tilgreint rangan fæðingardag í ákvörðun sinni. Ítölsk yfirvöld hafi tjáð íslenskum stjórnvöldum að réttur fæðingardagur sé í raun […] og því sé kærandi barn að aldri.

Í greinargerð kæranda koma fram ýmsar athugasemdir við ákvörðun Útlendingastofnunar í máli hans. Kærandi geri í fyrsta lagi athugasemd við mat stofnunarinnar á auðkenni. Kærandi kveður að stofnunin hafi ekki tekið öll gögn hans inn í mat á auðkenni heldur aðeins afrit ítalsks flóttamannavegabréfs og afrit dvalarleyfiskorts frá Ítalíu. Kærandi hafi lagt fram frekari gögn sem styðji við frásögn hans um aldur og kveði að Útlendingastofnun hafi ekki tekið tillit til þeirra. Um sé að ræða þjóðernisvottorð, staðfest endurrit af þjóðernisvottorði, fæðingarvottorðsútdrátt og sakavottorð. Telji kærandi að um fullnægjandi upplýsingar um aldur hans og auðkenni sé að ræða.

Í öðru lagi gerir kærandi athugasemd við mat Útlendingastofnunar á trúverðugleika hans. Kærandi telji að staðhæfing stofnunarinnar um að kærandi hafi, gegn betri vitund, reynt að villa á sér heimildir fyrir íslenskum stjórnvöldum með því að leggja fram grunnfalsað vegabréf, dvalarleyfiskort, þjóðernisvottorð, staðfest endurrit þjóðernisvottorðs, fæðingarvottorðsútdrætti og sakavottorð sé ekki í samræmi við niðurstöðu rannsóknar flugstöðvardeildar lögreglunnar á Suðurnesjum. Kærandi telji að staðhæfing stofnunarinnar um fjögur síðastgreindu vottorðin sé röng enda komi fram í skýrslu lögreglunnar að þau séu trúverðug en byggi á upplýsingum sem fram komi í fæðingarvottorðsútdráttunum tveimur sem séu löglega gefin út. Þannig komi ekkert fram um að þessi tilteknu gögn séu grunnfölsuð heldur þvert á móti tekið fram að þau séu trúverðug. Þá vísi kærandi til úrskurða kærunefndar nr. 78/2019 og 130/2020 máli sínu til stuðnings en í þeim hafi skjöl frá erlendum stjórnvöldum verið veitt vægi við mat á trúverðugleika málsaðilanna þrátt fyrir að þau hafi verið þeim í óhag. Hafi kærandi réttmætar væntingar til þess að mál hans fái sambærilega meðferð auk þess sem fara skuli með mál hans í samræmi við önnur mál, sbr. jafnræðisreglu 11. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

Þá kveður kærandi að mat Útlendingastofnunar á aldri hans sé byggt á ófullnægjandi upplýsingum. Telji kærandi að verulegir annmarkar hafi verið á mati stofnunarinnar og að stofnunin hafi ekki tekið tillit til annarra gagna við matið, sbr. 2. málsl. 1. mgr. 113. gr. laga um útlendinga. Vísar kærandi til þess að hann hafi ítrekað haldið því fram í viðtölum við Útlendingastofnun að hann sé fæddur árið […] auk þess sem hann hafi skýrt frá því að ástæða þess að hann hafi skráð fæðingarár sitt sem […] hjá yfirvöldum á Ítalíu hafi verið til þess að flýta fyrir málsmeðferðinni þar í landi auk þess að fá hærra fjárframlag frá ítölskum stjórnvöldum. Þá kveður kærandi að Útlendingastofnun hafi verið óheimilt að byggja mat á aldri kæranda á niðurstöðu líkamsrannsóknar sem sé bæði umdeild og óáreiðanleg og vísar kærandi til skýrslna máli sínu til stuðnings. Kærandi kveður að hann hafi ekki fengið tækifæri til þess að andmæla þeirri ákvörðun Útlendingastofnunar að líta á hann sem fullorðinn og vísar til úrskurðar kærunefndar nr. 548/2018 þar sem nefndin hafi komist að þeirri niðurstöðu, með vísan til gagna frá sænskum stjórnvöldum sem væru í samræmi við stöðugan framburð málsaðila, að uppi væri slíkur vafi á aldri málsaðila að fara skyldi með málið eins og hann væri barn að aldri.

Þá gerir kærandi athugasemd við mat stofnunarinnar á aðstæðum í heimaríki og trúverðugleika kæranda einkum hvað frásögn hans varði um skylduna til að ganga í herskóla gegn vilja hans þar í landi. Kærandi hafi haldið því fram að skrá hafi átt hann í herskóla og að honum hafi verið haldið föngnum hjá starfsmanni skólans. Honum hafi tekist að flýja og komast til Líbýu þaðan sem hann hafi farið til Ítalíu. Kærandi hafi verið á flótta síðan hann var barn að aldri og því eðlilegt að hann hafi ekki gögn meðferðis til stuðnings frásögn sinni og vísar í því sambandi til 196. og 197. mgr. handbókar Sameinuðu þjóðanna um réttarstöðu flóttamanna. Kærandi telji að þrátt fyrir að einstaklingar í heimaríki séu ekki kvaddir í herinn fyrr en við 18 ára aldur séu ýmsar skýrslur sem sýni fram á að börn undir þeim aldri séu neydd í herinn. Aðstæður í heimaríki kæranda hafi verið slæmar undanfarin ár og fjöldi fólks hafi látist í árásum hryðjuverkahópa og hópa sem berjist gegn þeim. Þá hafi skólum verið lokað, margir þurft að flýja heimili sín og af þeim sökum hafi kærandi réttmætan ótta um líf sitt. Þá séu allir sem kærandi hafi þekkt í heimaríki látnir og myndi endursending hans til heimaríkis fela í sér brot gegn grundvallarmannréttindum, einkum réttinn til lífs og banni við pyndingum eða ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu, sbr. 1. mgr. 38. gr. laga um útlendinga. Kærandi áréttar aðalkröfu sína um alþjóðlega vernd af þeim sökum á grundvelli 1. mgr. 37. gr. laganna.

Kærandi gerir í þriðja lagi athugasemd við mat Útlendingastofnunar á sérstaklega viðkvæmri stöðu hans. Kærandi telji ljóst að stofnunin hafi ekki tekið tillit til þess að hann sé fylgdarlaust barn og glími við andlega vanheilsu. Kærandi kveði að með vísan til slæmrar andlegrar heilsu sinnar og þess að hann hafi verið þolandi pyndinga og andlegs og líkamlegs ofbeldis þá sé kærandi einstaklingur í sérstaklega viðkvæmri stöðu í skilningi 6. tölul. 3. gr. laga um útlendinga.

Til vara gerir kærandi þá kröfu að honum verði veitt viðbótarvernd, sbr. 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga. Kærandi telur, með vísan til heildarmats á almennum og einstaklingsbundnum aðstæðum hans í heimaríki, að alvarleikastigi 3. gr. mannréttindasáttmála Evrópu muni vera náð, verði hann endursendur til heimaríkis. Beri að taka tillit til grafalvarlegrar andlegrar heilsu kæranda og þess að líkur standi til að hann muni vera heimilislaus við endursendingu en slíkt muni ganga gegn meginreglunni um non-refoulement, sbr. 1. mgr. 42. gr. laga um útlendinga. Kærandi vísar til þess að ótti hans við endursendingu til heimaríkis stafi ekki aðeins af ótta hans við fósturforeldra hans heldur sérstaklega vegna ótta hans við yfirvöld og vopnaða hópa þar í landi.

Til þrautavara gerir kærandi þá kröfu að honum verði veitt dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða, sbr. 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga. Vísar kærandi til heilsufarsgagna sem gefi til kynna að hann glími við þunglyndi, svefnvandamál og kvíða. Kveður kærandi að Útlendingastofnun hafi ekki rannsakað nægjanlega líðan hans og vísar í því sambandi til 10. gr. stjórnsýslulaga. Þá vísar kærandi til þess að aðstæður í heimaríki í kjölfar Covid-19 faraldursins séu slæmar og telur að faraldurinn hafi haft neikvæð áhrif á veikt heilbrigðiskerfi landsins. Kærandi telur að mat Útlendingastofnunar á aðstæðum í heimaríki hans sé rangt og telji að ekki sé byggt á því sem raunverulega eigi sér stað þar í landi.

V.         Niðurstaða kærunefndar útlendingamála

Lagagrundvöllur

Í máli þessu gilda einkum ákvæði laga um útlendinga nr. 80/2016, reglugerð nr. 540/2017 um útlendinga, ákvæði stjórnsýslulaga nr. 37/1993, stjórnarskrá lýðveldisins Íslands nr. 33/1944 og mannréttindasáttmáli Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994. Jafnframt ber að líta til ákvæða alþjóðasamnings um stöðu flóttamanna frá 1951, ásamt viðauka við samninginn frá 1967, og annarra alþjóðlegra skuldbindinga Íslands á sviði mannréttinda eftir því sem tilefni er til.

Auðkenni

Í ákvörðun Útlendingastofnunar kemur fram að til að sanna á sér deili hafi kærandi framvísað afriti dvalarleyfisskírteinis útgefnu af ítölskum yfirvöldum auk afriti ítalsks flóttamannavegabréfs. Umrædd gögn voru send til rannsóknar hjá lögreglunni á Suðurnesjum og var niðurstaða rannsóknarinnar sú að þau væru fölsuð að öllu leyti. Var það mat Útlendingastofnunar að ekki hefði verið unnt að leggja framlögð gögn til grundvallar enda væru þau ekki til þess fallin að sanna á honum deili. Því hefði kærandi ekki sannað með fullnægjandi hætti hver hann væri. Leysti stofnunin því úr auðkenni kæranda á grundvelli trúverðugleikamats og var það mat Útlendingastofnunar að kærandi væri ríkisborgari Búrkína Fasó. Kærunefnd hefur ekki forsendur til að draga í efa það mat Útlendingastofnunar og er því lagt til grundvallar að kærandi sé ríkisborgari Búrkína Fasó.

Landaupplýsingar

Kærunefnd útlendingamála hefur lagt mat á aðstæður í Búrkína Fasó m.a. með hliðsjón af eftirfarandi skýrslum:

  • 2018 Civil Society Organization Sustainability Index (United States Agency for International Development, nóvember 2019);
  • Amnesty International: Burkina Faso Report 2018/19 – The State of the World‘s Human Rights (Amnesty International, 2019);
  • An exploratory study assessing psychological distress of indigents in Burkina Faso: a step forward in understanding mental health needs in West Africa (International Journal of Equity in Health, 14. ágúst 2017);
  • A survey of the mental healthcare systems in five Francophone countries in West Africa: Benin, Burkina Faso, Cote d’Ivoire, Niger and Togo (International Psychiatry, 1. ágúst 2014);
  • Burkina Faso 2019 Human Rights Report (U.S. Department of State, 11. mars 2020);
  • Burkina Faso 2020 Crime & Safety Report (U.S. Department of State Overseas Security Advisory Council, 12. maí 2020);
  • Burkina Faso Country Background Note (Geneva Centre for Security Sector Governance, 4. febrúar 2020);
  • Burkina Faso – Current Critical Security Issues (Geneva Centre for Security Sector Governance, 4. mars 2020);
  • Burkina Faso - Mänskliga rättigheter, demokrati och rättstatens principer per den 30 juni 2018 (Utrikesdepartimentet, 30. júní 2019);
  • Burkina Faso – Overview (The World Bank, 4. maí 2020);
  • Burkina Faso: Safeguarding Elections amid Crisis (International Crisis Group, 28. janúar 2020);
  • Burkina Faso Travel Advisory (U.S. Department of State, 5. júní 2020);
  • Country Partnership Framework for Burkina Faso (The World Bank Group, 5. júní 2018);
  • Freedom in the World 2020 – Burkina Faso (Freedom House, 4. mars 2020);
  • The Mental Health Atlas, Member State Profile – Burkina Faso (The World Health Organization, 2017);
  • Social Security Programs Throughout the World: Africa, 2019, Burkina Faso (US Social Security Administration, 2019);
  • The health care burden in rural Burkina Faso Consequences and implications for insurance design (SSM Population Health, 6. desember 2018);
  • Stjórnarskrá Búrkína Fasó (www.constitutionnet.org/vl/item/constitution-burkina-faso);
  • Trafficking in Persons Report (U.S. Department of State, júní 2019);
  • Upplýsingar af vefsvæði alþjóðaheilbrigðisstofnunarinnar (www.who.int/countries/bfa/en);
  • Upplýsingar af vefsvæði Associated Press (www.apnews.com);
  • Upplýsingar af vefsvæði lögreglunnar í Búrkína Fasó (www.police.gov.bf);
  • Upplýsingar af vefsvæði Minority Rights Group (www.minorityrights.org/country/burkina-faso);
  • Upplýsingar af vefsvæði samhæfingarskrifstofu aðgerða Sameinuðu þjóðanna í mannúðarmálum (OCHA)(www.reports.unocha.org/en/country/burkina-faso);
  • Visa Reciprocity and Civil Documents by Country – Burkina Faso (U.S. Department of State) og
  • The World Factbook – Burkina Faso (Central Intelligence Agency, síðast uppfært 17. ágúst 2020).

Búrkína Fasó er stjórnarskrárbundið lýðveldisríki í Vestur-Afríku með tæplega 21 milljón íbúa. Ríkið fékk sjálfstæði frá Frakklandi þann 5. ágúst 1960 og hefur stjórnarfar þar verið stopult en nokkuð hefur verið um valdarán allt frá sjálfstæði til ársins 2015. Samkvæmt upplýsingum á heimasíðu bandarísku leyniþjónustunnar aðhyllast rúm 60% íbúa landsins íslam og tæp 25% kristna trú. Þá kemur fram að ýmis þjóðarbrot séu í Búrkína Fasó og tilheyri rúm 50% Mossí þjóðarbrotinu en öðrum þjóðarbrotum Búrkína Fasó tilheyri færri en 10%. Árið 1999 gerðist Búrkína Fasó aðili að samningi Sameinuðu þjóðanna gegn pyndingum og annarri grimmilegri, ómannlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu, alþjóðasamningi um efnahagsleg, félagsleg og menningarleg réttindi og alþjóðasamningi um borgaraleg og stjórnmálaleg réttindi. Þá gerðist ríkið aðili að samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins árið 1990.

Í framangreindri skýrslu bandaríska utanríkisráðuneytisins, um ástand mannréttindamála í Búrkína Fasó, kemur m.a. fram að meðal helstu mannréttindabrota þar í landi séu aftökur og pyndingar af hálfu öryggissveita án dóms og laga, slæmar fangelsisaðstæður, spilling opinberra aðila, geðþóttahandtökur og -varðhald og ofbeldi og hótanir í garð minnihlutahópa. Þá séu starfandi vopnasveitir í Búrkína Fasó með tengsl við erlend og innlend vígasamtök og kemur fram að þær hafi framið á fjórða hundrað hryðjuverkaárása innan ríkisins á undanförnum árum sem fellt hafi hundruð óbreytta borgara og hermenn á vegum stjórnvalda þar í landi, einkum í norður- og austurhluta landsins. Bendi gögnin til þess að ríkisborgarar Búrkína Fasó verði á milli í átökum vopnasveita vígasamtaka og öryggissveita yfirvalda þar í landi. Þrátt fyrir að yfirvöld í Búrkína Fasó rannsaki framangreind mannréttindabrot séu dæmi um refsileysi vegna þeirra. Ráðuneyti um innra öryggi ríkisins og varnarmálaráðuneyti Búrkína Fasó fari saman með öryggismál í ríkinu. Undir fyrrnefnda ráðuneytið tilheyri lögregla landsins og lið herþjálfaðra lögreglumanna og beri það ábyrgð á rannsókn glæpa og tryggi almennt öryggi borgaranna. Undir síðarnefnda ráðuneytið tilheyri herinn og flugherinn og fari það með ytri öryggismál en aðstoði einnig lögreglu vegna átaka í ríkinu. Stjórnvöld hafi almennt haft stjórn á lögreglu og öryggissveitum og þá hafi stjórnarskrárvarin réttindi sakborninga að mestu leyti verið tryggð en vitað sé til þess að lögreglan hafi þegið mútur, handtekið einstaklinga af handahófi og haldið fólki í varðhaldi án þess að upplýsa það fyrir hvaða sakir. Þá kemur fram á vefsvæði leyniþjónustustofnunar Bandaríkjanna að lágmarksaldur til að gegna herþjónustu í Búrkína Fasó sé 18 ár. Þá girði lög landsins almennt fyrir herkvaðningu en stjórnvöld hafi þó heimild til þess að kveða borgara til herþjónustu sé öryggi ríkisins ógnað. Dæmi séu um að óbreyttir borgarar hafi verið hvattir til þess að ganga í herinn á undanförnum árum af stjórnvöldum þar í landi.

Þá kemur fram í skýrslu bandaríska utanríkisráðuneytisins um öryggismál í Búrkína Fasó að almennt öryggisástand ríkisins hafi farið versnandi á síðastliðnum árum vegna aukinna umsvifa framangreindra vígasamtaka í ríkinu og vaxandi spennu þar í landi. Ástandið sé einna verst í norður- og austurhluta landsins en vígasamtök hafi þó stækkað yfirráðasvæði sín til suðurs og vesturs á undanförnum árum. Í nýjustu ársskýrslu mannréttindasamtakanna Amnesty International og skýrslu OCHA kemur fram að rúmlega hálf milljón manna í Búrkína Fasó séu vegalaus innanlands og um ein milljón manna hafi lagt á flótta. Hafi þessi fjöldi aukist mikið á undanförnum árum.

Í mansalsskýrslu bandaríska utanríkisráðuneytisins kemur fram að stjórnvöld í Búrkína Fasó hafi sýnt fram á vilja til úrbóta hvað varði útrýmingu á mansali og vinnuþrælkun þar í landi. Úrræði stjórnvalda hafi einkum beinst að því að uppræta mansal og vinnuþrælkun barna, m.a. við námuvinnu og þvinguðu betli. Stjórnvöldum í Búrkína Fasó hafi tekist að ráða margvíslega bót á vandanum en skort hafi á eftirfylgni og útgáfu ákæra á hendur þeim sem standi að baki vinnuþrælkun barna í ríkinu. Þá kemur jafnframt fram að þolendur mansals séu fluttir í gegnum Búrkína Fasó frá nágrannaríkjum og að almennt refsileysi og skortur á samræmingu aðgerða hjá yfirvöldum auðveldi gerendum flutninginn. Börn séu viðkvæmasti hópurinn þegar komi að mansali í Búrkína Fasó, einkum stúlkur, munaðarlaus börn og börn frá fjölskyldum af litlum efnum.

Af skýrslu Freedom House má ráða að spilling innan stjórnkerfis Búrkína Fasó sé viðvarandi vandamál, einkum í toll-, löggæslu- og réttarkerfinu. Í skýrslunni eru tilgreind dæmi um að einstaklingar af þjóðarbrotinu Fulani hafi verið teknir af lífi og pyndaðir án dóms og laga í Búrkína Fasó, einkum af hendi öryggissveita og þeirra sem berjist gegn hryðjuverkasamtökum í ríkinu. Þá verði ekki séð að aðrir minnihlutahópar þjóðarbrota í Búrkína Fasó sæti ofsóknum í ríkinu. Trúfrelsi sé almennt virt í ríkinu en dæmi séu um aukna spennu á milli múslima og kristinna vegna árása íslamskra vígahópa á kirkjur og kristna þar í landi. Þá hafi múslimar einnig orðið fyrir árásum öfgahópa í ríkinu.

Samkvæmt upplýsingum frá samhæfingarskrifstofu aðgerða Sameinuðu þjóðanna í mannúðarmálum séu um þrjár milljónir manna í Búrkína Fasó í brýnni þörf fyrir aðstoð, m.a. vegna vaxandi ólgu í ríkinu og skorts á heilbrigðisþjónustu og menntun. Um fjórðungur heilbrigðisstofnana í landinu veiti enga eða lágmarksþjónustu þannig að um ein og hálf milljón íbúa landsins hafi takmarkaðan aðgang að heilbrigðisþjónustu. Þá hafi tæp hálf milljón barna ekki aðgang að menntun og fram kemur í fyrrgreindri skýrslu Amnesty International að ástæðan sé m.a. ótryggt öryggisástand vegna árása hersveita á skóla í ríkinu. Þá komi fram í úttekt alþjóðaheilbrigðisstofnunarinnar frá árinu 2017 að í Búrkína Fasó sé hvorki til staðar heildstætt geðheilbrigðiskerfi fyrir börn og ungmenni né viðeigandi stofnanir fyrir þau. Þá þurfi einstaklingar sem glími við andleg veikindi að bera kostnað vegna geðheilbrigðisþjónustu enda tilheyri hún ekki almenna heilbrigðistryggingarkerfi landsins. Í könnun frá árinu 2014 og rannsókn frá árinu 2017 kemur fram að það séu engar sérstakar áætlanir í gildi í Búrkína Fasó hvað varðar geðheilbrigðisþjónustu og opinber fjárframlög til slíkrar þjónustu séu afar lág. Geðheilbrigðisþjónusta sé í boði á stærri spítölum landsins og sé aðgengileg í stærri borgum og þéttbýli. Afar fáir sérfræðingar séu starfandi í landinu og lyf séu bæði óaðgengileg og af litlum gæðum. Mikil fátækt í ríkinu og aukin átök hafi áhrif á versnandi geðheilsu og skert aðgengi að þjónustu leiði til þess að andlega veikir einstaklingar þurfi á auknum stuðningi að halda af hálfu fjölskyldu og annarra aðstandenda við að leita eftir og greiða fyrir nauðsynlega þjónustu.

Ákvæði 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga

Í 1. mgr. 37. gr. laga nr. 80/2016 um útlendinga, sem byggir á A-lið 1. gr. flóttamannasamningsins, segir:

Flóttamaður samkvæmt lögum þessum telst vera útlendingur sem er utan heimalands síns af ástæðuríkum ótta við að vera ofsóttur vegna kynþáttar, trúarbragða, þjóðernis, aðildar að tilteknum þjóðfélagshópi eða vegna stjórnmálaskoðana og getur ekki eða vill ekki vegna slíks ótta færa sér í nyt vernd þess lands; eða sá sem er ríkisfangslaus og er utan þess lands þar sem hann áður hafði reglulegt aðsetur vegna slíkra atburða og getur ekki eða vill ekki vegna slíks ótta hverfa aftur þangað, sbr. A-lið 1. gr. alþjóðasamnings um réttarstöðu flóttamanna frá 28. júlí 1951 og bókun við samninginn frá 31. janúar 1967, sbr. einnig 38. gr. laga þessara.

Í 38. gr. útlendingalaga eru sett fram viðmið um það hvað felist í hugtakinu ofsóknir skv. 1. mgr. 37. gr., á hvaða grundvelli ofsóknir geta byggst og hvaða aðilar geta verið valdir að þeim. Í 1. mgr. ákvæðisins segir:

Ofsóknir skv. 1. mgr. 37. gr. eru þær athafnir sem í eðli sínu eða vegna þess að þær eru endurteknar fela í sér alvarleg brot á grundvallarmannréttindum, einkum ófrávíkjanlegum grundvallarmannréttindum á borð við réttinn til lífs og bann við pyndingum eða ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu, bann við þrældómi og þrælkun og bann við refsingum án laga. Sama á við um samsafn athafna, þ.m.t. ólögmæta mismunun, sem hafa eða geta haft sömu eða sambærileg áhrif á einstakling.

Í 2. mgr. 38. gr. laga um útlendinga er fjallað um í hverju ofsóknir geta falist. Þá eru þær ástæður sem ofsóknir þurfa að tengjast skilgreindar nánar í 3. mgr. 38. gr. laganna.

Í 4. mgr. 38. gr. kemur fram að þeir aðilar sem geta verið valdir að ofsóknum eða ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð séu:

a.   ríkið,

b. hópar eða samtök sem stjórna ríkinu eða verulegum hluta landsvæðis þess,

c.   aðrir aðilar, sem ekki fara með ríkisvald, ef sýnt er fram á að ríkið eða hópar eða samtök skv. b-lið, þ.m.t. alþjóðastofnanir, geti ekki eða vilji ekki veita vernd gegn ofsóknum eða meðferð sem fellur undir 2. mgr. 37. gr., m.a. með því að ákæra og refsa fyrir athafnir sem fela í sér ofsóknir.

Orðasambandið „ástæðuríkur ótti við að vera ofsóttur“ í 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga inniheldur huglæga og hlutlæga þætti og þarf að taka tillit til hvors tveggja þegar mat er lagt á umsókn um alþjóðlega vernd. Mat á því hvort ótti umsækjanda sé ástæðuríkur getur verið byggt á persónulegri reynslu umsækjanda sem og á upplýsingum um ofsóknir sem aðrir í umhverfi hans eða þeir sem tilheyra sama hópi hafa orðið fyrir. Þótt umsækjandi um alþjóðlega vernd skuli njóta vafa upp að ákveðnu marki verður umsækjandinn með rökstuddum hætti að leiða líkur að því að hans bíði ofsóknir í heimaríki. Frásögn umsækjanda og önnur gögn um einstaklingsbundnar aðstæður hans verða því almennt að fá stuðning í hlutlægum og áreiðanlegum upplýsingum um heimaríki umsækjanda, stjórnvöld, stjórnarfar og löggjöf þess. Þá er litið til sambærilegra upplýsinga um ástand, aðstöðu og verndarþörf þess hóps sem umsækjandi tilheyrir eða er talinn tilheyra. Umsækjandi sem hefur sýnt fram á með heildstæðri og trúverðugri frásögn af atburðum, og eftir atvikum með trúverðugum gögnum, sem eru í samræmi við áreiðanlegar og hlutlægar upplýsingar um almennt ástand í heimaríki hans, að hann hafi orðið fyrir ofsóknum í skilningi laga um útlendinga, eða beinum og marktækum hótunum um slíkar ofsóknir, yrði almennt talinn hafa sýnt fram á ástæðuríkan ótta við ofsóknir snúi hann aftur til heimaríkis. Í þeim tilvikum hvílir það á stjórnvöldum að eyða öllum vafa um slíka hættu, t.d. með vísan til þess að aðstæður í heimaríki hans hafi breyst.

Kærunefnd hefur við mat sitt á umsókn kæranda haft til hliðsjónar handbók Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna um málsmeðferð og viðmið við mat á umsókn um alþjóðlega vernd (Handbook and Guidelines on Procedures and Criteria for Determining Refugee Status, Genf 2011). Þá hefur aðferðarfræði trúverðugleikamats kærunefndar tekið mið af skýrslu Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna og Flóttamannasjóðs Evrópusambandsins um trúverðugleikamat, eftir því sem við á (Beyond Proof: Credibility Assessment in EU Asylum Systems, Brussel 2013).

Kærandi byggir umsókn sína um alþjóðlega vernd á því að hann óttist að vera neyddur til starfa í hernum í heimaríki auk þess sem hann verði fyrir ofsóknum þar í landi á grundvelli þess að hann sé af þjóðarbrotinu Bissa. Þá sé kærandi barn að aldri og óttist hann almennt öryggisástand í heimaríki.

Mat á trúverðugleika kæranda er byggt á endurritum af viðtölum hans hjá Útlendingastofnun, viðtali hjá kærunefnd þann 24. september 2020, gögnum málsins og upplýsingum um heimaríki kæranda.

Við komuna hingað til lands, þann 29. apríl 2019, framvísaði kærandi skilríkjum útgefnum af ítölskum yfirvöldum þar sem fram kom að hann væri fæddur þann […] og vaknaði grunur um gildi skilríkjanna hjá landamæravörðum. Var kærandi beðinn um að rita niður nafn og fæðingardag og ritaði hann niður sama nafn og á framangreindum skilríkjum en skráði fæðingardag sem […]. Voru skilríkin send þann sama dag til rannsóknar hjá flugstöðvardeild lögreglunnar á Suðurnesjum og var niðurstaða hennar að skjölin væri fölsuð að öllu leyti.

Kærandi kom í þjónustuviðtal hjá Útlendingastofnun þann 3. maí 2019 og kvaðst þar vera barn að aldri. Í ljósi misræmis milli upplýsinga um aldur kæranda í gögnum málsins annars vegar og í framburði kæranda hins vegar óskaði Útlendingastofnun eftir því við kæranda að hann gengist undir líkamsrannsókn á tönnum til þess að ákvarða aldur hans, sbr. 1. mgr. 113. gr. laga um útlendinga, sem hann samþykkti þann 27. maí 2019. Rannsóknin fór fram þann 29. maí 2019 og var það niðurstaða hennar að kærandi væri eldri en átján ára og því ekki barn að aldri. Þann 10. júní 2019 bárust svo upplýsingar frá ítölskum yfirvöldum um að kærandi hafi, við meðferð umsóknar hans um alþjóðlega vernd þar í landi, gefið upp fæðingardagana […], […] og […]. Við meðferð málsins framvísaði kærandi skjölum frá heimaríki sem hann kvað að myndu varpa nánara ljósi á aldur sinn. Um var að ræða þjóðernisvottorð, staðfest endurrit af þjóðernisvottorði, fæðingarvottorðsútdrátt og sakavottorð og voru þau einnig send til lögreglunnar á Suðurnesjum í rannsókn. Í skjalarannsóknarskýrslu lögreglu, dags. 15. ágúst 2019, kemur fram að skjölin séu trúverðug sem slík og byggi öll á upplýsingum sem fram komi í fæðingarvottorðsútdrættinum, sem erfitt væri að segja til um hvort væri löglega útgefið. Þá hafi vantað í skjölin nokkur öryggisatriði, merki sveitarfélags væri speglað og ekkert skjalanna bæri staðfestingarstimpil frá utanríkisráðuneyti Búrkína Fasó sem skv. upplýsingum frá tengiliðum og samanburðargögnum þurfi til þess að lögfesta gildi skjala á borð við þjóðernisvottorð. Var það því niðurstaða lögreglu að skjölin væru af þessum sökum trúverðug sem slík en óábyggileg. Var kærandi í kjölfarið boðaður til viðtals hjá Útlendingastofnun, þann 10. september 2019, þar sem honum var tilkynnt niðurstaða líkamsrannsóknarinnar og niðurstaða lögreglu. Var það mat Útlendingastofnunar að kærandi væri, af öllu framangreindu virtu, eldri en átján ára og ákveðið að fara skyldi með mál hans sem hann væri fullorðinn einstaklingur. Var kærandi í kjölfarið boðaður til viðtals hjá Útlendingastofnun þann 23. september 2019 til að fara yfir umsókn hans um alþjóðlega vernd hér á landi. Þar hafi kærandi haldið því fram að hann sé fæddur […] og kvað að hann hafi sagt ósatt til um aldur sinn við meðferð umsóknar hans um alþjóðlega vernd á Ítalíu til þess að geta fengið hærra fjárframlag frá ítölskum yfirvöldum.

Við meðferð máls kæranda fyrir kærunefnd framvísaði kærandi nýju vegabréfi útgefnu af yfirvöldum í Búrkína Fasó og var vegabréfið sent þann 28. júlí 2020 til flugstöðvardeildar lögreglunnar til rannsóknar. Í skýrslu lögreglu, dags. 6. ágúst 2020, kom fram að mörg öryggisatriði hafi verið skoðuð og sannreynd og að enga fölsun væri að sjá í vegabréfinu.

Samkvæmt framangreindu er ljóst að nokkurs ósamræmis gætir í gögnum málsins um aldur kæranda. Þá hefur hann gefið upp mismunandi fæðingardaga, annars vegar hér á landi og hins vegar á Ítalíu. Á hinn bóginn hefur kærandi verið staðfastur í framburði sínum um aldur sinn hér á landi lagt fram ýmis gögn frá heimaríki m.a. vegabréf þar sem fram kemur að hann sé fæddur […] og var það mat rannsakenda að það sé ófalsað. Af þeim sökum var kærandi boðaður til viðtals hjá kærunefnd m.a. til þess að sannreyna gildi þeirra upplýsinga sem fram koma í þeim gögnum sem hann hefur lagt fram. Upplýsingar um aldur kæranda í vegabréfi hans eru samhljóma þjóðernisvottorðinu, staðfesta endurriti af þjóðernisvottorðinu, fæðingarvottorðsútdrættinum og sakavottorðinu og í viðtalinu var kærandi spurður hvernig hann hafi fengið þau gögn útgefin. Kærandi kvaðst í viðtalinu hafa hitt mann á Ítalíu sem hafi sagst geta aðstoðað hann, hafi kærandi hitt hann og greitt honum fyrir aðstoðina. Talsmaður kæranda benti á að mögulega hefði kærandi ekki fyllilega skilið spurninguna eða ætti í erfiðleikum að útskýra hvernig hann hafi aflað þessara gagna á Ítalíu. Eftir að talsmaður kæranda spurði hann nánar um það hvort hann hefði ekki hitt þennan mann á skrifstofu hans og hvort það hefði ekki verið sendiráð eða skrifstofa konsúls Búrkína Fasó á Ítalíu kvað kærandi svo vera. Kvaðst kærandi því hafa fengið skjölin hjá manni á skrifstofu sem hafi verið í sendiráði Búrkína Fasó á Ítalíu. Hafi maðurinn aðstoðað kæranda við að afla þeirra og taldi kærandi að maðurinn hafi farið til Búrkína Fasó til þess að fá gögnin útgefin og í kjölfarið afhent kæranda þau. Líkt og að framan er rakið var það mat lögreglunnar á Suðunesjum að gögnin væru ófölsuð en óábyggileg enda skorti þau ýmis öryggisatriði. Þá var kærandi einnig spurður að því hvernig hann hafi aflað sér vegabréfsins. Kvaðst kærandi hafa sent fyrrgreind gögn til vinar síns í Frakklandi sem hafi, gegn gjaldi, farið með þau til sendiráðs Búrkína Fasó í París og sótt um vegabréfið fyrir hönd kæranda. Í kjölfar viðtalsins var kærandi beðinn um að leggja fram frekari gögn eða upplýsingar til að styðja við framangreinda frásögn. Var kæranda gert ljóst að kærunefnd teldi ósennilegt að hann hafi átt þess kost að óska eftir ofangreindum gögnum frá heimaríki án þess að þurfa að leggja fram staðfestingu á auðkenni sínu með gögnum eða á annan hátt. Engin frekari gögn eða upplýsingar bárust kærunefnd.

Þann 5. október 2020 óskaði kærunefnd eftir upplýsingum, m.a. frá norskum yfirvöldum, um hvort þau þekktu dæmi þess að einstaklingar hafi sótt um alþjóðlega vernd frá Búrkína Fasó og framvísað gildum vegabréfum þaðan. Þá var auk þess óskað eftir upplýsingum um trúverðugleika þeirra upplýsinga sem fram komi í vegabréfum frá Búrkína Fasó og hvaða gögn þurfi að liggja til grundvallar til þess að fá útgefin vegabréf þaðan. Í svari starfsmanns norsku útlendingastofnunarinnar, dags. 7. október 2020, kom fram listi yfir þau gögn sem nauðsynlegt sé að afla og leggja fram til þess að fá útgefið vegabréf frá Búrkína Fasó. Var m.a. tiltekið að leggja þyrfti fram fæðingarvottorð, þjóðernisvottorð, sakavottorð o.fl. auk þess sem að börn þyrftu að leggja fram samþykki foreldris eða forráðamanns auk auðkennisskilríkis þess. Þá kom fram í svarinu að frá og með ágúst 2018 hafi yfirvöld í Búrkína Fasó tekið upp svokölluð vegabréf með lífkennum (e. Biometric passport) og að frá þeim degi hafi það verið gert að skilyrði að umsækjandi vegabréfs væri á staðnum við umsókn til þess að unnt væri að taka ljósmynd og fingraför af viðkomandi. Í svari norskra stjórnvalda kom fram að gæði þeirra upplýsinga sem fram koma í vegabréfum frá Búrkína Fasó velti á gæðum þeirra gagna sem liggi þeim til grundvallar og var það mat norskra yfirvalda að það væri tiltölulega auðvelt að fá afhent ófalsað og löglegt vegabréf frá Búrkína Fasó sem innihéldi rangar upplýsingar. Kærunefnd áframsendi svar norskra yfirvalda á kæranda og veitti honum frest til þess að koma á framfæri andmælum og athugasemdum, sbr. 13. gr. stjórnsýslulaga. Þann 14. október 2020 barst svar kæranda þar sem fram kom m.a. að ekki yrði séð að kærunefnd hafi gripið til sambærilegra rannsóknaraðferða við mat á auðkennisgögnum annarra umsækjenda um alþjóðlega vernd og vísaði í því samhengi til jafnræðisreglu 11. gr. stjórnsýslulaga. Þá hafi engar heimildir komið fram í svari norskra yfirvalda til stuðnings svari þeirra og að slíkar upplýsingar nægi ekki til þess að vefengja gild auðkennisgögn útgefin af stjórnvöldum í Búrkína Fasó. Að mati kærunefndar þykir mega leggja til grundvallar framangreindar upplýsingar um það hvernig útgáfa vegabréfa frá yfirvöldum í Búrkína Fasó fer fram. Er ljóst að útgáfa slíks vegabréfs er háð því að umsækjandi sæki um vegabréf í eigin persónu og leggi fram fullnægjandi skjöl. Eins og áður er rakið kveðst kærandi hafa aflað vegabréf þess er hann lagði fram hér á landi með milligöngu annars manns sem hafi verið staddur í Frakklandi og hann hafi fengið afrit af fingraförum sínum hjá Útlendingastofnun og sent vini sínum til Parísar. Þótt umrætt vegabréf sé að mati lögreglu ófalsað telur kærunefnd að framangreindar upplýsingar um útgáfu vegabréfa frá Búrkína Fasó og ofangreint mat á trúverðugleika þeirra gagna sem að sögn kæranda lágu til grundvallar útgáfu þess dragi að verulegu leyti úr gildi vegabréfsins.

Með vísan til frásagnar kæranda, þeirra gagna sem kærandi hefur lagt fram hjá íslenskum stjórnvöldum, niðurstöðu líkamsrannsóknar á tönnum hans og þess sem að framan er rakið um öflun vegabréfs frá heimaríki hans er það niðurstaða kærunefndar að ekki sé hægt að byggja á þeim upplýsingum sem fram koma í vegabréfi kæranda um aldur hans og auðkenni. Verður að öllu framangreindu virtu fallist á það með Útlendingastofnun að kærandi sé eldri en átján ára.

Kærandi hefur m.a. borið fyrir sig að hafa verið skyldaður til þess að ganga í herskóla í heimaríki að loknum barnaskóla. Í viðtali hjá Útlendingastofnun lýsti kærandi því m.a. að hafa verið haldið föngnum hjá yfirmanni herskólans en honum hafi tekist að flýja. Af framangreindum skýrslum og gögnum um aðstæður í heimaríki kæranda er ljóst að ekki sé herskylda þar í landi og herkvaðning hafi ekki átt sér stað síðustu ár en dæmi séu um að stjórnvöld hafi óskað eftir aðstoð ríkisborgara Búrkína Fasó í aðgerðum sínum gegn hryðjuverkahópum þar í landi. Þá sé lágmarksaldur til þess að ganga í herinn í Búrkína Fasó 18 ár, en kærandi kvaðst hafa flúið heimaríki sitt árið 2014. Af framangreindu virtu er það niðurstaða kærunefndar að kærandi hafi hvorki átt á hættu né eigi á hættu að verða þvingaður til starfa í hernum í heimaríki sínu. Af ofangreindu er það mat kærunefndar að kærandi hafi ekki sætt ofsóknum eða hafi ástæðu til að óttast ofsóknir af hálfu yfirvalda í Búrkína Fasó sem hafa eða gætu náð því alvarleikastigi sem 1. mgr. 38. gr. laga um útlendinga mælir fyrir um. Þá benda önnur gögn málsins ekki til þess að slíkar ofsóknir hafi átt sér stað eða að kærandi eigi þær á hættu.

Þá hefur kærandi einnig borið fyrir sig að hann verði fyrir ofsóknum í heimaríki sökum þess að hann sé af þjóðarbrotinu Bissa. Af þeim gögnum sem kærunefnd hefur kynnt sér m.a. um aðstæður Bissa þjóðarbrotsins í heimaríki kæranda verður ekki séð að einstaklingar af þjóðarbrotinu verði fyrir ofsóknum þar í landi eingöngu á grundvelli þjóðarbrots síns.

Með vísan til framangreinds er það niðurstaða kærunefndar að kærandi hafi ekki með rökstuddum hætti leitt líkur að því að hann hafi ástæðuríkan ótta við ofsóknir í skilningi 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga, sbr. 1. mgr. 38. gr. laganna.

Telur kærunefnd því ljóst að kærandi uppfylli ekki skilyrði 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga fyrir viðurkenningu á stöðu sem flóttamaður hér á landi.

Af hálfu kæranda var lagður fram mikill fjöldi stuðningsbréfa einstaklinga sem þekki til kæranda hér á landi án þess að grein væri gerð fyrir þýðingu þeirra í greinargerð talsmanns. Framlagning slíkra gagna hefur ekki lögfræðilega þýðingu fyrir kröfur kæranda og er því að mati kærunefndar með öllu óþörf.

Ákvæði 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga

Samkvæmt 2. mgr. 37. gr. útlendingalaga er útlendingur einnig flóttamaður ef, verði hann sendur aftur til heimaríkis síns, raunhæf ástæða er til að ætla að hann eigi á hættu að sæta dauðarefsingu, pyndingum eða annarri ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu eða hann verði fyrir alvarlegum skaða af völdum árása í vopnuðum átökum þar sem ekki er greint á milli hernaðarlegra og borgaralegra skotmarka. Sama gildir um ríkisfangslausan einstakling.

Við mat á hvort aðstæður kæranda séu slíkar að þær eigi undir 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga ber að líta til 3. gr. mannréttindasáttmála Evrópu. Mannréttindadómstóll Evrópu hefur fjallað um það mat sem þarf að fara fram þegar metið er hvort kærandi sé í raunverulegri hættu á að verða fyrir meðferð sem falli undir 3. gr. mannréttindasáttmála Evrópu sem bannar pyndingar og ómannlega eða vanvirðandi meðferð eða refsingu. Hefur dómstóllinn sagt að 3. gr. sáttmálans geti átt við þegar hættan stafar frá einstaklingum eða hópi fólks sem ekki séu fulltrúar stjórnvalda. Kærandi verður þó að geta sýnt fram á að gildar ástæður séu til að ætla að um raunverulega hættu sé að ræða og að stjórnvöld í ríkinu séu ekki í stakk búin til að veita viðeigandi vernd. Ekki er nóg að aðeins sé um að ræða möguleika á illri meðferð og verður frásögn kæranda að fá stuðning í öðrum gögnum (sjá t.d. dóma Mannréttindadómstóls Evrópu í máli NA gegn Bretlandi (mál nr. 25904/07) frá 7. júlí 2008 og H.L.R. gegn Frakklandi (mál nr. 24573/94) frá 29. apríl 1997).

Líkt og að framan er rakið hefur almennt öryggisástand í Búrkína Fasó farið versnandi á undanförnum árum. Ástandið sé mismunandi eftir landshlutum og sé það verst í norður- og austurhluta landsins. Hefur heimasvæði kæranda ekki verið á átakasvæði þrátt fyrir að vígasamtök hafi á undanförnum árum aukið umsvif sín í nágrannasýslum heimasvæðis hans. Samkvæmt upplýsingum um heimaríki kæranda er heimaborg hans á svæði þar sem lögregla og öryggissveitir hafi almennt stjórn á aðstæðum. Þá hafi stjórnvöld í landinu ráðist gegn vígasamtökum til að koma í veg fyrir að átökin dreifist til annarra svæða. Að teknu tilliti til gagna málsins og heimilda verður því ekki talið að kærandi sé í raunverulegri hættu á að sæta dauðarefsingu, pyndingum eða ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu verði hann sendur aftur þangað eða að hann verði fyrir alvarlegum skaða af völdum árása í vopnuðum átökum í heimaríki þar sem ekki sé greint á milli hernaðarlegra og borgaralegra skotmarka.

Í ljósi þess sem að framan er rakið og þeirra gagna sem liggja fyrir um heimaríki kæranda telur kærunefndin að aðstæður hans þar séu ekki þannig að þær falli undir ákvæði 2. mgr. 37. gr. laganna. Telur kærunefndin því ljóst að kærandi uppfylli heldur ekki skilyrði 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga fyrir viðurkenningu á stöðu sem flóttamaður hér á landi.

Alþjóðleg vernd á grundvelli 40. gr. laga um útlendinga

Þar sem kærunefnd hefur komist að þeirri niðurstöðu að kærandi uppfylli ekki skilyrði 1. eða 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga á kærandi ekki rétt á alþjóðlegri vernd hér á landi, sbr. 40. gr. laga um útlendinga.

Dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða skv. 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga

Samkvæmt 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga er heimilt að veita útlendingi sem staddur er hér á landi dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða, þrátt fyrir að skilyrði 37. gr. séu ekki uppfyllt, ef útlendingur getur sýnt fram á ríka þörf fyrir vernd, t.d. af heilbrigðisástæðum eða vegna erfiðra félagslegra aðstæðna viðkomandi eða erfiðra almennra aðstæðna í heimaríki eða í landi sem honum yrði vísað til. Kærunefnd telur, með vísan til orðalags ákvæðisins um „ríka þörf fyrir vernd“ auk lögskýringargagna sem fylgdu greininni, að dvalarleyfi á grundvelli 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga verði ekki veitt nema aðstæður, bæði almennar og sérstakar m.t.t. heilsufars og félagslegra þátta, auk atvika sem þar er vísað til, nái ákveðnu alvarleikastigi þegar málið er virt í heild.

Í athugasemdum við frumvarp til laga um útlendinga kemur fram að erfiðar almennar aðstæður geta tekið til óvenjulegra aðstæðna á borð við náttúruhamfarir eða langvarandi stríðsástand í heimaríki. Mikil aukning hefur verið í umsvifum vígasamtaka í heimaríki kæranda og fjöldi hryðjuverkaárása aukist. Þá hefur komið fram að kærandi telji að yfirvöld í Búrkína Fasó séu ekki í stakk búin að veita þegnum landsins vernd gegn ágangi hryðjuverkahópa. Líkt og að framan greinir hefur kærunefnd komist að þeirri niðurstöðu að þrátt fyrir að ótryggt ástand ríki á ákveðnum landsvæðum í heimaríki kæranda þá teljist svæðið þar sem kærandi hafði áður búsetu öruggt svæði. Verður því ekki talið að kærandi hafi ríka þörf á vernd vegna almennra aðstæðna í heimaríki hans.

Í athugasemdum er jafnframt fjallað um erfiðar félagslegar aðstæður. Þar kemur fram að átt sé við að útlendingur hafi þörf á vernd vegna félagslegra aðstæðna í heimaríki og eru þar nefnd sem dæmi aðstæður kvenna sem hafa sætt kynferðislegu ofbeldi, sem leitt getur til erfiðrar stöðu þeirra í heimaríki, eða aðstæður kvenna sem ekki fella sig við kynhlutverk sem er hefðbundið í heimaríki þeirra og eiga á hættu útskúfun eða ofbeldi við endurkomu. Verndarþörf þjóðfélagshópa að öðru leyti myndi fara eftir aðstæðum í hverju máli. Þá kemur fram í athugasemdum við frumvarp til laga um útlendinga að með ríkri þörf á vernd af heilbrigðisástæðum sé m.a. miðað við að um skyndilegan og lífshættulegan sjúkdóm sé að ræða og meðferð við honum væri aðgengileg hér á landi en ekki í heimaríki viðkomandi. Í þessu sambandi kemur jafnframt fram að meðferð teljist ekki óaðgengileg þótt greiða þurfi fyrir hana heldur er hér átt við þau tilvik þar sem meðferð sé til í heimaríkinu en viðkomandi eigi ekki rétt á henni. Þá kunni að falla undir 1. mgr. 74. gr. mjög alvarlegir sjúkdómar sem ekki teljast lífshættulegir, svo sem ef sýnt þykir að þeir muni valda alvarlegu óbætanlegu heilsutjóni eða óbærilegum þjáningum. Ef um langvarandi sjúkdóm sé að ræða væri ríkari verndarsjónarmið fyrir hendi ef sjúkdómur væri á lokastigi. Jafnframt væri rétt að líta til þess hvort meðferð hafi hafist hér á landi og ekki væri læknisfræðilega forsvaranlegt að rjúfa meðferð, sem og til atriða sem varði félagslegar aðstæður útlendings og horfur hans.

Kærandi byggir þrautavarakröfu sína um dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða m.a. á því að heilsufarsgögn gefi til kynna að hann glími við þunglyndi, svefnvandamál og kvíða. Af gögnum málsins má ráða að kærandi glími við nokkra andlega vanlíðan vegna þeirra atburða sem hann hafi upplifað. Þá sé þroski kæranda, málskilningur hans og félagsfærni á við ungling. Þann 7. júlí 2020 fór kærunefnd fram á það við Útlendingastofnun að framkvæmt yrði sálfræðimat á kæranda sökum andlegrar heilsu hans og barst kærunefnd skýrsla sálfræðings Domus Mentis geðheilsustöðvar þann 8. september 2020. Í mati sálfræðings kemur fram að kærandi uppfylli greiningarskilmerki áfallastreituröskunar, alvarlegrar yfirstandandi geðlægðar og kvíða. Þá sé sálrænn vandi kæranda alvarlegur og hafi verulega hamlandi áhrif á getu hans til að takast á við daglegt líf. Sé það mat sálfræðingsins að gera verði honum kleift að sækja áfallamiðaða sálfræðimeðferð og fá stuðning fagaðila til að styrkja eigin bjargráð og draga úr einkennum kvíða, þunglyndis og áfallastreitu.

Í viðtölum hjá Útlendingastofnun, dagana 23. september 2019 og 23. janúar 2020, kemur fram að foreldrar kæranda og systir hafi látist en kærandi eigi þó einn bróður sem hann viti ekki hvar sé niðurkominn. Þá eigi kærandi önnur skyldmenni í heimaríki en sé ekki í tengslum við þau. Kærandi hafi því ekkert bakland í heimaríki. Í kjölfar andláts foreldra kæranda hafi hann dvalið hjá frænda sínum. Kærandi lýsti dvöl sinni þar sem afar slæmri. Hafi frændi kæranda beitt hann andlegu og líkamlegu ofbeldi, lamið hann, pyndað, reynt að eitra fyrir honum og neytt hann til erfiðisvinnu á sveitabæ fjölskyldunnar. Þá kemur fram í endurritum viðtalanna að kærandi hafi flúið heimaríki til Líbýu þar sem hann hafi verið handtekinn og látinn dúsa í fangageymslu í sex mánuði. Þar hafi hann orðið fyrir misþyrmingum, barsmíðum og verið neyddur í erfiðisvinnu.

Ljóst er að þrátt fyrir að ekki liggi fyrir gögn eða skilríki sem staðfesta aldur kæranda er hann ungur að árum og glímir við alvarleg andleg veikindi líkt og fram kemur í skýrslu sálfræðings. Þá er það mat kærunefndar að þrátt fyrir að frásögn hans hafi verið ótrúverðug að hluta sé ekki ástæða til þess að draga í efa að kærandi eigi lítið sem ekkert bakland í heimaríki sínu og hafi aðeins gengið í skóla fram að 12 ára aldri. Kæmi til þess að kærandi yrði endursendur til heimaríkis er það mat kærunefndar að gögn þau sem skoðuð hafi verið við meðferð málsins bendi til þess að framboð og gæði heilbrigðisþjónustu sé ekki gott í heimaríki kæranda, geðheilbrigðisþjónustu sé ekki inni í almenna heilbrigðistryggingakerfinu og aðgengi að þjónustunni sé takmarkað fyrir utan stærri borgir landsins. Ennfremur geti verið erfitt að fá viðeigandi lyf og gæði lyfjanna séu oft á tíðum léleg. Af gögnum málsins er auk þess ljóst að almennt öryggisástand í heimaríki kæranda hafi farið versnandi á undanförnum árum og óljóst hvernig stjórnvöld ná að takast á við þann vanda sem blasir við og hvort þeim takist að tryggja grundvallarþjónustu við íbúa landsins. Þá hafi heimsfaraldur Covid 19 haft veruleg áhrif í landinu. Með tilliti til ungs aldur kæranda og þess að hann hafi ekkert stuðningsnet eða bakland í heimaríki er það mat kærunefndar að kærandi hafi sýnt fram á að hann muni búa við afar bágar og erfiðar félagslegar aðstæður fari hann aftur til heimaríkis. Þessar sérstöku aðstæður til viðbótar við takmarkað aðgengi kæranda að þeirri heilbrigðisþjónustu sem hann þarf á að halda eru að mati kærunefndar, eins og hér stendur sérstaklega á, þess eðlis að kærandi telst hafa sýnt fram á ríka þörf fyrir vernd, sbr. 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga. Niðurstaða kærunefndar er byggð á heildstæðu mati á þeim aðstæðum sem bíða kæranda í heimaríki.

Að öllu framangreindu virtu er það niðurstaða kærunefndarinnar að veita beri kæranda dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða, sbr. 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga.

Samantekt

Með vísan til þess sem að framan er rakið þykir rétt að staðfesta ákvörðun Útlendingastofnunar hvað varðar umsókn kæranda um alþjóðlega vernd hér á landi. Lagt er fyrir Útlendingastofnun að veita kæranda dvalarleyfi skv. 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga.

 

 

 

Úrskurðarorð

Lagt er fyrir stofnunina að veita kæranda dvalarleyfi á grundvelli 74. gr. laga um útlendinga. Ákvörðun Útlendingastofnunar í máli kæranda varðandi umsókn hans um alþjóðlega vernd er staðfest.

 

The Directorate is instructed to issue residence permit for the appellant based on Article 74 of the Act on Foreigners. The decisions of the Directorate of Immigration in the case of the appellant related to his application for international protection is affirmed.

 

 

Jóna Aðalheiður Pálmadóttir

 

 

 

Bjarnveig Eiríksdóttir                                                                     Þorbjörg Inga Jónsdóttir


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta