Hoppa yfir valmynd

Mál nr. 8/2014. Ákvörðun kærunefndar útboðsmála:

Ákvörðun kærunefndar útboðsmála 21. maí 2014

í máli nr. 8/2014:

Óskatak ehf.

gegn

Vegagerðinni

Með kæru 8. maí 2014 kærir Óskatak ehf. útboð Vegagerðarinnar auðkennt „Svínadalsvegur (502-02) Leirársveitarvegur – Kambshóll“. Kærandi krefst þess aðallega að kærunefnd útboðsmála felli úr gildi ákvörðun varnaraðila um að hafna tilboði kæranda, en til vara að nefndin láti uppi álit sitt á skaðabótaskyldu varnaraðila. Auk þess er krafist málskostnaðar.

Varnaraðila var gefinn kostur á að tjá sig um kæruna. Með greinargerð 14. maí 2014 var þess krafist að kröfum kæranda yrði vísað frá kærunefnd eða þeim hafnað, en jafnframt að kærunefnd aflétti banni við samningsgerð.

Í þessum þætti málsins er einungis tekin afstaða til þeirrar kröfu varnaraðila að sjálfkrafa stöðvun samningsgerðar verði aflétt.   

            Mál þetta lýtur að fyrrgreindu útboði sem varðar breikkun og endurbætur á hluta af Svínadalsveg í Hvalfjarðarsveit. Tilboð í verkið voru opnuð 22. apríl sl. og skiluðu fimm bjóðendur inn tilboðum. Kærandi var lægstbjóðandi en næstlægsta tilboðið átti fyrirtækið Þróttur ehf. Með tilkynningu 30. apríl sl. tilkynnti varnaraðili að hann hygðist ganga til samninga við Þrótt ehf. Var kærandi upplýstur við sama tilefni að tilboði hans hefði verið vísað frá þar sem ársreikningur fyrir árið 2013 hefði ekki fylgt tilboðinu eins og áskilið hefði verið í útboðsgögnum.

Kröfur kæranda byggja í meginatriðum á því að hann hafi lagt fram öll nauðsynleg gögn til að unnt væri að meta þær kröfur til fjárhagslegs hæfis sem gerðar voru í útboðinu. Honum hafi ekki verið unnt að leggja fram ársreikning vegna ársins 2013 þar sem hann hafi ekki verið tilbúinn. Lögum samkvæmt þurfi ársreikningur ekki að liggja fyrir fyrr en í júlí ár hvert. Hann hafi hins vegar lagt fram efnahagsreikning og rekstrarreikning úr bókhaldi sínu fyrir árið 2013. Hafi varnaraðili ekki talið þau gögn fullnægjandi hafi honum borið að gefa kæranda kost á að auka við eða skýra fyrirliggjandi gögn skv. 53. gr. laga nr. 84/2007 um opinber innkaup.

Niðurstaða

Í kæru var kærandi upphaflega tilgreindur sem fyrirtækið Óskaverk ehf. Hefur varnaraðili krafist frávísunar málsins þar sem lægstbjóðandi í framangreindu útboði hafi verið fyrirtækið Óskatak ehf. Fyrirtækið Óskaverk ehf. eigi því ekki lögvarða hagsmuni af úrlausn þessa máls í skilningi 1. mgr. 93. gr. laga nr. 84/2007 um opinber innkaup, enda hafi það fyrirtæki ekki tekið þátt í hinu kærða útboði. Með tölvupósti 16. maí sl. upplýsti lögmaður kæranda að nafn og kennitala kæranda hefði misritast í kæru, en kærandi væri fyrirtækið Óskatak ehf. Með hliðsjón af leiðréttingu þessari verður að telja að kærandi sé Óskatak ehf. og það eigi lögvarða hagsmuni af úrlausn málsins. Ekki verður séð að vörnum varnaraðila hafi verið áfátt þótt nafn og kennitala kæranda hafi verið ranglega tilgreind í kæru. Eru því ekki efni til frávísunar málsins.

Samkvæmt 1. mgr. 49. gr. laga um opinber innkaup skal fjárhagsstaða fyrirtækis vera það trygg að það geti staðið við skuldbindingar sínar gagnvart kaupanda. Jafnframt kemur þar fram að fyrirtæki geti að jafnaði fært sönnur á fjárhagslega getu sína með því að leggja fram endurskoðaða ársreikninga fyrri ára eða útdrátt úr þeim. Í 5. mgr. greinarinnar segir einnig að þegar bjóðandi er ófær um að leggja fram þau gögn sem greinir í 1. mgr. sé honum heimilt að sýna fram á fjárhagslega getu sína með öðrum gögnum sem kaupandi telur fullnægjandi.

Af útboðsgögnum verður ráðið að bjóðendur skyldu leggja fram ársreikninga fyrir árin 2012 og 2013 til staðfestu því að þeir uppfylltu þær kröfur um fjárhagslegt hæfi sem gerðar voru til bjóðenda. Jafnframt kom fram að vantaði upplýsingar og/eða þær væru ófullnægjandi myndi verkkaupi vísa tilboði frá við yfirferð gagna. Fyrir liggur að kærandi skilaði ekki inn ársreikningi vegna ársins 2013 með tilboði sínu eins og útboðsgögn áskildu. Hins vegar verður til þess að líta að kærandi lagði fram upplýsingar um efnahag og rekstur úr bókhaldi sínu fyrir árið 2013 og vakti jafnframt athygli kaupanda á því að ársreikningur fyrir árið 2013 væri ekki tilbúinn.

Samkvæmt 1. mgr. 109. gr. laga nr. 3/2006 um ársreikninga skal félag senda ársreikningaskrá samþykktan ársreikning eigi síðar en átta mánuðum eftir lok reikningsárs. Samkvæmt þessu liggur fyrir að kæranda var ekki skylt að lögum að hafa undir höndum samþykktan ársreikning fyrir árið 2013 þegar tilboðum skyldi skilað í umræddu útboði. Verður því að líta svo á að kærandi hafi verið ófær um að leggja fram þessi gögn í skilningi 5. mgr. 49. gr. laga um opinber innkaup þannig að honum hafi verið heimilt að sýna fram á fjárhagslega getu sína með öðrum gögnum. Að þessu virtu er það álit nefndarinnar að ekki séu efni til þess að aflétta stöðvun samningsgerðar um stundarsakir samkvæmt 2. mgr. 94. gr. a laga um opinber innkaup, sbr. 12. gr. laga nr. 58/2013.

Ákvörðunarorð:

Kröfu varnaraðila, Vegagerðarinnar, um afléttingu stöðvunar samningsgerðar á grundvelli útboðs auðkennt „Svínadalsvegur (502-02) Leirársveitarvegur – Kambshóll“ er hafnað.

Reykjavík, 21. maí 2014.

Skúli Magnússon

Ásgerður Ragnarsdóttir


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta