Hoppa yfir valmynd

Mál nr. 99/2024-Úrskurður

 

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 99/2024

Föstudaginn 7. júní 2024

A og B

gegn

C

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Kári Gunndórsson lögfræðingur, Björn Jóhannesson lögfræðingur og Helgi Viborg sálfræðingur.

Með kæru, dags. 26. febrúar 2024, kærðu A, og B, til úrskurðarnefndar velferðarmála ákvörðun C synjun á beiðni þeirra um afléttingu nafnleyndar vegna tilkynningar í barnaverndarmáli varðandi barn kærenda.

I.  Málsatvik og málsmeðferð

C barst tilkynning undir nafnleynd þann 28. janúar 2024. Efni tilkynningar voru áhyggjur af líðan og velferð sonar kærenda. Með beiðni kærenda til C, dags. 18. febrúar 2024, var óskað eftir því að nafnleynd tilkynningar yrði aflétt. Beiðni kærenda var hafnað með ákvörðun C, dags. 26. febrúar 2024. Í ákvörðuninni kom eftirfarandi fram, auk þess sem bent var á kæruheimild til úrskurðarnefndar velferðarmála:

„Í 13. gr. reglugerðar nr. 56/2004 um málsmeðferð fyrir barnaverndarnefnd segir að ef barnaverndarþjónusta fær rökstuddan grun um að tilkynnandi hafi vísvitandi komið á framfæri rangri eða villandi tilkynningu geti þjónustan tekið ákvörðun um að aflétta nafnleyndinni.

Barnaverndarþjónusta býr ekki yfir neinum upplýsingum eða gögnum sem styðja það að tilkynnandi hafi vísvitandi komið á framfæri rangri eða villandi tilkynningu til þjónustunnar.

Barnaverndarþjónusta telur að ekki séu fyrir hendi sérstaka ástæður sem áskildar eru til þess að aflétta megi nafnleynd, sbr. 19. barnaverndarlaga nr., 80/2002.“

Kærendur lögðu fram kæru hjá úrskurðarnefnd velferðarmála þann 26. febrúar 2024. Með bréfi, dags. 28. febrúar 2024, óskaði úrskurðarnefnd velferðarmála eftir greinargerð C vegna kærunnar. Greinargerð C barst með bréfi, dags. 8. mars 2024. Með bréfi úrskurðarnefndar velferðarmála, dags. 12. mars 2024, var greinargerðin send kærendum til kynningar og þeim veittur frestur til að gera athugasemdir. Athugasemdir kæranda bárust 24. mars 2024 og voru þær sendar C til kynningar með bréfi, dags. 27. mars 2024. Frekari athugasemdir bárust ekki. 

II.  Sjónarmið kærenda

Í kæru kemur fram að kærendur hafi óskað eftir afléttingu nafnleyndar á barnaverndartilkynningu sem hafi ekki átt við nein rök að styðjast. Beiðninni hafi verið hafnað og kærendum bent á kæruleið.

Umrædd tilkynning barst C þann 28. janúar 2024 og óskaði tilkynnandi eftir nafnleynd. […]. Málið hafi farið í könnun og fengu kærendur niðurstöðu könnunar þann 13. febrúar 2024. Í niðurstöðunni kom fram að ekkert hafi komið fram í viðtölum sem studdi tilkynninguna og að búið sé að skrá það. Í framhaldi af því óskuðu kærendur eftir að fá tilkynninguna senda þar sem um mjög alvarlega og beinar ásakanir hafi verið að ræða.

Barnaverndarfulltrúi hafi orðið við þeirri beiðni og sendi kærendum skjöl en gleymdi að afmá kennitölu tilkynnanda þó aðrar persónuupplýsingar hafi verið búið að afmá. Kærendur hafi þekkt kennitöluna sem tilheyrði einstaklingi í þeirra fjölskyldu. Hann hafi neitað sök og talað um að hver sem er gæti sent á hvaða kennitölu sem er en við þessi mjög alvarlegu mistök sé hreinlega búið að splúndra fjölskyldunni. Kærendur kveðast ekki geta treyst því að eigandi kennitölunnar sé að segja satt og á meðan við þau fái ekki nafn eða sönnun þess að þetta sé rétt kennitala standi þetta svona. Kærendur óska eftir því nefndin taki málið upp og aflétti nafnleyndinni þar sem barnavernd hafi gert þessi mistök og sé hálfnuð með verkið því fjölskyldan liggi undir. Eins vegna þess að málið sé búið að fara í könnun sem leiddi í ljós að tilkynning hafi ekki átt við rök að styðjast og þessar ásakanir séu virkilega ljótar, alvarlegar og beinar sem vert sé að skoða hvað hægt sé að gera með í framhaldinu.

Í greinargerð kærenda segir að rétt sé það sem komi fram í greinargerð lögmanns barnaverndarþjónustunnar að umrædd tilkynning hafi verið skráð inn í opið barnaverndarmál. Ekki hafi þó verið tekið fram hvers vegna kærendur séu með opið mál hjá barnavernd og benda kærendur á að þeim hafi verið boðið að vera með opið barnaverndarmál til þess að þau fengu meiri aðstoð fyrir son þeirra. Með því að vera með opið mál átti að skapast meiri þrýstingu á kerfið, t.d. með því að koma drengnum inná […]. Einnig hafi kærendur átt að fá fleiri liðveislutíma, sálfræðitíma og annað sem F hafi ekki getað boðið uppá. Kærendur hafi því þegið að hafa málið opið. Upprunaleg tilkynning í því máli hafi verið gerð í samráði við skóla drengsins og í því skyni að fá meiri aðstoð fyrir son þeirra. Á meðan það mál hafi verið í vinnslu hafi borist önnur tilkynning sem hafi verið könnuð og komið í ljós að hún hafi ekki átt við nein rök að styðjast. Þetta sé ástæðan fyrir því barnaverndarmál hafi verið opið.

Kærendur kveðast skilja að það sé meginregla að nafnleyndar sé gætt og það þurfi sérstakar ástæður þurfi að vera fyrir hendi til þess að nafnleynd sé ekki virt en í þessu tilviki sé barnaverndarþjónustan bæði búin að kanna málið og ekkert kom í ljós og hafi gert alvarleg mistök þar sem gleymdist að afmá kennitölu tilkynnanda. Með því að kanna málið og skrá þessar alvarlegu ásakanir inn í málið sem ekki eigi við rök að styðjast telja kærendur að fram séu komnar sérstakar ástæður og að ekki þurfi að virða nafnleynd. Auk þess hafi barnaverndarþjónustan gert gríðarstór mistök með því að afmá ekki kennitölu tilkynnanda og þannig valdið uppnámi í fjölskyldunni. Þá telja kærendur það óskiljanlegt að það geti hver sem er tilkynnt og komist upp með svo ljótar ásakanir án þess að þurfa svara fyrir það eða koma með dæmi um hvað sé verið að meina. Umrædd tilkynning sé mjög opin og virðist ekki beinast að neinu ákveðnu atviki og samkvæmt eiganda kennitölunnar hafi ekki verið haft samband við hana til að kanna tilkynninguna frekar. Þá telji kærendur athugavert að barnaverndarþjónusta segist ekki búa yfir neinum upplýsingum eða gögn sem styðja það að tilkynnandi hafi vísvitandi komið á framfæri rangri eða villandi tilkynningu til þjónustunnar. Það komi fram við könnun að ásakanir hafi ekki átt við nein rök að styðjast og málið haldi áfram eins það var. Að mati kærenda séu þetta rangar upplýsingar og staðhæfingar. Þá hafi ekki verið talað um eitt tilvik heldur bara heilt yfir sem kærendur telja vera frekar villandi ef viðkomandi geti ekki komið t.d. með dæmi. Kærendur benda á að sonur þeirra sé með […] og sem foreldrar hans geri kærendur allt sem í þeirra valdi stendur til að láta honum líða betur. Kærendur kveðast hafa verið í góðu sambandi og samvinnu bæði við F og barnaverndarþjónustu. Þessir aðilar viti nákvæmlega hvernig ástandið sé og að fá svona tilkynningu hafi gríðarleg áhrif. Það rífi niður foreldra sem séu að gera allt sem þau geti til að fá aðstoð en því miður þá sé kerfið á Íslandi ekki betra en svo að það sé t.d. 18 mánaða forgangsbiðlisti inná geðheilsumiðstöð barna og allt að 5 mánaða biðlisti inná D. Á meðan bíði foreldrar í sömu stöðunni með barn sem þarf gríðarlega umönnun og litla hjálp sé að fá. Kærendur kveðast vera orðin langþreytt á því að fá ekki aðstoð fyrir barnið og að fá svona ásakanir ofan á það hafi vægast sagt gríðarlega afleiðingar.

Kærendur óski því eftir að nafnleynd verði aflétt þar sem um sé að ræða mjög alvarlegar ásakanir sem eigi ekki við rök að styðjast samkvæmt könnun og það sé C sem sé búin að splúndra heilli fjölskyldu með mistökum sínum. Kærendur telja að þetta séu nægar sérstakar ástæður til að fá að sjá alla tilkynninguna. Ef það sé ekki fallist á það óski kærendur að minnsta kosti að fá staðfestingu á því að þessi kennitala sé ekki rétt á tilkynningunni eins og eigandi hennar vill meina. Þá væri mögulega hægt að ná aftur sáttum í fjölskyldunni.

Kærendur taka fram að þau ásamt eiganda kennitölunnar hafi sent erindi til eftirlitsstofnunar velferðarmála þar sem óskað verður eftir því að C verði tekin til skoðunar varðandi vinnulag og verkferla í svona alvarlegum málum.

III.  Sjónarmið C

Í greinargerð C kemur fram að þann 28. janúar 2024 barst barnaverndarþjónustunni barnaverndartilkynning og óskaði tilkynnandi nafnleyndar. Tilkynningin hafi verið bókuð sem tilkynning inn í þegar opið barnaverndarmál. Í kjölfarið hafi verið tekið viðtal við móður 9. febrúar 2024 og barn 12. febrúar 2024. Þann 13. febrúar 2024 hafi foreldrum verið tilkynnt með tölvupósti um að ekki yrði aðhafst frekar vegna tilkynningarinnar og barnaverndarmálið sem þegar hefði verið í vinnslu yrði það áfram eins og fyrir tilkynninguna.

Áður, eða þann 12. febrúar 2024, hafði móðir óskað eftir því að teknar yrðu saman allar barnaverndartilkynningar sem hefðu komið vegna barna hennar. Það hafi verið gert og henni send umbeðin gögn. Hvað varðar tilkynninguna frá 28. janúar 2024 áttu sér stað þau mistök, sem lýst sé í kæru, að við afmáningu persónugreinanlegra upplýsinga láðist að afmá eina línu, en aðrar upplýsingar hafi verið afmáðar. Tilkynningin eins og hún hafi verið send kærendum fylgdi kæru til úrskurðarnefndarinnar. Barnaverndarþjónustan telur ekki ástæðu til að senda aðrar tilkynningar sem kærendur fengu sendar í kjölfar erindis síns frá 12. ferbúar 2024, enda varði þau ekki þetta mál beint. Óski úrskurðarnefndin eftir aðgangi að þeim verður orðið við því.

Með erindi þann 19. ferbúar 2024 óskuðu kærendur eftir því að „nafnleynd verð afnumin af barnaverndartilkynningu sem kom frá almenningi 28.01 2024." Vísað hafi verið til þess að um alvarlegar og mjög ljótar beinar ásakanir væri að ræða, auk annarra atriða. Erindið hafi verið tekið fyrir á samráðsfundi barnaverndarþjónustunnar þann 21. febrúar 2024 og hafi niðurstaðan verið eftirfarandi:

„Í 13. gr. reglugerðar nr. 56/2004 um málsmeðferð fyrir barnaverndarnefnd segir að ef barnaverndarþjónusta fær rökstuddan grun um að tilkynnandi hafi vísvitandi komið á framfæri rangri eða villandi tilkynningu geti þjónustan tekið ákvörðun um að aflétta nafnleyndinni. Barnaverndarþjónustan býr ekki yfir neinum upplýsingum eða gögnum sem styðja það að tilkynnandi hafi vísvitandi komið á framfæri rangri eða villandi tilkynningu til þjónustunnar. Barnaverndarþjónustan telur að ekki séu fyrir hendi sérstakar ástæður sem áskildar eru til þess að aflétta megi nafnleynd, sbr. 19. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002“

Um málsástæður og lagarök segir í greinargerð barnaverndarþjónustunnar að reglur um nafnleynd koma fram í 19. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002 (bvl.) og tengjast reglum um tilkynningarskyldu sem fram komi í 16. gr. sömu laga. Í 1. mgr. 16. gr. laganna sé kveðið á um tilkynningarskyldu almennings. Þar segi að hverjum þeim, sem hafi ástæðu til að ætla að barn búi við óviðunandi uppeldisaðstæður, verði fyrir áreitni eða ofbeldi eða stofni heilsu sinni og þroska í alvarlega hættu, sé skylt að tilkynna það barnaverndarnefnd.

Í 2. mgr. 19. gr. bvl. komi fram sú meginregla að óski tilkynnandi samkvæmt 16. gr. laganna eftir nafnleynd gagnvart öðrum en barnaverndarnefnd skuli það virt nema sérstakar ástæður mæli gegn því. Þessi regla komi einnig fram í 13. gr. reglugerðar nr. 56/2004 um málsmeðferð fyrir barnaverndarnefnd. Þar segir að fái barnaverndarnefnd rökstuddan grun um að tilkynnandi hafi vísvitandi komið á framfæri rangri eða villandi tilkynningu geti nefndin tekið ákvörðun um að aflétta nafnleyndinni. Barnaverndarþjónustan telur sig ekki hafa slíkan rökstuddan grun í þessu máli.

Samkvæmt þessu sé meginreglan sú að nafnleynd verður ekki aflétt, nema í þeim undantekningartilvikum að sérstakar ástæður séu fyrir því.

Þegar tilkynning berst barnaverndaryfirvöldum um ætlaðar óviðunandi aðstæður barns hvílir sú skylda á barnaverndaryfirvöldum að hefja ekki könnun máls, nema rökstuddur grunur sé um að tilefni sé til þess, sbr. 5. mgr. 21. gr. bvl. Í því tilviki sem hér um ræðir hafi eins og áður hafi verið lýst þegar til staðar opið barnaverndarmál.

Samkvæmt 2. mgr. 19. gr. bvl. sé meginreglan sú að nafnleyndar skuli gætt varðandi tilkynningar samkvæmt 16. gr. laganna og þurfa sérstakar ástæður að vera fyrir hendi til að nafnleynd sé ekki virt. Ekki verður talið að sérstakar ástæður séu fyrir hendi í því máli sem hér um ræðir sem réttlæti að nafnleynd sé aflétt, jafnvel þótt ákveðin mistök hafi átt sér stað við afmáningu ákveðinna upplýsinga. Samkvæmt þessu og með vísan til 2. mgr. 19. gr. barnaverndarlaga ber að staðfesta hina kærðu ákvörðun.

IV.  Niðurstaða

Mál þetta varðar þá ákvörðunC að hafna kröfu kæranda um að nafnleynd verði aflétt vegna tilkynningar sem barst þjónustunni 28. janúar 2024.

Reglur um nafnleynd koma fram í 19. gr. bvl. og tengjast reglum um tilkynningarskyldu sem fram koma í 16. gr. sömu laga. Í 1. mgr. 16. gr. laganna er kveðið á um tilkynningarskyldu almennings. Þar segir að öllum sé skylt að tilkynna til barnaverndarþjónustu ef þeir hafa ástæðu til að ætla að barn búi við óviðunandi uppeldisaðstæður, verði fyrir ofbeldi eða annarri vanvirðandi háttsemi eða stofni heilsu sinni og þroska í alvarlega hættu.

Í 2. mgr. 19. gr. bvl. kemur fram að óski tilkynnandi samkvæmt 16. gr. laganna eftir nafnleynd gagnvart öðrum en barnaverndarþjónustu skal það virt nema sérstakar ástæður mæli gegn því. Þessi regla kemur einnig fram í 13. gr. reglugerðar nr. 56/2004 um málsmeðferð fyrir barnaverndarnefnd. Þar segir að fái barnaverndarnefnd rökstuddan grun um að tilkynnandi hafi vísvitandi komið á framfæri rangri eða villandi tilkynningu geti nefndin tekið ákvörðun um að aflétta nafnleyndinni. Samkvæmt þessu er meginreglan sú að nafnleynd verður ekki aflétt, nema í þeim undantekningartilvikum að sérstakar ástæður séu fyrir því. Þess ber að geta að það getur varðað sektum eða fangelsi allt að tveimur árum að koma vísvitandi röngum eða villandi upplýsingum á framfæri við barnaverndarþjónustu um atriði sem barnaverndarlög taka til.

Þegar tilkynning berst barnaverndaryfirvöldum um ætlaðar óviðunandi aðstæður barns hvílir sú skylda á barnaverndaryfirvöldum að hefja ekki könnun máls, nema rökstuddur grunur sé um að tilefni sé til þess, sbr. 5. mgr. 21. gr. bvl.

Að mati úrskurðarnefndar velferðarmála er til þess að líta að samkvæmt 2. mgr. 19. gr. bvl. er meginreglan sú að nafnleyndar skuli gætt varðandi tilkynningar samkvæmt 16. gr. laganna og þurfa sérstakar ástæður að vera fyrir hendi til að nafnleynd sé ekki virt og þá meðal annars með hliðsjón af 1. mgr. 4. gr. bvl. Ekki verður talið að sérstakar ástæður séu fyrir hendi í því máli sem hér um ræðir sem réttlæti að nafnleynd sé aflétt. Sú staðreynd að mistök voru gerð við birtingu gagna málsins hefur ekki áhrif við mat nefndarinnar. Samkvæmt framansögðu ber að staðfesta hina kærðu ákvörðun.


 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Ákvörðun C frá 25. janúar 2024 um að synja beiðni A, og B, um afléttingu nafnleyndar vegna tilkynningar um barn þeirra, er staðfest.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

 

Kári Gunndórsson

 

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum