Hoppa yfir valmynd

Mál nr. 9/2020 - Úrskurður

Mál nr. 9/2020

 

 

Úrskurður kærunefndar jafnréttismála

 

 

A

gegn

Háskóla Íslands

 

Ráðning í starf. Hæfnismat.

Háskóli Íslands auglýsti starf húsgagnasmiðs við bygginga- og tæknideild. Kærandi, sem er kona, taldi að brotið hefði verið gegn lögum nr. 10/2008 um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla með því að ráða karl í starfið en hún taldi sig vera hæfari en karlinn sem ráðinn var. Að mati kærunefndarinnar skapaði sú sérhæfða reynsla af að vinna við húsgagnasmíði sem sá sem starfið hlaut bjó að umfram kæranda þá sérstöðu að ekki væru leiddar líkur að því að kæranda hafi verið mismunað við ráðninguna á grundvelli kynferðis og var því ekki talið að kærði hefði brotið gegn lögunum.

  1. Á fundi kærunefndar jafnréttismála hinn 11. september 2020 er tekið fyrir mál nr. 9/2020 og kveðinn upp svohljóðandi úrskurður:
  2. Með kæru, dagsettri 28. apríl 2020, kærði A ákvörðun Háskóla Íslands um að ráða karl í starf húsgagnasmiðs við bygginga- og tæknideild hjá framkvæmda- og tæknisviði skólans. Kærandi telur að með ráðningunni hafi Háskóli Íslands brotið gegn lögum nr. 10/2008 um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla. Þá gerir kærandi kröfu um að nefndin beiti ákvæðum 5. mgr. 5. gr. laganna um málskostnað, verði fallist á röksemdir hennar.
  3. Kæran ásamt fylgigögnum var kynnt kærða með bréfi, dagsettu 28. apríl 2020. Greinargerð kærða barst með bréfi, dagsettu 26. maí 2020, og var hún kynnt kæranda með bréfi kærunefndar, dagsettu 27. maí 2020.
  4. Kærunefndinni barst bréf kæranda, dagsett 18. júní 2020, með athugasemdum við greinargerð kærða og sem kynnt var kærða með bréfi kærunefndar, dagsettu 19. júní 2020. Með tölvubréfi kærunefndar, dagsettu 12. ágúst 2020, voru kæranda send frekari gögn sem borist höfðu með greinargerð kærða. Frekari athugasemdir bárust frá kæranda með bréfi, dagsettu 19. ágúst 2020, og voru þær kynntar kærða með bréfi kærunefndar, dagsettu sama dag.

    MÁLAVEXTIR

  5. Kærði auglýsti á Starfatorgi laust starf húsgagnasmiðs á framkvæmda- og tæknisviði 19. mars 2020. Í auglýsingunni kom fram að bygginga- og tæknideild hafi umsjón með endurbótum og viðhaldi bygginga og lóða kærða, umsjón með kerfum s.s. raf-, hita-, loftræsi- og stýrikerfum, sjái um innkaup og viðhald á húsum og húsgögnum og búnaði ýmiskonar, auk þess að sjá um rekstur á trésmíða-, véla- og rafmagnsverkstæði. Helstu verkefni voru talin: Viðhald á húsgögnum í byggingum kærða og húsnæði; samskipti við starfsfólk og nemendur kærða í tengslum við starfssviðið; önnur tilfallandi verkefni. Í auglýsingunni voru jafnframt skilgreindar eftirfarandi menntunar- og hæfniskröfur: Sveinspróf eða meistarapróf í húsgagnasmíði; sjálfstæð og skipulögð vinnubrögð; góð almenn tölvukunnátta; þjónustulund og lipurð í mannlegum samskiptum. Í auglýsingunni var tekið fram að við ráðningu í starfið yrði tekið mið af jafnréttisáætlun kærða.
  6. Alls bárust sjö umsóknir um starfið. Að lokinni yfirferð á umsóknargögnum lá fyrir að einungis tveir umsækjendur, kærandi og einn karl, uppfylltu skilyrði um sveinspróf eða meistarapróf. Báðir þessir umsækjendur voru boðaðir í starfsviðtöl þar sem lagðar voru fyrir þá staðlaðar spurningar. Að viðtölunum loknum var ákveðið að bjóða karlinum starfið sem hann þáði. Kærandi óskaði eftir rökstuðningi kærða fyrir ráðningunni með tölvubréfi, dagsettu 16. apríl 2020, og barst hann 21. apríl sama ár.

    SJÓNARMIÐ KÆRANDA

  7. Kærandi byggir á því að með ráðningunni hafi verið brotið gegn 26. gr. laga nr. 10/2008 um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla. Auðséð sé að kynferði hafi verið látið ráða för við ákvörðunina fremur en hæfni til starfans.
  8. Við samanburð á menntun, hæfni og reynslu kæranda og þess sem ráðinn hafi verið megi sjá að þau hafi bæði lokið námi í húsgagnasmíði og hafi haldgóða reynslu af starfi við smíðar. Aftur á móti beri kærandi höfuð og herðar yfir þann sem ráðinn hafi verið þegar komi að annarri menntun og starfsreynslu. Hún hafi lokið BA prófi í modelmaking (frumgerða- og líkanahönnun og smíði) við [...] og námi í „Mótun - Leir og tengd efni (keramikhönnun)“ frá [...]. Hún hafi því aukna menntun í smíði með hin ýmsu efni og aðferðir. Þá hafi hún lokið tölvunámskeiðum og hafi einnig yfirgripsmikla þekkingu á tölvuforritum en í modelmaking námi sé megináhersla lögð á að tvinna saman hátækni (tölvutækni) og handverkstækni. Kærandi hafi farið vel yfir það í starfsviðtalinu.
  9. Í rökstuðningi kærða sé ekki að sjá að sá sem ráðinn hafi verið hafi sérstaka tölvuþekkingu en gerð hafi verið krafa um hana í auglýsingu um starfið. Auk þess hafi verið gerð krafa um þjónustulund og lipurð í mannlegum samskiptum og hefði reynsla kæranda af þjónustustörfum átt að vega þar þungt.
  10. Húsgagnasmíði hafi sannarlega oft og tíðum verið skilgreint sem karlastarf. Sá sem hafi hlotið starfið hafi verið metinn með yfirburði, annars vegar vegna þess að hann sé karl og hins vegar vegna tengsla, þ.e. hann hafi áður starfað hjá byggingadeild kærða. Megi jafnvel leiða líkur að því að ekki hafi verið gerðar ítarlegri hæfniskröfur til þess að sá sem ráðinn hafi verið gæti orðið fyrir valinu.
  11. Kærandi hafi leitt sterkar líkur að því að við ráðninguna hafi henni verið mismunað á grundvelli kyns, sbr. 4. mgr. 26. gr. laga nr. 10/2008. Kærði gegni veigamiklu hlutverki í íslensku samfélagi. Þessari æðstu menntastofnun landsins sé skylt að byggja ákvarðanir sínar á faglegum forsendum með því að ráða til starfa hæfustu umsækjendur hverju sinni og ekki síður með því að halda í heiðri eigin markmiðum um jafnréttisáætlun sem kveði á um að jafna kynjahlutfall á hverju sviði og í hverri deild innan skólans.

    SJÓNARMIÐ KÆRÐA

  12. Á því er byggt af hálfu kærða að hæfniskröfur í auglýsingu um starfið hafi miðað við helstu verkefni og ábyrgð sem þar voru tilgreind. Því var gert ráð fyrir því að viðkomandi hefði sveinspróf eða meistarapróf í húsgagnasmíði. Starfið krefjist þess að viðkomandi geti skipulagt eigin verkefni, enda séu byggingar kærða margar og dreifðar og húsgagnasmiður vinni mikið sjálfstætt að sínum verkefnum. Því hafi verið gerð krafa um að viðkomandi gæti í starfi sýnt af sér bæði sjálfstæð og skipulögð vinnubrögð. Krafist hafi verið góðrar almennrar tölvukunnáttu, enda nauðsynlegt að húsgagnasmiður, líkt og aðrir starfsmenn byggingadeildar, geti tekið á móti og svarað rafrænum verkbeiðnum í gegnum tölvukerfi, sinnt tölvubréfum og fleiri almennum tölvuverkefnum sem óhjákvæmileg séu í starfinu. Eins og lýsing á starfseminni og umræddu starfi beri með sér sé ljóst að starfið snúi fyrst og fremst að verklegum þáttum húsgagnasmiðs en hvorki að hönnun né líkanagerð tengdri húsgagnasmíði. Þess vegna hafi ekki sérstaklega verið gert ráð fyrir sérhæfðri tölvukunnáttu hvað það hafi varðað. Eins og lýst hafi verið í auglýsingunni feli starfið í sér töluverð samskipti við starfsfólk og nemendur skólans og því hafi verið gerð krafa um að viðkomandi væri þjónustulundaður og lipur í samskiptum.
  13. Að lokinni fyrstu yfirferð á umsóknargögnum hafi verið ljóst að tveir umsækjendur uppfylltu skilyrði um sveinspróf eða meistarapróf í húsgagnasmíði. Ákveðið hafi verið að bjóða þeim að mæta í viðtal, þ.e. kæranda og þeim sem ráðinn hafi verið. Viðtölin hafi verið tekin 7. apríl 2020 og vegna aðstæðna hafi þau farið fram í gegnum fjarfundabúnað. Að viðtölunum hafi komið sviðsstjóri framkvæmda- og tæknisviðs kærða, byggingastjóri kærða, sem sé næsti yfirmaður húsgagnasmiðs, auk verkefnastjóra á starfsmannasviði sem hafi sérhæfingu í mannauðsmálum. Spurningalisti með stöðluðum spurningum, sem nýttur er hjá kærða við ráðningar, hafi verið notaður í ráðningarviðtölunum og verkefnastjórinn skráð minnispunkta úr viðtölunum.
  14. Að viðtölunum loknum hafi það verið mat þeirra sem að ráðningunni hafi komið að sá sem ráðinn hafi verið væri hæfastur umsækjenda til að gegna starfinu. Sú niðurstaða hafi verið á því byggð að hann hafi mikla reynslu af því að starfa sem húsgagnasmiður, bæði hjá einkafyrirtæki á því sviði en einkum byggingadeild kærða. Hann hafi á sínum tíma starfað sem nemi hjá byggingadeild kærða á meðan á námi hans í húsgagnasmíði hafi staðið og síðar í tímabundnu starfi sem húsgagnasmiður. Hann hafi sinnt viðhaldi á húsgögnum og innréttingum í byggingum kærða og öðrum verkefnum því tengdu.
  15. Karlinn hafi í starfi sínu sem húsgagnasmiður unnið við rafrænt beiðnakerfi byggingadeildar og kynnst öðrum þeim þáttum sem í starfinu felist. Kærandi hafi aftur á móti mjög takmarkaða reynslu af húsgagnasmíði sem slíkri og af umsóknargögnum og viðtali við hana hafi verið ráðið að hún hafi ekki sinnt slíku starfi en hafi starfað við innréttingasmíði um tveggja ára skeið fyrir rúmum áratug.
  16. Kærandi tekur fram að hún telji sig hæfari til að gegna starfinu vegna aukinnar menntunar og tölvukunnáttu. Af því tilefni sé bent á að hæfniskröfur í auglýsingunni hafi miðað við þá menntun og færni sem hafi þótt nauðsynleg fyrir starfið. Eins og starfinu sé lýst í auglýsingunni og starfslýsing beri með sér sé ljóst að aukin menntun kæranda umfram þá sem krafist hafi verið og sérhæfðari tölvukunnátta nýtist ekki sérstaklega í starfinu. Þessi atriði hafi því ekki getað vegið þyngra en bein starfsreynsla af starfi húsgagnasmiðs tengdum þeim verkþáttum sem starfið snúi að.
  17. Ráðningin hafi verið byggð á faglegum forsendum og málefnaleg sjónarmið ráðið niðurstöðu um það hvaða umsækjandi teldist hæfastur til að gegna starfinu. Um það sé vísað til framangreindra málsástæðna. Þar sem það hafi verið mat þeirra sem að ráðningunni hafi komið að kærandi og sá sem ráðinn hafi verið hafi ekki verið jafn hæf til þess að gegna starfinu, hafi forgangsregla jafnréttislaga ekki komið til skoðunar við val á milli umsækjenda.
  18. Hvað varði yfirlit úr umsóknarkerfi skuli tekið fram að um sé að ræða upplýsingar úr umsóknum sem umsækjendur hafi skráð sjálfir, þar á meðal varðandi hæfni á einstökum þáttum. Í viðtölum hafi verið aflað frekari upplýsinga um það sem þar hafi komið fram.

    ATHUGASEMDIR KÆRANDA

  19. Því er mótmælt af kæranda sem ósönnuðu að sá sem ráðinn hafi verið hafi mikla reynslu af því að starfa sem húsgagnasmiður á sama tíma og því sé haldið fram að hún hafi mjög takmarkaða reynslu af húsgagnasmíði. Þá ítrekar kærandi upplýsingar um menntun sína og segir að auk þess að hafa starfað í faginu við innréttingasmíði hafi hún aukna menntun og reynslu í smíði með hin ýmsu efni og aðferðir. Það að sá sem ráðinn hafi verið hafi starfað í umræddri deild geri hann ekki sjálfkrafa hæfari til starfsins. Um sé að ræða nokkuð fjölbreytt starf sem gangi út á að finna lausnir þegar komi að viðhaldi og lagfæringum á húsgögnum kærða. Eins og segi í starfslýsingu þá nái viðhaldið meðal annars til borða, stóla og innréttinga, lagfæringa á hurðum, þess að útbúa gólflista, sprauta og lakka. Kærandi sé jafn vel til þess fallin að sinna starfinu, ef ekki betur.
  20. Gerðar eru athugasemdir við minnispunkta verkefnastjóra á starfsmannasviði kærða sem samhengislausa og að lítið sé á þeim að græða við úrlausn málsins fyrir kærunefndinni. Í auglýsingu um starfið hafi verið gerð krafa um góða almenna tölvukunnáttu en af minnispunktunum megi sjá að sá sem ráðinn hafi verið hafi nýverið tileinkað sér að notast við tölvubréfasendingar. Ekki sé að sjá að það styrki málatilbúnað kærða um að tölvukunnátta karlsins sé almennt góð. Kærði verði að bera hallann af því að minnispunktarnir hafi ekki verið settir fram af meiri fagmennsku. Svör kæranda í starfsviðtalinu séu samhengislaus samkvæmt minnispunktunum og í þau vanti heilar setningar sem gætu varpað betra ljósi á málin. Í starfsviðtalinu hafi sá sem ráðinn hafi verið tekið fram að hann hafi starfað við húsgagnasmíði hjá tilteknu fyrirtæki í hálft ár og starfið snúist um verkstæðisvinnu og innréttingu hótela.
  21. Kærði segi að mat þeirra, sem að ráðningunni hafi komið, hafi verið það að kærandi og sá sem ráðinn hafi verið hafi ekki verið jafn hæf til að gegna starfinu. Einnig sé tekið fram að starfið snúi fyrst og fremst að verklegum þáttum húsgagnasmiðs og sé látið í veðri vaka að mögulega hafi kærandi ekki gert sér grein fyrir því, tekið sé fram að starfið snúist hvorki um hönnun né líkanagerð tengdri húsgagnasmíði. Á þessu sé ekki að sjá að þeir sem að ráðningunni hafi komið hafi haft skilning á eða metið að verðleikum reynslu kæranda og það nám sem hún hafi lagt stund á í Bretlandi. Námið sé mjög yfirgripsmikið með áherslu á smíði, með fjölbreyttum aðferðum og efnivið, og verkefnum af öllum stærðargráðum. Jafnframt sé sláandi að sjá hvaða skilning æðsta menntastofnun landsins sem kærði sé, leggi í hönnun. Hönnun sé fyrst og fremst lausnamiðuð hugsun, aðferð sem sé notuð við verkferla á flestum stöðum í atvinnulífinu.
  22. Ekkert í gögnum kærða sýni fram á að hann hafi byggt ákvörðun sína á faglegum forsendum.

    NIÐURSTAÐA

  23. Í 1. mgr. 1. gr. laga nr. 10/2008 um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla kemur fram að markmið laganna er að koma á og viðhalda jafnrétti og jöfnum tækifærum kvenna og karla og jafna þannig stöðu kynjanna á öllum sviðum samfélagsins. Samkvæmt 1. mgr. 26. gr. laganna er atvinnurekendum óheimilt að mismuna umsækjendum um starf á grundvelli kyns. Ef leiddar eru líkur að beinni eða óbeinni mismunun vegna kynferðis, skal atvinnurekandi sýna fram á að aðrar ástæður en kynferði hafi legið til grundvallar ákvörðun hans, sbr. 4. mgr. 26. gr. sömu laga. Við mat á því hvort ákvæði 26. gr. laganna hafi verið brotin skal taka mið af menntun, starfsreynslu, sérþekkingu eða öðrum sérstökum hæfileikum sem krafa er gerð um í viðkomandi starfi. Verkefni kærunefndar jafnréttismála er að taka erindi til meðferðar og kveða upp skriflegan úrskurð um hvort ákvæði laga þessara hafi verið brotin, sbr. 2. mgr. 5. gr. laganna. Samkvæmt 18. gr. laga um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla, skulu atvinnurekendur og stéttarfélög vinna markvisst að því að jafna stöðu kynjanna á vinnumarkaði.
  24. Ákvörðun kærða um ráðningu húsgagnasmiðs var matskennd stjórnvaldsákvörðun. Í samræmi við það verður almennt að játa kærða nokkurt svigrúm við mat hans á því hvaða málefnalegu sjónarmið skuli lögð til grundvallar og þá hvernig umsækjendur falli að slíkum sjónarmiðum, enda sé að öðru leyti sýnt fram á að fullnægjandi upplýsingar hafi legið fyrir til að slíkt mat geti farið fram, sbr. til hliðsjónar úrskurð kærunefndar jafnréttismála í máli nr. 2/2020.
  25. Kærði birti auglýsingu 19. mars 2020 þar sem auglýst var eftir húsgagnasmið til starfa á bygginga- og tæknideild, framkvæmda- og tæknisviði kærða. Tekið var fram að starfið heyrði undir byggingastjóra kærða. Tilgreind voru helstu verkefni bygginga- og tæknideildar, þar á meðal að deildin annaðist viðhald á húsum, húsgögnum og búnaði ýmiskonar, auk þess að reka meðal annars trésmíðaverkstæði. Tilgreint var að helstu verkefni húsgagnasmiðs væru að annast um viðhald á húsgögnum og húsnæði í byggingum kærða, eiga í samskiptum við starfsfólk og nemendur í tengslum við starfssviðið og sinna öðrum tilfallandi verkefnum. Hæfniskröfur voru skilgreindar sem sveinspróf eða meistarapróf í húsgagnasmíði, sjálfstæð og skipulögð vinnubrögð, góð almenn tölvukunnátta, þjónustulund og lipurð í mannlegum samskiptum. Þá liggur fyrir starfslýsing vegna starfs húsgagnasmiðs þar sem nánar eru skilgreindir helstu verkþættir og ábyrgð húsgagnasmiðs. Af hálfu kærða hefur með vísan til þessara gagna verið byggt á því að starfið snúi fyrst og fremst að verklegri framkvæmd starfs húsgagnasmiðs og vísað til þess í því samhengi að nauðsynleg tölvukunnátta fælist í að geta staðið í rafrænum samskiptum og unnið úr rafrænum verkbeiðnum í gegnum tölvukerfi.
  26. Kærandi og sá sem starfið hlaut voru einu umsækjendurnir sem uppfylltu þá hæfniskröfu að hafa sveinspróf í húsgagnasmíði og voru bæði boðuð í starfsviðtöl sem fóru fram um fjarskiptabúnað en af hálfu kærða munu hafa komið að viðtölunum sviðsstjóri framkvæmda- og tæknisviðs kærða, byggingastjóri kærða, sem sé næsti yfirmaður húsgagnasmiðs, og verkefnastjóri á starfsmannasviði. Nýttur var staðlaður spurningalisti sem notaður er hjá kærða í ráðningarviðtölum og teknir saman minnispunktar úr viðtölunum.
  27. Í framhaldi af viðtölunum var karlmanni boðið starfið sem hann þáði. Kærði mat karlmanninnhæfastan á grundvelli mikillar reynslu af starfi húsgagnasmiðs, bæði hjá einkafyrirtæki en þó einkum vegna starfa í þágu byggingadeildar kærða, fyrst sem nemi í húsgagnasmíði en síðan í tímabundnu starfi að námi loknu. Vísað var til þess að hann hefði sinnt þeim verkum sem í starfinu felast og unnið við rafrænt beiðnakerfi byggingadeildar kærða. Meiri menntun og sérhæfðari tölvukunnátta kæranda hefði ekki breytt þeirri ákvörðun, enda eftir hvorugu óskað í auglýsingu og hafi þessir þættir ekki vegið þyngra en bein starfsreynsla af því að sinna þeim verkþáttum starfs húsgagnasmiðs sem hið auglýsta starf fæli í sér, en í þeim efnum byggi kærandi að mun takmarkaðri reynslu og hafi í raun ekki sinnt slíku starfi heldur unnið við innréttingasmíði í tvö ár fyrir rúmum áratug.
  28. Fyrir liggur að kærandi bjó að umtalsvert meiri menntun en sá sem starfið hlaut en auk sveinsprófs í húsgagnasmíði, sem hún öðlaðist [...], býr kærandi að námi í förðun og námi í mótun leirs og tengdra efna sem hún lagði stund á um þriggja ára skeið árin [...] og svo BA (Hons) gráðu – Model making frá [...] sem hún lagði stund á árin [...]. Sá sem starfið hlaut býr að stúdentsprófi frá 2008, auk sveinsprófs í húsgagnasmiði sem hann hlaut 2014. Þegar hins vegar horft er til auglýsingar um viðkomandi starf, lýsingu kærða á inntaki starfsins sem samrýmist auglýsingunni og fyrirliggjandi starfslýsingu, verður ekki talið ómálefnanlegt af hálfu kærða að líta fram hjá meiri menntun kæranda við mat á hæfni umsækjenda til starfsins. Að auki hefur frekara nám kæranda ekki þannig skírskotun til starfssviðs húsgagnasmiðs hjá kærða að ályktað verði að það geri kæranda hæfari til að sinna því starfi en þann sem starfið hlaut.
  29. Hvað tölvuþekkingu til að sinna umræddu starfi snertir eru ekki forsendur til að meta svo að kærandi sé þeim sem starfið hlaut fremri. Sú sérhæfða tölvuþekking sem kærandi býr að eftir BA nám sitt sýnist vera umfram þarfir hins auglýsta starfs húsgagnasmiðs sem felur fyrst og fremst í sér handiðn. Tölvukunnátta sem starfið útheimtir sýnist afmörkuð við tölvubréfasamskipti og úrvinnslu rafrænna verkbeiðna. Fyrir liggur að sá sem starfið hlaut hefur um nokkurt árabil sinnt sambærilegu starfi hjá kærða og því eru engar forsendur til að telja nauðsynlega hæfni hans minni en kæranda í þessum efnum.
  30. Hvað starfsreynslu snertir sýnist ótvírætt að starfsferill þess sem starfið hlaut falli vel að hinu auglýsta starfi þar sem hann hefur helgað sig vinnu við húsgagnasmíði, fyrst sem nemi um eins og hálfs árs skeið og síðan sem húsgagnasmiður í tæp tvö ár, lengst af í starfi hjá kærða. Starfsreynsla kæranda er á hinn bóginn mun fjölbreyttari, enda umtalsverður aldursmunur á þeim, en sú reynsla er í flestum efnum nokkuð ólík verkefnum húsgagnasmiðs. Síðasta áratug hefur kærandi meðal annars unnið við verslunarstörf, verið fagstjóri leirgerðar, sinnt förðunarstörfum, auk þjónustu- og sölustörfum þeim tengdum, unnið að smíði á gifsmódelum og undirbúningsvinnu við tannsmíði og verið sjálfstætt starfandi við keramikhönnun, listsköpun og þróun eigin verka. Á árabilinu [...] vann hún við innréttingasmíði hjá sérhæfðu trésmíðaverkstæði. Þess er getið í minnispunktum úr viðtali að svar kæranda við spurningu um færni, sem ákjósanlegt væri að bæta til að geta sinnt starfinu, væri að hún þyrfti að kynnast vélakosti, þekkingin væri til staðar en læra þyrfti á vélar.
  31. Reynsla þess sem starfið hlaut fellur til muna betur að hinu auglýsta starfi þegar horft er til þess í hve ríkum tengslum fyrri störf hans eru við hið auglýsta starf. Þannig hafa þau verkefni sem hann hefur leyst af hendi, bæði um skamma hríð hjá einkafyrirtæki og í tímabundnu starfi hjá kærða, falið í sér samskonar úrvinnslu verka og hið auglýsta starf lýtur að. Í störfum sínum sem húsgagnasmiður má ætla að hann hafi notað flest þau handverkfæri sem nýtt eru í trésmíði, enda er þess getið í minnispunktum úr ráðningarviðtali um færni sem ákjósanlegt væri að bæta, að máli skipti að kunna vel á öll tæki og verkfæri og nefnt að hann þyrfti að læra betur á eitt tiltekið sérhæft rafknúið tæki.
  32. Af fyrirliggjandi gögnum kemur ekki fram að kærði hafi gert samanburð á kæranda og þeim sem starfið hlaut hvað varðar hæfniskröfur samkvæmt auglýsingu um sjálfstæð og skipulögð vinnubrögð, þjónustulund og lipurð í mannlegum samskiptum. Eins var ekki rætt við þá umsagnaraðila sem kærandi vísaði á en bygggingastjóri kærða var einn þriggja umsagnaraðila þess sem starfið hlaut og tók þátt í ráðningarferlinu, auk þess sem deildarstjóri byggingadeildar kærða var umsagnaraðili karlsins.
  33. Þótt minnispunktar þeir, sem ritaðir voru af hálfu kærða vegna viðtala, hafi verið takmarkaðir og mat kærða í raun einskorðast við að leggja mat á menntun og reynslu umsækjenda af að vinna við húsgagnasmíði þá skapar sú sérhæfða reynsla sem sá sem starfið hlaut býr að umfram kæranda honum þá sérstöðu að ekki hafa verið leiddar líkur að því að kæranda hafi verið mismunað við ráðninguna á grundvelli kynferðis.
  34. Vegna athugasemda kæranda er varða umsóknarferlið áréttast að meðferð málsins fyrir kærunefnd jafnréttismála afmarkast við að skera úr því hvort gætt hafi verið að ákvæðum laga nr. 10/2008. Telji kærandi almennt séð að ekki hafi verið gætt að lögum og reglum við ráðninguna getur hún eftir atvikum borið slíkt mál undir umboðsmann Alþingis.
  35. Að öllu framangreindu virtu, einkum þeirri staðreynd að karlinn sem starfið hlaut stóð kæranda framar hvað varðar reynslu af verklegri framkvæmd starfsins, telst kærandi ekki hafa leitt líkur að því að henni hafi verið mismunað á grundvelli kyns við ráðningu í starf húsgagnasmiðs sem auglýst var 17. mars 2020.
  36. Í ljósi niðurstöðu málsins eru ekki efni til þess að úrskurða um kostnað kæranda við að hafa kæruna uppi.
  37. Uppkvaðning úrskurðar hefur dregist vegna sumarleyfa, anna kærunefndarinnar og gagnaöflunar.

Ú r s k u r ð a r o r ð

Kærði, Háskóli Íslands, braut ekki gegn lögum nr. 10/2008 um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla er kæranda, A, var ekki boðið starf húsgagnasmiðs sem auglýst var laust til umsóknar 17. mars 2020.

 

Björn L. Bergsson

 

Guðrún Björg Birgisdóttir

 

Þórey S. Þórðardóttir

 

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta