Hoppa yfir valmynd

Mál nr. 218/2020 - Úrskurður

 

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 218/2020

Fimmtudaginn 1. október 2020

A

gegn

Vinnumálastofnun

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Kári Gunndórsson lögfræðingur, Agnar Bragi Bragason lögfræðingur og Arnar Kristinsson lögfræðingur.

Með kæru, dags. 30. apríl 2020, kærði A, til úrskurðarnefndar velferðarmála ákvörðun Vinnumálastofnunar, dags. 7. apríl 2020, um greiðslur atvinnuleysisbóta.

I.  Málsatvik og málsmeðferð

Kærandi sótti um greiðslur atvinnuleysisbóta samhliða minnkuðu starfshlutfalli hjá Vinnumálastofnun 25. mars 2020. Umsókn kæranda var samþykkt 4. apríl 2020 og fékk hún fyrstu greiðslu 7. apríl 2020. Í kjölfarið gerði kærandi athugasemd við útreikning Vinnumálastofnunar og vísaði til þess að hún hefði verið í orlofi í fimm vikur á þriggja mánaða viðmiðunartímabili meðaltals heildarlauna.

Kæra barst úrskurðarnefnd velferðarmála 30. apríl 2020. Með bréfi, dags. 4. maí 2020, óskaði úrskurðarnefndin eftir greinargerð Vinnumálastofnunar ásamt gögnum málsins. Greinargerð Vinnumálastofnunar barst 25. júní 2020 þar sem fram kemur að stofnunin hafi fallist á beiðni kæranda og leiðrétt greiðslur til hennar. Því væri ekki þörf á að úrskurðarnefndin tæki kæruna til efnismeðferðar. Með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 26. júní 2020, var greinargerðin send kæranda til kynningar. Athugasemdir bárust frá kæranda 2. júlí 2020 og voru þær sendar Vinnumálastofnun til kynningar með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 9. júlí 2020. Frekari athugasemdir bárust ekki. Með erindi úrskurðarnefndar, dags. 31. ágúst 2020, var óskað eftir nánari upplýsingum frá Vinnumálastofnun um útreikning á greiðslum til kæranda. Svar barst frá stofnuninni 10. september 2020.

II. Sjónarmið kæranda

Í kæru til úrskurðarnefndar fer kærandi fram á að umsókn hennar um atvinnuleysisbætur verði tekin til endurskoðunar og sá tími sem hún hafi verið í orlofi verði dreginn frá við útreikning á greiðslum atvinnuleysisbóta. Í athugasemdum kæranda vegna greinargerðar Vinnumálastofnunar er vísað til þess að útreikningur á greiðslum til hennar sé enn ekki réttur.

III. Sjónarmið Vinnumálastofnunar

Í greinargerð Vinnumálastofnunar kemur fram að kærandi hafi sótt um atvinnuleysisbætur samhliða minnkuðu starfshlutfalli þann 25. mars 2020. Umsókn kæranda væri byggð á svokallaðri hlutabótaleið, sbr. bráðabirgðaákvæði XIII. með lögum um atvinnuleysistryggingar. Með bráðabirgðaákvæðinu sé mælt fyrir um nýja heimild til að greiða út atvinnuleysisbætur samhliða minnkuðu starfshlutfalli. Heimildin feli í sér nýjan útreikning á skerðingu vegna tekna atvinnuleitenda byggt á meðaltekjum einstaklinga á þriggja mánaða tímabil áður en launamaður hafi misst starf sitt að hluta. Starfshlutfall kæranda hafi verið minnkað frá og með 16. mars. Umsókn kæranda hafi verið samþykkt þann 4. apríl og kærandi fengið greiddar atvinnuleysisbætur fyrir marsmánuð þann 7. apríl. Á greiðsluseðli kæranda komi fram hvaða meðaltekjur stofnunin hafi byggt á við útreikning á hlutabótum. Kærandi hafi haft samband við stofnunina í byrjun apríl og gert athugasemdir við útreikning á greiðslum til hennar. Kærandi hafi verið í orlofi í desember og janúar og meðallaun á tímabilinu því umtalsvert lægri en föst laun hennar.

Í kæru til úrskurðarnefndar geri kærandi kröfu um að stofnunin taki ekki mið af uppgefnum launum í þeim mánuðum sem hún hafi verið í orlofi við útreikning á meðaltekjum vegna hlutabótagreiðslna til hennar. Vinnumálastofnun hafi tekið mál kæranda fyrir þann 7. maí og það hafi verið niðurstaða stofnunarinnar að fallast á beiðni kæranda. Ljóst hafi verið að kærandi hafi fengið greidd laun inn á orlofsreikning samhliða starfi sínu og að tekjur á viðmiðunartímabili endurspegluðu ekki föst mánaðarlaun kæranda hjá vinnuveitanda. Því hafi laun kæranda í janúarmánuði ekki verið höfð til hliðsjónar við mat á meðaltekjum hennar. Meðaltekjur kæranda hafi hækkað úr 298.047 kr. í 362.204. kr. við þessa tilhögun. Greiðslur til kæranda hafi verið leiðréttar 8. maí 2020. 

Með vísan til þess sem að ofan greini telji Vinnumálastofnun að stofnunin hafi þegar orðið við þeim kröfum sem kærandi geri í kæru sinni til nefndarinnar og því sé ekki þörf á að úrskurðarnefndin taki stjórnsýslukæruna til efnismeðferðar.

Þá bendir stofnunin á að með lögum nr. 44/2020 um breytingu á lögum um atvinnuleysistryggingar og lögum um Ábyrgðasjóð launa hafi verið samþykkt breyting á hlutabótaleiðinni. Með þeim breytingum sé launamanni meðal annars heimilt að óska eftir að miðað verði við meðaltal heildarlauna í hverjum mánuði á tekjuárinu 2019 í stað þriggja mánaða tímabils áður en launamaður hafi misst starf sitt að hluta. Vinnumálastofnun vinni nú að tæknilausn til að taka við beiðnum um endurútreikning á viðmiðunartímabili svo að unnt verði að taka við og afgreiða slíkar umsóknir með skjótum og skilvirkum hætti.

Í svari Vinnumálastofnunar frá 10. september 2020 við fyrirspurn úrskurðarnefndarinnar kemur fram að kærandi hafi þegar óskað eftir endurútreikningi á grundvelli framangreindrar heimildar í lögum nr. 44/2020. Ekki sé búið að afgreiða þá beiðni en verði niðurstaðan sú að betra sé að miða við allt tekjuárið 2019 muni stofnunin leiðrétta greiðslur. Ef breyting á viðmiðunartekjum leiði til lægri greiðslna muni Vinnumálastofnun ekki breyta útreikningi.

IV. Niðurstaða

Kærð er ákvörðun Vinnumálastofnunar, dags. 7. apríl 2020, um greiðslur atvinnuleysisbóta til handa kæranda samhliða minnkuðu starfshlutfalli á grundvelli XIII. kafla bráðabirgðaákvæðis laga nr. 54/2006 um atvinnuleysistryggingar.

Ágreiningur málsins lýtur að útreikningi Vinnumálastofnunar á meðaltali heildarlauna kæranda. Undir rekstri málsins óskaði kærandi eftir endurútreikningi á grundvelli heimildar í lögum nr. 44/2020, um breytingu á lögum nr. 54/2006. Úrskurðarnefnd velferðarmála telur að kærandi hafi með því óskað eftir endurupptöku málsins hjá Vinnumálastofnun, sbr. 24. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, og að sögn stofnunarinnar er málið í vinnslu þar.

Þegar aðili máls sættir sig ekki við stjórnvaldsákvörðun standa honum til boða ýmsar leiðir til þess að fá ákvörðunina endurskoðaða. Hann getur til dæmis óskað eftir endurupptöku málsins eða kært ákvörðunina. Aðili máls getur aftur á móti ekki valið báðar þessar leiðir samtímis. Í ljósi þess að Vinnumálastofnun hefur samþykkt beiðni kæranda um endurupptöku málsins er það mat úrskurðarnefndarinnar að málið sé ekki tækt til efnismeðferðar. Kærunni er því vísað frá úrskurðarnefnd velferðarmála.

Úrskurðarnefndin bendir á að kærandi getur lagt inn nýja kæru til úrskurðarnefndarinnar þegar ný ákvörðun Vinnumálastofnunar liggur fyrir.


 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Kæru A, er vísað frá úrskurðarnefnd velferðarmála.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

Kári Gunndórsson

 

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta