Hoppa yfir valmynd

Nr. 110/2020 Úrskurður

 

 

KÆRUNEFND ÚTLENDINGAMÁLA

 

Þann 19. mars 2020 er kveðinn upp svohljóðandi

úrskurður nr. 110/2020

í stjórnsýslumálum nr. KNU20010049 og KNU20010050

 

Beiðni [...], [...] og barns þeirra um endurupptöku

 

I.             Málsatvik

Með úrskurði kærunefndar útlendingamála nr. 197/2019, dags. 9. maí 2019, staðfesti nefndin ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 15. febrúar 2019, um að synja [...], fd. [...], [...], fd. [...] (hér eftir kærendur), og barni þeirra, [...], fd. [...] (hér eftir A), ríkisborgurum Pakistan, um alþjóðlega vernd á Íslandi ásamt því að synja þeim um dvalarleyfi á grundvelli 74. gr. laga um útlendinga nr. 80/2016.

Niðurstaða kærunefndar var birt fyrir kærendum þann 13. maí 2019. Þann 17. maí sama ár lögðu kærendur fram beiðni um frestun réttaráhrifa á úrskurði nefndarinnar. Var þeirri beiðni synjað þann 4. júní 2019 með úrskurði kærunefndar nr. 296/2019. Þann 29. janúar 2020 barst kærunefnd beiðni um endurupptöku málsins, ásamt fylgigagni. Kærendur óska eftir endurupptöku á úrskurði kærunefndar útlendingamála með vísan til 24. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 og að þeim verði veitt dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða, sbr. 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga. Kærendur krefjast þess til viðbótar að þeim verði veitt dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða, sbr. 2. mgr. 74. gr. laga um útlendinga og 1. gr. reglugerðar nr. 122/220 um breytingu á reglugerð um útlendinga nr. 540/2017.

II.            Málsástæður og rök kærenda

Í greinargerð vísa kærendur til 24. gr. stjórnsýslulaga um rétt aðila til endurupptöku ef atvik hafa breyst verulega frá því ákvörðun var tekin. Kærendur byggja aðallega á því að sá langi tími sem liðinn sé frá því að úrskurður kærunefndar hafi verið birtur fyrir þeim feli í sér verulega breytt atvik frá því að ákvörðunin hafi verið tekin. Þannig séu rúm tvö ár síðan kærendur hafi lagt fram umsókn um alþjóðlega vernd hér á landi. Við mat á því hvort atvik séu verulega breytt vegna langrar dvalar hér á landi beri að skoða sérstaklega hagsmuni og aðstæður A sem sé sjö ára gamall. Kærendur rekja í framhaldinu þau ákvæði laga um útlendinga sem lúta að málsmeðferðartíma í málum sem varða umsókn um alþjóðlega vernd og vísa jafnframt til markmiðs laganna um að málsmeðferðin sé skilvirk. Þá er vísað til ákvæðis 2. mgr. 74. gr. laga um útlendinga sem veitir heimild til útgáfu dvalarleyfis fái útlendingur ekki niðurstöðu á stjórnsýslustigi innan 18 mánaða frá því að umsókn var fyrst lögð fram. Af umræddum ákvæðum, sem og orðalagi í frumvarpi til laganna, megi ráða að einn megintilgangur með setningu ákvæða um tímafresti hafi verið sá að tryggja umsækjendum um alþjóðlega vernd ákveðna tryggingu fyrir því að afgreiðsla umsókna þeirra dragist ekki úr hófi. Þannig sé viðurkennt að óhóflegur dráttur á afgreiðslu umsókna sé til þess fallinn að skaða hagsmuni umsækjenda og að langvarandi óvissa, svo sem um framtíðaráform, dvalarstað og öryggi geti haft verulega neikvæð áhrif á heilsu og velferð einstaklinga. Þá sé almennt viðurkennt að þessum sjónarmiðum sé gefið ríkara vægi við ákvarðanatöku sem varði börn. Í greinargerð rekja kærendur jafnframt þær breytingar sem gerðar hafi verið á lögum um útlendinga undanfarin ár í því skyni að stytta tímafresti í málum sem varða börn. Byggja kærendur á því að þegar breytingarnar séu skoðaðar megi sjá að sameiginlegt markmið þeirra sé að tryggja börnum sem hafi verið búsett hér á landi í töluverðan tíma áframhaldandi leyfi til dvalar. Ljóst sé að löggjafinn og fyrrverandi dómsmálaráðherra hafi litið svo á við setningu umræddra ákvæða að nauðsynlegt hafi verið að koma í veg fyrir að börn sem hafi dvalið hér lengi og fest rætur verði send úr landi. Vísa kærendur einnig til álits umboðsmanns Alþingis í máli nr. 9722/2018, en þar komi fram sjónarmið um túlkun frests skv. 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga um töku máls til efnismeðferðar. Telja kærendur að þótt tímafrestur 2. mgr. 74. gr. laga um útlendinga hafi ekki komið til skoðunar í álitinu komi fram áhugaverð sjónarmið um það hvaða sjónarmið umboðsmaður telji rétt að leggja til grundvallar við ákvörðun á lok frestsins. Taki umboðsmaður undir þá afstöðu kærunefndar að frestinum í 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga ljúki við flutning til viðtöku ríkis, enda sé flutningurinn á ábyrgð stjórnvalda.

Kærendur telja að unnt sé að slá því föstu að eyða sé í núgildandi lögum um útlendinga, en í lögunum sé ekki að finna skýrt ákvæði sem fjalli um þann frest sem stjórnvöld hafi til að framkvæma úrskurð kærunefndar um synjun á alþjóðlegri vernd. Þá sé ekkert ákvæði sem kveði á um að umsækjandi öðlist rétt til dvalarleyfis eða endurupptöku máls í þeim tilvikum þegar stjórnvöld birta lokaniðurstöðu í máli innan 18 mánaða, en yfirvöldum tekst ekki að flytja fólk úr landi af ástæðum sem ekki verða raktar til umsækjanda. Þannig geti komið upp sú staða að fólk sé hér á landi mánuðum eða jafnvel árum saman án þess að stjórnvöldum takist að flytja það úr landi. Á meðan löggjafinn hafi ekki brugðist við umræddri eyðu í lögum um útlendinga beri stjórnvöldum að fylla í eyðurnar um það hvenær sé rétt að endurupptaka mál á grundvelli þess að ákvörðun um boð eða bann hafi breyst verulega frá því að ákvörðun var tekin. Við slíka ákvarðanatöku beri að líta til markmiða laga um útlendinga, sbr. 1. mgr. 2. gr. laganna, um að tryggja réttaröryggi útlendinga sem koma til landsins og mannúðlega og skilvirka meðferð stjórnvalda. Fram kemur að A hafi verið fjögurra ára við komu til landsins en sé nú sjö ára. Hann þekki ekkert annað land en Ísland sem heimaland sitt. Telja kærendur, þá sérstaklega með tilliti til hagsmuna barnsins, að ekki verði hjá því komist að fallast á beiðni um endurupptöku.

Verði fallist á endurupptöku krefjast kærendur þess að A verði veitt dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða, sbr. 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga, og að kærendum verði veitt sama leyfi til að tryggja einingu fjölskyldunnar. Vísa kærendur til athugasemda við ákvæðið í frumvarpi til laga um útlendinga um að sérstakt tillit skuli tekið til barna, sem og ákvæða barnalaga og barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna. Byggja kærendur á því að ljóst sé að hagsmunum A sé best borgið í áframhaldandi öryggi hér á landi. Með hliðsjón af þeim sjónarmiðum að baki styttingu tímafresta í málum sem varða börn og þeim sterku tengslum sem A hefur myndað við landið telja kærendur ljóst að það sé honum fyrir bestu að verða veitt dvalarleyfi hér á landi. Kærendur krefjast þess til viðbótar að fjölskyldunni verði veitt dvalarleyfi á grundvelli 2. mgr. 74. gr. laga um útlendinga, sbr. 1. gr. reglugerðar nr. 122/2020. Í reglugerðinni komi fram að heimilt sé að veita barni, sem sótt hafi um vernd og ekki fengið niðurstöðu í máli sínu á stjórnsýslustigi innan 16 mánaða frá því að það sótti fyrst um alþjóðlega vernd hér á landi, dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða, að uppfylltum öðrum skilyrðum. Fram kemur að rúmir 17 mánuðir hafi liðið frá því að kærendur hafi lagt fram umsóknir um alþjóðlega vernd þar til úrskurður kærunefndar hafi verið kveðinn upp í máli þeirra. Sé því ljóst að A uppfylli grunnskilyrði ákvæðisins. Þá byggja kærendur á því að önnur skilyrði fyrir veitingu leyfisins séu uppfyllt.

III.          Niðurstaða kærunefndar útlendingamála

Um endurupptöku stjórnsýslumáls

Samkvæmt 24. gr. stjórnsýslulaga á aðili máls rétt á því að mál hans sé tekið upp á ný ef ákvörðun hefur byggst á ófullnægjandi eða röngum upplýsingum um málsatvik eða íþyngjandi ákvörðun um boð eða bann hefur byggst á atvikum sem breyst hafa verulega frá því að ákvörðun var tekin.

Kærunefnd kvað upp úrskurð í máli kærenda þann 9. maí 2019, en með úrskurðinum var komist að þeirri niðurstöðu að synja þeim og A um alþjóðlega vernd og dvalarleyfi á grundvelli 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga. Eins og fram er komið byggja kærendur endurupptökubeiðni á því að atvik í máli þeirra séu verulega breytt í ljósi þess tíma sem hafi liðið frá því að úrskurður kærunefndar hafi verið kveðinn upp, án þess að komið hafi til flutnings þeirra af landinu. Þá byggja kærendur á því að A uppfylli skilyrði 1. gr. reglugerðar nr. 122/2020, um breytingu á reglugerð um útlendinga nr. 540/2017.

Þann 17. febrúar 2020 setti dómsmálaráðherra reglugerð nr. 122 um breytingu á reglugerð um útlendinga nr. 540/2017 og tók reglugerðin gildi við birtingu, þann 18. febrúar sl. Með reglugerðarbreytingunni var nýju ákvæði, 32. gr. d., bætt við reglugerð nr. 540/2017. Í 1.mgr. ákvæðisins kemur fram að umsóknum barna skv. 37. og 39. gr. laga um útlendinga skuli svarað innan 16 mánaða. Þá er kveðið á um í 2. mgr. ákvæðisins að þrátt fyrir 1. málsl. 2. mgr. 74. gr. laga um útlendinga sé heimilt að veita barni, sem sótt hafi um alþjóðlega vernd og ekki fengið niðurstöðu í máli sínu á stjórnsýslustigi innan 16 mánaða frá því það sótti fyrst um alþjóðlega vernd hér á landi, dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða, að uppfylltum öðrum skilyrðum. Fram kemur í 2. gr. reglugerðar nr. 122/2020 að hún sé sett samkvæmt heimild í 5. mgr. 23. gr. laga um útlendinga nr. 80/2016 og að hún öðlist þegar gildi.

Kærendur sóttu um alþjóðlega vernd hér á landi þann 1. desember 2017 og var úrskurður kærunefndar í máli þeirra birtur þeim þann 13. maí 2019, eða rúmum 17 mánuðum eftir framlagningu umsóknar um alþjóðlega vernd. Er samkvæmt framangreindu ljóst að A fékk ekki niðurstöðu í mál sitt innan 16 mánaða. Eru atvik málsins verulega breytt frá því að kærunefnd kvað upp úrskurð í máli A og því skilyrði uppfyllt fyrir endurupptöku málsins á grundvelli 24. gr. stjórnsýslulaga. Í ljósi meginreglunnar um einingu fjölskyldunnar verður mál kærenda einnig endurupptekið.

Ákvæði 1. og 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga

Kærunefnd útlendingamála hefur lagt mat á aðstæður í Pakistan m.a. með hliðsjón af eftirfarandi skýrslum:

·         Pakistan 2019 Human Rights Report (U.S. Department of State, 11. mars 2020);

·         Freedom in the World 2019 – Pakistan (Freedom House, 4. febrúar 2019);

·         World Report 2020 – Pakistan (Human Rights Watch, 14. janúar 2020);

  • State of Human Rights in 2018 (Human Rights Commission of Pakistan, 16. apríl 2019);

·         Pakistan - Country Fact Sheet 2017 (version 1) (Bundesamt für Migration und Flüchtlinge, 9. apríl 2018);

  • Mänskliga rättigheter, demokrati och rättstatens principer i Pakistan 2015–2016 (Utrikesdepartimentet, 26. apríl 2017);
  • Country Policy and Information Note Pakistan: Background information, including actors of protection, and internal relocation (UK Home Office, júní 2017);
  • EASO Country of Origin Report – Pakistan Security Situation (EASO, ágúst 2017);
  • Country Information and Guidance Pakistan: Women fearing gender-based violence (UK Home Office, febrúar 2020);
  • Pakistan: First Information Reports (FIRs) (2010-December 2013) (Immigration and Refugee Board of Canada, 10. janúar 2014);

·         Pakistan: Honour killings targeting men and women (Immigration and Refugee Board of Canada, 15. janúar 2013);

·         Vefsíða lögreglu í Punjab (https://www.punjabpolice.gov.pk/igp_complaint_center_8787, sótt 18. mars 2020);

  • Vefsíða Human Rights Commission of Pakistan (http://hrcp-web.org/hrcpweb/, sótt 18. mars 2020);
  • Vefsíða: Office of the Ombudsman Punjab (http://www.ombudsmanpunjab.gov.pk/mandate, sótt 18. mars 2020);
  • Stjórnarskrá Pakistan (http://na.gov.pk/uploads/documents/1333523681_951.pdf).

Samkvæmt ofangreindum gögnum er Pakistan sambandslýðveldi með rúmlega 200 milljónir íbúa. Þann 30. september 1947 gerðist Pakistan aðili að Sameinuðu þjóðunum. Ríkið fullgilti alþjóðasamning um borgaraleg og stjórnmálaleg réttindi árið 2010 og alþjóðasamning um efnahagsleg, félagsleg og menningarleg réttindi árið 2008. Ríkið fullgilti alþjóðasamning um afnám alls kynþáttamisréttis árið 1966 og samning Sameinuðu þjóðanna gegn pyndingum og annarri grimmilegri, ómannlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu árið 2010. Þá fullgilti ríkið jafnframt samning um afnám allrar mismununar gagnvart konum árið 1996, en ríkið hefur hins vegar ekki undirritað valfrjálsa viðbótarbókun við samninginn. Pakistan fullgilti samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins árið 1990.

Í ofangreindum gögnum kemur fram að þrátt fyrir að pakistönsk löggjöf banni handahófskenndar handtökur og varðhald jafnframt sem lögin kveði á um rétt til að vefengja lögmæti handtöku fyrir dómi þá sé spilling innan lögreglunnar vandamál í Pakistan, en spilling á lægri stigum lögreglunnar sé algeng og séu dæmi um að lögreglan þiggi mútur. Einstaklingar tilkynni um meinta glæpi eða brot til lögreglunnar með svokallaðri FIR skýrslu (e. first instance report). FIR skýrslan sé fyrsta skrefið við rannsókn sakamáls og sé hún oftast lögð fram af þriðja aðila þó svo að lögreglan hafi heimild til að gera slíka skýrslu sjálf. FIR skýrslan veiti lögreglunni heimild til að halda meintum brotamanni í gæsluvarðhaldi í 24 klukkustundir á grundvelli rannsóknarhagsmuna. Hægt sé að leggja fram slíka skýrslu hjá lögreglumanni, á lögreglustöð og á vefsíðum ákveðinna lögregluembætta í Pakistan. Þá hafi lögreglan í Punjab sett upp rafrænt kvörtunarkerfi til þess að taka á móti kvörtunum almennra borgara sem telji lögregluna ekki hafa sinnt skyldum sínum. Kvörtunum vegna þess að FIR skýrsla hafi ekki verið skráð eigi að svara innan 72 klukkustunda.

Þrátt fyrir að pakistönsk lög kveði á um sjálfstætt dómskerfi, réttláta málsmeðferð og að enginn skuli sviptur lífi, eignum eða frelsi án dóms og laga þá hafi dómskerfið verið gagnrýnt fyrir spillingu. Spilling sé innan héraðsdómstóla, þeir séu afkastalitlir og undir þrýstingi frá auðugum og áhrifamiklum einstaklingum einkum á sviði trúar eða stjórnmála. Þá kemur fram að þrátt fyrir að veikleikar séu í réttarkerfinu í Pakistan þá sé spilling refsiverð samkvæmt lögum, en ábyrgðarskrifstofa ríkisins (e. National Accountability Bureau (NAB)) hafi það hlutverk að útrýma spillingu í stjórnkerfum landsins með vitundarvakningu, forvörnum, rannsókn spillingarmála jafnframt sem skrifstofan ákæri í slíkum málum. NAB hafi heimild samkvæmt lögum að halda einstaklingum í 15 daga án þess að ákæra og mögulegt sé að framlengja varðhaldið með samþykki dómstóla. Synja megi einstaklingnum um leyfi til að ráðfæra sig við lögmann meðan á rannsókn standi. Þá sé ekki unnt að greiða tryggingu til að losna úr varðhaldi heldur sé það einungis ákvörðun formanns NAB að láta einstakling lausan.

Í lok árs 2016 hafi hæstiréttur Pakistans boðað til fundar þar sem hann hafi tilkynnt um rannsókn á ásökunum um spillingu sem hafi snúið að forsætisráðherra landsins, Sharif, og fjölskyldu hans. Þá hafi NAB verið falið að rannsaka og ákæra forsætisráðherrann og fjölskyldumeðlimi hans. Málið hafi verið höfðað í september á síðasta ári og sé það enn í gangi.

Í framangreindum skýrslum kemur jafnframt fram að í Punjab sé starfandi umboðsmaður (e. Ombudsman Punjab) sem hafi það hlutverk að vernda rétt borgaranna gegn brotum opinberra starfsmanna og koma í veg fyrir spillingu. Umboðsmaðurinn geti tekið til skoðunar öll ætluð brot opinberra starfsmanna sem varði borgara landsins að undanskildum ætluðum brotum æðsta dómstólsins (e. High Court) og dómstóla sem vinni undir yfirstjórn hans.

Í ofangreindum gögnum kemur fram að MQM stjórnmálaflokkurinn í Pakistan hafi upphaflega verið stofnaður til að standa vörð um réttindi urdu-mælandi einstaklinga sem hafi átt undir högg að sækja síðastliðin ár. Eftir að formaður flokksins hafi árið 2016 haldið umdeilda ræðu þar sem hann hafi m.a. gagnrýnt pakistanska herinn harðlega þá hafi skrifstofum flokksins verið lokað jafnframt sem háttsettir einstaklingar innan flokksins hafi verið handteknir. Af gögnum sé ljóst að meðlimir MQM eigi á hættu að verða fyrir áreiti og ofsóknum.

Umsókn kærenda um alþjóðlega vernd var byggð á því að þau óttuðust um líf sitt í heimaríki vegna fjölskyldudeilna sem tengdust hjúskap kærenda. Við meðferð málsins komu í ljós gögn sem sýndu að frásögn kærenda um ósætti fjölskyldna þeirra við hjónaband þeirra var í meginatriðum ósönn og viðurkenndu kærendur að hafa reynt að blekkja íslensk yfirvöld til að styrkja umsókna sína um alþjóðlega vernd. Í endurupptökubeiðni kærenda kemur ekkert fram sem breytt getur fyrra mati nefndarinnar á þeim þáttum sem skipta máli vegna umsóknar um alþjóðlega vernd. Telur kærunefnd því að kærendur og A hafi ekki ástæðuríkan ótta við ofsóknir í skilningi 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga. Við þetta mat hefur kærunefnd, í samræmi við 5. mgr. 37. gr. laga um útlendinga, litið sérstaklega til hagsmuna, öryggis, velferðar og félagslegs þroska A. Þá hefur ekkert komið fram sem breytt getur niðurstöðu málsins að því er varðar 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga. Telur kærunefnd því ljóst að kærendur og A uppfylli ekki skilyrði 1. og 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga um viðurkenningu á stöðu sem flóttamenn hér á landi.

Dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða skv. 2. mgr. 74. gr. laga um útlendinga

Í 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga kemur m.a. fram að veita megi útlendingi dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða ef hann getur sýnt fram á ríka þörf á vernd, t.d. af heilbrigðisástæðum, vegna erfiðra félagslegra aðstæðna viðkomandi eða almennra aðstæðna í heimaríki. Í 2. mgr. 74. gr. laga um útlendinga kemur fram að útlendingur sem sótt hefur um alþjóðlega vernd hér á landi en ekki fengið niðurstöðu í máli sínu á stjórnsýslustígi innan 18 mánaða skuli veitt dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða að ákveðnum skilyrðum uppfylltum. Þá segir í ákvæðinu að því verði ekki beitt nema skorið hafi verið úr því að útlendingur uppfylli ekki skilyrði 37. og 39. gr. laga um útlendinga. Með reglugerð nr. 122/2020 var tímaviðmið ákvæðisins stytt úr 18 í 16 mánuði ef um er að ræða umsókn barns.

Eins og fram er komið lögðu kærendur fram umsókn um alþjóðlega vernd á Íslandi þann 1. desember 2017. Niðurstaða kærunefndar var að staðfesta ákvarðanir Útlendingastofnunar, dags. 16. mars 2019, um að synja þeim og A um alþjóðlega vernd og dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða. Úrskurður kærunefndar var birtur þeim þann 13. maí 2019. Þegar ofangreindur úrskurður kærunefndar var birtur hafði mál kærenda og A verið í málsmeðferð hjá stjórnvöldum í rúma 17 mánuði. A telst því ekki hafa fengið niðurstöðu í mál sitt innan þeirra tímamarka sem getið er í 1. gr. reglugerðar nr. 122/2020. Er því heimilt að veita A dvalarleyfi á grundvelli ákvæðisins að uppfylltum öðrum skilyrðum 74. gr.

Samkvæmt a-lið 2. mgr. 74. gr. laga um útlendinga verður dvalarleyfi skv. 2. mgr. ekki veitt nema skýrsla hafi verið tekin af umsækjanda um alþjóðlega vernd. Þá er ljóst að undanþáguheimild 4. mgr. 74. gr. laganna nær aðeins til skilyrða 3. mgr. 74. gr. en ekki til skilyrða 2. mgr. ákvæðisins. Nefndin telur þó engu að síður að rétt sé að túlka skilyrði a-liðar 2. mgr. í samræmi við 2. mgr. 10. gr. laga um útlendinga sem mælir fyrir um að barni sem myndað getur eigin skoðanir skuli tryggður réttur til að tjá sig í máli um það sem það varði og að tillit skuli tekið til skoðana þess í samræmi við aldur og þroska. Að mati kærunefndar er A það ungur að árum að ekki er raunhæft að hann hafi myndað sér skoðun sem þýðingu geti haft í þessu máli. Af þeim sökum er óraunhæft að ætlast til að tekin hafi verið skýrsla af honum. Nefndin telur því með vísan til framangreinds að ákvæði a-liðar 2. mgr. 74. gr. laga um útlendinga standi ekki í vegi fyrir því að A verði veitt dvalarleyfi á grundvelli málsgreinarinnar. Er það mat nefndarinnar að A uppfylli skilyrði a- d-liða 2. mgr. 74. gr. laga um útlendinga og að ekkert hafi komið fram í málinu sem gefi til kynna að ákvæði 3. mgr. 74. gr. laganna eigi við. Með vísan til framangreinds verður A veitt dvalarleyfi á grundvelli 74. gr. laga um útlendinga, sbr. 1. gr. reglugerðar nr. 122/2020, um breytingu á reglugerð um útlendinga.

Í ljósi meginreglunnar um einingu fjölskyldunnar verður kærendum einnig veitt dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða skv. 74. gr. laga um útlendinga.

Að öllu framangreindu virtu er það niðurstaða kærunefndar að veita beri kærendum og A dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða, sbr. 74. gr. laga um útlendinga.

 

 

 

 


 

 

Úrskurðarorð

 

Fallist er á beiðni kærenda og barns þeirra á endurupptöku á máli þeirra.

Lagt er fyrir Útlendingastofnun að veita kærendum og barni þeirra dvalarleyfi á grundvelli 74. gr. laga um útlendinga. Ákvarðanir Útlendingastofnunar í málum kærenda og barns þeirra varðandi umsóknir þeirra um alþjóðlega vernd eru staðfestar.

 

The appellants and their child’s request for re-examination of their cases is granted.

The Directorate of Immigration is instructed to issue residence permits for the appellants and their child based on Article 74 of the Act on Foreigners. The decisions of the Directorate of Immigration in the cases of the appellants and their child related to their applications for international protection are affirmed.

 

 

 

Hjörtur Bragi Sverrisson

 

 

 

 

 

                                                    

Þorbjörg Inga Jónsdóttir                                                              Bjarnveig Eiríksdóttir


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta