Hoppa yfir valmynd

Nr. 535/2019 Úrskurður

KÆRUNEFND ÚTLENDINGAMÁLA

Þann 21. nóvember 2019 er kveðinn upp svohljóðandi

úrskurður nr. 535/2019

í stjórnsýslumáli nr. KNU19090029

Kæra [...]

á ákvörðun

Útlendingastofnunar

 

 

I. Kröfur, kærufrestir og kæruheimild

Þann 17. september 2019 kærði [...], fd. [...], ríkisborgari [...] (hér eftir nefndur kærandi) ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 29. ágúst 2019, um að taka ekki til efnismeðferðar umsókn hans um alþjóðlega vernd á Íslandi og vísa honum frá landinu.

Þess er krafist að hin kærða ákvörðun Útlendingastofnunar verði felld úr gildi og að stofnuninni verði gert að taka umsókn kæranda um alþjóðlega vernd hér á landi til efnismeðferðar á grundvelli 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga nr. 80/2016.

Fyrrgreind ákvörðun er kærð á grundvelli 7. gr. laga um útlendinga og barst kæran fyrir lok kærufrests.

 

II. Málsmeðferð

Kærandi lagði fram umsókn um alþjóðlega vernd á Íslandi þann 10. apríl 2019. Við leit að fingraförum kæranda í Eurodac gagnagrunninum, þann 24. apríl 2019, kom í ljós að fingraför hans höfðu verið skráð í grunninn af yfirvöldum í Hollandi. Var beiðni um viðtöku kæranda því send til yfirvalda í Hollandi sem höfnuðu beiðninni og vísuðu til þess að spænsk yfirvöld bæru ábyrgð á umsókn kæranda. Þann 8. maí 2019 var beiðni um viðtöku kæranda og umsóknar hans um alþjóðlega vernd beint til yfirvalda á Spáni, sbr. b-lið 1. mgr. 18. gr. reglugerðar Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) nr. 604/2013 (hér eftir nefnd Dyflinnarreglugerðin). Í svari frá spænskum yfirvöldum, dags. 16. maí 2019, samþykktu þau viðtöku kæranda á grundvelli 4. mgr. 12. gr. Dyflinnarreglugerðarinnar. Útlendingastofnun ákvað þann 29. ágúst 2019 að taka ekki umsókn kæranda um alþjóðlega vernd hér á landi til efnismeðferðar og að honum skyldi vísað frá landinu. Ákvörðunin var birt fyrir kæranda þann 3. september 2019 og kærði kærandi ákvörðunina þann 17. september 2019 til kærunefndar útlendingamála. Greinargerð kæranda barst kærunefnd 25. september 2019 ásamt fylgigögnum.

III. Ákvörðun Útlendingastofnunar

Í ákvörðun Útlendingastofnunar kom fram að spænsk stjórnvöld bæru ábyrgð á meðferð umsóknar kæranda um alþjóðlega vernd á grundvelli Dyflinnarreglugerðarinnar. Umsóknin yrði því ekki tekin til efnismeðferðar, sbr. c-lið 1. mgr. 36. gr. laga um útlendinga, enda fæli flutningur kæranda til Spánar ekki í sér brot gegn 42. gr. laga um útlendinga, sbr. jafnframt 3. mgr. 36. gr. laganna. Þá hefði kærandi ekki slík tengsl við Ísland að nærtækast væri að hann fengi hér vernd eða að sérstakar ástæður væru fyrir hendi þannig að taka bæri umsókn kæranda til efnismeðferðar, sbr. 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga. Kæranda var vísað frá landinu, sbr. c-lið 1. mgr. 106. gr. laga um útlendinga, og skyldi hann fluttur til Spánar.

IV. Málsástæður og rök kæranda

Í greinargerð kæranda kemur fram að hann hafi í viðtölum hjá Útlendingastofnun m.a. greint frá því að hann hafi [...] í heimaríki og hafi m.a. verið [...] vegna þess. Í [...] hafi kærandi mátt þola pyndingar, þ. á m. líkamlegt ofbeldi, sem hafi enn þann dag í dag mikil áhrif á líf hans, m.a. á andlega heilsu. Þegar kæranda hafi boðist atvinna á Spáni hafi hann nýtt tækifærið og flúið frá heimaríki. Kærandi hafi dvalið í fimm daga á Spáni og ekki yfirgefið hótelið þann tíma. Á hótelinu hafi kærandi séð mann sem hann óttaðist en maðurinn hafi verið [...]. Hafi kærandi því flúið frá Spáni þar sem öryggi hans væri síður en svo borgið þar í landi auk þess sem starfsmenn spænska sendiráðsins í heimaríki hans hafi varað kæranda við að sækja um vernd á Spáni og haft í hótunum við hann vegna þess, þegar hann hafi sótt um vegabréfsáritun til Spánar. Hvað varðar aðstæður umsækjenda um alþjóðlega vernd á Spáni þá vísar kærandi til greinargerðar sinnar til Útlendingastofnunar þar sem þeim voru gerð ítarleg skil, m.a. m.t.t. þess álags sem sé á spænska hæliskerfinu og aðgengi umsækjenda að lögfræðiaðstoð, móttökuþjónustu og atvinnumarkaði.

Í greinargerð kæranda eru gerðar athugasemdir við ákvörðun Útlendingastofnunar. Þvert á mat Útlendingastofnunar telji kærandi að ekki sé tryggt að honum muni standa til boða aðgengi að fullnægjandi heilbrigðisþjónustu, húsnæði, fjárhagsaðstoð og atvinnumarkaði. Mótmælir kærandi þá því að hann hafi ekki verið metinn sem einstaklingur í sérstaklega viðkvæmri stöðu, sbr. 6. tölul. 3. gr. laga um útlendinga. Í því sambandi vísar kærandi til þeirrar meðferðar sem hann hafi mátt þola [...] í heimaríki og framlagðra heilsufarsgagna, en í þeim komi m.a. fram að [...]. Þá telji kærandi að Útlendingastofnun hafi við mat á sérstökum ástæðum ekki borið að líta til þröngra og afmarkaðra skilyrða sem nefnd séu í dæmaskyni í 32. gr. a reglugerðar um útlendinga nr. 540/2017, með áorðnum breytingum, heldur hafi stofnuninni borið að framkvæma heildarmat á einstaklingsbundnum aðstæðum kæranda. Að mati kæranda séu aðstæður hans svo einstaklingsbundnar og sérstakar að ekki verði framhjá þeim litið auk þess sem hann muni eiga erfitt uppdráttar á Spáni vegna alvarlegrar mismununar þar í landi.

Kærandi byggir á því að sérstakar ástæður séu uppi í máli hans, sbr. 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga, og því beri íslenskum stjórnvöldum að taka umsókn hans um alþjóðlega vernd til efnismeðferðar hér á landi. Vísar kærandi til meginreglu 1. mgr. 36. gr. laga um útlendinga um að taka skuli umsóknir um alþjóðlega vernd til efnismeðferðar og því beri að túlka undantekningarreglur þröngt. Við mat á því hvort sérstakar ástæður séu fyrir hendi beri stjórnvöldum að kanna hvort umsækjandi muni eiga erfitt uppdráttar í viðtökuríki, annað hvort vegna einstaklingsbundinna aðstæðna eða almennra aðstæðna í viðtökuríki. Vísar kærandi til sjónarmiða sem komu fram í úrskurðum kærunefndar útlendingamála í málum nr. 550/2017, 552/2017, 583/2017 og 586/2017, varðandi mat á því hvort umsækjendur um alþjóðlega vernd muni eiga erfitt uppdráttar í viðtökuríki. Kveðst kærandi óttast það að tilteknir aðilar, þ.e. áðurnefndur einstaklingur frá heimaríki [...] og starfsmenn spænska sendiráðsins í heimaríki, muni finna hann og senda aftur til heimaríkis. Vísar kærandi einnig til þess að mikið álag sé á hæliskerfinu á Spáni og að staða hans muni verða mun verri en almennings þar í landi. Þá telji kærandi það ekki samræmast sjónarmiðum um samvinnu aðildarríkja Dyflinnarsamstarfsins og skilvirkni umsóknarferlisins, sem koma fram í reglugerð um útlendinga nr. 540/2017, að senda hann til Spánar þar sem álag á hæliskerfinu sé verulegt. Vegna þessa séu skilyrði 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga um sérstakar ástæður uppfyllt.

V. Niðurstaða kærunefndar útlendingamála

Ákvæði 1. mgr. 36. gr. laga um útlendinga

Í 1. mgr. 36. gr. laga um útlendinga er mælt fyrir um að umsókn um alþjóðlega vernd skuli tekin til efnismeðferðar nema undantekningar sem greindar eru í a-, b- og c-liðum ákvæðisins eigi við. Samkvæmt c-lið 1. mgr. 36. gr. laga um útlendinga er stjórnvöldum heimilt að synja því að taka umsókn um alþjóðlega vernd til efnismeðferðar ef krefja má annað ríki, sem tekur þátt í samstarfi á grundvelli samninga sem Ísland hefur gert um viðmiðanir og fyrirkomulag við að ákvarða hvaða ríki skuli fara með beiðni um alþjóðlega vernd sem lögð er fram hér á landi eða í einhverju samningsríkjanna, um að taka við umsækjanda. Í samræmi við samning ráðs Evrópusambandsins og Íslands og Noregs um þátttöku hinna síðarnefndu í framkvæmd, beitingu og þróun Schengen-gerðanna samþykkti Ísland áðurnefnda Dyflinnarreglugerð, sbr. auglýsingu í C-deild Stjórnartíðinda nr. 1/2014.

Í III. kafla Dyflinnarreglugerðarinnar koma fram viðmið, í ákveðinni forgangsröð, um hvaða ríki skuli bera ábyrgð á umsókn um alþjóðlega vernd. Ábyrgð Spánar á umsókn kæranda er byggð á 4. mgr. 12. gr. Dyflinnarreglugerðarinnar þar sem spænsk yfirvöld hafi gengist við umræddri ábyrgð á þeim grundvelli. Samkvæmt framansögðu er heimilt að krefja spænsk stjórnvöld um að taka við kæranda, sbr. c-lið 1. mgr. 36. gr. laga um útlendinga.

Einstaklingsbundnar aðstæður kæranda

Kærandi er einstæður karlmaður á þrítugsaldri. Í viðtölum hjá Útlendingastofnun greindi kærandi m.a. frá ofbeldi sem hann hafi mátt þola [...] í heimaríki. Í framlögðum heilsufarsgögnum kemur m.a. fram að kærandi sé almennt líkamlega hraustur. Hann hafi leitað sér aðstoðar hér á landi vegna andlegrar vanlíðanar [...]. [...].

Það er mat kærunefndar að gögn málsins, þ. á m. viðtöl við kæranda hjá Útlendingastofnun og heilsufarsgögn sem hafa verið lögð fram, beri ekki með sér að kærandi hafi sérþarfir í skilningi 6. tölul. 3. gr. laga um útlendinga sem taka þurfi tillit til við meðferð málsins.

Aðstæður á Spáni

Kærunefnd útlendingamála hefur lagt mat á aðstæður og málsmeðferð umsókna um alþjóðlega vernd á Spáni, m.a. með hliðsjón af eftirfarandi skýrslum og gögnum: Freedom in the World 2019 – Spain (Freedom House, 2019);

  • 2018 Country Reports on Human Rights Practices – Spain (United States Department of State, 13. mars 2019);
  • Asylum Information Database, Country Report: Spain (European Council on Refugees and Exiles, 20. mars 2019);
  • World Report 2019 – European Union (Human Rights Watch, 17. janúar 2019);
  • ECRI Report on Spain (fifth monitoring cycle) (European Commission against Racism and Intolerance, 27. febrúar 2018);
  • Amnesty International Report 2017/18 – Spain (Amnesty International, 22. febrúar 2018);
  • Concluding observations on the twenty-first to twenty-third periodic reports of Spain (UN Committee on the Elimination of Racial Discrimination, 21. júní 2016);
  • Concluding observations on the sixth periodic report of Spain (UN Committee against Torture, 29. maí 2015);
  • Submission by the United Nations High Commissioner for Refugees For the Office of the High Commissioner for Human Rights‘ Compilation Report Universal Periodic Review: Spain (UNHCR, júní 2014) og
  • Report by Nils Muižnieks Commissioner for Human Rights of the Council Of Europe Following his Visit to Spain from 3 to 7 June 2013 (Council of Europe: Commissioner for Human Rights, 9. október 2013).

Í ofangreindri skýrslu Asylum Information Database kemur fram að á Spáni sæti umsóknir um alþjóðlega vernd tvenns konar málsmeðferð, annars vegar málsmeðferð við landamæri (e. border procedure) og hins vegar málsmeðferð umsókna sem lagðar eru fram innan yfirráðasvæðis ríkisins. Kærunefnd hefur áður aflað upplýsinga frá Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna um málsmeðferð á Spáni. Í svari Flóttamannastofnunar þar um kom m.a. fram að umsóknir einstaklinga sem séu endursendir til Spánar á grundvelli Dyflinnarreglugerðarinnar sæti hefðbundinni málsmeðferð innanlands. Í skýrslu Asylum Information Database kemur fram að einstaklingar sem séu endursendir til Spánar á grundvelli Dyflinnarreglugerðarinnar verði ekki fyrir hindrunum við að hefja málsmeðferð þar í landi, hvort sem þeir hafi áður lagt fram umsókn um alþjóðlega vernd þar í landi eða ekki.

Umsóknir sem lagðar eru fram á yfirráðasvæði Spánar eru skoðaðar af spænsku útlendingastofnuninni (s. Oficina de Asilo y Refugio (OAR)) og lagðar fyrir nefnd (e. Inter-Ministerial Asylum and Refugee Commission (CIAR)) sem tekur ákvörðun í málinu. Ákvarðanir eru kæranlegar til spænska innanríkisráðuneytisins (s. Ministerio del Interior). Þá verða ákvarðanirnar bornar undir dómstóla. Umsækjendur um alþjóðlega vernd á Spáni eiga rétt á viðtali með aðstoð túlks áður en ákvörðun er tekin í máli þeirra. Þá eiga umsækjendur rétt á lögfræðiþjónustu á fyrsta stigi málsmeðferðar sem og við kærumeðferð.

Spánn er aðildarríki Evrópusambandsins og hefur innleitt tilskipanir 2013/32/ESB og 2013/33/ESB vegna meðferðar og móttöku umsækjenda um alþjóðlega vernd. Umsækjendur fá úthlutað vasapeningum mánaðarlega, svo og ýmsum nauðsynjum til persónulegra nota, t.d. fatnaði. Þá standa spænsk yfirvöld straum af ýmsum kostnaði s.s. vegna samgangna, menntunar og annarrar þjálfunar, t.d. tungumálanáms. Umsækjendur fá úthlutað gistirými í móttökumiðstöðvum fyrstu 6 mánuði málsmeðferðarinnar en síðan búa þeir í húsnæði og greiðir spænska ríkið fyrir leiguna. Fá umsækjendur ekki greiddan vasapening þá. Það ráðuneyti sem fer með málefni útlendinga á Spáni hefur gefið út fyrirmæli um að umsækjendur sem endursendir eru til Spánar á grundvelli Dyflinnarreglugerðarinnar skuli hafa aðgang að þeirri þjónustu sem umsækjendur um alþjóðlega vernd eiga rétt á þar í landi. Voru fyrirmælin gefin út eftir að dómstóll í ríkinu gagnrýndi spænska ríkið fyrir að synja slíkum umsækjendum um þjónustu.

Umsækjendur um alþjóðlega vernd á Spáni geta fengið atvinnuleyfi að sex mánuðum liðnum frá móttöku umsóknar þeirra, á meðan þeir bíða eftir niðurstöðu. Ekki þarf að uppfylla sérstök skilyrði fyrir útgáfu slíks atvinnuleyfis. Þá eiga umsækjendur rétt á heilbrigðisþjónustu á vegum hins opinbera, til jafns við spænska ríkisborgara og aðra ríkisborgara þriðju ríkja í löglegri dvöl á Spáni. Þá geta einstaklingar sem þess þurfa fengið aðgang að sérhæfðari heilbrigðisþjónustu, t.d. þolendur líkamlegs eða andlegs ofbeldis eða annarra áfalla.

Í framangreindum skýrslum er þess þó m.a. getið að í spænskum lögum um alþjóðlega vernd sé ekki kveðið á um sérstaka verkferla með það fyrir augum að greina á byrjunarstigi hvort umsækjendur séu í sérstaklega viðkvæmri stöðu. Í framkvæmd geti slík greining þó að vissu leyti farið fram í viðtölum opinberra fulltrúa við umsækjendur, hjá borgaralegum samtökum og í móttökumiðstöðvum. Vegna mikils fjölda umsækjenda um alþjóðlega vernd á Spáni hafi það þó reynst nokkrum vandkvæðum bundið að greina með fullnægjandi hætti hvort umsækjendur séu í sérstaklega viðkvæmri stöðu.

Í spænska móttökukerfinu sé þó reynt að meta hvort umsækjendur sem teljist vera í sérstaklega viðkvæmri stöðu hafi einhverjar sérþarfir. Þá sé slíkum umsækjendum sýndur aukinn sveigjanleiki í spænska móttökukerfinu, en þeim geti t.d. verið heimilt að dvelja lengur í móttökumiðstöðum en almennt eigi við. Aftur á móti segir í ofangreindum skýrslum að þau úrræði sem spænska kerfið búi yfir hvað varði umsækjendur í sérstaklega viðkvæmri stöðu séu almenn og nái ekki utan um sérþarfir þeirra sem séu í hvað alvarlegastri stöðu. Þeir umsækjendur geti þó sótt sérhæfðari þjónustu til utanaðkomandi þjónustuaðila.

Í ofangreindri skýrslu Evrópunefndar gegn kynþáttafordómum (e. European Commission against Racism and Intolerance) kemur m.a. fram að fordómar og hatursorðræða, einkum gagnvart múslimum, Róma-fólki og hinsegin fólki, séu vandamál á Spáni en að spænsk yfirvöld hafi, með hjálp frjálsra félagasamtaka, unnið markvisst gegn þeim, þ. á m. með lagabreytingum, þjálfun lögreglu og slitum félaga með kynþáttahyggju að markmiði. Framangreindar skýrslur bera enn fremur með sér að almenningur á Spáni geti leitað aðstoðar hjá spænskum löggæsluyfirvöldum vegna ofbeldisbrota og hótana.

Ákvæði 3. mgr. 36. gr. laga um útlendinga

Í 3. mgr. 36. gr. laganna kemur fram að ef beiting 1. mgr. myndi leiða til þess að brotið væri gegn 42. gr., t.d. vegna aðstæðna í því ríki sem senda á umsækjanda til, skuli taka umsókn til efnismeðferðar. Í 1. mgr. 42. gr. laga um útlendinga er kveðið á um að ekki sé heimilt að senda útlending eða ríkisfangslausan útlending til svæðis þar sem hann hefur ástæðu til að óttast ofsóknir, sbr. 37. og 38. gr., eða vegna svipaðra aðstæðna og greinir í flóttamannahugtakinu er í yfirvofandi hættu á að láta lífið eða verða fyrir ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð. Þá segir í 2. mgr. ákvæðisins að 1. mgr. eigi einnig við um sendingu útlendings til svæðis þar sem ekki er tryggt að hann verði ekki sendur áfram til slíks svæðis sem greinir í 1. mgr. Við túlkun á inntaki 42. gr. laga um útlendinga telur kærunefnd jafnframt að líta verði til þess að ákvörðun aðildarríkis um brottvísun eða frávísun sem setur einstakling í raunverulega hættu á að verða fyrir pyndingum, ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu er í andstöðu við 3. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994, sbr. jafnframt 68. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands, nr. 33/1944.

Í dómaframkvæmd Mannréttindadómstóls Evrópu hefur verið byggt á því að sú meðferð sem einstaklingur á von á við brottvísun eða frávísun verði að ná tilteknu lágmarks alvarleikastigi til að ákvörðunin verði talin brot á 3. gr. mannréttindasáttmálans. Horfa verði til allra aðstæðna í fyrirliggjandi máli, svo sem lengdar og eðlis meðferðar, andlegra og líkamlegra áhrifa hennar auk stöðu einstaklings hverju sinni, svo sem kyns, aldurs og heilsufars. Við mat á umræddu alvarleikastigi hefur dómstóllinn jafnframt litið til annarra þátta, t.d. hvort einstaklingurinn er í viðkvæmri stöðu, sbr. t.d. dóm Mannréttindadómstóls Evrópu í máli Khlaifia o.fl. gegn Ítalíu (nr. 16483/12) frá 15. desember 2016. Í því sambandi hefur dómstóllinn lagt ákveðna áherslu á að umsækjendur um alþjóðlega vernd tilheyri jaðarsettum og viðkvæmum þjóðfélagshóp sem þurfi sérstaka vernd, sbr. t.d. dóm í máli Tarakhel gegn Sviss (nr. 29217/12) frá 4. nóvember 2012. Þrátt fyrir það verði 3. gr. mannréttindasáttmálans ekki túlkuð á þann hátt að í greininni felist skylda aðildarríkja til að sjá umsækjendum um alþjóðlega vernd fyrir húsnæði eða fjárhagsaðstoð sem geri þeim kleift að viðhalda ákveðnum lífskjörum, sbr. dóm í máli M.S.S. gegn Belgíu og Grikklandi (nr. 30696/09) frá 21. janúar 2011.

Með vísan til umfjöllunar um aðstæður og móttökuskilyrði umsækjenda um alþjóðlega vernd á Spáni er það niðurstaða kærunefndar að synjun á efnismeðferð umsóknar kæranda um alþjóðlega vernd leiði ekki til brots gegn 1. mgr. 42. gr. laga um útlendinga, sbr. jafnframt 3. gr. mannréttindasáttmála Evrópu.

Að mati kærunefndar bera gögn málsins jafnframt með sér að á Spáni sé veitt raunhæf vernd gegn því að fólki sé vísað brott eða það endursent til ríkja þar sem einstaklingar eiga á hættu að verða fyrir ofsóknum eða þar sem lífi þeirra og frelsi er ógnað. Í því sambandi hefur kærunefnd einkum litið til þess að gögnin benda til þess að meðferð spænskra stjórnvalda á umsóknum um alþjóðlega vernd sé með þeim hætti að lagt sé einstaklingsbundið mat á aðstæður einstaklinga. Þá benda öll gögn til þess að kærandi hafi raunhæf úrræði á Spáni, bæði fyrir landsrétti og fyrir Mannréttindadómstól Evrópu, sbr. jafnframt 13. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, sem tryggja að hann verði ekki sendur áfram til annars ríkis þar sem líf hans eða frelsi kann að vera í hættu, sbr. 2. mgr. 42. gr. laga um útlendinga.

Ákvæði 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga

Í 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga kemur fram að ef svo standi á sem greini í 1. mgr. skuli þó taka umsókn um alþjóðlega vernd til efnismeðferðar ef útlendingurinn hefur slík sérstök tengsl við landið að nærtækast sé að hann fái hér vernd eða ef sérstakar ástæður mæli annars með því. Í 32. gr. a og 32. gr. b reglugerðar um útlendinga nr. 540/2017, sbr. 4. mgr. 36. gr. laganna, koma fram viðmið varðandi mat á því hvort taka skuli umsókn um alþjóðlega vernd til efnismeðferðar vegna sérstakra tengsla eða ef sérstakar ástæður mæla með því. Þá segir í 2. mgr. 36. gr. laganna að ef meira en 12 mánuðir hafa liðið frá því að umsókn um alþjóðlega vernd barst fyrst íslenskum stjórnvöldum og tafir á afgreiðslu hennar eru ekki á ábyrgð umsækjanda sjálfs skal taka hana til efnismeðferðar.

Aðstæðum kæranda hefur þegar verið lýst og telur kærunefnd að þær séu ekki þess eðlis að viðmið sem talin eru upp í dæmaskyni í 32. gr. a reglugerðar um útlendinga eigi við í málinu. Í því sambandi hefur nefndin m.a. litið til þess að heilsufar kæranda sé ekki með þeim hætti að hann teljist glíma við mikil og alvarleg veikindi eða að aðstæður hans að því leyti séu svo einstaklingsbundnar og sérstakar að ekki verði framhjá þeim litið. Samkvæmt gögnum máls hefur kærandi aðgang að heilbrigðisþjónustu á Spáni, þ. á m. geðheilbrigðisþjónustu. Af framangreindum gögnum um aðstæður á Spáni verður jafnframt ráðið að verði kærandi fyrir hótunum aðila eða óttist hann um öryggi sitt geti hann leitað ásjár spænskra yfirvalda vegna þess. Þá telur kærunefnd að gögn málsins beri ekki með sér að kærandi muni eiga erfitt uppdráttar í viðtökuríki vegna alvarlegrar mismununar eða að hann geti af sömu ástæðu vænst þess að staða hans verði verulega síðri en staða almennings í viðtökuríki, sbr. viðmið í 32. gr. a reglugerðar um útlendinga.

Það er jafnframt mat kærunefndar að málsástæður kæranda að öðru leyti verði ekki taldar til sérstakra ástæðna í skilningi 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga.

Vegna tilvísunar í greinargerð kæranda til úrskurða kærunefndar útlendingamála í málum nr. 550/2017, 552/2017, 583/2017 og 586/2017, tekur kærunefnd fram að ekki sé hægt að jafna stöðu kæranda í þessu máli við stöðu kærenda í framangreindum úrskurðum enda er ekki um sömu viðtökuríki að ræða.

Að teknu tilliti til einstaklingsbundinna aðstæðna kæranda er það mat kærunefndar að ekki séu fyrir hendi sérstakar ástæður sem mæli með því að mál hans verði tekið til efnismeðferðar hér á landi, sbr. 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga.

Kærandi kvaðst í viðtali hjá Útlendingastofnun þann 28. maí 2019 ekki hafa sérstök tengsl við Ísland. Þar að auki er ekkert í gögnum málsins sem bendir til þess að kærandi hafi slík tengsl við landið að beita beri ákvæði 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga.

Þá telur kærunefnd ljóst að síðari málsliður 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga eigi ekki við í máli kæranda þar sem ekki eru liðnir 12 mánuðir frá því að kærandi sótti um alþjóðlega vernd hér á landi, en hann lagði fram umsókn sína þann 10. apríl 2019.

Athugasemdir kæranda við hina kærðu ákvörðun

Svo sem fram hefur komið gerir kærandi ýmsar athugasemdir við hina kærðu ákvörðun, m.a. við mat á aðstæðum í viðtökuríki og við mat stofnunarinnar á einstaklingsbundnum aðstæðum hans.

Eins og að framan greinir hefur kærunefnd lagt einstaklingsbundið mat á umsókn kæranda og komist að niðurstöðu um að synja honum um efnismeðferð með vísan til ákvæða laga um útlendinga eins og þau hafa verið útfærð í reglugerð um útlendinga. Er niðurstaða í málinu byggð á túlkun kærunefndar á framangreindum ákvæðum og sjónarmiðum sem nefndin telur málefnaleg. Kærunefnd hefur farið yfir hina kærðu ákvörðun að öðru leyti og telur ekki tilefni til þess að gera athugasemdir við hana. Hefur kærunefnd skoðað alla þætti málsins og komist að sömu niðurstöðu og Útlendingastofnun.

Frávísun

Kærandi kom hingað til lands þann 9. apríl 2019 og sótti um alþjóðlega vernd þann 10. apríl 2019. Eins og að framan greinir hefur umsókn hans um alþjóðlega vernd verið synjað um efnismeðferð og hefur hann því ekki tilskilin leyfi til dvalar enda verður að líta á umsókn hans um alþjóðlega vernd sem áform um að dveljast í landinu meira en 90 daga, sbr. til hliðsjónar 3. mgr. 42. gr. reglugerðar um útlendinga. Verður kæranda því vísað frá landinu á grundvelli c-liðar 1. mgr. 106. gr. laga um útlendinga, sbr. 2. og 5. mgr. 106. gr. laganna, enda hafði hann verið hér á landi í innan við níu mánuði þegar málsmeðferð umsóknar hans hófst hjá Útlendingastofnun.

Kærandi skal fluttur til Spánar innan tilskilins frests, nema ákveðið verði að fresta réttaráhrifum úrskurðar þessa að kröfu kæranda, sbr. 6. mgr. 104. gr. laga um útlendinga.

Samantekt

Í máli þessu hafa spænsk stjórnvöld fallist á að taka við kæranda og umsókn hans um alþjóðlega vernd á grundvelli ákvæða Dyflinnarreglugerðarinnar. Í ljósi alls ofangreinds er það niðurstaða kærunefndar að rétt sé að synja því að taka til efnismeðferðar umsókn kæranda um alþjóðlega vernd hér á landi og senda kæranda til Spánar með vísan til c-liðar 1. mgr. 36. gr. laga um útlendinga.

Ákvörðun Útlendingastofnunar er því staðfest.

Athygli kæranda er vakin á því að skv. 6. mgr. 104. gr. laga um útlendinga frestar málshöfðun fyrir dómstólum til ógildingar á endanlegri ákvörðun um að útlendingur skuli yfirgefa landið ekki framkvæmd hennar. Að kröfu útlendings getur kærunefnd útlendingamála þó ákveðið að fresta réttaráhrifum endanlegrar ákvörðunar sé talin ástæða til þess. Krafa þess efnis skal gerð ekki síðar en sjö dögum frá birtingu endanlegrar ákvörðunar. Skal frestun bundin því skilyrði að útlendingur beri málið undir dómstóla innan fimm daga frá birtingu ákvörðunar um frestun réttaráhrifa úrskurðar og óski eftir að það hljóti flýtimeðferð. Nú er beiðni um flýtimeðferð synjað og skal þá mál höfðað innan sjö daga frá þeirri synjun. Þó getur kærunefnd útlendingamála tekið ákvörðun um að fresta framkvæmd ef sýnt er fram á að verulega breyttar aðstæður hafi skapast frá því að endanleg ákvörðun var tekin.

Kæranda er leiðbeint um að með úrskurði kærunefndar nr. 350/2019, dags. 28. ágúst 2019, ákvað nefndin að breyta framkvæmd varðandi afmörkun 12 mánaða tímabilsins sem vísað er til í 2. málsl. 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga. Eins og fram kemur í úrskurðinum eru lok tímabilsins þegar fyrir liggur endanleg ákvörðun á stjórnsýslustigi vegna þess stjórnsýslumáls sem hófst með framlagningu umsóknar um alþjóðlega vernd. Þessi breytta stjórnsýsluframkvæmd leiðir til þess að þótt ekki komi til flutnings kæranda úr landi innan 12 mánaða frá upphafi málsins hefur það ekki þýðingu fyrir þann frest sem 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga tekur til.

 

 Úrskurðarorð

Ákvörðun Útlendingastofnunar er staðfest.

The decision of the Directorate of Immigration is affirmed.

 

 

Áslaug Magnúsdóttir

 

Árni Helgason                                                                              Þorbjörg Inga Jónsdóttir


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta