Hoppa yfir valmynd

Úrskurður nr. 329/2016

KÆRUNEFND ÚTLENDINGAMÁLA

Þann 4. október 2016 er kveðinn upp svohljóðandi

úrskurður nr. 329/2016

í stjórnsýslumáli nr. KNU16050015

Kæra [...]

á ákvörðun

Útlendingastofnunar

I. Kröfur, kærufrestir og kæruheimild

Þann 10. maí 2016 kærði [...], fd. [...], ríkisborgari [...] (hér eftir nefndur kærandi) ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 3. maí 2016, um að taka ekki til efnismeðferðar umsókn hans um hæli á Íslandi og endursenda hann til Ítalíu.

Kærandi krefst þess að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi og að Útlendingastofnun verði gert að taka umsókn hans um hæli til efnislegrar meðferðar, sbr. 2. mgr. 46. gr. a laga um útlendinga nr. 96/2002 og 1. mgr. 17. gr. reglugerðar Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) nr. 604/2013 (hér eftir nefnd Dyflinnarreglugerðin).

Fyrrgreind ákvörðun er kærð á grundvelli 1. mgr. 30. gr. laga um útlendinga og barst kæran fyrir lok kærufrests, sbr. 3. mgr. 30. gr. sömu laga.

II. Málsmeðferð

Kærandi lagði fram umsókn um hæli á Íslandi þann 31. desember 2015. Leit að fingraförum kæranda í svokölluðum Eurodac gagnagrunni, þann 5. janúar 2016, bar engan árangur. Þann 11. janúar 2016 var beiðni um viðtöku kæranda og umsóknar hans um hæli beint til yfirvalda á Ítalíu, sbr. 2. mgr. 12. gr. Dyflinnarreglugerðarinnar. Þann 11. mars 2016 barst svar frá ítölskum yfirvöldum þar sem þau samþykktu beiðni um viðtöku kæranda á grundvelli 2. mgr. 12. gr. Dyflinnarreglugerðarinnar. Útlendingastofnun ákvað þann 3. maí 2016 að taka ekki umsókn kæranda um hæli hér á landi til efnismeðferðar og að hann skyldi endursendur til Ítalíu. Kærandi kærði ákvörðunina þann 10. maí sl. til kærunefndar útlendingamála auk þess að óska eftir frestun réttaráhrifa á hinni kærðu ákvörðun á meðan mál hans væri til meðferðar. Fallist var á frestun réttaráhrifa á meðan málið væri til kærumeðferðar með bréfi kærunefndar, dags. 11. maí 2016. Greinargerð kæranda barst kærunefnd 22. júlí 2016. Viðbótargögn og athugasemdir bárust kærunefnd þann 26. ágúst sl. Kærandi kom í viðtal hjá kærunefnd útlendingamála þann 30. ágúst sl. og gerði grein fyrir máli sínu, sbr. 5. mgr. 3. gr. b laga um útlendinga. Kærandi lagði jafnframt fram frekari gögn. Viðstaddur var talsmaður kæranda.

Kæra þessi hefur hlotið hefðbundna málsmeðferð, gagnaöflun er lokið og er málið hér með tekið til úrskurðar.

III. Ákvörðun Útlendingastofnunar

Í ákvörðun Útlendingastofnunar kemur fram að fyrir liggi að ítölsk stjórnvöld beri ábyrgð á afgreiðslu umsóknar kæranda um hæli skv. 2. mgr. 12. gr. Dyflinnarreglugerðarinnar þar sem kærandi sé með vegabréfsáritun útgefna af ítölskum stjórnvöldum.

Í hinni kærðu ákvörðun er fjallað um aðstæður hælisleitenda og málsmeðferð á Ítalíu og er í því sambandi meðal annars vísað til alþjóðlegra skýrslna. Þá er dómi Mannréttindadómstóls Evrópu í máli Tarakhel gegn Sviss (mál nr. 29217/12) frá 4. nóvember 2014 gerð skil og tekið fram að Útlendingastofnun geti ekki ráðið af dómnum að almennt hafi ekki verið í lagi að senda sérstaklega viðkvæma einstaklinga til Ítalíu. Auk þess hafi Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna ekki lagst gegn endursendingum þangað í kjölfar dómsins. Jafnframt er vísað til úrlausnar Mannréttindadómstólsins í máli Samsam Mohammed Hussein o.fl. gegn Hollandi og Ítalíu (mál nr. 27725/10) frá 2. apríl 2013. Í niðurstöðu Útlendingastofnunar er aðbúnaði hælisleitanda í svokölluðum SPRAR heimilum jafnframt gerð skil auk þess sem raktar eru breytingar á tilskipun 2013/33/ESB um móttökuaðstæður hælisleitenda og tilskipun 2013/32/ESB um samræmda málsmeðferð umsækjenda um alþjóðlega vernd. Þessar breytingar hafi verið innleiddar í ítalskan rétt 15. september 2015. Þá hafi einnig verið gerðar breytingar á reglum um móttökustöðvar á Ítalíu. Það sé mat Útlendingastofnunar að skoða þurfi sérstaklega í hverju tilviki fyrir sig hvort senda eigi einstaklinga til Ítalíu sem séu í viðkvæmri stöðu.

Í niðurstöðum Útlendingastofnunar er að finna upptalningu á þeim hópum sem séu í sérstaklega viðkvæmri stöðu. Fram kemur að sú upptalning hafi verið innleidd í ítalskan rétt með lögum nr. 142/2015. Kærandi sé tiltölulega ungur karlmaður sem hafi kveðist vera líkamlega heilsuhraustur en sé farinn að finna fyrir minnisleysi annað slagið. Að mati Útlendingastofnunar sé ekkert í gögnum málsins sem bendi til að kærandi sé í sérstaklega viðkvæmri stöðu.

Útlendingastofnun byggir á því að kærandi eigi rétt á húsnæði við komuna til Ítalíu samkvæmt þarlendum lögum. Þá telji Útlendingastofnun úrskurði belgíska ráðsins í málefnum útlendinga, sem vísað sé til í greinargerð kæranda, hvorki hafa fordæmisgildi hér á landi né hafa áhrif á niðurstöður í ákvörðunum stofnunarinnar. Stofnunin telji sig jafnframt hafa sinnt rannsóknarskyldu sinni að fullu varðandi könnun á því hvort og hvernig aðstæður bíði kæranda á Ítalíu.

Niðurstaða ákvörðunar Útlendingastofnunar var sú að hælisumsókn kæranda yrði ekki tekin til efnismeðferðar hér á landi og hann skyldi endursendur til Ítalíu. Lagt var til grundvallar að Ítalía virði ákvæði mannréttindasáttmála Evrópu og flóttamannasamnings Sameinuðu þjóðanna, þar með talið bann við endursendingu til ríkis þar sem líf og frelsi kæranda kynni að vera í hættu (non-refoulement). Því fæli flutningur kæranda til Ítalíu ekki í sér brot gegn 1. mgr. 45. gr. laga um útlendinga. Þá var talið að kærandi hefði ekki slík tengsl við Ísland að ástæða væri til að beita ákvæði 2. mgr. 46. gr. a laga um útlendinga. Aðstæður kæranda féllu ekki undir 16. gr. Dyflinnarreglugerðarinnar og væru ekki slíkar að ástæða væri til að beita 1. mgr. 17. gr. reglugerðarinnar í málinu.

IV. Málsástæður og rök kæranda

Í greinargerð kæranda er byggt á því að kærandi sé í sérstaklega viðkvæmri stöðu og að aðstæður hans á Ítalíu séu óviðunandi. Því beri að beita ákvæði 2. mgr. 46. gr. a laga um útlendinga í máli hans. Ákvæðið er rakið í greinargerð kæranda ásamt lögskýringargögnum að baki því.

Kærandi vísar í efni hinnar kærðu ákvörðunar og gagnrýnir nálgun Útlendingastofnunar við mat á því hvort 2. mgr. 46. gr. a laga um útlendinga eigi við í málinu. Að mati kæranda verði ekki annað séð af ákvörðuninni en að það sé mat Útlendingastofnunar að skylda stjórnvalda samkvæmt 2. mgr. 46. gr. a

laga um útlendinga takmarkist við tilvik þar sem aðstæður séu svo slæmar að þær jafnist á við brot á ákvæðum 1. mgr. 45. gr. laga um útlendinga og 3. gr. mannréttindasáttmála Evrópu. Kærandi telji þessa nálgun ónákvæma eða jafnvel ranga enda væri ákvæði 2. mgr. 46. gr. a með öllu óþarft ef að um brot á banni við pyndingum og ómannúðlegri meðferð þyrfti að vera að ræða þar sem 1. mgr. 45. gr. laga um útlendinga banni endursendingar í slíkum tilvikum.

Kærandi tekur fram að í 2. mgr. 46. gr. a laga um útlendinga sé hvergi minnst á að kerfisbundinn galli þurfi að vera á aðstæðum í móttökuríki til þess að mál verði tekið til efnismeðferðar á Íslandi.

Í greinargerð kæranda er aðstæðum hælisleitenda á Ítalíu gerð skil og tekið fram að gríðarlega mikið álag hafi verið á hæliskerfinu á Ítalíu undanfarin ár. Stjórnvöld á Ítalíu hafi legið undir miklum ámælum og hafi athugasemdir og gagnrýni varðandi aðbúnað og aðstæður hælisleitenda á Ítalíu komið fram hjá fjölmörgum alþjóðlegum stofnunum. Kærandi vísi m.a. í skýrslur Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna frá júlí 2013, skýrslu svissnesku flóttamannastofnunarinnar frá október 2013 og skýrslu norsku flóttamannasamtakanna NOAS frá 2011. Í skýrslunum komi m.a. fram gagnrýni á aðstoð við sérstaklega viðkvæma hælisleitendur, skráningarferli og móttökuskilyrði hælisleitenda. Þá sé vísað í þrjá úrskurði belgíska ráðsins í málefnum útlendinga frá því í fyrra þar sem endursendingar hælisleitenda á grundvelli Dyflinnarreglugerðarinnar voru stöðvaðar. Kæranda sé ljóst að íslensk stjórnvöld séu ekki lagalega bundin af fordæmum erlendra dómstóla en telji það vera eðlilega kröfu að stjórnvöld hafi slíka úrskurði til hliðsjónar í ljósi þess að um túlkun á samevrópsku regluverki í hælismálum sé að ræða.

Kærandi telji að ekki sé unnt að treysta á grunnþjónustu á Ítalíu og að ljóst sé að ítölsk stjórnvöld geti ekki tryggt kæranda þau réttindi sem séu nauðsynleg og ítölskum stjórnvöldum beri skylda til að tryggja honum. Þá hafi miklum áhyggjum verið lýst af vaxandi kynþáttahatri og mismunun á grundvelli kynþáttar á Ítalíu. Í ljósi þessa bíði kæranda því alger óvissa um líf sitt við komuna til Ítalíu. Kærandi telji að hann standi frammi fyrir raunverulegri hættu á að sæta ómannúðlegri og vanvirðandi meðferð verði hann endursendur til Ítalíu.

Kærandi vísi í greinargerð innanríkisráðuneytisins frá 7. desember 2015 um endursendingu hælisleitenda til Ítalíu þar sem segi að skoða þurfi sérstaklega og leggja mat á hvort umsækjendur teljist í viðkvæmri stöðu. Fram kemur í greinargerð kæranda að kærandi hafi í hælisviðtali gert grein fyrir því að hann hafi sætt pyndingum sem hann telji á meðal orsaka þess að hann finni fyrir [...]. Kærandi geri alvarlegar athugasemdir við rannsókn Útlendingastofnunar í málinu. Stofnunin hafi engan reka gert að því að kanna andlegt ástand kæranda þrátt fyrir framburð hans í hælisviðtali. Heilsufar hans og fyrri saga geti ráðið úrslitum um það hvort hann teljist vera í sérstaklega viðkvæmri stöðu í skilningi greinargerðar innanríkisráðuneytisins. Það veki athygli að í hinni kærðu ákvörðun sé ekki vísað til fyrrnefndrar greinargerðar og að ekki hafi verið byggt á henni af hálfu stofnunarinnar þegar metið hafi verið hvort kærandi sé í viðkvæmri stöðu áður en tekin hafi verið ákvörðun um að senda hann til Ítalíu. Að mati kæranda virðist Útlendingastofnun ekki telja sig bundna af almennum fyrirmælum hins æðra stjórnavalds hvað þetta varði.

Kærandi gagnrýni það sérstaklega að komist hafi verið að þeirri niðurstöðu í hinni kærðu ákvörðun að ekkert í gögnum málsins bendi til að kærandi sé í sérstaklega viðkvæmri stöðu þegar hann hafi í viðtali hjá Útlendingastofnun greint frá því að hafa sætt pyndingum. Einstaklingar sem sætt hafa pyndingum séu í greinargerð innanríkisráðuneytisins skilgreindir sem sérstaklega viðkvæmur hópur sem ekki eigi að endursenda til Ítalíu.

Þá vísi kærandi einnig til skilgreiningar á einstaklingum í sérstaklega viðkvæmri stöðu í nýjum lögum um útlendinga sem samþykkt hafi verið á Alþingi þann 2. júní sl. Þar séu meðtaldir einstaklingar sem hafi orðið fyrir pyndingum.

Útlendingastofnun hafi engu að síður komist að þeirri niðurstöðu að ekkert hafi bent til þess að kærandi sé í sérstaklega viðkvæmri stöðu. Að mati kæranda sé þetta svo alvarlegur ágalli á hinni kærðu ákvörðun að réttast væri að fella hana úr gildi þegar af þessari ástæðu. Kærandi bíði enn eftir niðurstöðum sálfræðimats en hann áskilji sér rétt til frekari framlagningu gagna, enda telji kærandi niðurstöður sálfræðimats á kæranda til lykilganga í málinu í ljósi alls framangreinds.

Í viðtali hjá kærunefnd lagði kærandi fram sálfræðimat, dags. 23. ágúst 2016, auk viðbótarathugasemda með kæru. Þá lýsti kærandi því að hann hafi orðið fyrir pyndingum og grófu líkamlegu ofbeldi í heimalandi sínu.

V. Niðurstaða kærunefndar útlendingamála

Fyrir liggur í máli þessu að ítölsk stjórnvöld hafa samþykkt viðtöku á kæranda á grundvelli 2. mgr. 12. gr. Dyflinnarreglugerðarinnar.

Úrlausnarefni kærumáls þessa er að skera úr um hvort rétt sé að taka ekki umsókn kæranda um hæli til efnismeðferðar og vísa honum til Ítalíu.

Í máli þessu gilda aðallega ákvæði laga um útlendinga nr. 96/2002, með síðari breytingum, ákvæði reglugerðar nr. 53/2003 um útlendinga, með áorðnum breytingum og ákvæði mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994. Auk þess ber að taka mið af ákvæðum Dyflinnarreglugerðarinnar en Ísland skuldbatt sig til að fylgja henni með samningi Íslands, Noregs og Evrópusambandsins frá 19. janúar 2001, um viðmiðanir og fyrirkomulag við að ákvarða hvaða ríki skuli fara með beiðni um hæli sem lögð er fram í aðildarríki eða á Íslandi eða í Noregi. Í III. kafla hennar koma fram viðmið, í ákveðinni forgangsröð, um hvaða ríki skuli bera ábyrgð á hælisumsókn. Jafnframt ber að líta til annarra alþjóðlegra skuldbindinga Íslands á sviði mannréttinda eftir því sem tilefni er til.

Í d-lið 1. mgr. 46. gr. a laga um útlendinga kemur fram að stjórnvöld geti, með fyrirvara um ákvæði 45. gr. laganna, synjað að taka til efnismeðferðar hælisumsókn ef krefja megi annað ríki sem tekur þátt í samstarfi á grundvelli Dyflinnarreglugerðarinnar um að taka við umsækjanda (Dyflinnarmál). Þó kemur fram í 2. mgr. 46. gr. a sömu laga að ekki skuli endursenda flóttamann til annars ríkis hafi hann slík sérstök tengsl við landið að nærtækast sé að hann fái hér vernd eða sérstakar ástæður mæli annars með því. Samkvæmt 1. mgr. 45. gr. laga um útlendinga má einnig ekki senda útlending til svæðis þar sem hann hefur ástæðu til að óttast ofsóknir sem gætu leitt til þess að hann skuli teljast flóttamaður eða ef ekki er tryggt að hann verði ekki sendur til slíks svæðis. Samsvarandi verndar skal útlendingur njóta sem vegna svipaðra aðstæðna og greinir í flóttamannahugtakinu er í yfirvofandi hættu á að láta lífið eða verða fyrir ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð. Við mat á því hvort beita skuli þessum ákvæðum í Dyflinnarmálum þarf einkum að kanna hvort aðstæður hælisleitenda í því ríki, sem endursenda á hælisleitanda til samkvæmt Dyflinnarreglugerðinni, kunni að brjóta gegn 3. gr. mannréttindasáttmála Evrópu. Sé svo er óheimilt að senda hælisleitandann þangað og skal þá taka hælisumsókn viðkomandi til efnismeðferðar hér, sbr. einnig undanþágureglu 1. mgr. 17. gr. Dyflinnarreglugerðarinnar. Eftir atvikum þarf enn fremur að skoða hvort slíkur ágalli sé á málsmeðferð þess ríkis, sem endursenda á til, að það brjóti í bága við 13. gr. mannréttindasáttmálans.

Í greinargerð kæranda er gerð athugasemd við að Útlendingastofnun hafi ekki í ákvörðun sinni vísað til greinargerðar innanríkisráðuneytisins um endursendingar til Ítalíu frá 7. desember 2015. Í ljósi dómaframkvæmdar Mannréttindadómstóls Evrópu, og þá sérstaklega í máli Tarakhel gegn Sviss (nr. 29217/2012) frá 4. nóvember 2014, telur kærunefndin að skoða þurfi sérstaklega hvort umsækjandi um alþjóðlega vernd teljist vera í viðkvæmri stöðu þegar til skoðunar kemur að endursenda hann til Ítalíu.

Greinargerð innanríkisráðuneytisins um endursendingar hælisleitenda til Ítalíu frá desember 2015 endurspeglar stefnu stjórnvalda um það efni. Þar er lagt til að meginreglan verði eftir sem áður sú að hælisleitendur verði endursendir til Ítalíu á grundvelli Dyflinnarreglugerðarinnar en hins vegar skuli áfram ávallt skoða hvert tilvik fyrir sig og meta aðstæður viðkomandi einstaklings áður en ákvörðun sé tekin. Í þessu felist að kanna verði þær upplýsingar sem liggi fyrir um einstaklingsbundnar aðstæður viðkomandi hælisleitanda og fyrirliggjandi upplýsingar um aðstæður hælisleitenda á Ítalíu. Stjórnvöld þurfi að hafa hliðsjón af aðstæðum sérstaklega viðkvæmra hópa, m.a. einstaklinga sem hafa sætt pyndingum, nauðgunum eða öðru alvarlegu sálfræðilegu, líkamlegu eða kynferðislegu ofbeldi. Þá segir að áfram skuli miða við þá framkvæmd íslenskra stjórnvalda, síðan í maí 2014, að þeir hælisleitendur sem teljist í sérstaklega viðkvæmri stöðu skuli ekki sendir til Ítalíu. Verði talið varhugavert með hliðsjón af ofangreindu mati að endursenda viðkomandi til Ítalíu, m.a. í ljósi stöðu hans og einstaklingsbundinna aðstæðna, er lagt til að undanþáguheimild 1. mgr. 17. gr. Dyflinnarreglugerðarinnar verði beitt þannig að íslensk stjórnvöld beri ábyrgð á efnismeðferð hælisumsóknarinnar.

Líkt og fyrr greinir gagnrýnir kærandi niðurstöðu Útlendingastofnunar í greinargerð sinni þar sem ekkert hafi verið fjallað um greinargerð innanríkisráðuneytisins frá desember sl. í niðurstöðu hinnar kærðu ákvörðunar. Kærunefnd útlendingamála tekur undir með kæranda að Útlendingastofnun hefði átt að líta til tilmæla innanríkisráðuneytisins við mat sitt á aðstæðum kæranda á Ítalíu.

Í greinargerð kæranda er því haldið fram að Útlendingastofnun hafi brotið gegn rannsóknarskyldu sinni, skv. 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, með því að kanna ekki andlegt ástand kæranda í ljósi þess að hann hafi lýst því í viðtali hjá Útlendingastofnun að hafa sætt pyndingum í heimalandi sínu. Þar kemur fram sú afstaða kæranda að heilsufar og fyrri saga geti haft áhrif á hvort hann teljist vera í sérstaklega viðkvæmri stöðu.

Samkvæmt 10. gr. stjórnsýslulaga skal stjórnvald sjá til þess að mál sé nægjanlega upplýst áður en ákvörðun er tekin í því og afla í því skyni nauðsynlegra upplýsinga. Mál telst nægilega rannsakað þegar þeirra upplýsinga hefur verið aflað sem nauðsynlegar eru til þess að hægt sé að taka efnislega rétta ákvörðun í því. Um frekari afmörkun á hversu ítarlega beri að rannsaka mál, ber m.a. að líta til þess hversu mikilvægt það er. Því tilfinnanlegri eða meira íþyngjandi sem stjórnvaldsákvörðun er, þeim mun strangari kröfur verður að gera til rannsóknar á þeim atvikum sem leiða til niðurstöðunnar. Markmið rannsóknarreglunnar er að tryggja að stjórnvaldsákvarðanir verði bæði löglegar og réttar. Í þeim tilvikum þegar ákvörðun stjórnvalds byggist á mati verður að afla þeirra upplýsinga sem nauðsynlegar eru svo hægt sé að beita þeim sjónarmiðum sem ætlun er að byggja stjórnvaldsákvörðun á. Að auki ef deilt er um málsatvik sem hafa verulega þýðingu fyrir úrlausn málsins ber stjórnvöldum að leggja áherslu á að rannsaka þann þátt þess.

Eins og að framan greinir ber Útlendingastofnun við úrlausn mála er varða synjun á efnismeðferð umsókna um alþjóðlega vernd að leggja mat á aðstæður í móttökuríki. Matið þarf að taka mið af einstaklingsbundnum aðstæðum umsækjanda. Þegar um er að ræða endursendingu til Ítalíu þarf sérstaklega að gæta að því að lagt sé mat á hvort umsækjandi tilheyrir þeim sérstaklega viðkvæmu

hópum sem fjallað er um í tilvitnaðri greinargerð innanríkisráðuneytisins. Það leiðir af 10. gr. stjórnsýslulaga að stofnunin þarf að leggja fullnægjandi grundvöll að þessu mati. Þegar upplýsingar koma fram í máli sem benda til þess að umsækjandi kunni að tilheyra sérstaklega viðkvæmum hópum þarf stofnunin að bregðast við með því að afla tiltækra gagna svo hægt sé að leggja fullnægjandi grundvöll að ályktun um hvort einstaklingur tilheyrir í reynd slíkum hópi.

Í viðtali hjá Útlendingastofnun þann 7. apríl 2016 kvaðst kærandi aðspurður um andlega heilsu sína [...]. Hann hafi fundið fyrir [...] undanfarið sem hann ræki til pyndinga sem hann hafi orðið fyrir. Gögn málsins benda ekki til þess að Útlendingastofnun hafi spurt kæranda nánar út í þessi svör sín í viðtali eða óskað eftir frekari gögnum frá honum um þetta atriði.

Þá er í niðurstöðum ákvörðunar Útlending astofnunar frá 3. maí 2016 fjallað um stöðu kæranda, þ.m.t. mat stofnunarinnar á því hvort hann sé í viðkvæmri stöðu. Þar kemur fram það mat Útlendingastofnunar að ekkert í gögnum málsins benti til þess að kærandi væri í sérstaklega viðkvæmri stöðu. Hann sé tiltölulega ungur karlmaður sem kveðjist vera [...]. Í ákvörðuninni er ekki fjallað um pyndingar sem kærandi kveðst hafa orðið fyrir í heimaríki sínu.

Þegar litið er til gagna málsins, ákvörðunar Útlendingastofnunar og rökstuðnings fyrir því að senda skuli kæranda til Ítalíu á grundvelli Dyflinnarreglugerðarinnar fær kærunefnd ekki séð að stofnunin hafi rannsakað hvort kærandi hafi orðið fyrir pyntingum í heimaríki sínu. Að mati kærunefndar benda gögn málsins því ekki til þess að fullnægjandi grundvöllur hafi verið lagður að þeirri ályktun Útlendingastofnunar að ekkert bendi til þess að kærandi sé í sérstaklega viðkvæmri stöðu.

Ljóst er að meginmarkmiðið með kæruheimildum er að tryggja réttaröryggi borgaranna með því að gera þeim kleift að fá umfjöllun um mál sín á tveimur stjórnsýslustigum. Að mati kærunefndar er því ekki hægt á kærustigi að bæta úr þeim ágalla sem tengist skorti á rannsókn á því hvort kærandi sé viðkvæmur einstaklingur með tilliti til þeirra pyndinga og líkamlega ofbeldis sem hann kveðst hafa orðið fyrir. Í ljósi framangreinds telur kærunefnd rétt að vísa málinu til nýrrar meðferðar hjá Útlendingastofnun.

Með vísan til þess sem að framan er rakið er það niðurstaða kærunefndar að fella beri úr gildi ákvörðun Útlendingastofnunar þar sem rannsóknarskyldu skv. 10. gr. stjórnsýslulaga var ekki nægilega gætt. Lagt er fyrir Útlendingastofnun að taka mál kæranda aftur til meðferðar.

Úrskurðarorð

Ákvörðun Útlendingastofnunar er felld úr gildi. Málinu er vísað til nýrrar meðferðar Útlendingastofnunar.

The decision of the Directorate of Immigration is vacated. The Directorate is instructed to reexamine the case.

Anna Tryggvadóttir, varaformaður

Erna Kristín Blöndal Þorbjörg Inga Jónsdóttir


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta