Hoppa yfir valmynd

Matsnefnd eignarnámsbóta, úrskurður 24. maí 2006

Ár 2006, miðvikudaginn 24. maí, er í matsnefnd eignarnámsbóta samkvæmt lögum nr. 11/1973 tekið fyrir matsmálið nr. 1/2006.

                                 Vegagerðin

                                   gegn

                                   Ingólfi Jónassyni,

                                   Sigurgeir Jónassyni,

                                   Árna Gíslasyni,

                                   Auði Gísladóttur,

                                   Sólveigu Gísladóttur og

                                   Jóni Árna Sigfússyni

                                   og í því kveðinn upp svohljóðandi

ÚRSKURÐUR

Úrskurð þennan kveða upp Allan Vagn Magnússon, héraðsdómari og varaformaður matsnefndar eignarnámsbóta, ásamt meðnefndarmönnunum, Benedikt Bogasyni, héraðsdómara og Vífli Oddssyni, verkfræðingi, en varaformaður hefur kvatt þá til starfa í málinu skv. heimild í 2. mgr. 2. gr. laga nr. 11/1973.

Með bréfi dagsettu 14. febrúar 2006 beiddist eignarnemi, sem er Vegagerðin Borgartúni 5 og 7 Reykjavík, þess með vísan til 46. gr. vegalaga nr. 45/1994 og laga nr. 11/1973 um framkvæmd eignarnáms að Matsnefnd eignarnámsbóta meti bætur vegna framkvæmda við vegagerð í landi jarðanna Helluvaðs I, II og Laxárbakka í Mývatnssveit.

Eignarnemi er Vegagerðin, kt. 680269-2899, Borgartúni 5 og 7, Reykjavík. Eignarnámsþolar eru eigendur Helluvaðs I Ingólfur Jónsson, kt. 030448-2439, og Sigurgeir Jónsson,             kt. 221046-4639, eigendur Helluvaðs II Árni Gíslason, kt. 110524-3159 Auður Gísladóttir, kt. 101225-5349, Sólveig Gísladóttir, kt. 080728-3369 og Jón Árni Sigfússon, kt. 231029-2499 og eigandi Laxárbakka Árni Gíslason, kt. 110524-3159.

 

Eignarnemi kveður andlag eignarnáms vera 17,49 ha. landspildu undir vegsvæði og 8.000 m3 af fyllingarefni til vegagerðar í landi ofangreindra jarða.

Eignarnemi hefur lokið framkvæmdum við endurbyggingu Hringvegar um Mývatnsheiði, frá Reykjadalsá að Helluvaði. Framkvæmdir voru unnar í fullu samráði við og með samþykki eignarnámsþola. Eignarnámsþolar tóku sjálfir að sér að girða meðfram veginum og hafa fengið greitt fyrir það. Hins vegar hafa ekki tekist samningar um bætur til handa eignarnámsþolum vegna framkvæmda.

Hin eignarnumda landspilda er að sögn eignarnema nánar tiltekið breikkun á vegsvæði Hringvegar frá st. 7500 í svokallaðri Kæfumýri, nálægt Másvatni, að st. 12800, alls á 5.300 metra kafla. Miðað er við að ekki greiðist bætur fyrir 12 m breitt vegsvæði gamla vegarins sem lá á sem næst sama stað um landið. Flatarmál vegsvæðis átti að miðast við 40 m heildarbreidd þannig að vegsvæði endurbyggðs vegar yrði 21,2 ha. Hins vegar girtu landeigendur sjálfir meðfram veginum og völdu girðingarstæðið þannig að meðalbreidd milli girðinga varð 45 m. Heildarbreidd vegsvæðis samkvæmt því er 23,85 ha. Vegsvæði gamla vegarins er 6,36 ha. Mismunur á flatarmáli vegsvæðis fyrir og eftir endurbyggingu er því 17,49 ha. og er andlag eignarnámsins miðað við það.

Andlag eignarnáms er einnig jarðefni til vegagerðar úr námu C í svokölluðum Nónskarðsás. Um er að ræða 8.000 m3 af fyllingarefni.

Ekki eru boðnar bætur sérstaklega fyrir tímabundin afnot lands og jarðrask á utan hinnar eignarnumdu spildu á verktíma. Flatarmál raskaðs svæði á framkvæmdatíma var í heild minna en krafist er eignarnáms á þó að í einhverjum tilvikum fari það ekki saman. Þar sem framkvæmdir voru að mestu á fyrirliggjandi vegsvæði verður ekki séð að eignarnámsþoli hafi orðið fyrir óhagræði af framkvæmdum sem réttlætt geti sérstakar bætur fyrir jarðrask og átroðning á verktíma.

Þar sem aðilar hafa verið sammála um að leggja mat bóta í úrskurð nefndarinnar hafa eiginleg tilboð ekki gengið milli aðila. í óformlegum þreifingum bauð eignarnemi bætur að fjárhæð 300.000 kr. fyrir land undir veg og 64.000 kr. fyrir jarðefni til vegagerðar. Viðbrögð lögmanns eignarnámsþola við bótatilboði voru að ekki væri unnt að ná samkomulagi á þeim grundvelli auk þess sem ýmis önnur ágreiningsefni eru sem leysa þarf úr, sbr. ofangreint.

 

Um er að ræða hluta af tæplega 13 km langri endurbyggingu Hringvegar um Laxárdalsheiði frá Reykjadalsá að Helluvaði. Tilgangur og markmið framkvæmda var að bæta vegarsamband á Hringvegi og auka umferðaröryggi á vegarkaflanum. Vegurinn var byggður upp og þannig dregið úr snjósöfnun, lagður bundnu slitlagi og lega hans lagfærð lítillega þannig að hönnun hans tæki mið af 90 km/klst. hámarkshraða. Með framkvæmdinni var loks komið á viðunandi vegarsambandi við náttúruperlur Mývatnssveitar og jafnframt stigið skref í átt að því að ljúka uppbyggingu vegar með bundnu slitlagi milli Norður- og Austurlands.

Vegarkaflinn í landi eignarnámsþola var með þeim hætti að óhjákvæmilegt var að bæta þar úr til að ofangreindum markmiðum yrði náð. Þar sem vegurinn lá áður upp frá Másvatni var brött brekka með tveimur beygjum. Frá heimreiðinni að Stöng og að Helluvaði og Laxárbakka lá vegurinn lágt í landinu og með kröppum beygjum.

Hið eignarnumda land er á Laxárdalsheiði og var áður notað til sumarbeitar fyrir sauðfé. Síðasti kafli vegarins liggur meðfram bökkum náttúruperlunnar Laxár. Vegurinn var ógirtur og allmikill ágangur sauðfjár á veginum eins og fram kom við vettvangsgöngu. Til þess að markmiðum um bætt umferðaröryggi yrði náð var vegurinn afgirtur og þannig komið í veg fyrir ágang búfjár á vegsvæði. Tóku eignarnámsþolar að sér fyrir eignarnema að girða veginn af. Með afgirtum vegi er beitilandið á heiðinni klofið í tvennt en áður átti sauðfé greiða leið um veginn og yfir hann. Til að bregðast við þessu setti eignarnemi í samráði við eignarnámsþola búfjárgöng á þremur stöðum undir veginn. Það úrræði er að áliti sérfróðra mjög til þess fallið að bæta úr óhagræði af skiptingu beitilands og ekki annað vitað en búfé venjist á notkun undirganga á tiltölulega stuttum tíma.

Nokkur umræða var á vettvangi um uppgræðslu lands við Brattás og er því rétt að fara nokkrum orðum um hana. Eignarnemi lætur sá í sár sem verða á grónu landi vegna vegagerðar. Við framkvæmd sáningar er farið eftir leiðbeiningum þar að lútandi sem teknar hafa verið saman en auk þess er eftir þörfum leitað ráðgjafar hjá Landgræðslu ríkisins, haft samráð við landeigendur og eftirlitsráðgjafa Náttúruverndar ríkisins. Að mati eignarnema var eðlilega staðið að uppgræðslu svæðisins en ljóst er af vettvangsskoðun að uppgræðsla gengur hægt. Hvort það stafar af röngum vinnubrögðum eignarnema eða erfiðum vaxtarskilyrðum liggur ekki ljóst fyrir.

Ennfremur var látið að því liggja á vettvangi að tekið hefði verið meira efni en aðeins efnið úr gamla vegsvæðinu við Brattás. Var því til sönnunar bent á raskað land milli nýja vegarstæðisins og gamla vegarins. Eignarnemi benti á að gömul náma var á þessu svæði. Eignarnema var uppálagt að jafna út námunni og sá í hana þar sem hætt var að nýta námuna og því skylt að láta ganga frá henni sbr. 4. mgr. 49. gr. og ákvæði til bráðabirgða II í náttúruverndarlögum nr. 44/1999. Raskaða svæðið var því ekki allt efnistökusvæði heldur gömul náma sem gengið var frá jafnhliða verkinu. Ennfremur kann að valda misskilningi hjá eignarnámsþola að ekki eru boðnar bætur fyrir efni sem tekið er úr skeringu innan vegsvæðis, þ.m.t. úr skeringum í vegarstæði nýja vegarins sem tekið er eignarnámi. Lýsingu á vinnslu vegfyllingarinnar og gömlu námunnar við Brattás má finna í útboðslýsingu, bls. 17, kafli 7.5.

Verklok skv. útboðslýsingu áttu að vera á árinu 2003 en frágangi og sáningu lauk ekki fyrr en á árinu 2004. Af ástæðum sem ekki eru kunnar dróst úr hömlu að gera eignarnámsþolum tilboð um bætur vegna framkvæmda í landi þeirra. Leituðu eignarnámsþolar þá aðstoðar lögmanns og eru samskipti eignarnema og lögmannsins rakin í matsbeiðni. Leiddu þau til þeirrar niðurstöðu að vísa málinu til úrlausnar matsnefndar eignarnámsbóta.

Andlag eignarnámsins er eins og áður sagði 17,49 ha. af landi undir veg og 8.000 m3 af jarðefni til vegagerðar. Eignarnemi miðaði við að vegsvæði þyrfti að vera 40 m breitt og þannig samtals 21,2 ha. að flatarmáli. Eignarnámsþolar girtu hins vegar í meiri fjarlægð frá vegi þannig að meðalbreidd vegsvæðis er um 45 m á breidd og er eignarnámið miðað við það. Hins vegar er við það miðað að 12 m breitt vegsvæði tilheyri gamla veginum og flatarmál eignarnumins lands fundið út með því að draga flatarmál gamla vegsvæðisins frá nýju vegsvæði sbr. 2. mgr. 47. gr. vegalaga nr. 45/1994.

Hið eignarnumda land sundurliðast skv. framansögðu þannig:

Heildarflatarmál ca. 45 m breiðs vegsvæðis:     23,85 ha.

Til frádráttar 12 m breitt vegsvæði:                    -6,36 ha.

Samtals                                                                      17,49 ha.

 

Hið eignarnumda malarefni eru 8.000 m3 af efni sem notað er í fyllingu vegar.

Eignarnemi gerði eignarnámsþolum tilboð að fjárhæð 300.000 kr. fyrir land undir veg og 64.000 kr. fyrir fyllingarefni.

Eignarnemi hefur í tilboði sínu til eignarnámsþola skilgreint land eftir landgæðum og landnotkun sem fyrirsjáanleg og líkleg er, þ.e. sem sumarbeitiland fyrir sauðfé. Litið er svo á að landið sé vegna staðsetningar, landgæða og staðhátta ekki hæft til ræktunar. Auk þess hefur eignarnemi tekið mið af því að á um 900 m kafla vegarins næst Laxá, þ.e. innan 200 m fjarlægðar frá bakka Laxár, er landið friðlýst skv. 3. gr. laga nr. 97/2004 um verndun Mývatns og Laxár í Suður-Þingeyjarsýslu og reglugerð nr. 136/1978 sem gildir um framkvæmd laganna.

Tilboði eignarnema hefur ekki verið tekið af hálfu eignarnámsþola og er litið svo á af hálfu eignarnema að það sé nú óskuldbindandi fyrir hann verði talið að meta eigi lægri bætur í máli þessu.

Lögmaður eignarnámsþola reifaði í bréfi 29.11. 2005, hugmyndir um bætur á bilinu 100-200.000 kr./ha. með vísan til úrskurða í nýlegum matsmálum á Austurlandi. Í bréfinu eru ennfremur m.a. gerðar athugasemdir við efnismagn og að ekki hafi verið boðnar bætur fyrir jarðrask og átroðning. Ekki hafa komið fram beinar kröfur um bætur af hálfu eignarnámsþola.

 

Sjónarmið eignarnema um fjárhæð bóta.

Eignarnemi gerir þá kröfu að bætur fyrir hið eignarnumda land og jarðefni til vegagerðar verði ákvarðaðar að hámarki í samræmi við tilboð eignarnema sem gerð er grein fyrir hér að framan.

Ennfremur er þess krafist að eignarnámsþola verði ákvarðaður hæfilegur málskostnaður sem taki mið af umfangi og tímalengd málsmeðferðar fyrir matsnefnd eignarnámsbóta.

Almennt.

Af hálfu eignarnema er á því byggt, að bætur til eignarnámsþola geti aldrei numið hærri fjárhæð en sannað fjárhagslegt tjón hans er af eignarnáminu. Eignarnámsþoli verði sem líkast settur fjárhagslega og eignarnámið hefði ekki farið fram. Miða eigi bætur við sannað fjárhagslegt verðmæti hins eignarnumda á matsdegi miðað við staðgreiðslu. Til frádráttar bótum eigi að koma hagsbætur þær, sem ætla megi að hljótist af framkvæmdum þeim, sem eru tilefni eignarnámsins. Vissulega verður ekki bent á sérstakt hagræði eignarnámsþola af framkvæmdum umfram þann mikla ávinning sem þeir og aðrir landeigendur á þessu svæði hafa af bættu vegarsambandi. Hins vegar ber að horfa til þeirra sérstöku hagsbóta sem eru af undirgöngum sem eignarnemi hefur komið fyrir á þremur stöðum í landi eignarnámsþola.

Af hálfu eignarnema er litið svo á að tilboð hans feli í sér að fullar bætur eru greiddar fyrir hið eignarnumda land og jarðefni sem og vegna tímabundins átroðnings vegna framkvæmdanna. Viðbótarbætur vegna jarðrasks og átroðnings tryggi eignarnámsþolum skaðleysi af völdum eignarnámsins og þar með verði uppfyllt skilyrði IX. kafla vegalaga nr. 45/1994 og 72. gr. stjórnarskrárinnar um fullar bætur.

Til stuðnings kröfum sínum og sjónarmiðum varðandi ákvörðun bóta, sem nánar eru reifuð hér síðar, vísar eignarnemi til vegalaga nr. 45/1994, einkum ákvæða IX. kafla laganna. Vísað er til laga um framkvæmd eignarnáms nr. 11/1973. Ennfremur er vísað til 72. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands nr. 33/1944 með síðari breytingum. Vísað er til hefðbundinna skýringa á þessum lagaákvæðum og til almennra ólögfestra reglna og viðurkenndra sjónarmiða um ákvörðun eignarnámsbóta.

 

Bætur fyrir eignarnumið land undir veg í óskiptu landi Helluvaðs I og II og Laxárbakka:

Eignarnemi vísar til þess að hann hafi um áratuga skeið í samráði við Bændasamtök Íslands gefið út viðmiðun um lágmarksbætur fyrir land undir veg og efnistöku. Í ljósi verðþróunar á fasteignamarkaði undanfarin ár og með hliðsjón af úrskurðum matsnefndar eignarnámsbóta hafi eignarnemi einhliða endurskoðað viðmiðanir hvað þetta varði og gefið út vinnureglur um greiðslu bóta vegna vegagerðar.

Í vinnureglum eignarnema sé byggt á þeirri almennu reglu að miða beri bætur fyrir land við ætlað söluverð lands hverju sinni. Liggi ekki fyrir áreiðanlegar upplýsingar sem unnt sé að byggja á til ákvörðunar á ætluðu söluverði viðkomandi lands séu gefnar leiðbeiningar við ákvörðun bóta sem taki til mismunandi lands með tilliti til staðsetningar, landgæða, notkunarmöguleika o.fl.

Eignarnemi hafi aflað sér upplýsinga um þá þætti sem notaðir séu til viðmiðunar við mat lands hjá Fasteignamati ríkisins og lagt að nokkru leyti til grundvallar við gerð vinnureglnanna. Enn fremur hafi verið miðað við að færa til nútíma þær viðmiðanir sem eignarnemi styðjist við m.a. þannig að fjölþættari not lands komi til skoðunar við ákvörðun bóta hverju sinni en gert hafi verið samkvæmt eldri orðsendingum um landbætur. T.d. sé sérstaklega tekið fram að horfa eigi til þess við mat á bótum ef land sem um ræðir telst ákjósanlegt til bygginga vegna staðsetningar og landgæða.

Eignarnemi telur að með nýjum vinnureglum um bætur fyrir land hafi lágmarksviðmiðanir grunnverðs fyrir land verið hækkaðar svo að unnt sé að miða við lágmarksviðmiðun í flestum tilvikum þegar um sé að ræða hefðbundið landbúnaðarland utan þéttbýlis, fjarri vinsælum svæðum fyrir sumarhúsabyggð. Í sumum tilvikum geti þessar bætur verið ríflegar, s.s. á afskekktari svæðum og annars staðar þar sem landnotkun takmarkast af náttúrulegum aðstæðum, s.s. hæð yfir sjávarmáli.

Eignarnemi miði framboðnar bætur fyrir landið við að um sé að ræða landbúnaðarland og önnur nýting, s.s. undir sumarhúsabyggð, sé ekki fyrirsjáanleg eða líkleg. Nýting landsins sé til heyöflunar og fyrir beit búsmala.

Hvað snerti mat á landbúnaðarlandi sé sem fyrr stuðst við þau viðmið sem mótuð hafi verið í samráði við Bændasamtökin á hverjum tíma. Þannig séu enn sem fyrr boðnar sérstaklega bætur fyrir ræktunarkostnað og afurðatap til viðbótar grunnverði landsins. Viðmiðanir byggi á þeim grunni sem mótaður hafi verið í samráði við hagsmunasamtök bænda á hverjum tíma og sé uppreiknaður miðað við verðlag. Hins vegar sé ráð fyrir því gert að slíkar bætur verði ekki boðnar nema um afurðagefandi nýlega ræktun sé að ræða.  Í því sambandi sé einnig á því byggt að hluti landsins, þ.e. innan 200 m fjarlægðar frá bökkum Laxár, sé háður þeim kvöðum sem fylgi friðlýsingu samkvæmt lögum um vernd Mývatns og Laxár í Suður-Þingeyjasýslu. Tilboð eignarnema um bætur fyrir land undir veg með mið af framangreindu sé að jafnaði u.þ.b. 20.000 kr./ha. sem verði að teljast eðlilegt verð fyrir land sem nýtt er til sumarbeitar fyrir sauðfé og sé að hluta til háð verulegum kvöðum um nýtingu og mannvirkjagerð vegna náttúruverndargildis svæðisins.

Eignarnemi hafi við verðlagningu landsins einnig litið til þess að beitiland Helluvaðsjarðanna og Laxárbakka sé víðlent. Samkvæmt gagnagrunni Nytjalands sé heildarstærð landsins 2.122 ha. Breikkun Hringvegar um beitilandið geti ekki talist hafa nein teljandi áhrif á stærð beitilandsins. Nægt landrými verði eftir til sauðfjárbeitar á heiðinni.

Matsnefnd hafi skoðað vettvang, kynnt sér landkosti og allar aðstæður er haft geti áhrif á verðmæti hins eignarnumda. Eignarnemi vísar ennfremur til lýsingar á aðstæðum og jarðvegi á hinu eignarnumda landi í útboðslýsingu.

Um verðmæti hins eignarnumda lands er ennfremur vísað til fasteignamats jarðanna en þar komi fram að mat jarðnæðis Helluvaðs I í heild sé 247 þús. kr., Helluvaðs II 129 þús. kr. og Laxárbakka 129 þús. kr.

Ekki liggi fyrir nýlegar jarðasölur í næsta nágrenni hins eignarnumda lands, sem hægt sé að fallast á að nota megi til viðmiðunar um verðmæti landsins. Varðandi mat á bótum fyrir land megi hins vegar að einhverju leyti styðjast við sjónarmið í  nýlegum úrskurðum matsnefndar eignarnámsbóta eftir því sem við getur átt en ljóst er að alveg sambærileg mál skortir hin síðari ár. Ennfremur sé unnt að taka mið af matsfjárhæðum í eldri úrskurðum uppreiknuðum með vísitölum sem reiknaðar hafa verið og sýna eiga þróun fasteignaverðs. Að vísu skorti opinbera vísitölu hvað snerti jarðaverð en taka megi mið af hækkun fasteignaverðs í þéttbýli.

Þegar litið sé til úrskurða nefndarinnar sem sambærilegir teljist megi einkum hafa til hliðsjónar úrskurði í málum nr. 7 og 8/1998, varðandi lagningu Hringvegar um s.k. Háreksstaðaleið. Um sé að ræða mál vegna mats á bótum vegna lagningar vegar um lönd  Háreksstaða og Arnórsstaða. 41,6 ha. lands Háreksstaða hafi verið metnir á 360.000 kr. og 37,6 ha. lands Arnórsstaða verið metnir á 270.000 kr., eða rúmlega 7.200 kr./ha. Ef miðað sé við hækkun vísitölu fasteignaverðs á höfuðborgarsvæðinu sé hækkun hennar frá nóvember 1998 til mars 2006 um 285%. Munur á tilboði eignarnema (20.000 kr./ha.) og viðmiðun í umræðum málum sé svipaður eða um 280%.

Lögmaður eignarnámsþola telji að taka megi mið af úrskurðum í málum nr. 2 og  6/2005,  varðandi land á Austurlandi. Eignarnemi telur á engan hátt hægt að jafna þessum málum við það sem hér um ræðir. Í umræddum málum hafi verið á því byggt og horft til þess að uppgangur hafi verið í nágrenni Reyðarfjarðar og víða annars staðar á Austurlandi vegna yfirstandandi framkvæmda. Ennfremur hafi verið horft til nálægðar þéttbýlis og þeirra áhrifa sem það hafi á landverð. Ekki verði á því byggt að hér sé um sambærilegar aðstæður að ræða. Eignarnemi hafi því hafnað sjónarmiðum um fordæmisgildi umræddra úrskurða í máli þessu hvað varði landverð.

 

Flatarmál eignarnumins lands og frádráttur vegna gamla vegarins.

Eignarnemi miði flatarmál eignarnumins lands við girðingu sem eignarnámsþolar hafi girt fyrir eignarnema. Verði að telja þau mörk óumdeild í málinu. Enn fremur hafi ekki verið gerð athugasemd við að eignarnemi dragi frá flatarmál gamla vegarins við útreikning á flatarmáli hins eignarnumda lands. Miðar eignarnemi við að gamla veginum hafi fylgt 12 m breitt land að meðaltali venju samkvæmt. Um heimild til að draga frá vegsvæði gamla vegarins er vísað til 2. mgr. 47. gr. vegalaga nr. 45/1994 sbr. dóm Hæstaréttar um túlkun samhljóða ákvæðis 61. gr. eldri vegalaga, sem kveðinn var upp 31.03. 1980.  Í dóminum hafi ekki aðeins verið heimilað að draga frá flatarmál vegsvæðis heldur einnig matsverð jarðefnis í gamla veginum sem afhent hafi verið landeigendum.

 

Bætur fyrir jarðefni til vegagerðar.

Eignarnemi býður aðeins fram bætur vegna efnistöku úr námu B í hinu óskipta landi. Alls sé þar um að ræða 8000 m3 af fyllingarefni til vegagerðar.

Eignarnemi bjóði ekki fram bætur fyrir 10.000 m3 sem teknir hafi verið úr gamla veginum þar sem gamli vegurinn hafi verið eign eignarnema. Ennfremur séu ekki boðnar bætur fyrir jarðefni úr skeringum vegarins innan vegsvæðis sem tekið sé eignarnámi undir veg, en um áætlað magn þess megi fræðast í útboðslýsingu.

Eignarnemi byggir á vinnureglum um landbætur o.fl., sem notaðar séu til viðmiðunar við greiðslu fyrir jarðefni til vegagerðar. Þar sé gerður greinarmunur á efni eftir gæðum, þ.e. hvort efni er nýtanlegt í fyllingar, burðarlag eða bundið slitlag. Ennfremur er gerður greinarmunur á því hvort efni er tekið innan eða utan markaðssvæða.

Eignarnemi byggir á því að um sé að ræða efnistöku utan markaðssvæða. Ekki sé um að ræða stöðuga og verulega eftirspurn eftir jarðefni til mannvirkjagerðar í landi Helluvaðs I og II og Laxárbakka. Af þeim sökum séu boðnar bætur miðaðar við verð utan markaðssvæða skv. vinnureglunum.

Eignarnemi vísar til áralangrar venju í úrskurðum matsnefndar eignarnámsbóta við mat á jarðefni til vegagerðar, sem komin sé nokkur festa á.

Með vísan til framangreinds áréttar eignarnemi tilboð sitt um bætur fyrir jarðefni úr óskiptu landi Helluvaðs I og II og Laxárbakka.

 

Bætur fyrir jarðrask, átroðning og tímabundið rask og afnot lands utan hinnar eignarnumdu spildu:

Að því sé fundið af hálfu eignarnámsþola að ekki séu boðnar bætur fyrir jarðrask, átroðning og tímabundið rask á framkvæmdatíma. Eignarnemi telji ekki sýnt fram á að tilefni sé til að greiða sérstaklega bætur vegna þessa þáttar. Framkvæmdir hafi farið fram fjarri heimahúsum umræddra jarða. Tæpast verði því haldið fram að beitarafnot hafi með einhverjum hætti verið takmörkuð vegna framkvæmda. Í ljósi þess að framkvæmdir hafi að mestu verið á fyrirliggjandi vegarstæði gamla vegarins eða innan áhrifasvæðis hans verði tæpast séð að framkvæmdin hafi haft tímabundið tjón í för með sér fyrir eignarnámsþola.

Ennfremur áréttar eignarnemi að venju samkvæmt sé allt jarðrask jafnað og sáð í sár á grónu landi en það séu lagalegar skyldur eignarnema skv. ákvæðum vegalaga nr. 45/1994 og náttúruverndarlaga nr. 44/1999.

 

Óhagræði af tvískiptu vegakerfi vegna vegar inn Bárðardal.

Eignarnemi kveður það vera sér hulin ráðgáta hvaða þýðingu þessi þáttur geti haft fyrir ákvörðun bóta vegna framkvæmda við endurbyggingu Hringvegar á nánast sama stað og verið hefur um hið óskipta land Helluvaðs I og II og Laxárbakka. Engar framkvæmdir hafi verið á vegum eignarnema við lagningu vegar inn Bárðardal og ekki um að ræða breytingar á vegakerfi um land jarðanna.

 

Bygging undirganga fyrir sauðfé.

Með því að girða beggja vegna vegarins lokist leiðir búfjár inn á vegsvæðið og þar með einnig yfir það. Til að bregðast við þessu hafi eignarnemi sett búfjárgöng á þremur stöðum undir veginn til að tryggja hindrunarlaust flæði búfjár undir veginn.

Eignarnemi byggir á því að mótvægisaðgerðir, sem hann hafi gripið til með gerð undirganga, muni að fullu vega á móti neikvæðum áhrifum vegna afgirts vegar. Með þeim muni beitilandið nýtast með sama hætti og áður jafnframt því að bægt sé frá hættu vegna búfjár á veginum. Eignarnemi bendir á að samtök bænda víða um land hafa knúið á um að gerð verði búfjárgöng undir vegi í meira mæli en hingað til og hafa verið lagðar fram þingsályktunartillögur þar að lútandi. Verði að gera ráð fyrir því að þeir sem til þekkja hvetji til bygginga undirganga fyrir búfé af því að viðurkennt sé að slíkar aðgerðir komi að gagni.

 

Kröfugerð og sjónarmið eignarnámsþola

Af hálfu eignarnámsþola er gerð krafa um að bætur til handa þeirra vegna eignarnáms verði metnar að minnsta kosti að fjárhæð 14.654.000 krónur.  Jafnframt er krafist málskostnaðar úr hendi eignarnema.

Jafnframt er krafist málskostnaðar úr hendi eignarnema.

Af hálfu eignarnámsþola er lýsingum eignarnema í greinargerð á staðháttum, landgæðum og nýtingarmöguleikum hins eignarnumda lands sérstaklega mótmælt.  Staðreyndin er sú að land það sem fari nú undir veg eða ónýtist vegna vegastæðisins sé allt gott land.  Þá sé af eignarnema hálfu einblínt á hinn eignarnumda hluta og verðmæti hans án þess að nokkur marktæk umfjöllun eigi sér stað um áhrif vegalagningarinnar á nýtingarmöguleika jarðarinnar, utan hins eignarnumda hluta, þ.m.t. mögulega og líklega framtíðarnotkun.

 

Sjónarmið eignarnámsþola.

Í 1. mgr. i.f. 72. gr. stjórnarskrárinnar segir að fullt verð skuli koma fyrir hlut sem eignarnám er gert í. Samkvæmt hefðbundnum sjónarmiðum við verðlagningu eigna er rétt, við mat á því hvað teljist fullt verð í skilningi stjórnarskrár-ákvæðisins, að líta til þess hvert sé líklegt söluverðmæti eignarinnar, notagildi eignarinnar eða hver kostnaður sé fyrir eignarnámsþola að útvega sér sambærilega eign. Því sjónarmiði sem telst hagstæðast fyrir eignarnámsþola ber að beita.

 

1.         Bætur fyrir eignarnumið land.

Eignarnámsþolar leggur á það áherslu að við mat á bótum verður að líta til staðsetningar landsins í námunda við helsta þéttbýliskjarnann á þjóðleiðinni frá Akureyri til Egilsstaða.  Mývatn og nágrenni er einhver vinsælasti ferðamanna- og útivistarstaður landsins og á Mývatnssvæðinu hefur byggst upp allskyns atvinnustarfsemi því tengd og raunar jafnframt ótengd starfsemi.  Eru engar líkur á öðru en að starfsemi þessu tengd haldi áfram að vaxa á komandi árum.  Áður en vikið verður nánar að áherslum eignarnámsþola er nauðsynlegt að víkja nokkrum orðum að sjónarmiðum eignarnema varðandi verðlagningu þess lands sem skerðist.

Um sjónarmið eignarnema varðandi verðlagningu þess lands sem skerðist styðjist eignarnemi í fyrsta lagi við heimatilbúna verðskrá sína. Í öðru lagi horfi hann mjög til þess sem hann kalli mótvægisaðgerðir, í þriðja lagi líti hann til fasteignamats og í fjórða lagi vísar hann til laga nr. 97/2004 um verndun Mývatns og Laxár í Suður Þingeyjasýslu og í fimmta lagi telji hann staðsetningu jarðanna og landgæði öll leiða til lægra verðs en ella.

 Hvað verðskrá eignarnema varði skuli það sérstaklega áréttað að það fái hvorki staðist reglur stjórnsýsluréttar né þá sérstöku vernd eignarréttinda sem 72. gr. stjskr. og 1. gr. 1. samningsviðauka Mannréttindasáttmála Evrópu er ætlað að vernda að leggja með einhverjum hætti til grundvallar gagn sem stafar frá eignarnema sjálfum. Er á það bent að um matsnefnd gildi óskorað rannsóknarregla 10. gr. og jafnræðisregla 11. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.  Telji nefndin þannig ekki nægilega upplýst af gögnum málsins hvert markaðsvirði lands á svæðinu sé beri henni að efna til sjálfstæðrar rannsóknar þar að lútandi og niðurstaðan verði þess utan að taka tillit til jafnræðisreglu 11. gr. laganna.

Í öðru lagi vísar eignarnemi um lagi vísi eignarnemi um verðmæti jarðanna til fasteignamats þeirra.  Það þurfi auðvitað ekki að hafa uppi um það mörg orð að slíkt viðmið sé fjarstæðukennt og raunar óþekkt við verðmat fasteigna undir kringumstæðum sem þessum og sé þá sama hvort horft sé til dóma eða úrskurða Matsnefndar eignarnámsbóta.

Í þriðja lagi oftúlki eignarnemi þýðingu þeirra mótvægisaðgerða sem stofnað verði til af hans hálfu og þá fyrst og fremst því að koma fyrir þremur búfjárgögnum undir veginn.  Eignarnámsþolar telji að þau gögn leysi vandann hvað skepnuhald varðar aðeins að hluta til og mikil vinna sé fyrirsjáanleg á komandi árum við að forfæra skepnur, fyrst og fremst sauðfé milli þeirra jarðarhluta sem vegurinn skeri eftir endilöngu.

Í fjórða lagi  telur eignarnemi að 4. gr. laga nr. 97/2004 um verndun Mývatns og Laxár í Suður Þingeyjasýslu leiði með einhverjum hætti til takmörkunar bótaskyldu hans.  Sjónarmið eignarnema í þessa veru eru vanreifuð en ef þau eigi að skiljast bókstaflega séu þau á misskilningi byggð, svo sem ljóslega verði ráðið af fyrirmælum laga nr. 97/2004 og þá einkum 3. gr. þeirra.

Af þessum fyrirmælum greinarinnar sé útilokað að ráða með hvaða hætti þetta ætti að hafa áhrif á bótaskyldu eignarnema og hvað sem því líði sé nauðsynlegt að hann geri þá nákvæmar grein fyrir forsendum slíkrar lækkunar og tölulegum útreikningum þar að baki.  Staðreyndin er á hinn bóginn sú að skv. tilvitnuðum lagaákvæðum felst ekkert fortakslaust bann við framkvæmdum og nýtingu á umræddu  200 meta belti, sbr. einkum 2. mgr. 3. gr., þar sem þvert á móti er gert ráð fyrir heimild til slíks.  Þá mótmæla eignarnámsþolar því að um 900 metra kafla sé að ræða.

Í fimmta lagi virðist eignarnemi byggja á því að staðsetning jarðarinnar og staðhættir eigi fremur að leiða til lækkunar en hitt.  Þetta sé algjör misskilningur.  Jörðin sé með tilliti til margþættrar nýtingar, vel í sveit sett í þjóðleið (við þjóðveg 1) í næsta nágrenni við byggðakjarna á Mývatnssvæðinu, einu vinsælasta ferðamanna- og útivistarsvæði landsins.  Til þess verði að líta að landverð á þessu svæði sé annað og hærra en í fjærliggjandi byggðum.  Málatilbúnaður eignarnema sé með þeim annmörkum að eignarnemi virðist telja að við eignarnám fasteignaréttinda verði bætur ákvarðaðar með skírskotun til nokkurskonar jafnræðissjónarmiða, undir þeim öfugu formerkjum, að sömu aðferðafræði verði beitt við mat án tillits til þeirra sérstöku aðstæðna sem fyrir hendi séu í hverju einstöku máli.  Þess grundvallarmisskilnings gæti auk þess í málatilbúnaði eignarnema að unnt sé, til framtíðar litið, að miða við það að stundaður verði búskapur á viðkomandi jörð.  Miðað við allar forsendur og þróun í jarðanotum sé allt eins líklegt að til lengri framtíðar litið verði búskapur ekki stundaður í landi jarðanna Helluvaðs I og II og Laxárbakka heldur verði landið nýtt til annarrar og aðbærri nýtingar. Með tilliti til staðsetningar sé landið allt eins heppilegt til að reisa á því sumarbústaði eða eftir atvikum aðra byggð á heilsársgrundvelli og/eða reka þar aðra starfsemi tengda ferðamennsku og veiði. Um þetta vísist m.a. til  fordæmis Hæstaréttar Íslands í svokölluðu Ásgarðsmáli, Hrd. 1984/906, þar sem áréttað sé að líta verði til mögulegrar framtíðarnýtingar lands, en ekki verði einblínt á gildandi skipulag og not.  Þá sé mikilvægt að horfa til þeirrar staðreyndar að jarðaverð á Íslandi hafi hækkað í nánast risavöxnum skrefum á umliðnum árum, misserum og mánuðum.  Í því ljósi séu forsendur eignarnema um landverð í heimatilbúnum vinnureglum hans í besta falli vitnisburður um veröld sem var, forsendur landsverðs á liðinni öld.

Í framhaldinu verði viðfangsefnið nálgast hefðbundinni nálgun, þar sem leitast sé við að meta vegsvæðið sjálft, áhrifasvæði vegarins o.s.frv.

Í fyrsta lagi sé eignarnemi að miða við of lítið land þegar gengið sé út frá 17,49 ha. Sé þá sérstaklega og í fyrsta lagi bent á þá staðreynd að einungis sé gert ráð fyrir 40 metra helgunarsvæði í stað 60 metra og það þrátt fyrir skýr fyrirmæli í 33. gr. vegalaga um 60 metra helgunarsvæði í tilviki sem þessu.  Í 1. mgr. 33. gr. vegalaga segi: “Byggingar, leiðslur eða önnur mannvirki, föst eða laus, má ekki staðsetja, nema leyfi Vegagerðarinnar komi til, nær vegi en 30 m frá miðlínu stofnvega og 15 m frá miðlínu annarra þjóðvega.”  Megi um þetta jafnframt vísa til úrskurðar Matsnefndar eignarnámsbóta í málinur nr. 2/2005. Vegsvæði endurbyggðs vegar með lögbundnu helgunarsvæði nemi því samtals 31,8 ha.  Að frádregnu eldra vegsvæði 6,26 ha. beri að miða bótaákvörðun við 25,44 ha. Eignarnemi verði að útskýra af hverju eignarnámsþolar eigi að sæta þessari altæku skerðingu á nýtingarmöguleikum lands á umræddu svæði án þess að fá það bætt nema að hluta.

Þá megi það ekki gleymast að gera verði ráð fyrir því að áhrifasvæði hins nýja vegar nemi allt að 250 metrum frá miðlínu hans, sbr. Hrd. 17. mars 2005 í málinu nr. 349/2004. Það mál hafi einmitt fjallað um lagningu þjóðvegar 1 um jörð.  Áhrifasvæði nýs vegar um land Helluvaðs I, II  Laxárbakka nemi þá samtals um 132 ha miðað við forsendur Hæstaréttar í nefndu máli

Í öðru lagi telji eignarnámsþolar að viðmiðunin kr. 20.000.- pr. ha. sé ekkert minna en fráleit  Þá verðlagningu styðji eignarnemi tilvísunum til tveggja átta ára gamalla mála.  Með þessum tilvísunum horfi eignarnemi algjörlega fram hjá þeirri verðbyltingu sem orðið hafi á jarðaverði á síðustu árum og velji þess utan land austur á Jökuldal sem sé eins ósambærilegt því landi og hér um ræðir og hugsast geti.  Svo sem fyrr segi þurfi ekki að fara um það mörgum orðum að landverð í dreifbýli hafi stigið í hundruðum prósenta á liðnum misserum og árum.  Eigi það ekki síst við um jarðir og fasteignir sem liggi að eða í jöðrum þéttbýlissvæða, að þjóðleiðum, á vinsælum útvistar- og ferðasvæðum, að ekki sé talað um hlunnindi tengd veiði.  Öll eigi þessi sjónarmið við um jarðirnar Helluvað I, Helluvað II og Laxárbakka.  Það sé raunar aðfinnsluvert að eignarnemi, ríkisstofnun sem m.a. sé bundin af fyrirmælum stjórnsýslulaga, skuli vitna til gamalla og ósamaburðarhæfra mála þegar að við fjölda marktæra úrlausna Matsnefndar eignarnámsbóta og dómstóla er að styðjast frá síðustu árum.

  Í þriðja lagi megi hafa nokkra hliðsjón af því að í árs gömlum málum af Austurlandi hefur Vegagerðin fallist á úrskurði Matsnefndar eignarnámsbóta um greiðslu bóta á bilinu kr. 100.000.- 200.000.- pr. ha., sbr. úrskurði nefndarinnar í málunum nr. 3/2004, 2/2205 og 6/2005. Hvað staðsetningu og legu varði sýnist þau tilvik öll sambærileg við það sem hér um ræði og megi þá sérstaklega árétta það um jörðina Syðri Fjörð í Lóni.. Í svokölluðu Þjórsártúnsmáli, dómi Hæstaréttar frá 17. mars 2005, málinu nr. 349/2004 hafi verið miðað við kr. 300.000.- pr. ha. af landbúnaðarlandi. 

Í fjórða lagi leggja eignarnámsþolar fram matsgerð dómkvaddra matsmanna, sem falið hafi verið að meta sömu verðmæti og Matsefnd eignarnámsbóta mat í matsmálinu nr. 3/2004, í úrskurði frá 29. september 2004. Vísast til niðurstaðna matsmanna sem séu verulega hærri en Matsnefndarinnar í tilvitnuðu máli en ekki sé síður vísað til almennar umfjöllunar matsmanna um verðmyndun fasteigna í jaðri og utan þéttbýlissvæða.

Í fimmta lagi leyfi eignarnámsþolar sér að vísa til gagna sem varði jarðasölur á Austurlandi á síðustu árum og vakin sérstök athygli á því að allar séu þessar sölur meira en árs gamlar (hinar yngstu), þannig að skoða verði verðforsendur tilvitnaðra samninga með tilliti til almennrar verðþróunar og ekki síður þeirrar sérstöku verðhækkunar sem orðið hafi á jarðaverði utan þéttbýlis.

Að öllu framangreindu virtu telji eignarnámsþolar eðlilegt að líta til eftirtaldra talna við mótun kröfugerðar og er þá miðað við kr. 200.000 pr. ha. sbr. framangreindur rökstuðningur:

ð        Land í beint vegsvæði sbr. 33. gr. vegalaga, 25,44 ha. x kr. 200.000.-  kr. 5.088.000.-

ð        Land á áhrifasvæði vegar, 132 ha x kr. 200.000.- kr. 26.4000.000.-

Þess beri þó að geta að það sé ekki eðlilegt að miða við að verðrýrnun á öllu 250 metra áhrifasvæðinu nemi fullum kr. 200.000.- pr. ha.  Að jafnaði mætti miða við að verðrýrnun lands næmi 50%.  Að þessu öllu virtu gera eignarnámsþolar kröfu um að skerðing á landi verði bætt með greiðslu að fjárhæð kr. 13.200.000.-

 

2.         Efni.

Upphaflega hafi eignarnemi ráðgert að nýta 18.000 m3 úr efnisnámum B við Nónskarðsás og C við Brattás.  Í matsbeiðni sé því haldið fram að til mats komi aðeins 8.000 m3 sem nýttir hafi verið úr námu C en að þeir 10.000 m3 sem nýttir hafi verið í Brattási hafi allir verið teknir úr eldra vegstæði og ekki beri því að bæta þá sérstaklega.  Um þetta sé það að segja að norðan eldri vegar við Brattás hafi verið náma áður en ráðist hafi verið í vegagerðina.  Svo sem augljóst hafi mátt vera við vettvangsskoðun hafi efnistaka átt sér stað langt út fyrir eldra vegsvæði á þeim stað.  Sönnunarbyrðin um það að hvaða leyti um sé að ræða land í eldra vegsvæði, sbr. 2. mgr. 47. gr. vegalaga nr. 45/1994, hvíli undir kringumstæðum sem þessum algjörlega á eignarnema.  Af hans hálfu hafi engin fullnægjandi eða marktæk sönnunargögn verið lögð fram um tilhögun umræddrar efnistöku og að hvaða leyti efni kunni að hafa verið í eldra vegstæði og að hvaða leyti utan þess.  Hafi þó fullt tilefni verið til þess eftir athugasemdir eignarnámsþola við vettvangsgöngu.  Að óbreyttu verður því að miða við að allt efnið 10.000 m3 sé bótaskylt.  Samtals beri þá að bæta eignarnámsþolum 18.000 m3. 

Eignarnámsþolar telji tvö atriði yfirgnæfa önnur í málatilbúnaði eignarnema.  Annars vegar haldi hann því fram að efnistökusvæðið sé utan markaðssvæða og hins vegar miði hann einingaverð við vinnureglur sínar eða verðskrá.

Um síðarnefnda atriðið hafi þegar verið fjallað hér að framan.  Hvað fyrra atriðið varði miði sú umfjöllun og fullyrðingar við þið að ekki sé fyrir að fara á  stöðugri og verulegri eftirspurn eftir jarðefnum til mannvirkjagerðar í landi jarðanna. Það liggi í augum uppi að efnistaka í landi eignarnámsþola eigi sér stað á markaðssvæði.  Þurfi ekki annað en að líta til staðsetningar jarðarinnar í þjóðbraut í Mývatnssveit.  Þá benda eignarnámsþolar sérstaklega á þá staðreynd að það fái ekki staðist að eignarnemi fullyrði með órökstuddum hætti að efnisnámur séu utan markaðssvæða án þess að rökstyðja slíkt með neinum marktækum hætti og án þess að skilgreina þá mörk markaðssvæðis í viðkomandi landshluta. 

 

Að virtum gögnum um verð á efni víðs vegar á landinu öllu, almenna verðþróun og síðast en ekki síst gríðarlega hækkun jarðaverðs á síðustu misserum, sem augljóslega smitist út í verðmæti og verðmyndun þeirra náttúruauðlinda sem á jörðinni finnast, í þessu tilviki jarðefna, sé eðlilegt að miða við að eignarnemi greiði kr. 50 pr. m3 af fyllingarefni, en eðlilegt sé að sú fjárhæð taki breytingum í samræmi við byggingavísitölu  kr. 50 : 312,8 (júní 2005) x 329,4 (maí 2006) geri það kr. 53.-

Krafa um bætur vegna efnis nemur þá samtals kr. 954.000.-

 

3.         Jarðrask, átroðningur, tímabundin óþægindi og frágangur.

Ljóst sé að eignarnámsþolar og þeir aðilar sem frá honum leiða rétt á jörðinni hafi á framkvæmdatímanum orðið fyrir óþægindum og ónæði vegna vegalagningarinnar.  Auk átroðnings og jarðrasks utan vegstæða sé ljóst að búskapur og beit hafi orðið fyrir nokkurri truflun á framkvæmdatímanum og verði það um nokkurn fyrirsjáanlegan tíma vegna skorts á samgangs milli jarðarhluta. Þá hafi verið vakin á því athygli við vettvangsgöngu að frágangi utan vegsvæðis sé í mörgum tilvikum ábótavant og ljóst að eignarnámsþolar muni þurfa að kosta til uppgræðslu og frágangs á jöðrum vegsvæðis.

Af hálfu eignarnema sé af ókunnum ástæðum ekki fallist á það að greiða bætur sérstaklega vegna þessa.  Sé í þessu sambandi unnt að líta til nýlegra úrskurða Matsnefndar eignarnámsbóta í málum þar sem sambærilegar aðstæður voru uppi.  Í máli nr. 3/2004 frá 29. september 2004 hafi bætur vegna þessa þáttar verið ákvarðaðar kr. 300.000.-; í máli nr. 10/2004 frá 31. mars 2005 hafi bætur vegna þessa þáttar verið ákvarðaðar kr. 100.000.-; í máli nr. 2/2005 frá 1. júní 2005 hafi bætur vegna þessa þáttar verið ákvarðaðar kr. 100.000.- og í máli nr. 6/2005 frá 1. júní 2005 hafi bætur vegna þessa þáttar verið ákvarðaðar kr. 400.000.-

Að þessum niðurstöðum virtum og að teknu tilliti til umfangs þeirrar framkvæmdar sem hér um ræðir, sem og verðþróunar telja eignarnámsþolar eðlilegt að bætur vegna þessa þáttar nemi kr. 500.000.-

Samandregið telja eignarnámsþolar að við ákvörðun bóta beri Matsnefnda eignarnámsbóta að líta til framkominna sjónarmiða um landbætur að fjárhæð kr. 13.200.000.-, bóta vegna efnistöku úr námum að fjárhæð kr. 954.000.- og jarðrasks, átroðnings og tímabundinna óþæginda og óhagræðis að fjárhæð kr. 500.000.-  Nemi þetta samtals framsettum kröfum eignarnámsþola um lágmarksbætur að fjárhæð kr. 14.654.000.-

 

NIÐURSTAÐA

            Jarðirnar Helluvað I og II og Laxárbakki eru í Mývatnssveit. Eignarnámið nær til spildu undir vegstæðinu og efnistöku. Samkvæmt gögnum málsins er lengd vegarkaflans sem liggur um land jarðanna 5.300 metrar. Eignarnemi telur að landspildan sem eignarnámið tekur til sé 17,49 ha að stærð og miðar eignarnemi það flatarmál við 20 metra frá miðlínu vegarins auk þess að draga frá 6,36 ha vegna þess að vegurinn liggur í gömlu vegarstæði. Samkvæmt 33. gr. vegalaga nr. 45/1994 þarf leyfi Vegagerðarinnar til mannvirkjagerðar á 30 metra kafla frá miðlínu stofnvega. Með hliðsjón af því lagaákvæði telur nefndin að eignarnáminu verði ekki settar þrengri skorður. Breytir engu í því tilliti þótt meðalbreidd girðinga við veginn sé 45 metrar. Verða bætur til eignarnámsþola við þetta miðaðar og er spildan vegna þessa samtals 31,8 ha – 6,36 ha eða 25,44 ha.  

Vegarkaflinn frá afleggjara að Stöng til austurs að mörkum jarðanna á 1.650 metra löngum kafla liggur um landssvæði þar sem útsýni er með því fegursta á landinu. Telur nefndin að þetta landssvæði sé eftirsóknarvert til ýmissa frístundanota. Nefndin telur að friðlýsing á hluta þessa landsvæðis rýri ekki verðgildi þess. Hæfilegar bætur til eignarnámsþola vegna þessa svæðis sem er 8 ha eru 2.400.000 krónur (8 x 300.000 kr.). Annað svæði undir veg sem eignarnámið beinist að telst hæfilega metið á 2.180.000 krónur (17,44 x 125.000 kr.). Samtals eru bætur vegna þessa þáttar 4.580.000 krónur.

Um bætur vegna áhrifa á nytjar jarðanna er þess að gæta að vegstæði núverandi vegar er það sama í meginatriðum og áður var. Áhrif hinnar nýju vegarlagningar eru því ekki slík að efni séu til að meta sérstaklega bætur vegna þessa. Er þá einnig litið til þess að gripið hefur verið til sérstakra mótvægisaðgerða með því að gera þrenn göng fyrir búfé  undir veginn.

Nefndin telur að eignarnámsþolum beri að ákvarða bætur vegna jarðrasks, og átroðnings meðan á vegarlagningunni stóð og þykja bætur vegna þessa hæfilega ákvarðaðar 200.000 krónur. Þess ber að geta að nefndin telur að frágangi sé ekki ábótavant en gróður þó skammt á veg kominn. Hvílir sú skylda á eignarnema að sjá um aðgerðir til þess að landi verði komið í viðunandi horf.

Eignarnemi hefur tekið efni úr námu í landi jarðanna, svonefndri námu B alls 8.000 m3. Þá hefur hann tekið efni úr námu sem er í gamla vegstæðinu en eignarnemi telur sig ekki þurfa að greiða bætur vegna þessa þar sem gamli vegurinn hafi verið eign hans. Eignarnámsþolar mótmæla þessu og gera tilkall til bóta fyrir efni þetta. Liggur utan valdheimilda nefndarinnar að leysa úr þessum ágreiningi og verða því ekki ákveðnar bætur að þessu leyti. Hins vegar verða eignarnámsþolum metnar bætur vegna 8.000 m3 af efni sem tekið var úr námu B. Við mat á bótum fyrir efni er litið til fyrri úrskurða nefndarinnar, upplýsinga um viðskipti með jarðefni, þar með talið verðmæti ýmissa flokka þess, eftir því sem gögn liggja fyrir um. Í því tilviki sem hér er til úrlausnar er um að ræða svæði þar sem efni er takmarkað. Þykja bætur vegna þess hæfilega ákvarðaðar. 160.000 krónur (20 kr. x 8.000).

Samkvæmt öllu framansögðu ákvarðast bætur til eignarnámsþola í máli þessu samtals 4.940.000 krónur. Eignarnemi skal að auki greiða eignarnámsþolum 567.312 krónur, þar með talinn virðisaukaskatt, í kostnað vegna reksturs málsins fyrir matsnefndinni og 700.000 krónur í ríkissjóð vegna starfa matsnefndar eignarnámsbóta í máli þessu.

 

ÚRSKURÐARORÐ

            Eignarnemi, Vegagerðin, greiði eignarnámsþolum, Ingólfi Jónassyni, Sigurgeir Jónassyni, Árna Gíslasyni, Auði Gísladóttur, Sólveigu Gísladóttur og Jóni Árna Sigfússyni 4.940.000 krónur og  567.312 krónur í málskostnað.

            Eignarnemi greiði 700.000 krónur til ríkissjóðs vegna starfa matsnefndar eignarnámsbóta í máli þessu.

                                                                       Allan V. Magnússon

                                                                       Benedikt Bogason

                                                                       Vífill Oddsson




Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta