Matsnefnd eignarnámsbóta, úrskurður 24. maí 2006
Ár 2006, miðvikudaginn 24. maí, er í matsnefnd eignarnámsbóta samkvæmt lögum nr. 11/1973 tekið fyrir matsmálið nr. 5/2006.
Vegagerðin
gegn
Valdimar Gunnarssyni
og Jóni Gunnarssyni
og í því kveðinn upp svohljóðandi
ÚRSKURÐUR
Úrskurð þennan kveða upp Allan Vagn Magnússon, héraðsdómari og varaformaður matsnefndar eignarnámsbóta, ásamt meðnefndarmönnunum, Benedikt Bogasyni, héraðsdómara og Vífli Oddssyni, verkfræðingi, en varaformaður hefur kvatt þá til starfa í málinu samkvæmt heimild í 2. mgr. 2. gr. laga nr. 11/1973.
Með bréfi dagsettu 7. apríl 2006 beiddist eignarnemi, sem er Vegagerðin Borgartúni 5 og 7 Reykjavík, þess með vísan til 46. gr. vegalaga nr. 45/1994 og laga nr. 11/1973 um framkvæmd eignarnáms að Matsnefnd eignarnámsbóta meti bætur vegna framkvæmda við vegagerð og efnistöku í landi jarðanna Fremri- og Ytri-Kota, og Borgargerðis, Akrahreppi, í Norðurárdal í Skagafirði.
Eignarnámsþolar eru þinglýstir eigendur Fremri- og Ytri-Kota, Valdimar Gunnarsson, kt. 301041-2769 og Jón Gunnarsson, kt. 171152-3219 og eigandi Borgargerðis sem er Valdimar Gunnarsson, kt. 301041-2769.
Eignarnemi vísar til heimildar í 45. gr. vegalaga nr. 45/1994 um eignarnámið. Eignarnámið beinist að landi undir veg og jarðefni til vegagerðar í landi þriggja jarða, Fremri-Kota, Ytri-Kota og Borgargerðis. Aðilar hafa sammælst um að reka eitt mál vegna þessara þriggja jarða þar sem sömu eigendur eiga í hlut. Andlag eignarnáms er samkvæmt kröfugerð eignarnema land undir 40 m breitt vegsvæði hringvegar og jarðefni til vegagerðar úr landi umræddra jarða sem hér segir:
1) Fremri-Kot:
Land undir vegsvæði:
Beitiland undir vegsvæði: 3,0 ha.
Ræktanlegt beitiland undir vegsvæði: 0,2 ha.
Tún undir vegsvæði: 2,7 ha.
Samtals land: 5,9 ha.
Efnistaka:
Neðra burðarlag: 5.500 m3
Fyllingarefni: 32.500 m3
Samtals efni: 38.000 m3
2) Ytri-Kot:
Land undir vegsvæði:
Beitiland undir vegsvæði: 2,8 ha.
Ræktanlegt beitiland undir vegsvæði: 7,2 ha.
Samtals land: 10,0 ha.
Efnistaka:
Neðra burðarlag: 5.500 m3
Fyllingarefni: 42.500 m3
Samtals efni: 48.000 m3
3) Borgargerði:
Efnistaka:
Neðra burðarlag: 5.500 m3
Tilefni eignarnámsins eru yfirvofandi framkvæmdir eignarnema við endurbyggingu Hringvegar um Norðurárdal í Skagafírði samkvæmt svokallaðri veglínu M. Framkvæmdin er liður í bættu vegasambandi á Hringvegi og á milli byggðarlaga á Norðurlandi. Núverandi vegur á 15 km kafla um Norðurárdal er hættulegur og þarfnast endurbóta.
Útboð framkvæmda var auglýst hinn 20. mars. sl. og voru tilboð opnuð hinn 18. apríl sl. Um er að ræða lagningu 14,4 km vegarkafla frá Kjálkavegi að Heiðarsporði, byggingu brúar á Norðurá og steyptra stokka á Kotá og Króká. Verkið skal hefja samkvæmt samþykktri verkáætlun en farg á vegarstæði skal komið á fyrir 1. nóvember 2006. Byggingu brúa og lagningu bundins slitlags skal lokið 20. ágúst 2007. Verklok eru áætluð 1. nóvember 2007.
Mat á umhverfisáhrifum framkvæmda hefur farið fram í samræmi við lög um mat á umhverfisáhrifum nr. 106/2000. Skipulagsstofnun féllst á framkvæmdir með úrskurði dags. 14. maí 2003 og staðfesti umhverfisráðherra úrskurðinn hinn 16. febrúar 2004.
Akrahreppur hefur gefið út framkvæmdaleyfi vegna lagningar vegarins, sbr. samþykkt hreppsnefndar Akrahrepps hinn 2. maí 2005.
Ekki hefur orðið samkomulag með aðilum um greiðslu bóta vegna eignarnámsins með samkomulagi 10. desember 2005 veittu eignarnámsþolar heimild til framkvæmda samkvæmt nánari tilhögun sem þar er lýst.
Tilboð eignarnema um bætur fyrir land felur í sér að greiddar verði 50.000 kr./ha. fyrir beitiland, 100.000 kr./ha. fyrir ræktunarhæft land og 281.000 kr./ha. fyrir ræktað tún.
Tilboð eignarnema um bætur fyrir jarðefni felur í sér að greiddar verði 8 kr./m3 fyrir fyllingarefni og 24 kr./m3 fyrir burðarlagsefni og 28 kr./m3 fyrir grjót.
Loks gerir tilboð eignarnema ráð fyrir bótum vegna jarðrasks og átroðnings að fjárhæð 564.000 krónur vegna Fremri Kota og 168.200 krónur vegna Ytri Kota.
Tillögur eignarnámsþola um bætur fela í sér í stórum dráttum að greiddar verði 375.000 kr./ha. sem jafnaðarverð lands undir veg. Fyrir jarðefni til vegagerðar greiði eignarnemi 50 kr./m3 af fyllingarefni og 125 kr./m3 af burðarlagsefni. Auk þess greiði eignarnemi 2.500.000 krónur í bætur vegna ófyrirséðs kostnaðar, rasks og ónæðis af framkvæmdum. Þessu til viðbótar komi svo bætur vegna röskunar á framtíðarmöguleikum hefðbundins búskapar og fjölþættari nýtingar lands jarðanna. Loks greiði eignarnemi kostnað eignarnámsþola af hagsmunagæslu við samningaviðræður og vegna útgáfu framkvæmdaleyfis.
Í kjölfar þessa urðu aðilar ásáttir um að ekki væru forsendur til frekari viðræðna þar sem of mikið bæri á milli bótahugamynda og var því ákveðið að vísa málinu til matsnefndar. Jafnframt var fallist á það af hálfu eignarnema að greiða fyrirfram upp í bætur og kostnað 750.000 kr. vegna Fremri- og Ytri-Kota og Borgargerðis.
Ágreiningur var um nýja legu vegarins um land Fremri- og Ytri-Kota milli Vegagerðarinnar og eignarnámsþola. Töldu eignarnámsþolar annað vegstæði heppilegra í landi Fremri- og Ytri-Kota en það sem eignarnemi taldi tæknilega og fjárhagslega best. Athugasemdir eignarnámsþola lutu einkum að því að velja ætti annað brúarstæði, fjær Fremri-Kotum, svokallaða leið C, en eignarnemi vildi leið M þar sem brúarstæðið er nær Kotum. Sveitarstjórn studdi kröfu landeigenda um að valin yrði leið C og dró um hríð að gefa út framkvæmdaleyfi vegna verksins samkvæmt valkosti M þrátt fyrir að niðurstaða mats á umhverfisáhrifum lægi fyrir þar sem fallist var á báða kosti. Sveitarstjórn veitti framkvæmdaleyfi loks með bréf 10. maí 2005, en setti um leið ströng skilyrði fyrir framkvæmdum, m.a. í þágu eignarnámsþola. Eignarnemi og eignarnámsþolar komust að samkomulagi um útfærslu þeirra.
Í fyrsta lagi lýtur skilyrði að gerð véltækra, þ.e. um 3 m breiðra, undirganga undir veg í landi Fremri-Kota. Er þeim ætlað að bæta úr þeim galla á nýju vegarstæði að tún jarðarinnar eru skorin af nýjum vegi. Gerður verður akfær slóði að göngunum ofan vegar. Með því er tryggður samgangur milli lands beggja vegna vegarins þannig að unnt verður að koma, búfé, ökutækjum og vélum hindrunarlaust um landið.
Í öðru lagi er gert ráð fyrir að fært verði fyrir sauðfé við brúarstólpa brúar á Norðurá í landi Fremri-Kota. Með því er tryggt að fé sem haft er heimavið að Fremri-Kotum komist um jörðina hindrunarlaust.
Í þriðja lagi verður brugðist við röskun á nytjum túna með því að tryggja samgang milli túnstykkja samkvæmt nánara samkomulagi við eignarnámsþola á verktíma.
Í fjórða lagi verður afgirt vegsvæði mjórra í túnum en venja er. Girt verður beggja vegna vegarins og verður staðsetning girðinga mun nærri vegi en venja er samkvæmt kröfum eignarnámsþola og sveitarstjórnar þannig að vegsvæði innan girðinga verði að jafnaði aðeins 25 m breitt í stað 40 eins og venja er. Dregur það úr skerðingu nytjalands vegna vegarlagningarinnar en tekið skal fram að eignarnemi hefur miðað við að eignarnámið nái allt að einu til 40 m breiðs vegsvæðis í öllu landi Fremri-Kota þrátt fyrir að allt það svæði muni ekki lenda innan veggirðingar. Tekið skal fram að eignarnemi telur þetta fyrirkomulag óheppilegt en fellst engu að síður á það í þeirri eindregnu viðleitni að koma á sáttum í málinu og í þeirri von að í framtíðinni fáist heimild til færslu girðinga í eðlilega fjarlægð frá vegi.
Í fimmta lagi verða gerð fjárgeng undirgöng í landi Ytri-Kota til að tryggja samgang milli beitarhólfa beggja vegna vegarins.
Núverandi vegur verður nýttur áfram sem reið- og rekstrarleið í landi Fremri- og Ytri-Kota samkvæmt skilyrði í framkvæmdaleyfi sveitarstjórnar. Girðing meðfram núverandi vegi mun halda sér neðan vegar en að ofanverðu verður nýrri hefðbundinni girðingu komið fyrir í heppilegri legu eins nærri vegkanti og unnt er. Eignarnemi hyggst ekki nýta reið- og rekstrarleið á neinn hátt og er hún honum í raun óviðkomandi. Þessi leið verður nýtt fyrir þá litlu ríðandi umferð sem þarna fer um auk þess sem nýta þarf þessa leið til að reka fé af fjalli í réttir að hausti.
Eignarnámið beinist einnig að jarðefni til vegagerðar í landi umræddra jarða. Um er að ræða efnistöku úr áreyrum Norðurár og er það efni í burðarlag og fyllingu vegar.
Tilboð eignarnema um bætur fyrir land fól í sér eins og að framan greinir að greiddar verði 50.000 kr./ha. fyrir beitiland, 100.000 kr./ha. fyrir ræktunarhæft land og 281.000 kr./ha. fyrir ræktað afurðagefandi tún.
Sjónarmið eignarnema.
Eignarnemi gerir þá kröfu að bætur fyrir hið eignarnumda land og jarðefni til vegagerðar verði ákvarðaðar í samræmi við sjónarmið hans sem hér verða nánar rakin.
Enn fremur er þess krafist að eignarnámsþola verði ákvarðaður hæfilegur málskostnaður sem taki mið af umfangi og tímalengd málsmeðferðar fyrir matsnefnd eignarnámsbóta.
Loks er þess krafist að til frádráttar úrskurðuðum bótum og málskostnaði komi innborgun eignarnema að fjárhæð 750.000 kr.
Af hálfu eignarnema er á því byggt, að bætur til eignarnámsþola geti aldrei numið hærri fjárhæð en sannað fjárhagslegt tjón hans sé af eignarnáminu. Eignarnámsþoli verði sem líkast settur fjárhagslega og eignarnámið hefði ekki farið fram. Miða eigi bætur við sannað fjárhagslegt verðmæti hins eignarnumda á matsdegi miðað við staðgreiðslu. Til frádráttar bótum eigi að koma hagsbætur þær, sem ætla megi að hljótist af framkvæmdum þeim, sem eru tilefni eignarnámsins. Í máli þessu verði að taka sérstakt tillit til kostnaðarsamra mótvægisaðgerða sem eignarnemi hafi undirgengist og muni annast og kosta samkvæmt framangreindu.
Af hálfu eignarnema er litið svo á að tilboð hans feli í sér að fullar bætur eru greiddar fyrir hið eignarnumda land og jarðefni sem og vegna tímabundins átroðnings vegna framkvæmdanna. Viðbótarbætur vegna jarðrasks og átroðnings tryggi að eignarnámsþolum skaðleysi af völdum eignarnámsins og þar með verði uppfyllt skilyrði X. kafla vegalaga nr. 45/1994 og 72. gr. stjórnarskrárinnar um fullar bætur.
Bætur fyrir eignarnumið land undir veg í landi Fremri- og Ytri-Kota:
Eignarnemi vísar til þess að hann hafi um áratuga skeið í samráði við Bændasamtök Íslands gefið út viðmiðun um lágmarksbætur fyrir land undir veg og efnistöku. Í ljósi verðþróunar á fasteignamarkaði undanfarin ár og með hliðsjón af úrskurðum matsnefndar eignarnámsbóta hafi eignarnemi einhliða endurskoðað viðmiðanir hvað þetta varði og gefið út vinnureglur um greiðslu bóta vegna vegagerðar.
Í vinnureglum eignarnema sé byggt á þeirri almennu reglu að miða beri bætur fyrir land við ætlað söluverð lands hverju sinni. Liggi ekki fyrir áreiðanlegar upplýsingar sem unnt sé að byggja á til ákvörðunar á ætluðu söluverði viðkomandi lands séu gefnar leiðbeiningar við ákvörðun bóta sem taki til mismunandi lands með tilliti til staðsetningar, landgæða, notkunarmöguleika o.fl.
Eignarnemi hafi aflað sér upplýsinga um þá þætti sem notaðir séu til viðmiðunar við mat lands hjá Fasteignamati ríkisins og lagt að nokkru leyti til grundvallar við gerð vinnureglnanna. Enn fremur hafi verið miðað við að færa til nútíma þær viðmiðanir sem eignarnemi styðjist við m.a. þannig að fjölþættari not lands komi til skoðunar við ákvörðun bóta hverju sinni en gert hafi verið samkvæmt eldri orðsendingum um landbætur. T.d. sé sérstaklega tekið fram að horfa eigi til þess við mat á bótum ef land sem um ræðir telst ákjósanlegt til bygginga vegna staðsetningar og landgæða.
Eignarnemi telur að með nýjum vinnureglum um bætur fyrir land hafi lágmarksviðmiðanir grunnverðs fyrir land verið hækkaðar svo að unnt sé að miða við lágmarksviðmiðun í flestum tilvikum þegar um sé að ræða hefðbundið landbúnaðarland utan þéttbýlis, fjarri vinsælum svæðum fyrir sumarhúsabyggð. Í sumum tilvikum geti þessar bætur verið ríflegar, s.s. á afskekktari svæðum og annars staðar þar sem landnotkun takmarkast af náttúrulegum aðstæðum, s.s. hæð yfir sjávarmáli.
Eignarnemi miði framboðnar bætur fyrir landið við að um sé að ræða landbúnaðarland og önnur nýting, s.s. undir sumarhúsabyggð, sé ekki fyrirsjáanleg eða líkleg. Nýting landsins sé til heyöflunar og fyrir beit búsmala.
Hvað snerti mat á landbúnaðarlandi sé sem fyrr stuðst við þau viðmið sem mótuð hafi verið í samráði við Bændasamtökin á hverjum tíma. Þannig séu enn sem fyrr boðnar sérstaklega bætur fyrir ræktunarkostnað og afurðatap til viðbótar grunnverði landsins. Viðmiðanir byggi á þeim grunni sem mótaður hafi verið í samráði við hagsmunasamtök bænda á hverjum tíma og sé uppreiknaður miðað við verðlag. Hins vegar sé ráð fyrir því gert að slíkar bætur verði ekki boðnar nema um afurðagefandi nýlega ræktun sé að ræða.
Boðnar séu bætur fyrir ræktunarkostnað og afurðatap af túnum í landi Fremri-Kota. Miðað sé við að um sé að ræða nýlega ræktuð og afurðagefandi tún en ekki gömul tún sem þarfnist endurræktunar og einkum séu nytjuð sem beitiland. Í síðar tilvikinu beri að bjóða bætur eins og um ræktanlegt beitiland sé að ræða.
Tilboð eignarnema um bætur fyrir ræktað land nemi 281.000 kr. á ha., 100.000 kr./ha. fyrir ræktanlegt beitiland og 50.000 kr./ha. fyrir óræktanlegt land. Að meðaltali feli tilboð eignarnema í sér bætur að fjárhæð 151.000 kr./ha. í landi Fremri-Kota og 86.000 kr./ha. í landi Ytri-Kota. Að mati eignarnema sé samkvæmt framansögðu ætlað söluverð landsins lægra en sem nemi bótatilboði eignarnema þegar horft sé til meðalverðs á ha. lands.
Við mat á verðmæti landsins sé rétt að horfa til staðsetningar Fremri- og Ytri-Kota en eins og kunnugt er vegi staðsetning mjög þungt við verðlagningu fasteigna. Kotajarðirnar séu fremur afskekktar og Fremri-Kot innsta býli í Norðurárdal við rætur Öxnadalsheiðar. Við Kjálkaveg neðst í Norðurárdal sé vegurinn í um 90 m hæð yfir sjávarmáli. Hækkunin upp að Heiðarsporði efst í dalnum, ofan Fremri-Kota, sé 250 m upp í tæplega 340 m hæð yfir sjávarmáli. Slík hæð yfir sjávarmáli takmarki nytjar og landgæði nokkuð og geri land síður eftirsóknarvert sem landbúnaðarland svo ekki sé talað um aðra notkun, s.s. fyrir sumarhúsabyggð.
Um verðmæti hins eignarnumda lands er ennfremur vísað til fasteignamats jarðanna. Þar komi fram að mat jarðarinnar Fremri-Kota í heild sé 7.766 þús. kr. og Ytri-Kota 590 þús. kr. Mat á 23,2 ha. ræktaðs lands Fremri-Kota sé 1.220 þús. kr.
Ekki liggi fyrir upplýsingar um nýlegar jarðasölur í næsta nágrenni hins eignarnumda lands, sem hægt sé að fallast á að nota megi til viðmiðunar um verðmæti landsins. Varðandi mat á bótum fyrir land megi hins vegar að einhverju leyti styðjast við sjónarmið í nýlegum úrskurðum matsnefndar eignarnámsbóta eftir því sem við geti átt. Þó beri að geta þess að unnt sé að taka mið af vísitölum sem reiknaðar hafi verið og sýna eiga þróun fasteignaverðs. Að vísu skorti opinbera vísitölu hvað snertir jarðaverð en taka megi mið af hækkun fasteignaverðs í þéttbýli.
Þá er vitnað til úrskurða Matsnefndar eignarnámsbóta í málum nr. 2 og 6/2005, sem að einhverju leyti geti talist sambærileg mál hvað snerti landverð. Þó beri að geta þess að í máli nr. 6/2005 hafi verið talið að hluti landsins væri ákjósanlegur til byggingar sumarbústaða, auk þess sem um hafi verið að ræða land í nágrenni mesta uppgangssvæðis á landsbyggðinni í Reyðarfirði, og meðalverð lands því eðlilega nokkru hærra en verðmæti lands efst í Norðurárdal í Skagafirði. Það megi því hafa til marks um að tilboð eignarnema sé ríflegt að meðalverð lands í tilboði eignarnema vegna Fremri-Kota sé nokkuð nærri því sem verið hafi í umræddum úrskurði. Í samanburði við þetta verði að telja kröfugerð lögmanns eignarnámsþola fjarri því sem geti talist eðlilegt verð fyrir landið.
Bætur fyrir jarðefni til vegagerðar.
Eignarnemi byggir á vinnureglum um landbætur o.fl., sem notaðar eru til viðmiðunar við greiðslu fyrir jarðefni til vegagerðar. Þar er gerður greinarmunur á efni eftir gæðum, þ.e. hvort efni er nýtanlegt í fyllingar, burðarlag eða bundið slitlag. Ennfremur er gerður greinarmunur á því hvort efni er tekið innan eða utan markaðssvæða.
Eignarnemi byggir á því að um sé að ræða efnistöku utan markaðssvæða. Ekki sé um að ræða stöðuga og verulega eftirspurn eftir jarðefni til mannvirkjagerðar í landi Fremri- og Ytri-Kota og Borgargerðis. Af þeim sökum séu boðnar bætur miðaðar við verð utan markaðssvæða samkvæmt vinnureglunum.
Eignarnemi vísar til áralangrar venju í úrskurðum matsnefndar eignarnámsbóta við mat á jarðefni til vegagerðar, sem komin sé nokkur festa á.
Kröfugerð eignarnámsþola um bætur fyrir lakasta efnið sé svipuð og greitt hafi verið fyrir efni úr Sléttuá við Reyðarfjörð, sbr. úrskurð nr. 6/2005. Ólíku sé hér saman að jafna þar sem mikil og stöðug efnissala fari fram úr ánni til mannvirkjagerðar á Reyðarfirði og nágrenni.
Með vísan til framangreinds áréttar eignarnemi tilboð sitt um bætur fyrir jarðefni úr áreyrum Norðurár í landi Fremri- og Ytri-Kota og Borgargerðis.
Kröfugerð lögmanns eignarnámsþola snúi öðrum þræði að þeim miklu neikvæðu áhrifum sem hann telji verða af lagningu vegarins um land Fremri-Kota. Eignarnemi fellst á að lagning vegar um túnin á Fremri-Kotum sé til þess fallin að raska núverandi nytjum. Af þeim sökum verði gerð undirgöng undir veginn í túnunum til að tryggja óhindraðan samgang milli túnstykkja. Eignarnemi muni auk þess í samráði við eignarnámsþola á verktíma brúa og fylla upp í skurði og grafa nýja eftir því sem þörf krefur og eðlilegt sé til að aðlagast nýjum aðstæðum. Með mótvægisaðgerðum verði að mestu komist fyrir neikvæð áhrif á búskap.
Hringvegur liggi nú þegar um lönd Fremri- og Ytri-Kota. Núverandi vegur verði nýttur áfram með mjög takmörkuðum hætti, þ.e. fyrir stopula umferð ríðandi umferðar, og til upprekstrar meðan slík not tíðkast áfram. Sé aðeins þörf á mjóum vegi fyrir reiðumferð. Auk þess verði hlið á girðingum eftir þörfum og muni nýting hans fyrir stopula reiðumferð ekki hindra nýtingu lands með neinum hætti. Þvert á móti megi búast við að núverandi vegur geti nýst landeiganda til umferðar innan landareignarinnar ef hann kjósi það. Þrátt fyrir þetta sé andvirði núverandi vegar ekki að neinu leyti dregið frá bótum og því stór hluti hans afhentur landeiganda endurgjaldslaust. Breyti engu hvort og þá í hvaða mæli eignarnemi hafi greitt fyrir vegstæði núverandi vegar þar sem það hafi verið ónýtanlegt eignarnámsþola en verði í hans umráðum og til ráðstöfunar og nýtingar eftir eignarnámið.
Eignarnemi byggir á því að mótvægisaðgerðir, sem hann hafi undirgengist að kröfu sveitarstjórnar og með samkomulagi við eignarnámsþola, muni að fullu vega á móti neikvæðum áhrifum af skiptingu lands. Með aðgerðum eins og 3 m breiðum undirgöngum í landi Fremri-Kota og sauðfjárgöngum í landi Ytri-Kota sé komið í veg fyrir að nýtt vegarstæði hamli nýtingu lands en að sama skapi verði öll landnýting og samgangur um jörðina betri við núverandi veg.
Að lokum áréttar eignarnemi að venju samkvæmt sé allt jarðrask jafnað og sáð í sár á grónu landi en það séu skyldur eignarnema að lögum samkvæmt ákvæðum vegalaga nr. 45/1994 og náttúruverndarlaga.
Kröfur og sjónarmið eignarnámsþola.
Af hálfu eignarnámsþola er gerð krafa um að bætur til handa þeirra vegna eignarnáms verði metnar að minnsta kosti að fjárhæð 23.873.500 krónur. Jafnframt er krafist málskostnaðar úr hendi eignarnema.
Í 1. mgr. i.f. 72. gr. stjórnarskrárinnar segi að fullt verð skuli koma fyrir hlut sem eignarnám er gert í. Samkvæmt hefðbundnum sjónarmiðum við verðlagningu eigna sé rétt, við mat á því hvað teljist fullt verð í skilningi stjórnarskrárákvæðisins, að líta til þess hvert sé líklegt söluverðmæti eignarinnar, notagildi eignarinnar eða hver kostnaður sé fyrir eignarnámsþola að útvega sér sambærilega eign. Því sjónarmiði sem teljist hagstæðast fyrir eignarnámsþola beri að beita.
1. Bætur fyrir eignarnumið land.
Við fyrirhugaða vegagerð verði hringvegurinn færður úr núverandi og upprunalegu vegstæði undir hlíðum Kotaheiði út á nánast mitt og afar takmarkað undirlendi jarðanna Fremri og Ytri Kota. Í eldra vegsvæði verði síðan viðhaldið reiðvegi samkvæmt 4. kafla vegalaga nr. 45/1994. Í raun sé þessi aðgerð svo afdrifarík og stórtæk að telja verði að lagaskilyrði 1. og 2. mgr. 12. gr. laga um eignarnám nr. 11/1973 séu uppfyllt. Væri það í raun eðlilegasta og sanngjarnasta niðurstaðan að eignarnemi leysti Kotajarðirnar til sín á markaðsvirði. Eignarnámsþolar séu á hinn bóginn bundnir þessari föðurleifð sinni og vilji fremur freista þess að nýta þá landskækla sem eignarnema henti að skilja eftir.
Um sjónarmið eignarnema varðandi verðlagningu þess lands sem skerðist styðjist eignarnemi í fyrsta lagi við heimatilbúna verðskrá sína. Í öðru lagi horfi hann mjög til þess sem hann kalli mótvægisaðgerðir, í þriðja lagi líti hann til fasteignamats og í fjórða lagi vísar hann til laga nr. 97/2004 um verndun Mývatns og Laxár í Suður Þingeyjasýslu og í fimmta lagi telji hann staðsetningu jarðanna og landgæði öll leiða til lægra verðs en ella.
Hvað verðskrá eignarnema varði skuli það sérstaklega áréttað að það fái hvorki staðist reglur stjórnsýsluréttar né þá sérstöku vernd eignarréttinda sem 72. gr. stjskr. og 1. gr. 1. samningsviðauka Mannréttindasáttmála Evrópu er ætlað að vernda að leggja með einhverjum hætti til grundvallar gagn sem stafar frá eignarnema sjálfum. Er á það bent að um matsnefnd gildi óskorað rannsóknarregla 10. gr. og jafnræðisregla 11. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Telji nefndin þannig ekki nægilega upplýst af gögnum málsins hvert markaðsvirði lands á svæðinu sé beri henni að efna til sjálfstæðrar rannsóknar þar að lútandi og niðurstaðan verði þess utan að taka tillit til jafnræðisreglu 11. gr. laganna.
Í öðru lagi oftúlki eignarnemi gjörsamlega þýðingu þeirra mótvægisaðgerða sem stofnað verði til af hans hálfu, sbr. skilyrði umhverfismats, framkvæmdaleyfis og samkomulags. Hlutir eins og þrengra afgirt vegsvæði, tengingar yfir skurði og undirgöng hafi afar lítið að segja samanborið við þá óumbreytanlegu staðreynd að fá þjóðveginn með tilheyrandi áhrifasvæði þvert í gegnum besta land jarðanna. Hafi eignarnámsþolar af þessu tilefni óskað umsagnar búnaðarráðunautar og í henni komi fram hversu verulega og varanlega búskaparskilyrði á jörðunum séu skert.
Í þriðja lagi vísi eignarnemi um verðmæti jarðanna til fasteignamats þeirra. Það þurfi auðvitað ekki að hafa uppi um það mörg orð að slíkt viðmið sé fjarstæðukennt og raunar óþekkt við verðmat fasteigna undir kringumstæðum sem þessum og sé þá sama hvort horft sé til dóma eða úrskurða Matsnefndar eignarnámsbóta.
Í fjórða lagi virðist eignarnemi byggja á því að staðsetning jarðanna og staðhættir eigi fremur að leiða til lækkunar en hitt. Þessum sjónarmiðum er mótmælt. Jörðin sé með tilliti til margþættrar nýtingar, vel í sveit sett á fögrum stað við þjóðleiðina til Eyjafjarðar í austri en Skagafjarðar í vestri. Staðreyndin sé sú að land það sem fari nú undir veg eða ónýtist vegna vegastæðisins sé allt gott land, besta land jarðarinnar. Þá sé af eignarnema hálfu einblínt á hinn eignarnumda hluta og verðmæti hans án þess að marktæk umfjöllun eigi sér stað um áhrif vegalagningarinnar á nýtingarmöguleika jarðarinnar, utan hins eignarnumda hluta, þ.m.t. mögulega og líklega framtíðarnotkun. Málatilbúnaður eignarnema sé með þeim annmörkum að eignarnemi virðist telja að við eignarnám fasteignaréttinda verði bætur ákvarðaðar með skírskotun til nokkurskonar jafnræðissjónarmiða, undir þeim öfugu formerkjum, að sömu aðferðafræði verði beitt við mat án tillits til þeirra sérstöku aðstæðna sem fyrir hendi eru í hverju einstöku máli. Þá virðist eignarnemi gefa sér það að landið verði um ófyrirséða framtíð nýtt til landbúnaðar. Slíkar fyrirvaralausar ályktanir séu óheimilar ekki síst með tilliti til þróunar í landbúnaði. Hafi eignarnámsþolar því aflað sér sjálfstæðs verðmats af því tilefni. Miðað við allar forsendur og þróun í jarðanotum sé allt eins líklegt að til lengri framtíðar litið verði búskapur ekki stundaður í landi jarðanna heldur verði landið nýtt til annarrar og arðbærari nýtingar. Með tilliti til staðsetningar sé landið allt eins heppilegt til að reisa á því sumarbústaði eða eftir atvikum aðra byggð á heilsársgrundvelli og/eða reka þar aðra starfsemi tengda ferðamennsku og veiði. Um þetta vísast m.a. til fordæmis Hæstaréttar Íslands í svokölluðu Ásgarðsmáli, Hrd. 1984/906, þar sem áréttað sé að líta verði til mögulegrar framtíðarnýtingar lands, en ekki verði einblínt á gildandi skipulag og not. Þá sé mikilvægt að horfa til þeirrar staðreyndar að jarðaverð á Íslandi hafi hækkað í nánast risavöxnum skrefum á umliðnum árum, misserum og mánuðum. Í því ljósi séu forsendur eignarnema um landverð í heimatilbúnu verðskrá hans í besta falli vitnisburður um veröld sem var, forsendur landsverðs á liðinni öld.
Eignarnámsþolar hafi af þessu tilefni aflað sér verðmats Stefáns Ólafssonar hdl. og löggilts fasteignasala frá 11. maí 2006. Þar sé stuðst við svofellt viðmiðunarverð. Hektari í mögulegu sumarbústaðalandi niður við ána kr. 150.000 pr. ha. Hektari í ræktun kr. 75.000, pr. ha. Í landi neðan við skriður upp í fjallinu 25.000 kr. pr. ha á beitilandi í dölunum þar ofan við og upp á fjallsbrúnum kr. 5.000 pr. ha. en land þar sé mikið, klettar, grjót og sandur. Um þessar tölur megi sjálfssagt deila, en bent á að verðmæti þessarar jarða sé fyrst og fremst skjólgott en takmarkað undirlendi sem geti hentað undir skógrækt og sumarbústaði. Fjalllendið þar ofan við geti styrkt þá byggð annars vegar til útivistar og einnig sé þar gott rjúpnaland. Að teknu tilliti til alls þessa meti Stefán jarðirnar að markaðsvirði 39.770.000 krónur, en vissulega fari það nokkuð eftir framboði og eftirspurn á hverjum tíma. Eignarnámsþolar telja mat Stefáns afar varfærið en vel rökstutt og kjósa að miða aðallega við þær tölur sem þar er að finna þó svo auðveldlega megi rökstyðja miklu hærri viðmiðunartölur, sbr. hér síðar.
Ljóst sé að fyrirhuguð vegagerð komi sér afar illa. Hún gjörspilli þeim nýtingarmöguleikum sem fyrir hendi séu á hinu takmarkaða láglendi jarðarinnar, hvort sem horft sé til hefðbundins búskapar eða annarra þeirra nota sem grein er gerð fyrir í matinu, t.d. byggð með ánni. Þá megi það ekki gleymast að verið sé að flytja veginn úr upprunalegu vegsvæði undir fjallshlíðinni og þar að auki eigi að halda eldri veginum áfram úti sem reiðvegi o.fl. Þurfi auðvitað ekki að hafa uppi mörg orð um þá sérstöku skerðingu sem það hafi í för með sér fyrir eignarnámsþola og hagnýtingu þeirra á undirlendislítilli jörð að hún verði tvíklofinn, annarsvegar af þjóðveginum og hinsvegar af reiðvegi.
Eignarnámsþolar telja að tjón þeirra megi nálgast eftir a.m.k. tveimur leiðum. Fyrri leiðin væri sú að líta til þeirra skerðinga sem verða muni á landi jarðarinnar sem hlutfalls af heildarverðmæti hennar. Miðað við það að land og ræktun sé metin á 30.220.000 krónur, sýnist mjög varlegt að áætla að verðmæti hennar skerðist um helming vegna framkvæmdanna. Tjón eignarnámsþola vegna skerðinga á landi jarðarinnar einu saman en að teknu tilliti til allra framangreindra þátta næmi þá 15.110.000 krónum.
Síðari leiðin geri ráð fyrir hefðbundnari nálgun, þar sem leitast sé við að meta vegsvæðið sjálft, áhrifasvæði vegarins, áhrif tvískiptingar, sérstaka skerðingu vegna lítils undirlendis o.s.frv.
Fyrsta forsenda slíkrar nálgunar væri að miða við kr. 150.000. pr. ha. enda liggi vegurinn um besta land jarðarinnar.
Í öðru lagi miði eignarnemi við of lítið land þegar gengið sé út frá 16,9 ha. Sé sérstaklega og í fyrsta lagi bent á þá staðreynd að einungis sé gert ráð fyrir 40 metra helgunarsvæði í stað 60 metra og það þrátt fyrir skýr fyrirmæli í 33. gr. vegalaga um 60 metra helgunarsvæði í tilviki sem þessu. Megi um þetta jafnframt vísa til úrskurðar Matsnefndar eignarnámsbóta í málinur nr. 2/2005. Vegsvæði endurbyggðs vegar með lögbundnu helgunarsvæði nemi því samtals 21,8 ha. Eignarnemi verði að útskýra af hverju eignarnámsþolar eigi að sæta þessari altæku skerðingu á nýtingarmöguleikum lands á umræddu svæði án þess að það verði bætt nema að hluta.
Þá megi það ekki gleymast að gera verði ráð fyrir því að áhrifasvæði hins nýja vegar nemi allt að 250 metrum frá miðlínu hans, sbr. Hrd. 17. mars 2005 í málinu nr. 349/2004, en það mál hafi einmitt fjallað um nýlagningu þjóðvegar 1 um landlitla jörð. Áhrifasvæði nýs vegar um land Kotajarðanna nemi þá samtals 91 ha miðað við forsendur Hæstaréttar í nefndu máli
Í þriðja lagi telji eignarnámsþolar að viðmiðun eignarnema, kr. 151.000.- kr. pr. ha. í landi Fremri Kota sé nærri lagi en hinsvegar standi ekki nokkur rök til þess að miða við annað og lægra verð pr. ha. í landi Ytri Kota. Hér verði að hafa til hliðsjónar að landverð í dreifbýli hafi stigið í hundruðum prósenta á liðnum misserum og árum. Eigi það ekki síst við um jarðir og fasteignir sem liggi að eða í jöðrum þéttbýlissvæða, að þjóðleiðum, á vinsælum útvistar- og ferðasvæðum, að ekki sé talað um hlunnindi tengd veiði.
Í fjórða lagi megi hafa nokkra hliðsjón af því að í árs gömlum málum af Austurlandi hafi Vegagerðin fallist á úrskurði Matsnefndar eignarnámsbóta um greiðslu bóta á bilinu 100.000 til 200.000 krónur pr. ha., sbr. úrskurði nefndarinnar í málunum nr. 3/2004, 2/2205 og 6/2005. Hvað staðsetningu og legu varði sýnist þau tilvik öll sambærileg við það sem hér um ræði. Í svokölluðu Þjórsártúnsmáli, dómi Hæstaréttar frá 17. mars 2005, málinu nr. 349/2004 hafi verið miðað við 300.000 krónur pr. ha. af landbúnaðarlandi.
Í fimmta lagi hafi eignarnámsþolar aflað sér tveggja nýlegra kaupsamninga varðanda jarðasölur í Skagafirði. Annars vegar sala á jörðinni Stapa frá 28. febrúar s.l. og hins vegar sala á jörðinni Fjalli frá 23. febrúar s.l. Jörðin Stapi muni vera 210 ha., kaupverð 25.000.000 krónur en Fjall 772 ha. og kaupverð 40.500.000 krónur. Leggja beri þó áherslu á það að niðurstöður samninga þessara verði að skoða með öllum fyrirvörum með tilliti til mismunandi staðsetningar, landgæða o.s.frv.
Í sjötta lagi leggja eignarnámsþolar fram matsgerð dómkvaddra matsmanna, sem falið hafi verið að meta sömu verðmæti og Matsefnd eignarnámsbóta mat í matsmálinu nr. 3/2004, í úrskurði frá 29. september 2004. Vísast til niðurstaðna matsmanna sem séu verulega hærri en Matsnefndarinnar í tilvitnuðu máli en ekki sé síður vísað til almennar umfjöllunar matsmanna um verðmyndun fasteigna í jaðri og utan þéttbýlissvæða
Í sjöunda lagi leyfi eignarnámsþolar sér að vísa til gagna sem varði jarðasölur á Austurlandi á síðustu árum og vakin sérstök athygli á því að allar séu þessar sölur meira en árs gamlar (hinar yngstu), þannig að skoða verði verðforsendur tilvitnaðra samninga með tilliti til almennrar verðþróunar og ekki síður þeirrar sérstöku verðhækkunar sem orðið hafi á jarðaverði utan þéttbýlis.
Í áttunda lagi er vísað til þeirrar sérstöku skerðingar sem það hafi í för með sér fyrir eignarnámsþola og hagnýtingu þeirra á jörðinni að hún verði tvíklofinn, annarsvegar af þjóðveginum og hinsvegar af reiðvegi. Reiðvegurinn sé svo auðvitað hluti af vegakerfinu sbr. 4. kafli vegalaga nr. 45/1994, þannig að það þýði ekki fyrir eignarnema að vísa með einum eða öðru hætti frá sér ábyrgð hans vegna, svo sem hann sýnist gera í greinargerð sinni.
Að öllu framangreindu virtu telji eignarnámsþolar eðlilegt að líta til eftirtaldra talna við mótun kröfugerðar eftir þessari leið:
ð Land í beint vegsvæði sbr. 33. gr. vegalaga, 21,8 ha. x kr. 150.000.- kr. 3.270.000.-
ð Land á áhrifasvæði vegar, 91 ha x kr. 150.000.- kr. 13.650.000.-
Hér sé þó ekkert sérstakt tillit tekið til þeirra áhrifa sem tvöfalt vegakerfi muni hafa og þá sé ekki tekið sérstakt tillit til þess að jörðin búi við afar lítið undirlendi þannig að skerðingin sé miklum mun tilfinnanlegri en ella, sama hvort litið sé til hefðbundins búskapar eða annarra nota, svo sem sumarbústaðabyggðar með ánni. Á móti beri að gæta að því að ekki sé eðlilegt að miða við að verðrýrnun á öllu 250 meta áhrifasvæðinu nemi fullum kr. 150.000.- pr. ha. Að þessu öllu virtu geri eignarnámsþolar kröfu um að skerðing á landi verði bætt með greiðslu að fjárhæð kr. 15.000.000.-
2. Efni.
Fyrirhuguð efnistaka eignarnema á landi eignarnámsþola nemi, svo sem fram komi í gögnum málsins, samtals 91.500 m3. Það skiptist þannig að fyllingarefni nemi 75.000 m3 og burðarlagsefni nemi 16.500 m3. Eignarnemi bjóði kr. 8 pr. m3 af fyllingarefni en kr. 24 pr. m3 af burðarlagsefni. Sambærilegar tölur eignarnema kr. 125 pr. m3 af burðarlagsefni og kr. 50 pr. m3 af fyllingarefni.
Eignarnámsþolar telji tvö atriði yfirgnæfa önnur í málatilbúnaði eignarnema. Annars vegar haldi hann því fram að efnistökusvæðið sé utan markaðssvæða og hins vegar miði hann einingaverð við vinnureglur sínar eða verðskrá.
Um síðarnefnda atriðið hafi verið fjallað hér að framan. Hvað fyrra atriðið varði miði sú umfjöllun og fullyrðingar allar við það að ekki sé fyrir að fara á Skagafjarðarsvæðinu öðrum efniskaupanda enn eignarnema. Það liggi í augum uppi að efnistaka í landi eignarnámsþola eigi sér stað á markaðssvæði. Þurfi ekki annað en að líta til staðsetningar jarðarinnar í þjóðbraut í Akrahreppi. Nokkrir aðilar hafi á síðustu misserum falast eftir efni úr námum í landi nærliggjandi jarða Flatatungu/Tungukoti, og megi þar nefna sveitarfélagið og einkaaðila í Skagafirði. Þá benda eignarnámsþolar sérstaklega á þá staðreynd að það fái ekki staðist að eignarnemi fullyrði með órökstuddum hætti að efnisnámur séu utan markaðssvæða án þess að rökstyðja slíkt með neinum marktækum hætti og án þess að skilgreina þá mörk markaðssvæðis í viðkomandi landshluta.
Í greinargerð eignarnema sé síðan haldið fram úreltum sjónarmiðum í þá veru að vegna þess að eignarnemi sé langstærsti eða eini efniskaupandinn á svæðinu beri að lækka það endurgjald sem honum beri að greiða. Sömu ættar séu sjónarmið í þá veru að vegna mikils magns jarðefna á svæðinu beri að virða slíkt til lækkunar ákvörðuðum bótum. Sjónarmiðum í þessa veru sé algjörlega hafnað í eignarnámsframkvæmd og tjói eignarnema ekki að vísa í þessu sambandi almennt til einhverrar meintrar viðurkenningar í úrskurðum Matsnefndar eignarnámsbóta án þess að tilgreina einstök dæmi. Sá málatilbúnaður sé fráleitur að þær skyldur sem á eignarnema séu lagðar um frágang og umgengni að lögum og á grundvelli umhverfismats þess sem fram fór í aðdraganda vegalagningarinnar eigi að leiða til lækkunar efnisverðs til eignarnámsþola.
Að virtum gögnum um verð á efni víðs vegar á landinu öllu, almennri verðþróun og síðast en ekki síst gríðarlega hækkunar jarðaverðs á síðustu misserum, sem augljóslega smitist út í verðmæti og verðmyndun þeirra náttúruauðlinda sem á jörðinni finnast, í þessu tilviki jarðefna, sé eðlilegt að miða við að eignarnemi greiði kr. 50 pr. m3 af fyllingarefni, en eðlilegt sé að sú fjárhæð taki breytingum í samræmi við byggingavísitölu. kr. 50 : 312,8 (júní 2005) x 329,4 (maí 2006) gerir það kr. 53.- Eignarnámsþolar fallist á að verð burðarlagsefnis taki síðan hlutfallslega mið af verðforsendum eignarnema. Hann miði í greinargerð við að burðarlagsefni sé þrisvar sinnum verðmætara en fyllingarefni og geri það þá kr. 159 pr. m3. Þessar viðmiðunartölur séu nokkru hærri en þau verð sem eignarnámsþolar hafi miðað við í bréfi sínu frá 27. janúar s.l. Það helgist eðli málsins samkvæmt af því að á þeim tíma hafi eignarnámsþolar verið reiðubúnir til þess að gefa nokkuð eftir í þeirri von að ná samningum við eignarnema án þess að málið færi í eignarnámsferil. Þar sem það hafi ekki tekist séu eignarnámsþolar að sjálfsögðu ekki bundnir af því boði. Allt að einu fallist eignarnámsþolar á að matsnefndinni verði ætlað nokkuð svigrúm til mats innan marka þeirra talna sem annarsvegar hafi verið miðað við í bréfinu frá 27. janúar og hinsvegar endanlegri kröfugerð samkvæmt greinargerð þessari. Ýtrasta krafa um bætur vegna efnis nemi þá samtals kr. 6.373.500.- (53 x 75.000/159 x 16.500)
3. Jarðrask, átroðningur, tímabundin óþægindi og frágangur.
Ljóst sé að eignarnámsþolar og þeir aðilar sem frá þeim leiði rétt á jörðinni verði á framkvæmdatímanum fyrir stórkostlegum óþægindum og ónæði vegna vegagerðarinnar. Þó svo náðst hafi samkomulag um tilhögun nokkurra þátta fari því fjarri að þar með verði eignarnámsþolar skaðlausir vegna framkvæmdanna. Mikil umferð þungavinnuvéla og flutningabíla muni verða um tún og annað land jarðarinnar, heima undir húsum, en vegagerðin standi yfir á annað ár. Þá verði stórfelldir flutningar vegna efnisnáms í landi jarðarinnar. Auk átroðnings og jarðrasks utan vegstæða sé ljóst að búskapur og beit verði fyrir verulegum truflunum á framkvæmdatímanum og þurfi raunar að haga öllum búskap með hliðsjón af því allan framkvæmdatímann. Þá verði ekki horft fram hjá því að til frambúðar þurfi að freista þess að laga búskap að gjörbreyttum aðstæðum á jörðinni, ef slíkt sé þá yfir höfuð hægt.
Þá sé nauðsynlegt að minna á það að eignarnámsþolar hafa nú árum saman þurft að verja hagsmuni sína vegna vegalagningarinnar. Fyrst vegna umhverfismats, síðan vegna útgáfu framkvæmdaleyfis, þá vegna samninga við eignarnema, nú vegna samninga um fébætur og loks sé fyrirsjáanlegt að eignarnámsþolar muni þurfa að vera vel á verði á framkvæmdatímanum. Af öllu þessu leiði og hafi leitt ófyrirséðan kostnað sem ekki fáist eingöngu bættur með málskostnaðarákvörðun.
Að þessum niðurstöðum virtum og að teknu tilliti til umfangs þeirrar framkvæmdar sem hér um ræðir, sem og verðþróunar telja eignarnámsþolar eðlilegt að bætur vegna þessa þáttar nemi kr. 2.500.000.- og sé það mjög varlega áætlað
Samandregið telja eignarnámsþolar að við ákvörðun bóta beri Matsnefndar eignarnámsbóta að líta til framkominna sjónarmiða um landbætur að fjárhæð kr. 15.000.000.-, bóta vegna efnistöku úr námum að fjárhæð kr. 6.373.500.000.- og jarðrasks, átroðnings og tímabundinna óþæginda og óhagræðis að fjárhæð kr. 2.500.000.- Nemur þetta samtals framsettum kröfum eignarnámsþola um lágmarksbætur að fjárhæð kr. 23.873.500.-
NIÐURSTAÐA
Jarðirnar Ytri-og Fremri Kot eru í Norðurárdal í Skagafirði skammt frá Öxnadalsheiði. Eignarnámið nær til spildu undir vegstæðinu og efnistöku. Samkvæmt gögnum málsins er lengd vegarkaflans sem liggur um land Fremri-Kota 2.180 metrar og kaflans sem liggur um land Ytri-Kota 1.460 metrar. Eignarnemi telur að landspildan sem eignarnámið tekur til sé 16,9 ha að stærð og miðar eignarnemi það flatarmál við 20 metra frá miðlínu vegarins. Samkvæmt 33. gr. vegalaga nr. 45/1994 þarf leyfi Vegagerðarinnar til mannvirkjagerðar á 30 metra kafla frá miðlínu stofnvega. Með hliðsjón af því lagaákvæði telur nefndin að eignarnáminu verði ekki settar þrengri skorður. Breytir engu í því tilliti þótt gert sé ráð fyrir að girðing við veginn verði komið fyrir 20 metrum frá miðlínu. Verða bætur til eignanámsþola við þetta miðaðar og er spildan vegna þessa samtals 21,84 ha eða 4,94 ha stærri en eignarnemi vill miða við.
Af þessu landi eru 4,2 ha ræktað tún og telur nefndin bætur vegna þess hæfilega metnar 1.260.000 krónur (4,2 x 300.000). Annað land er 17,64 ha og telur nefndin bætur vegna þess hæfilega ákveðnar 2.205.000 krónur (17,64 x 125.000). Samtals eru bætur vegna þessa þáttar 3.465.000 krónur.
Framkvæmd eignarnema og eignarnámið sjálft hefur umtalsverð áhrif á búskap á jörðinni. Hinn nýi vegur liggur eftir túnum og hluta þess takmarkaða óræktaða lands sem er ræktanlegt. Sker vegurinn það land jarðarinnar sem er innan túngirðinga og láglendi jarðarinnar en þess er að gæta hér að gamla vegarstæðið er á mörkum fjallendis og ræktaðs og ræktanlegs lands. Þannig er óhagræði af hinu nýja vegarstæði mun meira en var af hinu eldra vegna legu vegarins. Enda þótt gripið hafi verið til mótvægisaðgerða telur nefndin að þær vegi ekki upp á móti rýrnun þeirri sem verður á búskaparkostum. Þannig telur nefndin að tvenn göng undir veginn vegna búfjár með sé ekki nægjanlegt og þyrfti a. m. k. ein í viðbót til að aðstæður að þessu leiti væru viðunandi. Þá kemur hér einnig til að auk þess búsakapar sem nú er stundaður á jörðinni mætti rækta þar skóg auk annarra hugsanlegra nytja. Þær aðstæður voru allgóðar og hefur það áhrif á matið. Kemur hér og til óhagræði sem stafar af því að girða verður beggja vegna við gamla vegarstæðið þar sem verður reiðvegur og rekstrarleið. Veldur það óhagræði við rekstur á fjall þar sem fé getur ekki runnið til fjalls hindrunarlaust. Að öllu þessu gættu telur nefndin bætur til eignarnámsþola hæfilega ákvarðaðar 3.500.000 krónur vegna þessara skerðingar á eignarréttindum þeirra.
Ekki er um það deilt að eignarnámsþolum, eigendum Fremri-Kota og Ytri-Kota beri bætur vegna jarðrasks, og átroðnings meðan á vegarlagningunni stendur og þykja bætur vegna þessa hæfilega ákvarðaðar 500.000 krónur.
Eignarnemi mun taka efni í landi jarðanna Fremri-Kota og Ytri-Kota og Borgargerðis svo sem að framan greinir. Við mat á bótum fyrir efni er litið til fyrri úrskurða nefndarinnar, upplýsinga um viðskipti með jarðefni, þar með talið verðmæti ýmissa flokka þess, eftir því sem gögn liggja fyrir um. Efnisnámur í landi jarðanna eru á áreyrum og í árkeilum þar sem finna má gnægð efnis sem endurnýjast sífellt við framburð Norðurár og þveráa hennar á svæðinu. Fram hjá því verður heldur ekki litið að ef ekki kæmu til aðgerðir eignarnema er þess vart að vænta að mikið efni væri selt úr námum þessum. Hins vegar telur nefndin að efni þetta sé á jaðri markaðssvæðis og þannig innan þess en ekki utan. Þá verður að líta til hagræðis eignarnema af því að geta tekið efni nærri verkstað. Að öllu þessu virtu telur nefndin bætur til eignarnámsþola vegna efnistöku úr námum í landi Fremri-Kota og Ytri-Kota hæfilega ákvarðaðar þannig að fyrir fyllingarefni beri eignarnámsþolum 1.125.000 krónur (15 kr. x 75.000) og fyrir burðarlagsefni 550.000 krónur (50 kr. x 11.000) eða samtals 1.675.000 krónur. Þá verða bætur til eiganda Borgargerðis ákvarðaðar 275.000 krónur (50 kr. x 5.500).
Samkvæmt öllu framansögðu ákvarðast bætur til eignarnámsþola í máli þessu samtals 9.415.000 krónur. Eignarnemi skal að auki greiða eignarnámsþolum 988.407 krónur, þar með talinn virðisaukaskatt, í kostnað vegna reksturs málsins fyrir matsnefndinni og 700.000 krónur í ríkissjóð vegna starfa matsnefndar eignarnámsbóta í máli þessu. Það athugast að eignarnemi hefur greitt eignarnámsþolum í þessu máli, málum nr. 6 og 7/2006 og Veiðifélagi um Norðurá samtals 1.650.000 krónur ósundurgreint upp í kröfur þeirra.
ÚRSKURÐARORÐ
Eignarnemi, Vegagerðin, greiði eignarnámsþolum, Valdimar og Jóni Gunnarssyni 9.140.000 krónur og 988.407 krónur í málskostnað.
Eignarnemi greiði eignarnámsþola Valdimar Gunnarssyni 275.000 krónur.
Eignarnemi greiði 700.000 krónur til ríkissjóðs vegna starfa matsnefndar eignarnámsbóta í máli þessu.
Allan V. Magnússon
Benedikt Bogason
Vífill Oddsson